Hoppa yfir valmynd

Nr. 561/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 28. nóvember 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 561/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU 19090044

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 20. september 2019 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Úkraínu (hér eftir nefnd kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 9. september 2019, um að synja henni um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að henni verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og henni verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga. Til þrautavara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og henni verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. útlendingalaga. Til þrautaþrautavara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að umsókn kæranda verði tekin til nýrrar meðferðar hjá Útlendingastofnun.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 1. júlí 2019. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun þann 5. júlí 2019 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 9. september 2019, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 20. september 2019. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 27. september 2019.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að faðir hennar sé í hættu í heimaríki sínu þar sem aðilar tengdir Viktor Yanukovych, fyrrum forseta Úkraínu, séu á eftir honum.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og henni skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að úrlausn um rétt umsækjanda til alþjóðlegrar verndar sé grundvölluð af framburði umsækjanda sem og framburði föður hennar. Samkvæmt ákvörðun Útlendingastofnunar, sem staðfest var af kærunefnd útlendingamála, var föður kæranda synjað um réttarstöðu flóttamanns og viðbótarvernd skv. 37. gr. útlendingalaga. Þá var honum einnig synjað um dvalarleyfi hér á landi skv. 74. gr. útlendingalaga. Var það niðurstaða Úlendingastofnunar með vísan til niðurstöðu í máli foreldris umsækjanda, að gættum ákvæðum barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, barnaverndarlaga og útlendingalaga, að hagsmunum kæranda sé ekki stefnt í hættu með því að hún fylgi foreldri sínu til Úkraínu.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli d-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 2. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hún hafi komið ein hingað til lands og að faðir hennar sé hér á landi og honum hafi verið synjað um alþjóðlega vernd. Af þeim sökum hafi Útlendingastofnun komist að því að hún væri ekki fylgdarlaust barn. Í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 31. júlí 2019 hafi kærandi greint frá því að vilja ekki fara aftur til Úkraínu og að hún hafi ítrekað fengið smáskilaboð í síma sinn frá símanúmeri sem hún þekkti ekki. Hún hafi fengið þessi skilaboð þegar hún hafi verið að flytja skjöl fyrir föður sinn. Hún kvaðst ekki vita hvaða gögn þetta hafi verið en faðir hennar hafi beðið hana að koma með þau hingað til lands. Hvað varðar málsástæður um aðal-, vara- og þrautavarakröfu er í greinargerð vísað í greinargerð föður kæranda til kærunefndar dags. 29. apríl 2019.

Kærandi krefst þess aðallega að henni verði veitt alþjóðleg vernd sem flóttamaður hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Krafa kæranda er byggð á aðstæðum föður hennar, sem telur sig vera í hættu í heimaríki þeirra. Faðir kæranda telji sig tilheyra sérstökum þjóðfélagshópi í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Hann hafi orðið fyrir ofsóknum í heimaríki sínu og að lögregla og yfirvöld hafi ekki veitt honum fullnægjandi aðstoð. Frásögn föður kæranda sé í samræmi við landaupplýsingar um heimaríki kæranda og þar sem hann hafi orðið fyrir ofsóknum sé skilyrði um ástæðuríkan ótta uppfyllt. Varðandi varakröfu um viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er vísað til umfjöllunnar um aðalkröfu og ofsókna sem faðir kæranda hafi orðið fyrir og stríðsástands í austurhluta landsins.

Til þrautavara krefst kærandi þess að henni verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Krafan er einnig byggð á aðstæðum föður hennar en yfirvöld í heimaríki muni ekki veita honum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum.

Til þrautaþrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að umsókn hennar verði tekin til nýrrar meðferðar hjá Útlendingastofnun, sbr. 3. mgr. 23. gr. laga um útlendinga og 10. og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Telur kærandi að Útlendingastofnun hafi ekki staðið við loforð sitt um að veita talsmanni sínum tækifæri til að skila greinargerð fyrr en seint og þá hafi talsmaðurinn verið farinn í sumarleyfi og hafi því ekki haft raunverulegt tækifæri til að skila skriflegum röksemdum fyrir kröfu hennar. Þar sem kærandi telst ekki vera fylgdarlaust barn heldur barn í fylgd foreldris bendir hún á að í slíkum tilvikum sé venjan sú að frásögn foreldra sé lögð til grundvallar við ákvarðanatöku Útlendingastofnunar. Í ljósi þess og þess að faðir kæranda tjáði talsmanni hennar að kærandi hefði ekki forsendur til að tjá sig um atvik málsins telur kærandi að ekki hafi verið stætt á öðru en að boða föður sinn í viðtal. Samt sem áður hafi Útlendingarstofnun hafnað beiðni föður kæranda að koma til viðtals hjá stofnuninni og tala máli hennar.

Þá sé það til marks um að kastað hafi verið til höndum við ákvarðanatöku í máli kæranda að ekki hafi verið minnst á þau smáskilaboð sem hún hafi greint fulltrúum Útlendingastofnunar frá þann 31. júlí 2019 og að í lok setningar í fjórðu málsgrein á blaðsíðu 4 í ákvörðuninni virðist hreinlega vanta lok setningar. Af þessu sé ljóst að mál kæranda hafi ekki verið nægjanlega upplýst áður en ákvörðun hafi verið tekin í því og þá sé rökstuðningi ákvörðunarinnar ábótavant.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað úkraínsku vegabréfi. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé úkraínskur ríkisborgari.

Réttarstaða kæranda og umfjöllun Útlendingastofnunar um aðstæður hennar

Staða barna á flótta ræðst af viðeigandi reglum í þjóðarétti og landsrétti. Í 22. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, segir í fyrsta lagi að aðildarríki skuli gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að barn sem leiti eftir réttarstöðu sem flóttamaður, eða sem talið sé flóttamaður samkvæmt viðeigandi reglum eða starfsháttum þjóðaréttar eða landslaga, fái, hvort sem það sé í fylgd foreldra eða annarra eða ekki, viðeigandi vernd og mannúðlega aðstoð við að nýta sér þau réttindi sem við eigi og kveðið sé á um í samningnum.

Í 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 segir að ákvarðanir sem varði barn skuli teknar með það sem því sé fyrir bestu að leiðarljósi, því tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í málum sem það varði og tekið tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Í 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga kemur fram að við ákvörðun sem sé háð mati stjórnvalds skuli huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska og möguleika þess til að sameinast fjölskyldu sinni.

Sérstaklega er fjallað um mat stjórnvalda á umsóknum barna um alþjóðlega vernd í 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þar segir að við mat á því hvort barn teljist flóttamaður samkvæmt lögunum skuli það sem barninu sé fyrir bestu haft að leiðarljósi. Við mat á því hvað barni sé fyrir bestu skuli stjórnvöld líta til möguleika barns á fjölskyldusameiningu, öryggis þess, velferðar og félagslegs þroska auk þess sem taka skuli tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Við ákvörðun í máli er varðar hagsmuni barns skuli stjórnvöld taka skriflega afstöðu til þessara atriða.

Óumdeilt er að börn hafa sjálfstæðan rétt til alþjóðlegrar verndar. Þegar um er að ræða börn í fylgd með foreldrum sínum hefur Útlendingastofnun afgreitt mál hvers einstaklings í sérstakri ákvörðun en í rökstuðningi í málum barna er um ákveðin atriði vísað til rökstuðnings með ákvörðunum foreldra. Þegar þessi leið er farin verða ákvarðanir fjölskyldunnar í heild sinni þó ávallt að uppfylla reglur stjórnsýslulaga um rökstuðning og vera að öðru leyti settar fram á þann hátt að af lestri þeirra megi ráða að í reynd hafi farið fram skyldubundið mat á hagsmunum barnanna á viðhlítandi grundvelli.

Í þessu máli kom kærandi ekki til landsins í fylgd með föður sínum. Faðir kæranda hafði sótt um alþjóðlega vernd hér á landi 30. ágúst 2018. Þann 25. mars 2019 tók Útlendingastofnun þá ákvörðun að umsókn hans yrði synjað. Sú ákvörðun var staðfest af kærunefnd útlendingamála 19. júní sl. Í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli föður kæranda var engin umfjöllun um hana.

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd 1. júlí og í viðtali hjá Útlendingastofnun 5. júlí var það niðurstaða fulltrúa Útlendingastofnunar að kærandi væri ekki fylgdarlaust barn heldur væri hún hér í fylgd með föður og rétt væri að hún byggi hjá honum. Í kjölfar viðtalsins var kæranda og föður hennar útvegað sameiginlegt húsnæði. Í viðtalinu kom fram að kærandi hafi búið hjá móður og stjúpföður í Úkraínu, hafi stundað tómstundir og íþróttir, gengið í skóla, átt vini og almennt verið mjög ánægð í lífinu. Hún talaði um að vilja koma til Íslands til að fara í skóla en sagðist jafnframt ekki vera viss um það þar sem hún saknaði móður sinnar og vina heima í Úkraínu. Í greinargerð kemur fram að kærandi hafi verið boðuð á fund hjá Útlendingastofnun þann 31. júlí 2019 í því augnamiði að kanna hvort að kærandi vildi fara aftur til Úkraínu. Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun var á þessum fundi rætt við kæranda um möguleika hennar og föður hennar að fá aðstoð alþjóða fólksflutningastofnunarinnar (IOM) við sjálfviljuga heimför til Úkraínu. Hafi fulltrúi Útlendingastofnunar ákveðið að binda enda á fundinn þegar kærandi hafi byrjað að tala um smáskilaboð sem henni hafi borist áður en hún yfirgaf Úkraínu og hún telur innihalda hótanir sér í garð. Þessar upplýsingar hafi ekki komið fram í fyrrgreindu viðtali við kæranda og því ákvað fulltrúi Útlendingastofnunar að slíta fundinum sem átti ekki að snúa að öðru en aðstoð IOM við heimför. Í greinargerð kæranda kemur fram að á þessum fundi hafi hún greint frá því að hún vildi alls ekki snúa aftur til Úkraínu. Kærandi var ekki boðuð í annað viðtal til að ræða frekar þessar nýju upplýsingar. Rúmlega viku síðar var ákvörðun í máli hennar tekin.

Kærunefnd hefur yfirfarið ákvörðun Útlendingastofnunar. Við þá yfirferð kom í ljós að hluti af texta á bls. 4 vantar þar sem rökstutt er hvers vegna synja skuli umsókn kæranda um vernd þannig að erfitt er að átta sig á samhengi málsgreinarinnar. Uppfyllir ákvörðun stofnunarinnar því ekki skilyrði 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um rökstuðning og í raun óljóst á hverju stofnunin byggir niðurstöðu sína að þessu leyti.

Þá er í ákvörðun Útlendingastofnunar ekki að finna umfjöllun um aðstæður barna í heimaríki kæranda og ekki heldur um einstaklingsbundnar aðstæður kæranda í heimaríki. Þess í stað er vísað í mál föður hennar og að honum hafi verið synjað um vernd hér á landi. Ekki verður ráðið af ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda að umsókn hennar um alþjóðlega vernd hafi verið metin sjálfstætt. Af ákvörðun Útlendingastofnunar verður auk þess með engum hætti ráðið að mál kæranda hafi verið metið í ljósi sérsjónarmiða laga um útlendinga er varða börn, sem þó er skýr lagaskylda, sbr. m.a. 2. mgr. 10. gr. og 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga. Þá er ljóst að þær upplýsingar sem kærandi veitti Útlendingastofnun og vörðuðu smáskilaboð sem hún taldi innihalda hótanir voru ekki rannsakaðar frekar. Það er því ljóst að málsmeðferð Útlendingastofnunar og rökstuðningur ákvörðunar í máli kæranda er að mati kærunefndar ekki í samræmi við reglur stjórnsýsluréttar, m.a. 10. og 22. gr. stjórnsýslulaga. Af þessum sökum er málsmeðferðin því haldin annmarka, sá annmarki telst alvarlegur og ekki verður bætt úr honum á kærustigi.

Með vísan til ofangreinds telur kærunefnd að rétt sé að fella úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda og vísa málinu til nýrrar meðferðar stofnunarinnar.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál hennar til nýrrar meðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration in the case of the appellant is vacated. The Directorate is instructed to re-examine her case.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                                              Árni Helgason


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta