Mál nr. 19/2015
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 19/2015
Miðvikudaginn 22. júní 2016
A
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir formaður, Sigríður Ingvarsdóttir og Þórhildur Líndal.
Þann 31. ágúst 2015 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 17. ágúst 2015 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.
Með bréfi 1. september 2015 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 28. janúar 2016.
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 29. janúar 2016 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi 1. apríl 2016. Voru þær sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 7. apríl 2016 og óskað eftir afstöðu embættisins. Framhaldsgreinargerð umboðsmanns skuldara barst með bréfi 13. apríl 2016. Hún var send kæranda með bréfi 14. apríl 2016 og honum gefinn kostur á að koma að andmælum. Andmæli kæranda bárust með bréfi 27. apríl 2016.
Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá kærunefnd greiðsluaðlögunarmála, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 32. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga (lge.).
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi er fæddur 1981 og býr einn í eigin fasteign að B. Kærandi starfar hjá C.
Að sögn kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hans til atvinnuleysis.
Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 33.558.955 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað í tengslum við fasteignakaup árið 2010.
Kærandi lagði fram umsókn sína um greiðsluaðlögun 6. febrúar 2012. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 22. janúar 2013 var honum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hans.
Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 9. september 2013 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.) þar sem hann hefði ekki lagt til hliðar það fé sem hann hefði haft aflögu, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. laganna. Einnig teldist fjárhagur hans óglöggur í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. Þá hefði kærandi mögulega bakað sér skuldbindingu sem einhverju næmi miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varði refsingu eða skaðabótaskyldu í skilningi d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.
Heimild kæranda til greiðsluaðlögunar var felld niður með ákvörðun umboðsmanns skuldara 19. mars 2014 með vísan til 15. gr., sbr. b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. þar sem fjárhagur hans var talinn of ójós til að unnt væri að leggja mat á tillögu umsjónarmanns. Sú ákvörðun var kærð til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála en umboðsmaður skuldara afturkallaði ákvörðun sína 8. apríl 2015 þar sem kærandi lagði fram umbeðin gögn undir rekstri málsins hjá kærunefndinni. Tillaga umsjónarmanns var því tekin til efnislegrar meðferðar á ný.
Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf 29. júlí 2015 þar sem honum var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en tekin yrði ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir hans, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Andmæli kæranda bárust 13. ágúst 2015.
Með bréfi til kæranda 17. ágúst 2015 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir hans niður með vísan til 15. gr., sbr. d-lið 2. mgr. 6. gr. lge.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi gerir ekki kröfur í málinu en skilja verður kæru hans svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.
Að mati kæranda liggi það meðal annars til grundvallar ákvörðun umboðsmanns skuldara frá 17. ágúst 2015 að félagið C hafi ekki skilað ársreikningi ársins 2014. Kærandi bendir á að álagning lögaðila fari ekki fram fyrr en í október en þá sé skattframtölum og ársreikningum skilað. Ársreikningi félagsins hafi verið skilað innan þeirra tímamarka sem lög kveði á um. Þá óskar kærandi svara við því hvaða vald umboðsmaður skuldara hafi til að biðja um að gerðir séu ársreikningar félaga með jafn litlum fyrirvara og gert hafi verið. Beiðni embættisins hafi fyrst komið fram 29. júlí 2015 og embættið síðan tekið ákvörðun 17. ágúst sama ár. Ómögulegt sé fyrir félagið að bregðast við á svo stuttum tíma.
Þá byggi umboðsmaður niðurfellingu sína á skuld D við Tollstjóra en skuld félagsins hafi verið afskrifuð vegna gjaldþrots þess. Ekki sé hægt að skilja annað af málatilbúnaði umboðsmanns en að skuldin verði að vera að fullu greidd til að kærandi fái heimild til greiðsluaðlögunar. Félagið hafi gert greiðslusamkomulag við Tollstjóra áður en það varð gjaldþrota. Kærandi viti ekki annað en að félagið hafi staðið við samkomulagið þangað til það var úrskurðað gjaldþrota.
Kærandi vilji einnig taka fram að fyrirtæki hans sé með staðfestingu frá RANNÍS um heimild til að krefjast 20% endurgreiðslu af kostnaði vegna nýsköpunar. Þegar ársuppgjör félagsins séu skoðuð nokkur ár aftur í tímann komi í ljós að endurgreiðslan hafi aldrei verið minni en 150% af opinberum gjöldum ár hvert. Það liggi því fyrir að félagið eigi ríflega fyrir opinberum gjöldum. Nú sé unnið að því að reikna út endurgreiðslukröfuna til að unnt sé að svara sjónarmiðum umboðsmanns efnislega en ekki hafi auðnast að ljúka því. Það liggi því ekki fyrir hvort kærandi hafi bakað sér skuldbindingu sem sé umfram greiðslugetu og samrýmist ekki aðstæðum að öðru leyti. Því telji kærandi mikilvægt að ljúka uppgjöri félagsins til að í ljós komi hversu mikla endurgreiðslu það fái.
Kærandi krefst þess að mál hans fari ekki til úrskurðar hjá nefndinni á meðan ofangreind atriði séu óljós. Þá krefst hann þess að fá símtal frá nefndinni þannig að hann geti tjáð sig hyggist nefndin taka málið til úrskurðar, þrátt fyrir þá stöðu sem uppi sé.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.
Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge.
Í 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun þyki óhæfilegt að veita hana. Samkvæmt d-lið lagaákvæðisins sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varði refsingu eða skaðabótaskyldu.
Í 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 og 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987 geti meðal annars verið lögð refsing við því að skila ekki á lögmæltum tíma virðisaukaskatti og öðrum opinberum gjöldum. Skylt sé að greiða í lífeyrissjóð samkvæmt lögum um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda nr. 155/1998 og lögum um um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997. Brot á þeirri skyldu geti varðað refsingu samkvæmt 55. gr. laganna.
Samkvæmt upplýsingum frá Tollstjóra nemi skuldir fyrirtækjanna C og D ehf. alls 5.693.699 krónum vegna virðisaukaskatts, staðgreiðslu og fésektar ársreikningaskrár. Þrátt fyrir að skuld D hafi verið afskrifuð vegna gjaldþrots beri kærandi enn ábyrgð á gjöldunum, sbr. úrskurð kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 15/2012. Skuldir þessar falli undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge.
Í málatilbúnaði kæranda komi fram að C hafi fengið samþykkta umsókn um styrk hjá RANNÍS vegna stuðnings við nýsköpunarfyrirtæki samkvæmt lögum nr. 90/2009. Tollstjóri hafi „látið hjá líða eða ákveðið að ekki skuli farið í fjárnámsaðgerðir gegn félaginu vegna skuldar þess við embættið“. Það sé vegna þess að endurgreiðslufjárhæð vegna styrkjanna hafi „ætíð verið rúmlega sú upphæð sem skuld opinberra gjalda er við álagningu ár hvert“. Kærandi kveði félagið einnig hafa afskrifað viðskiptakröfur. Þetta leiði allt til þess að uppgjör verði jákvætt og skuldir vegna opinberra gjalda verði greiddar upp. Kærandi telji einnig að það sé í anda laganna að nýsköpunarfyrirtæki greiði ekki opinber gjöld fyrr en þau fái endurgreiðslu.
Umboðsmaður skuldara bendi á að það sé hlutverk ríkisskattstjóra að leggja á opinber gjöld og hlutverk Tollstjóra að innheimta gjöldin. Valdmörk stjórnvalda séu ákveðin með lögum. Umboðsmaður geti ekki lagt mat á skuldir vegna opinberra gjalda, enda sé það ekki til þess bært að lögum.
Það sé mat kæranda að Tollstjóri hafi „sætt færis á að knýja D í þrot á meðan [hann] naut ekki greiðsluskjóls.“ Umboðsmaður bendi á að félagið hafi aldrei verið í greiðsluskjóli heldur aðeins kærandi persónulega. Breyti það því engu fyrir félagið hvort kærandi hafi notið greiðsluskjóls eða ekki. Gjaldþrot félagsins sé greiðsluskjóli kæranda óviðkomandi.
Kærandi hefur óskað eftir rökstuðningi umboðsmanns skuldara fyrir ætlaðri beiðni embættisins um ársreikning vegna Ísgáttar ehf. fyrir tekjuárið 2014. Umboðsmaður bendi á að í ákvörðun embættisins um niðurfellingu á heimild kæranda til greiðsluaðlögunar sé hvorki vísað til ársreikningsins né þess að hann hafi ekki legið fyrir við töku ákvörðunar.
Einnig hafi kærandi óskað eftir afstöðu umboðsmanns skuldara til þess hvort skuld D við Tollstjóra verði að vera greidd til að unnt sé að taka málið til efnislegrar meðferðar að nýju. Því sé til að svara að heimilt sé að synja um heimild til að leita greiðsluaðlögunar á grundvelli d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi er varði refsingu eða skaðabótaskyldu. Við meðferð máls kæranda hjá umboðsmanni skuldara hafi hlutfall hinna ógreiddu gjalda verið metið með hliðsjón af heildarskuldum kæranda og fjárhæðin verið talin all há. Kröfur sem falli undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. falli utan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. f-lið 1. mgr. 3. gr. lge. Almennt beri því að greiða þessar kröfur að fullu.
Að mati umboðsmanns verði ekki hjá því komist að telja þær skuldir sem C og D hafi stofnað til vegna virðisaukaskatts, staðgreiðslu launagreiðanda og fésektar ársreikningaskrár falla undir ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Kærandi beri ábyrgð á því að stofnað hafi verið til skuldanna og nemi þær all hárri fjárhæð eða 5.693.699 krónum eða um 16% af heildarskuldum kæranda.
Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins sé heimild kæranda til greiðsluaðlögunar felld niður á grundvelli 15. gr., sbr. d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.
Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Kærandi krefst þess að mál hans fari ekki til úrskurðar hjá úrskurðarnefndinni á meðan óljóst sé um endurgreiðslu opinberra gjalda C. Af málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 leiðir að ákvörðun í stjórnsýslumáli skuli tekin svo fljótt sem unnt er. Á grundvelli reglunnar hefur verið talið að stjórnvöld hafi ekki heimild til að fresta málum í því skyni að bíða eftir nýjum gögnum eða upplýsingum er varða ókomin atvik, sem geta ekki haft áhrif á úrlausn málsins, svo sem kærandi í máli þessu fer fram á. Af því leiðir að stjórnvald getur ekki byggt ákvörðun sína á öðrum gögnum eða upplýsingum en þeim sem liggja fyrir á þeim tíma er aðili leggur mál sitt fyrir stjórnvald. Með vísan til þessa er kröfu kæranda um frestun úrskurðar hafnað.
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Í d-lið 2. mgr. 6. gr. er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur, miðað við fjárhag hans, með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu. Þá segir í 15. gr. lge. að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin.
Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim atriðum sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þyki að veita hana. Meðal þeirra atriða sem þar falla undir er d-liður 2. mgr. 6. gr. lge. sem þegar hefur verið gerð grein fyrir en umboðsmaður skuldara synjaði kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli þess ákvæðis.
Þær skuldir, sem umboðsmaður skuldara vísar til í ákvörðun sinni og varða d-lið 2. mgr. 6. gr. lge., eru neðangreindar skuldir félaga, sem kærandi var í forsvari fyrir vegna virðisaukaskatts og staðgreiðslu, í krónum:
Upphafleg fjárhæð | Fjárhæð júlí 2015 | |
C: | ||
staðgreiðsla tryggingagjalds 2014 | 410.575 | 432.301 |
staðgreiðsla tryggingagjalds 2015 | 479.646 | 494.636 |
staðgreiðsla launagreiðanda 2014 | 1.267.985 | 1.366.436 |
staðgreiðsla launagreiðanda 2015 | 1.480.626 | 1.651.289 |
virðisaukaskattur 2015 | 40.542 | 45.170 |
C alls: | 3.679.374 | 3.989.832 |
D: | ||
staðgreiðsla tryggingagjalds 2010 | 62.497 | 80.428 |
staðgreiðsla tryggingagjalds 2011 | 31.903 | 37.220 |
staðgreiðsla launagreiðanda 2010 | 126.387 | 175.700 |
staðgreiðsla launagreiðanda 2011 | 122.907 | 162.855 |
virðisaukaskattur 2010 | 458.879 | 741.483 |
virðisaukaskattur 2011 | 1.297.227 | 1.665.682 |
virðisaukaskattur 2012 | 73.238 | 90.372 |
D alls: | 2.173.038 | 2.953.740 |
Samtals: | 5.852.412 | 6.943.572 |
Fyrir liggur samkvæmt gögnum frá fyrirtækjaskrá að á þeim tíma er hér skiptir máli var kærandi stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi C og D. Hvíldi því á honum sú skylda fyrirsvarsmanns félags sem tilgreind er í 3. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 að því er varðar fjárreiður og eignir félags. Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 skal sá, sem er skattskyldur og hefur innheimt virðisaukaskatt en stendur ekki skil á honum af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi á lögmæltum tíma, greiða fésekt sem nemur allt að tífaldri þeirri skattfjárhæð sem ekki var greidd og aldrei lægri en sem nemur tvöfaldri þessari fjárhæð. Samkvæmt þessu ber skattskyldum aðila að sjá til þess að virðisaukaskattur sé greiddur að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu. Fyrirsvarsmaður félags skal einnig hlutast til um skil á vörslusköttum lögum samkvæmt að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu, sbr. 2. og 9. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987.
Eins og sjá má af framangreindum lagaákvæðum ber fyrirsvarsmönnum lögaðila að sjá til þess að vörsluskattar séu greiddir að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu. Frá þessu eru engar undanþágur. Ofangreind ákvæði eiga því við um kæranda sem fyrirvarsmann C og D.
Að því er varðar ofangreindar virðisaukaskattskuldir verður að líta til þess að ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., sem er samhljóða eldra ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, hefur verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem leitt geta til refsingar girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hefur verið staðfest með dómi, að því tilskildu að skuldbindingin nemi einhverju miðað við fjárhag skuldara. Samkvæmt gögnum málsins er höfuðstóll vörsluskattskulda C og D alls 5.852.412 krónur og heildarskuldin nemur alls 6.943.572 krónum með vöxtum. Með því að láta hjá líða að skila vörslusköttum hefur kærandi bakað sér skuldbindingu með refsiverðri háttsemi í skilningi d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., samkvæmt fortakslausum ákvæðum 2. og 9. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda og 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt.
Samkvæmt framansögðu hefur úrskurðarnefndin í máli þessu ekki annað svigrúm til mats að því er varðar aðstæður d–liðar 2. mgr. 6. gr. lge. en að kanna hvort vörsluskattskuldin, er kærandi stofnaði til sem fyrirsvarsmaður framangreindra félaga, nemi einhverju miðað við fjárhag hans. Við það mat telur úrskurðarnefndin að líta verði heildstætt á eigna- og skuldastöðu, tekjur og greiðslugetu. Samkvæmt álagningarseðli og skattframtali ársins 2015 vegna tekna ársins 2014 er eignastaða kæranda neikvæð um tæplega 13.000.000 króna. Tekjur hans á sama tíma nema alls 188.734 krónum á mánuði að meðaltali. Skuld, sem kærandi hefur stofnað til með framangreindri háttsemi, nemur sem fyrr segir 6.943.572 krónum með vöxtum eða 18,51% af heildarskuldum kæranda. Þetta er skuld sem telja verður all háa en hún fellur ekki undir samning um greiðsluaðlögun samkvæmt f–lið 1. mgr. 3. gr. lge. Kærandi hefur stofnað til þessara skulda með háttsemi er varðar refsingu eins og tiltekið er hér að framan.
Með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 721/2009 var skuldara synjað um nauðasamning til greiðsluaðlögunar vegna vangreiddra vörsluskatta. Komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að skuldari, sem bakað hafði sér skuldbindingu að fjárhæð 1.780.437 krónur sem nam um 8,3% af heildarskuldum með háttsemi er varðaði refsingu, hefði skapað sér skuldbindingu sem einhverju næmi og því bæri að synja honum um heimild um nauðasamning til greiðsluaðlögunar. Í ofangreindu dómsmáli var skuldin til komin vegna persónulegrar starfsemi skuldarans. Úrskurðarnefndin telur að hið sama eigi við hvort sem gjaldandinn er einstaklingur eða lögaðili, enda er lagaskylda manns til að skila vörslusköttum í ríkissjóð sú sama hvort sem hann er sjálfur gjaldandi eða gjaldandinn er lögaðili sem hann er í fyrirsvari fyrir.
Það er því mat úrskurðarnefndarinnar, eins og á stendur í máli þessu, með tilliti til þess sem rakið hefur verið og með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 721/2009, að þær skuldir kæranda sem stofnað hefur verið til með framangreindum hætti falli undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. og að þær verði að teljast verulegar miðað við fjárhag hans þannig að ekki sé hæfilegt að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar.
Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið telur úrskurðarnefndin að umboðsmanni skuldara hafi verið rétt að fella niður heimild A til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til 1. mgr. 15. gr., sbr. d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Hin kærða ákvörðun er með vísan til þess staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild kæranda A til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.
Lára Sverrisdóttir
Sigríður Ingvarsdóttir
Þórhildur Líndal