Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 71/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 71/2016

Miðvikudaginn 5. október 2016

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir, Sigríður Ingvarsdóttir og Þórhildur Líndal.

Þann 15. febrúar 2016 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 27. nóvember 2015 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 29. febrúar 2016 óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 10. mars 2016.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 14. mars 2016 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust 29. mars 2016. Þær voru sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 30. mars 2016 og óskað eftir sjónarmiðum embættisins. Embættið taldi ekki efni til að aðhafast frekar í málinu.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi er fæddur 1971. Hann býr í eigin íbúð að B, sem er 92,4 fermetrar að stærð. Kærandi á X börn sem hann greiðir meðlag með.

Kærandi hefur verið atvinnulaus um lengri tíma en kveðst nýlega hafa fengið vinnu. Engar upplýsingar liggja fyrir um starfið eða launakjör.

Að sögn kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hans til langvarandi atvinnuleysis.

Heildarskuldir, kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara, eru 34.997.205 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2005 til 2006.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 15. apríl 2014 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hans.

Með bréfi til umboðsmanns skuldara 14. apríl 2015 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður.

Í bréfinu er vísað til þess að kærandi eigi fasteignina að B. Samkvæmt upplýsingum frá fasteignaskrá sé fasteignamat eignarinnar 23.000.000 króna fyrir árið 2015. Samkvæmt upplýsingum frá Landsbankanum 3. september 2014 hafi mánaðarleg greiðslubyrði af áhvílandi lánum á 1. veðrétti verið 117.190 krónur.

Með tölvupósti 1. október 2014 hafi kærandi greint umsjónarmanni frá því að hann hefði misst vinnuna. Honum hafi verið veitt færi á að útvega sér aðra vinnu svo að hann ætti möguleika á að halda fasteigninni. Kærandi hafi ekki fengið vinnu innan tilskilins frests.

Umsjónarmaður hafi ákveðið að selja skyldi fasteign kæranda samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga (lge.) þar sem kærandi gæti ekki staðið undir föstum mánaðarlegum greiðslum af þeim veðkröfum sem á henni hvíldu og væru innan matsverðs eignarinnar, sbr. a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. Með tölvupósti 6. mars 2015 hafi verið óskað eftir afstöðu kæranda til sölu eignarinnar og hann beðinn um að tilnefna fasteignasölu til að sjá um söluna. Honum hafi verið gerð grein fyrir því hvaða afleiðingar það hefði féllist hann ekki á sölu eignarinnar, sbr. 5. mgr. 13. gr. sbr. 15. gr. lge. Með tölvupósti 13. mars 2015 hafi kærandi óskað eftir nánari upplýsingum um söluferli fasteignarinnar og því sem fram undan væri ef gert væri ráð fyrir sölu eignarinnar. Kærandi hafi talið tölvupóst umsjónarmanns fela í sér nauðung og óskað eftir því að ekki yrði tekin ákvörðun um sölu eignarinnar á meðan hann væri án atvinnu. Í framhaldinu hafi umsjónarmaður sent kæranda tölvupóst þar sem farið hafi verið yfir skilyrði þess að unnt væri fyrir hann að halda eigninni. Einnig hafi verið óskað eftir afstöðu kæranda til sölu eignarinnar. Í svari kæranda 24. mars 2015 hafi kærandi greint frá því að hann óskaði eftir því að málið færi „fyrir nefndina“. Það væri eindreginn vilji hans að ná samningum við kröfuhafa en forsenda þess væri að hann hefði vinnu.

Umsjónarmaður hafi talið að af framangreindu yrði ekki annað ráðið en að kærandi legðist gegn þeirri ákvörðun umsjónarmanns að selja skyldi fasteign hans jafnvel þótt að hann hefði ekki greiðslugetu til að greiða af henni í samræmi við 1. mgr. 21. gr. lge.

Með vísan til þessa var umboðsmanni skuldara tilkynnt að umsjónarmaður teldi að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun samkvæmt lge. væri heimil. Því legði hann til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr., sbr. 1. og 5. mgr. 13. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf 28. ágúst 2015 þar sem honum var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild hans til greiðsluaðlögunar. Andmæli kæranda bárust með tölvupósti 19. október 2015.

Með bréfi til kæranda 27. nóvember 2015 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi fer fram á að málið verði látið halda áfram hjá umboðsmanni skuldara. Hann fer þess einnig á leit að úrskurðarnefndin hafni ákvörðun umboðsmanns skuldara. Verður að skilja þetta svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærandi telur ákvörðun umboðsmanns skuldara ranga. Hann kveðst hafa farið að ráðum umsjónarmanns síns eins og framlögð tölvupóstsamskipti sýni. Hann hafi aldrei neitað því að selja fasteign sína eða staðið í vegi fyrir því að það yrði gert.

Kærandi fer fram á að fá að greiða sem svari 60% af hæfilegri leigu, sbr. a-lið 1. mgr. 21. gr. lge., á meðan hann sé án atvinnu. Samkvæmt því sem komi fram í auglýsingu Þjóðskrár Íslands frá 17. febrúar 2016 sé meðalleiguverð íbúðarhúsnæðis í C 1.902 krónur fyrir hvern fermetra. Staðalfrávik sé 315 krónur á fermetra. Því sé unnt að halda því fram með 95% vissu að leiguverð sé á bilinu 1.272 til 2.523 krónur á hvern fermetra. Þar sem greiðsluaðlögun sé samkvæmt lge. félagslegt úrræði verði að miða við lægra fermetraverðið. Íbúð kæranda sé 93 fermetrar að stærð og samkvæmt því yrði leiguverð fyrir húsnæðið um 120.000 krónur á mánuði. Kærandi sé tilbúinn til þess að miða við 68% vissu og nota eitt staðalfrávik en þá sé miðað við meðalverðið 1.587 krónur á fermetra (1.902 meðalverð – 315 staðalfrávik = 1.587). Leiguverð sé þá 147.000 krónur á mánuði. Sé gert ráð fyrir að kærandi greiði 60% af þeirri fjárhæð á mánuði samkvæmt heimild í a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. nemi húsaleiga 88.000 krónum á mánuði. Ættingi búi hjá kæranda og muni greiða 40.000 krónur í húsaleigu á mánuði. Eftir standi því 48.000 krónur sem kærandi greiði en það sé vel raunhæft.

Kærandi bendir á að framfærslukostnaður hans sé lægri en umboðsmaður skuldara geri ráð fyrir í greiðsluáætlun sinni eða 161.162 krónur á mánuði. Kostnaður kæranda sé lægri þar sem móðir hans ætli að styrkja hann um fisk og kjöt í hverjum mánuði sem hann verðmeti á 25.000 krónur. Þá hafi hann hvorki verið að kaupa föt né skó. Þá hafi samgöngukostnaður kæranda lækkað þar sem hann hafi lagt inn númer bifreiðar sinnar. Hann ferðist nú með strætó og fái stundum afnot af bíl gegn því að taka bensín í sama mæli og hann noti.

Kærandi kveðst hafa fengið um 165.000 krónur á mánuði. Sé miðað við framangreinda áætlun sé rökstuðningur fyrir leigu og öðrum framfærslukostnaðir fullkomlega raunhæfur og skili áætlunin afgangi.

Að því er varði tekjur kæranda sé ljóst að hann verði ekki með óbreyttar tekjur til framtíðar. Kærandi sé [...] og hafi komist í atvinnuviðtöl eftir því sem horfur á atvinnumarkaði hafi farið batnandi. Tækifærin aukist með hverjum degi og kærandi sé í virkri atvinnuleit. Meðallaun [...] samkvæmt launakönnun VR séu um 550.000 krónur á mánuði. Í síðasta starfi hafi kærandi haft 550.000 krónur í grunnlaun og þar áður um 500.000 krónur í meðallaun. Gera megi ráð fyrir að kærandi fái svipuð laun og könnun VR sýni. Miðað við það séu útborguð laun um 350.000 krónur sem dugi til að greiða af öllum skuldbindingum kæranda. Með þessu móti geti umboðsmaður skuldara haft samband við lánveitendur og gert samkomulag um að fasteigninni verði ekki ráðstafað að svo stöddu en í greinargerð með 13. gr. lge. segi: „Umsjónarmanni er heimilt að taka tillit til markaðsaðstæðna og mæla fyrir um að sala fari fram síðar á greiðsluaðlögunartíma og hvernig söluverði verði þá ráðstafað.“

Kærandi fer þess á leit að umboðsmaður skuldara geri annað tveggja; setji íbúð hans á sölu og semji fyrir kæranda í framhaldinu eða að kærandi greiði hæfilegt leiguverð í tiltekinn tíma, til dæmis í 6 mánuði.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. geti umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Þá segi í 5. mgr. 13. gr. lge. að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra hafi kærandi 174.952 krónur til ráðstöfunar í hverjum mánuði og miðað við framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara, auk upplýsinga frá kæranda sjálfum um útgjöld, sé framfærslukostnaður hans 240.618 krónur á mánuði. Greiðslugeta kæranda sé því neikvæð um 65.666 krónur á mánuði. Samkvæmt upplýsingum frá kröfuhafa nemi mánaðarlegar afborganir af veðkröfu innan matsverðs fasteignar kæranda um það bil 113.513 krónum. Kærandi hafi þar af leiðandi ekki greiðslugetu til að halda fasteign sinni og greiða mánaðarlega af henni innan matsverðs samkvæmt a-lið 1. mgr. 21. gr. lge.

Kærandi kveðst ekki verða atvinnulaus til framtíðar og hann sé tilbúinn til að greiða tímabundið lægri mánaðargreiðslu af fasteignaveðkröfum. Þrátt fyrir að kærandi sé atvinnulaus og tekjur hans gætu hækkað, telji embættið ekki fyrirsjáanlegt að svo verði. Þar sé horft til þess að atvinnuleysi kæranda hafi varað allt frá upphafi árs 2012 með hléum. Hann fái nú fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi þar sem réttur hans til atvinnuleysisbóta sé ekki lengur fyrir hendi. Embættið telji samkvæmt þessu að undanþága a-liðar 1. mgr. 21. gr. lge. eigi ekki við í máli kæranda, en þar sé heimild til að skuldari greiði 60% af hæfilegu leiguverði fasteignar í tiltekinn tíma við sérstakar og tímabundnar aðstæður. Ljóst sé að greiðslugeta kæranda dugi ekki til að greiða 60% af leiguverðinu.

Ekki verði talið að kærandi geti staðið skil á afborgunum fasteignaveðkrafna innan matsverðs eignar, sbr. a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. Því sé fallist á það mat umsjónarmanns að nauðsynlegt sé að selja fasteign kæranda. Ekkert bendi til þess að aðstæður kæranda séu tímabundnar í þeim skilningi að ofangreind undanþága eigi við. Þá teljist ólíklegt að kærandi geti staðið skil á föstum mánaðarlegum greiðslum innan matsverðs fasteignar við lok greiðsluaðlögunarsamnings.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. 13. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. getur umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í 5. mgr. segir að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara verði felldar niður samkvæmt 15. gr.

Í 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skal gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. skal skuldari greiða fastar mánaðarlegar greiðslur af þeim veðkröfum sem eru innan matsverðs eignar á tímabili greiðsluaðlögunar. Greiðslurnar megi ekki nema lægri fjárhæð en þeirri sem ætla má að mati umsjónarmanns að svari til hæfilegrar leigu á almennum markaði fyrir þá eign er greiðsluaðlögun varðar, nema sérstakar og tímabundnar aðstæður séu fyrir hendi. Við slíkar aðstæður sé umsjónarmanni heimilt að ákveða tímabundið lægri mánaðargreiðslu til greiðslu veðkrafna en þó ekki lægri en 60% af hæfilegri leigu.

Í athugasemdum með frumvarpi til lge. segir um 21. gr.: „Við útreikning leigunnar er heimilt að taka tillit til gjalda sem leigjandi mundi að jafnaði ekki greiða, svo sem fasteignagjalda, hússjóðs, trygginga, hita og rafmagns. Þrátt fyrir þá meginreglu að skuldari greiði af veðkröfum sem samsvari leiguverði er gert ráð fyrir því að séu sérstakar tímabundnar aðstæður fyrir hendi sé umsjónarmanni heimilt að lækka þessar greiðslur. Þá undanþáguheimild ber þó að skýra þröngt. Miða verður við að ekki sé verið að aðstoða skuldara til að halda húsnæði sem hann hefur ekki efni á að halda heldur mæta tímabundnum erfiðleikum þegar sýnt er að einstaklingur muni þó til frambúðar standa undir greiðslum. Koma þar m.a. til álita tímabundin veikindi eða atvinnuleysi sem staðið hefur til lengri tíma en þó séu líkur á að tekjuöflunarmöguleikar muni glæðast. Er sú takmörkun gerð að ekki megi þó ákvarða greiðsluna lægri en sem samsvarar 60% af hæfilegri húsaleigu og einungis tímabundið.“

Í athugasemdum með frumvarpi til lge. kemur fram að markmið þeirra aðgerða, sem gripið hafi verið til vegna skuldavanda fólks, hafi verið að forða fólki frá því að missa heimili sín og gera því kleift að standa undir greiðslubyrði lána. Að jafnaði skuli gefa skuldara kost á að búa áfram í húsnæði sínu ef það telst ekki bersýnilega ósanngjarnt svo sem vegna stærðar þess eða verðmætis. Umsjónarmaður geti þó ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í ljósi nauðsynjar skuldara á að halda íbúðarhúsnæði er almennt miðað við að skuldari verði ekki krafinn um sölu þess nema í sérstökum tilvikum. Þó verði að gæta þess að skuldari geti til frambúðar staðið undir greiðslubyrði afborgana af húsnæði.

Í athugasemdum með 13. gr. lge. segir að í ljósi þess að í greiðsluaðlögun felist að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils sé rétt að gera skuldara að leggja sitt af mörkum til að eins hátt hlutfall verði greitt af kröfum og sanngjarnt sé.

Kærandi hefur verið án atvinnu um langt skeið en á þeim tíma er ákvörðun var tekin var kærandi án atvinnu. Á þeim tíma þáði kærandi fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi og hafði til ráðstöfunar 174.952 krónur á mánuði miðað við febrúar 2015. Mánaðarleg útgjöld kæranda miðað við framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara eru 240.618 krónur. Greiðslugeta hans er því neikvæð um 65.666 krónur á mánuði áður en greitt er af fasteignaveðlánum.

Kærandi er eigandi íbúðar að B. Á fyrsta veðrétti eignarinnar hvílir veðkrafa vegna láns frá Landsbankanum að fjárhæð 25.559.859 krónur en mánaðarleg greiðslubyrði hennar er 117.190 krónur. Samkvæmt þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu hvíla ekki aðrar veðkröfur á eigninni. Miðað er við að verðmæti íbúðarinnar sé hið sama og fasteignamat eða 23.000.000 króna. Greiðsla af áhvílandi veðkröfum innan matsverðs á íbúðinni er samkvæmt framansögðu 105.300 krónur á mánuði (23.000.000/25.559.859 = 0,9*117.190). Eins og fram hefur komið á kærandi enga fjármuni aflögu til að greiða af fasteignaveðkröfum eftir að hafa greitt mánaðarlegan framfærslukostnað. Í ljósi þessa lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge., og gerði umboðsmaður skuldara það með ákvörðun 27. nóvember 2015.

Í málinu liggja fyrir tölvupóstsamskipti kæranda og umsjónarmanns. Í tölvupósti umsjónarmanns til kæranda frá 16. mars 2015 segir meðal annars: „Í tölvupósti 27. febrúar s.l. greindir þú mér frá því að þú værir ekki kominn með vinnu. Þann 6. mars s.l. sendi ég þér tölvupóst þar sem ég greindi þér frá því að þar sem staða þín væri enn óbreytt þá væri því miður ekki hægt að gera ráð fyrir að eign yrði haldið í greiðsluaðlögunarferlinu þar sem greiðslugeta væri ekki til staðar til að halda eigninni. Þér ber ekki skylda til þess að fallast á sölu eignarinnar í greiðsluaðlögunarferlinu og ef þú fellst ekki á sölu eignarinnar þá ber mér skylda til þess að senda málið þitt frá mér til þjónustusviðs embættisins og óska þess að málið þitt verði fellt niður á grundvelli 5. mgr. 13. gr., sbr. 15. gr. lge. Málið verður þá tekið fyrir hjá þjónustusviði embættisins og þér veitt færi á að koma sjónarmiðum þínum að. Verði tekin ákvörðun um niðurfellingu málsins þá er sú ákvörðun kæranleg til [úrskurðarnefndar velferðarmála], en þú hefur tvær vikur til þess að kæra ákvörðun embættisins um niðurfellingu á máli þínu frá því að þú móttekur ákvörðun um niðurfellingu. Greiðsluskjól helst á meðan mál eru til meðferðar hjá [úrskurðarnefndinni].“Og síðar í sama tölvupósti segir: „Með vísan til alls framangreinds þá er þér veittur frestur til mánudagsins 23. mars n.k. til þess að láta mig vita um afstöðu þína til sölu eignarinnar.“

Í svari kæranda 24. mars 2015 segir: „Ég er að hugsa um að fara að ráði þínu, en samkvæmt símtali okkar þann 16. mars síðastliðinn ráðlagðir þú mér að láta málið fara fyrir nefndina, en eins og oft hefur komið fram er eindreginn vilji hjá mér að ná samningum og getað staðið við þá, en forsenda þess er að hafa atvinnu, sem ég hef því miður ekki fengið ennþá. En samkvæmt ráði þínu tel ég að það sé heppilegra að fara þessa leið, enda talaðir þú um að þetta ferli tæki marga mánuði og ég yrði fljótt vonandi með atvinnu og tekið aftur til samninga.“

Af hálfu umboðsmanns skuldara var ekki unnið frekar að málinu fyrr en með fyrrnefndu bréfi embættisins til kæranda 28. ágúst 2015 þar sem honum var kynnt að fram væru komnar upplýsingar sem leitt gætu til þess að greiðsluaðlögunarumleitanir hans yrðu felldar niður og honum veitt færi til að andmæla. Í svari kæranda 19. október 2015 kom fram að atvinnustaða hans væri óbreytt. Miðað við menntun ætti að vera raunhæft að hann fengi útborgaðar um 360.000 krónur á mánuði og gæti því staðið við skuldbindingar. Hann myndi ekki verða atvinnulaus til framtíðar eins og umboðsmaður gerði ráð fyrir. Einnig var það mat kæranda að undanþáguákvæði a-liðar 1. mgr. 21. gr. lge. ætti við í máli hans.

Úrskurðarnefndin telur ekki unnt að líta öðruvísi á málavexti, meðal annars með hliðsjón af fyrrnefndum tölvupóstsamskiptum umsjónarmanns og kæranda, en að kærandi hafi hafnað því að framfylgja fyrirmælum umsjónarmanns um sölu á eign sinni. Ekki verður séð að kærandi hafi fallist á sölu eignarinnar, enda byggir málatilbúnaður hans þvert á móti á því að hann geti greitt mánaðarlegar greiðslur af henni. Staðhæfingar kæranda um að hluti eignarinnar sé leigður út hafa ekki verið studdar neinum gögnum og er því ekki unnt að byggja á þeim. Við meðferð málsins hjá úrskurðarnefndinni greindi kærandi frá því að hann hefði fengið atvinnu, en hann hefur ekki lagt fram nein gögn eða gefið frekari upplýsingar því til staðfestingar. Þannig liggja ekki fyrir gögn er varða fjárhæð launa, ráðningartíma eða eðli starfs. Af þeim sökum er ekki unnt að byggja ákvörðun í málinu á því að aðstæður hans hafi breyst að þessu leyti.

Samkvæmt því sem hér hefur komið fram er greiðslugeta kæranda neikvæð og því hefur hann hvorki möguleika á því að greiða mánaðarlegar afborganir af eigninni samkvæmt a-lið 1. mgr. 21. gr. lge., né 60% fastra mánaðargreiðslna samkvæmt undanþáguákvæði sömu greinar. Miðað við ákvæði lge. er þannig eini möguleikinn til að koma á greiðsluaðlögunarsamningi í tilvikum sem þessum að selja þá eign sem veðsett er til að minnka greiðslubyrði skuldara.

Við þessar aðstæður verður að telja að umboðsmanni skuldara hafi borið að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 5. mgr. 13. gr., sbr. 15. gr. lge.

Hin kærða kvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunar-umleitanir kæranda er með vísan til þessa staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

Lára Sverrisdóttir

Sigríður Ingvarsdóttir

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta