Hoppa yfir valmynd

Nr. 554/2021 Úrskurður

 

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 4. nóvember 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 554/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21100035

 

Beiðni [...] um endurupptöku

 

I.      Málsatvik

Þann 11. mars 2021 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 4. janúar 2021, um að taka umsókn einstaklings er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Íran (hér eftir kærandi), um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og endursenda hann til Grikklands. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 15. mars 2021.

Þann 13. október 2021 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku. Þann 18. október bárust kærunefnd upplýsingar um að nýr lögmaður hafi tekið við máli kæranda og barst kærunefnd því ný greinargerð með beiðni um endurupptöku. Dagana 20. og 21. október 2021 bárust upplýsingar frá stoðdeild ríkislögreglustjóra og Útlendingastofnun um málsmeðferð í máli kæranda. Þá bárust athugasemdir kæranda þann 27. október 2021.

Af endurupptökubeiðni kæranda má ráða að krafan byggi á 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.        Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir beiðni um endurupptöku á því að þar sem 12 mánuðir séu nú liðnir frá umsókn hans og tafir á meðferð málsins séu ekki á hans ábyrgð skuli taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Með vísan til framangreinds og úrskurðar kærunefndar í máli nr. KNU17090040 er gerð sú krafa að mál kæranda verði endurupptekið og Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar.

III.      Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Í 1. mgr. 40. gr. laga um útlendinga kemur fram að flóttamaður skv. 37. gr. laganna, sem er hér á landi eða kemur hér að landi, hafi samkvæmt umsókn rétt á að fá hér alþjóðlega vernd. Stjórnvöldum sé þó heimilt, á grundvelli a-, b- og c-liðar 1. mgr. 36. gr. laganna, að taka umsókn ekki til efnismeðferðar við þær aðstæður sem tilgreindar séu í umræddum stafliðum.

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar séu ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skuli taka hana til efnismeðferðar.

Af orðalagi 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga leiðir að umrætt 12 mánaða tímabil hefst þegar umsækjandi leggur fyrst fram umsókn um alþjóðlega vernd hjá stjórnvöldum. Þá hefur í úrskurðum kærunefndar verið lagt til grundvallar að tímabilinu ljúki þegar endanleg niðurstaða stjórnvalda er framkvæmd með flutningi umsækjanda til viðtökuríkis eða þegar kærandi fer úr landi sjálfviljugur eftir að ákvörðun í máli hans hefur verið tekin.

Kærunefnd telur að túlka beri 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga á þann hátt að þótt 12 mánaða fresturinn sé liðinn verði umsókn ekki tekin til efnismeðferðar af þeim sökum ef tafir á málsmeðferð eða flutningi verði fyrst og fremst raktar til athafna eða athafnaleysis umsækjanda sem hann ber sjálfur ábyrgð á, nema þær tafir hafi verið óverulegar og ljóst er að hægt hefði verið að flytja kæranda áður en 12 mánaða fresturinn var liðinn.

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 10. október 2020 og rann því umræddur 12 mánaða frestur út á miðnætti þann 10. október 2021. Kemur því til skoðunar hvort tafir á afgreiðslu umsóknar kæranda séu á ábyrgð hans sjálfs, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Í upplýsingum sem kærunefnd bárust frá Útlendingastofnun, dags. 21. október 2021, varðandi fyrirspurn um tafir á málsmeðferð og flutning kæranda, kemur fram að varðandi málsmeðferð kæranda hjá stofnuninni líti hún ekki svo á að kærandi hafi tafið mál sitt. Stofnunin hafi hinsvegar fengið upplýsingar frá stoðdeild ríkislögreglustjóra um að kærandi hafi neitað að sýna samstarfsvilja í tengslum við framkvæmd flutnings, þ. á m. neitað að undirgangast Covid-19 sýnatöku. Það sé því mat stofnunarinnar að rekja megi tafir á flutningi til viðtökuríkis til athafna eða athafnaleysis kæranda sem hann beri sjálfur ábyrgð á og vegna áskilnaðar stjórnvalda í Grikklandi um framvísun á neikvæðu Covid-19 vottorði eða bólusetningavottorði hafi ekki verið hægt að flytja kæranda áður en 12 mánaða fresturinn hafi verið liðinn og því geti tafir umsækjanda ekki talist óverulegar. Stofnunin telji því að skilyrði 2. málsl. 2. mgr. 36. laga um útlendinga fyrir því að umsókn kæranda verði tekin til efnismeðferðar séu ekki uppfyllt

Í upplýsingum sem bárust frá stoðdeild ríkislögreglustjóra, dags. 20. október 2021, kemur fram að verkbeiðni hafi borist stoðdeild frá Útlendingastofnun þann 7. maí 2021. Þann 10. maí 2021 hafi hann verið boðaður í viðtal í húsnæði Útlendingastofnunar, að Bæjarhrauni 18 þann 11. maí kl. 10. Þar hafi komið fram að hann ætti að fara til Grikklands þann 19. maí 2021 og fara í sýnatöku þann 18. maí 2021. Kærandi hafi sagst hvorki ætla í sýnatöku eða til Grikklands. Þann 17. maí 2021 hafi verið haft samband við kæranda sem hafi ítrekað að hann vildi ekki fara í Covid-19 sýnatöku eða til Grikklands. Þann 18. maí 2021 hafi kærandi verið settur í tilkynningarskyldu alla virka daga frá 19. maí til 2. júní 2021. Kærandi hafi mætt alla daga nema einn. Þá hafi verið haft samband við kæranda þann 4. júní 2021 og aðspurður kvaðst kærandi ekki hafa breytt afstöðu sinni og neitað að fara til Grikklands. Þar sem afstaða kæranda hafi legið fyrir hafi ekki verið haft samband við hann aftur.

Með tölvubréfi kærunefndar, dags. 25. október 2021, var kærandi upplýstur um afstöðu Útlendingastofnunar og svar stoðdeildar ríkislögreglustjóra og honum gefin frestur til að koma á framfæri andmælum í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum kæranda, dags. 27. október 2021, kemur fram að hann telji að við meðferð málsins hafi stoðdeild einungis kannað afstöðu hans til fyrirhugaðs flutnings. Samkvæmt svörum stoðdeildar hafi honum láðst að mæta einu sinni á meðan hann hafi verið í tilkynningarskyldu. Stök forföll geti átt sér margar eðlilegar skýringar. Eins og gögn málsins gefi til kynna eigi kærandi við margvísleg vandamál að stríða. Hann hafi ef til vill átt erfitt með að skilja fyrirmæli stjórnvalda hvað þetta varðar og ekki gert sér grein fyrir því að hann ætti að mæta umræddan dag. Þá gæti einnig komið til skoðunar hvort að fyrirmæli stjórnvalda hafi verið nægilega skýr og hvort tungumálaörðugleikar eða mistök við túlkun hafi átt sér stað, enda hafi mæting hans að öðru leyti verið óaðfinnanleg. Auk þess liggi ekki fyrir hvort að stoðdeild hafi með formlegum og skýrum hætti tilkynnt kæranda hvar og hvenær hann ætti að mæta í sýnatöku. Allt að einu hafi kærandi ekki verið að skjótast undan eða tefja mál sitt með neinum hætti, enda hafi hann margsinnis haft samband við stoðdeild á umræddu tímabili og mætt í tilkynningarskyldu nema í eitt skipti. Kærandi mótmælir því harðlega að hann hafi tafið mál sitt með því að mæta ekki í eitt skipti, enda hafi hvorki stoðdeild né Útlendingastofnun sýnt fram á hið gagnstæða. Til að mynda hafi ekki verið búið að bóka aðra sýnatöku eða flugmiða fyrir kæranda þann sama dag. Kærandi áréttar að 12 mánaða fresturinn hafi liðið þann 10. október 2021, en hann hafi verið boðaður í sýnatöku þann 18. maí 2021. Þannig hafi liðið 154 dagar frá þeirri boðun og þar til 12 mánaða fresturinn leið undir lok. Af svari stoðdeildar megi ráða að ekki hafi verið gerðar frekari tilraunir af hálfu stoðdeildar að undirbúa flutning á kæranda og framkvæmdin því ómarkviss af hálfu stoðdeildar. Að auki telur kærandi að boðun stoðdeildar í umrædda sýnatöku skorti lagastoð. Ekkert ákvæði laga um útlendinga veiti stjórnvöldum eða stoðdeild heimild til þess að leggja fyrir útlending að gangast undir rannsókn eða sýnatöku vegna Covid-19, með það að markmiði að vísa þeim frá landi. Það hljóti að teljast nauðsynlegt að hafa skýra lagaheimild fyrir slíkri rannsókn, sbr. t.d. 113. gr. laga um útlendinga. Kærandi telur enn fremur að munnleg yfirlýsing hans um að hann vilji ekki snúa aftur til Grikklands eða undirgangast Covid-19 sýnatöku til að gera íslenskum stjórnvöldum kleift að flytja hann þangað, geti heldur ekki talist töf á afgreiðslu málsins. Þá vísar kærandi til úrskurða kærunefndar í málum nr. KNU21080008 og KNU21070020 sem hann telur að séu sambærileg máli kæranda.

Vegna tilvísunar kæranda til úrskurða kærunefndar í málum nr. KNU21080008 og KNU21070020 tekur kærunefnd fram að hún telur málsatvik í máli kæranda ekki sambærileg fyrrgreindum úrskurðum. Í fyrrgreindum málum taldi kærunefnd að þau samskipti sem hafi átt sér stað milli kæranda og stoðdeildar hafi einungis snúið að því að kanna almennt afstöðu kæranda til fyrirhugaðs flutnings til Grikklands. Í fyrirliggjandi máli kæranda var kæranda tjáð að hann ætti að mæta í sýnatöku þann 18. maí 2021 vegna fyrirhugaðs flutnings 19. maí 2021. Kærandi lýsti afstöðu sinni að hann hygðist ekki ætla að fara í umrædda sýnatöku né fara til Grikklands. Þá hafi lögreglan haft samband við kæranda í tvígang eftir það og kærandi greint frá því að hann hafi ekki breytt afstöðu sinni.

Af svari stoðdeildar má sjá að kærandi hafi mætt til viðtals í húsnæði Útlendingastofnunar þann 11. maí 2021 þar sem hann hafi verið boðaður í Covid-19 sýnatöku þann 18. maí 2021 vegna fyrirhugaðs brottflutnings þann 19. maí 2021. Kærandi lýsti afstöðu sinni að hann hygðist ekki ætla að fara í Covid-19 sýnatöku né fara til Grikklands. Kærandi mætti því ekki í umrædda sýnatöku til þess að unnt væri að flytja hann. Þannig kom kærandi í veg fyrir flutning sinn úr landi.

Með hliðsjón af framangreindu telur kærunefnd að kærandi hafi tafið afgreiðslu umsóknar sinnar og það hafi verið á hans ábyrgð, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Af framangreindu leiðir að skilyrði 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er ekki uppfyllt.

Í ljósi framangreinds er því ekki fallist á að atvik hafi breyst verulega í máli kæranda á þann hátt að hann eigi rétt á endurupptöku á máli sínu, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Endurupptöku á máli hans er þar með hafnað.


 

Úrskurðarorð:

 

Kröfu kæranda er hafnað.

The appellant‘s request is denied.

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                Sandra Hlíf Ocares

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta