Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 78/2013

Þriðjudaginn 28. apríl 2015

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 6. júní 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 24. maí 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 13. júní 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 20. júní 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 19. júlí 2013 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 22. ágúst 2013. Athugasemdir bárust með tölvupósti 16. september 2013. Voru þær sendar embætti umboðsmanns skuldara með bréfi 17. september 2013 og óskað eftir afstöðu embættisins. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fædd 1957. Hún er einhleyp og býr ásamt tveimur uppkomnum börnum sínum í eigin fasteign að B götu nr. 71 í sveitarfélaginu C. Kærandi er leikskólakennari.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt greiðsluáætlun umboðsmanns skuldara eru 72.606.704 krónur.

Kærandi rekur fjárhagserfiðleika sína einkum til þess að hún hafi setið uppi með tvær íbúðir þegar efnahagshrunið varð 2008. Hún hafi þurft að flytja á milli hverfa vegna skólagöngu dóttur sinnar. Hún hafi keypt íbúð á nýjum stað áður en hún var búin að selja eldri eign en sú eign hafi ekki verið seld þegar efnahagshrunið varð.

Kærandi sótti um greiðsluaðlögun 3. apríl 2010 og með ákvörðun umboðsmanns skuldara 27. október 2010 var henni veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hennar. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Í bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 16. október 2012 kom fram að kærandi hefði greint frá því að hún hefði ekki lagt fyrir í greiðsluskjóli en á þeim tíma hefði hún verið í greiðsluskjóli síðan í október 2010 eða í 22 mánuði. Kærandi hefði gefið þær skýringar að hún hefði þurft að verja þeim fjármunum sem hún hefði lagt til hliðar til að undirbúa komu barnabarns síns en 16 ára dóttir hennar hefði eignast barn. Einnig hefði kærandi greitt af bílasamningi og greitt fasteignagjöld í greiðsluskjólinu en henni hefði ekki verið greint frá því að henni væri það ekki heimilt. Þá hafi kærandi að eigin sögn ekki verið upplýst um skyldu sína að leggja til hliðar. Hafi umsjónarmaður greint kæranda frá því að hún þyrfti að leggja fram kvittanir vegna ofangreindra greiðslna þar sem greiðslur til kröfuhafa í greiðsluskjóli væru ekki heimilar, sbr. d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Hafi umsjónarmaður lagt fyrir kröfuhafa frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun og jafnframt kynnt kröfuhöfum að kærandi hefði ekki lagt fyrir á tímabili greiðsluskjóls af fyrrgreindum ástæðum. Hafi Landsbankinn mótmælt frumvarpinu og óskað gagna um útgjöld kæranda á tímabili greiðsluskjóls. Kærandi kvaðst ekki hafa haldið eftir kvittunum en hún hafi lagt fram yfirlit yfir bankareikning sinn. Eftir skoðun á yfirlitinu hafi umsjónarmaður talið að kærandi hefði ekki sinnt þeirri skyldu sinni að leggja til hliðar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Hafi því verið ljóst að ekki næðust samningar fyrir kæranda.

Skoðun umsjónarmanns hafi leitt í ljós að kærandi hafi verið upplýst um skyldu sína til að leggja fyrir af launum og öðrum tekjum það fé sem væri umfram það sem þyrfti til að sjá henni og fjölskyldu hennar farborða. Hafi það meðal annars verið gert með bréfum 8. apríl og 11. ágúst 2011. Með vísan til þessa hafi umsjónarmaður talið að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil á grundvelli 15. gr. lge. enda hafi kærandi ekki staðið við þá skyldu sína að leggja til hliðar fé á meðan greiðsluaðlögunarumleitanir stóðu yfir, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Með ábyrgðarbréfi umboðsmanns skuldara til kæranda 7. nóvember 2012 var henni gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Ítrekun hafi verið send 14. maí 2013. Engin svör hafi borist frá kæranda.

Með bréfi til kæranda 24. maí 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. a– og d-liði 1. mgr. 12. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki kröfur í málinu en skilja verður kæru hennar svo að hún krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærandi kveðst ekki hafa áttað sig á því að hún ætti að leggja fyrir mánaðarlega. Hún greiði háan lyfja- og tannlæknakostnað. Einnig hafi kærandi þurft að skipta um baðker og flísar á vegg í baðherbergi. Hafi hún keypt baðker á tilboði og fengið flísar ódýrt. Við viðgerðirnar hafi gólfdúkur losnað og mygla komið í ljós. Hafi því líka þurft að flísaleggja baðherbergisgólfið. Vinna við flísalögnina hafi verið mjög dýr. Síðar hafi kærandi heyrt að ekki mætti nota peninga með þessum hætti í greiðsluskjólinu.

Á þessum tíma hafi 16 ára dóttir kæranda orðið barnshafandi. Vegna veikinda hennar hafi strax orðið ljóst að hún gæti ekki annast barnið og hafi kærandi tekið barnið að sér. Hafi kærandi einnig þurft að standa í málaferlum í Noregi vegna dóttur sinnar. Þetta hafi verið kostnaðarsamt svo sem vegna flugfargjalda.

Þá hafi kostnaður fallið til vegna rekstrar og viðgerða sjö ára gamallar bifreiðar kæranda. Einnig hafi kærandi þurft að greiða innritunargjöld og dýrar bækur vegna framhaldsskólagöngu dóttur sinnar. Bílpróf dætra hennar hafi líka kostað mjög mikið.

Kærandi hafi talið að þegar menn væru í greiðsluskjóli gilti greiðslufrestun um allar greiðslur. Kærandi hafi átt íbúð við E götu en þaðan hafi hún flutt í sveitarfélagið C. Hún hafi ekki verið búin að selja eignina við E götu þegar efnahagshrunið varð árið 2008 og því setið uppi með tvær fasteignir. Ráðgjafi hjá umboðsmanni skuldara hafi sagt kæranda að hún þyrfti að greiða fasteignagjöld af eigninni við E götu sem hún hafi gert. Síðar hafi hún talað við annan ráðgjafa sem hafi sagt henni að hún hefði ekki átt að greiða þessi gjöld. Af þessum sökum hafi kærandi orðið undrandi þegar henni hefði verið kynnt að hún ætti að greiða fasteignagjöld af eigninni í sveitarfélaginu C og henni hefði verið sagt að með því að greiða þau ekki væri hún að stofna til skulda. Kærandi hafi fengið misvísandi leiðbeiningar hjá ráðgjöfum umboðsmanns skuldara í fleiri tilvikum. Hún átti sig engan veginn á því hvernig hún eigi að haga sér í greiðsluskjólinu.

Loks tekur kærandi fram að henni finnist slæmt að þurfa að bera sig inn að beini og tíunda allar sínar tekjur og útgjöld um leið og milljónir og milljarðar hafi verið felldar niður hjá öðru fólki.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Þá sé í d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. kveðið á um að skuldari skuli ekki stofna til nýrra skulda eða gera ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna nema skuldbinding sem stofnað sé til sé nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða.

Greiðsluskjól kæranda hafi staðið yfir í rúma 30 mánuði miðað við tímabilið frá 15. október 2010 til 1. maí 2013. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:

 

Launatekjur 15. október 2010 til 1. maí 2013 að frádregnum skatti 8.220.071
Barnabætur, vaxtabætur og sérstök vaxtaniðurgreiðsla 740.384
Samtals 8.960.455
Mánaðarlegar meðaltekjur 298.682
Framfærslukostnaður á mánuði 227.192
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 71.490
Samtals greiðslugeta í 30 mánuði 2.144.695

 

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notaðst við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Sé umsjónarmanni almennt óheimilt að miða við hærri framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir kæranda með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar að við mat á því hvort skuldarar hafi sinnt skyldum sínum í greiðsluskjóli að þeim sé að jafnaði játað nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjalda sem fella megi undir almennan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærandi hafi haft 298.682 krónur í meðaltekjur á mánuði á 30 mánaða tímabili sem notað sé til viðmiðunar á þeim tíma er kærandi naut greiðsluskjóls.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kæranda hafi mest verið um 227.192 krónur á mánuði á meðan hún hafi notið greiðsluskjóls. Samkvæmt því sé miðað við framfærslukostnað maímánaðar 2013 fyrir fullorðinn einstakling og eitt barn. Samkvæmt þessu sé gengið út frá því að kærandi hafi haft getu til að leggja fyrir um 2.144.695 krónur á fyrrnefndu tímabili sé miðað við meðalgreiðslugetu 71.490 krónur á mánuði í 30 mánuði.

Samkvæmt gögnum málsins hafi kærandi ekki greitt áfallandi fasteignagjöld á meðan greiðsluaðlögunar hafi verið leitað. Nemi ný skuld í skilningi d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. vegna þessa 385.221 krónu.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. a- og d-liði 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a- og d-liða 1. mgr. 12. gr. lge., þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Samkvæmt d-lið sama ákvæðis er kveðið á um að skuldari skuli ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna. Sú undantekning er gerð að heimilt er að stofna til nýrra skuldbindinga þegar skuldbinding er nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Með bréfi 16. október 2012 fór umsjónarmaður þess á leit við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður á grundvelli a- og d-liða 1. mgr. 12. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Í framhaldi af þessu felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður 24. maí 2013.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist í fyrsta lagi á því að kærandi hafi ekki lagt til hliðar þá fjármuni sem henni hafi verið unnt að leggja til hliðar á því tímabili sem hún naut greiðsluskjóls. Í öðru lagi er hún byggð á því að kærandi hafi látið hjá líða að greiða fasteignagjöld og þannig stofnað til skulda.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II þeirra laga hófst þó tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. 15. október 2010. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við frá sama tíma. Bar kæranda því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna frá 15. október 2010. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi verið upplýst um skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Að mati umboðsmanns skuldara hefur kærandi átt að leggja til hliðar 2.144.695 krónur eftir að umsókn hennar um greiðsluaðlögun var lögð fram, eða allt frá 15. október 2010 til 1. maí 2013. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á greiðsluaðlögunarumleitunum kemur fram að greiðslugeta kæranda hafi að meðaltali verið 71.490 krónur á mánuði í greiðsluskjóli. Kærandi hafi ekkert lagt til hliðar og gefið þær skýringar að hún hefði þurft að verja þeim fjármunum sem hún hefði lagt til hliðar til að undirbúa komu barnabarns síns en ung dóttir hennar hefði eignast barn á tímabilinu. Einnig hefði kærandi greitt af bílasamningi og fasteignagjöld í greiðsluskjólinu.

Fyrir kærunefndinni gaf kærandi að auki þær skýringar að lyfja- og tannlæknakostnaður hefði verið hár, hún hafi þurft að skipta um baðker og flísar á vegg og gólfi baðherbergis, hún hafi þurft að standa í kostnaðarsömum málaferlum í Noregi þar sem dóttur hennar hefði verið nauðgað þar í landi, kostnaður hefði fallið til vegna rekstrar og viðgerða sjö ára gamallar bifreiðar kæranda, hún hafi þurft að greiða innritunargjöld og dýrar bækur vegna framhaldsskólagöngu dóttur sinnar og loks að bílpróf dætra hennar hafi kostað mjög mikið. Þá hafi kærandi ekki vitað að hún ætti að leggja fyrir í greiðsluskjóli og hefði fengið misvísandi upplýsingar þar að lútandi.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kæranda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

 

Tímabilið 1. nóvember 2010 til 31. desember 2010: Tveir mánuðir
Nettótekjur alls 531.594
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali 265.797


Tímabilið 1. janúar 2011 til 31. desember 2011: 12 mánuðir  
Nettótekjur alls 3.475.674
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali 289.640


Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir  
Nettótekjur alls 2.934.307
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali 244.526


Tímabilið 1. janúar 2013 til 30. apríl 2013: Fjórir mánuðir
Nettótekjur alls 1.049.024
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali 262.256


Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 7.990.599
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 266.353

 

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kæranda og bætur var greiðslugeta kæranda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

 

Tímabilið 1. nóvember 2010 til 30. apríl 2013: 30 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 7.990.599
Bótagreiðslur 2012 815.331
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 8.805.930
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 293.531
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 227.192
Greiðslugeta kæranda á mánuði 66.339
Alls sparnaður í 30 mánuði í greiðsluskjóli x 66.339 1.990.170

 

Kærandi hefur ekki lagt fram gögn til stuðnings þeim margvíslega óvænta kostnaði sem hún kveðst hafa orðið fyrir. Er því ekki unnt að taka tillit til þess.

 

Það er mat kærunefndarinnar að kæranda hafi mátt vera það ljóst, með vísan til skriflegra leiðbeininga umboðsmanns skuldara að henni hafi borið skylda til að leggja til hliðar af tekjum sínum á tímabilinu og að ráðstafa ekki fjármunum sem söfnuðust fyrir í greiðsluskjóli sem gagnast gætu kröfuhöfum við gerð samnings um greiðsluaðlögun.

Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna stendur er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum. Samkvæmt því hefði kærandi átt að geta lagt til hliðar 1.990.170 krónur á tímabili greiðsluskjóls en hún hefur ekkert lagt fyrir.

Í öðru lagi byggist ákvörðun umboðsmanns skuldara á því að kærandi hafi stofnað til nýrra skulda vegna vanskila á fasteignagjöldum í greiðsluskjóli en það sé í andstöðu við d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Kærandi kveðst hafa fengið misvísandi upplýsingar um hvað hún mátti greiða í greiðsluskjólinu. Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi hefur ekki staðið skil á þeim fasteignagjöldum sem til féllu eftir að heimild til greiðsluaðlögunar var veitt að fjárhæð 385.221 króna. Var þó gert ráð fyrir því í framfærsluútreikningum umboðsmanns skuldara að fasteignagjöld væru á meðal útgjalda kæranda á meðan frestun greiðslna stóð yfir, enda nær slík frestun ekki til krafna sem verða til eftir að heimild til að leita greiðsluaðlögunar hefur verið veitt, sbr. 3. mgr. 11. gr. lge. Hefur kærandi því að mati kærunefndarinnar stofnað til nýrra skulda í skilningi d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Fellst kærunefndin því einnig á rök umboðsmanns skuldara þess efnis að kærandi hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt því lagaákvæði.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að kærandi hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt a- og d-liðum 1. mgr. 12. gr. lge. og að umboðsmanni skuldara hafi því borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er með vísan til þess staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta