Hoppa yfir valmynd

576/2015. Úrskurður frá 23. mars 2015

Úrskurður

Hinn 23. mars 2015 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 576/2015 í máli ÚNU 13110005.

Kæra og málsatvik

Með erindum dags. 5. og 21. nóvember 2013 kærði A þá ákvörðun Lyfjastofnunar Íslands að synja honum um aðgang að vísindarannsóknaniðurstöðum vegna markaðsleyfis á bóluefnum og/eða fyrir notkun á innihaldsefnum í bóluefnum.

Í upphaflegri gagnabeiðni kæranda dags. 25. október 2013 var óskað eftir gögnum í 16 tölusettum liðum. Með bréfi dags. 1. nóvember 2013 tilkynnti Lyfjastofnun kæranda að ekki væri tilefni til að taka beiðnina til efnislegrar meðferðar, þar sem kærandi teldist ekki aðili máls í skilningi 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi bar ákvörðun Lyfjastofnunar undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál með bréfi dags. 5. nóvember 2013.

Þann 11. nóvember 2013 sendi kærandi aðra gagnabeiðni til Lyfjastofnunar þar sem óskað var að nýju eftir afritum af vísindarannsóknaniðurstöðum og/eða mati sem stofnunin styðjist við varðandi magn innihaldsefna í bóluefnum. Óskað var eftir gögnum í 13 tölusettum liðum. Kærandi ítrekaði síðari gagnabeiðni sína þann 15. nóvember 2013 en með bréfi dags. 19. nóvember 2013 tilkynnti Lyfjastofnun kæranda að ekki væri tilefni til að taka beiðnina til efnislegrar meðferðar á sömu forsendum og áður. Með bréfi dags. 21. nóvember 2013 bar kærandi síðari ákvörðun stofnunarinnar undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Málsmeðferð

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur ákveðið að fjalla um kærur kæranda í einu kærumáli enda eru aðilar þeir sömu og gagnabeiðnir kæranda lúta að sömu eða sambærilegum gögnum.

Með bréfi dags. 21. nóvember 2013 var Lyfjastofnun kynnt efni kæranna og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn. Jafnframt var óskað eftir því að úrskurðarnefnd um upplýsingamál yrði látið í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að. Umsögn stofnunarinnar barst þann 13. desember 2013. Þar kemur fram að kærandi hafi sent nokkuð mörg erindi til stofnunarinnar, sem eigi það sammerkt að vera almenns eðlis og varða sömu eða svipuð álitaefni. Fyrirspurnirnar hafi ekki varðað ákveðin stjórnsýslumál sem heyri undir Lyfjastofnun og kærandi ekki átt aðild að. Spurt hafi verið um lyf sem hafa svokallað miðlægt markaðsleyfi, sem gefin eru út af Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins fyrir aðildarríki þess eftir mat Lyfjastofnunar Evrópu. Ákvörðun um að veita tilteknu lyfi markaðsleyfi sé að því búnu innleidd í EFTA-ríkjunum innan 30 daga án frekari skoðunar af hálfu íslenskra stjórnvalda. Að sögn Lyfjastofnunar byggir þetta fyrirkomulag á innleiðingu tilskipunar 2001/83 í EES-samninginn. Stofnunin hafi því bent kæranda á að hafa samband við Lyfjastofnun Evrópu, óski hann frekari upplýsinga, þar sem stofnunin búi ekki yfir umbeðnum upplýsingum. Þá hafi stofnunin ekki bolmagn til að rannsaka einstök lyf eða bóluefni, heldur reiði sig á evrópskt samstarf um mat á tilkynningum um ætlaðar aukaverkanir lyfja.

Með bréfi dags. 16. desember 2013 var kæranda kynnt umsögn Lyfjastofnunar og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum, eigi síðar en 16. janúar 2014. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi þann 30. desember 2013. Þar kemur fram að upphafleg ákvörðun Lyfjastofnunar standist ekki, þar sem engu skipti hvort einstaklingur sem biður um aðgang að gögnum undir þessum málaflokki sé aðili málsins í skilningi 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá séu þær skýringar Lyfjastofnunar, að hún búi ekki yfir umbeðnum gögnum, ótrúverðugar. Í því samhengi segir kærandi að embætti landlæknis hafi bent kæranda á að óska gagnanna hjá stofnuninni.

Niðurstaða

Mál þetta varðar beiðnir kæranda um aðgang að niðurstöðum rannsókna sem hann ætlar að Lyfjastofnun styðjist við varðandi það hversu mikið magn tiltekinna innihaldsefna megi nota í bóluefni. Stofnunin tók beiðnir kæranda ekki til efnislegrar skoðunar í upphafi á þeirri forsendu að þær hafi ekki varðað stjórnsýslumál sem kærandi var aðili að. Af þessu tilefni tekur úrskurðarnefnd um upplýsingamál fram að hafi stofnuninni verið ljóst að kærandi gæti ekki reist beiðni sína á stjórnsýslulögum hefði hún átt að afgreiða hana á grundvelli upplýsingalaga nr. 140/2012. Af leiðbeiningarskyldu sem hvílir á stjórnvöldum leiðir jafnframt að sé grundvöllur gagnabeiðni óljós beri stjórnvaldi að leiðbeina borgaranum um þessi efni. Enda þótt upphafleg afgreiðsla Lyfjastofnunar á gagnabeiðnum kæranda hafi verið ófullnægjandi að þessu leyti hefur komið fram undir rekstri málsins að stofnunin hafi ekki í vörslum sínum þær rannsóknaniðurstöður sem kærandi krefst aðgangs að.

Réttur til aðgangs að gögnum tekur til fyrirliggjandi gagna tiltekins máls, sbr. 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Samkvæmt 20. gr. þeirra laga er heimilt að kæra til úrskurðarnefndar um upplýsingamál synjun stjórnvalds um að veita aðgang að slíkum gögnum. Sama gildir um synjun stjórnvalds á beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er. Af þessu leiðir að úrskurðarvald úrskurðarnefndar um upplýsingamál er afmarkað við að fjalla um réttmæti synjunar á beiðni um aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt lögunum og synjunar á beiðni um að afhenda gögn á tiltæku formi. Vísast um þetta til 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Þegar svo háttar til að umbeðin gögn eru ekki til staðar, og afhending þeirra kemur af þeim sökum ekki til greina, telst ekki vera um synjun stjórnvalds í skilningi 20. gr. að ræða og ber úrskurðarnefndinni að vísa kæru þar að lútandi frá.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur ekki forsendur til að rengja þá fullyrðingu Lyfjastofnunar að umbeðnar rannsóknaniðurstöður séu ekki í fórum stofnunarinnar. Af því leiðir ennfremur að ekki liggur fyrir synjun stjórnvalds um að veita aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt upplýsingalögum að þessu leyti. Samkvæmt framangreindu verður ekki hjá því komist að vísa málinu frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Úrskurðarorð:

Vísað er frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál kærum A, dags. 5. og 21. nóvember 2013, á hendur Lyfjastofnun.


Hafsteinn Þór Hauksson

formaður

 

 

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                     Friðgeir Björnsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta