Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 33/2011

Þriðjudaginn 11. október 2011

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú r s k u r ð u r

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson hrl., Guðmundur Sigurðsson læknir og Hjördís Stefánsdóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 27. janúar 2011, kærir A, tekjuskerðingu ellilífeyrisgreiðslna.

Óskað er endurskoðunar.

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að ellilífeyrisgreiðslur kæranda hér á landi skerðast vegna búsetu hennar erlendis í tæplega 27 ár. Þá skerðast ellilífeyrisgreiðslurnar vegna tekna og gerir kærandi athugasemdir við það.

 

Í kæru til úrskurðarnefndar almannatrygginga segir svo:

 „Ég bjó á B í 27 ár frá tvítugsaldri. Ég fæ lífeyrisgreyðslur sem eru skertar um þriðjung. Greinilega er ætlast til að ég fái greiðslur, eða tekjur, sé samsvara skerðingunni. Ég hef ekki fengið Lífeyrisgreiðslur annars staðar frá fyrr en nú. Þetta eru smámunir frá VR og um leið er hlaupið til og lífeyrir minn skertur. Ekki taldi ég hægt að væri að skerða min ífeyri frá TR meira en nú er gert. Það gleymdist að á bak við þessar tölur er fólk sem er að reyna að lifa af þessum lífeyri sem hingað til hefur verið X.- Að vísu er ég enn að endurgreiða lífeyri frá 2005 eða 06. Faðir minn lést um mitt ár 2xxx. Endurgreiðsla hefur verið X kr.- til rúm X kr.- Vissulega er ekki hægt að gera greiðsluáætlun í byrjun ársins sem faðir deyr um að maður sé að fá arf. Eins var ég ákaflega illa upplýst um lög ykkar. Samt finnst mér að rétt hefði verið að reikna með arfinum sem lífeyrisviðbót fyrst ég var á svo skertum bótum sem benda jú til að mér sé ætlað að ná viðbót upp á þriðjung sem kæmi mér í flokk hinna réttlátu sem fá þó fullan lífeyri. C lætur mig fá rétt rúm X.- á mánuði sem er helmingur af því sem ég fengi nema að þeir reikna mína skuld til ykkar sem tekjur. Þar af leiðandi skerðist sú aðstoð vegna þess að ég ætti að fá rúmar X.- en þið eruð enn að láta mig borga fyrir árið sem þið að ykkar mati ofgreidduð mér og telst það mér til tekna af C. Nú hafið þíð hrifsað til ykkar þessar u.þ.b X.- frá VR Aðalatriðið hér er þó að benda á og kæra þessa lögleysu að minn lífeyeyrir ( nú síðast frá ykkur X.-) sé skertur en meir fái ég viðbót úr annarri átt. Ég má alveg hafa tekjur upp í þennan þriðjung, annað er lögleysa.

Nú spyr ég: á hvaða forsendum er minn lífeyrir aðeins tveir þriðju af fullum lífeyri? Svar: Vegna búsetu í öðru landi. Gott og vel. Spurning: Hvers vegna má ég ekki fá eitthvað eða jafnvel allan þriðjunginn annars staðar frá ef ég get án þess að það skerði mínar skertu bætur enn meir. Reyndar er þetta mismunun á hæsta stigi og mannréttindabrot. Það þýðir ekkert að benda á þessi lög ykkar um skerðingu krónu fyrir krónu. Þau hreinlega eiga ekki við í mínu tilfelli.“

 

Úrskurðarnefnd almannatrygginga óskaði eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins með bréfi dags. 23. febrúar 2011. Greinargerð dags. 9. mars 2011 barst frá stofnuninni þar sem segir svo:

 „Kærð er skerðing ellilífeyris vegna búsetutíma erlendis.

Kærandi hefur fengið greiddan ellilífeyri frá 1. ágúst 2007 og eru greiðslur skertar vegna búsetu á B á tímabilinu 26. nóvember 19xx – 20. júlí 19xx, þ.e. í 26 ár og tæplega 8 mánuði.

Heimild til greiðslu örorkulífeyris byggist á 18. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 (ATL).  Þar segir í 1. og 4. mgr.:

Rétt til örorkulífeyris eiga þeir sem hafa verið búsettir á Íslandi, sbr. II. kafla, eru á aldrinum 16 til 67 ára og:

a.              hafa verið búsettir á Íslandi a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram eða í sex mánuði ef starfsorka var óskert er þeir tóku hér búsetu,

b.       eru metnir til a.m.k. 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar.

Fullur örorkulífeyrir skal vera X. á ári og greiðist hann eftir sömu reglum og ellilífeyrir, sbr. þó 5. mgr. Við ákvörðun búsetutíma, sbr. 1. mgr. 17. gr., skal reikna með tímann fram til 67 ára aldurs umsækjanda.

Í 1. mgr. 17. gr. segir:

Rétt til ellilífeyris eiga þeir sem eru 67 ára eða eldri og hafa verið búsettir hér á landi, sbr. II. kafla, a.m.k. þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Fullur ellilífeyrir skal vera X kr. á ári og greiðist þeim einstaklingum sem hafa verið búsettir hér á landi, sbr. II. kafla, a.m.k. 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs, sbr. þó 2. mgr. Sé um skemmri tíma að ræða greiðist ellilífeyrir í hlutfalli við búsetutímann. Heimilt er þó að miða lífeyri beggja hjóna, sem bæði fá lífeyri, við búsetutíma þess sem á lengri réttindatíma.

Kærandi var búsett erlendis í 26,66 ár af þeim 51 árum sem koma til skoðunar við útreikning á búsetuhlutfalli örorkulífeyris.  Búseta hennar hér á landi reiknast því 24,34 ár af þeim 40 árum sem þarf til að fá fullar greiðslur, þ.e. 61%.

 

Greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins var send kæranda til kynningar með bréfi dags. 10. mars 2011 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Með bréfi dags. 20. mars 2011 bárust svofelldar athugasemdir frá kæranda:

 „1. kæra mín var ekki vegna búsetutíma erlendis. Þetta hefur verið mér ljóst og gerði ég ekki athugasemd við það. Þar til mars í ár var ég með X rúm sem snarlækkuðu þegar mér fóru að berast X rúmar frá LV í X kr. Ég spurði þjónustufulltrúa hvort þetta væri rét ályktað og hún sagði að svo væri.

2. Mér reiknast að í greiðsluáætlun frá Tryggingastofnun 3/2011 að greiða til mín hafi lækkað sem svarar nýrri greiðslu til mín (frá 70 aldri) sem er rúm X  kr. á mán. Þá kom upp sú spurning hversvegna þessi lífeyrisgreiðsla væri ekki hugsuð sem réttmæt viðbót upp í þau 39% sem vantar upp á lífeyri minn sem er skertur sem þessu nemur.

3. Misrétti? Mismunun? Mannréttindabrot? Er ekki gert ráð fyrir að ég fái viðbótar lífeyrisgreyðslur einhverstaðar frá. Jafnvel að ég mætti hafa tekjur án frekari skerðingar þar til ég hefði náð sömu réttindum og aðrir sem fá 100%.

4. Sem sagt, Ég vil fá úr því skorið hversvegna skerðing heldur áfram. Ég vil fá að vita hversvegna ég má ekki afla þeirra 39% sem um ræðir með viðbótarlífeyri eða með öðrum hætti án frekari skerðingar.

 

Athugasemdir kæranda voru kynntar Tryggingastofnun ríkisins með bréfi dags. 11. apríl 2011. Viðbótargreinargerð dags. 22. júní 2011 barst frá stofnuninni þar sem segir svo:

 „Borist hafa viðbótargögn dags. 20. mars sl. þar sem kærandi gerir grein fyrir því að kæra hafi ekki verið vegna búsetu erlendis heldur vegna þess að tekjur annars staðar frá skerði lífeyrisgreiðslur frá TR.

Kærandi fær greiddar 61% ellilífeyrisgreiðslur vegna þess að hún uppfyllir ekki skilyrði 1. mgr. 17. gr. almannatryggingalaga nr. 100/2007 um fullar greiðslur vegna búsetu sinnar erlendis í 27 ár.  Hún spyr hvers vegna hún megi ekki afla þeirra 39% sem á vantar upp á 100% greiðslur með viðbótarlífeyri eða með öðrum hætti án frekari skerðingar.  Hún telur sér mismunað með því að ekki sé gert ráð fyrir að hún fái viðbótar lífeyrisgreiðslur einhvers staðar frá.

Í 17. gr., sbr. 16. gr. , laga um almannatryggingar nr. 100/2007 (ATL) er kveðið á um skilyrði fyrir greiðslu ellilífeyris og skerðingu hans, annars vegar á grundvelli þess að búsetatímabil hafi verið styttra en þarf til þess að fá fullar greiðslur og hins vegar vegna tekna annars staðar frá.

Í 1. mgr. 17. gr. laganna er kveðið á um að búseta hér á landi í 40 ár á aldrinum 16-67 ára sé skilyrði fyrir 100% greiðslum ellilífeyris.  Einstaklingur ávinnur sér þannig rétt til að fá greiddan ellilífeyri eftir að 67 ára aldri er náð með því að vera búsettur og þar með tryggður hér á landi á tilgreindu aldurstímabili.  Einstaklingur sem eru ekki búsettur hér á landi á þessu aldurstímabili ávinnur sér ekki rétt til ellilífeyrisgreiðslna hér á landi og ef hann hefur verið búsettur hér á landi hluta þessa aldurstímabils ávinnur hanns sér rétt í hlutfalli við lengd búsetu sinnar hér á landi. 

Í 2. mgr. 17. gr. ATL er síðan kveðið á um skerðingu ellilífeyrisgreiðslna vegna tekna og að um framkvæmdina fari eftir 16. gr. laganna. 

Sams konar reglur eiga við um um tengdar bætur skv. viðeigandi ákvæðum í ATL eða í lögum um félagslega aðstoð nr. 99/2007 (FEL). 

Í lögunum er ekki að finna heimild fyrir því, að einstaklingur sem fær skertar ellilífeyrisgreiðslur vegna þess að hann uppfyllir ekki 40 ára búsetuskilyrðið fyrir því að fá óskertar bætur, geti fengið hærri tekjur annars staðar frá án þess að þær skerði bæturnar til að vega upp á móti því að hann fær lægri ellilífeyrisgreiðslur vegna búsetuskerðingarinnar. 

Á hinn bóginn skal á það bent, að einstaklingur sem fær skertar lífeyrisgreiðslur vegna búsetuskerðingar getur átt rétt á fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi sínu til viðbótar lífeyrisgreiðslum frá TR en hún skerðir ekki greiðslur ellilífeyris, tekjutryggingar og heimilisuppbótar skv. 3.-4. mgr. 16. gr. ATL og 8. gr. FEL. 

Að lokum, varðandi þá fullyrðingu kæranda að hún hafa fengið þau svör frá þjónustufulltrúa að það væri rétt ályktað hjá sér að útborgaður lífeyrir sinn hafi lækkað úr rúmum X kr. eftir að hún fór að fá rúmar X kr. úr lífeyrissjóði í X kr. í mars 2011, þá á þetta ekki við rök að styðjast.  Þarna var eingöngu um það að ræða að hlutfall fyrirliggjandi skattkorts kæranda hjá TR hafði lækkað úr 100% í 70% og útborgaðar lífeyrisgreiðslur hennar höfðu í kjölfarið lækkað vegna staðgreiðslu skatta.

 

Viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins var kynnt kæranda með bréfi dags. 24. júní 2011. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Mál þetta varðar skerðingu á bótarétti kæranda vegna tekna.

Í kæru greindi kærandi frá því að hún hafi búið erlendis í 27 ár. Hún fái lífeyrisgreiðslur sem séu skertar um þriðjung. Kærandi er ósátt við að lífeyrir hennar sé skertur meira en hann hefur verið skertur nú þegar fái hún viðbót úr annarri átt. Hún telur sig eiga rétt á að hafa tekjur upp í þann þriðjung sem lífeyrir hennar hefur nú þegar verið skertur. Í athugasemdum við greinargerð Tryggingastofnunar greindi kærandi frá því að hún væri ekki að kæra skerðingu lífeyris vegna búsetu erlendis. Hún sé ósátt við að hún megi ekki afla tekna upp í þau 39% sem vanti upp á að hún fái fullan lífeyri.

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins var greint frá því að kærandi hafi verið búsett erlendis í 26,66 ár af þeim 51 árum sem koma til skoðunar við útreikning á búsetuhlutfalli örorkulífeyris. Búseta hennar hér á landi reiknist því sem 24,34 ár af þeim 40 árum sem þurfi til að fá fullar greiðslur, þ.e. 61%. Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar var vísað til þess að í lögum sé ekki að finna heimild fyrir því að einstaklingur sem fái skertar ellilífeyrisgreiðslur vegna þess að hann uppfylli ekki 40 ára búsetuskilyrði fyrir því að fá óskertar bætur, geti fengið hærri tekjur annars staðar frá án þess að þær skerði bæturnar til að vega upp á móti því að hann fái lægri ellilífeyrisgreiðslur vegna búsetuskerðingarinnar.

Um greiðslu ellilífeyris er fjallað í 17. gr. laga um almannatryggingar. Í 1. mgr. 17. gr. segir m.a. svo:

 „Rétt til ellilífeyris eiga þeir sem eru 67 ára eða eldri og hafa verið búsettir hér á landi, sbr. II. kafla, a.m.k. þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Fullur ellilífeyrir skal vera [... ] kr. á ári og greiðist þeim einstaklingum sem hafa verið búsettir hér á landi, sbr. II. kafla, a.m.k. 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs ... Sé um skemmri tíma að ræða greiðist ellilífeyrir í hlutfalli við búsetutímann....“

Samkvæmt tilvitnuðu ákvæði koma fullar greiðslur ellilífeyris og tekjutryggingar því aðeins til álita hafi verið um búsetu í a.m.k. 40 almanaksár að ræða frá 16 til 67 ára aldurs framreiknað í samræmi við 1. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar. Samkvæmt því sem fram hefur komið í málinu uppfyllir kærandi búsetuskilyrðin ekki að fullu vegna búsetu erlendis á þessu tímabili. Nýtur kærandi því skertra lífeyrisréttinda. Samkvæmt gögnum málsins var kærandi búsett erlendis frá  19xx til  19xx. Hún hefur verið búsett hérlendis frá þeim tíma. Búseta hennar erlendis eftir 16 ára aldur eru 26,66 ár. Framreiknaður búsetutími kæranda hérlendis frá 16 ára aldri til 67 ára aldurs eru 24,34 ár. Samkvæmt framangreindu ákvæði 1. mgr. 17. gr. laga um almannatrygginga vinnur kærandi sér inn full réttindi á 40 árum og á hún því rétt á 61% greiðsluhlutfalli ellilífeyris.

Ágreiningur málsins lýtur að þeirri beiðni kæranda um að hún fái að njóta tekna upp í þau 39% sem vanti upp á fullar lífeyrisgreiðslur, þ.e. að tekjur hennar utan við tekjur frá Tryggingastofnun ríkisins komi ekki til skerðingar á lífeyrisgreiðslum frá stofnuninni.

Tryggingastofnun ríkisins greiðir ellilífeyri á grundvelli laga um almannatryggingar nr. 100/2007. Samkvæmt 2. mgr. 17. gr. laganna er ellilífeyrir tekjutengdur. Þá eru í 16. gr. laga um almannatryggingar tilteknar þær tekjur sem skerða lífeyrisgreiðslur Tryggingastofnunar og eru þar á meðal lífeyrissjóðstekjur. Tilvísuð lagaákvæði eru fortakslaus. 

Líkt og að framan greinir skerðast lífeyrisgreiðslur kæranda vegna búsetu hennar erlendis. Tryggingastofnun ríkisins ber að framkvæma bótaútreikning eftir ákvæðum laga um almannatryggingar. Úrskurðarnefnd almannatrygginga hefur yfirfarið útreikning Tryggingastofnunar ríkisins á lífeyrisgreiðslum kæranda og gerir ekki athugasemdir við hann. 

Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar almannatrygginga að staðfesta útreikning Tryggingastofnunar ríkisins á ellilífeyrisgreiðslum kæranda.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um skerðingu ellilífeyrisgreiðslna til A, er staðfest.

 

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

Friðjón Örn Friðjónsson formaður




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta