Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 194/2016

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 7. júní 2016 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 194/2016

í stjórnsýslumáli nr. KNU16050027

Kæra []

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru, er barst Útlendingastofnun dags. 21. mars 2016, en barst kærunefnd útlendingamála, dags. 10. maí 2016, kærði […], ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 26. janúar 2016, að synja honum um leyfi til dvalar hér á landi meðan umsókn hans um dvalarleyfi er til meðferðar hjá stofnuninni.

Af greinargerð kæranda má ráða að hann geri þá kröfu að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum veitt leyfi til að dveljast hér á landi á meðan umsókn hans er til vinnslu.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 30. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um dvalarleyfi þann 26. janúar 2016 á grundvelli skorts á vinnuafli og óskaði eftir heimild til að fá að dveljast á landinu á meðan sú umsókn væri til vinnslu. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 14. mars 2016, var beiðni kæranda um að fá að dvelja á landinu á meðan umsókn væri til vinnslu hafnað. Kærandi hefur kært þá ákvörðun til kærunefndar og er hún til umfjöllunar í stjórnsýslumáli þessu.

Þann 13. maí 2016 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa á ákvörðun Útlendingastofnunar. Þann 17. og 18. maí 2016, barst kærunefnd afrit af gögnum málsins frá Útlendingastofnun. Greinargerð barst frá kæranda samtímis kæru. Með bréfi, dags. 25. maí 2016, var kæranda veittur 7 daga frestur til að leggja fram frekari greinargerð eða gögn vegna kærumálsins. Frekari greinargerð og gögn bárust kærunefnd 3. júní 2016.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda byggir á því að skv. 1. mgr. 10. gr. útlendingalaga skuli útlendingur sem sækir um dvalarleyfi í fyrsta skipti sækja um leyfið áður en hann kemur til landsins. Honum skuli jafnframt vera óheimil koma til landsins fyrr en umsóknin hefur verið samþykkt. Þá byggir stofnunin á því að skv. 38. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 53/2003 megi víkja frá skilyrðum 1. mgr. 10. gr. útlendingalaga ef umsækjandi er maki, samvistarmaki eða sambúðarmaki íslensks eða norræns ríkisborgara eða útlendings sem dvelst eða fær að dveljast löglega í landinu samkvæmt búsetuleyfi eða dvalarleyfi sem ekki er háð takmörkunum. Hið sama eigi við ef um er að ræða barn íslensks eða norræns ríkisborgara eða útlendings sem dvelst eða fær að dveljast löglega í landinu samkvæmt búsetuleyfi eða dvalarleyfi sem ekki er háð takmörkunum og barnið er yngra en 18 ára. Kærandi falli ekki undir undantekningar sem settar hafi verið fram í reglugerð um útlendinga og var kæranda því synjað um heimild til dvalar hér á landi á meðan mál hans væri til vinnslu. Þá var það jafnframt mat stofnunarinnar að ekki væru uppi ríkar sanngirnisástæður í máli kæranda sem réttlættu að undanþágu frá 1. mgr. 10. gr. útlendingalaga væri beitt. Slíkar undantekningar frá meginreglu laganna verði að túlka þröngt. Að mati stofnunarinnar sé tilgangur kæranda með dvöl hér á landi samkvæmt umsókn sá að stunda atvinnu hjá […] en beiðni um að fá að vera á landinu byggi á að hann vilji hjálpa systur sinni. Ljóst sé að slíkur tilgangur samrýmist ekki því dvalarleyfi sem kærandi hafi sótt um. Systir umsækjanda, […], sé jafnframt íslenskur ríkisborgari og eigi sem slíkur rétt á aðstoð frá kerfi félagslegrar aðstoðar. Þá sé önnur systir kæranda, […], búsett hér á landi m.a. til að aðstoða […] við umönnun barna hennar. Þá líti stofnunin sérstaklega til þess að kærandi hafi sótt um dvalarleyfi vegna skorts á vinnuafli en byggi undanþágubeiðni sína á því að hann vilji aðstoða fjölskyldumeðlimi.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kveðst kærandi hafa komið hingað til lands í desember 2015 með ferðamannaáritun og hafi frá þeim tíma búið hjá systur sinni sem þarfnist aðstoðar hans. Kærandi hafi aðstoðað systur sína við að passa dætur hennar, […]. Þá hafi kærandi jafnframt aðstoðað við almenn heimilisstörf, viðgerðir og viðhald á heimili systur sinnar. Kærandi kveðst hafa […].

Í greinargerð vísi kærandi til þess að Útlendingastofnun hafi í ákvörðun sinni byggt á því að önnur systir hans, […], sé hér á landi til að aðstoða systur kæranda við ummönnun barna hennar. Kærandi heldur því fram að […] sé á leiðinni í tveggja og hálfs mánaða frí til […] og yrði sá tími erfiður fyrir systur kæranda, þurfi kærandi að fara af landi brott. Í greinargerð vísi kærandi einnig til þess að í ákvörðun stofnunarinnar sé byggt á því að kærandi sæki um dvalarleyfi vegna skorts á vinnuafli en að beiðni kæranda um að fá að vera á landinu á meðan umsókn sé til meðferðar sé byggð á því að hjálpa systur hans. Kærandi kveðst muni starfa hér á landi ásamt því að hjálpa systur sinni og dætrum hennar komi til þess að hann fái dvalarleyfi hér á landi. Kærandi kveðst ekki getað farið að vinna fyrr en hann fái atvinnuleyfi og á meðan unnið sé að dvalarleyfisumsókn hans muni hann hjálpa systur sinni og dætrum hennar.

Kærandi telji það afar þungbært fyrir sig og fjölskyldu sína þurfi hann að fara af landi brott á meðan umsókn hans sé í vinnslu. Systurdætur kæranda hafi bundist honum sterkum böndum og þá þurfi systir hans á honum að halda til að […].

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 10. gr. laga um útlendinga kemur fram að útlendingur sem sækir um dvalarleyfi í fyrsta skipti skuli sækja um leyfið áður en hann kemur til landsins og honum sé óheimilt að koma til landsins fyrr en umsóknin hefur verið samþykkt. Síðan segir í ákvæðinu að frá þessu megi víkja ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því eða samkvæmt reglum sem ráðherra setur. Í athugasemdum við frumvarp til laganna er tekið fram að slíkt geti t.d. átt við ef um er að ræða náin fjölskyldutengsl við einhvern búsettan hér á landi.

Í 38. gr. reglugerðar um útlendinga er nánar fjallað um umsókn útlendings um dvalarleyfi hér á landi. Er þar áréttuð sú meginregla laganna sem fram kemur í 1. mgr. 10. gr. útlendingalaga. Í reglugerðinni eru settar fram undantekningar sem heimila dvöl umsækjanda hér á landi á meðan umsókn er til vinnslu:

Frá þessu má víkja ef umsækjandi um dvalarleyfi er:

a. maki, samvistarmaki eða sambúðarmaki íslensks eða norræns ríkisborgara eða útlendings sem dvelst eða fær að dveljast löglega í landinu samkvæmt búsetuleyfi eða dvalarleyfi sem ekki er háð takmörkunum,

b. barn íslensks eða norræns ríkisborgara eða útlendings sem dvelst eða fær að dveljast löglega í landinu samkvæmt búsetuleyfi eða dvalarleyfi sem ekki er háð takmörkunum og barnið er yngra en 18 ára

Ljóst er að engin ofangreindra undantekninga á við í máli kæranda. Kemur því til skoðunar hvort ríkar sanngirnisástæður mæli með því að vikið sé frá meginreglu 1. mgr. 10. gr. laga um útlendinga og kæranda heimiluð dvöl hér á landi á meðan mál hans er til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum.

Kærandi hefur dvalist hér á landi frá því í desember 2015. Kærandi á systur hér á landi sem er íslenskur ríkisborgari. Þegar horft er heildstætt á aðstæður kæranda getur kærunefndin ekki fallist á að ríkar sanngirnisástæður mæli með því að undanþága verði gerð frá meginreglu 1. mgr. 10. gr. laga um útlendinga og kæranda heimiluð dvöl hér á landi á meðan umsókn hans er til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum. Með vísan til framkvæmdar kærunefndar í sambærilegum málum og til túlkunar nefndarinnar á hugtakinu „náin fjölskyldutengsl“ í fyrri úrskurðum sínum, verða fjölskyldutengsl kæranda ekki talin nægjanleg til þess að vikið verði frá áðurnefndri meginreglu laga um útlendinga. Verður því fallist á mat Útlendingastofnunar um að kæranda beri að yfirgefa landið á meðan umsókn hans um dvalarleyfi er til meðferðar.

Með vísan til alls framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Pétur Dam Leifsson, varaformaður Vigdís Þóra Sigfúsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta