Mál nr. 22/2015
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 19. maí 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 22/2015.
1. Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau, eins og fram kemur í bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, A, dags. 24. júní 2013, að stofnunin hafi ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda þar sem hún hafi verið í 100% vinnu hjá B samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Hún hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. júní til 31. júlí 2012 samtals 265.708 kr. með 15% álagi. Þess var enn fremur farið á leit að kærandi greiddi skuldina skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 20. febrúar 2015. Hún krefst þess að endurgreiðslukrafa Vinnumálastofnunar verði felld niður eða eftir atvikum lækkuð verulega. Þá er þess krafist að á meðan krafan er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni verði innheimtu frestað. Vinnumálastofnun telur að úrskurðarnefndinni beri ekki að taka stjórnsýslukæru þessa til efnismeðferðar heldur beri að vísa henni frá þar sem þriggja mánaða kærufrestur vegna ákvarðana stofnunarinnar frá 20. júní 2013 og 15. ágúst 2014 hafi verið liðinn þegar kæran barst.
Í kæru kæranda kemur fram að Vinnumálastofnun hafi við meðferð málsins ekki farið að lögum og reglum, ákvæði stjórnsýslulaga hafi ekki verið virt og meðferð málsins í heild hafi ekki verið í samræmi við góða stjórnsýsluhætti. Þannig hafi dregist óhóflega að tilkynna kæranda með sannanlegum hætti um ákvarðanir Vinnumálastofnunar og hafi það ekki verið gert með réttum hætti í öllum tilvikum. Vegna þessa tómlætis stofnunarinnar við innheimtu kröfunnar hafi það reynst kæranda erfiðara að sýna fram á óréttmæti kröfunnar og lagt á herðar henni umfangsmeiri vinnu við að reyna að afla gagna og sýna fram á það hver réttmæt fjárhæð kröfunnar væri. Upphafleg ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 20. júní 2013 hafi ekki verið send kæranda með tryggilegum og fullnægjandi hætti í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti og 24. gr. stjórnsýslulaga og hafi sú ákvörðun því ekki borist kæranda, mögulega sökum þess að hún hafi verið með útgengan póstkassa og ekki hafi verið tryggt að póstur merktur henni kæmist í hennar hendur nema hann væri sendur með ábyrgðarpósti. Hafi henni því verið ómögulegt að koma að andmælum þegar sú ákvörðun hafi legið fyrir. Henni hafi því ekki verið kunnugt um endurkröfu Vinnumálastofnunar fyrr en í júlí 2014 og hafi hún þá hafist handa við að reyna að afla skýringa á málinu og leggja fram gögn til skýringar og endurákvörðunar, en í engu hafi verið fallist á þá umleitan hennar né henni verið sendur fullnægjandi rökstuðningur fyrir ákvörðuninni. Þá hafi skort á að farið væri að ákvæðum laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 35. gr. laganna, þar sem henni hafi ekki verið tilkynnt með réttum hætti um að bótum yrði haldið eftir og henni veittur lögmæltur andmælaréttur skv. 13. gr. stjórnsýslulaga.
Þá kemur fram hjá kæranda að hún telji enn fremur að ákvörðun um endurkröfu byggi að hluta til á röngum forsendum.
Varðandi kærufrest er byggt á því að ákvarðanir frá 15. ágúst 2014 og 20. júní 2013 hafi hvorugar verið kynntar kæranda með fullnægjandi hætti og réttilegri birtingu í samræmi við stjórnsýslulög og skuli hefðbundinn þriggja mánaða kærufrestur því ekki telja frá þeim tímamörkum. Ákvörðunin hafi fyrst orðið kæranda kunn í tölvupóstsamskiptum og í kjölfar þess að rukkun hafi borist henni. Hafi það verið 11. desember sl. og byggi kærandi á því að kærufrestur hafi þá byrjað að líða. Þá hafi kæranda ekki verið leiðbeint nægjanlega um kærufrest eins og áskilið sé í lögum.
Í gögnum málsins kemur fram að við samkeyrslu gagnagrunna Vinnumálastofnunar og ríkisskattstjóra í september 2012 hafi komið í ljós að kærandi hafi haft tekjur fyrir júní 2012 frá B að upphæð 101.019 kr. á sama tíma og hún hafi þegið atvinnuleysisbætur. Henni hafi verið tilkynnt um samkeyrsluna með bréfi, dags. 6. september 2012. Bréfið hafi verið sent á lögheimili kæranda. Engar skýringar hafi borist frá henni í kjölfarið. Þá hafi henni verið sent bréf, dags. 9. október 2012, þar sem óskað hafi verið eftir skýringum á ótilkynntum tekjum í júlí 2012 frá B að fjárhæð 200.651 kr., en kærandi ekki svarað því bréfi.
Kæranda var sent innheimtubréf, dags. 22. febrúar 2013, þar sem henni var tilkynnt að hún hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. júní til 31. júlí 2012, samtals að fjárhæð 62.761 kr. með 15% álagi sem henni bæri að endurgreiða.
Kærandi sótti aftur um atvinnuleysisbætur með umsókn 13. maí 2013. Meðal fylgigagna með umsókninni var vottorð vinnuveitanda frá B þar sem kom fram að kærandi hafi verið í starfi á tímabilinu 1. júní 2012 til 30. apríl 2013. Hún hafði fengið greiddar atvinnuleysisbætur frá 5. mars til 31. júlí 2012.
Hin kærða ákvörðun var síðan tekin á fundi Vinnumálastofnunar 20. júní 2013. Skuld kæranda var send til Innheimtumiðstöðvar sýslumannsins á Blönduósi til innheimtu 24. júní 2014. Mál kæranda var tekið til endurskoðunar hjá Vinnumálastofnun í kjölfar tölvupósts frá henni, dags. 30. júlí 2014, þar sem hún óskaði eftir endurútreikningi á skuld sinni við stofnunina. Málið var tekið fyrir á ný 15. ágúst 2014 í ljósi nýrra upplýsinga og var fyrri ákvörðun Vinnumálastofnunar staðfest. Innheimta skuldar kæranda var síðan send að nýju til Innheimtumiðstöðvar sýslumannsins á Blönduósi til frekari innheimtu 10. nóvember 2014.
Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 31. mars 2015, sem send var úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða kemur fram að kæranda hafi verið gert að sæta viðurlögum á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Ákvörðun stofnunarinnar hafi verið tekin á fundi 20. júní 2013 og bréf, dags. 24. júní 2013, með efni ákvörðunarinnar hafi verið sent á lögheimili kæranda. Bréfið hafi ekki verið endursent líkt og gerist þegar viðtakandi finnist ekki. Þá hafi mál kæranda verið tekið fyrir að nýju á fundi stofnunarinnar 15. ágúst 2014 þar sem fyrri ákvörðun frá 20. júní 2013 hafi verið staðfest. Hafi kæranda verið tilkynnt um þá niðurstöðu með bréfi, dags. 20. ágúst 2014, sem sent hafi verið á lögheimili hennar. Það sé ljóst að þriggja mánaða kærufrestur skv. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar vegna ákvarðananna sé liðinn. Í rökstuðningi fyrir kæru sé tekið fram að hvorug ákvörðun Vinnumálastofnunar hafi verið kynnt kæranda með fullnægjandi hætti og skuli hefðbundinn þriggja mánaða kærufrestur því ekki telja frá dagsetningum bréfanna.
Í 20. gr. stjórnsýslulaga sé mælt fyrir um birtingu ákvörðunar. Ekki sé mælt fyrir um sérstakan birtingarhátt á lögunum en víða í sérlögum sé að finna ákvæði um birtingarhátt ákvarðana. Vinnumálastofnun bendir á að í athugasemdum með 4. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 134/2009, um breytingu á lögum nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar, og lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, sé sérstaklega tekið fram að bréf á lögheimili hlutaðeigandi teljist tilkynning með sannanlegum hætti. Bréf Vinnumálastofnunar til kæranda hafi verið send á lögheimili hennar. Fallist stofnunin því ekki á að birting ákvörðunarinnar hafi ekki verið í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti eða að kærandi eigi rétt á rýmri kærufresti vegna birtingar ákvörðunar stofnunarinnar.
Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 1. apríl 2015, sent afrit af bréfi Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum til 21. apríl 2015. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 21. apríl 2015, þar sem hún ítrekar sjónarmið sín og færir fram frekari röksemdir fyrir máli sínu. Þar kemur meðal annars fram að kærandi hafni því að athugasemdir með 4. gr. laga nr. 134/2009 eigi við um birtingu ákvarðana sem þeirra sem deilt sé um í máli þessu. Byggi kærandi á því að ummæli í lögskýringargögnum með 4. gr. laga nr. 134/2009 eigi samkvæmt orðanna hljóðan aðeins við um boðanir Vinnumálastofnanir til atvinnuleitenda. Eigi ákvæðið því ekki við um birtingu ákvarðana. Vísar kærandi í þessu skyni til álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 959/1993, þar sem umboðsmaður hafi áréttað að brýnt væri að jafnmikilvægar og íþyngjandi stjórnvaldsákvarðanir sem svipting atvinnuleyfis séu jafnan tilkynntar aðila með sannanlegum hætti. Í því tilviki sem hér um ræði hafi kærandi, rétt eins og aðili í framangreindu áliti, hafnað því að hafa fengið ákvörðun birta sér. Hafi Vinnumálastofnun ekki tekist að sanna að hún hafi birt kæranda ákvörðun sína.
Kærandi bendir enn fremur á að skort hafi verulega á leiðbeiningarskyldu gagnvart henni.
Þá leggur kærandi áherslu á að hún hafi í júní 2012 verið í hlutastarfi hjá B og tilkynnt um það með viðeigandi hætti á „mínum síðum“ á vefsíðu stofnunarinnar. Hún hafi af þeim ástæðum verið í góðri trú um að greiddar bætur til hennar fyrir júnímánuð hafi verið réttar.
Fram kemur að kærandi byggi á því að þegar hún hafi sótt um atvinnuleysisbætur í maí 2013 og aflað hafi verið vottorðs frá B um starfshlutfall, hafi þar verið misskráð 100% starf kæranda á tímabilinu 1. júní til 31. júlí 2012. Kærandi byggir einnig á því að málshraðaregla stjórnsýsluréttar hafi verið brotin og að ekki hafi verið gætt nægjanlega að andmælarétti kæranda skv. 13. gr. stjórnsýslulaga. Þá hafi ekki verið tryggt að efni ákvarðana og aðrar tilkynningar um meðferð máls bærust henni.
Kærandi ítrekar að þar sem ákvörðunin hafi ekki verið réttilega birt fyrir henni hafi kærufrestur ekki tekið að líða með hefðbundnum hætti.
Loks kemur fram að verði ekki fallist á kröfu kæranda um fulla niðurfellingu kröfunnar sé farið fram á verulega lækkun með hliðsjón af því hversu þungbært og kostnaðarsamt það hafi verið fyrir kæranda að fá afhentar allar upplýsingar og leita réttar síns sökum þess að hún telji að á henni hafi verið brotið við málsmeðferð Vinnumálastofnunar.
2. Niðurstaða
Á fundi Vinnumálastofnunar 20. júní 2013 var ákveðið að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda og að hún skyldi ekki eiga rétt á greiðslum fyrr en hún hefði starfað a.m.k. í tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hún sækti um atvinnuleysisbætur aftur, skv. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Henni var jafnframt gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 2. mgr. 39. gr. sömu laga. Málið var tekið fyrir á ný vegna nýrra upplýsinga skv. 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, á fundi Vinnumálastofnunar 15. ágúst 2014. Fyrri ákvörðun stofnunarinnar var staðfest. Kærandi kærði framangreindar ákvarðanir til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi, dags. 20. febrúar 2015, sem barst úrskurðarnefndinni 25. febrúar 2015. Kærandi telur að hvorug ákvörðun Vinnumálastofnunar hafi verið kynnt kæranda með fullnægjandi hætti og skuli hefðbundinn þriggja mánaða kærufrestur því ekki telja frá dagsetningum bréfanna.
Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 20. júní 2013 var tilkynnt kæranda með bréfi sendu á lögheimili hennar, dags. 24. júní 2013. Bréfið var ekki endursent til Vinnumálastofnunar. Málið var endurupptekið hjá stofnuninni 15. ágúst 2014. Í 1. málsl. 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, segir að eftir að stjórnvald hafi tekið ákvörðun skuli hún tilkynnt aðila máls nema það sé augljóslega óþarft. Í athugasemdum við grein þessa í frumvarpi því er varð að stjórnsýslulögum segir meðal annars að engin lagaákvæði séu til um birtingu einstaklegra stjórnvaldsákvarðana og ekki sé í 20. gr. mælt fyrir um sérstakan birtingarhátt. Í athugasemdunum segir um 2. málsl. 1. mgr. 20. gr. að ákvörðun sé bindandi eftir að hún sé komin til aðila og að það sé ekki gert að skilyrði að ákvörðunin sé komin til vitundar aðila. Þá er tekið fram í athugasemdum við 4. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 134/2009, um breytingu á lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, og lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, að bréf sent á lögheimili kæranda teljist fullnægjandi birting.
Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða gefa gögn máls þessa til kynna að eðlilega hafi verið staðið að meðferð þess og birtingu ákvarðana hjá Vinnumálastofnun. Kæranda hafa verið send bréf á uppgefið heimilisfang hennar sem einnig er lögheimili hennar.
Eins og fyrr sagði barst úrskurðarnefndinni kæra kæranda 25. febrúar 2015 vegna ákvarðana Vinnumálastofnunar frá 20. júní 2013 og 15. ágúst 2014. Stjórnsýslukæra skal berast úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæra telst nægjanlega snemma fram komin ef bréf sem hefur hana að geyma hefur borist nefndinni eða verið afhent pósti áður en fresturinn er liðinn, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Ekkert í gögnum málsins gefur til kynna að afsakanlegt hafi verið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti og engar veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, með vísan til þess sem að framan er rakið. Af þessum sökum verður að vísa máli þessu frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.
Kærandi fór fram á það að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðun yrði frestað á meðan kæran væri til meðferðar og að innheimtu og skráningu á vanskilaskrá yrði frestað á meðan leyst yrði úr kærunni. Mál þetta er tekið til úrlausnar hjá úrskurðarnefndinni þegar að lokinni gagnaöflun í málinu og kemur framangreind beiðni kæranda því ekki til frekari skoðunar.
Varakrafa kæranda er þess efnis að krafan á hendur henni verði lækkuð verulega með hliðsjón af því hversu þungbært og kostnaðarsamt það hafi verið fyrir hana að fá afhentar allar upplýsingar og að leita réttar síns sökum þess að hún telji að á henni hafi verið brotið við málmeðferð Vinnumálastofnunar. Varakrafan verður ekki tekin til efnislegrar meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni í ljósi þess að kæra hennar telst vera of seint fram komin eins og rakið hefur verið.
Úrskurðarorð
Kæru A til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða er vísað frá.
Brynhildur Georgsdóttir, formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir
Helgi Áss Grétarsson