Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 249/2017

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 27. apríl 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 249/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU16100023

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 10. október 2016 kærði [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 28. september 2016, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f þágildandi laga nr. 96/2002 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og breytt á þann hátt að kærandi verði viðurkenndur með réttarstöðu flóttamanns skv. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna, sbr. 1. mgr. 44. gr. þágildandi laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og breytt á þann hátt að kæranda verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 44. gr. sömu laga. Til þrautavara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og breytt á þann hátt að kæranda verði veitt dvalarleyfi á Íslandi af mannúðarástæðum, sbr. 12. gr. f þágildandi laga um útlendinga. Til þrautaþrautavara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og breytt á þann hátt að kæranda verði veitt dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 12. gr. f þágildandi laga um útlendinga. Í fjórðu varakröfu krefst kærandi þess að ákvörðun um þriggja ára endurkomubann hans verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 30. gr. þágildandi laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

Hinn 1. janúar 2017 tóku gildi ný lög um útlendinga nr. 80/2016. Samkvæmt 2. mgr. 121. gr. laganna gilda ákvæði þeirra um mál sem bárust kærunefnd útlendingamála fyrir gildistöku laganna en höfðu ekki verið afgreidd með úrskurði. Fer því um mál þetta samkvæmt ákvæðum laga nr. 80/2016.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi kom fyrst hingað til lands þann 5. nóvember 2014 en hann hafði þá sótt um dvalarleyfi hér á landi [...]. Með ákvörðun Útlendingastofnunar þann 31. júlí 2015 var kæranda synjað um dvalarleyfi hér á landi [...]. Ákvörðun Útlendingastofnunar var staðfest með úrskurði kærunefndar útlendingamála, dags. 11. febrúar 2016. Kærandi sótti um hæli hér á landi þann 10. mars 2016. Kærandi kom í viðtöl hjá Útlendingastofnun m.a. dagana 13. júní og 25. ágúst 2016 ásamt löglærðum talsmanni sínum. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 28. september 2016, var kæranda synjað um alþjóðlega vernd hér á landi ásamt því að vera synjað um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f þágildandi laga um útlendinga. Kærandi kærði þá ákvörðun til kærunefndar útlendingamála þann 10. október 2016. Kærunefnd hefur borist greinargerð kæranda, dags. 28. október 2016, ásamt fylgigögnum. Kærandi kom til viðtals hjá kærunefnd útlendingamála þann 6. apríl 2017 ásamt talsmanni sínum. Í viðtalinu lagði kærandi einnig fram gögn vegna málsins.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Við meðferð máls kæranda hjá Útlendingastofnun byggði hann umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann ætti á hættu ofsóknir í heimaríki þar sem hann hefði [...]. Byggir kærandi á því að yfirvöld hafi vitneskju um tengsl hans við [...] og að hann eigi á hættu að verða pyntaður eða drepinn verði hann sendur aftur til heimaríkis.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi væri ekki flóttamaður og að honum skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 44. gr. þágildandi laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og vegna sérstakra tengsla við landið, sbr. 12. gr. f þágildandi laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 45. gr. þágildandi laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að stofnunin teldi kæranda hafa af ásetningi gefið efnislega rangar upplýsingar í viðtölum. Tók Útlendingastofnun ákvörðun um að brottvísa kæranda á grundvelli b-liðar 1. mgr. 20. gr. þágildandi laga um útlendinga og gera honum að sæta endurkomubanni til landsins í þrjú ár, sbr. 2. mgr. 20. gr. c þágildandi laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti jafnframt kæranda að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 32. gr. þágildandi laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er vísað til þess að kærandi hafi yfirgefið heimríki sitt eftir að hafa fengið leyfi til að koma hingað til lands vegna dvalarleyfisumsóknar og vegna hvatningar frá [...].

Kærandi byggir á því að aðstæður í [...], með tilliti til mannréttinda, séu slæmar. Fregnir berist af alvarlegum mannréttindabrotum, svo sem pyntingum, langvarandi varðhaldsvist, slæmum fangelsisaðstæðum og óréttlátri málsmeðferð fyrir dómi. [...]. Af framangreindu megi draga þá ályktun að enn sé hætta á að þeir, [...], verði fyrir ofsóknum ef stjórnvöld hafi hendur í hári þeirra. Ótti kæranda við ofsóknir sé ástæðuríkur sé horft til þeirra skjala sem lögð hafi verið fram, viðtals kæranda hjá Útlendingastofnun þann 9. ágúst 2016 og mynda af kæranda [...]. Þá vísar kærandi til þess að vinur hans í [...] hafi verið á ferðalagi frá landinu til [...] hafi hann séð auglýsingu um [...]. Kærandi hafi fengið auglýsinguna senda í gegnum tölvupóst og sé skjalið meðal fylgigagna greinargerðarinnar.

Kærandi telur að það trúverðugleikamat sem komi fram í hinni kærðu ákvörðun sé rangt, villandi og beri þess merki að kærandi hafi ekki verið látinn njóta vafans, sbr. handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu flóttamanna. Að mati kæranda sé hin kærða ákvörðun lituð af tortryggni gagnvart sér og að hið meinta ósamræmi í frásögnum hans eigi ekki við rök að styðjast. Í ákvörðun Útlendingastofnunar komi m.a. fram að frásögn kæranda hafi í mikilvægum atriðum verið mjög almenns eðlis og ónákvæm, auk þess sem kærandi hafi verið ósamvinnuþýður í viðtali. Kærandi byggir á því að ástæða þess að upplýsingar frá honum hafi verið taldar almenns eðlis og ónákvæmar megi m.a. rekja til vandræða í samskiptum hans í viðtali við túlk. Þá hafi kærandi verið ósáttur við framhaldsviðtalið þar sem honum hafi fundist viðtalið endurtekning á fyrra viðtali og að spurningarnar væru gerðar til þess að ná fram ósamræmi í máli hans. Ekki sé óalgengt að umsækjendur um alþjóðlega vernd beri ekki traust til yfirvalda.

Í framhaldsviðtalinu hafi kærandi t.d. neitað að svara spurningu um hvort [...]. Kærandi lýsir því yfir í greinargerð að [...]. Að mati kæranda hafi hann ekki gefið neinar efnislega rangar upplýsingar í hælismáli sínu, enda sé ekkert í ákvörðuninni sem gefi það til kynna. Telur kærandi að Útlendingastofnun byggi niðurstöðu sína að miklu leyti á dvalarleyfismáli hans sem samræmist ekki réttmætisreglu stjórnsýsluréttar. Þá sé ósannað að hann hafi gefið nokkrar rangar upplýsingar í því máli heldur að ósamræmi í viðtölum þess máls stafi ekki frá honum heldur [...]. Byggir kærandi á því að framangreindir annmarkar á ákvörðun Útlendingastofnunar leiði þegar til ógildingar ákvörðunarinnar.

Kærandi mótmælir harðlega staðhæfingum Útlendingastofnunar um að yfirvöld hafi ekki vitneskju um [...]. Vísar kærandi í því sambandi til framburðar um samskipti við nágranna, símtöl og skjal um að hann sé [...]. Með vísan til framangreinds telur kærandi að fella skuli hina kærðu ákvörðun úr gildi og breyta með þeim hætti að kærandi verði viðurkenndur með réttarstöðu flóttamanns.

Í umfjöllun um varakröfu vísar kærandi m.a. til fyrri umfjöllunar um aðstæður í [...] auk þess sem 1. mgr. 45. gr. þágildandi laga um útlendinga komi í veg fyrir endursendingu hans þangað. Kærandi byggir á því að hann falli undir ákvæði 2. mgr. 44. gr. þágildandi laga um útlendinga um viðbótarvernd vegna hins hættulega ástands í heimalandi hans og eftir atvikum stöðu sem „sur place“ flóttamaður. Kærandi gerir athugasemd við rýran rökstuðning í ákvörðun Útlendingastofnunar í niðurstöðu um vernd skv. 2. mgr. 44. gr. þágildandi laga um útlendinga. Í ljósi þess hversu íþyngjandi ákvörðun sé um að ræða sé þeim mun mikilvægara að ákvarðanir sem lúti að lífi og frelsi séu rökstuddar með fullnægjandi hætti.

Til stuðnings kröfu um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða vísar kærandi til þess að hann sé [...] Hefur kærandi áhyggjur af því að að fá ekki þá lyfjameðferð sem þörf sé á í [...] og að ástæða sé til þess að veita honum dvalarleyfi á þeim grundvelli. Kærandi byggir á því að túlkun Útlendingastofnunar á heimildum um aukna áherslu á [...] eigi sér ekki stoð í þeim gögnum sem stofnunin hafi vísað til. [...]. Vísar kærandi einnig til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í máli M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi (mál nr. 30969/09) þann 21. júní 2011 þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að endursending einstaklings til Grikklands fæli í sér brot gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um bann við pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð. [...]. Vegna kröfu um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið vísar kærandi til þess að hann hafi verið í [...] Loks byggir kærandi á því að ákvörðun um endurkomubann sé ekki lögmæt í hælismáli hans, enda byggi hún á ómálefnalegum sjónarmiðum eins og þegar hafi komið fram. Í fyrirliggjandi máli hafi kærandi ekki fært fram neinar efnislega rangar upplýsingar og að endurkomubann sé þar af leiðandi í andstöðu við lögmætisreglu stjórnsýsluréttar. Þá byggir kærandi á því að endurkomubannið brjóti gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar þar sem um sé að ræða óþarflega íþyngjandi ákvörðun gagnvart honum.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, sbr. 121. gr. laganna, reglugerð nr. 53/2003 um útlendinga með áorðnum breytingum að því leyti sem hún hefur enn lagastoð, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað [...] vegabréfi. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé ríkisborgari [...].

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í [...] m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

[...]

[...] Af gögnunum er ljóst að í [...]. Í gögnunum kemur fram að frá því [...] hafi tekið við embætti forseta [...] hafi hann boðað endurbætur á stjórnkerfi landsins og virðingu fyrir lögum og mannréttindum. Þá hafi hann heitið því að sleppa pólitískum föngum úr haldi þegar hann tæki við embætti forseta. Greint hefur verið frá því að [...].

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Til að teljast flóttamaður hér á landi þarf kærandi að sýna fram á að aðstæður hans séu slíkar að þær falli undir 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna, eða 2. mgr. 37. gr. sömu laga. Kærandi hefur byggt umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann eigi á hættu að verða pyntaður eða drepinn af stjórnvöldum í heimaríki þar sem hann hafi veitt upplýsingar til stjórnarandstæðings [...].

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem

ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Almennt ber að telja ótta umsækjanda um alþjóðlega vernd ástæðuríkan ef hann getur á nægilega skýran hátt sýnt fram á að áframhaldandi dvöl í heimaríki sé honum óbærileg af ástæðum sem tilgreindar eru í 1. mgr. 37. gr. eða yrði óbærileg af sömu ástæðum ef hann sneri aftur. Hugtakið „ástæðuríkur ótti við ofsóknir“ inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn a.m.k. að sýna fram á að ákveðnar líkur séu á að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Í viðtali hjá kærunefnd útlendingamála var kærandi spurður hvort hann óttaðist enn stjórnvöld í heimaríki þrátt fyrir að [...]. Mátti ráða af svörum kæranda að enn væri litið á hann sem ógn af stjórnvöldum í heimaríki vegna tengsla hans við [...].

Í þeim gögnum sem kærunefnd hefur skoðað og varða aðstæður í [...], sbr. fyrri umfjöllun, er ekkert sem bendir til þess að pólitískir andstæðingar [...], eigi á hættu að verða fyrir ofsóknum af hálfu núverandi stjórnvalda. Þvert á móti gefa gögnin til kynna að stjórnvöld leggi nú ríka áherslu á að virða mannréttindi og lýðræði í landinu og vinni að endurbótum á innviðum og stjórnkerfi landsins í því skyni. [...]. Verður samkvæmt framangreindu ekki séð að aðstæður í [...] séu þess eðlis að ótti kæranda við ofsóknir sé ástæðuríkur í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Verður honum því synjað um alþjóðlega vernd á þeim grundvelli.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 6. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal stjórnvald sem kemst að því að ákvæði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laganna eigi ekki við um útlending að eigin frumkvæði taka til skoðunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. sömu laga. Þrátt fyrir að orðalag 1. mgr. 74. gr. kveði ekki með skýrum hætti á um veitingu dvalarleyfis má skilja af athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga nr. 80/2016, fyrirsögn greinarinnar og af 6. mgr. 37. gr. laganna að það hafi þó verið ætlunin með ákvæðinu. Kærunefnd telur því rétt að túlka ákvæðið sem heimild til veitingar dvalarleyfis þegar skilyrði þess eru uppfyllt.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga má líta til mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Til stuðnings kröfu um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða vísar kærandi til þess að hann sé [...] og að hann þurfi á viðeigandi læknisaðstoð að halda, sem sé ekki til staðar í heimaríki. Gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér benda til þess að [...]. Í athugasemdum við 74. gr. í frumvarpi til laga um útlendinga er, í umfjöllun um ríka þörf á vernd af heilbrigðisástæðum, m.a. miðað við hvort um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum sé aðgengileg hér á landi en ekki í heimalandi viðkomandi. Þá geti mjög alvarlegir sjúkdómar, sem teljist ekki lífshættulegir, jafnframt fallið undir ákvæðið ef sýnt þyki að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Auk þess sé rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi.

Í málinu liggur fyrir læknisvottorð, dags. 19. september 2016, þar sem fram kemur að kærandi hafi [...] Eins og á stendur er það mat kærunefndar, með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem lögð eru til grundvallar í athugasemdum við 74. gr. laga um útlendinga, að ástand kæranda, eins og því er lýst í fyrrnefndu læknisvottorði, sé ekki nægilega alvarlegt svo honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða vegna heilbrigðisástæðna.

Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður hans nái því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið skv. 1. mgr. 78. gr. laga um útlendinga

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var tekin afstaða til þess hvort kærandi ætti rétt á dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla við landið, sbr. 1. mgr. 12. gr. f þágildandi laga um útlendinga, með þeirri niðurstöðu að synja kæranda um dvalarleyfi á þeim grundvelli.

Meðal gagna sem kærandi hefur lagt fram fyrir kærunefnd er [...]. Ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda var tekin í gildistíð eldri laga um útlendinga nr. 96/2002. Á grundvelli þeirra laga var skorið úr um rétt útlendinga til dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða eða sérstakra tengsla við landið í sama ákvæði, sbr. 1. mgr. 12. gr. f laganna, ef viðkomandi hafði verið synjað um alþjóðlega vernd skv. ákvæðum 44. gr. laganna. Í 1. mgr. 12. gr. f þágildandi laga um útlendinga voru engin sérstök skilyrði lögð til grundvallar fyrir veitingu dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla við landið heldur var stjórnvöldum eftirlátið að meta aðstæður í hverju máli fyrir sig. Eins og fram hefur komið tóku lög nr. 80/2016 um útlendinga gildi þann 1. janúar sl. og gilda ákvæði laganna um mál sem bárust kærunefnd fyrir gildistöku þeirra en höfðu ekki verið afgreidd með úrskurði, sbr. 2. mgr. 121. gr. laganna.

Ákvæði um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða er nú að finna í 74. gr. laga um útlendinga meðan ákvæði um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið eru í 78. gr. laganna. Í 1. mgr. 74. gr. er tekið fram að ákvæðinu skuli ekki beitt nema skorið hafi verið úr um með efnismeðferð að útlendingur uppfylli ekki skilyrði alþjóðlegrar verndar skv. 37. og 39. gr., líkt og gert hefur verið í máli kæranda. Sambærilegt ákvæði er ekki að finna í 78. gr. laganna en samkvæmt ákvæðinu er heimilt að veita dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið að uppfylltum ákveðnum skilyrðum auk þess sem þeim atriðum, sem stjórnvöldum ber að líta til við beitingu ákvæðisins, eru gerð skil. Eins og ákvæði 78. gr. er úr garði gert, þ.e. án tilvísunar til ákvæða laganna um veitingu alþjóðlegrar verndar, verður ekki annað lagt til grundvallar en ætlun löggjafans hafi verið að skilja að úrlausn um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið í málum sem varða umsókn um alþjóðlega vernd.

Samkvæmt framangreindu og í ljósi lagaskilareglu 121. gr. laga um útlendinga telur kærunefnd að lög geri ekki ráð fyrir að réttur til dvalarleyfis á grundvelli 78. gr. laga um útlendinga verði leiddur til lykta samhliða úrlausn um rétt til alþjóðlegrar verndar. Kærunefnd telur þó rétt að leiðbeina kæranda um að unnt sé leggja fram umsókn um dvalarleyfi [...].

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Brottvísun og endurkomubann

Með hinni kærðu ákvörðun var kæranda vísað brott frá landinu og gert að sæta endurkomubanni til landsins í þrjú ár enda hafi hann af ásetningi gefið efnislega rangar upplýsingar í viðtölum hjá Útlendingastofnun, sbr. nú b-lið 1. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga. Í hinni kærðu ákvörðun eru ekki færð fram rök til stuðnings niðurstöðu um þetta atriði að öðru leyti en að vísað er með almennum hætti til framburðar kæranda í viðtölum hjá Útlendingastofnun. Að mati kærunefndar hefur ekki verið lagður viðhlítandi grundvöllur að niðurstöðu Útlendingastofnunar að kærandi hafi af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi gefið efnislega rangar eða augljóslega villandi upplýsingar í viðtölum hjá stofnuninni. Eins og að framan greinir kom kærandi til viðtals hjá kærunefnd útlendingamála vegna umsóknar sinnar. Að mati kærunefndar útlendingamála gefa gögn málsins ekki til kynna að kærandi hafi við meðferð málsins af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi gefið efnislega rangar eða augljóslega villandi upplýsingar. Verður ákvörðun Útlendingastofnunar að þessu leyti felld úr gildi.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja kæranda um alþjóðlega vernd og um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Ákvörðun um brottvísun og endurkomubann kæranda er felld úr gildi.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja kæranda um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða er staðfest. Ákvörðun um brottvísun og endurkomubann kæranda er felld úr gildi.

The decision of the Directorate of Immigration regarding the application for international protection and residence permit on humanitarian grounds is affirmed. The Directorate's decision on expulsion and re-entry ban is vacated.

Anna Tryggvadóttir

Erna Kristín Blöndal Pétur Dam Leifsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta