Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 506/2020 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 506/2020

Fimmtudaginn 26. nóvember 2020

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 12. október 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Reykjavíkurborgar, dags. 16. september 2020, á umsókn hennar um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið 1. júlí til 31. ágúst 2020.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um fjárhagsaðstoð til framfærslu hjá Reykjavíkurborg fyrir tímabilið 1. júlí til 31. ágúst 2020. Þjónustumiðstöð synjaði umsókn kæranda með vísan til 12. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð. Kærandi áfrýjaði niðurstöðunni til velferðarráðs sem tók málið fyrir á fundi 16. september 2020 og staðfesti synjunina.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 12. október 2020. Með bréfi, dags. 16. október 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst úrskurðarnefndinni 21. október 2020 og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 22. október 2020. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún hafi ekki fengið vinnu sumarið 2020 og ekki átt rétt til atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun. Í júlí 2020 hafi kærandi fengið greiddan út arf úr séreignarlífeyrissjóði látins föður síns. Arfinum sé ekki ætlað að vera til framfærslu, enda væri það óskynsöm og skammsýn ráðstöfun slíks fjármagns. Hvorki félagsþjónustan né velferðarráð hafi umboð til þess að neyða fólk til slíks verknaðar. Hvergi sé mælt fyrir um það í reglum um fjárhagsaðstoð. Arfurinn eigi að fara til barna kæranda, meðal annars vegna háskólanáms. Kæranda hafi verið synjað um fjárhagsaðstoð vegna raka sem ekki séu nægilega vel skýrð í reglum um fjárhagsaðstoð. Kærandi telji að hún eigi rétt á fjárhagsaðstoð fyrir júlí og ágúst 2020 vegna óskýrra reglna og tafa á málsmeðferð. Tafirnar hafi valdið henni tjóni og álagi. 

III.  Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar er greint frá aðstæðum kæranda. Tekið er fram að kærandi búi í kaupleiguíbúð og sé í háskólanámi. Kærandi hafi ekki fengið sumarvinnu og ekki átt rétt á atvinnuleysisbótum hjá Vinnumálastofnun. Í júní 2020 hafi kærandi fengið fjárhagsaðstoð upp að viðmiðunarmörkum en verið synjað um fjárhagsaðstoð í júlí og ágúst vegna fengins arfs, en um sé að ræða útgreiðslu á séreignarsparnaði.

Í 21. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga sé kveðið á um að sveitarstjórn skuli setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er meti þörf og ákveði fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veiti þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilji veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga sé mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veiti. Núgildandi reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg með áorðnum breytingum hafi tekið gildi þann 1. janúar 2011.

Í 1. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg komi fram að skylt sé að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geti séð sér og sínum farborða án aðstoðar, sbr. IV. og VI. kafla laga nr. 40/1991. Sú meginreglna gildi að umsækjandi fái einungis greidda fjárhagsaðstoð ef hann geti ekki framfleytt sér sjálfur. Umrædd meginregla eigi sér stoð í 2. gr. reglna um fjárhagsaðstoð og 19. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991, með síðari breytingum, sem kveði meðal annars á um skyldu hvers og eins að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Litið sé svo á að fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi sé neyðaraðstoð sem ekki beri að veita nema engar aðrar bjargir séu fyrir hendi.

Í III. kafla reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavík sé að finna ákvæði sem lúti að rétti til fjárhagsaðstoðar. Við mat á því hvort umsækjandi geti átt rétt til fjárhagsaðstoðar samkvæmt reglunum skuli meðal annars horft til 12. gr. reglnanna sem kveði á um hvernig skuli litið til tekna og eigna umsækjanda. Samkvæmt upplýsingum sem hafi legið fyrir við meðferð máls kæranda hafi hún fengið greiddan út arf eftir föður sinn að fjárhæð 775.873 kr. í júlí 2020. Þau viðmið hafi mótast í framkvæmd að arfur sem umsækjandi um fjárhagsaðstoð fái sé reiknaður honum til tekna, enda ljóst að viðkomandi geti nýtt sér þá fjármuni til framfærslu. Reykjavíkurborg ítreki þá meginreglu að umsækjandi fái einungis greidda fjárhagsaðstoð ef hann geti ekki framfleytt sér sjálfur en sú meginreglna eigi sér stoð í 2. gr. reglna um fjárhagsaðstoð og 19. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991, með síðari breytingum.

Með hliðsjón af öllu framansögðu hafi áfrýjunarnefnd velferðarráðs talið ljóst að kærandi hefði undir höndum fjármuni sem henni bæri að nýta sér til framfærslu áður en leitað yrði eftir fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi. Áfrýjunarnefnd velferðarráðs Reykjavíkurborgar hafi því talið að synja bæri um fjárhagsaðstoð á grundvelli 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð og staðfest synjun starfsmanna á fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. júlí 2020 til 31. ágúst 2020.

Samkvæmt framansögðu megi telja það ljóst að ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar hafi hvorki brotið gegn fyrrgreindum reglum um fjárhagsaðstoð, sbr. 21. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, né öðrum ákvæðum laga nr. 40/1991, með síðari breytingum.

IV.  Niðurstaða

Kærð er synjun Reykjavíkurborgar á umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið 1. júlí til 31. ágúst 2020.

Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal þess gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við fjárhagsaðstoð, sbr. 1. mgr. 2. gr. Í 1. mgr. 12. gr. laganna kemur fram að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Þá segir í 2. mgr. 12. gr. að aðstoð og þjónusta skuli jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf. Í athugasemdum með ákvæði 12. gr. í frumvarpi til laga nr. 40/1991 kemur fram að skyldur sveitarfélaga miðist annars vegar við að veita þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og hins vegar að tryggja að íbúar geti séð fyrir sér og fjölskyldum sínum.

Í VI. kafla laga nr. 40/1991 er kveðið á um fjárhagsaðstoð en í 19. gr. laganna kemur fram sú grundvallarregla að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í 1. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg er kveðið á um inntak fjárhagsaðstoðar. Þar kemur fram í 1. mgr. að skylt sé að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geta séð sér og sínum farborða án aðstoðar. Í III. kafla reglnanna er kveðið á um rétt til fjárhagsaðstoðar, mat á fjárþörf og útreikning fjárhagsaðstoðar. Þar segir í 10. gr. að við ákvörðun á fjárhagsaðstoð skuli grunnfjárþörf til framfærslu, sbr. 11. gr. reglnanna, lögð til grundvallar og frá henni dregnar heildartekjur, sbr. 12. gr. Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. getur grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar til einstaklings, 18 ára eða eldri, sem rekur eigið heimili numið allt að 207.709 kr. á mánuði. Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. koma allar tekjur einstaklingsins/maka, í þeim mánuði sem sótt er um og mánuðinn á undan, aðrar en greiðslur vegna barna og húsaleigubætur/vaxtabætur, til frádráttar við ákvörðun um upphæð fjárhagsaðstoðar. Mæðra- og feðralaun reiknast umsækjanda til tekna. Þá segir að með tekjum sé átt við allar tekjur einstaklings/maka sem ekki séu sérstaklega til framfærslu barna, þ.e. atvinnutekjur, allar skattskyldar tekjur Tryggingastofnunar ríkisins, greiðslur úr lífeyrissjóðum, atvinnuleysisbætur, leigutekjur og svo framvegis.

Reglur Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð ganga út frá því að allar tekjur, aðrar en greiðslur vegna barna og húsaleigubætur/vaxtabætur, sé eðlilegt að nota sér til framfærslu áður en fengin er fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu. Fjárhagsaðstoðin er þannig neyðarúrræði fyrir þá sem hafa ekki aðgang að fjármunum sér til framfærslu.

Kæranda var synjað um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. júlí til 31. ágúst 2020 með vísan til þess að henni bæri að nýta sér til framfærslu arf sem hún fékk greiddan í júlí 2020, að fjárhæð   775.873 kr. Ljóst er að um skattskyldar tekjur er að ræða, sbr. 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, sem voru yfir framangreindri grunnfjárhæð, bæði í júlí og ágúst 2020. Kæranda bar því að nýta þær sér til framfærslu þá mánuði. Með vísan til þess er synjun Reykjavíkurborgar á umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. júlí til 31. ágúst 2020 staðfest.

 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 16. september 2020, um synjun á umsókn A, um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. júlí til 31. ágúst 2020, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta