571/2015. Úrskurður frá 2. mars 2015
Úrskurður
Hinn 2. mars 2015 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 571/2015 í máli ÚNU 13050005.
Kæra og málsatvik
Með erindi 24. maí 2013 kvartaði A til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, f.h. B, vegna afgreiðslu Kópavogsbæjar á beiðni um svör við tilteknum spurningum. Í kvörtuninni er vísað til þess að samkvæmt 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 hvíli sú skylda á Kópavogsbæ að svara spurningunum. Var farið þess á leit að Kópavogsbæ yrði falið að afgreiða fyrirspurnirnar. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur farið með erindi þetta sem kæru á afgreiðslu Kópavogsbæjar með vísan til 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sbr. 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.
Í kærunni kemur fram að þann 12. september 2001 hafi verið gert samkomulag um bætur vegna skipulagsbreytinga og skerðingar á lóð […] við Vatnsendablett í Kópavogi. Kærandi hafi allt frá árinu 2004 óskað eftir að fá samkomulag sitt við Kópavogsbæ tekið upp. Hann telji að hann hafi gert samkomulagið undir miklum þrýstingi og að allar aðstæður hafi verið honum óhagfelldar. Vegna þess vilji hann fá upplýsingar um það hvers vegna sveitarfélagið greiddi ákveðnar bætur með þeim hætti sem gert var en ekki til hans. Frá árinu 2009 hafi Kópavogsbær gengið til samninga við aðila sem voru í sambærilegri stöðu og kærandi og greitt þeim mun hærri bætur en kærandi fékk. Í kærunni kemur fram að þann 7. desember 2012 hafi kærandi beint fyrirspurnum í sjö liðum til Kópavogsbæjar. Þær voru eftirfarandi:
- Hvers vegna voru C greiddar bætur í formi fimm byggingalóða auk greiðslna fyrir gróður?
- Hvers vegna var D greiddar bætur í formi parhúsalóðar og peningagreiðslu?
- Hvers vegna var E greiddar bætur í formi byggingaréttar fyrir 46 íbúðir og 8.960.000 króna í peningum?
- Hvers vegna voru bætur til F greiddar með samningi 23. okt. 2002 teknar upp 9. júní 2010 og bætt við þær eingreiðslu upp á kr. 10.250.000 í „viðbótar-skaðabætur“ auk viðbótarbyggingaréttar?
- Hvers vegna voru bætur til E skv. samningi frá 4. nóvember 2002 teknar upp 15. júlí 2010 og greiddar viðbótarbætur til viðbótar við ríkulegar bætur sem áður voru greiddar?
- Hvernig voru „viðbótarskaðabætur“ til F í júlí 2010 reiknaðar út?
- Hvernig var viðbótargreiðsla í júlí 2010 til E reiknuð út?
Málsmeðferð
Með bréfi 3. júní 2013 var Kópavogsbær upplýstur um að úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefði borist kæra málsins. Vakin var athygli sveitarfélagsins á að samkvæmt 1. mgr. 17. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 bæri stjórnvaldi að taka ákvörðun um, hvort það yrði við beiðni um aðgang að gögnum svo fljótt sem verða mætti. Enn fremur skyldi skýra þeim, sem færi fram á aðgang að gögnum, frá ástæðum tafa og hvenær ákvörðunar væri að vænta, hefði beiðni ekki verið afgreidd innan sjö daga frá móttöku hennar. Þá bæri að tilkynna skriflega synjun beiðni sbr. 1. mgr. 19. gr. upplýsingalaga. Hefði beiðni kæranda ekki þegar verið afgreidd væri því beint til sveitarfélagsins að taka ákvörðun um afgreiðslu hennar eins fljótt og við yrði komið og eigi síðar en mánudaginn 10. júní 2013. Kysi sveitarfélagið að synja kæranda um aðgang að gögnunum var sveitarfélaginu gefinn kostur á að koma að athugasemdum við kæru málsins og frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun innan sömu tímamarka sbr. 2. mgr. 22. gr. upplýsingalaga.
Með bréfum 29. júlí 2013, 11. febrúar og 6. maí 2014 og tölvubréfi 26. janúar 2015 ítrekaði úrskurðarnefndin tilmæli sín til Kópavogsbæjar.
Kópavogsbær brást við beiðni kæranda 28. janúar 2015. Þar er rakið að í 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 komi fram að sé þess óskað sé skylt að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varði tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greini í 6.-10. gr. Sama gildi þegar óskað sé aðgangs að tilteknum fyrirliggjandi gögnum. Ekki sé þó skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn í ríkari mæli en leiði af 3. mgr. Í 3. mgr. 5. gr. segi að að ef ákvæði 6.-10. gr. um takmarkanir á upplýsingarétti eigi aðeins við um hluta gagns skuli veita aðgang að öðrum hlutum þess. Kópavogsbær telji að beiðni kæranda varði ekki aðgang að fyrirliggjandi gögnum og að svar við beiðninni fæli í sér að Kópavogsbær útbyggi ný skjöl. Í því ljósi verði að hafna beiðni kæranda um aðgang að nánar tilteknum upplýsingum um greiðslu bóta til einstakra aðila. Þá er beðist velvirðingar á töfum á afgreiðslu beiðninnar.
Niðurstaða
Í fyrirspurn kæranda 7. desember 2012 var óskað svara við tilteknum spurningum svo sem að framan er rakið. Þá giltu upplýsingalög nr. 50/1996 en ný upplýsingalög nr. 140/2012 tóku gildi 28. desember 2012. Með þeim féllu úr gildi að stærstum hluta ákvæði eldri upplýsingalaga sbr. 1. mgr. 35. gr. hinna nýju laga. Hin kærða ákvörðun Kópavogsbæjar var tekin 28. janúar 2015 og var því eðli máls samkvæmt reist á efnisákvæðum upplýsingalaga nr. 140/2012.
Beiðni kæranda er reist á 1. mgr. 5. gr. laganna er lýtur að rétti almennings til aðgangs að gögnum. Þar kemur fram að skylt sé að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, sé þess óskað, með þeim takmörkunum sem greinir í 6.-10. gr. Sama gildi þegar óskað sé aðgangs að tilteknum fyrirliggjandi gögnum. Tekið er fram í 3. málslið að ekki sé skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn í ríkari mæli en leiði af 3. mgr. þar sem kveðið er á um að ef ákvæði 6.-10. gr. eigi aðeins við um hluta gagns skuli veita aðgang að öðrum hlutum þess.
Beiðni kæranda er sett fram í formi spurninga sem hann óskar eftir svörum við frá Kópavogsbæ. Með tilliti til þessa treystir úrskurðarnefndin sér ekki til að líta svo á að beiðnin nái til þess að fá aðgang að gögnum í samræmi við ákvæði 5. og 15. gr. upplýsingalaga. Hins vegar væri því ekkert til fyrirstöðu, þrátt fyrir það hvernig beiðnin er sett fram, að Kópavogsbær afhenti kæranda gögn sem kynnu að hafa að geyma svör við spurningum hans að uppfylltum öðrum skilyrðum fyrir afhendingu gagna í vörslum stjórnvalda.
Fyrstu fimm fyrirspurnir kæranda til Kópavogsbæjar lutu að þeim efnislegu röksemdum sem sveitarfélagið hefði lagt til grundvallar ákvörðun bóta til tiltekinna einstaklinga. Síðari fyrirspurnirnar tvær lutu að þeim tölulegu forsendum eða útreikningum sem bjuggu að baki ákvörðun bóta til tveggja þessara einstaklinga. Í ákvörðun Kópavogsbæjar er skýrt tekið fram að umræddum spurningum verði ekki svarað án þess að sveitarfélagið tæki saman ný skjöl. Er því ljóst að umræddar upplýsingar er ekki að finna í fyrirliggjandi gögnum í vörslum sveitarfélagsins.
Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga er heimilt að bera synjun beiðni um aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem úrskurðar um ágreininginn. Hið sama gildi um synjun stjórnvalds á beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er. Kæranda var ekki synjað um aðgang að fyrirliggjandi gögnum. Með vísan til framangreinds ber að vísa kæru málsins frá úrskurðarnefndinni.
Það athugast að beiðni kæranda 7. desember 2012 var ekki afgreidd fyrr en 28. janúar 2015 eða rúmlega tveimur árum eftir að beiðnin barst sveitarfélaginu þrátt fyrir að úrskurðarnefndin mæltist margsinnis til þess að tekin yrði ákvörðun í málinu. Meðferð Kópavogsbæjar á beiðni kæranda braut því gróflega gegn 1. mgr. 17. gr. upplýsingalaga.
Úrskurðarorð:
Vísað er frá kæru B á hendur Kópavogsbæ, dags. 24. maí 2013.
Hafsteinn Þór Hauksson
formaður
Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson