Hoppa yfir valmynd

M´l nr. 67/2014

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 5. maí 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 67/2014.

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 11. ágúst 2011, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði á fundi sínum 9. ágúst 2011 tekið mál hennar fyrir. Stofnunin tók þá ákvörðun að kæranda skyldi gert að sæta tveggja mánaða biðtíma eftir greiðslum atvinnuleysisbóta í samræmi við 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006, þar sem hún hefði ekki tilkynnt stofnuninni fyrirfram um dvöl sína erlendis. Kæranda var jafnframt tilkynnt að samkvæmt þessu hafi hún fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 7. til 19. júní 2011 sem yrðu innheimtar samkvæmt 3. mgr. 39. gr. laganna. Skuldamyndun kæranda kom einnig fram á greiðsluseðlum stofnunarinnar til hennar, dags. 17. ágúst 2011 og 1. september 2011. Kæranda var tilkynnt með bréfi, dags. 14. maí 2014, að þar sem skuld hennar vegna ofgreiddra atvinnuleysisbóta, að fjárhæð 62.540 króna ásamt 15% álagi, væri enn ógreidd yrði hún innheimt í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þess var farið á leit að skuldin yrði greidd innan 90 daga frá dagsetningu bréfsins ella yrði málið sent Innheimtumiðstöðinni á Blönduósi til frekari innheimtu. Kærandi kærði ákvörðun Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 15. júlí 2014. Kærandi fer fram á að skuld þessi verði niðurfelld. Vinnumálastofnun telur að rétt hafi verið staðið að innheimtuaðgerðum og að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti síðast um atvinnuleysisbætur 20. júní 2011 og reiknaðist með 100% bótarétt. Þann 20. júní 2011 staðfesti kærandi atvinnuleit sína með rafrænum hætti frá erlendri IP-tölu. Með bréfi, dags. 8. júlí 2011, var kæranda tilkynnt að Vinnumálastofnun hefði upplýsingar um að hún hafi verið stödd erlendis í júní 2011 samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta. Var kæranda veittur 7 daga frestur til að skila skýringum til stofnunarinnar vegna þessa. Tekið var fram í bréfinu að samkvæmt c-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar væri skilyrði fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta að viðkomandi væri staddur hér á landi. Jafnframt var vakin athygli á því að kærandi gæti þurft að sæta viðurlögum samkvæmt 59. og 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ef hún hefði látið hjá líða að veita Vinnumálastofnun upplýsingar um för sína áður en hún fór utan. Engar skýringar bárust frá kæranda og var sú ákvörðun tekin á fundi Vinnumálastofnunar 22. júlí 2011 að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar þar sem hún uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar. Samdægurs var kæranda sent bréf þar sem henni var tilkynnt um ákvörðunina. Þann 4. ágúst barst skýringarbréf frá kæranda þar sem hún segir að henni hafi orðið það ljóst snemma sumars 2011 að hún yrði atvinnulaus í tvo mánuði yfir sumartímann og hafi þar af leiðandi sótt um atvinnuleysisbætur. Til að nýta sér þessa mánuði hafi hún ákveðið að sækja sér aukin siglingaréttindi í B og hafi hún verið erlendis frá 7. júní til 14. júlí 2011. Henni hafi ekki verið ljóst að hún þyrfti að tilkynna þetta sérstaklega til stofnunarinnar. Hún hafi síðan þá dvalið á C og hafi ekki séð bréfið frá Vinnumálastofnun fyrr en 3. ágúst 2011 þegar hún kom heim. Einnig lagði kærandi fram farseðla þann 4. ágúst 2011 og samkvæmt þeim var hún erlendis tímabilið 7. júní til 14. júlí 2011.

Í kæru kemur fram að kæranda hafi aldrei borist ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 11. ágúst 2011, þar sem tilkynnt var um viðurlög vegna utanlandsferðar og endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta. Það hafi ekki verið fyrr en innheimtubréf frá Vinnumálastofnun, dags. 14. maí 2014, hafi borist kæranda að henni hafi orðið þessi skuldastaða ljós. Kærandi hafi þá sett sig í samband við starfsmann Greiðslustofu Vinnumálastofnunar, sem hafi sent kæranda upphaflegt ákvörðunarbréf í tölvupósti þann 14. júlí 2014, en þessi starfsmaður tjáði kæranda að þetta bréf, dags. 11. ágúst 2011, hljóti að hafa borist henni á sínum tíma. Það bréf hafi kærandi hinsvegar aldrei fengið né séð. Í ljósi þess að ákvörðunarbréfið hafi aldrei borist sér og þess hve langt sé um liðið, fer kærandi fram á að skuld hennar við Vinnumálastofnun verði felld niður.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða segir að kærufrestur vegna viðurlagaákvörðunar Vinnumálastofnunar frá 9. ágúst 2011 sem tilkynnt hafi verið kæranda með bréfi, dags. 11. ágúst 2011, sé nú liðinn, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Til umfjöllunar sé því einungis innheimta stofnunarinnar á hendur kæranda, sbr. bréf, dags. 14. maí 2014.

Kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna tímabilsins 7. til 19. júní 2011. Í maí 2014 hafi skuld kæranda enn verið ógreidd og með bréfi, dags. 14. maí 2014, hafi kæranda verið tilkynnt að hún skuldaði ofgreiddar atvinnuleysisbætur er innheimtar yrðu samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt því ákvæði sé Vinnumálastofnun skylt að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta og innheimta þær atvinnuleysisbætur sem ofgreiddar hafi verið. Í athugasemdum með 39. gr. frumvarps er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum þeim tilvikum þegar atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Hver sé ástæða þess að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur hafi með öðrum orðum ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið. Bendir Vinnumálastofnun á niðurstöðu úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða í málum nr. 49/2010, 21/2011 og 43/2012 þessu til stuðnings.

Í málinu liggi fyrir að kærandi hafi verið erlendis tímabilið 7. júní til 14. júlí 2011 og geti hún því ekki hafa átt rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta á meðan dvölinni stóð, sbr. lög um atvinnuleysistryggingar. Af þeim sökum hafi kærandi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu og hafi því myndast skuld í greiðslukerfi Vinnumálastofnunar. Í maí 2014 hafi skuld kæranda enn verið ógreidd og henni verið sent bréf þess efnis 14. maí 2014 þar sem farið var fram á að skuldin yrði greidd innan 90 daga frá dagsetningu bréfsins. Þar sem skuld kæranda, að fjárhæð 62.540 krónur ásamt 15% álagi, sé enn ógreidd telji Vinnumálastofnun að ákvörðun stofnunarinnar um að hefja frekari innheimtuaðgerðir samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi verið rétt.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 28. ágúst 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 11. september 2014. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

2. Niðurstaða

Kærandi heldur því fram að sér hafi ekki borist ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 11. ágúst 2011, sem var þess efnis að hún skyldi sæta biðtíma í tvo mánuði og jafnframt endurgreiða ofgreiddar bætur á nánar tilgreindu tímabili. Af gögnum málsins og samskiptasögu kæranda hjá Vinnumálastofnun er það mat úrskurðarnefndarinnar að ekki liggi fyrir óyggjandi sönnun þess að kæranda hafi borist umrædd ákvörðun, dags. 11. ágúst 2011. Það er þó ljóst að ákvörðunin er komin til hennar nú, þar sem starfsmaður Greiðslustofu Vinnumálastofnunar sendi kæranda ákvörðunina í tölvupósti 14. júlí 2014. Samkvæmt þessu telur úrskurðarnefndin að líta verði framhjá kærufresti þeim sem kom fram í upphaflegu ákvörðuninni og líta á málið heildstætt, þ.e. út frá hinni upphaflegu ákvörðun og þeim innheimtuaðgerðum sem Vinnumálastofnun heldur fram að séu einungis til skoðunar í máli þessu.

Að því sögðu lýtur málið því að túlkun á 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 22. gr. laga nr. 134/2009, 3. gr. laga nr. 153/2010 og 14. gr. laga nr. 142/2012, en hún er svohljóðandi:

„Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“

Þetta ákvæði þarf meðal annars að túlka með hliðsjón af því að skv. c-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 4. gr. laga nr. 134/2009, er eitt af skilyrðum þess að geta haldið rétti sínum í atvinnuleysistryggingakerfinu að vera búsettur og staddur hér á landi. Fyrir liggur að kærandi var stödd erlendis á tímabilinu frá 6. júní til 25. júní 2014, en tilkynnti ekki Vinnumálastofnun fyrirfram að hún yrði ekki stödd á landinu á umræddu tímabili.

Í ljósi þeirrar upplýsingaskyldu atvinnuleitenda sem kveðið er á um í 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 1. gr. laga nr. 134/2009, verður fallist á með Vinnumálastofnun að kærandi hafi brotið gegn trúnaðarskyldum sínum gagnvart Vinnumálastofnun í umrætt sinn er hún hélt af landi brott án þess að láta vita af því fyrirfram. Því bar Vinnumálastofnun að láta hana sæta viðurlögum skv. 1. mgr. 59. gr. laganna. Ákvæði 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fortakslaust en í því felst að hvorki Vinnumálastofnun né úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða getur tekið ákvörðun um vægari viðurlög í máli kæranda en ákvæðið felur í sér. Ekki verður fallist á að það sem kærandi hefur fært fram sér til málsbóta, þ.e. að hún hafi farið til B til að sækja sér aukin starfsréttindi, og hafi ekki vitað að tilkynna þyrfti fyrirfram utanlandsferðir. Tilkynning um utanlandsferð getur verið í formi símtals eða tölvupósts til Vinnumálastofnunar. Sú skylda þess sem þiggur atvinnuleysisbætur að tilkynna fyrirfram um utanlandsferð er fortakslaus.

Þá lýtur málið jafnframt að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að innheimta hjá kæranda ofgreiddar atvinnuleysisbætur hennar samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, að fjárhæð 54.383 krónur ásamt 15% álagi að fjárhæð 8.157 króna, samtals 62.540 krónur. Eins og áður hefur komið fram á skuld kæranda rætur sínar að rekja til þess að hún tilkynnti ekki um utanlandsferð sína og uppfyllti því ekki almenn skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar á tímabilinu 7. júní 2011 til 14. júlí 201.

Í 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segir að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. laganna en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið og samkvæmt framangreindri 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ber kæranda að endurgreiða höfuðstól skuldar sinnar við Vinnumálastofnun, ásamt 15% álagi, samtals að fjárhæð 62.540 krónur.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli A, samkvæmt innheimtubréfi frá 14. maí 2014, þess efnis að hún endurgreiði stofnuninni höfuðstól skuldar að fjárhæð 54.383 krónur ásamt 15% álagi að fjárhæð 8.157 króna, samtals 62.540 krónur., er staðfest.

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta