Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 167/2017

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 23. mars 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 167/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU16090048

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 19. september 2016 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 29. ágúst 2016, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f þágildandi laga nr. 96/2002 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að vera veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 44. gr. þágildandi laga um útlendinga nr. 96/2002. Til vara krefst kærandi að honum verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 44. gr. sömu laga. Til þrautavara krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f þágildandi laga um útlendinga. Kærandi krefst þess í öllu falli að felld verði úr gildi ákvörðun um að kæranda skuli vísað brott af landinu og sæta endurkomubanni.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 30. gr. þágildandi laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

Hinn 1. janúar 2017 tóku gildi ný lög um útlendinga nr. 80/2016. Samkvæmt 2. mgr. 121. gr. laganna gilda ákvæði þeirra um mál sem bárust kærunefnd útlendingamála fyrir gildistöku laganna en höfðu ekki verið afgreidd með úrskurði. Fer því um mál þetta samkvæmt ákvæðum laga nr. 80/2016.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 8. mars 2016 hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun þann 6. og 28. júlí 2016 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 29. ágúst 2016, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 19. september 2016. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 12. október 2016. Kærandi kom til viðtals hjá kærunefndinni þann 2. mars 2017.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 44. gr. þágildandi laga um útlendinga. Þá verði kæranda ekki veitt dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. j sömu laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og vegna sérstakra tengsla við landið skv. 12. gr. f þágildandi laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 45. gr. sömu laga stæðu endursendingu til heimalands ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu eins fljótt og verða megi með vísan til 2. tölul. b-liðar 2. mgr. 20. gr. laga um útlendinga. Kæranda var ákveðið endurkomubann hingað til lands í tvö ár sbr. 2. mgr. 20. gr. c sömu laga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um hæli á því að hann verði fyrir ofsóknum í heimalandi sínu vegna stjórnmálaskoðana sinna og þeirra aðgerða sem hann hafi tekið þátt í gegn yfirvöldum í [...].

Þá kemur fram að í hinni kærðu ákvörðun meti Útlendingastofnun framburð kæranda að nokkru leyti ótrúverðugan. Útlendingastofnun leggi til grundvallar að kærandi hafi verið handtekinn í nokkur skipti á árunum [...], tekið þátt í starfi stjórnmálasamtakanna [...], aðstoðað formann samtakanna á sveitastjórnarstigi, dreift bæklingum í andstöðu við stjórnvöld og tekið þátt í mótmælum. Jafnframt leggi stofnunin til grundvallar að kærandi hafi [...] á mótmælum þann [...] og að lögregla hafi í fjórgang framkvæmt húsleit hjá honum í leit að ólöglegum bæklingum. Hins vegar telji stofnunin ótrúverðugt að [...] leyniþjónustan hafi í [...] þvingað kæranda til að viðurkenna ákærur á hendur sér og til að gerast [...]. Í ákvörðuninni hafi jafnframt komið fram að það væri mat stofnunarinnar að kærandi hefði ekki verið svo áberandi í stjórnarandstöðu að hann ætti á hættu að verða fyrir áreiti sem gæti talist til ofsókna af hálfu yfirvalda.

Í greinargerð er gerð grein fyrir aðstæðum og ástandi í [...] og er m.a. gerð grein fyrir stjórnskipun landsins og löggjöf þess. Þá kemur fram að í gildi séu lagaákvæði sem takmarki tjáningarfrelsi, rétt til friðsælla mótmæla og félagafrelsi. Handahófskennt varðhald og eftirlit með borgurum sé ólöglegt að nafninu til en þessi lagaákvæði séu sniðgengin af stjórnvöldum og löggæslu- og öryggisveitum landsins. Enn fremur er fjallað um spillingu í [...] sem samkvæmt rannsóknum og mælingum frjálsra félagasamtaka sé mjög algeng meðal opinberra starfsmanna. Einnig hafi alþjóðleg frjáls félagasamtök birt opinbera lista með nöfnum pólitískra fanga og þar með sannað að stjórnvöld hneppi andstæðinga sína kerfisbundið í varðhald án dóms og laga.

Af hálfu kæranda er fjallað um hvað felist í ofsóknum skv. 1. mgr. 44. gr. þágildandi laga um útlendinga og staðhæft að það teljist óumdeilt að ofsóknir vegna stjórnmálaskoðana, líkt og kærandi hafi þurft að sæta, falli þar undir. Af frásögn kæranda og framlögðum gögnum megi sjá að stjórnmálaskoðanir hans og andstaða við ríkjandi yfirvöld megi vera yfirvöldum í [...] kunn og að þær feli í sér gagnrýni á stefnu þeirra og aðferðir og séu yfirvöldum þ.a.l. ekki þóknanlegar. Samkvæmt e-lið 2. mgr. 44. gr. a þágildandi laga um útlendinga sé ekki skilyrði þess að um ofsóknir sé að ræða að kærandi hafi aðhafst eitthvað til að tjá skoðanir sínar, en áréttað er af hálfu kæranda að þó sé sannað í tilfelli kæranda að hann hafi tjáð skoðanir sínar opinberlega. Þá hafi kærandi orðið fyrir ofsóknum af hálfu yfirvalda í [...] og óttist frekari ofsóknir verði honum gert að snúa til baka til heimaríkis síns. Heimildir beri með sér að yfirvöld í [...] séu þekkt fyrir að beita andstæðinga sína alvarlegu ofbeldi og mannréttindabrotum og megi af þeim sökum telja ótta kæranda ástæðuríkan. Með vísan til framangreinds krefjist kærandi þess að honum verði veitt staða flóttamanns skv. 1. mgr. 44. gr. þágildandi laga um útlendinga nr. 96/2002 og eigi því rétt á hæli skv. 1. mgr. 46. gr. sömu laga.

Verði ekki fallist á aðalkröfu kæranda er gerð sú krafa til vara að honum verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 44. gr. þágildandi laga um útlendinga og er í greinargerð kæranda m.a. vísað til lögskýringagagna að baki ákvæðinu, frásagnar kæranda og hættu hans á að lenda í ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð verði honum gert að snúa aftur til [...] kröfunni til stuðnings.

Í athugasemdum við frumvarp það sem varð að breytingarlögum nr. 115/2010 segi um ákvæði 45. gr. þágildandi laga um útlendinga að það komi sjálfstætt til skoðunar og að hluta til komi sömu verndarsjónarmið fram og eigi við um 2. mgr. 44. gr. sömu laga en þó er talið að í 45. gr. geti falist víðtækari vernd en í 2. mgr. 44. gr. Er varakrafa þessi sett fram með vísan til 45. gr. þágildandi laga um útlendinga og samsvarandi grundvallarreglu þjóðaréttar um bann við því að vísa fólki brott eða endursenda þangað sem líf þess eða frelsi kann að vera í hættu (non-refoulement).

Varðandi þrautavarakröfu kæranda um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f þágildandi laga um útlendinga er í greinargerð kæranda vísað til athugasemda í frumvarpi til laga nr. 115/2010 um breytingu á lögum um útlendinga. Þar komi meðal annars fram að veita verði stjórnvöldum svigrúm við mat á því hvenær rétt sé að veita dvalarleyfi samkvæmt greininni og að heildarmat á öllum þáttum máls verði að fara fram. Í greinargerðinni komi fram að taka verði mið af svipuðum sjónarmiðum og gert sé í málum skv. VII. kafla laganna, s.s. almennra aðstæðna í heimalandi hælisleitanda, þar á meðal hvort grundvallarmannréttindi séu nægilega tryggð. Með hliðsjón af því sem rakið hafi verið varðandi aðstæður kæranda í [...], telji kærandi að skilyrði 12. gr. f þágildandi laga um útlendinga séu uppfyllt og ef kærandi fái ekki aðal- og varakröfu sína samþykkta beri að veita honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Í greinargerð er einnig gerð athugasemd við málsmeðferð Útlendingastofnunar. Af hálfu kæranda er þeim fyrirvörum sem Útlendingastofnun gerir við trúverðugleika hans mótmælt. Þá er mati stofnunarinnar á stöðu kæranda innan stjórnarandstöðunnar mótmælt sem og gildi þess fyrir úrvinnslu málsins. Enn fremur er mati stofnunarinnar á alvarleika viðbragða yfirvalda gegn skoðunum og aðgerðum kæranda mótmælt. Einnig er því mótmælt að frásagnir kæranda séu í mikilvægum grundvallaratriðum ósamrýmanlegar líkt og Útlendingastofnun telji. Misræmi varðandi dagsetningar og nákvæmar lýsingar á atvikum geti ekki talist óeðlilegt svo mörgum árum eftir atburðina. Enn fremur skipti ekki máli að kærandi hafi greint frá einstökum atvikum í viðtalinu í Svíþjóð sem hann hafi ekki greint frá á Íslandi og öfugt þar sem ástæður fyrir flótta hans og hvaða aðilar séu valdir að ofsóknum á hendur honum liggi ljós fyrir. Einnig vekur kærandi athygli á því að samkvæmt Handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna geti ósannur framburður ekki verið ástæða til að synja umsækjanda um réttarstöðu flóttamanns og beri stjórnvald ábyrgð á að leggja mat á framburðinn í ljósi allra málavaxta. Kærandi telur mat Útlendingastofnunar vera í andstöðu við sjónarmið Flóttamannastofnunar, rannsóknarreglur og þá uppfylli rökstuðningur stofnunarinnar fyrir mati hennar ekki skilyrði 22. gr. stjórnsýslulaga um rökstuðning stjórnvaldsákvörðunar.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagarammi

Í máli þessu gilda ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, sbr. 121. gr. laganna, reglugerð nr. 53/2003 um útlendinga með áorðnum breytingum að því leyti sem hún hefur enn lagastoð, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Kærandi hefur ekki lagt fram gögn til þess að sýna fram á auðkenni sitt. Hann kveðst vera fæddur og uppalinn í borginni [...] þar sem hann hafi búið áður en hann flúði heimaland sitt. Kærandi lagði einnig fram gamalt hermannaskírteini frá [...]. Í ákvörðun Útlendingastofnunar var leyst úr auðkenni kæranda á grundvelli trúverðugleikamats og lagt til grundvallar að kærandi væri frá [...]. Kærunefnd telur ekkert hafa komið fram í málinu sem gefur tilefni til að draga í efa þjóðerni kæranda og verður því lagt til grundvallar að kærandi sé [...] ríkisborgari.

Mat á því hvort kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu

Samkvæmt 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga teljast einstaklingar vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu ef þeir, vegna tiltekinna persónulegra eiginleika eða aðstæðna hafa sérþarfir sem taka þarf tillit til við meðferð máls eða þeir geta ekki að fullu eða með engu móti nýtt sér rétt eða uppfyllt skyldur sem kveðið er á um í lögum þessum án aðstoðar eða sérstaks tillits. Sem dæmi um einstaklinga í sérstaklega viðkvæmri stöðu nefnir ákvæðið fylgdarlaus börn, fatlað fólk, fólk með geðraskanir eða geðfötlun, aldrað fólk, þungaðar konur, einstæða foreldra með ung börn, fórnarlömb mansals, alvarlega veika einstaklinga og einstaklinga sem hafa orðið fyrir pyndingum, kynfæralimlestingum, nauðgun eða öðru alvarlegu andlegu, líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi.

Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í [...] m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

[...]

Í ofangreindum gögnum kemur m.a. fram að viðvarandi vandi sé [...] stjórnkerfinu vegna samþjöppunar valds í höndum forseta landsins. Framkvæmd kosninga [...] hafi margsinnis verið fordæmd af alþjóðasamfélaginu og að forsetakosningar [...] og alþingiskosningar hafi til að mynda ekki verið taldar uppfylla alþjóðlega mælikvarða. Skortur á frjálsum og óháðum fjölmiðlum í landinu sé mikið vandamál. Stjórnvöld hafi afskipti af fólki sem mótmæli stjórnvöldum en beiti stjórnsýsluviðurlögum og háum sektum ef mótmæli hafi ekki verið samþykkt fyrirfram af stjórnvöldum. Þá eru dæmi um að ákveðnir pólitískir andstæðingar forsetans og blaðamenn hafi þurft að sæta áreiti af hálfu yfirvalda, t.a.m. takmörkun á ferðafrelsi og ýmis konar málsóknum. Talsverð spilling sé innan löggæslu- og réttarkerfisins þar sem stjórnarskrárvarin réttindi séu ekki ávallt virt í framkvæmd og sjálfstæði dómstóla sé háð ákveðnum takmörkunum vegna pólitísks þrýstings. Þá kemur fram að á undanförnum árum hafi verið stigin framfaraskref í átt að auknum mannréttindum þar sem pólitískum föngum hafi verið sleppt úr haldi. Jafnframt hafi verið sett á fót landsáætlun um aðgerðir til þess að berjast gegn spillingu innan stjórnkerfisins, m.a. með endurskoðun á löggjöf landsins.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Til að teljast flóttamaður hér á landi þarf kærandi að sýna fram á að aðstæður hans séu slíkar að þær falli undir 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna, eða 2. mgr. 37. gr. sömu laga. Kærandi byggir ástæðu flótta síns frá heimalandi á því að hann verði fyrir ofsóknum þar vegna stjórnmálaskoðana og aðgerða sem hann hafi tekið þátt í gegn stjórnvöldum.

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Samkvæmt 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga geta ofsóknir m.a. falist í:

a. andlegu, líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi,

b. löggjöf og aðgerðum stjórnvalda, lögreglu og dómstóla sem fela í sér mismunun að efni eða vegna þess hvernig þær eru framkvæmdar,

c. saksókn eða refsingu sem er óhófleg eða mismunar einstaklingum á ómálefnalegum grundvelli,

d. synjun um notkun réttarúrræða sem leiðir til óhóflegrar og mismunandi refsingar,

e. saksókn eða refsingu fyrir að neita að gegna herþjónustu í átökum þar sem þátttaka í slíkri herþjónustu mundi fela í sér glæpi eða athafnir skv. b-lið 2. mgr. 40. gr.

Í 3. mgr. 38. gr. eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar en þar segir:

a. kynþáttur vísar einkum til hópa sem deila húðlit eða öðrum sameiginlegum líffræðilegum einkennum og þjóðfélagshópa af tilteknum uppruna og ber að túlka í víðri merkingu,

b. trúarbrögð vísa einkum til trúarskoðana og annarra lífsskoðana, þ.m.t. guðleysis, og tjáningar þeirra, þátttöku í hvers konar trúarsamkomum, opinberum eða ekki, eða ákvörðunar um að taka ekki þátt í þeim, aðgerða sem byggjast á trúarskoðunum og frelsis til að skipta um trú,

c. þjóðerni tekur ekki aðeins til ríkisborgararéttar eða ríkisfangsleysis heldur geta fallið þar undir þeir sem tilheyra tilteknum kynþætti eða tilteknum hópi fólks sem talar sama tungumál eða hefur sameiginlega menningarlega sjálfsmynd, sameiginlegan uppruna, landfræðilega eða pólitískt, eða hópi sem er skilgreindur út frá tengslum við hóp fólks á landsvæði annars ríkis,

d. þjóðfélagshópur vísar einkum til hóps fólks sem umfram það að sæta ofsóknum hefur áþekkan uppruna, bakgrunn, venjur og félagslega stöðu eða hefur sameiginleg einkenni eða lífsskoðanir, svo sem kyngervi, sem eru svo mikilvæg fyrir sjálfsmynd þess að ekki ætti að gera kröfu til að þeim verði breytt, eða hóps fólks sem er álitinn frábrugðinn öðrum í samfélaginu; þá skulu fyrrverandi fórnarlömb mansals teljast meðlimir tiltekins þjóðfélagshóps,

e. stjórnmálaskoðanir vísa einkum til skoðana á stefnumótun og aðferðum stjórnvalda sem kunna að beita ofsóknum án tillits til þess hvort viðkomandi hefur aðhafst eitthvað til að tjá skoðanir sínar.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Almennt ber að telja ótta umsækjanda um alþjóðlega vernd ástæðuríkan ef hann getur á nægilega skýran hátt sýnt fram á að áframhaldandi dvöl í heimalandi sé honum óbærileg af ástæðum sem tilgreindar eru í 1. mgr. 37. gr. eða yrði óbærileg af sömu ástæðum ef hann sneri aftur. Hugtakið „ástæðuríkur ótti við ofsóknir“ inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn a.m.k. að sýna fram á að ákveðnar líkur séu á að hans bíði ofsóknir í heimalandi. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Geneva 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussels 2013).

Kærandi hefur borið fyrir sig að hann sé í hættu í [...] vegna stjórnmálaskoðana sinna, stjórnmálastarfs og gagnrýni sinnar á stjórnvöld þar í landi. Kærandi greindi frá því í viðtali hjá kærunefndinni að hann sé meðlimur í [...] og hafi vegna þess orðið fyrir þrýstingi frá stjórnvöldum. Hann hafi m.a. ítrekað verið færður á lögreglustöð þar sem hann hafi verið yfirheyrður og beittur ofbeldi. Þá hafi í starfsmenn [...] eitt sinn tekið hann höndum, fært hann á starfsstöð sína og þvingað hann með ofbeldi til að undirrita gögn þar sem hann kvað að hann hafi m.a. verið ásakaður um brot gegn þarlendum hegningarlögum. Kærandi kveðst einnig eiga yfir sér höfði ákæru vegna þess að hann hafi verið sakaður um að [...]. Kærandi kveðst óttast að verða settur í fangelsi snúi hann til baka til heimaríkis en aðstæður í fangelsum þarlendis séu afar bágar.

Kærunefnd telur að í frásögn kæranda af atvikum og atburðum í heimalandi hans gæti nokkurs misræmis. Framburður kæranda hefur verið óstöðugur um ástæður flótta hans frá heimaríki og þá er tímalína atburða nokkuð á reiki. Mat á trúverðugleika frásagnar kæranda er byggt á viðtali við kæranda hjá kærunefnd, afritum af tveimur viðtölum hans hjá Útlendingastofnun, afritum af viðtölum hans hjá sænsku Útlendingastofnun, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki kæranda. Þá er litið til þess að kærandi hefur ekki við meðferð málsins lagt fram gögn sem styðja við frásögn hans. Í viðtali við sænsk stjórnvöld bar kærandi t.d. fyrir sig atburði sem gerðust í [...] í [...] sem eina af meginástæðum flótta. Í viðtali við íslensk stjórnvöld bar kærandi hins vegar fyrir sig atburði sem áttu að hafa gerst í [...] í heimabæ hans [...] sem eina af meginástæðum flótta. Þessa atburði hafði hann ekki nefnt við sænsk stjórnvöld þrátt fyrir að ætla mætti að þau hefðu verið honum fersk í minni á þeim tíma. Atburðina sem kærandi nefndi við sænsk yfirvöld voru hins vegar ekki nefnd við íslensk yfirvöld fyrr en Útlendingastofnun innti hann eftir því ósamræmi sem virtist vera á framburði hans. Þá hefur kærandi ekki lagt fram gögn sem sýna fram á að hann hafi orðið fyrir áreiti af hálfu [...] stjórnvalda, t.a.m. verið handtekinn eða sætt ákæru af öðrum ástæðum. Kærunefnd telur að misræmi í frásögn kæranda, almennur óstöðugleiki frásagnar hans og skortur á gögnum henni til stuðnings leiði til þess, heildstætt metið, að frásögn hans af atburðum og ástæðum flótta sé að mestu ótrúverðug og verði því ekki lögð til grundvallar í málinu.

Kærunefnd hefur farið yfir öll gögn málsins og skýrslur um aðstæður í [...] og er það mat nefndarinnar að kærandi hafi ekki gert sennilegt að hann hafi orðið fyrir áreiti af hálfu stjórnvalda eða annarra aðila líkt og hann hefur haldið fram á grundvelli þeirra ástæðna sem raktar eru í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærunefnd telur, að teknu tilliti til trúverðugleikamats, að kærandi hafi ekki sýnt fram á með nægilega skýrum hætti að hann hafa ástæðuríkan ótta við ofsóknir í heimaríki sínu.

Með vísan til framangreinds er það mat kærunefndar að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimalands síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaland kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaland kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga ekki standi í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 6. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal stjórnvald sem kemst að því að ákvæði 1. eða 2. mgr. 37 gr. laganna eigi ekki við um útlending að eigin frumkvæði taka til skoðunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. sömu laga. Þrátt fyrir að ákvæði 1. mgr. 74. gr., samkvæmt hljóðan þess, heimili ekki skýrlega veitingu dvalarleyfis, má skilja af athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga nr. 80/2016, fyrirsögn greinarinnar og af 6. mgr. 37. gr. laganna að það hafi þó verið ætlunin með ákvæðinu. Kærunefnd telur því rétt að túlka ákvæðið sem heimild til veitingar dvalarleyfis þegar skilyrði þess eru uppfyllt.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga má líta til mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Þá kemur fram í sömu málsgrein að ákvæði þessu megi aðeins beita ef útlendingur er staddur hér á landi og að skorið hafi verið úr um með efnismeðferð að útlendingur uppfylli ekki skilyrði alþjóðlegrar verndar skv. 37. og 39. gr.

Þá telur kærunefnd, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Kærunefndin hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga til að teljast flóttamaður og eigi því ekki rétt á alþjóðlegri vernd. Þegar upplýsingar um heimaland kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi heldur ekki sýnt fram á ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimalandi séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Brottvísun og endurkomubann

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að með tilliti til atvika málsins skuli kæranda vísað brott af landi og sæta endurkomubanni til tveggja ára. Stofnunin vísar til síðari málsliðs 2. tölul. b-liðar 2. mgr. 20. gr. þágildandi laga um útlendinga, ákvæðið er nú að finna í 2. tölul. b-liðar 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga, þar sem fram kemur að yfirvöldum sé skylt að ákveða brottvísun í þeim tilfellum þar sem veittar hafi verið rangar eða villandi upplýsingar, að því gefnu þó að 21. gr. þágildandi útlendingalaga, nú 102. gr., hafi ekki átt við. Það sé mat stofnunarinnar að ekki sé um að ræða ósanngjarna ráðstöfun enda sé kærandi ekki í viðkvæmri stöðu og ekkert í málinu gefi tilkynna að brottvísun væri á annan hátt ósanngjörn gagnvart honum.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að framburður kæranda um ákveðin atriði sé ótrúverðugur og mikils misræmis gæti í frásögn hans. Í niðurstöðu Útlendingastofnunar kemur svo fram að það sé mat stofnunarinnar að kærandi hafi veitt rangar upplýsingar um aðstæður sínar í heimalandi og ástæður þess að hann hafi sótt um hæli hér á landi. Vísar stofnunin til umfjöllunar í trúverðugleikamati sínu niðurstöðunni til stuðnings.

Með vísan til upphafsorða b-liðar 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga telur kærunefnd telur ljóst að skylda til að brottvísa einstaklingi með vísan til 2. tölul. b-liðar 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga geti aðeins komið til greina ef ákvörðun hefur verið tekin um að veita kæranda ekki frest til að yfirgefa landið sjálfviljugur skv. 2. mgr. 104. gr. Enginn rökstuðningur er fyrir þeim þætti ákvörðunarinnar og fæst því ekki séð að stofnunin hafi lagt mat á þetta atriði. Eru því þegar af þeirri ástæðu ekki forsendur að lögum til að taka ákvörðun um brottvísun í máli kæranda og gerir kærunefnd alvarlega athugasemd við framsetningu ákvörðunarinnar að þessu leyti.

Þá fellst kærunefnd ekki á það með Útlendingastofnun að misræmi í framburði nái sjálfkrafa því stigi að teljast rangar eða villandi upplýsingar í skilningi síðari málsliðs 2. tölul. b-liðar 2. mgr. 98. gr. þágildandi laga um útlendinga. Í ákvörðun Útlendingastofnunar er ekki sérstakur rökstuðningur fyrir því hvaða upplýsingar kærandi veitti voru rangar eða villandi en vísað er almennt til umfjöllunar um trúverðugleikamat kæranda. Í umfjöllun um trúverðugleikamat eru tilgreind nokkur atriði þar sem ósamræmi er milli framburðar kæranda hér á landi og í Svíþjóð og að skýringar á ósamræminu hafi í meginatriðum verið metnar ótrúverðugar. Hvergi kemur fram mat á því að hvaða leyti upplýsingarnar voru „rangar eða villandi“.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða kærunefndar að ekki sé grundvöllur fyrir ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun kæranda og um tveggja ára endurkomubann og verður sá þáttur ákvörðunar Útlendingastofnunar því felldur úr gildi.

Skráning í Schengen-upplýsingakerfið

Eins og að framan greinir er það niðurstaða kærunefndar útlendingamála að fella beri ákvörðun um brottvísun kæranda og tveggja ára endurkomubann hans úr gildi. Af þessari niðurstöðu nefndarinnar leiðir að ekki eru lengur fyrir hendi forsendur til skráningar endurkomubanns þess sem Útlendingastofnun ákvarðaði kæranda í Schengen-upplýsingakerfið.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar að því er varðar umsókn um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Felldur er úr gildi sá þáttur ákvörðunarinnar þar sem kæranda er brottvísað frá landinu svo fljótt sem verða má og ákveðið endurkomubann hingað til lands í tvö ár. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott innan 7 daga frá birtingu þessa úrskurðar. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að gera ríkislögreglustjóra viðvart um niðurstöðu kærunefndar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því endanleg ákvörðun var tekin.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda að því er varðar umsókn um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða er staðfest. Felld er úr gildi ákvörðun í máli kæranda um brottvísun og endurkomubann. Lagt er fyrir kæranda að yfirgefa landið innan 7 daga frá birtingu þessa úrskurðar hafi hann ekki þegar yfirgefið landið. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að gera ríkislögreglustjóra viðvart um niðurstöðu þessa.

The decisions of the Directorate of Immigration in the case of the appellant regarding the application for international protection and residence permit on humanitarian grounds are affirmed. The Directorate's decision in the case of the appellant on expulsion and re-entry ban is vacated. The appellant shall leave Iceland within 7 days of the notification of this decision, has he not already done so. The Directorate is instructed to inform the National Commissioner of the Icelandic Police about this decision.

Hjörtur Bragi Sverrisson

Anna Tryggvadóttir Pétur Dam Leifsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta