Úrskurður nr. 125/2017
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 15. júní 2017 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 125/2017
í stjórnsýslumáli nr. KNU16120025
Beiðni [...]
um endurupptöku
á úrskurði kærunefndar útlendingamála, dags. 22. mars 2016
I. Málsatvik
Þann 22. mars 2016 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar frá 10. febrúar 2015 um að synja umsókn [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga um útlendinga nr. 96/2002. Kærandi óskaði eftir frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar þann 8. apríl 2016. Þann 14. júní 2016 synjaði kærunefnd þeirri beiðni kæranda. Þann 7. nóvember s.á. barst kærunefnd beiðni kæranda um að kærunefnd endurskoðaði ákvörðun sína um að synja beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa. Þann 23. nóvember 2016 synjaði kærunefnd þeirri beiðni. Þann 7. desember 2016 var beiðni kæranda um endurupptöku máls kæranda framsent kærunefnd útlendingamála frá innanríkisráðuneytinu. Þann 22. desember sl. barst kærunefnd greinargerð með rökstuðningi fyrir því að nefndin endurskoði ákvörðun sína í máli kæranda frá 22. mars 2016, sbr. úrskurður kærunefndar nr. 109/2016. Með beiðni kæranda voru fylgigögn, m.a. gögn um heilsufar eiginkonu kæranda og barns hans, upplýsingar um hagi barna hans og aðstæður fjölskyldunnar hér á landi, auk bréfa frá vinum fjölskyldunnar og ljósmyndum úr lífi þeirra. Þann 20. janúar 2017 bárust kærunefnd viðbótarupplýsingar frá lögmanni kæranda um heilsufar dóttur kæranda. Kærunefnd óskaði eftir viðbótarupplýsingum og gögnum í málinu 8. febrúar sl. Þann 16. febrúar sl. bárust kærunefnd viðbótarupplýsingar og gögn í máli kæranda, m.a. gögn frá heilbrigðisstofnunum um heilsufar dóttur kæranda, upplýsingar frá barnavernd Reykjanesbæjar, bréf frá umboðsmanni Alþingis og Þjóðskrá Íslands. Þann 21. febrúar bárust kærunefnd enn frekari gögn um heilsufar eiginkonu kæranda, þ.e. læknisvottorð, dags. 15. febrúar, og [...], dags. sama dag. Þann 5. apríl 2017 barst kærunefnd greinargerð frá [...] eiginkonu kæranda. Þann 26. maí 2017 bárust síðan upplýsingar frá ríkislögreglustjóra um að eiginkona kæranda hafi sótt um dvalarleyfi á Ítalíu þann 10. janúar 2014 og fengið útgefið dvalarleyfi 8. febrúar 2014. Þann 30. maí 2017 bárust að lokum upplýsingar frá ítölskum yfirvöldum um að dvalarleyfi eiginkonu kæranda vegna fjölskyldutengsla hafi runnið út þann 17. nóvember 2015. Kærandi lagði að lokum fram viðbótargreinargerð þann 2. júní 2017.
Kærandi byggir beiðni um endurupptöku máls hans á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
II. Málsástæður og rök kæranda
Kærandi byggir á því að annmarkar hafi verið á málsmeðferð kærunefndar og að staðreyndavillur sé að finna í úrskurði nefndarinnar frá 22. mars 2016. Í úrskurðinum sé fjallað um kæranda og „ófætt barn þeirra“. Á þeim tíma hafi barn kæranda þegar verið fætt en það hafi fæðst [...]. Því sé ekki hægt að halda því fram að tillit hafi verið tekið til hagsmuna barnsins við uppkvaðningu úrskurðarins. Þrátt fyrir að fjallað hafi verið efnislega um þá stöðu að barnið hafi verið fætt þegar úrskurður um frestun réttaráhrifa var kveðinn upp þann 14. júní 2016 þá fjalli hann í sjálfu sér ekki efnislega um ákvörðun Útlendingastofnunar eða mat á því hvort veita beri þeim hæli eða dvalarleyfi. Kærandi telji því að úrskurður kærunefndar frá 22. mars 2016 byggi á röngum og ófullnægjandi upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.
Þá byggir kærandi einnig á því að skráning barna hans í þjóðskrá hafi verið ábótavant og ekki í samræmi við lög. Í 1. mgr. 21. gr. þágildandi laga um útlendinga komi fram að óheimlit sé að vísa útlendingi sem fæddur er hér á landi frá eða úr landi hafi hann átt hér óslitið fasta búsetu samkvæmt þjóðskrá. Kærandi færi rök fyrir því í greinargerð sinni að skrá hefði átt börnin með löglegum hætti í Þjóðskrá Íslands og því hafi 1. mgr. 21. gr. þágildandi laga um útlendinga átt við um börnin.
Í greinargerð kæranda kemur fram að eiginkona kæranda hafi glímt við veikindi sem [...] sem hún hafi [...]. Eiginkona kæranda hafi átt við [...]. Öll óvissa og röskun hafi afar slæm áhrif á heilsu hennar og geri henni erfitt fyrir. Þann 16. nóvember sl. hafi eiginkona kæranda [...]þegar flytja hafi átt fjölskylduna úr landi. Kærandi telji að sonur hans hafi einnig orðið fyrir [...]sama kvöld. Hann hafi [...].
Kærandi vísar í greinargerð sinni í ákvæði 12. gr. f þágildandi laga um útlendinga og lögskýringargögn að baki ákvæðinu. Þá vísar kærandi einnig í sameiginlega yfirlýsingu Barnaheilla, Rauða krossins, umboðsmanns barna og UNICEF á Íslandi, dags. 22. nóvember 2016, vegna barna sem leita alþjóðlegrar verndar hér á landi. Kærandi bendir á að líta beri til tengsla kæranda við landið við mat á því hvort 12. gr. f þágildandi laga eigi við. Kærandi taki fram að langt sé um liðið síðan ákvarðanir Útlendingastofnunar og kærunefndar útlendingamála voru teknar og margt hafi breyst síðan. Engin gögn hafi verið lögð fram við meðferð málsins um tengsl þeirra við landið. Þá sé það ekki við þau að sakast hversu langan tíma málsmeðferðin hafi tekið. Kærandi hafi nú búið hér í rúmlega tvö og hálft ár og hafi á því tímabili eignast fjölda vina og kunningja sem búsettir séu á Íslandi. Þá bendi kærandi á fjölda undirskrifta sem hafi safnast á örskömmum tíma til stuðnings kröfu fjölskyldunnar sem sýni ótvírætt að þau hafi mjög mikil tengsl við landið og að Íslendingar hafi mikil tengsl við þau. Þá hafi kærandi lagt sig fram um að læra íslensku og hafi stundað nám allan þann tíma sem hann hafi dvalið hér á landi. Kærandi hafi leitað sér að atvinnu og sé kominn með ráðningarsamning. Í febrúar síðastliðnum hafi hann síðan fengið samþykkt bráðabirgðadvalar- og atvinnuleyfi og hafi hann verið starfandi síðan. Kærandi byggir á að hann uppfylli skilyrði 4. mgr. 12. gr. f þágildandi laga um útlendinga þar sem hann hafi uppfyllt skilyrði fyrir útgáfu bráðabirgðadvalarleyfis í meira en tvö ár.
Af hálfu kæranda er því haldið fram að framkvæmd brottvísunar kæranda og fjölskyldu hans hafi verið ábótavant. Í ljós hafi komið að senda hafi átt fjölskylduna til lands sem ekki hafi verið tilbúið til að taka á móti þeim og aðstæður í landinu hafi ekki verið kannaðar með hliðsjón af þörfum barnanna. Fyrirhuguð brottvísun kæranda hafi leitt til þess að innanríkisráðherra hafi ákveðið að athuga hvort bæta þurfi allt verklag í þeim málum þar sem börn eiga í hlut. Að mati kæranda hafi verið alvarlegir meinbugir á framkvæmd ákvörðunar í ljósi þess að til hafi staðið að senda fjölskylduna til Ítalíu, þrátt fyrir að ekkert hafi legið fyrir um, hvorki í ákvörðun Útlendingastofnunar né úrskurðum kærunefndar, að kærandi og börnin hefðu einhver tengsl þar eða heimild til dvalar.
Að öllu framangreindu virtu telji kærandi ljóst að fullt tilefni sé til þess að endurupptaka mál hans. Þau atriði sem hafi verið tiltekin ættu hvert um sig að vera nægjanlegt tilefni til endurupptöku málsins og augljóst að nærtækast væri að veita fjölskyldunni dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Vísar kærandi í nokkra fyrri úrskurði kærunefndarinnar máli sínu til stuðnings.
Í greinargerð [...], dags. 30. mars 2017, kemur fram að eiginkona kæranda [...]. Þá kemur fram að mikilvægt sé að fjölskyldan geti upplifað öryggi saman og varast skuli að skilja þau að.
Í viðbótargreinargerð kæranda frá 2. júní sl. ítrekar kærandi að dvalarleyfi hans og einginkonunnar séu útrunnin á Ítalíu. Kærandi krefjist þess að mannúðar- og mannréttindasjónarmið verði höfð að leiðarljósi við mat á því hvort endurupptaka eigi mál fjölskyldunnar og hvort honum verði veitt dvalarleyfi hér á landi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Kærandi vísi jafnframt til slæms aðbúnaðar fólks í sömu stöðu á Ítalíu. Nýlegar fréttir gefi til kynna að aðstæður hafi ekki batnað þar í landi. Kærandi ítreki sjónarmið er varða viðkvæma stöðu fjölskyldunnar vegna ungs aldurs barnanna og veikinda eiginkonu kæranda.
III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Um endurupptöku stjórnsýslumáls
Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.
Í beiðni um endurupptöku er byggt á því að staðreyndavillur hafi verið í úrskurði í máli eiginkonu kæranda þar sem vísað hafi verið til barns kæranda sem „ófædds barns“ en dóttir kæranda hafi verið [...]þegar úrskurðað var í málinu. Eins og fram kemur í úrskurði kærunefndar í máli eiginkonu kæranda lágu fyrir upplýsingar um væntanlega barnsfæðingu hjá kærunefnd. Að mati kærunefndar hefur ekki þýðingu fyrir mat á aðstæðum í málinu hvort dóttir kæranda var fædd þegar nefndin komst að niðurstöðu í málinu enda lágu, sem fyrr segir, fyrir upplýsingar um væntanlega fæðingu hennar og í úrskurði kæranda voru aðstæður barna í heimaríki eiginkonu hans skoðaðar sérstaklega og tekin afstaða til aðstæðna sem biðu fjölskyldunnar. Er því ekki fallist á að skortur á upplýsingum um að barn kæranda væri fætt þegar nefndin úrskurðaði í máli eiginkonu kæranda geti talist ófullnægjandi eða rangar upplýsingar um málsatvik.
Kærandi byggir endurupptökubeiðni sína jafnframt á því að skráning barna kæranda hafi verið ábótavant í þjóðskrá og því sé óheimilt að vísa kæranda frá landinu. Í úrskurði kærunefndar frá 23. nóvember 2016 í máli nr. 479/2016, þar sem beiðni um endurupptöku á úrskurði kærunefndar um frestun réttaráhrifa í máli eiginkonu hans var synjað, var tekin afstaða til þessarar málsástæðu kæranda. Þar kemur fram að ákvæði 1. mgr. 21. gr. laga um útlendinga eigi ekki við í málinu og að ekki væru efni til endurupptöku málsins á þeim grundvelli að ekki hefði verið fjallað sérstaklega um ákvæðið í upphaflegum úrskurði nefndarinnar í málinu. Þessi afstaða kærunefndar er óbreytt en í því sambandi telur kærunefnd ekki hafa sérstaka þýðingu að kærandi telji skráningu í þjóðskrá hafa verið ábótavant.
Beiðni kæranda um endurupptöku málsins er jafnframt byggð á því að athugun kærunefndar hafi ekki verið byggð á fullnægjandi upplýsingum um aðstæður kæranda og barna hans á Ítalíu, í ljósi þess að til hafi staðið að senda fjölskylduna þangað en ekki til heimaríkja þeirra. Þá hefur kærandi lagt fram hjá kærunefnd ýmis gögn sem varða m.a. heilsufar eiginkonu kæranda og barna þeirra.
Eins og að framan greinir er nú liðið á annað ár frá því kærunefnd úrskurðaði í máli kæranda. Úrskurður nefndarinnar hefur aftur á móti ekki verið framkvæmdur. Í ljósi úrskurðar kærunefndar frá 22. mars 2016 er það mat kærunefndar að þau gögn sem kærandi hefur lagt fram varðandi heilsufar eiginkonu kæranda, gögn um heimildir fjölskyldunnar til dvalar á Ítalíu og upplýsingar frá ríkislögreglustjóra um að til standi að flytja kæranda og fjölskyldu hans til Ítalíu, séu þess eðlis, þegar litið er heildstætt á málsatvik og þær upplýsingar sem lágu fyrir þegar upphaflegur úrskurður féll í máli kæranda, að líta verði svo á að atvik málsins hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin.
Kærunefnd fellst því á beiðni kæranda um endurupptöku málsins.
Ákvæði 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Til viðbótar við skýrslur sem vitnað var til í úrskurði kærunefndar útlendingamála frá 22. mars 2016 hefur lagt mat á aðstæður í [...]m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum: [...].
Í úrskurði kærunefndar í máli kæranda kemur m.a. fram að kærandi hafi kveðið sig eiga hættu á ofsóknir af hálfu yfirvalda í [...]vegna tengsla við flokk í stjórnarandstöðu þar í landi. Með vísan til gagna málsins og upplýsinga um aðstæður í [...]væri það mat kærunefndar að ekki væri fyrir hendi ástæðuríkur ótti fyrir kæranda um að eiga á hættu ofsóknir af hendi yfirvalda í [...]. Í því sambandi benti kærunefnd á að kærandi hefði vísað til eins atburðar sem ástæðu flótta hans frá heimaríki en sá atburður hafi átt sér stað fyrir um áratug. Kærandi hafi ekki leitt líkur að því að ástæða sé til að óttast að atburðir af því tagi gætu endurtekið sig eða að kærandi ætti á hættu að verða fyrir annars konar ofsóknum í heimaríki hans. Þá væri það mat kærunefndar að gögn um aðstæður í [...]sem kærunefnd hefur kannað bendi ekki til þess að kærandi eigi nú á hættu ofsóknir af hálfu yfirvalda í [...].
Í þeim gögnum sem kærandi hefur lagt fyrir hjá kærunefnd og þeim skýrslum sem gefnar hafa verið út frá því úrskurðurinn var kveðinn upp kemur ekkert fram sem breytir framangreindu mati kærunefndar. Kærunefnd telur því að kærandi hafi ekki ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga. Þá er ekkert fram komið í málinu og þeim gögnum sem liggja fyrir um heimaríki kæranda sem bendir til þess að aðstæður kæranda þar falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016.
Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. og 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga nr. 80/2016 fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.
Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 6. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal stjórnvald sem kemst að því að ákvæði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laganna eigi ekki við um útlending að eigin frumkvæði taka til skoðunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. sömu laga. Þrátt fyrir að orðalag 1. mgr. 74. gr. kveði ekki með skýrum hætti á um veitingu dvalarleyfis má skilja af athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga nr. 80/2016, fyrirsögn greinarinnar og af 6. mgr. 37. gr. laganna að það hafi þó verið ætlunin með ákvæðinu. Kærunefnd telur því rétt að túlka ákvæðið sem heimild til veitingar dvalarleyfis þegar skilyrði þess eru uppfyllt.
Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga má líta til mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.
Í skýringum með 1. mgr. 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga er fjallað um ríka þörf á vernd af heilbrigðisástæðum. Með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum er, í samræmi við framkvæmd í öðrum löndum, miðað við atriði á borð við það hvort um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm er að ræða og meðferð við honum er aðgengileg hér á landi en ekki í heimalandi viðkomandi. Meðferð telst ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð er til í heimalandinu en viðkomandi á ekki rétt á henni. Jafnframt kunna að eiga hér undir mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm er að ræða eru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi þegar sjúkdómur er á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hefur hafist hér á landi og ekki er læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varða félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.
Í skýringum með 1. mgr. 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga er jafnframt fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimalandi og er sem dæmi nefnt aðstæður kvenna sem sætt hafi kynferðislegu ofbeldi eða sem aðhyllast ekki kynhlutverk sem eru hefðbundin í heimaríki þeirra og af þessum sökum eigi þær hættu á útskúfun eða ofbeldi við endurkomu.
Í ljósi þeirra gagna sem liggja nú fyrir kærunefnd og orðalags 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, þar sem fjallað er um aðstæður í heimaríki eða landi sem kæranda yrði vísað til, telur kærunefnd rétt að leggja mat á þær aðstæður sem bíða kæranda í heimaríki hans [...]og á Ítalíu. Kærunefnd hefur lagt mat á aðstæður á Ítalíu með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum: Asylum Information Database. Country Report – Italy (European Council on Refugees and Exiles, febrúar 2017); Amnesty International Report 2016/17 (Amnesty International, 21. febrúar 2017); Endursendingar hælisleitenda til Ítalíu, greinargerð innanríkisráðuneytisins í desember 2015 (Innanríkisráðuneytið, desember 2015); Italy 2016 Human Rights Report (United States Department of State, mars 2017), Reception conditions in Italy. Report of the current situation of asylum seekers and beneficiaries of protection, in particular Dublin returnees (Swiss Refugee Council, ágúst 2016) og Italy: The permesso di soggiorno illimitata, including its physical characteristics; requirements and procedures to obtain and renew the document; rights of holders of the document (Canada: Immigration and Refugee Board of Canada, 6. mars 2015).
Í beiðni kæranda um endurupptöku málsins kemur fram að eiginkona kæranda þjáist [...]. Lögð hafa verið fram gögn [...]. Þá liggur fyrir bréf, dags. 21. nóvember 2016, varðandi viðtöl [...] við kæranda þar sem fram kemur að kærandi [...]. Þá er því haldið fram að sonur þeirra þjáist af [...]en í því sambandi hefur kærandi lagt fram gögn frá leikskóla sonar kæranda varðandi [...]í kjölfar tilraunar lögreglu til að framkvæma úrskurð kærunefndar útlendingamála í málum fjölskyldunnar. Þá er því lýst í beiðninni að dóttir kæranda hafi [...]. Með beiðninni fylgdu gögn varðandi [...]
Að mati kærunefndar benda þau læknisfræðilegu gögn sem hafa verið lögð fram varðandi heilsu barna kæranda ekki til þess að þau séu í virkri læknismeðferð eða þjáist nú af veikindum. Þá telur kærunefnd að gögn um andlega og líkamlega heilsu eiginkonu kæranda séu ekki þess eðlis að veikindi hennar verði talin svo alvarleg að hún teljist hafa ríka þörf á vernd vegna heilbrigðisástæðna. Þá hefur kærandi greint frá því að hann sé við góða heilsu, bæði líkamlega og andlega. Því er það mat kærunefndar að gögn málsins renni ekki stoðum undir að heilsufar kæranda nái því alvarleikastigi að þau geti verið grundvöllur dvalarleyfis samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærandi hefur borið fyrir sig að hann og fjölskylda hans séu í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Aðstæður einstaklinga sem hlotið hafa alþjóðlega vernd á Ítalíu séu afar bágar.
Í úrskurði kærunefndar frá 22. mars 2016 kom fram sú afstaða nefndarinnar að kærandi gæti með góðu móti lifað og starfað í heimalandi sínu. Að mati kærunefndar er ekkert komið fram, hvorki í gögnum frá aðila né nýjum skýrslum sem kærunefnd hefur kynnt sér, sem haggar fyrra mati nefndarinnar á aðstæðum í heimaríki kæranda og þeirri niðurstöðu að þær aðstæður sem bíða kæranda í heimaríki geti ekki talist erfiðar í skilningi 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Þar sem kærandi sé [...]tók kærunefnd í framangreindum úrskurði sérstaklega til skoðunar möguleika kæranda og eiginkonu hans til fjölskyldusameiningar. Komst nefndin að þeirri niðurstöðu að mögulegt væri fyrir fjölskylduna að sameinast í heimaríki eiginkonu hans, [...]. Var það mat kærunefndar að kærandi teldist ekki hafa ríka þörf á vernd í skilningi 12. gr. f laga um útlendinga nr. 96/2002, sbr. nú 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Að mati kærunefndar er ekkert komið fram, hvorki í gögnum frá aðila né nýjum skýrslum sem kærunefnd hefur kynnt sér, sem haggar fyrra mati nefndarinnar á aðstæðum í heimaríki eiginkonu kæranda og þeirri niðurstöðu að þær aðstæður sem kunna að bíða kæranda verði hann sendur til [...]geti ekki talist erfiðar í skilningi 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Í úrskurði kærunefndar frá 22. mars 2016 komst nefndin jafnframt að þeirri niðurstöðu að mögulegt væri fyrir kæranda og fjölskyldu hans að sameinast á Ítalíu. Samkvæmt gögnum málsins er kærandi með ótímabundið dvalarleyfi á Ítalíu (permesso di soggiorno illimitata) sem var gefið út 12. júlí 2013. Rannsókn kærunefndar ekki leitt annað í ljós en að dvalarleyfi kæranda sé enn í gildi og hann muni aðeins þurfa að endurnýja ljósmynd á dvalarleyfisskírteini sínu á næsta ári. Kærandi hafi því sömu réttindi og ítalskir ríkisborgarar, þ.m.t. að ítölsku heilbrigðiskerfi, skólakerfi og félagslegu kerfi þar í landi. Ekkert í þeim gögnum sem kærunefnd hefur skoðað bendir til þess að skortur á viðhlítandi stuðningi á Ítalíu sé þess eðlis að talið verði að kærandi og fjölskylda hans hafi ríka þörf á vernd á þeim grundvelli.
Það er mat kærunefndar að þær félagslegu aðstæður sem bíða kæranda nái ekki því alvarleikastigi sem 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga fjallar um, hvorki með tilliti til aðstæðna hans í heimaríki né á Ítalíu en ákvæðið tekur ekki til neyðar af efnahagslegum rótum, svo sem fátæktar eða húsnæðisskorts líkt og fram kemur í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga nr. 80/2016.
Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda, Ítalíu og gögn málsins eru virt í heild, með hliðsjón af aðstæðum kæranda í heimaríki og á Ítalíu, er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að kærandi teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því verður ekki fallist á að aðstæður hans í heimaríki eða í því landi sem hann yrði sendur til, þ.e. Ítalíu, séu með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga
Í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kemur fram að heimilt er að veita útlendingi sem sótt hefur um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt ákvæðinu að því tilskyldu að skorið hafi verið úr um að útlendingur uppfylli ekki skilyrði skv. 37. og 39. gr. Þó segir í d-lið 3. mgr. 74. gr. laganna að ákvæði 2. mgr. eigi ekki við þegar útlendingur á sjálfur þátt í því að niðurstaða hafi ekki fengist innan tímamarka.
Kærandi sótti um alþjóðlega vernd þann 2. október 2014. Kærandi fékk niðurstöðu í mál sitt með úrskurði kærunefndar útlendingamála, dags. 22. mars 2016, sem birtur var 29. apríl 2016. Samkvæmt gögnum málsins stóð til að framkvæma úrskurð kærunefndar útlendingamála með flutningi kæranda og fjölskyldu hans til Ítalíu 16. nóvember 2016 en ekki varð af flutningnum. Þá liggur fyrir að kærandi óskaði eftir endurupptöku málsins með erindi til innanríkisráðuneytisins, dags. 25. nóvember 2016, sem var framsent til kærunefndar útlendingamála með bréfi, dags. 7. desember 2016. Samkvæmt framansögðu var mál kæranda til meðferðar á stjórnsýslustigi frá 2. október 2014 til 29. apríl 2016 eða í rúmlega 18 mánuði. Endurupptökubeiðni kæranda hefur verið til meðferðar hjá kærunefnd útlendinga frá 7. desember 2016 og er kærandi enn hér á landi. Samkvæmt framansögðu hefur kærunefnd útlendingamála fallist á beiðni kæranda um endurupptöku málsins og fer því um málið samkvæmt ákvæðum laga nr. 80/2016, sbr. 2. mgr. 121. gr. laganna. Þótt litið yrði svo á að kærandi hefði sjálfur átt þátt í því að flutningur hans var ekki framkvæmdur í nóvember á síðasta ári hefur kærunefnd litið til þess að þegar þau atvik áttu sér stað hafði mál kæranda þegar verið til meðferðar hjá stjórnvöldum í 18 mánuði. Standa þau atvik því ekki í vegi fyrir beitingu 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga í máli kæranda.
Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða kærunefndar að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Samantekt
Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að fallast á beiðni kæranda um endurupptöku málsins. Niðurstaða kærunefndar er að staðfesta beri synjun Útlendingastofnunar á umsókn kæranda um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga en að veita beri kæranda dvalarleyfi samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.
Úrskurðarorð
Fallist er á beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans.
Umsókn kæranda um alþjóðlega vernd samkvæmt 40. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. og 2. mgr. 37. gr. laganna, er synjað. Umsókn kæranda um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 er synjað. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að veita kæranda dvalarleyfi samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.
The appellant's request for reexamination of his case is granted.
The appellant's application for international protection based on Article 40 and Article 37 paragraph 1 and 2 is denied. The appellant's application for a residence permit on humanitarian grounds based on Article 74, paragraph 1, of the Act on Foreigners no. 80/2016 is denied. The Directorate is instructed to issue the appellant a residence permit based on Article 74, paragraph 2, of the Act on Foreigners no. 80/2016.
Hjörtur Bragi Sverrisson
Erna Kristín Blöndal Anna Tryggvadóttir