Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 30/2015

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 30/2015

Miðvikudaginn 6. júlí 2016

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

ÚRSKURÐUR

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir formaður, Sigríður Ingvarsdóttir og Þórhildur Líndal.

Þann 18. nóvemer 2015 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A, og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 4. nóvember 2015 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 23. nóvember 2015 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 13. janúar 2016.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 22. janúar 2016 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust frá kærendum með bréfi 3. febrúar 2016. Voru þær sendar Embætti umboðsmanns skuldara með bréfi 9. febrúar 2016 og óskað eftir afstöðu embættisins. Umboðsmaður taldi ekki ástæðu til að aðhafast frekar í málinu.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá kærunefnd greiðsluaðlögunarmála, þ.m.t. mál kærenda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 32. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga (lge.), sbr. 13. gr. laga nr. 85/2015.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærendur eru bæði fædd 1961. Kærandi A starfar hjá eigin félagi en kærandi B starfar hjá C. Í tekjur hafa kærendur eingöngu laun.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 56.121.637 krónur.

Kærendur rekja fjárhagserfiðleika sína til fyrirtækjarekstrar á árunum 2006 til 2009.

Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 29. júní 2011. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 27. mars 2012 var þeim veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 2. mars 2015 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge. þar sem fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun á grundvelli lge. væri heimil. Kærendur hefðu meðal annars brotið gegn a-lið 1. mgr. 12. gr. lge., en samkvæmt ákvæðinu skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Kærendur hafi lagt fyrir 1.556.600 krónur á tímabili frestunar greiðslna, svokallaðs greiðsluskjóls, en þau hefðu notið skjólsins frá júlí 2011. Miðað við fyrirliggjandi forsendur og upplýsingar frá kærendum sjálfum hefðu þau átt að geta lagt fyrir tæplega 3.983.689 krónur í greiðsluskjólinu. Því vanti 2.427.689 krónur upp á sparnað kærenda. Umsjónarmaður hafi óskað skýringa á því hvers vegna ekki hefði verið lagt meira fyrir. Kærendur hafi greint frá því að þau hefðu lagt nokkra fjármuni í félag sitt D þar sem uppbygging þess stæði enn yfir. Engin gögn hafi verið lögð fram því til stuðnings.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kærenda 28. ágúst 2015 var þeim gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra, meðal annars samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Kærendur svöruðu með bréfi 29. september 2015.

Með bréfi til kærenda 4. nóvember 2015 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur krefjast þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu greiðsluaðlögunar verði hrundið.

Að mati kærenda hafi verulega skort á að þeir starfsmenn Embættis umboðsmanns skuldara sem sinnt hafi máli þeirra hafi haft vald á lögfræðilegum greiningum og aðstæðum kærenda. Afleiðingarnar séu þær að ýmsar rangfærslur og rangar ályktanir hafi ráðið afstöðu umsjónarmanns með greiðsluaðlögunarumleitunum kærenda. Þá hafi málshraða-, rannsóknar- og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga ekki verið fylgt við meðferð málsins. Hinn langi málsmeðferðartími umboðsmanns skuldara valdi kærendum augljóslega verulegum búsifjum með tilliti til dráttarvaxta, verði niðurstaða embættisins staðfest. Þá telja kærendur að embættið hafi ekki hirt um að afla fullnægjandi upplýsinga um hagi þeirra. Loks hafi embættið í engu gengið á eftir því að fá upplýsingar um kröfur þeirra á hendur þriðja aðila sem ráðstafa mætti í þágu lánardrottna. Með þessu hafi rannsóknarregla 10. gr. stjórnsýslulaga verið brotin. Enn fremur álíta kærendur að umboðsmaður skuldara hafi látið hjá líða að fullnægja leiðbeiningarskyldu sinni samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga með því að veita þeim ekki skýr fyrirmæli um að þau mættu aðeins leggja til hliðar af launum í skilningi lge. með greiðslu peninga inn á bankareikning.

Umboðsmaður skuldara geri athugasemdir við að tilætlaður sparnaður samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. hafi ekki náðst. Kærendur hafi bent á að þau hefðu lagt D til fé í þeim tilgangi að byggja félagið upp en þau hefðu ætlað að verja þær fjárfestingar sem þau hefðu þegar lagt í vegna félagsins.

Kærendur hafni því að hafa brotið gegn a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Í lagagreininni segi að á meðan leitað sé greiðsluaðlögunar skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í ákvæðinu sé ekki skilgreint hvað felist í því að „leggja til hliðar“. Ekki sé heldur að finna leiðbeiningu um það í athugasemdum með 12. gr. lge. Hvorki verði séð af lagaákvæðinu sjálfu né lögskýringargögnum að skuldara sé ætlað að ávaxta það fé sem lagt sé til hliðar með einhverjum tilteknum hætti eða hjá tilteknum aðila svo sem fjármálastofnun. Af því megi ráða að tilgangur löggjafans að þessu leyti sé aðeins sá að kröfuhöfum standi til reiðu það fé sem lagt sé til hliðar þegar að greiðslu þess komi. Kærendur telji að það verði með engu móti skilið af lge. að eingöngu megi fullnægja skyldu til að leggja til hliðar af launum með innstæðu á bankareikningi.

Kærendur hafi upplýst umsjónarmann um að þau hefðu lánað félagi sínu fé til rekstrar. Lánið verði endurgreitt þegar kærendur krefjist þess. Samkvæmt þessu hafi kærendur uppfyllt skilyrði a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Hafa beri í huga að ákvæðið beri að túlka kærendum í hag, enda sé það tilgangur lge. að veita þeim sem sannarlega séu skuldsettir um of möguleika til að rétta við fjárhag sinn og forðast gjaldþrot og aðrar íþyngjandi afleiðingar fjárhagserfiðleika.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara á meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. lge. hafi fylgt með ákvörðun um samþykki umsóknar kærenda um greiðsluaðlögun sem þeim hafi borist með ábyrgðarbréfi. Umboðsmaður hafi sent öllum þeim sem nutu greiðsluskjóls bréf 27. nóvember 2012 þar sem brýndar hafi verið fyrir þeim skyldur skuldara samkvæmt 12. gr. lge. Auk þess séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og skuldara. Þessar upplýsingar hafi enn fremur verið aðgengilegar á heimasíðu umboðsmanns skuldara. Kærendum hafi því vel mátt vera ljóst að þau skyldu halda til haga þeim fjármunum sem þau hafi átt aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum sínum þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa.

Greiðsluskjól kærenda hafi staðið yfir í 49 mánuði en miðað sé við tímabilið frá 1. júlí 2011 til 31. júlí 2015. Upplýsingar um laun byggi á staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra, gögnum frá öðrum opinberum aðilum og skattframtölum. Í eftirfarandi sundurliðun útreikninga sé miðað við að unnt sé að leggja fyrir mismun meðaltekna á mánuði og framfærslukostnaðar. Sú fjárhæð sé nefnd greiðslugeta og segir til um áætlaðan sparnað.

Samkvæmt gögnum málsins hafi kærendur haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:

Tekjur 2015 2014 2013 2012 2011 Tekjur alls
Launatekjur 2.644.189 4.685.112 4.347.776 4.332.613 2.133.574 18.143.264
Barna/vaxtabætur o.fl. 336.177 336.177
Samtals 2.644.189 4.685.112 4.347.776 4.332.613 2.469.751 18.479.441

Sparnaður í krónum:

2015 2014 2013 2012 2011
Heildartekjur á ári 2.644.189 4.685.112 4.347.776 4.332.613 2.469.751 18.479.441
Meðaltekjur á mán. 377.741 390.426 362.315 361.051 411.625 1.903.158
Framfærsluk. á mán. 266.211 266.211 266.211 266.211 266.211 1.331.055
Greiðslugeta á mán. 111.530 124.215 96.104 96.104 145.414 573.367
Áætlaður sparnaður 780.712 1.490.580 1.153.248 1.138.081 872.485 5.435.102

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kærenda hafi verið um 266.211 krónur á mánuði á tímabili greiðsluskjóls. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið kærendum í hag. Samkvæmt því sé miðað við framfærslukostnað júlímánaðar 2015 fyrir hjón. Þannig sé gengið út frá því að kærendur hafi alls haft heildartekjur að fjárhæð 18.479.441 króna á fyrrnefndu tímabili og getað lagt fyrir um 5.435.102 krónur. Þau hafi hins vegar aðeins lagt fyrir 1.556.600 krónur. Samkvæmt því skorti 3.878.502 krónur upp á sparnað kærenda á tímabilinu.

Á meðan á greiðsluskjóli standi skuli skuldari greiða tilfallandi mánaðarlegan framfærslukostnað svo sem rafmagn, hita, fasteignagjöld, samskiptakostnað og fleira þess háttar. Í fylgiskjölum með ákvörðun umboðsmanns skuldara um heimild kærenda til að leita greiðsluaðlögunar sé að finna greiðsluáætlun þar sem gert sé ráð fyrir mánaðarlegum framfærslukostnaði kærenda. Meðan á frestun annarra greiðslna standi sé skuldara ætlað að greiða gjöld og kostnað vegna framfærslu sé greiðslugeta hans jákvæð í mánuði hverjum, enda markmið með greiðsluaðlögun að koma jafnvægi á skuldir og greiðslugetu.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Umsjónarmanni sé almennt óheimilt að miða við annan framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir skuldara með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar að við mat á því hvort skuldarar hafi sinnt skyldum sínum á meðan á frestun greiðslna standi sé þeim jafnan játað nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé að meginreglu til tekið tillit til annarra útgjaldaliða sem fella megi undir almennan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge., séu lögð fram gögn þar um.

Kærendur hafni því að fjármunir umfram kostnað við framfærslu þeirra séu kröfuhöfum ekki til reiðu. Þau vísi til þess að það fé sem vanti upp á sparnað hafi farið til að standa undir rekstri félags þeirra, D. Kærendur hafi einnig greint frá því að þau hafi lagt eigin fjármuni í félagið í von um að auka verðmæti eigna þess. Væntingar séu um að söluverð eignanna geti skilað að minnsta kosti þeim fjármunum sem vanti upp á sparnaðinn. Að mati kærenda sé sparnaður þeirra því fyrir hendi þótt hann sé í öðru formi en peningum á bankareikningi. Umboðsmaður skuldara geti þó ekki tekið tillit til þessara skýringa kærenda um skort á sparnaði. Ekki sé mögulegt að taka tillit til fjármuna sem bundnir séu í rekstri félags í eigu kærenda þar sem alls sé óvíst hvernig þau geti tryggt að féð sé til reiðu fyrir kröfuhafa, komi til greiðsluaðlögunarsamnings.

Því verði að telja kærendur hafa brotið gegn skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að leggja ekki til hliðar þá fjárhæð sem þau hafi mánaðarlega haft aflögu að teknu tilliti til framfærslukostnaðar.

Gera verði þá kröfu til einstaklinga, sem glími við svo verulega fjárhagserfiðleika að íhlutunar sé þörf, að þeir dragi úr útgjöldum sem ætla megi að hægt sé að komast hjá eða fresta og sérstaklega á meðan þeir standi í greiðsluaðlögunarumleitunum vegna endurskipulagningar fjármála sinna. Skuldurum í greiðsluaðlögun séu settar ákveðnar skorður á ráðstöfun fjár í greiðsluskjóli. Þeim sé í fyrsta lagi skylt að leggja fyrir það fé sem sé umfram framfærslukostnað og í öðru lagi að ráðstafa ekki því fé sem gagnast gæti lánardrottnum sem greiðsla.

Meðal annars, að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins, hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

IV. Niðurstaða

Kærendur telja að umboðsmaður skuldara hafi látið hjá líða að fullnægja leiðbeiningarskyldu sinni samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga (ssl.) með því að veita þeim ekki skýr fyrirmæli um að þau mættu aðeins leggja til hliðar af launum í skilningi lge. með greiðslu peninga inn á bankareikning. Þá telja þau að málshraða-, rannsóknar og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga hafi ekki verið fylgt við meðferð málsins.

Að því er varðar leiðbeiningarskyldu 7. gr. ssl. verður að skilja málatilbúnað kærenda þannig að þau telji sig ekki hafa verið upplýst um að sparnaður þeirra á tímabili greiðsluskjóls skyldi vera í peningum til að þau teldust hafa uppfyllt skyldu sína um að leggja til hliðar fé samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Með lögum nr. 128/2010, sem birt voru 18. október 2010, tók gildi tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. lge. hjá þeim einstaklingum sem sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar fram til 1. júlí 2011. Þegar umsókn var lögð fram afhenti umboðsmaður skuldara þessum umsækjendum sérstakt upplýsingaskjal þar sem greint var frá skyldum þeirra í greiðsluskjóli í samræmi við 12. gr. lge. Þar á meðal var áréttað að umsækjendum bæri að leggja fyrir fé sem væri umfram það sem þyrfti til reksturs heimilis, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Þá var greint frá því að umsækjendur mættu greiða það sem tengdist daglegum rekstri heimilis og nota skyldi neysluviðmið umboðsmanns skuldara til viðmiðunar um hvað teldist eðlilegur kostnaður í því sambandi. Þá var sérstaklega vakin athygli á því að uppfyllti umsækjandi ekki skyldur sínar á meðan á frestun greiðslna stæði gæti það leitt til þess að samningur um greiðsluaðlögun kæmist ekki á.

Þá sendi umboðsmaður skuldara þeim sem voru í greiðsluskjóli bréf 27. nóvember 2012 þar sem meðal annars var minnt á skyldur þeirra til að leggja til hliðar fé sem væri umfram framfærslukostnað samkvæmt 12. gr. lge.

Á vefsíðu umboðsmanns skuldara á þeim tíma er kærendur sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar voru upplýsingar um skyldur umsækjenda við greiðsluaðlögunar-umleitanir. Eftirfarandi texta var að finna á vefsíðunni undir liðnum greiðsluaðlögun einstaklinga:

Þegar umsókn um greiðsluaðlögun er móttekin af umboðsmanni skuldara hefst frestun greiðslna. Með frestuninni eru lagðar ákveðnar skyldur á herðar kröfuhöfum og umsækjendum. Á fresttíma má umsækjandi einungis greiða það sem viðkemur rekstri heimilsins og framfærslu. Framfærslan innifelur mat, hreinlætisvörur, tómstundir, fatnað, lækniskostnað skv. neysluviðmiði umboðsmanns og fastra liða í framfærslu s.s. síma, hita, rafmagn, dagvistun og fleira. Umsækjandi þarf einnig að leggja til hliðar allar afgangstekjur sínar. Á fresttíma er kröfuhöfum óheimilt að taka við greiðslum vegna skulda hvort sem umsækjandi er í skilum eða vanskilum. Þetta á við um greiðslur af veðlánum og öðrum lánum s.s. bílakaupalánum, yfirdráttarlánum og fleira. Þá er kröfuhöfum einnig óheimilt að krefjast nauðungarsölu á eigum umsækjenda og hjá þeim sem kynnu að vera í ábyrgðum fyrir umsækjenda. Frestun greiðslna lýkur með samningi, afturköllun eða synjun umsóknar.“

Úrskurðarnefndin telur að kærendum hafi mátt vera ljóst þegar þau sóttu um greiðsluaðlögun að þeim bar að leggja til hliðar þá fjármuni sem voru umfram framfærslukostnað þeirra samkvæmt sérstökum framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara. Samkvæmt gögnum málsins voru kærendur einnig upplýst um skyldur sínar í samræmi við 1. mgr. 12. gr. lge. með skriflegum leiðbeiningum sem fylgdu með ákvörðun umboðsmanns skuldara 27. mars 2012 þar sem þeim var veitt heimild til greiðsluaðlögunar. Í greiðsluáætlun, sem einnig fylgdi ákvörðun umboðsmanns skuldara, var mánaðarleg greiðslugeta kærenda eftir kostnað við framfærslu tiltekin 102.071 króna.

Úrskurðarnefndin telur að Embætti umboðsmanns skuldara hafi samkvæmt framansögðu leiðbeint kærendum þegar þau sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar með fullnægjandi hætti með því að veita upplýsingar við móttöku umsóknar, í tilkynningu sem send var kærendum á tímabili greiðsluskjóls, með upplýsingum á umsóknareyðublaði um greiðsluaðlögun og á heimasíðu Embættis umboðsmanns skuldara. Þar var að finna útskýringar á afdráttarlausu lagaákvæði a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun þar sem segir að á meðan leitað er greiðsluaðlögunar skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Eins og fram kemur í leiðbeiningunum er þar enn fremur útskýrt að skylda til að leggja fé til hliðar hefjist þegar umsókn um greiðsluaðlögun er móttekin, þ.e. um leið og frestun greiðslna hefst. Kærendum bar því að virða skyldur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. frá þeim tíma er þau sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar 29. júní 2011.

Það er því álit úrskurðarnefndarinnar að hvorki málsmeðferð hjá umboðsmanni skuldara eða umsjónarmanni, né þær leiðbeiningar sem kærendur fengu undir rekstri málsins hafi gefið þeim tilefni til að halda að sparnaður þeirra í skilningi a-liðar 2. mgr. 12. gr. lge. gæti legið fyrir í öðru formi en reiðufé svo sem mögulegri kröfu þeirra á hendur eigin félagi. Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið fellst úrskurðarnefndin því ekki á sjónarmið kærenda um að leiðbeiningar hafi skort að þessu leyti.

Þá telja kærendur málsmeðferðartíma umboðsmanns skuldara hafa verið of langan og að málshraðaregla 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið brotin. Að mati kærenda hafi hinn langi málsmeðferðartími umboðsmanns valdið þeim verulegum búsifjum vegna uppsafnaðra dráttarvaxta, verði niðurstaða embættisins staðfest. Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 29. júní 2011 og með ákvörðun umboðsmanns skuldara 27. mars 2012 var þeim veitt heimild til greiðsluaðlögunar. Eftir þetta tóku við samningaumleitanir umsjónarmanns við kröfuhafa. Umboðsmaður skuldara fékk málið síðan til meðferðar frá umsjónarmanni. Umsjónarmaður tilkynnti umboðsmanni skuldara með bréfi 2. mars 2015 að hann teldi að fella bæri greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður. Umboðsmaður sendi kærendum bréf þar að lútandi 28. ágúst 2015 eða tæpum sex mánuðum síðar. Svar kærenda barst með bréfi 29. september 2015 og embættið felldi síðan niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra með bréfi 4. nóvember 2015.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga skulu ákvarðanir í málum teknar svo fljótt sem unnt er. Þegar fyrirsjáanlegt er að afgreiðsla máls muni tefjast ber að skýra aðila máls frá því. Skal þá upplýsa um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta, sbr. 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Í málinu liggur ekkert fyrir um ástæðu þess að nokkur dráttur varð á málsmeðferð umboðsmanns skuldara eftir að umsjónarmaður tilkynnti honum um mat sitt í málinu. Því verður að telja að þær tafir hafi verið að ófyrirsynju. Almennt er þó talið að tafir á afgreiðslu máls geti ekki valdið ógildingu ákvörðunar nema þær hafi haft áhrif á niðurstöðu hennar. Í þessu máli er það álit úrskurðarnefndarinnar að slíku sé ekki til að dreifa og að tafirnar og hugsanlegar afleiðingar þeirra leiði því ekki til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Að því er varði rannsóknarreglu telja kærendur að umboðsmaður skuldara hafi brotið þá reglu þar sem embættið hafi í engu gengið á eftir því að fá upplýsingar um kröfur kærenda á hendur félagi þeirra sem ráðstafa mætti í þágu lánardrottna. Í 5. gr. lge. er mælt fyrir um sérstaka skyldu umboðsmanns skuldara til að rannsaka mál. Styðst ákvæðið við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga, en samkvæmt henni ber stjórnvaldi að rannsaka mál og afla nauðsynlegra og réttra upplýsinga um málsatvik áður en ákvörðun er tekin í því. Stjórnvaldi er nauðsynlegt að þekkja staðreyndir málsins til að geta tekið efnislega rétta ákvörðun. Það fer svo eftir eðli máls og gildandi réttarheimildum hverju sinni hvaða upplýsinga stjórnvaldi ber að afla um viðkomandi mál. Í rannsóknarreglunni felst þó ekki að stjórnvaldi beri sjálfu að afla allra upplýsinga, en stjórnvald getur beint þeim tilmælum til aðila að hann veiti tilteknar upplýsingar eða leggi fram gögn.

Eins og rakið hefur verið er það álit úrskurðarnefndarinnar að möguleg krafa kærenda á hendur eigin félagi geti ekki talist til sparnaðar í skilningi a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Umboðsmanni skuldara bar því ekki skylda til að afla upplýsinga um slíkar kröfur. Því tekur úrskurðarnefndin ekki undir það með kærendum að rannsóknarregla 5. gr. lge., sbr. rannsóknarregla 10. gr. ssl., hafi verið brotin við málsmeðferð umboðsmanns skuldara í máli kærenda.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge., þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt 1. mgr. skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Eins og fram er komið tilkynnti umsjónarmaður með bréfi til umboðsmanns skuldara 2. mars 2015 að hann teldi að kærendur hefðu brugðist skyldum sínum við greiðsluaðlögunarumleitanir. Umsjónarmaður vísaði þar meðal annars til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. og taldi að fella ætti niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge. Í framhaldi af því felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður 4. nóvember 2015.

Að mati umboðsmanns skuldara áttu kærendur að leggja til hliðar 5.435.102 krónur eftir að umsókn þeirra um greiðsluaðlögun var lögð fram, eða frá 1. júlí 2011 til 31. október 2015. Kærendur hafna því að fjármunir umfram kostnað við framfærslu standi kröfuhöfum ekki til reiðu.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kærenda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

Tímabilið 1. júlí 2011 til 31. desember 2011: Sex mánuðir
Nettótekjur A 216.654
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 36.109
Nettótekjur B 1.916.920
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 319.487
Nettótekjur alls 2.133.574
Mánaðartekjur alls að meðaltali 355.596
Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir
Nettótekjur A 433.104
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 36.092
Nettótekjur B 3.899.509
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 324.959
Nettótekjur alls 4.332.613
Mánaðartekjur alls að meðaltali 361.051
Tímabilið 1. janúar 2013 til 31. desember 2013: 12 mánuðir
Nettótekjur A 307.565
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 25.630
Nettótekjur B 4.040.211
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 336.684
Nettótekjur alls 4.347.776
Mánaðartekjur alls að meðaltali 362.315
Tímabilið 1. janúar 2014 til 31. desember 2014: 12 mánuðir
Nettótekjur A 451.361
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 37.613
Nettótekjur B 4.233.751
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 352.813
Nettótekjur alls 4.685.112
Mánaðartekjur alls að meðaltali 390.426
Tímabilið 1. janúar 2015 til 31. október 2015: Tíu mánuðir
Nettótekjur A 359.325
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 35.933
Nettótekjur B 3.692.324
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 369.232
Nettótekjur alls 4.051.649
Mánaðartekjur alls að meðaltali 405.165
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 19.550.724
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 375.975

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara og tekjur kærenda var greiðslugeta þeirra þessi á rúmlega fjögurra ára tímabili greiðsluskjóls í krónum talið:

Tímabilið 1. júlí 2011 til 31. október 2015: 52 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 19.550.724
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 19.550.724
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 375.975
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 266.211
Greiðslugeta kærenda á mánuði 109.764
Alls sparnaður í 52 mánuði í greiðsluskjóli x 109.764 5.707.752

Samkvæmt gögnum málsins hafa kærendur lagt til hliðar 1.556.500 krónur og skortir því samkvæmt framansögðu 4.151.252 krónur upp á sparnað þeirra. Kærendur kveða mismun á þeirri fjárhæð og útreiknuðum sparnaði þeirra hafa farið í að standa undir rekstrarkostnaði við starfsemi á félagi þeirra í von um að auka mætti verðmæti þess. Kærendur geri sér vonir um að söluverðmæti rekstrarins geti skilað þeim tæpum 4.000.000 króna sem þarna kunni að muna. Að mati kærenda sé sparnaður þeirra því til reiðu fyrir kröfuhafa en í öðru formi en fé á bankareikningi.

Það er markmið lge. að gera einstaklingum kleift að endurskipuleggja fjárhag sinn með samningum við kröfuhafa, eftir atvikum með niðurfellingu skulda að einhverju eða öllu leyti. Samkvæmt reglum lge. er skuldara gert að greiða eins hátt hlutfall af kröfum og sanngjarnt er þar sem í greiðsluaðlögun felst að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils. Meðal annars þess vegna er skuldara gert að leggja til hliðar af launum sínum og öðrum tekjum það fé sem er umfram framfærslukostnað á meðan leitað er greiðsluaðlögunar. Féð skal nota til að greiða kröfuhöfum þegar kemur að efndum greiðsluaðlögunarsamnings. Svo sem fram er komið er það mat úrskurðarnefndarinnar að kærendum hafi mátt vera ljóst að þeim hafi borið skylda til að leggja til hliðar það fé sem stóð eftir af tekjum þeirra á tímabili greiðsluskjóls í samræmi við skýr fyrirmæli í a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Kærendum var því ekki heimilt að ráðstafa umframfé sínu með því að stofna til kröfuréttinda á hendur þriðja aðila svo sem þau kveðast hafa gert og hafa þau með vísan til þess ekki sinnt fyrirmælum lagaákvæðisins.

Samkvæmt þessu fellst úrskurðarnefndin á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Umboðsmanni skuldara bar því samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður. Með vísan til þess er hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

Lára Sverrisdóttir

Sigríður Ingvarsdóttir

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta