Hoppa yfir valmynd

Matsmál nr. 1/2021, úrskurður 27. ágúst 2021

Föstudaginn 27. ágúst 2021 var í matsnefnd eignarnámsbóta tekið fyrir matsmálið nr. 1/2021

 

 

Umhverfis- og auðlindaráðherra

gegn

Guðrúnu Maríu Valgeirsdóttur

R3 ehf.

Bryndísi Jónsdóttur

Sigurði Jónasi Þorbergssyni

Sigurði Baldurssyni

Garðari Finnssyni

Hilmari Finnsyni

og Gísla Sverrisyni

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r :

 

I

Skipan matsnefndar eignarnámsbóta:

Matsnefnd eignarnámsbóta er í máli þessu skipuð Valgerði Sólnes, dósent, formanni, ásamt þeim Daða Má Kristóferssyni, prófessor, og Karli Axelssyni, prófessor og hæstaréttardómara, sem formaður kvaddi til starfans samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

 

II

Matsbeiðni, eignarnámsheimild, aðilar og matsandlag:

Með bréfi 20. janúar 2021 fór meirihluti eigenda jarðarinnar Reykjahlíðar í Skútustaðahreppi, nánar tiltekið eigendur lögbýlanna Reykjahlíðar I, Reykjahlíðar II, Reykjahlíðar III, Reykjahlíðar IV og Víðihlíðar (hér eftir matsþolar) þess á leit við matsnefnd eignarnámsbóta að hún ákveddi bætur þeim til handa á grundvelli 3. mgr. 42. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd vegna friðlýsingar umhverfis- og auðlindaráðherra (hér eftir ráðherra) á háhitasvæði Gjástykkis (hér eftir friðlýsingin), í samræmi við auglýsingu 1. apríl 2020 nr. 367/2020 um verndarsvæði á Norðausturlandi - háhiti Gjástykkissvæðis í verndarflokki verndar- og orkunýtingaráætlunar sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 22. sama mánaðar (hér eftir auglýsingin 1. apríl 2020). Með auglýsingu 16. júní 2021 nr. 720/2021 um breytingu á auglýsingu nr. 367/2020 sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 18. sama mánaðar (hér eftir auglýsingin 16. júní 2021) var 4. gr. auglýsingarinnar 1. apríl 2020 breytt. Undir meðferð málsins fyrir matsnefnd lýstu aðilar því yfir að þeir teldu að breytingin á 4. gr. auglýsingarinnar 1. apríl 2020 með auglýsingunni 16. júní 2021 raskaði ekki grundvelli málsins, þar sem hún fæli hvorki í sér breytingu á afmörkun eða umfangi friðlýsingarinnar.

 

Heimild til ákvörðunar bóta með mati matsnefndarinnar er í 3. mgr. 42. gr. laga nr. 60/2013, sbr. 6. gr. laga nr. 11/1973.

 

Eignarhald 76,5625% hluta jarðarinnar Reykjahlíðar skiptist á hendur eftirgreindra matsþola í óskiptri sameign: Í fyrsta lagi Guðrún María Valgeirsdóttir, kt. [...], eigandi jarðarinnar Reykjahlíðar I og 25% hluta jarðarinnar Reykjahlíðar. Í öðru lagi R3 ehf., kt. [...], og Bryndís Jónsdóttir, kt. [...] eigendur jarðarinnar Reykjahlíðar III og hvort um sig 8,3333% hluta Reykjahlíðar (samtals 16,6666%). Í þriðja lagi Sigurður Jónas Þorbergsson, kt. [...], eigandi jarðarinnar Reykjahlíðar II og 17,7778% hluta Reykjahlíðar. Í fjórða lagi Sigurður Baldursson, kt. [...], Garðar Finnsson, kt. [...] og Hilmar Finnsson, kt. [...], eigendur jarðanna Reykjahlíðar II-IV, og 7,7778%, 3,8889% og 3,8889% hluta Reykjahlíðar í áðurgreindri röð (samtals 15,5556%). Í fimmta lagi Gísli Sverrisson, kt. [...], eigandi jarðarinnar Víðihlíðar og 1,5625% hluta Reykjahlíðar.

 

Matsandlagið er nánar tiltekið:

Landsvæði jarðarinnar Reykjahlíðar í Skútustaðahreppi á háhitasvæði Gjástykkis sem friðlýst var með auglýsingunum 1. apríl 2020 og 16. júní 2021. Samkvæmt matsþolum eru þeir sem fyrr greinir eigendur 76,5625% hluta Reykjahlíðar í óskiptri sameign og samkvæmt matsþolum fylgir landi jarðarinnar eignarréttur að 52,98% háhitasvæðisins sem sætti friðlýsingu og 23,72% alls verndarsvæðis friðlýsingarinnar. Í 3. gr. auglýsingarinnar 1. apríl 2020 segir meðal annars að mörk verndarsvæðisins séu sýnd á korti og afmarkist af nánar tilgreindum hnitum og að afmörkun jarðhita sé dregin eftir útbreiðslu háhita samkvæmt viðnámsmælingum og landslagi, þar sem friðlýsing Gjástykkjasvæðis markist af Einbúa í vestri, Gæsafjöllum í suðvestri, Hrútafjöllum í austri og fylgi hrauninu til norðurs. Í 4. gr. auglýsingarinnar 1. apríl 2020, eins og henni var breytt með 1. gr. auglýsingarinnar 16. júní 2021, er tiltekið að orkuvinnsla jarðvarma með uppsett varmaafl 50 MW eða meira og jarðvarma með uppsett rafafl 10 MW eða meira innan marka svæðisins sé óheimil, svo og að ekki sé heimilt að veita leyfi tengd orkurannsóknum eða orkuvinnslu á verndarsvæðinu vegna virkjunar jarðvarma með uppsett varmaafl 50 MW eða meira og virkjunar jarðvarma með uppsett rafafl 10 MW eða meira.

 

Með úrskurði matsnefndar 17. desember 2020 í máli nr. 17/2019 (hér eftir úrskurður matsnefndar, úrskurðurinn 17. desember 2020 eða úrskurðurinn), þar sem aðilar voru þeir hinir sömu og í þessu máli, var leyst úr ágreiningi um hvort matsþolum bæri réttur til bóta úr hendi ráðherra, og þá hverrar fjárhæðar, vegna friðlýsingar ráðherra á vatnasviði Jökulsár á Fjöllum samkvæmt auglýsingu 10. ágúst 2019 nr. 740/2019 um verndarsvæði á Norðurlandi - vatnasvið Jökulsár á Fjöllum í verndarflokki verndar- og orkunýtingaráætlunar sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 26. sama mánaðar. Með auglýsingunni sætti friðlýsingu réttur matsþola til orkurannsókna og orkuvinnslu fallvatna með uppsettu rafafli 10MW fyrir landi matsandlagsins, það er jarðarinnar Reykjahlíðar innan marka verndarsvæðis friðlýsingarinnar samkvæmt auglýsingunni. Með úrskurðinum komst matsnefnd að þeirri niðurstöðu að slík óvissa væri um fjárhagsleg áhrif friðlýsingarinnar á ætlaða framtíðarnýtingu matsþola að ófært væri að ákveða bætur fyrir ætlað tjón af þessum völdum, líkt og matsþolar höfðu krafist. Var því hafnað kröfu matsþola um að ákveðnar yrðu bætur þeim til handa úr hendi ráðherra vegna þess að með auglýsingunni 10. ágúst 2019 hefðu matsþolar verið sviptir rétti sínum til orkurannsókna og orkuvinnslu fallvatna með uppsett rafafl 10MV eða meira fyrir landi matsandlagsins. Aðilar að þessu máli matsnefndar nr. 17/2019 voru sem fyrr greinir þeir hinir sömu og aðilar í málinu sem hér er til úrlausnar. Sömuleiðis hafa aðilarnir nú stutt málatilbúnað sinn að miklu leyti sömu rökum og í eldra málinu. Af þeim ástæðum verður hér á eftir ítrekað vísað til þess sem greinir í úrskurðinum 17. desember 2020.

 

III

Málsmeðferð:

Með bréfi matsnefndar 2. febrúar 2021 var boðað til fyrstu fyrirtöku málsins samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 11/1973, svo og óskað eftir því að gerðar yrðu athugasemdir við hæfi nefndarmanna matsnefndar.

 

Mál þetta var fyrst tekið fyrir þriðjudaginn 16. febrúar 2021. Matsþolar lögðu fram kröfu um fyrirtöku samkvæmt fyrirmælum 6. gr., sbr. 5. gr., laga nr. 11/1973. Ráðherra lagði fram tölvubréf 12. febrúar 2021 til matsnefndar varðandi hæfi matsmanna. Matsnefndin lagði fram afrit boðunarbréfa. Ekki var ágreiningur um skipan matsnefndar. Matsþolar töldu að vettvangsathugunar væri ekki þörf í málinu en ráðherra að slíkrar athugunar væri ekki þörf að svo stöddu. Þá var málsaðilum gefinn frestur til að leggja fram greinargerð.

 

Fimmtudaginn 10. júní 2021 var málið tekið fyrir. Matsnefndin lagði fram afrit fundargerðar 16. febrúar 2021. Þá hafði matsnefndinni borist til framlagningar af hálfu ráðherra greinargerð hans ásamt þremur tölusettum fylgiskjölum, athugasemdir ráðherra við greinargerð matsþola ásamt sjö fylgiskjölum og tvö tölvubréf ráðherra til matsnefndar ásamt bréfi hans til Landsvirkjunar og svarbréfi Landsvirkjunar. Af hálfu matsþola hafði matsnefndinni borist til framlagningar greinargerð þeirra ásamt 11 tölusettum fylgiskjölum, athugasemdir matsþola ásamt 13 fylgiskjölum, þrjú tölvubréf þeirra til matsnefndar ásamt samtals fjórum fylgiskjölum og bréf matsþola til nefndarinnar ásamt tveimur umboðum. Voru skjöl þessi lögð fram. Af hálfu matsþola var lagt fram eitt skjal auk reiknings vegna útlagðs kostnaðar og málskostnaðarreikning. Var málið að því búnu flutt munnlega fyrir matsnefndinni og tekið til úrskurðar að málflutningi loknum.

 

Með tölvubréf ráðherra 16. júní 2021 til matsnefndar var upplýst að auglýsing nr. 720/2021 hefði verið undirrituð og yrði birt innan tíðar.

 

Með tölvubréfi matsþola 21. júní 2021 til matsnefndar var þess farið á leit við nefndina að við úrlausn málsins yrði, vegna útlagðs kostnaðar þeirra, tekið tillit til reiknings Búnaðarsambands Eyjafjarðar 18. júní 2021, fyrir gerð tveggja korta sem fylgdu athugasemdum matsþola til nefndarinnar.

 

IV

Sjónarmið ráðherra:

Af hálfu ráðherra er tiltekið að í friðlýsingunni felist ekki annað en hömlur gegn orkuvinnslu yfir tiltekinni stærð, því friðlýsingin taki ekki til orkuvinnslu vegna virkjunarkosta með uppsett varmaafl 50 MW eða minna og jarðvarma með uppsett rafafl 10 MW eða minna heldur aðeins stærri virkjunarframkvæmda. Fari matsþolar nú fram á bætur vegna friðlýsingarinnar, vegna ætlaðs tjóns sökum þess að friðlýsing útiloki fyrirhugaða nýtingu jarðhitaréttinda sinna á svæðinu. Bendir ráðherra á að landsvæðið sem fellur undir friðlýsinguna afmarkist af útbreiðslu háhita samkvæmt viðnámsmælingum og landslagi og markist af Einbúa í vestri, Gæsafjöllum í suðvestri, Hrútafjöllum í austri og fylgi hrauninu til norðurs og nái til þriggja sveitarfélaga, Norðurþings, Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps. Um landshætti á hinu friðlýsta svæði vísar ráðherra til þess að Gjástykki sé sigdalur og í honum sé Gjástykkisbunga, lítil dyngja milli Hrútafjalla og Sandmúlahæðar, og sú eina sem örugglega hafi gosið í sigdalnum. Sé sigdalurinn áberandi á 4-5 km kafla norður af Hituhólum þar sem gjáveggir beggja megin dalsins séu allt að 20 m háir. Gjástykki sé einkum þekkt af gjánum sem séu mjög ráðandi í landslagi. Í Kröfueldum hafi hraun runnið yfir syðsta hluta Gjástykkis og nái það norður fyrir Hituhóla. Sé svæðið um Gjástykki einstætt frá jarðfræðilegu sjónarmiði, bæði á landsvísu og heimsvísu. Það sé eitt fárra svæða á Íslandi þar sem glögglega megi sjá hvernig landið hafi gliðnað með tilheyrandi sigdæld, sprungum og misgengjum. Þar megi jafnframt skoða hvernig hraun frá Kröflueldum hafi komið upp á svæðinu og runnið um það, hulið sprungur og jafnvel runnið ofan í þær. Í Kröflueldum hafi í fyrsta sinn í heiminum verið fylgst með gliðnunarhrinu í eldstöðvakerfi á flekaskilum þar sem atburðurinn hafi allur verið vaktaður. Fylgst hafi verið með landsigi og -risi, gliðnun mæld, fylgst með kvikuhlaupum á jarðskjálftamælum og spáð fyrir um einstök eldgos. Ómetanleg jarðfræðileg, vísindasöguleg og menningarsöguleg verðmæti séu fólgin í þessum þætti myndunarsögu Íslands.

 

Í málatilbúnaði ráðherra er ítarleg rakning á forsögu friðlýsingarinnar á háhitasvæði Gjástykkis sem rætur eigi að rekja til rammaáætlunar íslenskra stjórnvalda um nýtingu vatnsafls og jarðvarma, svo og tildrögum að setningu laga nr. 48/2011. Því er og lýst hvernig Gjástykki á Gjástykkissvæði hafi með nánar tilgreindum rökstuðningi í þingsályktun nr. 13/141 um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða frá 14. janúar 2013 (hér eftir þingsályktunin) verið skipað í verndarflokk samkvæmt lögum nr. 48/2011. Þá er því lýst hvernig sú skylda hafi verið lögð á stjórnvöld með 4. mgr. 6. gr. laga nr. 48/2011 að hefja undirbúning að friðlýsingu landsvæða sem tilheyrðu verndarflokki samþykktrar verndar- og orkunýtingaráætlunar og hvernig friðlýsing háhitasvæðis Gjástykkis, með auglýsingunni 1. apríl 2020, sé afrakstur þess lögskylda ferlis. Hafi ráðherra friðlýst fjögur önnur svæði og sé friðlýsing fjögurra svæða til viðbótar í vinnslu hjá umhverfisstofnun.

 

Ráðherra krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá matsnefnd eignarnámsbóta, til vara að hafnað verði kröfum matsþola fyrir nefndinni en að því frágengnu að matsþolum verði ákvarðaðar hæfilegar bætur fyrir ætlað eignarnám.

 

Fyrir aðalkröfu sinni um frávísun málsins frá matsnefndinni færir ráðherra þau rök að að ekkert eignarnám hafi átt sér stað og að málið sé vanreifað af hálfu matsþola þ. á m. um lögvarða hagsmuni þeirra af úrlausn málsins. Er þessi málatilbúnaður ráðherra, að breyttu breytanda, í öllu tilliti hliðstæður þeim röksemdum sem færðar voru fyrir sömu kröfu í málinu fyrir matsnefnd eignarnámsbóta sem leitt var til lykta með úrskurðinum 17. desember 2020. Um þetta vísast því nánar til úrskurðarins.

 

Af hálfu ráðherra er því mótmælt að ætlaðar virkjunarhugmyndir matsþola séu inni á landsvæði þeirra fyrir landi Reykjahlíðar. Þannig hafi engin gögn verið lögð fram um hlutdeild matsþola í þeim jarðhitaréttindum sem krafa þeirra byggi á. Það eina sem komi fram í erindi þeirra til matsnefndar sé að „sem næst helmingur hins friðaða landsvæðis ásamt tilheyrandi jarðhitaréttindum er innan landamerkja Reykjahlíðar“ og að landeigendur hafi gert samninga við þriðja aðila um „rétt til nýtingar þess jarðhita sem þeir eiga á aðliggjandi svæði, jarðhita sem tengist þeim jarðhitaréttindum sem falla undir friðlýsingu þessa.“ Hafi matsþolar hvergi gert grein fyrir því hvernig þeir telji sig hafa orðið fyrir tjóni vegna friðlýsingarinnar en virkjunarhugmyndir séu utan landsvæðis Reykjahlíðar. Þá verði af hugmyndum sem lagðar hafi verið fram af hálfu Landsvirkjunar í 3. áfanga rammaáætlunar ráðið að ráðgert hafi verið að öll mannvirki yrðu innan tiltekins reits sem nánar sé lýst í tillögunni, þar sem líkleg staðsetning á stöðvarhúsi yrði nyrst á afmarkaða framkvæmdasvæðinu og tengivirki skammt frá stöðvarhúsinu. Virðist ljóst af afmörkun í tillögunni að Reykjahlíð nái ekki til þess landsvæðis þar sem hugmyndir hafi verið um að reisa hinar umdeildu virkjanir enda liggi nyrsti hluti framkvæmdasvæðisins innan Norðurþings og Þingeyjarsveitar.

 

Hvað hlutdeild matsþola í ætluðum virkjunarréttindum varðar kveður ráðherra þá, eins og áður greini, ekki hafa skýrt hlutdeild sína í jarðhitaréttindunum sem krafa þeirra byggi á. Ráðherra bendir á að þar að auki séu mannvirki virkjunarinnar ekki innan lands matsþola. Verði talið að bótaréttur sé fyrir hendi bendir ráðherra á að algjörlega óljóst sé hvernig sanngjarnt væri og rétt að skipta bótum á milli matsþola og annarra landeigenda á hlutaðeigandi svæði. Komi til bótaskyldu á annað borð sé ljóst að afla þyrfti upplýsinga um þetta áður en mat væri lagt á verðmæti réttindi matsþola í málinu. Því er í öllu falli mótmælt af hálfu ráðherra að matsþolar eigi rétt til greiðslu á „heildar fjárhagslegu tjóni [matsþola].“

 

Af hálfu ráðherra er því enn fremur haldið til streitu að matsþolar eigi ekki þau réttindi sem þeir reisi tilkall sitt til bóta á. Í málinu hafi matsþolar lagt fram rammasamning sem Landeigendur Reykjahlíðar ehf. hafi gert við Landsvirkjun og byggi kröfur sínar í aðalatriðum á þeim samningi. Fyrrgreindi samningsaðilinn, Landeigendur Reykjahlíðar ehf., sé ekki aðili að málinu fyrir matsnefnd. Samkvæmt rammasamningnum virðist sem matsþolar hafi framselt nefndu einkahlutafélagi allar heimildir sínar til nýtingar jarðhita og nauðsynlegra afnota af svæðunum innan landamerkja jarðarinnar, þ. á m. til borunar, virkjunar og lagningar nauðsynlegra lagna til orkuflutnings, vegagerðar og annarrar mannvirkjagerðar auk annarrar aðstöðu sem þurfi til nýtingar. Telji ráðherra ljóst að matsþolar eigi ekki þau réttindi sem þeir haldi fram í málinu því þeir hafi framselt þau til einkahlutafélagsins. Að auki hafi einkahlutafélagið framselt réttindin til Landsvirkjunar með samningnum og sé hann enn í gildi. Hafi einhver orðið fyrir tjóni af völdum friðlýsingarinnar séu það einkahlutafélagið og Landsvirkjun en ekki matsþolar. Vísar ráðherra og til þess að það hafi verið einkahlutafélagið sem hafi óskað eftir mati Þróunarfélags Íslands ehf. um áætlað tjón matsþola, þótt félagið sé sem fyrr greinir ekki aðili að málinu. Sé því af hálfu ráðherra áréttuð krafa um frávísun málsins en ella að hafna beri bótakröfum matsþola.

 

Varakröfur sínar byggir ráðherra á sömu röksemdum og aðalkröfu sína, þess efnis að matsþolar hafi ekki sýnt fram á lögvarða hagsmuni og að friðlýsingunni verði jafnað til eignarnáms. Ráðherra byggir einnig á því að matsþolar hafi hvorki fært sönnur á að uppfyllt séu önnur skilyrði bótaákvæðis laga nr. 60/2013, né heldur sýnt fram á ætlað tjón og orsakatengsl.

 

Í málatilbúnaði ráðherra eru ítarlega rakin skilyrði skaðabótaábyrgðar samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga nr. 60/2013, sem ráðherra kveður virka í samspili við óskráðar reglur eignaréttar, með hliðstæðum hætti og gert var í röksemdum hans í málinu fyrir matsnefnd eignanrámsbóta sem leitt var til lykta með úrskurðinum 17. desember 2020. Um þetta vísast nánar til úrskurðarins.

 

Ráðherra hafnar því að friðlýsingu verði jafnað til eignarnáms, heldur sé um að ræða almennar takmarkanir eignarréttar sem matsþolar verði að þola bótalaust, og eru röksemdir hans fyrir þessari staðhæfingu hliðstæðar þeim sem haldið var fram í málinu fyrir matsnefnd eignanrámsbóta sem leitt var til lykta með úrskurðinum 17. desember 2020. Um þetta vísast nánar til úrskurðarins.

 

Ráðherra hafnar því einnig að matsþolum hafi tekist að sanna að fyrirhuguð nýting þeirra sé raunhæf og ætlað fjártjón raunverulegt og áréttar að skilyrði um orsakatengsl þurfi að vera uppfyllt milli friðlýsingarinnar og tjóns matsþola. Óútskýrt sé hvernig matsþolar gætu átt rétt til bóta þegar þeir byggi ekki á því að virkjunarhugmyndir hafi verið innan þeirra landsvæðis. Sem fyrr greini geri tillögur Landsvirkjunar ráð fyrir að öll mannvirki séu utan landsvæðis í eigu matsþola. Hafi matsþolar ekki frekar en hver annar forræði á því hvort ráðist verði í umræddar virkjunarframkvæmdir og hafi því ekki beina lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Þá gerir ráðherra verulega fyrirvara við eiginleika jarðhitavökvans á svæðinu. Í tillögu Landsvirkjunar vegna Gjástykkis komi fram að eiginleiki jarðhitavökvans sé ekki að fullu þekktur enda hafi engin rannsóknarhola verið boruð við Gjástykki. Einungis kjarnahola og tvær grunnvatnsholur hafi verið boraðar austan og vestan sigdældarinnar. Hugmyndir um virkjun svæðisins séu því háðar verulegri óvissu og alls ekki sé hægt að ganga út frá því að unnt sé að virkja háhitann með góðu móti. Er því hafnað þeirri staðhæfingu matsþola að á því landsvæði sem matsþolar eigi í Gjástykki hafi Landsvirkjun borað rannsóknarholur sem staðfesti að mjög hagkvæmt sé að virkja svæðið til raforkuframleiðslu. Telur ráðherra augljóst að ekki sé um raunhæfa kosti að ræða. Þessu til viðbótar séu virkjunarkostirnir ekki raunhæfir út frá sjónarmiðum um skipulags- og umhverfismál, því orkuframleiðsla sé alltaf háð skipulagsáætlunum, mati á umhverfisáhrifum og ýmsum leyfum stjórnvalda eins og ítarlega er reifað af hálfu ráðherra. Ekkert þeirra sveitarfélaga sem framkvæmdin varði, það er Norðurþing, Skútustaðahreppur og Þingeyjarsveit, ráð fyrir virkjuninni með beinum hætti á aðalskipulagi nema í samræmi við stefnu svæðisskipulags þar sem ekki sé gert ráð fyrir virkjuninni nema önnur svæði upfylli ekki orkuþörf á svæðinu. Ekkert bendi til slíkrar þarfar. Er því hafnað þeirri staðhæfingu matsþola að mikil þörf sé á frekari virkjunum vegna orkuskipta til viðbótar við aðra fyrirsjáanlega aukna raforkuþörf og bent á að fjöldi virkjanakosta séu í nýtingarflokki rammaáætlunar sem geti svarað þeirri auknu þörf. Meirihluti Gjástykkis sé að auki verndaður. Ekki sé til deiliskipulag fyrir Gjástykki. Telur ráðherra að líklegt sé að breyta þyrfti aðalskipulagsáætlunum sveitarfélaga auk þess sem nauðsynlegt væri að vinna deiliskipulag. Þá liggi ekki fyrir umhverfismat framkvæmda vegna virkjunarkostsins og því alveg óljóst hvort hann væri raunhæfur af þeirri ástæðu einni. Þessi atriði staðfesti enn frekar að fyrirhuguð nýting í Gjástykki sé alls ekki raunhæf og í raun mjög ólíkleg. Algjör óvissa sé um það hvort nokkurn tíma yrði virkjað þar vegna skipulagsmála, óháð friðlýsingunni. Hafi friðlýsingin því engu breytt um áðurgreinda stöðu, engin réttindi hafi verið tekin af matsþolum með friðlýsingunni og landeigendur hafi aldrei mátt gera ráð fyrir að leyft yrði að ráðast í virkjunarframkvæmdirnar og aldrei getað haft réttmætar væntingar um að þær yrðu leyfðar. Hér áréttar ráðherra að ætlaður réttur til að virkja Gjástykki með stærri virkjunum hafi aldrei verið fyrir hendi og bendir á að friðlýsingin útiloki ekki nýtingu svæðisins með minni virkjunum.

 

Ráðherra hafnar því að matsþolar hafi sýnt fram á tjón sem sé umtalsvert meira en leiði af takmörkunum í sambærilegum friðlýsingum. Þurfi matsþolar að sýna fram á að friðlýsingin hafi sérstök áhrif á þá, umfram aðra í sambærilegri stöðu, og það hafi þeir ekki gert. Rúm túlkun þessa skilyrðis myndi leiða til þess að hvers kyns takmarkanir vegna náttúruverndar hefðu í för með sér bótaskyldu ríkisins þótt nýting væri mjög fjarlæg. Telur ráðherra að ætla verði að matsþolar þurfi að sýna fram á að friðlýsingin hafi áhrif á raunverulegar fyrirætlanir um virkjun og að matsþolar hafi eins og áður greini ekki gert það líklegt að veitt hefði verið leyfi til að ráðast í virkjunarframkvæmdirnar ef friðlýsingin hefði ekki átt sér stað. Ráðherra bendir og á að fjögur önnur svæði hafi verið friðlýst gegn orkuvinnslu, það er vatnasvið Jökulsár á Fjöllum, háhitasvæði Brennisteinsfjalla, háhitasvæði Geysis og háhitasvæði Kerlingafjalla, og að fyrir liggi tillögur ráðherra að friðlýsingu vatnasviðs Hólmsár, Jökulfalls og Hvítár í Árnessýslu, Markarfljóts og Tungnaár. Af þeim röksemdum sem búi að baki friðlýsingunni og áhrifum virkjunarkostsins á umhverfið megi ljóst vera að án tillits til friðlýsingarinnar hefðu hendur matsþola verið verulega bundnar og hafi þeir á engan hátt sýnt fram á líkindi þess að raunhæft hefði verið að ráðast í virkjunarframkvæmdir. Hafi friðlýsingin því síður en svo haft sérstök áhrif á matsþola umfram aðra í sambærilegri stöðu og sé með öllu ósannað að fjárhagslegt tjón matsþola væri nokkuð, hvað þá að það væri umtalsvert meira en leiðir af takmörkunum í sambærilegum friðlýsingum.

 

Hvað ætlað tjón matsþola varðar telur ráðherra eins og áður greinir að matsþolum hafi ekki tekist sönnun um tjón.

 

Ráðherra ítrekar þau sjónarmið sín um að ekki geti komið til greiðslu eignarnámsbóta vegna friðlýsingarinnar því um sé að ræða almennar takmarkanir í þágu almennings og beinist takmörkunin að nokkuð stóru svæði. Takmörkunin lúti að virkjunarframkvæmdum yfir tiltekinni stærðargráðu sem myndu leiða, ef af yrði, til verulegs inngrips í náttúru og einstakar minjar. Þá sé heldur ekki um að ræða takmörkun á hefðbundinni nýtingu landsvæðis. Ekki sé því tilefni til mats á eignanrámsbótum í málinu. Jafnframt sé ítrekað að hugmyndir um virkjun Gjástykkis hafi lotið að 50 MW virkjun og að einungis þyrfti um fimm minni virkjanir, sem ekki falli undir friðlýsinguna, til að ná sama afli. Landeigendum sé frjálst að nýta háhitaréttindin á þann hátt.

 

Ráðherra mótmælir sem röngum athugasemdum matsþola sem snúa að því hvernig skilja beri friðlýsinguna og umfang hennar, þar sem þeir telja sér óhætt að gagnálykta frá 4. gr. auglýsingarinnar 1. apríl 2020 á þann hátt að orkuvinnsla varmaafls innan við 50 MW innan svæðisins sé heimil. Heldur ráðherra því fram að friðlýsingin sé í samræmi við ákvæði laga nr. 48/2011 og samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laganna taki verndar- og orkunýtingaráætlun til landsvæða og virkjunarkosta sem verkefnisstjórn hafi fjallað um og hafi uppsett rafafl 10 MW eða meira eða uppsett varmaafl 50 MW eða meira. Hafi verið ákveðið að taka mið af stærðarmörkum sem miðist við afl virkjana og séu alltaf háðar umhverfismati samkvæmt lögum nr. 10/2000 um mat á umhverfisáhrifum, svo og að talið hafi verið að stjórnsýsluferlar nægðu til að tryggja þá hagsmuni sem lögum nr. 48/2011 væri ætlað að vernda þegar um væri að ræða smærri virkjanir. Ráðherra hafnar því og að friðlýsingin leiði til þess að ekki sé hægt að virkja á svæðinu með smærri virkjunum, slíkt sé bæði ósannað og rangt. Mörg dæmi séu um hið gagnstæða, það er bæði smærri virkjanir og hitaveitur undir 10 MW og 50 MW, t.d. 5 MW jarðhitavirkjun Landsvirkjunar í Bjarnarflagi sem sé elsta gufuaflstöð landsins.

 

Þá bendir ráðherra á að með skýrslu Þróunarfélags Íslands 19. apríl 2021 um áætlað fjárhagslegt tjón Landeigenda Reykjahlíðar ehf. vegna friðlýsingar Gjástykkis samkvæmt auglýsingunni 1. apríl 2020 hafi matsþolar í fyrsta sinn í málinu sett fram sjónarmið um verðmæti ætlaðra réttinda. Þar hafi verið komist að niðurstöðu um að fjárhagslegt tjón næmi allt frá 3,9 til 11,8 milljarða króna og telji matsþolar að rétt sé að meta fjárhagslegt tjón þeirra út frá hærra matinu. Telur ráðherra að skýrslan geti ekki haft þýðingu í málinu þar sem hennar hafi verið einhliða aflað af matsþolum. Samt sem áður mótmælir ráðherra með ítarlegum hætti því sem fram komi efnislega í skýrslunni, kröfum matsþola og málsástæðum sem að þessu snúi. Í fyrsta lagi sé til þess að líta að skýrslan taki mið af „heildar tjóni landeigenda“ á svæðinu og að með öllu sé óútskýrt hvernig unnt sé að fara fram á slíkt þar sem um sé að ræða hluta landeigenda Reykjahlíðar auk þess sem Reykjahlíðarjörðin eigi aðeins hluta þess svæðis sem friðlýsingin nái til. Í öðru lagi séu útreikningar í skýrslunni að mestu óútskýrðir og þau gögn sem þar sé vísað til hafi ekki fylgt skýrslunni, auk þess sem þar séu verulegar rangfærslur og skekkjur í útreikningum, eins og ítarlega er rakið í málatilbúnaði ráðherra, þ. á m. um orkuvinnslugetu, líftíma virkjunar, stærð lands undir virkjun, vatnsþörf og efnistöku á framkvæmdatíma. Sé ráðherra því ómögulegt að leggja mat á inntak skýrslunni nema á almennum forsendum. Taki allir útreikningar í skýrslunni mið af röngum forsendum og því sé lagður rangur grunnur að þeim, auk þess sem byggt sé á því að Landsvirkjun og matsþolar skipti með sér hlutfallslega upprunaábyrgðum, án þess að útskýra það nánar, en eigi ekki stoð í rammasamningi aðila. Ráðherra bendir á að í skýrslunni séu kannaðar þrjár leiðir við að verðmeta ætlað tjón af völdum friðlýsingar Gjástykkis: ætlað fjárhagslegt núvirt tjón landeigenda til 50 ára miðað við 22. apríl 2020 vegna þess að friðlýsingin útiloki að samningar við Landsvirkjun nái fram að ganga (þáttur A); áætlað og núvirt fjárhagslegt tjón landeigenda á þeim grundvelli að friðlýsingin hafi útilokað möguleika þeirra til þess að virkja svæðið sjálfir eða með öðrum aðilum til raforkuframleiðslu (þáttur B); og núvirtar fjárhæðir upprunaábyrgða til 50 ára ef Gjástykki hefði verið virkjað sem hluti af verðmætum í þætti B. Sé niðurstaða skýrslunnar sú að heildar fjárhagslegt tjón landeigenda nemi 3,9 milljörðum króna samkvæmt leið A en 11,8 milljörðum króna samkvæmt leið B. Miði matsþolar kröfugerð sína við umrætt „heildar fjárhagslegt tjón“. Varðandi ætlað tjón matsþola vegna efnisnáms vísar ráðherra til þess að matsþolar hafi haldið því fram að þær námu sem nýttar hefðu verið hafi orðið einskis virði þegar ekkert hafi orðið af virkjun Gjástykkis og að hliðstæð rök ættu við um bætur vegna lands undir mannvirki í þágu virkjunarinnar. Þetta telur ráðherra rangt og vísar, því til stuðnings, meðal annars til verðlista landeigendafélagsins sem ætti að staðfesta að eftirspurn sé til efnisnáms. Við það bætist að ýmis tækifæri séu tengd friðlýsingunni og minnir á að meðal helstu röksemda fyrir verndarflokkun virkjunarkostsins hafi verið þær að einstakar hraunmyndanir í Gjástykki veiti tækifæri til uppbyggingar þekkingar- og fræðslutengdrar ferðaþjónustu. Kjörið væri að reisa mannvirki fyrir slíka starfsemi á landsvæði matsþola.

 

Varðandi verðmat háhitaréttinda vísar ráðherra til þess að með dómi Hæstaréttar 18. október 2012 í máli nr. 233/2011 hafi vatnsréttindi vatnsréttarhafa verið metin í tengslum við byggingu Kárahnjúkavirkjunar. Hafi þar meðal annars verið litið til gerðardóms 21. janúar 1976 um verðmæti jarðhitaréttinda við Svartsengi í nágrenni Grindavíkur og úrskurðar matsnefndar eignarnámsbóta 30. desember 1980 um bætur vegna eignarnáms Deildartunguhvers í Borgarfirði. Þá segi meðal annars í dóminum:

 

„Þótt fallréttindi og jarðhitaréttindi séu eðlisólík og tækni við nýtingu þeirra ekki hin sama, eiga svipuð sjónarmið við að ákveðnu marki, þegar metnar eru bætur fyrir orkuréttindi sem nýtt eru til framleiðslu á rafmagni. Endurspegla gerðardómurinn  frá 1976 og úrskurðurinn frá 1980 það viðhorf að teknu tilliti til þess sem skilur réttindin að.“

 

Telur ráðherra ljóst að útreikningar matsþola taki ekki mið af dómi Hæstaréttar í máli nr. 233/2011. Þar hafi hæfilegar bætur verið ákveðnar með hliðsjón af því að grunnverðmæti vatnsréttinda Kárahnjúkavirkjunar væru 1,4% af áætluðum stofnkostnaði virkjunarinnar eða 1.540.000.000 krónur. Þá hafi bætur í úrskurði sérstakrar matsnefndar vegna vatnsréttinda Blönduvirkjunar verið ákveðnar 92.000.000 krónur sem svaraði til um 0,7% af stofnkostnaði virkjunarinnar. Hafi venja skapast um þennan matsgrundvöll vatnsréttinda. Með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 233/2011 verði að telja að það sama eigi við um jarðhitaréttindi að breyttu breytanda. Ráðherra vísar til þess að í 2. áfanga rammaáætlunar hafi faghópur 4 haft það hlutverk að áætla stofnkosntað virkjana og leggja mat á hagkvæmni þeirra. Í 3. áfanga rammaáætlunar hafi Orkustofnun haft það hlutverk að uppfæra kostnaðarflokka frá gerð síðustu rammaáætlunar með tilliti til verðlags í janúar 2014 og hafi orkufyrirtækjum við svo búið verið falið að flokka virkjunarkosti sína í kostnaðarflokka til samræmis við þetta. Séu kostnaðarflokkarnir sjö talsins og hafi Gjástykki fallið í kostnaðarflokk 3, þar sem kostnaður næmi á bilinu 40-48 krónur á kílówattstund á ári (kr./(kWh/ár)). Því sé hafnað þeirri staðhæfingu matsþola að Gjástykki hafi verð skilgreint sem einn af hagkvæmustu virkjanakostum sem til séu hér á landi og bent á að jarðhitavirkjanir falli almennt í flokka 3-5 hvað hagkvæmni varði og að samkvæmt rammaáætlun 4 falli t.d. stækkun Svartsengis í flokk 3 og Bolalda (nýr kostur) í flokk 2. Í tillögum Landsvirkjunar sem fram hafi komið undir meðferð 3. áfanga rammáætlunar hafi verið ráðgert að virkjunin myndi hafa orkugetu upp á 420 gígawattstundir á ári (420 GWh/ár). Sé miðað við lægri kostnaðarmörkin (40 kr./(kWh/ár)) nemi stofnkostnaður 16,8 milljörðum króna. Sem fyrr greini hafi hæfilegt endurgjald fyrir vatsnréttindi í dómi Hæstaréttar í máli nr. 233/2011 verið miðað við 1,4% af stofnkostnaði virkjunar og 0,7% í matsgerð sérstakrar matsnefndar vegna Blönduvirkjunar. Sé miðað við lægra markið nemi hæfilegt endurgjald fyrir háhitaréttindi Gjástykkis 117.600.000 krónum. Við það bætist kostnaður við tengingar. Ljóst sé að kröfugerð matsþola sé langt frá þeim viðmiðunum sem tíðkast hafi og langt úr hófi. Ráðherra vekur sérsaka athygli á að árlegur rekstrarkostnaður sem hlutfall af stofnkostnaði sé tvöfalt hærri í tilviki jarðvarmavirkjana samanborið við vatnsaflsvirkjanir og því sé ljóst að endurgjald fyrir jarðhitaréttindi verði ávallt lægra hlutfall af stofnkostnaði virkjunar en þegar um vatnsréttindi sé að ræða. Við það bætist að taka þyrfti inn í slíkt mat, ef á annað borð yrði fallist á bótaskyldu vegna friðlýsingarinnar, þá óvissu sem ríki um hvort hægt sé að virkja á svæðinu, orkugetu, óvissu um skipulagsmál og umhverfismat. Hafi óvissa um þessa þætt augljóslega áhrif á verðmæti hinna ætluðu verðmæta. Í tilviki Blönduvirkjunar og Kárahnjúkavirkjunar hafi engin slík óvissa verið um virkjunarmögulega eða hvort af framkvæmdum yrði.

 

Hvað ætlað tjón matsþola varðar bendir ráðherra og á að verðmæti jarðar matsþola kunni að aukast sökum friðlýsingarinnar, sem eitt og sér kunni að leiða til þess að ekki geti komið til greiðslu eignarnámsbóta. Tryggt hafi verið að landsvæðið njóti til framtíðar friðunar vegna náttúruminja og í því felist mikil verðmæti fyrir matsþola sem og aðra. Í þingsályktuninni komi fram að í Gjástykki séu einstakar hraunmyndanir sem veiti tækifæri til uppbyggingar þekkingar og fræðslutengdrar ferðaþjónustu. Komi matsþolar jafnframt til með að njóta þess. Auki friðlýsingin bæði virði lands og skapi möguleika til tekjuöflunar sem felist meðal annars í ásókn ferðamanna í landsvæðin vegna sérstöðu þeirra.

 

Ráðherra mótmælir sérstaklega því sem fram kemur í málatilbúnaði matsþola að nokkrir vankantar séu á auglýsingu um friðlýsingu, að friðlýsingin valdi skerðingu umfram almennar takmarkanir eignarréttar sem leiði til bótaréttar þeim til handa og að ráðherra hafi borið að vinna útreikninga við undirbúning á ákvörðun friðlýsingar. Þá mótmælir ráðherra sjónarmiðum landeigenda um ákvörðun bóta.

 

V

Sjónarmið matsþola:

Matsþolar kveðast verða fyrir fjárhagslegu tjóni af friðlýsingunni og eiga rétt til bóta samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga nr. 60/2013.

 

Matsþolar hafna þeirri kröfu ráðherra að málinu verði vísað frá matsnefnd eignarnámsbóta. Sú krafa ráðherra byggi á því að málið sé vanreifað af hálfu matsþola, engin gögn liggi fyrir um eignarhald matsþola, afmörkun landsins, og hlutdeild matsþola í jarðhitaréttindum sem krafa þeirra snúi að og engin staðfesting á því að þeir eigi yfirleitt þann rétt sem þeir haldi fram að þeir eigi. Er þessi málatilbúnaður matsþola í öllu tilliti hliðstæður þeim röksemdum sem færðar voru gegn sömu kröfu ráðherra í málinu fyrir matsnefnd eignarnámsbóta sem leitt var til lykta með úrskurðinum 17. desember 2020. Um þetta vísast nánar til úrskurðarins.

 

Matsþolar halda því fram að því sem næst helmingur hins friðaða landsvæðis ásamt tilheyrandi jarðhitaréttindum sé innan landamerkja Reykjahlíðar.

 

Matsþolar halda því fram að rannsóknir á svæðinu bendi til þess að orkuvinnsla varmaafls á friðlýsta svæðinu sé tæknilega auðveld og fjárhagslega mjög fýsilegur kostur.

 

Hafi matsþolar gert samninga við þriðja aðila um rétt til nýtingar þess jarðhita sem þeir eigi á aðliggjandi svæði, jarðhita sem tengist þeim jarðhitaréttindum sem falli undir friðlýsinguna.

 

Matsþolar telja að skipan svæðisins í verndarflokk 2013 samkvæmt þingsályktun nr. 13/141 hafi ekki haft í för með sér neina þá óvissu um nýtingu svæðisins til orkuvinnslu sem stofnað hafi getað til bótaskyldu ríkisins á þeim tíma eða allt til þess er svæðið var friðlýst. Þannig hafi Landsvirkjun haft rannsóknarleyfi jarðhita á svæðinu frá 10. maí 2017 og meðal annars borað tvær rannsóknarholur á landi Reykjahlíðar innan friðlýsingarsvæðisins. Hafi Landsvirkjun reiknað með því að nýting svæðisins yrði tekin til skoðunar í 2. eða 3. áfanga rammaáætlunar og haldið rannsóknum sínum því áfram. Hafi friðlýsingin 1. apríl 2020 alfarið breytt stöðunni, því þá hafi orðið ljóst að matsþolar væru sviptir þeim möguleika að nýta friðlýsta jarðhitasvæðið frá og með gildistöku friðlýsingarinnar. Matsþolar hafi fyrirhugað nýtingu svæðisins með samningum um rannsóknir og væntanlega nýtingu þeirra jarðhitaréttinda sem þeir eigi á svæðinu. Matsþolar vísa til málatilbúnaðar ráðherra sem lúti að lögum nr. 48/2011 og telja óljóst hvaða erindi slíkur málatilbúnaður eigi inn í málið. Ljóst sé af 1. mgr. 3. gr. laganna að sérhver rammaáætlun um skipun svæða í verndarflokk sé bráðabirgðatillaga, ekki endanleg framtíðarákvörðun eða friðlýsing tilgreindra svæða og feli því ekki í sér eignarnám landsvæðisins þótt löggjafinn hafi tekið það fram í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögunum að beiting reglna laganna gæti leitt til bótaskyldu. Þá hafna matsþolar málatilbúnaði ráðherra þess efnis að matsþolar hafi ekki sýnt fram á að skilyrði 1. mgr. 42. gr. laga nr. 60/2013 séu uppfyllt varðandi tjón af völdum friðlýsingarinnar. Hér benda matsþolar á að málatilbúnaður ráðherra sé alvarlegum annmörkum háður og ámælisverður því hann hafi ekki getið um þýðingarmestu gögnin sem varði fyrirhugaða nýtingu matsþola og tjóni þeirra, sem staðfesti að fullyrðingar ráðherrans um þetta séu ekki réttar. Ráðherra hafi t.d. ekki fjallað um eftirtalin gögn: Skýrslu Landsvirkjunar 2014 um Gjástykki, þar sem fram komi að Landsvirkjun áformi að reisa allt að 50 MWe jarðhitavirkjun þar; samanburðarúttekt Samorku 2016 á hagkvæmni virkjanakosta landsins, þar sem fram komi að virkjun háhitasvæðis Gjástykkis sé meðal allra hagkvæmustu virkjanakosta landsins; og samning Landsvirkjunar 2005 við matsþola þar sem samið hafi verið um endurgjald fyrirtækisins til matsþola fyrir virkjun háhitasvæðis Gjástykkis. Er þessum sjónarmiðum ráðherra því harðlega andmælt. Jafnframt er andmælt því sem haldið hafi verið fram af hálfu ráðherra að með verndarflokkun hafi verið felldur niður sá möguleiki að virkjunarkosturinn Gjástykki yrði nýttur og bent á að virkjun Gjástykkis hafi árið 2013 verið tafin með skipun svæðisins í verndarflokk rammáætlunar á grundvelli mjög einhliða og langsóttra náttúruverndarsjónarmiða. Hafi virkjun Gjástykkis síðan verið í þessari „frystigeymslu“ hinna einhliða og langsóttu náttúruverndarsjónarmiða, þar til ráðherra hafi tekið svæðið úr frystigeymslunni og friðlýst það. Hafi orkumálastjóri í erindi í apríl 2021 lýst rammaáætlun með þessum hætti, sem vettvangi einhliða og langsóttra náttúruverndarsjónarmiða og langtíma frystigeymslu fyrir nýjar virkjanahugmyndir og jafnframt bent á verðmætasköpun orkutengds iðnaðar t.d. í samanburði við sjávarútveg. Árétta matsþolar að þeir telji ljóst að skipun svæðis í verndarflokk sé aðeins tímabundin aðgerð sem beri að endurskoða lögum samkvæmt á nokkurra ára fresti og að niðurstaða ráðherra, hvað réttaráhrifum verndarflokks viðvíkur, sé röng.

 

Matsþolar kveða heimild ráðherra til eignarnáms liggja fyrir í 43. gr. laga nr. 60/2013 og samkvæmt 6. gr. auglýsingarinnar 1. apríl 2020 hafi friðlýsingin öðlast þegar gildi. Þar með hafi ríkisjóður tekið umráð hinna friðlýstu réttinda í sínar hendur án þess að ríkið hafi beitt eignarnámsheimild sinni svo sem því sé skylt og eigi matsþolar því ekki annarra kosta völ en að krefjast þess að bætur til þeirra verði ákveðnar með eignarnámsmati samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 42. gr. sömu laga.

 

Um tilkall sitt til bóta fyrir réttindi sem skert hafi verið með friðlýsingu háhitasvæðis Gjástykkis vísa matsþolar til þess að með auglýsingunni 1. apríl 2020 hafi fylgt viðauki I, uppdráttur Landmælinga Íslands 27. mars 2020 og hnitatafla, þar sem sjá megi mörk friðlýsta svæðisins, mörk háviðnámskjarna, friðlýsta svæðisins og sveitarfélagamörk. Uppdrátturinn sýni á hinn bóginn ekki landamerki þeirra jarða sem eigi það land sem sé innan marka friðlýsta svæðisins. Því hafi matsþolar aflað uppdráttar af friðlýsta svæðinu sem sýni landamerki viðkomandi jarða. Þær jarðir sem eigi friðlýsta svæðið séu Þeistareykir, Norðurþing og Reykjahlíð. Mörk þeirra jarða á friðlýsta svæðinu hafi verið ákveðin með dómi Hæstaréttar 20. september 2012 í máli nr. 65/2012 og komi fram á uppdrætti sem lagður hafi verið fyrir matsnefnd. Samkvæmt uppdrættinum séu 65,29% friðlýsta svæðisins innan marka Þeistareykja en 34,72% innan marka Reykjahlíðar. Þar af séu 47,02% háhitasvæðisins innan marka Þeistareykja og Norðurþings en 52,98% innan marka Reykjahlíðarlands. Séu rannsóknarborholur Landsvirkjunar í Reykjahlíðarlandi. Óumdeilt sé að háhitasvæði matsþola fylgi eignarlandi þeirra á yfirborði jarðar samkvæmt 3. gr. laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Matsþolar séu sem fyrr greinir eigendur 76,5625% hluta Reykjahlíðar í óskiptri sameign samkvæmt þinglýstum eignarheimildum. Þá fylgi Reykjahlíðarlandinu sem fyrr greinir eignarréttur að 52,98% háhitasvæðisins sem sætti friðlýsingu og 23,72% alls verndarsvæðis friðlýsingarinnar.

 

Þau landgæði matsþola sem friðlýsing samkvæmt auglýsingunni 1. apríl 2020 beinist að sé orkuvinnsla jarðhita sem þeir eigi á háhitasvæðinu Gjástykki á mörkum Þingeyjarsveitar, Norðurþings og Skútustaðahrepp, sbr. 2. mgr. 3. gr. auglýsingarinnar. Á uppdrætti með auglýsingunni í viðauka I séu mörk háhitasvæðisins dregin á uppdráttinn og þau mörk miði við viðnámsmælingar jarðhitans á 800 metra dýpi. Skilja verði auglýsinguna þannig að friðlýsingin beinist að því að vernda allt háhitasvæði Gjástykkis gagnvart allri orkuvinnslu. Engan jarðhita sé að finna á yfirborði svæðisins þanngi að verndarandlagið sé umrædd auðlind, jarðhiti, í iðrum jarðar. Ytri mörk verndarsvæðis friðlýsingarinnar séu dregin á sama uppdrátt samkvæmt viðfestu hnitakerfi, sbr. 1. mgr. 3. gr. auglýsingarinnar. Í 4. gr. auglýsingarinnar sé loks fjallað um mannvirkjagerð og orkurannsóknir og gagnályktun frá 1. málslið 4. gr. myndi að áliti matsþola fela í sér að orkuvinnsla varmaafls innan við 50 MW innan svæðisins sé heimil. Á hinn bóginn sé af hálfu matsþola byggt á því að slík gagnályktun fái ekki staðist af tveimur ástæðum. Annars vegar þar sem hún gangi gegn verndarákvæðum 1. og 2. gr. auglýsingarinnar og hins vegar þar sem orkuvinnsla varmaafls með uppsett varmaafl minna en 50 MW á þessum stað og við þær aðstæður sem séu á svæðinu sé algjör fásinna, bæði af tæknilegum og fjárhagslegum ástæðum. Sú fullyrðing ráðherra að í friðlýsingunni felist aðeins hömlur gegn stærri virkjunarframkvæmdum sé í raun gróf rangfærsla af þeirri ástæðu að virkjun jarðhita á þessum stað á landinu sem væri minnni en um 50 MW væri fjarstæða.

 

Matsþolar reisa kröfur sínar í málinu á ákvæðum 42. gr. laga nr. 60/2013. Friðlýsingin komi í veg fyrir fyrirhugaða nýtingu þeirra á friðlýstu landgæðunum. Sú hindrun sé langt umfram það sem telja megi til almennra takmarkana eignarréttar og að ljóst sé að friðlýsingu sem þessa sé hvergi að finna hér á landi. Réttur þeirra til bóta samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga nr. 60/2013 sé því greinilega fyrir hendi. Hafna matsþolar þeirri staðhæfingu ráðherra að friðlýsingin feli ekki í sér skerðingu umfram það sem telja megi til almennra takmarkana á eignarrétti. Þvert á móti feli friðlýsingin ekki í sér almenna takmörkun á eignarrétti heldur viti hún að sérstökum, staðbundnum og afmörkuðum landgæðum. Jafnframt benda matsþolar á að ráðherra hafi horft framhjá þeirri staðreynd að andlag friðunar Gjástykkis samkvæmt friðlýsingunni sé á 800-1200 metra dýpi og þar með ekki á yfirborði jarðar og minna á að af hálfu ráðherra hafi verið staðhæft að hvorki orkuvinnsla undir 50 MW né orkuvinnsla af öðru tagi, svo sem vatnsaflsorka eða vindorka, sé bönnuð innan friðlýsta svæðisins. Hvorug þessara staðreynda fái staðist gagnvart ætluðum markmiðum friðlýsingarinnar um vernd náttúru og lífríkis innan friðlýsta svæðisins á yfirborði jarðar í þágu almennings. Þessi röksemdafærsla ráðherra sé fráleit. Telja matsþolar að friðlýsingin feli í sér eignarnám, því með henni hafi verið numin bótalaust á brott dýrmæt auðlind sem þeir eigi og hafi unnið að því að nýta. Sé röksemdum ráðherra um annað mótmælt sem röngum. Hafna matsþolar þeirri staðhæfingu ráðherra að þeir hafi ekki sýnt fram á fjárhagslegt tjón, sér í lagi ekki tjón sem sé umfram þær takmarkanir sem finna megi í sambærilegum friðlýsingum og ákvörðunum. Þetta sé efnislega rangt og af hálfu ráðherra sé ekki tilgreint eitt einasta tilvik um tjón af völdum sambærilegra friðlýsinga enda séu þær ekki til. Matsþolar benda á að hér á landi séu bæði til virkjuð háhitasvæði og fjölmörg óvirkjuð háhitasvæði, bæði í eigu ríkisins og einkaaðila. Vísa matsþolar til þess að í málatilbúnaði ráðherra hafi verið taldar upp fjórar friðlýsingar sem sagðar hafi beinst gegn orkuvinnslu og látið að því liggja að þær séu sambærilegar við friðlýsingu Gjástykkis. Staðhæft er af hálfu matsþola að engin þeirra geti talist samanburðarhæf við friðlýsingu Gjástykkis og að samanburður ráðherra þar á sé bæði rangur og villandi. 9)

 

Matsþolar halda því fram að auglýsingin 1. apríl 2020 um friðlýsingu hafi afnumið alla möguleika matsþola og/eða annarra til að virkja Gjástykki til orkuvinnslu. Um fyrirætlanir sínar til að virkja svæðið vísa matsþolar til þess að þeir hafi í desember 2004 óskað eftir leyfi ráðherra til að rannsaka svæðið ítarlega varðandi nýtingarmöguleika þess til orkuvinnslu og að tryggja forgang matsþola til nýtingar háhitasvæðisins samkvæmt þágildandi ákvæðum laga nr. 57/1998. Hinn 6. nóvember 2005 hafi Landsvirkjun og Landeigendur Reykjahlíðar ehf. síðan gert með sér rammasamning um nýtingu jarðhita o.fl., þar sem Landsvirkjun hafi lýst því yfir að félagið hefði í hyggju að sækja um rannsóknarleyfi til iðnaðarráðherra með forgangi að nýtingarleyfi til virkjunar Gjástykkis, sbr. grein 1.2. Landeigendafélagið hafi með samningnum skuldbundið sig til að afturkalla rannsóknarleyfisumsókn sína, sbr. grein 1.5. Hafi Landsvirkjun fyrst fengið rannsóknarleyfi á Gjástykkissvæðinu 10. maí 2007 og það síðan verið ítarlega rannsakað af fyrirtækinu. Hafi Landsvirkjun meðal annars borað rannsóknarholur á því landssvæði sem matsbeiðendur eigi í, sem staðfest hafi að mjög hagkvæmt væri að virkja svæðið til raforkuframleiðslu. Í ársskýrslu Landsvirkjunar 2013 sé fjallað um þennan virkjanakost og sagt að uppsett afl næmi 135 MW og orkuvinnsla 1.107 GWst/ári. Hafi Landsvirkjun áætlað að hefja orkuvinnslu á svæðinu með byggingu orkuvers með afli sem næmi 50 MW. Ítarlega hafi verið fjallað um fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir Landsvirkjunar í skýrslu fyritækisins um Gjástykki sem virkjunarkost, R300B, frá því í desember 2014. Hafi áætlanir Landsvirkjunar og eigenda Reykjahlíðar um virkjun Gjástykkis verið ræddar og unnar samhliða umfjöllun um háhitasvæði í Þingeyjarsýslum. Hafi þær áætlanir verið í fullu samræmi við sérstakt svæðisskipulag háhitasvæða í Þingeyjarsýslum 2007-2025 sem samþykkt hafi verið í samvinnunefnd sveitarfélaga 8. nóvember 2007 og staðfest af umhverfisráðherra 16. janúar 2008. Kostnaður við rannsókn háhitasvæðis Gjástykkis nemi þegar hundruðum milljónum króna. Við umfjöllun um 3. áfanga rammaáætlunar 2015 um samanburð virkjanakosta (Levelized Cost of Energy) hafi Gjástykki verið skilgreint sem einn af hagkvæmustu virkjanakostunum sem til séu hér á landi. Samkvæmt spá Orkuspárnefndar um raforkuþörf 2020-2060 sé mikil þörf á frekari virkjunum vegna orkuskipta til viðbótar við aðra fyrirsjáanlega aukna þörf. Sé virkjun háhitasvæðis Gjástykkis til orkuframleiðslu í fullu samræmi við markmið og tilgang raforkulaga nr. 65/2003 og yfirlýsta stefnumörkun ríkisstjórnarinnar í orkumálum. Hafi matsþolar þannig hrint í framkvæmd undirbúningi nýtingar á háhitasvæðis Gjástykkis 2004 og staðfesti rammasamningur Landsvirkjunar og Landeigendafélag Reykjahlíðar ehf. 6. nóvember 2005 þá fyrirhuguðu nýtingu, svo og markaðsvirði þeirra landgæða sem sá samningur spannaði á þeim tíma sem hann hafi verið gerður. Hér benda matsþolar einnig á að í dómi Hæstaréttar í máli nr. 233/2011 sé staðfest sú grunnregla íslensks réttar að réttur eignarnámsþola til tjónbóta takmarkist ekki við tjón á landgæðum sem þegar sé byrjað að hagnýta. Matsþolar hafi jafnframt gert grein fyrir því að markaðsvirði landgæðanna, virkjanaréttur háhitasvæðis Gjástykkis til orkuframleiðslu, hafi hækkað frá því rammasamningurinn var gerður 2005, sbr. t.d. umfjöllun um 3. áfanga rammaáætlunar 2015 um samanburð virkjanakosta (Levelized Cost of Energy), þar sem virkjun Gjástykkis sé talinn einn af bestu virkjanakostum landsins, svo og spá Orkuspárnefndar um raforkuþörf. Vísa matsþolar til þess að af hálfu ráðherra hafi verið fjallað um mat á því hvort fyrirhuguð nýting þeirri hafi verið raunhæf þar eð sú nýting hafi þurfti leyfi fjölmargra stjórnvalda. Kveða matsþolar þessa umfjöllun ráðherra ýmist ranga eða byggða á röngum forsendum. Hafi upptalning ráðherra á leyfisbeiðnum og fyrirfram neikvætt álit ríkisins á væntanlegum niðurstöðum nauðsynlegra leyfisbeiðna ekkert vægi við úrlausn málsins. Við það bæta matsþolar að undibúningur mannvirkjagerðar felist í rannsóknum og að sérstök lög fjalli um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, lög nr. 57/1998, og fjalli þau um rannsóknir sem nauðsynlegar séu við undirbúning nýtingar. Benda matsþolar á að Landsvirkjun hafi stundað og kostað til mörg hundruð milljónum króna í rannsóknir á svæðinu í tíu ár áður en komist hafi verið að niðurstöðu um áform um að reisa 50 MW virkjun í Gjástykki, sbr. skýrslu um virkjun háhitasvæðisins 2014. Sé fyrrgreindur málatilbúnaður matsþola því ámælisverð rökleysa.

 

Þrátt fyrir framangreint hafi ráðherra ekki hlutast til um fjárhagslegt mat þeirra auðlinda sem friðaðar hafi verið með friðlýsingu Gjástykkis. Með því hafi ráðherra brotið gegn 10. og 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ljóst sé að ráðherra telji hagsmunum ríkisins betur borgið með því að gefa ekki upp eða leyna fjárhagslegu mati ríkisins á þeim landgæðum sem friðlýsingin nemi á brott frá matsþolum. Þess vegna hafi matsþolar fengið sérfróða menn til að verðmeta umrædda auðlind miðað við mismunandi forsendur. Hafi matsþolar, í ljósi þess sem fyrr greinir um fyrirhugaða nýtingu þeirra á réttindunum í Gjástykki, óskað eftir því að sérfræðingarnir reiknuðu út og legðu mat á fjárhagslegt tjón matsþola. Annars vegar á þeim grundvelli að friðlýsingin útiloki virkjun Landsvirkjunar á háhitasvæðis Gjástykkis til orkuframleiðslu samkvæmt rammasamningnum og hins vegar á þeim grundvelli að friðlýsingin útiloki að þeir sjálfir, eða með öðrum, hefðu getað virkjað svæðið ef rammamningurinn hefði af einhverjum ástæðum ekki gengið eftir. Af útreikningum Þróunarfélags Íslands ehf. sé ljóst að fjárhagslegt tjón matsþola af völdum friðlýsingarinnar, uppreiknað miðað við gildistökudag auglýsingarinnar 1. apríl 2020, en hún tók gildi 22. sama mánaðar, nemi háum fjárhæðum, allt frá 3.925.140.000 krónum í 11.791.633.000 krónur eftir því við hvaða forsendur sé miðað. Það sé verkefni matsnefndar að greina efnisþætti fjárhagslegs tjóns matsþola en þeir telja skriflegan samningin um endurgjald Landsvirkjunar til þeirra fyrir virkjun Gjástykkis gera glögga grein fyrir þeim tekjum sem þeir hefðu notið ef sá samningur hefði gengið eftir og friðun háhitasvæðisins útiloki að þeir fái. Séu útreikningarnir aðeins núvirðing þeirra töpuðu tekna matsþola miðað við gildistökudag auglýsingarinnar. Á sama hátt liggi fyrir að ef Landsvirkjun hefði ekki, einhverra hluta vegna, virkjað Gjástykki hefðu matsþolar haft í hyggju að virkja þar sjálfir, með eða án aðkomu annarra. Ef til þess hefði komið hefðu matsþolar notið hærri tekna af þessari eign sinni, eins og greini í útreikningum Þróunarfélags Íslands ehf. Það sé álit matsþola að rétt sé að meta fjárhagslegt tjón þeirra út frá því mati sem hærra sé og að matsþolar eigi að njóta vafans í því samhengi.

 

Varðandi aðra matsþætti halda matsþolar því fram að þeir verði fyrir tjóni vegna efnisnáms, því þær námur sem nýttar hefðu verið hafi orðið einskis virði þegar ekkert verði af virkjun Gjástykkis. Hliðstæð rök eigi við um bætur vegna lands undir mannvirki í þágu virkjunarinnar.

 

Matsþolar fara þess á leit við matsnefnd eignarnámsbóta að nefndin ákveði fjárhæð bóta til þeirra með sjálfstæðu eignarnámsmati á grundvelli 3. mgr. 42. gr. laga nr. 60/2013, sbr. fyrirmæli laga nr. 11/1973 og verði þá litið til framangreindra forsendna um tjón matsþola, sem allar hafi legið fyrir í samtímaheimildum þegar ráðherra tók ákvörðunina um friðun.

 

VI

Niðurstaða matsnefndar:

1

Úrlausn matsnefndar um bætur fyrir landsréttindi matsþola er til komin á grundvelli heimildar í 3. mgr. 42. gr. laga nr. 60/2013. Matsþolar kveðast eigendur 76,5625% hluta jarðarinnar Reykjahlíðar í Skútustaðahreppi. Um er að ræða rétt þeirra til orkurannsókna og orkuvinnslu jarðvarma með uppsett varmaafl 50 MW eða meira og jarðvarma með uppsett rafafl 10 MW eða meira fyrir landi þeirra innan marka verndarsvæðis friðlýsingarinnar samkvæmt auglýsingunum 1. apríl 2020 og 16. júní 2021.

 

Með auglýsingunni 1. apríl 2020 var háhitasvæði Gjástykkis friðlýst gegn nánar tilgreindri orkuvinnslu. Í 1. gr. auglýsingarinnar segir að ráðherra hafi ákveðið, á grundvelli verndarflokks þingsályktunar 14. janúar 2013, að friðlýsa „háhitasvæði Gjástykkis: 100 Gjástykki í Norðurþingi, Skútustaðahreppi og Þingeyjarsveit“ gagnvart orkuvinnslu á grundvelli 53. gr. laga nr. 60/2013, svo og að verndarsvæðið sé 52 ferkílómetrar að stærð. Í 2. gr. auglýsingarinnar segir að tilgangur og markmið friðlýsingarinnar sé að vernda „háhitasvæði Gjástykkis: 100 Gjástykki“ gegn orkuvinnslu. Í 3. gr. auglýsingarinnar segir að mörk verndarsvæðisins séu sýnd á korti og afmarkist af þeim hnitum sem gefin séu upp í ISN93 hnitakerfi í viðauka I sem birtur sé með auglýsingunni. Afmörkun jarðhita sé dregin eftir útbreiðslu háhita samkvæmt viðnámsmælingum og landslagi. Friðlýsing Gjástykkissvæðis markist af Einbúa í vestri, Gæsafjöllum í suðvestri, Hrútafjöllum í austri og fylgi hrauninu til norðurs. Í 4. gr. auglýsingarinnar, eins og henni var breytt með 1. gr. auglýsingarinnar 16. júní 2021 segir að orkuvinnsla jarðvarma með uppsett varmaafl 50 MW eða meira og jarðvarma með uppsett rafafl 10 MW eða meira innan marka svæðisins sé óheimil, að ekki sé heimilt að veita leyfi tengd orkurannsóknum eða orkuvinnslu á verndarsvæðinu vegna virkjunar jarðvarma með uppsett varmaafl 50 MW eða meira og virkjunar jarðvarma með uppsett rafafl 10MW eða meira. Í 5. gr. auglýsingarinnar segir að brot gegn friðlýsingunni varði sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, sbr. 90. gr. laga nr. 60/2013. Í 6. gr. auglýsingarinnar er kveðið á um að friðlýsingin öðlist þegar gildi.

 

2

Með dómi Hæstaréttar 20. september 2012 í máli nr. 65/2012 var skorið úr um mörk eignarlands Reykjahlíðar til suðurs gagnvart þjóðlendu á Mývatnsöræfum og í Ódáðahrauni, eins og lýst var í úrskurðinum 17. desember 2020. Í dómi réttarins er öðrum merkjum Reykjahlíðar lýst svo:

 

„Í landamerkjaskrá Reykjahlíðar 8. apríl 1891 er norðurmerkjum jarðarinnar lýst austan frá Dettifossi í Jökulsá á Fjöllum að Bóndhóli fyrir vestan Gæsafjöll og fylgja þau nánar tilteknum kennileitum, sem samkvæmt uppdráttum, sem óbyggðanefnd studdist við, mynda sem næst beina línu frá austri til vesturs, rúmlega 28 km að lengd. Á þeirri leið liggja þessi merki að jörðunum Svínadal, Ási og Þeistareykjum í sveitarfélaginu Norðurþingi. Frá hornpunkti að norðvestan ná merki Reykjahlíðar að landi Grímsstaða í Skútustaðahreppi á um 12 km leið suður til Ytriflóa í Mývatni eftir nánar tilgreindum kennileitum. Síðan nær land Reykjahlíðar að vatninu norðaustanverðu þar til komið er suður að jörðinni Vogum í sama hreppi, um 2,5 km í beinni loftlínu frá merkjum Reykjahlíðar og Grímsstaða á bökkum vatnsins, en á þessu svæði er bæjarstæði Reykjahlíðar. Í landamerkjaskránni er merkjum jarðarinnar á móti Vogum lýst þannig: „Að sunnan móti Vogum ræður fyrst Svínavogur og Kálfstjörn, þá Smáralág er Reykjahlíð á hálfa. Þaðan bein lína austur í Námakollu hina syðri; þaðan beint í þreingsli við Skessuhala, þrýtur þar Vogaland að austan.“ Syðri-Námakolla er um 5 km í austnorðaustur frá vatnsbakka, en þaðan eru síðan tæplega 12 km suðaustur til Þrengsla við Skessuhala. Um merkin þaðan segir eftirfarandi í landamerkjaskránni: „Fyrir sunnan Vogaland ráða fjallgarðar þeir til suðurs, er næstir liggja Mývatnssveit og frá þeim bein stefna suður í Bræðraklyf vestur af Herðibreið. Frá Bræðraklyfi ræður bein stefna austur í Jökulsá, sunnan við Herðibreiðartungu.“ Samkvæmt framlögðum uppdrætti, sem sýnir hluta af merkjum Reykjahlíðar eins og áfrýjendur telja þau vera eftir landamerkjaskránni, stefna þau rúmlega 7 km til suðvesturs frá Þrengslum norður fyrir Búrfell að Hvannfelli og þaðan um 3 km til suðurs í Stórahnjúk, en merkin þannig dregin snúa að landi Voga. Síðan fara þau um 8 km til suðvesturs í norðurenda Bláfjalls og þaðan um 4 km í tind þess. Á þessari leið liggja merki Reykjahlíðar samkvæmt uppdrættinum að landi Grænavatns í Skútustaðahreppi, en um merki jarðanna tveggja á þessu svæði mun standa ágreiningur, sem er máli þessu óviðkomandi. [...] Loks er austurmörkum Reykjahlíðar lýst þannig í landamerkjaskránni að Jökulsá ráði „alla leið norður að Dettifossi.“ Í beinni stefnu er fossinn um 77 km norðan við þann stað, sem áfrýjendur telja vera hornmark Reykjahlíðar til suðausturs á bökkum Jökulsár. Handan árinnar liggur syðst á um 5 km bili hluti af landsvæðinu Krepputungur, sem er þjóðlenda samkvæmt dómi Hæstaréttar 16. september 2010 í máli nr. 473/2009, en norðan við það svæði telst land austan Jökulsár til eignarlanda ýmissa jarða samkvæmt úrskurðum óbyggðanefndar 29. maí 2007 í málum hennar nr. 2/2005 og 5/2005.“

 

Í tilvitnuðum dómi komst Hæstiréttur að niðurstöðu um að mörk eignarlands Reykjahlíðar til suðurs gagnvart þjóðlendu skyldu dregin eftir línu til austurs frá suðurenda Bláfjallshala til Bræðraklifs í Hafragjá og þaðan beint í Jökulsá á Fjöllum. Af þessu verður ráðið að miður farvegur Jökulsár á Fjöllum markar austurmörk jarðarinnar Reykjahlíðar og ná þau að norðan frá Dettifossi allt til punkts sem fundinn verður með því að draga áðurgreinda línu frá Bræðaklifi í Hafragjá og þaðan beint til árinnar.

 

Með dómi Hæstaréttar 26. september 2013 í máli nr. 547/2012 var síðan skorið úr um landamerki Reykjahlíðar til norðurs gagnvart merkjum Þeistareykja í Þingeyjarsveit og Áss og Svínadals í Norðurþingi. Í dómi réttarins er merkjum Reykjahlíðar meðal annars lýst svo:

 

„Reykjahlíð á land að norðan allt frá Gæsadalsmó í vestri að Dettifossi í austri en norðan Reykjahlíðar eiga Þeistareykir land að vestan og Ás og Svínadalur að austan. [...] Ekki er um það deilt að merki milli Reykjahlíðar og Áss og Svínadals liggja í beinni línu frá Dettifossi í austri, hnit: A619587 N593269, hér eftir (P1), að fjallinu Eilífi eða Eilífshnjúki í vestri (P2). Er land Reykjahlíðar sem fyrr segir sunnan línunnar en Áss og Svínadals að norðan. Þá er óumdeilt hvar merki milli Þeistareykja og Áss og Svínadals liggja úr Eyjólfshæð í norðri um Bunguvegg og suður undir Hituhóla. Einnig er ágreiningslaust að landamerki Reykjahlíðar og Þeistareykja liggja saman norðan Gæsafjalla og að hornmark milli þeirra er í (P6) á stað þeim „vestur í mó, þar til Bóndhóll er genginn í hásuður og Eilífshnjúkur ber rétt norðan undan Gæsafjöllum“ eins og segir í landamerkjabréf Reykjahlíðar 8. apríl 1891 sem þinglesið var 29. maí sama ár. [Hins vegar er ágreiningur um merki jarðanna þriggja sunnan og suðaustan Hituhóla. Í því sambandi deila málsaðilar meðal annars um hvort tilvísun í Hrútfjöll í Reykjahlíðarbréfinu merki hæsta tind á fjallinu eða örnefnið Hrútfjöll taki til stærra svæðis sem nái lengra til suðurs og þar með til Hrútafjallahala. Þá er deilt um staðsetningu kennileitisins Gangnamannaskarðs, en kennileitið Gangnamannaskarð hið syðra kemur fyrir í landamerkjabréfi Áss og Svínadals 1. maí 1889 sem þinglesið var 24. júní 1890. Jafnframt er um það ágreiningur um hvernig túlka beri orðin „þangað til bein stefna fæst útí Búnguveggi (rétt horn)“ í síðastnefndu landamerkjabréfi.]“

 

Í dóminum komst Hæstiréttur að svofelldri niðurstöðu um staðsetningu landamerkja Reykjahlíðar til norðurs gagnvart merkjum Þeistareykja og Áss og Svínadals sunnan og suðaustan Hituhóla:

 

„Samkvæmt öllu framansögðu verður það niðurstaða málsins að merki Reykjahlíðar gagnvart Þeistareykjum liggi úr punkti (P6) í Gæsadalsmó þar sem Bóndhóll er genginn í hásuður og Eilífshnjúk ber rétt norðan undan Gæsafjöllum, til austurs í punkt (P5) skammt norðan Éthóls og úr þeim punkti til norðurs í punkt (PB) skammt sunnan Hituhóla. Merki Reykjahlíðar gagnvart Ási og Svínadal liggja síðan til norðvesturs frá punkti (P2) í Eilífshnjúki í punkt (PA) í Gangnamannaskarði hinu syðra í Hrútafjöllum og þaðan til vesturs í punkt (PB) skammt sunnan Hituhóla þar sem er hornmark jarðanna þriggja.“

 

3

Mál þetta snýr að ákvörðun á bótum fyrir landsréttindi matsþola, það er rétt þeirra til orkuvinnslu jarðvarma með uppsett varmaafl 50 MW eða meira og jarðvarma með uppsett rafafl 10 MW eða meira fyrir landi matsandlagsins, innan marka verndarsvæðis sem sætti friðlýsingu ráðherra með auglýsingunum 1. apríl 2020 og 16. júní 2021. Mörk verndarsvæðis friðlýsingarinnar eru eins og áður greinir tilgreind í 3. gr. auglýsingarinnar 1. apríl 2020, þar sem segir að mörk verndarsvæðisins séu sýnd á viðlögðu korti og afmarkist af þeim hnitum sem gefin séu upp í ISN93 hnitakerfi í viðauka I, svo og að friðlýsingin markist af Einbúa í vestri, Gæsafjöllum í suðvestri, Hrútafjöllum í austri og fylgi hrauninu til norðurs. Kort það sem fylgdi auglýsingunni er ónákvæmt en af því og korti Loftmynda ehf. af landamerkjum samkvæmt dómi Hæstaréttar í máli nr. 547/2012 og kortum Búnaðarsambands Eyjafjarðar 16. apríl 2021 af verndarsvæði friðlýsingarinnar og háhitasvæði Gjástykkis, sem matsþolar hafa lagt fyrir matsnefnd, verður ráðið að sá hluti verndarsvæðisins sem er innan sveitarfélagamarka Skútustaðahrepps sé jafnframt innan landamerkja Reykjahlíðar og samkvæmt upplýsingum matsþola nemur sá hluti 23,72% af heildarsvæðinu sem sætti friðlýsingu umrætt sinn. Afmarkast það svæði af Draugagrundum í vestri þaðan sem fylgt er norðurmerkjum Reykjahlíðar, samkvæmt fyrrgreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 547/2012 (þar sem skorið var úr um landamerki Reykjahlíðar til norðurs gagnvart merkjum Þeistareykja og Áss og Svínadals sunnan og suðaustan Hituhóla), allt til punkts á austurmörkum verndarsvæðisins syðst í Hrútafjöllum, þaðan sem syðri mörk verndarsvæðisins eru dregin um fjóra nánar tilgreinda hnitapunkta fyrst í suður, næst í suðvestur og síðast í norðaustur uns komið er í fyrstgreinda punktinn í Draugagrundum. Af sömu kortum verður og ráðið að 52,98% háhitasvæðisins sem sætti friðlýsingu sé innan landamerkja Reykjahlíðar.

 

4

Í réttarframkvæmd hefur sú meginregla verið talin gilda við ákvörðun fjárhæðar eignarnámsbóta að miða beri bætur við sölu- og markaðsvirði eignar, nema útreikningur á grundvelli notagildis eignar leiði á hinn bóginn til hærri niðurstöðu en ætlað sölu- eða markaðsverð, svo og að í undantekningartilvikum geti eignarnámsþoli átt rétt á bótum sem ákvarðaðar eru á grundvelli enduröflunarverðs, sbr. t.d. dóma Hæstaréttar í máli nr. 233/2011 og 10. apríl 2014 í máli nr. 802/2013. Með sölu- eða markaðsvirði eignar er átt við það verð sem ætla má að fengist fyrir eignina við sölu hennar. Þegar bætur eru ákveðnar á grundvelli notagildis er leitast við að staðreyna þann líklega arð sem eignin getur gefið af sér á ársgrundvelli að teknu tilliti til endingartíma og vaxta. Þá koma bætur á grundvelli enduröflunarverðs aðeins til greina í undantekningartilvikum.

 

Við úrlausn málsins er til þess að líta að miða ber eignarnámsbætur við sölu- og markaðsvirði eignar, nema sérstakar ástæður standi til þess að reikna bætur á grundvelli notagildis eða enduröflunarverðs. Þær sérstöku röksemdir liggja fyrir í málinu að með dómi Hæstaréttar í máli nr. 233/2011 var tekið af skarið um að mælikvörðum söluverðs og notagildis verði ekki beitt afbrigðalaust um fallréttindi og komist að niðurstöðu um hvernig meta skuli til verðs fallsréttindi og önnur orkunýtingarréttindi hér á landi.

 

5

Ráðherra krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá matsnefndinni og reisir þá kröfu sína einkum á að málið sé vanreifað af hálfu matsþola, þ. á m. um lögvarða hagsmuni þeirra af úrlausn málsins, og að ekkert eignarnám hafi átt sér stað. Er málatilbúnaður ráðherra í öllu tilliti reistur á sömu röksemdum og byggt var í máli nr. 17/2019 fyrir matsnefnd eignarnámsbóta, sem leyst var úr með úrskurði 17. desember 2020, ef frá er talin röksemd þess efnis að matsþolar séu ekki réttur aðili að málinu fyrir matsnefnd. Þar sé þvert á móti um að ræða Landeigendafélag Reykjahlíðar ehf. og Landsvirkjun sem kunni eftir atvikum að hafa orðið fyrir tjóni af völdum friðlýsingarinnar sé slíku tjóni á annað borð til að dreifa. Því er nánar tiltekið haldið fram af hálfu ráðherra að matsþolar eigi ekki þau réttindi sem þeir reisa tilkall sitt til bóta á, því þeir byggi það á rammasamningi Landsvirkjunar og Landeigenda Reykjahlíðar ehf. 6. nóvember 2005 og af því ræður ráðherra að matsþolar hafi framselt einkahlutafélaginu allar heimildir sínar til nýtingar jarðhita og nauðsynlegra afnota af svæðunum innan landamerkja Reykjahlíðar. Hér er að áliti matsnefndar til þess að líta að matsþolar eru sem fyrr greinir eigendur 76,5625% jarðarinnar Reykjahlíðar og að tilkall þeirra til bóta vegna friðlýsingar ráðherra byggist á eignarhaldi á því svæði innan jarðarinnar þar sem þeir höfðu ráðgert að nýta jarðhitaréttindi Gjástykkis. Þótt matsþolar og aðrir þeir eigendur jarðarinnar sem hlutdeild áttu í Landeigendafélagi Reykjahlíðar ehf. hafi hagað því svo til að einkahlutafélagið væri í forsvari fyrir þá gagnvart Landsvirkjun vegna væntrar nýtingar, við gerð rammasamningsins 6. nóvember 2005, eru matsþolar eftir sem áður handhafar eignarréttar yfir meirihluta jarðarinnar og þar með tilsvarandi hluta þeirra auðlinda sem þar eru í jörðu, þ. á m. jarðhita, enda hafa eignarréttindi bindandi réttaráhrif gagnvart þriðja manni á meðan kröfuréttarsamband, á borð við það sem stofnaðist milli samningsaðila við gerð rammasamningsins, bindur aðeins hendur samningsaðilanna.

 

Að þessu virtu og með vísan til niðurstöðu matsnefndar í úrskurðinum 17. desember 2020 er hafnað aðalkröfu ráðherra um frávísun málsins frá nefndinni.

 

6

Kemur þá til úrlausnar matsnefndar ákvörðun um hvort matsþolum beri réttur til bóta úr hendi ráðherra, vegna friðlýsingarinnar og þá hverrar fjárhæðar. Undir matsnefndina heyrir enda að skera úr ágreiningi um eignarnámsbætur og annað endurgjald, sem ákveða á samkvæmt lögum nr. 11/1973, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna. Utan valdsviðs nefndarinnar fellur á hinn bóginn að taka afstöðu til þess markmiðs sem eignarskerðing, í þessu tilviki friðlýsing, miðar að og hvort sú leið sem valin hafi verið til að ná því markmiði sé hvoru tveggja hófleg og yfir höfuð til þess fallinn að ná settu marki, svo og hvort eignarskerðingin uppfylli kröfur um jafnræði.

 

Í áðurgreindri 1. mgr. 42. gr. laga nr. 60/2013 er að finna bótareglu þar sem segir meðal annars að hindri friðlýsing fyrirhugaða nýtingu landeiganda eða rétthafa lands á landinu eða geri hana til muna erfiðari, umfram það sem teljast megi til almennra takmarkana eignarréttar, skuli landeigandi eða rétthafi lands eiga rétt á bótum fyrir fjárhagslegt tjón sem hann verði fyrir og geti sýnt fram á að sé verulega umfram þær takmarkanir sem finna megi í sambærilegum friðlýsingum eða ákvörðunum. Til bótaábyrgðar getur þannig komið sýni tjónþoli, landeigandi eða rétthafi lands, fram á að friðlýsing hindri fyrirhugaða nýtingu hans eða geri fyrirhuguðu nýtinguna til muna erfiðari, í báðum tilvikum umfram það sem teljast megi til almennra takmarkana. Tjónþoli þarf einnig að sýna fram á fjárhagslegt tjón af völdum friðlýsingarinnar og þá jafnframt að tjónið „sé verulega umfram þær takmarkanir sem finna megi í sambærilegum friðlýsingum eða ákvörðunum.“ Ómælt er í ákvæðinu um hvernig ákveða skuli fjárhæð bóta og fer um það eftir almennum reglum sem áður voru raktar.

 

Matsþolar krefjast þess að þeim verði úrskurðaðar bætur vegna þess að þeir hafi verið sviptir rétti sínum til orkurannsókna og orkuvinnslu jarðvarma með uppsett varmaafl 50 MW eða meira og uppsett rafafl 10 MW eða meira fyrir landi matsandlagsins, en réttindin hugðust matsþolar nýta í framtíðinni. Þótt réttur eignarnámsþola til eignarnámsbóta sé ekki takmarkaður við tjón á verðmætum landgæðum sem þeir hafa þegar byrjað að hagnýta, sbr. t.d. dóma Hæstaréttar 21. júní 1955 í máli nr. 51/1955 sem birtur er í dómasafni réttarins á bls. 431 og í máli nr. 233/2011, verða eignarnámsbætur einungis ákveðnar fyrir fjárhagslegt tjón eignarnámsþola á grundvelli sjónarmiða skaðabótaréttar sem í því samhengi áskilja að lágmarki sönnun um tjón, fjárhæð þess og orsakatengsl milli tjónsins og eignarnámsins. Eiga þessi sjónarmið við að breyttu breytanda um ætlað tjón matsþola af völdum friðlýsingarinnar. Við það bætist að í íslenskum rétti hefur verið byggt á því að til þess að unnt sé að meta framtíðarnýtingu til verðs þurfi hún að vera í senn raunhæf og líkleg.

 

Markmið laga nr. 48/2011 er að tryggja að nýting landsvæða þar sem er að finna virkjunarkosti byggist á langtímasjónarmiðum og heildstæðu hagsmunamati þar sem tekið er tillit til verndargildis náttúru og menningarsögulegra minja, hagkvæmni og arðsemi ólíkra nýtingarkosta og annarra gilda sem varða þjóðarhag, svo og hagsmuna þeirra sem nýta þessi sömu gæði, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi, sbr. 1. gr. laganna. Taka lögin til landsvæða þar sem er að finna virkjunarkosti til orkuvinnslu innan eignarlanda og þjóðlendna, sbr. 1. mgr. 2. gr. Í 3. gr. laganna segir að ráðherra leggi í samráði og samvinnu við þann ráðherra sem fer með orkumál eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Í slíkri áætlun skal í samræmi við markmið laganna lagt mat á verndar- og orkunýtingargildi landsvæða og efnahagsleg, umhverfisleg og samfélagsleg áhrif nýtingar, þ.m.t. verndunar, svo og tekið mið af vatnaáætlun samkvæmt lögum um stjórn vatnamála, sbr. 4. mgr. 3. gr. Á grundvelli þessara sjónarmiða er í verndar- og orkunýtingaráætlun mótuð stefna um hvort landsvæði þar sem er að finna virkjunarkosti megi nýta til orkuvinnslu eða hvort ástæða sé til að friðlýsa þau eða kanna frekar. Samkvæmt því eru virkjunarkostir á viðkomandi svæðum flokkaðir í orkunýtingarflokk, verndarflokk eða biðflokk, sbr. 1. mgr. 3. gr. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. falla í verndarflokk virkjunarkostir sem ekki er talið rétt að ráðast í og landsvæði sem ástæða er talin til að friðlýsa gagnvart orkuvinnslu að teknu tilliti til sjónarmiða sem fram koma í 4. mgr. 3. gr. Stjórnvöldum er óheimilt að veita leyfi tengd orkurannsóknum eða orkuvinnslu vegna virkjunarkosta og landsvæða sem falla í verndarflokk og aðrar orkurannsóknir sem ekki eru leyfisskyldar eru einnig óheimilar þar, sbr. 2. mgr. 6. gr., þótt unnt geti verið að nánar tilgreindum skilyrðum uppfylltum að heimila yfirborðsrannsóknir á svæðum í verndarflokki, sbr. 3. mgr. sömu greinar. Í 4. mgr. 6. gr. segir meðal annars að stjórnvöld skuli þegar Alþingi hefur samþykkt verndar- og orkunýtingaráætlun hefja undirbúning að friðlýsingu landsvæða sem ástæða þyki til að friðlýsa gagnvart orkuvinnslu samkvæmt verndarflokki áætlunarinnar og um slíka friðlýsingu vegna náttúruverndar fari samkvæmt lögum um náttúruvernd.

 

Eins og áður greinir var virkjunarkostinum á háhitasvæði Gjástykkis á Gjástykkissvæði skipað í verndarflokk með þingsályktuninni 14. janúar 2013. Í kjölfarið hlutaðist ráðherra til um friðlýsingu á háhitasvæði Gjástykkis: 100 Gjástykki í Norðurþingi, Skútustaðahreppi og Þingeyjarsveit, samtals 52 ferkílómetrar, gagnvart orkuvinnslu á grundvelli 53. gr. laga nr. 60/2013 með auglýsingunni 1. apríl 2020 og 16. júní 2021. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 48/2011 segir meðal annars að að því marki sem virkjunarkostir sem séu innan eignarlanda séu ekki í eigu ríkisins kunni flokkun virkjunarkosta í bið- og verndarflokk að hafa áhrif á eignarréttindi einkaaðila og lögaðila. Þar segir einnig meðal annars:

 

„Frumvarpið mælir því í sjálfu sér eingöngu fyrir um ákveðna málsmeðferð og tryggir aðkomu Alþingis að mótun stefnu um landnýtingu og þar með samþættingu þeirra ólíku en ríku almannahagsmuna sem í húfi eru. Í því felst að ákvarðanir sem nú eru alfarið hjá stjórnvöldum færast að ákveðnu marki til Alþingis í formi almennrar stefnumörkunar að undangengnu samræmdu og faglegu mati á viðkomandi landsvæðum og virkjunarkostum. Með hliðsjón af því og þeim víðtæku takmörkunum sem heimild til orkuvinnslu innan sem utan eignarlanda hefur sætt og sætir enn og þeim ríku almannahagsmunum sem í húfi eru sem og því að áætlunin sætir reglubundinni endurskoðun verður ekki séð að frumvarpið feli í sér bótaskyldar takmarkanir á réttindum sem varin eru af 72. og 75. gr. stjórnarskrárinnar. Ekki er þó útilokað að endanleg ákvörðun um friðlýsingu landsvæða sem tekin er með hliðsjón af verndar- og nýtingaráætluninni kunni í einhverjum tilvikum mögulega að leiða til bótaskyldu gagnvart landeiganda en þá aðeins ef landeigandi getur sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir tjóni.“

 

Fallist verður á það með matsþolum að það hafi verið með friðlýsingunni sem landsréttindi þeirra hafi verið varanlega skert, en með vísan til niðurstöðu matsnefndar í úrskurðinum 17. desember 2020 verður hér lagt til grundvallar að ráðherra hafi við það tímamark svipt matsþola eignarréttindum sem fólust í rétti þeirra til orkurannsókna og orkuvinnslu jarðvarma með uppsett varmaafl 50 MW eða meira og jarðvarma með uppsett rafafl 10 MW eða meira fyrir landi matsandlagsins. Auðsætt er að matsþolar hafa með friðlýsingunni samkvæmt auglýsingunum 1. apríl 2020 og 16. júní 2021 verið sviptir með rétti sínum til umræddrar orkurannsókna og orkuvinnslu jarðvarma fyrir landi matsandlagsins, það er því landi Reykjahlíðar sem fellur innan verndarsvæðis friðlýsingarinnar. Að áliti matsnefndar hafa sterk rök verið leitt að því að sú eignarskerðing geti, óháð öðrum þáttum, valdið matsþolum tjóni og að þeim beri réttur til bóta úr hendi ráðherra af þeim sökum. Gögn málsins bera og með sér að framtíðarnýting matsþola á jarðhitaréttindum Gjástykkis hafi verið bæði raunhæf og líkleg, sbr. t.d. skýrslu Orkustofnunar um virkjunarkosti til umfjöllunar í 3. áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar, þ. á m. virkjunarkostinn Gjástykki, ásamt skýrslu Landsvirkjunar „LV-2014-130, Gjástykki, Tilhögun virkjunarkosts R3200B“, sem fylgdi erindi til verkefnastjórnar 3. áfangans 20. febrúar 2015, og orkuspá Orkuspárnefndar um raforkuþörf 2020-2060 þar sem ráðgert er að raforkunotkun meðal annars tengd orkuskiptum fari vaxandi á tímabilinu, auk þess sem til lengri tíma litið sé búist við aukinni notkun á orku með skerðanlegan flutning, sem skýrist af auknum uppsjávarafla, þótt veruleg óvissa sé um notkun á slíkri orku vegna uppbyggingar raforkukerfisins.

 

Að frágengninni þeirri niðurstöðu matsnefndar að matsþolum beri réttur til bóta úr hendi ráðherra vegna friðlýsingar á rétti til orkurannsókna og orkuvinnslu jarðvarma með uppsett varmaafl 50 MW eða meira og jarðvarma með uppsett rafafl 10 MW eða meira innan matsandlagsins, kemur næst til úrlausnar hvaða hlutdeild matsþolar eigi í þeim réttindum sem sættu friðlýsingunni umrætt sinn og hverrar fjárhæðar slíkar bætur skuli nema.

 

7

Eins og áður er fram komið eru matsþolar handhafar eignarréttar yfir 76,5625% hluta jarðarinnar Reykjahlíðar, en samkvæmt gögnum málsins á sú jörð 23,72% hlutdeild í verndarsvæði friðlýsingar ráðherra á háhita Gjástykkjasvæðis svo sem það er afmarkað samkvæmt auglýsingunni 1. apríl 2020. Þar af á jörðin samkvæmt fyrirliggjandi gögnum 52,98% hlutdeild í háhitasvæði Gjástykkis. Norðvesturhluti verndarsvæðis friðlýsingarinnar er á hinn bóginn innan sveitarfélagamarka Þingeyjarsveitar og norðausturhluti þess innan sveitarfélagamarka Norðurþings, þ. á m. nyrðri hluti háhitasvæðisins. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 sker matsnefnd eignarnámsbóta úr ágreiningi um eignarnámsbætur og annað endurgjald, sem ákvaða á samkvæmt lögunum. Í 3. mgr. laga nr. 57/1998 er svo fyrirmælt að eignarlandi fylgi eignarréttur að auðlindum í jörðu, en í þjóðendum séu auðlindir í jörðu eign íslenska ríkisins, nema aðrir geti sannað eignarrétt sinn til þeirra. Með auðlindum í jörðu er átt við þær jarðrænu auðlindir sem heyra undir lögin nr. 57/1998 samkvæmt 1. og 2. mgr. 1. gr. sömu laga, þ. á m. jarðhita samkvæmt VI. kafla laganna. Samkvæmt meginreglu íslensks eignaréttar ná eignarráð landeiganda svo langt niður sem nauðsyn er að leyfa honum til þess að hann geti haft venjubundin not af eignarrétti yfir fasteign sinni. Til þess að bætur verði metnar og þeim ráðstafað í réttum hlutföllum til einstakra fasteignareigenda þarf að leysa úr því hver hlutdeild hvers og eins þeirra sé í þeim réttindum sem um er að ræða.

 

Í rammasamningi Landsvirkjunar og Landeigendafélags Reykjahlíðar ehf. 6. nóvember 2005 segir í grein 2.9: „Með hliðsjón af því að nýting jarðhita í Gjástykki og á svonefndu vestursvæði innan jarðhitaréttarsvæðisins eða á öðrum stöðum kann að vera með þeim hætti að nýting auðlindarinnar, jarðhitageymisins, verður hugsanlega ekki aðskilin milli einstakra rétthafa með skýrum hætti eru aðilar sammála um að afla skuli mats dómkvaddra matsmanna um hver sé hlutfallslegur réttur hvers og eins til nýtingar úr hinni sameiginlegu auðlind, sbr. ákvæði 27. gr. laga nr. 57/1998.“ Í síðastgreindu lagaákvæði segir að komi upp ágreiningur milli rétthafa um nýtingu auðlindar, sem ekki fáist jafnaður, t.d. ef landamerki tveggja eða fleiri rétthafa liggi þannig að nýting auðlindar verði ekki aðskilin, skuli afla mats dómkvaddra matsmanna um hvernig hagkvæmast sé að hagnýta auðlindina og hver sé hlutfallslegur réttur hvers og eins til nýtingar. Með dómi Hæstaréttar 5. september 2016 var tekin til greina beiðni matsbeiðanda, Landeigendafélags Reykjahlíðar ehf., fyrir hönd nánar tiltekinna eigenda Reykjahlíðar, um að dómkvaddir yrðu matsmenn til að leggja mat á nánar tilgreind atriði samkvæmt nefndu lagaákvæði. Matsþolar voru íslenska ríkið, Landsvirkjun, nánar tilgreindir eigendur Voga og nánar tilgreindir sameigendur matsbeiðenda að Reykjahlíð. Matsþolar hafa lagt fyrir matsnefnd matsgerð hinna dómkvöddu manna frá því í júní 2017. Ber matsgerðin heitið „Nýting jarðhita á Námafjalls- og Kröflusvæði“. Af matsgerðinni verður ráðið að hún hafi lotið að nánar tilteknum landsvæðum og að það sé landsvæði sem stafmerkt hafi verið C sem taki til þess landsvæðis, Gjástykkis, sem mál þetta varðar. Lýtur matsspurning B meðal annars að því svæði en hún hljóðar svo: „Óskað er mats hinna dómkvöddu matsmanna á því hvort nýting jarðhita innan svæðis A á fylgiskjali 1 og nýting jarðhita á aðliggjandi og tengdum jarðhitasvæðum utan þess svæðis að vestan og norðan og á svæði merktu C að austan, verði aðskilin eða ekki. Ef matsmenn meta það svo að nýting jarðhitaréttinda á þessum svæðum, einu eða fleirum, verði ekki aðskilin eru matsmenn beðnir um að meta eftirfarandi: 1. Hvernig telja matsmenn hagkvæmast að hagnýta jarðhitaréttindi á svæðum þessum? 2. Hver er hlutfallslegur réttur sérhvers eiganda jarðhitaréttindanna á svæðum þessum til nýtingar þeirra?“ Niðurstaða matsmannanna í svari þeirra við spurningu B var svofelld: „Matsmenn telja að nýting jarðhita á svæði C norðan svæðis A verði ekki aðskilin frá nýtingu innan svæðis A. Sama mundi gilda um hugsanlegt kerfi norðan við mörk svæðis C innan háviðnámskjarnans. Jafnframt yrði nýting jarðhita innan svæðis A í Sandabotnum og í hugsanlegu kerfi í austanverðu Sandabotnafjalli ekki aðskilin frá nýtingu í sömu kerfum innan svæðis C.“ Niðurstaða matsmannanna í svari þeirra við spurningu B.1 var svofelld: „Hagkvæmast er, að nýting jarðhitans á svæðum þessum sé á einni hendi.“ Niðurstaða matsmannanna í svari þeirra við spurningu B.2 var svofelld: „Ef rannsóknir benda til þess að hlutar svæðis innan háviðnámskjarna Kröflusvæðis séu jafngildir til nýtingar er eðlilegast að flatarmál í eigu sérhvers eiganda ráði hlutfallslegum rétti hans. Ef óvissa ríkis um svæði þarf frekari rannsóknir til að meta hlutfallslegan rétt sérhvers eig[a]nda. Ef skipta á jarðhitaréttindum jaðarsvæði væri eðlilegast að láta flatarmál jaðarsvæðanna ráða skiptingu ef þau teljast jafngild eða ekki er unnt að gera mun á svæðum eftir rannsóknum.“ Í svari við síðastgreindu spurningunni var gerð svofelld athugasemd af hálfu matsmanna: „Matsmenn eru ekki til þess bærir að meta rétt einstakra eigenda jarðhitaréttindanna. Eftirfarandi svar vísar því til þess sem algengast er í samningum að flatarmál svæða ráði hlutföllum þegar þau teljast jafngild frá sjónarhóli jarðhitanýtingar. Sú regla á við um eignarhluta á hverju þeirra svæða, sem eru rauð á myndum 12a og 12b.“ Af þessu verður ráðið að með matsgerð hinna dómkvöddu manna hafi ekki verið útkljáð hver sé hlutfallslegur réttur hvers og eins fasteignareiganda til nýtingar á því svæði sem málið varðar, sbr. 27. gr. laga nr. 57/1998. Geti sá réttur ráðist af flatarmáli einstakra jarða sem land eiga í heildarjarðhitasvæðinu, ef háviðnámskjarnar svæðisins verði taldir jafngildir til nýtingar, en ella geti sá réttur ráðist af öðrum sérfræðilegum forsendum.

 

Til þess er að líta að valdsvið matsnefndarinnar einskorðast við úrlausn ágreinings um eignarnámsbætur og annað endurgjald, sem ákveða á samkvæmt lögum nr. 11/1973, og það er þannig ekki nefndarinnar að taka afstöðu til ágreinings um eignarhald á þeirri jarðrænu auðlind sem bótaákvörðun snýr að og þar með hlutfallslegan rétt hvers og eins til nýtingar. Hlutdeild matsþola í bótafjárhæð þeirri sem ákveðin yrði, vegna þess tjóns sem matsþolar hafa samkvæmt framangreindu beðið vegna eignarskerðingar af völdum friðlýsingar ráðherra með auglýsingum 1. apríl 2020 og 16. júní 2021, myndi eftir atvikum ráðast af hlutfallslegum nýtingarrétti hvers og eins eiganda landsins, og þar með réttinum til að nýta jarðhitageyminn í Gjástykki.

 

Hlutdeild jarðarinnar Reykjahlíðar, og þ. á m. matsþola, í þeim réttindum sem þannig sættu friðlýsingu, er óútkljáð en auðlindin, sem friðlýst var, er óumdeilanlega í sameign Reykjahlíðar og annarra þeirra jarða sem land eiga á svæðinu, í sveitarfélögunum Norðurþingi, Þingeyjarsveit og Skútustaðahreppi. Sameigendur matsþola að þeim réttindum sem sættu friðlýsingu hafa ekki átt aðild að máli þessu fyrir matsnefnd eignarnámsbóta og þar með ekki haft tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum að í málinu.

 

Á hinn bóginn er til þess að líta að samkvæmt óskráðum reglum um sérstaka sameign er það meginregla við ákvarðanatöku sameigenda að það dugi að meirihluti sameigenda samþykki tiltekna ráðstöfun eða hagnýtingu sameignarinnar. Það sé aðeins þegar ráðstöfun sé óvenjuleg eða mikils háttar að samþykki allra þurfi til. Þótt vera kunni að ákvörðun um að hagnýta jörðina Reykjahlíð á þann hátt sem matsþolar kveðast hafa haft í hyggju kunni að krefjast samþykkis allra, svo sem ráðherra hefur borið við í málinu, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar 11. febrúar 2016 í máli nr. 305/2015, varðar mál þetta ekki slíka ákvarðanatöku heldur þá ráðstöfun að krefjast skaðabóta á grundvelli bótaákvæðis í lögum vegna ætlaðrar skerðingar á eignarrétti fyrir friðlýsingu. Með vísan til úrskurðarins 17. desember 2020 er það álit matsnefndar að sú ráðstöfun að krefjast skaðabóta á grundvelli bótaákvæðis í lögum vegna ætlaðrar skerðingar á eignarrétti fyrir friðlýsingu sé ekki ráðstöfun sem útheimti samþykki allra.

 

Það er á hinn bóginn álit matsnefndarinnar að slík óvissa sé um hlutdeild matsþola í þeim réttindum sem sættu friðlýsingu, og þar með hlutdeild í bótum vegna tjóns af völdum þeirrar eignarskerðingar sem fólst í friðlýsingu réttindanna umrætt sinn, að ófært sé að ákveða bætur fyrir ætlað tjón af þessum völdum líkt og matsþolar hafa krafist.

 

Er því hafnað kröfu matsþola um að ákveðnar verði bætur þeim til handa úr hendi ráðherra vegna þess að með auglýsingunum 1. apríl 2020 og 16. júní 2021 hafi matsþolar verið sviptir rétti sínum til orkurannsókna og orkuvinnslu jarðvarma með uppsett varmaafl 50 MW eða meira og jarðvarma með uppsett rafafl 10 MW eða meira fyrir landi matsandlagsins.

 

8

Í síðari málslið 11. gr. laga nr. 11/1973 segir að eignarnemi skuli greiða eignarnámsþola endurgjald vegna þess kostnaðar, sem eignarnámsþoli hefur haft af rekstri matsmáls og hæfilegur verður talinn. Í málinu hefur af hálfu matsþola verið lagt fram málskostnaðaryfirlit vegna lögfræðiráðgjafar í þágu matsþola í þessu máli, þar sem heildarfjárhæð kostnaðar samkvæmt 14 reikningum fyrir vinnu á tímabilinu 12. ágúst 2019 til 30. apríl 2021 nemur 9.017.885 krónum, að meðtöldum virðisaukaskatti, auk reiknings að fjárhæð 182.430 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti frá Búnaðarsambandi Eyjafjarðar vegna gerðar tveggja korta sem lögð voru fram í málinu. Þótt málskostnaðarkrafa matsþola nemi hárri fjárhæð er til þess að líta að mál þetta er mikið að vöxtum og að af hálfu matsþola hefur verið lagt fram ítarlegt málskostnaðaryfirlit þar sem kostnaðarliðir er tíundaðir. Verður ráðherra því gert að greiða matsþolum óskipt 9.200.315 krónur (9.017.885 + 182.430), þar með talinn virðisaukaskatt, í kostnað vegna reksturs máls þessa fyrir nefndinni eins og greinir í úrskurðarorði.

 

Þá skal ráðherra greiða 2.000.000 krónur í ríkissjóð vegna starfa matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Hafnað er kröfu matsþola, Guðrúnar Maríu Valgeirsdóttur, R3 ehf., Bryndísar Jónsdóttur, Sigurðar Jónasar Þorbergssonar, Sigurðar Baldurssonar, Garðars Finnssonar, Hilmars Finnsonar og Gísla Sverrissonar, um bætur úr hendi umhverfis- og auðlindaráðherra vegna þess að með auglýsingum ráðherrans 1. apríl 2020 367/2020 um verndarsvæði á Norðausturlandi - háhiti Gjástykkissvæðis í verndarflokki verndar- og orkunýtingaráætlunar og 16. júní 2021 nr. 720/2021 um breytingu á auglýsingu nr. 367/2020 hafi matsþolar verið sviptir rétti sínum til orkurannsókna og orkuvinnslu jarðvarma með uppsett varmaafl 50 MW eða meira og jarðvarma með uppsett rafafl 10 MW eða meira fyrir landi jarðar þeirra Reykjahlíðar innan marka verndarsvæðis samkvæmt auglýsingunum.

 

Ráðherra skal greiða samtals 9.200.315 krónur málskostnað.

 

Þá skal ráðherra greiða 2.000.000 krónur í ríkissjóð vegna kostnaðar við matsnefnd eignarnámsbóta í máli þessu.

 

 

Valgerður Sólnes

 

 

            Daði Már Kristófersson                                             Karl Axelsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta