Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 4/2010

Föstudaginn, 25. mars 2011

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Ingibjörg Þorsteinsdóttir formaður, Einar Páll Tamimi hdl. og Arndís Anna K. Gunnarsdóttir hdl.

 

Þann 9. desember 2010 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A, dags. 9. desember 2010. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi, dags. 2. desember 2010, þar sem umsókn kæranda um greiðsluaðlögun var synjað.

 

Með bréfi, dags. 10. desember 2010, óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi, dags. 30. desember 2010.

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 4. janúar 2011, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda í bréfi, dags. 19. janúar 2011.

 

I.

Málsatvik

Kærandi lýsir aðstæðum sínum þannig að hann hafi leitað heimildar til greiðsluaðlögunar í kjölfar þess að skuldastaða hans hafi farið versnandi eftir gengisfall íslensku krónunnar árið 2008 en um 85% af skuldbindingum kæranda var í erlendri mynt. Einnig megi að hluta til rekja fjárhagsörðugleika kæranda til tímabundinnar tekjulækkunar eftir að hann missti starf sitt hjá X og þar til hann fékk starf á nýjan leik. Auk þess hafi mikið af eignum hans lækkað í verði í kjölfar hrunsins.

 

Helstu skuldir kæranda séu tilkomnar annars vegar vegna kaupa hans á helmingshlut í fasteigninni B á móti sambýliskonu sinni og hins vegar vegna hlutabréfakaupa sem voru fjármögnuð með lántökum í erlendum gjaldeyri.

 

Um samspil tekna og skuldbindinga segir í ákvörðun umboðsmanns að árið 2005 hafi nettótekjur kæranda verið 171.893 krónur en það ár hafi kærandi tekið lán að fjárhæð 3.650.000 krónur til kaupa á hlutabréfum í þáverandi Y banka. Sama ár hafi hann keypt ásamt sambýliskonu sinni húsnæði og nam skuldbinding vegna þess 15.200.000 krónum. Árið 2006 hafi nettótekjur kæranda verið 223.187 krónur á mánuði en á því ári hafi kærandi tekið 8.000.000 króna lán í erlendri mynt sem var varið til kaupa á hlutabréfum í Y banka. Árið 2007 hafi nettótekjur kæranda verið 272.693 krónur á mánuði að meðaltali og á því ári hafi hann stofnað til fjögurra nýrra skuldbindinga; í fyrsta lagi erlent lán upphaflega að fjárhæð 2.480.640 krónur, í öðru lagi erlent lán að fjárhæð 8.526.670 krónur en báðum þessum lánum hafi verið varið til að greiða niður óhagstæðari eldri lán. Í þriðja lagi hafi verið um að ræða lán að fjárhæð 17.000.000 króna sem var varið til kaupa á hlutafé í [erlendu] einkahlutafélagi og í fjórða lagi 8.000.000 króna lán hjá Z banka sem hafi verið varið til kaupa á peningabréfum Z banka með veði í bréfunum sjálfum.

 

Árið 2008 hafi nettótekjur kæranda verið að meðaltali 354.787 krónur á mánuði og á því ári hafi hann stofnað til þriggja nýrra skuldbindinga; tveggja nýrra lána hjá Z banka, hið fyrra að fjárhæð 950.000 krónur til að greiða upp kreditkortaskuld og hið síðara 850.000 krónur sem hafi verið varið til að greiða afborgun af öðru láni. Í þriðja lagi hafi kærandi keypt bifreið af fjármögnunarfyrirtækinu Æ og var samningsfjárhæðin 1.495.542 krónur. Árið 2009 hafi nettótekjur kæranda verið 407.328 krónur á mánuði en á því ári hafi kærandi stofnað til einnar nýrrar skuldbindingar hjá Þ banka að fjárhæð 940.000 krónur sem var varið til uppgreiðslu á láni frá árinu 2005 sem hafði verið varið til kaupa á hlutabréfum í Y banka.

 

Heildarskuldir kæranda eru 120.343.942 krónur samkvæmt skuldayfirliti í ákvörðun umboðsmanns skuldara. Þar af eru 31,5% skuldanna vegna húsnæðiskaupa en um 65% þeirra eru vegna fjárfestinga kæranda í hlutabréfum og peningabréfum.

 

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara, dags. 2. desember 2010, var umsókn kæranda um greiðsluaðlögun hafnað á grundvelli þess að hann hafi, með fjárfestingum sínum og tilheyrandi lántökum, tekið fjárhagslega áhættu sem var ekki í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárskuldbindinganna var stofnað, sbr. c-lið 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010.

 

II.

Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að synjun umboðsmanns á umsókn hans verði ógilt og honum veitt heimild til greiðsluaðlögunar.

 

Kærandi kveðst hafa farið varlega af stað í fjárfestingum og bendir á að hann hafi ekki hafið fjárfestingar fyrr en árið 2006. Hafi allar fjárfestingar kæranda verið hóflegar og þannig búið um hnútana að hann hefði getað staðið undir þeirri áhættu sem fólst í fjárfestingunum við eðlilegar aðstæður. Kærandi telur sig hafa ágætisþekkingu á hlutabréfaviðskiptum þeim sem hann stundaði og bendir á að hann hafi stundað nám til að öðlast löggildingu sem verðbréfamiðlari. Honum hafi hins vegar verið fyrirmunað að sjá fyrir þá atburðarás sem átti sér stað haustið 2008 og það algjöra hrun krónunnar sem varð. Hafnar kærandi því mati umboðsmanns skuldara að hann hafi tekið fjárhagslega áhættu sem var ekki í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárskuldbindinganna var stofnað. Mótmælir hann því mati umboðsmanns skuldara að sem starfsmanni X hefði honum átt að vera ljós sú áhætta sem gengistryggð lán fólu í sér. Hafi kærandi ekki getað séð fyrir þá gífurlegu rýrnun eigna sem varð og þá hækkun á lánum sem gengisfall krónunnar leiddi til. Hafi þvert á móti allar hans skuldbindingar verið hóflegar og þannig að kærandi hefði getað staðið undir þeim þrátt fyrir einhverja lækkun krónunnar og eðlilegar sveiflur á markaði.

 

Kærandi gerir einnig athugasemd við að tekin sé heildarfjárhæð skulda hans í umsókninni án þess að rekja það sem stendur þeim að baki. Sem dæmi megi nefna að stærsta einstaka skuld kæranda sem nefnd er í skuldayfirliti sé í raun lán sem sex einstaklingar standa að baki en það er tryggt með veði í fasteignum sex raunverulegra lántakenda þótt hann sé skráður sem aðalskuldari.

 

Kærandi segist hafa fjárfest í góðri trú um að viðskiptahættir væru eðlilegir og miðað við þróun síðustu ára. Hafi hann einnig verið í góðri trú um að lánasamningar hans í erlendum gjaldmiðli væru löglegir með tilliti til laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001. Hafi hann gert allt sem hann gat til að standa í skilum með sínar fjárfestingar en fyrstu vanskilin hafi komið árið 2009 þegar hann hafi skilað bíl sínum til Æ og söluandvirði hans ráðstafað upp í eftirstöðvar lánsins.

 

Kærandi telur óeðlilegt að dæma fjárfestingar hans með þeim hætti sem umboðsmaður geri. Telur hann að meta verði skuldbindingar hans út frá þeim forsendum sem voru uppi á þeim tíma þegar til þeirra var stofnað og jafnframt að skoða verði hvaða eignir hafi staðið að baki þeim.

 

Í athugasemdum kæranda við greinargerð umboðsmanns kemur fram að hann telur að óvissa ríki um fjárhæð ýmissa krafna á hendur sér, meðal annars vegna óvissu um endurreikning lána í erlendri mynt og aðgerða bankanna vegna yfirveðsetningar heimila (110% veðsetningar). Þá telur hann vafa leika á hvernig Z banki hafi ráðstafað þeim fjármunum sem hann fékk greidda þegar peningamarkaðssjóðir bankans voru gerðir upp.

 

III.

Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að hafna umsókn kæranda um greiðsluaðlögun er á því byggð að kærandi hafi tekið fjárhagslega áhættu sem var ekki í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma þegar til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað.

 

Vísar umboðsmaður skuldara til 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga þar sem kemur fram í c-lið að heimilt sé að synja umsókn um greiðsluaðlögun hafi skuldari hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað. Vísar umboðsmaður skuldara til greinargerðar með frumvarpi til laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010, en þar kemur fram að ástæðurnar sem taldar eru upp í 2. mgr. 6. gr. laganna eigi það sameiginlegt að ekki geti verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verði að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni.

 

Samkvæmt gögnum frá skuldara komi fram að kærandi hafi á árunum 2005–2007 tekið lán að fjárhæð 36.500.000 krónur sem notuð voru til hlutabréfa- eða peningabréfakaupa. Sé það því ljóst að skuldasöfnun kæranda megi rekja til ámælisverðrar háttsemi hans sjálfs. Því hafi umboðsmanni skuldara verið skylt að synja umsókn kæranda.

 

IV.

Niðurstaða

Umboðsmaður skuldara byggir ákvörðun sína um synjun á umsókn kæranda um greiðsluaðlögun á c-lið 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010. Ákvæði þetta á sér fyrirmynd í 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti, nr. 21/1991, sem nú er fallið úr gildi, en ákvæðið kom inn í lögin með lögum nr. 24/2009 þar sem lögfest voru í fyrsta skipti ákvæði um greiðsluaðlögun.

 

Þótt 2. mgr. 6. gr. sé að mestu leyti samhljóða framangreindu ákvæði laga um gjaldþrotaskipti er ekki sjálfgefið að beiting þeirra skuli vera með sama hætti. Leiðir það í fyrsta lagi af því markmiði laganna um greiðsluaðlögun einstaklinga að þeim er ætlað að gera einstaklingum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð, svo sem segir í 1. gr. laganna. Í almennum athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laganna segir að með þeim eigi að festa í lög sértækar reglur til að færa raunvirði fjárkrafna að veruleikanum og jafnframt að einstaklingar fari framvegis frekar þessa leið við uppgjör og endurskipulagningu fjármála sinna en þvingaða leið skuldaskilaréttarins. Þá segir jafnframt í athugasemdunum að þótt sú breyting sem gerð var á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., með lögfestingu X. kafla a um nauðasamninga til greiðsluaðlögunar hafi um margt reynst vel, hafi það verið gagnrýnt að lögin taki um of mið af skuldaskilaréttinum og hagsmunum kröfuhafa og að skilyrði til greiðsluaðlögunar samkvæmt þeim séu of ströng. Loks er í greinargerðinni lögð áhersla á þjóðfélagslegt mikilvægi löggjafarinnar þar sem hún muni hraða endurreisn efnahagslífsins með því að auðvelda endurskipulagningu fjárhags einstaklinga.

 

Í 1. mgr. 6. gr. laganna er kveðið á um tiltekin skilyrði þess að veitt verði heimild til greiðsluaðlögunar en í 2. mgr. sömu greinar er einungis um að ræða heimild til þess að synja um heimild til greiðsluaðlögunar, þyki það óhæfilegt að veita slíka heimild. Þannig er 2. mgr. 6. gr. heimildarákvæði sem leggur þá skyldu á herðar umboðsmanni skuldara að meta sjálfstætt í hverju tilviki fyrir sig hvort aðstæður séu með þeim hætti að talið verði óhæfilegt að veita heimild til greiðsluaðlögunar. Við það mat skuli hann taka tillit til þeirra atriða sem tilgreind eru í stafliðum a–g sömu greinar.

 

Orðalag 63. gr. d laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti, var nokkuð annað. Í 1. mgr. 63. gr. d sagði að héraðsdómari gæti hafnað beiðni um heimild til að leita greiðsluaðlögunar ef eitthvert þeirra atriða sem talin voru 1.–6. tölul. greinarinnar ættu við. Af því sem fram kemur í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laga nr. 24/2009 má ráða að litið hafi verið svo á að greinin fæli í sér upptalningu á frekari skilyrðum sem skuldari þyrfti að fullnægja til að fá heimild til greiðsluaðlögunar. Þannig virðist hafa verið gengið út frá því að héraðsdómari hafnaði beiðni um greiðsluaðlögun væri eitthvert þeirra atriða fyrir hendi sem í greininni voru talin.

 

Af því sem að framan segir, um markmið hinna nýju laga um greiðsluaðlögun einstaklinga og breyttu orðalagi ákvæðisins, ber að skýra ákvæði 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga á þann veg að mat umboðsmanns skuldara geti eftir atvikum orðið annað og vægara en leiða má af fordæmum Hæstaréttar í málum sem varða beitingu 63. gr. d gjaldþrotaskiptalaganna. Segir enn fremur í athugasemdum við ákvæði 6. gr. í frumvarpi til laga nr. 101/2010 að ekki sé gert ráð fyrir að þessi matskenndu atriði verði túlkuð rýmra en efni séu til. Miða skuli eftir atvikum við þá framkvæmd sem þegar er komin á og dómvenju en jafnframt hafa í huga að þegar skuldari glímir við verulegan fjárhagsvanda hljóti vissulega eitt og annað að hafa farið úrskeiðis hjá honum án þess þó að framangreind atriði verði talin eiga við þannig að girt sé fyrir greiðsluaðlögun.

 

Í ákvörðun umboðsmanns kemur fram að með því að hafa tekið framangreind lán til hlutabréfakaupa hafi kærandi í raun tekið tvöfalda áhættu auk þess sem aukaáhætta hafi falist í því að taka lánin í erlendri mynt. Bendir það til þess að farið hafi fram mat á því hvort kærandi teljist hafa tekið áhættu í skilningi c-liðar 2. mgr. 6. gr. Í ákvörðun umboðsmanns segir hins vegar að lokum að „[m]eð vísan til alls þess sem framan greinir ber umboðsmanni að hafna umsókn umsækjanda um greiðsluaðlögun með vísan til c-liðs [svo] 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010“. Einnig kemur fram í greinargerð umboðsmanns skuldara vegna kærunnar, dags. 30. desember 2010, að hann telji sér hafa borið lagaleg skylda til þess að synja umsókn kæranda með vísan til c-liðar 2. mgr. 6. gr. Virðist því umboðsmaður skuldara hafa beitt heimildarákvæðinu í 2. mgr. 6. gr. sem um skilyrði væri að ræða og þannig látið hjá líða að leggja heildstætt mat á það hvort að óhæfilegt þyki að veita greiðsluaðlögun með vísan til sömu málsgreinar.

 

Af ákvörðun umboðsmanns, sem og ummælum í greinargerð, má ráða að ekki hafi með fullnægjandi hætti verið lagt heildarmat á aðstæður kæranda á þann hátt sem 2. mgr. 6. gr. áskilur. Ekki er heldur skýrt á hverju umboðsmaður byggir mat sitt að um ámælisverða áhættu hafi verið að ræða. Þá er ekki ljóst hvort umboðsmaður hefur aflað einhverra gagna sem varpa ljósi á það hvort einstakar fjárfestingar fólu í sér verulega fjárhagslega áhættu, hvaða fjárfestingar teljist til áhættusamra og hverjar ekki eða hvort hér sé um að ræða það mat umboðsmanns skuldara að fjárfestingar í hlutabréfum og peningamarkaðsbréfum yfirhöfuð teljist vera fjárhagsleg áhætta í skilningi c-liðar 2. mgr. 6. gr.

 

Að auki virðist rannsókn umboðsmanns ekki hafa beinst að því að kanna með fullnægjandi hætti raunverulega eigna- og skuldastöðu umsækjanda sem þó er forsenda þess að hægt sé að leggja mat á raunverulega fjárhagslega stöðu hans og meta hvort skilyrði greiðsluaðlögunar séu fyrir hendi. Þannig er ekki skýrt hvernig því fé var ráðstafað sem kærandi fékk endurgreitt eftir uppgjör peningamarkaðssjóða Z banka. Ekki virðist heldur liggja fyrir verðmæti eigna kæranda annarra en fasteignar þeirrar sem hann á ásamt sambýliskonu sinni. Í greinargerð sem fylgdi umsókn kæranda, dags. 9. nóvember 2010, kemur fram að kærandi eigi hlut í hlutafélaginu Ö, að nafnvirði 170.496 evrur. Í ákvörðun umboðsmanns er hvergi vikið að þessari eign kæranda né í gögnum málsins að finna upplýsingar um verðmæti hennar nú. Þar sem stærsta einstaka skuldbinding kæranda er vegna láns sem tekið var til þess að fjármagna kaup í umræddu hlutafélagi hefði verið eðlilegt að fyrir lægju nánari upplýsingar um virði þessara hlutabréfa, möguleika skuldara á að koma þeim í verð og að hvaða marki þau gætu staðið undir skuldbindingu þeirri sem að baki liggur. Ekki er ljóst af gögnum málsins að hvaða marki umboðsmaður skuldara hefur kannað verðmæti þessarar eignar kæranda en ekkert er að finna í gögnum málsins annað en yfirlit yfir hluthafa og almennar upplýsingar um verkefnið sem fjárfest var í.

Þá liggur fyrir að þegar hin kærða ákvörðun var tekin var uppi ákveðin óvissa varðandi fjárhæðir lána í erlendri mynt í kjölfar dóms Hæstaréttar frá 16. júní 2010, í máli nr. 153/2010. Ekki verður séð að það hafi verið kannað sérstaklega hvort einhverjar kröfur kæranda gætu hugsanlega lækkað í kjölfar dómsins. Er ljóst að endurútreikningar einhverra lána kæranda gætu haft mikil áhrif á skuldastöðu hans.

 

Með vísan til orðalags í ákvörðun umboðsmanns skuldara og ummæla í greinargerð umboðsmanns, sem bera með sér að 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga hafi ekki verið beitt með réttum hætti, ásamt því að margt er óljóst varðandi raunverulega skulda- og eignastöðu kæranda, verður hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara felld úr gildi.

 

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um greiðsluaðlögun er felld úr gildi.

 

 

Ingibjörg Þorsteinsdóttir

Einar Páll Tamimi

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta