Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 85/2017

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 14. febrúar 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 85/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU16120041

Kæra [...] á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 13. desember 2016 kærði [...] (hér eftir nefndur kærandi), þá ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 9. desember 2016, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd frá [...], synja honum um alþjóðlega vernd vegna aðstæðna í Grikklandi og um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Kærandi krefst þess að umsókn hans um alþjóðlega vernd verði tekin til efnismeðferðar hér á landi á grundvelli 2. og 3. mgr. 36. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, með vísan til 42. gr. sömu laga.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 1. mgr. 30. gr. þágildandi laga um útlendinga nr. 96/2002 og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

Hinn 1. janúar 2017 tóku gildi ný lög um útlendinga nr. 80/2016. Samkvæmt 1. mgr. 121. gr. laganna gilda ákvæði þeirra um mál sem bárust kærunefnd útlendingamála fyrir gildistöku laganna en höfðu ekki verið afgreidd með úrskurði. Fer því um þetta mál samkvæmt ákvæðum laga nr. 80/2016.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Í gögnum málsins greinir að kærandi hafi sótt um alþjóðlega vernd hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu þann 24. september 2016. Kærandi mætti til viðtals hjá Útlendingastofnun þann 13. október 2016 ásamt löglærðum talsmanni sínum. Þann 9. desember 2016 tók Útlendingastofnun ákvörðun í máli kæranda. Kærandi kærði þá ákvörðun til kærunefndar útlendingamála við birtingu þann 13. desember 2016. Kærandi óskaði eftir frestun réttaráhrifa á ákvörðun Útlendingastofnunar þann sama dag. Kærunefnd hefur borist greinargerð kæranda, dags. 10. janúar 2017.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun sinni komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd ekki til efnislegrar meðferðar með vísan til a-liðar 1. mgr. 46. gr. a þágildandi laga um útlendinga. Í málinu lægi fyrir að kæranda hefði verið veitt réttarstaða flóttamanns í Grikklandi.

Við meðferð málsins bar kærandi m.a. fyrir sig bágar aðstæður í Grikklandi. Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til þess að Mannréttindadómstóll Evrópu hefði slegið því föstu að 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu legði ekki skyldu á aðildarríki til að sjá öllum sem dvelji innan lögsögu þeirra fyrir heimili og ekki almenna skyldu á aðildarríki að veita viðurkenndum flóttamönnum fjárhagsaðstoð í því skyni að gera þeim kleift að viðhalda tilteknum lífskjörum. Var það mat Útlendingastofnunar að 45. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga, sbr. nú 42. gr. laga nr. 80/2016, kæmi ekki í veg fyrir að kærandi yrði sendur aftur til Grikklands. Þá var kæranda synjað um alþjóðlega vernd vegna aðstæðna í Grikklandi þar sem umsækjandi sem ríkisborgari [...] gæti ekki á rétt á hæli sem flóttamaður vegna aðstæðna sinna í Grikklandi. Þá var kæranda synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 12. gr. f þágildandi útlendingalaga.

Með hinni kærðu ákvörðun var kæranda vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 18. gr. þágildandi laga nr. 96/2002 um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti jafnframt kæranda að kæra frestaði ekki framkvæmd ákvörðunar hennar með vísan til c-liðar 1. mgr. 32. gr. sömu laga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann vilji ekki fara aftur til Grikklands enda hafi hann engin réttindi þar. Kærandi hafi ekki getað leigt sér húsnæði, verið án aðstoðar frá félagsmálayfirvöldum og orðið fyrir miklum kynþáttafordómum. Þá óttist hann hóp fasista sem séu þekktir fyrir að beita flóttamenn ofbeldi en hópurinn hafi í eitt skipti ráðist að kæranda sem hafi hlotið skurð á tungu í átökunum. Kærandi treysti ekki lögregluyfirvöldum í Grikklandi til að aðstoða sig þar sem hann telji hópinn vera í vinnu hjá grískum stjórnvöldum.

Í alþjóðlegum skýrslum komi fram að skortur á samþættingar- og aðlögunarferlum hafi gert það að verkum að flóttamönnum í Grikklandi sé mismunað og jafnvel útskúfað félagslega og efnahagslega. Engin opinber stefna sé við lýði í landinu sem stuðli að atvinnuþátttöku viðurkenndra flóttamanna og aðgangur að atvinnu sé háður takmörkunum. Þá sé ekkert félagslegt húsnæði í boði í Grikklandi eða stuðningur, svo sem húsaleigubætur eða styrkir, til einstaklinga með alþjóðlega vernd. Að auki hafi Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna lýst yfir alvarlegum áhyggjum af kynþáttafordómum og mismunun sem ógni öryggi flóttafólks á Grikklandi. Kærandi upplifi óöryggi í Grikklandi og telji jafnvel ógerlegt að búa þar. Samkvæmt handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna geti einstaklingur hafa sætt meðferð sem í sjálfu sér jafngildi ekki ofsóknum en sé samtvinnað öðru mótlæti. Þegar mismunandi þættir séu teknir saman sem ein heild við slíkar aðstæður geti einstaklingur rökstutt með skynsamlegum hætti staðhæfingar um ástæðuríkan ótta við ofsóknir. Þá geti mismunun, t.d. á grundvelli kynþáttar, jafngilt ofsóknum brjóti hún gegn grundvallarmannréttindum.

Kærandi telur að sérstakar ástæður mæli með því að umsókn hans um alþjóðlega vernd verði tekin til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, enda séu nú uppi afar sérstakar aðstæður í Evrópu vegna gríðarlegs fjölda hælisleitenda og flóttamanna í álfunni. Auk þess hafi kærandi greint frá því að hafa orðið fyrir aðkasti og ofbeldi af hópi manna sem leiti uppi flóttamenn í Grikklandi. Af hálfu kæranda er einnig byggt á því að vegna aðbúnaðar og aðstæðna hans á Grikklandi myndi endursending hans til landsins brjóta gegn „non-refoulement“ reglu 42. gr. laga nr. 80/2016 og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Ekki sé ástæða til að gera greinarmun á aðstæðum umsækjenda um alþjóðlega vernd annars vegar og einstaklinga með alþjóðlega vernd hins vegar við mat á því hvort aðstæður falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Að mati kæranda verði að einblína á það hvort viðkomandi einstaklingur sé í hættu á illri meðferð í skilningi 3. gr. mannréttindasáttmálans. Með vísan til þess sem rakið hafi verið um aðstæður viðurkenndra flóttamanna í Grikklandi sé ljóst að aðstæður þeirra séu svo slæmar að þær jafnist á við ómannúðlega og vanvirðandi meðferð í skilningi 3. gr. sáttmálans. Endursending kæranda til Grikklands myndi þannig brjóta gegn ákvæðum 3. mgr. 36. gr. og 42. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Úrlausnarefni kærumáls þessa er að skera úr um hvort rétt sé að taka ekki til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd frá heimaríki hans [...] og vísa honum frá landinu. Í málinu liggur fyrir að kæranda hefur verið veitt réttarstaða flóttamanns í Grikklandi. Kærandi hefur framvísað grísku dvalarleyfiskorti með gildistíma til 1. október 2017.

Í 1. mgr. 36. gr. núgildandi laga nr. 80/2016 um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 36. gr. er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hafi umsækjandi komið til landsins að að eigin frumkvæði eftir að hafa hlotið virka alþjóðlega vernd eða annars konar vernd í öðru ríki eða ef hann, eftir að hafa dvalist í ríki þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum, gat óskað eftir því að fá viðurkennda stöðu sem flóttamaður og, ef hann var talinn flóttamaður, fengið vernd í samræmi við alþjóðasamning um stöðu flóttamanna. Þá er kveðið á um í 2. mgr. 36. gr. laganna að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Þá er í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga tekið fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því landi sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæði sem greinir í 1. mgr.

Við mat á 42. gr. laga um útlendinga verður m.a. að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, þar sem kveðið er á um að enginn maður skuli sæta pyndingum eða ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Verður því að leggja mat á hvort aðstæður í Grikklandi brjóti í bága við ákvæði 3. gr. mannréttindasáttmálans. Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið lagt til grundvallar að sú meðferð, sem einstaklingur eigi von á, verði að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi til þess að falla undir 3. gr. mannréttindasáttmálans. Við það mat verði að horfa til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar og í einhverjum tilvikum kyns, aldurs og heilsufars viðkomandi. Meta verði fyrirsjáanlegar afleiðingar af því að vísa einstaklingi til móttökuríkis í ljósi almennra aðstæðna í ríkinu og persónulegra aðstæðna viðkomandi einstaklings.

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur slegið því föstu að 3. gr. mannréttindasáttmálans feli ekki í sér kröfu til aðildarríkja sáttmálans til þess að veita öllum flóttamönnum heimili eða fjárhagslega aðstoð til þess að viðhalda ákveðnum lífsskilyrðum, sbr. ákvörðun í máli Samsam Mohammed Hussein o.fl. gegn Hollandi og Ítalíu (mál nr. 27725/10) þann 2. apríl 2013.

Kærunefndin hefur lagt mat á aðstæður í Grikklandi m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • 2015 – Country Reports on Human Rights Practices – Greece (United States Department of State, 13. apríl 2016),
  • UNHCR observations on the current asylum system in Greece (UNHCR, desember 2014),
  • Asylum Information Database, National Country Report: Greece (European Council on Refugees and Exiles, nóvember 2015),

· ECRI Report on Greece (fifth monitoring cycle) (European Commission against Racism and Intolerance, 24. febrúar 2015),

  • Greece as a Country of Asylum – UNHCR‘s Recommendations (UNHCR, 6. apríl 2015) og

· State of the World‘s Minorities and Indigenous Peoples 2015 – Greece (Minority Rights Group International, 2. júlí 2015).

Af framangreindum gögnum má sjá að grísk stjórnvöld hafa verið gagnrýnd vegna aðbúnaðar hælisleitenda og flóttamanna þar í landi. Samkvæmt ofangreindum skýrslum hefur Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna lagst gegn endursendingum umsækjenda um alþjóðlega vernd á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar til Grikklands síðan árið 2009. Þá hefur stofnunin fjallað um slæm áhrif efnahagshrunsins á aðstæður í landinu og möguleika viðurkenndra flóttamanna á að aðlagast grísku samfélagi. Ljóst er að þeir sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í Grikklandi lifa oft á jaðri samfélagsins og eru stundum í raun félagslega útilokaðir. Einstaklingar með alþjóðlega vernd eiga hins vegar sama rétt til heilbrigðisþjónustu og félagslegrar aðstoðar og grískir ríkisborgarar og í dvalarleyfi þeirra felst nú jafnframt sjálfkrafa aðgangur að vinnumarkaði. Jafnframt eru til staðar frjáls félagasamtök sem aðstoða þá sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í Grikklandi við að kynna sér þau réttindi sem þeir eiga rétt á. Þá hefur Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna ekki lagst gegn flutningi þeirra sem hlotið hafa alþjóðlega vernd til Grikklands. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér má jafnframt ráða að kærandi geti leitað til lögreglu eða annarra stjórnvalda verði hann fyrir fordómum eða ofbeldi vegna kynþáttar.

Kærandi er ungur, einstæður karlmaður. Eins og fram hefur komið kveðst kærandi hafa búið við bágar aðstæður í Grikklandi og orðið fyrir líkamsárás vegna kynþáttar. Í viðtali hjá Útlendingastofnun kvaðst kærandi vera við góða líkamlega og andlega heilsu. Það er mat kærunefndar að ekkert í gögnum málsins bendi til þess að kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga.

Að framangreindu virtu er það mat kærunefndar, með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem Mannréttindadómstóll Evrópu hefur lagt til grundvallar í úrlausnum sínum, að ágallar á aðbúnaði þeirra sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í Grikklandi verði ekki taldir svo alvarlegir að þeir gefi ástæðu til að ætla að kærandi muni standa frammi fyrir raunverulegri hættu á að sæta ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð í Grikklandi verði hann sendur þangað. Þá benda gögn til þess að telji kærandi sig í hættu eða öryggi hans ógnað í Grikklandi geti hann leitað til lögregluyfirvalda í landinu. Að framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndar að endursending kæranda til Grikklands feli ekki í sér brot á 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu eða 13. gr. sáttmálans.

Þá er það mat kærunefndar, að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda, að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæli með því að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 13. október 2016 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hann lagði fram umsókn sína þann 25. september 2016.

Fyrir liggur að kæranda hefur verið veitt réttarstaða flóttamanns í Grikklandi. Kæranda hefur því verið veitt vernd í öðru ríki en heimaríki sínu. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd frá heimaríki sínu [...] og senda hann til Grikklands með vísan til a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Í hinni kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar, sem tekin var í gildistíð eldri laga um útlendinga nr. 96/2002, var fjallað um rétt kæranda til þess að fá alþjóðlega vernd vegna aðstæðna í Grikklandi og komist að þeirri niðurstöðu að hann, sem ríkisborgari [...], gæti ekki átt rétt á alþjóðlegri vernd vegna aðstæðna sinna í Grikklandi þar sem hann hafði hlotið stöðu flóttamanns. Þá var það niðurstaða Útlendingastofnunar að kærandi uppfyllti ekki skilyrði til veitingar dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 12. gr. f laganna.

Í 74. gr. núgildandi laga nr. 80/2016 um útlendinga er fjallað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Í lokamálslið 1. mgr. 74. gr. laganna segir að ákvæðinu skuli ekki beitt nema skorið hafi verið úr um með efnismeðferð að útlendingur uppfylli ekki skilyrði alþjóðlegrar verndar. Kærunefnd telur ekki tilefni til að gera athugasemd við þá afstöðu Útlendingastofnunar að kærandi geti ekki átt rétt á alþjóðlegri vernd vegna aðstæðna sinna í Grikklandi þar sem hann er ríkisborgari [...]. Samkvæmt framansögðu og í ljósi lagaskilareglu 121. gr. laga nr. 80/2016 telur kærunefnd ekki skilyrði að lögum til útgáfu dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða til handa kæranda, sbr. 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun á stjórnsýslustigi um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Anna Tryggvadóttir

Erna Kristín Blöndal Þorbjörg I. Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta