Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 571/2020 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 571/2020

Miðvikudaginn 24. febrúar 2021

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 4. nóvember 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 1. október 2020 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn 22. maí 2020. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 1. október 2020, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að endurhæfing væri ekki fullreynd. Með tölvubréfi 2. október 2020 fór kærandi fram á rökstuðning Tryggingastofnunar ríkisins fyrir ákvörðuninni og var hann veittur með bréfi, dags. 13. október 2020.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 4. nóvember 2020. Með bréfi, dags. 5. nóvember 2020, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 27. nóvember 2020, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 4. desember 2020. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi óskar eftir að ákvörðun Tryggingastofnunar um að synja umsókn hans um örorkulífeyri verði endurskoðuð.

Í kæru kemur fram að upplýsingar hafi borist frá B heilsugæslulækni, auk þess sem C geðlæknir, sem hafi fylgt kæranda í veikindunum, muni styðja við þetta með læknabréfi.

Í apríl 2017 hafi þáverandi geðlæknir kæranda, D, sent beiðni til VIRK starfsendurhæfingarsjóðs um starfsendurhæfingu. Sú þjónusta hafi byrjað síðar í sama mánuði. Starfsendurhæfing kæranda síðastliðna 43 mánuði hafi falist í eftirfarandi þáttum:

- Format sálfræðings VIRK, maí 2017.

- Sálfræðimeðferð á tímabili starfsendurhæfingar, alls 24 viðtöl, og viðtöl í tengslum við DAM meðferð.

- Heilsumat og aðhald 1, 2 og 3 framhald hjá E 2017/2018 ásamt aðgangi að tækjasal og sundi. Kærandi hafi áfram sinnt hreyfingu á eigin vegum til að viðhalda árangri og byggja sig áfram upp varðandi líkamlegan styrk og þol. Kærandi hafi einnig tekið mataræði í gegn og stundi daglega hreyfingu í formi fjallgöngu, gönguferða og hjólreiða Kærandi hafi þurft að leggja áherslu á að stunda hreyfingu til heilsuræktar og vinna með viðhorf sín til hreyfingar að því leyti að nota hana ekki á neikvæðan hátt.

- Starfsendurhæfingarmat læknis og sálfræðings VIRK, júní/júlí 2018.

- Atvinnutengd DAM meðferð frá október 2018 til mars 2019.

- Atvinnulífstengill hjá VIRK, eftir fyrsta viðtal við hann í september 2019 hafi kærandi ekki treyst sér í ferlið eins og það hafi verið lagt upp. Upplifunin hafi verið sú að kærandi ætti að fara í markvissa atvinnuleit sem hafi valdið honum kvíða, vanlíðan og streitu. Ráðgjafi VIRK hafi stutt kæranda áfram til að taka skref til baka og vinna áfram í betri líðan, breytingar gerðar á lyfjum og fleira. Áfram hafi verið stefnt á tengingu við atvinnulífstengil. Í kjölfar COVID hafi verið óvissa í ákveðinn tíma sem hafi leitt til þess að tenging við vinnumarkað í formi vinnuprófana hafi verið illmöguleg. Kærandi sé aftur kominn í tengsl við atvinnulífstengil og stefnt sé á vinnuprófun á haustmánuðum. Markmið vinnuprófunar séu að auka sjálfstraust í vinnutengdum verkefnum, án þess að vera algjörlega á eigin vegum.

- Regluleg viðtöl hjá ráðgjafa.

Endurhæfing hjá VIRK hafi farið fram samhliða meðferð hjá C geðlækni. Lyfjabreytingar hafi farið fram á tímabilinu, auk þess sem reynd hafi verið raflostmeðferð með takmörkuðum árangri. Í dag sé kærandi lyfjalaus sem hafi verið hans markmið og hann verði áfram í tengslum við C sem hafi eftirlit með líðan og stöðu.

Kærandi sé vinnumiðaður og hafi alltaf stefnt að því að snúa aftur á vinnumarkaðinn. Kærandi hafi verið utan vinnumarkaðar á fjórða ár og líti hann á vinnuprófun sem tækifæri til að sjá stöðu sína og hvernig honum geti reitt af á almennum vinnumarkaði og eflt sig áfram í þeirri stefnu. Kærandi búi yfir reynslu og þekkingu á sviði X og X sem hann hafi trú á að geti nýst sér sem góður og eftirsóttur starfskraftur.

Þar sem réttindum kæranda til endurhæfingarlífeyris sé lokið og starfsgeta sé ekki til staðar hafi hann í samráði við lækni sótt um örorku. Kærandi hafi ákveðnar væntingar og vonir til þess að vinnuprófun geti aukið honum styrk og trú á sjálfan sig þannig að hann geti farið aftur á almennan vinnumarkað. Kærandi vilji eiga möguleika á að ljúka starfsendurhæfingunni á þennan hátt og vonandi með farsælum hætti sem geti þó brugðið til beggja vona.

Óskað sé eftir að endurskoðuð verði niðurstaða örorkumats að teknu tilliti til þess að þrátt fyrir að endurhæfing standi enn yfir, enda sé um að ræða lokahnykk í starfsendurhæfingu og stefnt sé að atvinnuþátttöku á næstu vikum.

Í ljósi tímalengdar frá vinnumarkaði og sjúkdómsgreininga megi ætla að það geti tekið tíma að ná upp fullri starfsgetu sem sé og hafi verið langtímamarkmið kæranda. Jafnframt telji kærandi sig eiga erindi í samræmi við umsókn sína að hitta lækni Tryggingastofnunar til að fá faglegt læknisfræðilegt mat á stöðu sinni og réttindum til örorku.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun á örorkulífeyri.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur. Hins vegar sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 19. gr. laga um almannatryggingar þeim sem skorti að minnsta kosti helming starfsorku sinnar. Um framkvæmd örorkumats sé fjallað í reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat.

Um endurhæfingarlífeyri sé fjallað í 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, sbr. 11. gr. laga nr. 120/2009 um breytingu á þeim lögum. Heimilt sé að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verði séð hver starfshæfni einstaklings sem sé á aldrinum 18-67 ára verði til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skuli inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum sé að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem teljist fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Heimilt sé að framlengja greiðslutímabil samkvæmt 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður séu fyrir hendi. Tryggingastofnun ríkisins hafi eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt.

Í 37. gr. laganna sé meðal annars kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins skuli kynna sér aðstæður umsækjenda og greiðsluþega og gera þeim grein fyrir rétti þeirra samkvæmt lögum þessum og öðrum lögum er stofnunin starfi eftir, reglugerðum settum á grundvelli laganna og starfsreglum stofnunarinnar. Við meðferð máls skuli staða og réttindi umsækjanda eða greiðsluþega skoðuð heildstætt. Stofnunin skuli leiðbeina umsækjanda um réttarstöðu hans, þau gögn sem þurfi að fylgja umsókn og um framhald málsins.

Málavextir séu þeir að kærandi hafi sótt um örorkumat með umsókn, dags. 22. maí 2020. Með örorkumati, dags. 1. október 2020, hafi honum verið synjað um 75% örorkumat á grundvelli þess að endurhæfing hafi ekki verið fullreynd. Kærandi hafi fengið greiddan endurhæfingarlífeyri í 36 mánuði fyrir tímabilið 1. júlí 2017 til 30. júní 2020. Ekki sé réttur til frekari framlengingar endurhæfingarlífeyris þar sem hámarkstíma greiðslna endurhæfingarlífeyris sé náð. Kærandi hafi óskaði eftir rökstuðningi 2. október 2020 sem hafi verið veittur 13. október 2020.

Við örorkumat lífeyristrygginga þann 1. október 2020 hafi legið fyrir umsókn, dags. 29. maí 2020, spurningalisti, móttekinn 9. júní 2020, læknisvottorð B, dags. 21. ágúst og 2. september 2020, greinargerð frá VIRK, dags. 14. september 2020, endurhæfingaráætlun, dags. 9. júní 2020, og starfsendurhæfingarmat, dags. 3. og 6. júlí 2018.

Með bréfi, dags. 31. ágúst 2020, hafi verið óskað eftir nýju læknisvottorði þar sem læknisvottorð, dags. 31. ágúst 2020, hafi verið á eyðublaði vegna umsóknar um bætur samkvæmt sjúklingatryggingu og hafi ekki að geyma nauðsynlegar upplýsingar. Með bréfi, dags. 10. september 2020, hafi verið óskað eftir upplýsingum um endurhæfingu og hvort hún sé fullreynd.

Í greinargerð Tryggingastofnunar er greint er frá því sem fram kemur í læknisvottorði, dags. 2. september 2020.

Í greinargerð ráðgjafa VIRK, dags. 14. september 2020, komi fram að ekki sé hægt að staðfesta að starfsendurhæfing sé fullreynd þar sem núna standi yfir tenging kæranda við atvinnulífstengil VIRK og fyrirhuguð sé vinnuprófun sem sé lokahnykkur í starfsendurhæfingu hans. Starfsendurhæfingarmat VIRK sé ekki tímabært fyrr en vinnuprófun hafi farið fram.

Tryggingastofnun telji að afgreiðsla umsóknar kæranda, þ.e. að synja örorkumati á grundvelli þess að endurhæfing sé ekki fullreynd, hafi verið rétt í þessu máli.

Nokkur fordæmi séu fyrir því í úrskurðum úrskurðarnefndar velferðarmála að tekið sé undir heimild Tryggingastofnunar samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga um félagslega aðstoð um að fara fram á það við umsækjendur um örorkubætur að þeir gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi. Í þessum samhengi vísar Tryggingastofnun meðal annars í úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála í málum nr. 57/2018, 234/2018, 299/2018, 338/2018, 235/2019, 260/2019, 350/2019, 375/2019, 380/2019, 383/2019 og 24/2020.

Í kærunni og öllum gögnum málsins komi einnig fram að kærandi hafi lokið 36 mánuðum á endurhæfingarlífeyri og eigi því ekki rétt á frekari greiðslum endurhæfingarlífeyris hjá Tryggingastofnun þar sem sá réttur sé tæmdur. Í því sambandi sé einnig tekið fram að mat á því hvort endurhæfing sé fullreynd miðist við læknisfræðilegar forsendur endurhæfingar en ekki önnur atriði eins og til dæmis framfærslu kæranda, búsetu eða aðrar félagslegar aðstæður hans eða það hvort viðkomandi uppfylli ekki einhver önnur skilyrði endurhæfingarlífeyris hjá stofnuninni. Það sjónarmið hafi einnig verið staðfest í mörgum úrskurðum úrskurðarnefndarinnar eins og til dæmis í úrskurðum í málum nr. 20/2013, 33/2016, 352/2017 og 261/2018.

Eins og áður hafi verið greint frá sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi um örorkumat hjá stofnuninni gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Stofnunin telji ljóst að endurhæfing sé ekki fullreynd í tilfelli kæranda, auk þess sem óvinnufærni ein og sér eigi ekki endilega að leiða til örorkulífeyris hjá Tryggingastofnun frekar en það að rétti til endurhæfingarlífeyris hjá sömu stofnun sé lokið. Jafnframt skuli áréttað að kærð ákvörðun hafi byggst á faglegum sjónarmiðum og gildandi lögum og reglugerðum.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 1. október 2020 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort heimilt sé að synja kæranda um örorkumat samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar á þeim grundvelli að endurhæfing sé ekki fullreynd, þrátt fyrir að kærandi hafi fullnýtt endurhæfingarlífeyri samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli.

Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. er heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 7. gr. laga nr. nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 1. og 2. mgr. 7. gr. laganna segir:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.“

Í læknisvottorði B, dags. 2. september 2020, segir að sjúkdómsgreining kæranda sé endurtekin geðlægðarröskun, yfirstandandi lota alvarleg án geðrofseinkenna. Um sjúkrasögu kæranda segir:

„X ára karlmaður sem hefur verið að þráðlátt og alvarlegt þunglyndi til fjölda ára sem lyf hafa lítið verkað á. Hefur verið í meðferð á vegum geðlækna og í eftirliti auk þess sem hann hefur verið inniliggjandi á geðdeild vegna veikinda. ECT meðferð reynd fyrir fáum árum en varð að hætta meðferð vegna líkamlegra viðbragða við meðferð. Hefur síðustu ár verið í meðferð og eftirliti hjá C geðlækni. Verið óvinnufær sl. 3 ár sökum veikinda. Hefur verið í endurhæfingu hjá VIRK og gengið vel. Fyrirhugað að VIRK fylgi A áfram inn í vinnuprófun og þannig verði skoðað með fullreynda möguleika til vinnuhæfni (sjá nánar skýrslu frá ráðgjafa VIRK). Í samráði við heimilislæknis, ráðgjafa hjá VIRK og geðlæknir C ákveðið að senda inn vottorð vegna tímabundnar örorku þar sem réttur til endurhæfingalífeyris er lokið.“

Samkvæmt vottorðinu hefur kærandi verið óvinnufær frá 31. maí 2017 en fram kemur að búast megi við að færni hans aukist eftir endurhæfingu.

Einnig liggur fyrir læknisvottorð B, dags. 21. ágúst 2020, sem er að mestu samhljóða vottorði hennar frá 2. september 2020.

Í fyrirliggjandi spurningalista vegna færniskerðingar svaraði kærandi spurningum sem snúa að líkamlegri og andlegri færni sinni. Af svörum hans verður ráðið að hann eigi ekki við líkamlega færniskerðingu að stríða. Kærandi svaraði spurningu um það hvort hann hafi átt við geðræn vandamál að stríða játandi og kvaðst hafa átt við langvarandi geðræn vandamál (þunglyndi og kvíða) að stríða. Geðsveiflur hindri virkni hans í daglegu lífi og kvíðaköst valdi erfiðleikum við einbeitingu og þátttöku á atvinnumarkaði.

Í greinargerð F, ráðgjafa hjá VIRK, dags. 14. september 2020, segir:

„Ekki er hægt að staðfesta að starfsendurhæfing sé fullreynd þar sem nú stendur yfir tenging A við atvinnulífstengil VIRK og fyrirhuguð er vinnuprófun. Það er lokahnykkur í starfsendurhæfingu A.

Starfsendurhæfingarmat hjá VIRK er ekki tímabært fyrr en vinnuprófun hefur farið fram.

[…]

Á tímabili endurhæfingar hefur A tekið þátt í ýmsum úrræðum og þjónustu á vegum VIRK sem og á eigin vegum. Format sálfræðings VIRK fór fram í maí 2017 og starfsendurhæfingarmat sálfræðings og læknis í sept. 2018 (meðfylgjandi).

[…]

Virk hefur skv. áætlunum í starfsendurhæfingu boðið A eftirfarandi þjónustu:

Stuðningur til líkamsræktar með stuðningi í E ásamt aðgangi í tækjasal og sund. Auk þess hefur A stundaði hreyfingu áfram í E á eigin vegum eða þar til þeir lokuðu sl. vor. Fór A þá til G í E allt að 6x í viku og leit á það sem ákveðna þjálfun í að sækja vinnu til G. Frá þeim tíma sem E lokaði hefur A verið markvisst í hreyfingu á eigin vegum, í formi fjallganga, annarar göngu og hjólreiða.

A lauk Atvinnutengdri DAM meðferð í mars 2019 og stefnt var að um haustið að tengja við atvinnulífstengil VIRK þar sem A taldi sig tilbuinn til að stíga inn á vinnumarkað með stuðningi. A hitti atvinnulífstengil í sept. 2019 en eftir það viðtal fann hann að hann var ekki tilbúinn. Því var haldið áfram að styrkja og styðja A til að stíga þetta skref og hafði það verið rætt áfram á árið 2020. Þegar Covid skall á var óvissa í ákveðinn tíma sem hafði þau áhrif á tenging við vinnumarkað í formi vinnuprófunar var illmöguleg. Nú er A kominn í tengsl við atvinnulífstengil og stefnt er á að vinnuprófun geti farið fram nú á haustmánuðum. Markmið vinnuprófunar eru að A eflist, fái aukið sjálfstraust í vinnutengdum verkefnum og sjái að hann býr yfir þekkingu og færni sem nýtist honum á vinnumarkaði. A hefur verið í sálfræðimeðferð á tímabili starfsendurhæfingar, alls 24 viðtöl + viðtöl sem veitt voru í tengslum við DAM meðferð.

A hefur frá upphafi starfsendurhæfingar verið vinnumiðaður og ætlað sér að komast aftur á vinnumarkað. Hann hefur verið virkileg duglegur að nýta sér þjónustuna sem og að nýta eigin þekkingu til að bæta við sig og efla sig til þess að snúa aftur á vinnumarkað.

[…] Ekki er tímabært að meta starfsgetu fyrr en upplýsingar um vinnuprófun liggja fyrir og raunfærni til ástundunar vinnu. Þjónusta VIRK mun halda áfram fram yfir lok vinnuprófunar sem unnið er að nú í samráði við atvinnulífstengil VIRK.

Í ljósi tímalengdar frá vinnumarkaði og sjúkdósmgreiningar má ætla að það geti tekið A tíma að ná upp fullri vinnugetu. Mikilvægt er að hann hafi trygga framfærslu nú þegar næstu skref eru tekin og neikvæð áhrif áhyggna hafi sem minnst áhrif á farsæla vinnuprófun og áframhaldandi vöxt í átt að betri heilsu, líðan og þátttöku.“

Í áætlun VIRK um endurhæfingu kæranda segir um framvindu endurhæfingar 9. júní 2020:

„Vegna áhrifa COVID hefur tenging við atvinnulífstengil VIRK dregist skv. áætlun í febrúar. Nú er rétti til endurhæfingarlífeyrislokið en ráðgjafi og A eru sammála því að láta reyna á vinnutengingu í gegnum atvinnulífstengil VIRK sem verður komið á nú í júní. Áframhaldandi endurhæfing er því fyrirhuguð fram á haust (sept/okt) og ef ekki verður framgangur þá hugað að lokum starfsendurhæfingar og metið hjá VIRK.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Eins og áður hefur komið fram er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi um örorkulífeyri gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar. Þá er hámarkstími endurhæfingar samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð 36 mánuðir sem kærandi er nú þegar búinn að nýta.

Fyrir liggur að kærandi býr við vandamál af geðrænum toga. Samkvæmt læknisvottorði B hefur kærandi verið óvinnufær frá 31. maí 2017 og fram kemur að búast megi við að færni hans aukist eftir endurhæfingu. Í greinargerð F, ráðgjafa hjá VIRK, dags. 14. september 2020, er greint frá því að ekki sé hægt að staðfesta að starfsendurhæfing kæranda sé fullreynd þar sem að fyrirhuguð sé vinnuprófun á vegum atvinnulífstengils VIRK sem sé lokahnykkur í starfsendurhæfingu. Einnig kemur fram í skjali VIRK um framvindu endurhæfingar, dags. 9. júní 2020, að áframhaldandi endurhæfing sé fyrirhuguð og ef ekki verði framgangur verði hugað að lokum starfsendurhæfingar.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ráðið verði af fyrirliggjandi læknisvottorðum, greinargerð VIRK og eðli veikinda kæranda að endurhæfing geti áfram komið að gagni, enda liggur fyrir áætlun um að reyna endurhæfingu frekar. Með hliðsjón af framangreindu er fallist á að Tryggingastofnun hafi verið heimilt að synja kæranda um örorkumat á þeim grundvelli að endurhæfing sé ekki fullreynd í tilviki kæranda.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn A, um örorkulífeyri og tengdar greiðslur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta