Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 2/2015

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

A

gegn

Háskóla Íslands

 

Kærandi, sem er kona, taldi að Háskóli Íslands hefði brotið gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við ráðningu í starf lektors. Kærunefndin taldi að þrátt fyrir meiri menntun og starfsreynslu kæranda en þess sem starfið hlaut hafi þau verið jafnhæf til þess að gegna umræddu starfi. Nefndin taldi að mat kærða hafi byggt á málefnalegum forsendum þar sem meðal annars var lögð áhersla á rannsóknarreynslu á vettvangi J og mikla kennslureynslu á háskólastigi. Þar sem ekki hallaði á konur í umræddri starfsstétt reyndi ekki á skyldu kærða sem atvinnurekanda samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga nr. 10/2008.

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 1. september 2015 er tekið fyrir mál nr. 2/2015 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:

  2. Með kæru, dagsettri 12. janúar 2015, kærði B hrl., f.h. A ákvörðun Háskóla Íslands um að ráða karlmann í starf lektors í C við Dsvið Háskóla Íslands. Kærandi telur að með ráðningunni hafi Háskóli Íslands brotið gegn lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Kærandi krefst þess að kærunefnd jafnréttismála staðfesti brot Háskóla Íslands og gerir einnig kröfu um málskostnað.

  3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dagsettu 19. janúar 2015. Greinargerð kærða barst með bréfi, dagsettu 12. mars 2015, og var hún kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 17. mars 2015. Athugasemdir kæranda bárust nefndinni með bréfi, dagsettu 25. mars 2015, og voru þær kynntar kærða með bréfi kærunefndar, dagsettu 31. mars 2015. Athugasemdir bárust frá kærða með bréfi, dagsettu 12. maí 2015, og voru þær kynntar kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 18. maí 2015. Frekari athugasemdir kæranda bárust nefndinni með bréfi, dagsettu 21. maí 2015, og voru þær kynntar kærða með bréfi kærunefndar, dagsettu 26. maí 2015. Kærunefndin óskaði eftir frekari gögnum frá kærða og bárust þau með tölvubréfi 2. júlí 2015 og 20. ágúst 2015. Gögnin voru send kæranda til kynningar með tölvubréfi kærunefndar 26. ágúst 2015.

  4. Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

    MÁLAVEXTIR

  5. Kærði auglýsti starf lektors í C við Dsvið Háskóla Íslands þann X 2014. Í auglýsingu kom fram að meginhlutverk lektors væri kennsla á grunn- og meistarastigi og leiðsögn með meistara- og doktorsnemum, að sinna rannsóknum, bæði í fræðigreininni og á vettvangi C og samstarf við starfandi kennara í leik-, grunn- og framhaldsskóla. Þá kom einnig fram að mikilvægt væri að sá sem ráðinn væri til starfa hefði menntun og reynslu sem félli vel að þörf fyrir C á Dsviði og sérstaklega væri leitað eftir þekkingu á E. Mikilvægt væri að umsækjendur hefðu reynslu af C og rannsóknum á C en þekking á rafrænum leiðum til þess að byggja upp fjarnám skipti þar miklu máli. Jafnframt skyldi sá sem starfinu gegndi sinna kennslu á Fsviði Háskóla Íslands ef svo bæri undir. Umsækjendur skyldu hafa lokið doktorsprófi eða hafa staðfest hæfni sína með öðrum hætti til þess að sinna meginhlutverkum starfsins en einnig var krafist góðrar samstarfshæfni og lipurðar í mannlegum samskiptum.

  6. Alls bárust fimm umsóknir. Á grundvelli laga nr. 85/2008, um opinbera háskóla, og reglna nr. 569/2009, fyrir Háskóla Íslands, var skipuð dómnefnd til að meta hæfi umsækjenda. Með bréfi, dagsettu 18. júní 2014, sendi dómnefndin kærða umsögn sína. Í niðurstöðu umsagnarinnar kom fram að fjórir umsækjendur uppfylltu lágmarksskilyrði til að gegna starfinu og var kærandi þar á meðal. Á grundvelli 44. gr. reglna nr. 569/2009 var skipuð valnefnd til að gera tillögu til forseta fræðasviðs um hver þessara fjögurra umsækjenda væri best til þess fallinn að gegna starfinu. Umsækjendurnir fjórir voru allir teknir í viðtal hjá valnefndinni sem komst að þeirri niðurstöðu að sá er ráðinn var væri best til þess fallinn að gegna starfinu. Forseti Dsviðs fellst á niðurstöðu valnefndar og var kærandi upplýst um ráðninguna með bréfi, dagsettu 4. nóvember 2014. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir ráðningunni með bréfi, dagsettu 5. nóvember 2014, og barst rökstuðningur kærða með bréfi, dagsettu 25. nóvember 2014.

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA

  7. Kærandi telur að kærði hafi brotið gegn lögum nr. 10/2008 þar sem gengið hafi verið fram hjá henni sem umsækjanda og minna hæfur karl ráðinn í starfið. Kærandi telur sig hæfari en sá er ráðinn var hvað varðar menntun, starfsreynslu og rannsóknar- og ritstörf sem nýtist beint í umræddu starfi. Þá telur kærandi að hún uppfylli betur þau skilyrði sem sett hafi verið fram í auglýsingu um starfið. Hún uppfylli ekki aðeins öll ráðningarskilyrði heldur sé hún afar hæf til að gegna hinu auglýsta starfi.

  8. Kærandi tekur fram að hún hafi umfangsmikla þekkingu á E. Fræða- og rannsóknasvið kæranda spanni E að fornu og nýju og ekki síst tengsl munnlegrar hefðar við E samtímans. Sem G hafi kærandi um langt árabil fjallað um E síðustu áratuga [...]. Kærandi telur reynslu sína af starfi G alls ekki minni en reynslu þess sem ráðinn var í starfið. Kærandi hafi birt rannsóknir sínar og fræðaskrif sem og fjölda ritrýndra greina í innlendum og erlendum fræðiritum og jafnframt leitast við að skrifa fræðilegt efni fyrir almenning og komið því til skila á skiljanlegan og aðgengilegan hátt. Þá hafi kærandi verið félagi í H um tveggja áratuga skeið og þannig lagt sitt af mörkum til að varðveita [...]. Kærandi kveðst hafa valið E sem hluta af háskólanámi sínu og hafi síðan sem fræðimaður sinnt rannsóknum og birt niðurstöður í fræðigreinum og með útgáfu bókar sem fjalli um [...].

  9. Kærandi bendir á að hún hafi mikla og góða kennslureynslu. Hún hafi aflað sér kennsluréttinda sem framhaldsskólakennari og hafi um tólf ára kennslureynslu við Háskóla Íslands. Hún hafi kennt C á öllum skólastigum og þróað bæði kennsluefni og námskeið. Hún sé virkur og afkastamikill fræðimaður sem birt hafi fjölda ritrýndra greina í innlendum og erlendum fræðiritum. Kærandi hafi mikla reynslu af því að byggja upp fjarnám auk þess sem hún hafi tekið þátt í framtíðaruppbyggingu fræðasetra á landsbyggðinni sem og fræðasviðs við Ideild Háskóla Íslands. Þá hafi hún verið þátttakandi í þróun námsefnis fyrir Endurmenntun Háskóla Íslands í samstarfi við Félag sjálfstætt starfandi fræðimanna við Reykjavíkurakademíuna.

  10. Kærandi rekur menntun sína og telur að hún sé umtalsvert meiri en þess sem ráðinn var í starfið en hann hafi ekki doktorspróf. Kærandi bendir á að í auglýsingu um starfið hafi verið gerð sérstök krafa um að umsækjendur skyldu hafa lokið doktorsprófi eða staðfest hæfni sína með öðrum hætti til þess að sinna meginhlutverkum starfsins. Krafan sé í samræmi við 29. gr. reglna nr. 569/2009 þar sem fram komi að engan megi ráða í starf lektors án þess að sá hinn sami uppfylli lágmarksskilyrði til að gegna starfinu samkvæmt 41. gr. sömu reglna. Þar komi fram það lágmarksskilyrði að viðkomandi lektor skyldi hafa lokið doktorsprófi á viðkomandi fræðasviði en því aðeins sé heimilt að víkja frá skilyrðinu um doktorspróf að deild eða stofnun telji að því skilyrði verði ekki við komið. Þetta þýði að aðeins megi ráða umsækjanda í lektorsstöðu sem ekki hafi doktorspróf að enginn annarra umsækjenda hafi heldur lokið doktorsprófi. Það sé því alfarið óheimilt að leggja að jöfnu umsækjanda með doktorspróf og annan umsækjanda sem ekki hafi lokið slíku prófi. Það hafi þó verið gert í umræddri ráðningu þar sem sá sem ráðinn var hafi ekki lokið doktorsprófi. Ráðningin sé skýlaust brot gegn reglum kærða, jafnréttislögum, réttmætisreglu og verðleikareglu stjórnsýsluréttarins.

  11. Kærandi rekur starfsreynslu sína og hæfni í samanburði við starfsreynslu og hæfni þess sem ráðinn var. Hún bendir á að starfs- og stjórnunarreynsla hennar sé mun víðtækari, bæði almennt sem og á þeim sviðum sem gerð hafi verið krafa um sérstaka þekkingu. Þá rekur kærandi rannsóknar- og ritstörf sín en ljóst sé að hún hafi verið afkastamikill og virkur fræðimaður.

  12. Kærandi bendir á að kærði hafi ekki fært málefnaleg rök fyrir ráðningunni og neitað að framkvæma samanburð á hæfni hennar og þess sem starfið hlaut. Kærði geti einfaldlega ekki fært málefnaleg rök fyrir því að umsækjandi með minni reynslu og menntun en hún hafi verið valinn til starfans. Í rökstuðningi kærða komi ekkert fram sem varpað geti ljósi á það af hverju sá sem starfið hlaut hafi verið tekinn fram yfir kæranda. Öll þau atriði sem sérstaklega hafi verið tiltekin sem rök fyrir ráðningunni eigi jafn vel eða betur við um kæranda en þann sem ráðinn var. Rökstuðningur kærða sé lítið annað en endurtekning á ferilskrá þess sem starfið hlaut. Allt að einu sé engan rökstuðning að finna sem vegi þyngra en lagaleg skylda kærða að ráða þann hæfasta í starfið. Þá rökstyðji kærði ekki hvers vegna hann telji heimilt að ráða einstakling sem ekki hafi lokið doktorsprófi umfram kæranda sem lokið hafi slíku prófi, einkum þegar reglur kærða geri kröfu um doktorspróf lektora skólans. Kærði hafi ekki aðeins ráðið þann aðila í starfið sem sé minna hæfur til að gegna því heldur einnig gengið fram hjá kæranda sem konu. Það sé ólögmæt háttsemi við starfsmannaráðningar kærða.

  13. Kærandi vísar til þess að gögn málsins og samanburður á hæfni hennar og þess sem starfið hlaut sýni að hæfari umsækjanda hafi verið hafnað og minna hæfur ráðinn í staðinn. Það sé gróft brot gegn réttmætisreglu stjórnsýsluréttarins. Þá feli verðleikareglan í sér þá skyldu að velja hæfasta umsækjandann með tilliti til þeirra lögmætu sjónarmiða sem lögð séu til grundvallar ákvörðun. Þannig sé stjórnvaldi að lögum óheimilt að synja hæfasta umsækjanda um starf og ráða annan í hans stað sem ekki teljist jafn hæfur.

  14. Kærandi bendir á að talsverður munur sé á hlutdeild kynjanna í akademískum störfum hjá kærða. Sú ráðstöfun að taka minna hæfan karl fram yfir hæfari konu í fasta kennslustöðu þrátt fyrir kynjahlutföll sýni svart á hvítu að mati kæranda að kærði hafi hvorki fylgt jafnréttislögum né eigin jafnréttisstefnu við umrædda ráðningu. Kærandi telur að með því að benda á hinn augljósa mun á menntun og starfsreynslu hennar og þess sem ráðinn var hafi hún að minnsta kosti leitt líkur að mismunun á grundvelli kyns, en sönnunarbyrðin hvíli á kærða.

    SJÓNARMIÐ KÆRÐA

  15. Í greinargerð kærða er því mótmælt að brotið hafi verið gegn lögum nr. 10/2008 við ráðningu í starf lektors. Það sé mat kærða að sá er ráðinn var hafi verið hæfasti umsækjandinn og að ráðningin hafi verið byggð á málefnalegum og lögmætum sjónarmiðum. Sá er ráðinn var hafi uppfyllt allar kröfur sem fram komi í auglýsingu um starfið. Það sé á valdi þess stjórnvalds sem veiti starfið að ákveða á hvaða sjónarmiðum ákvörðun verði byggð ef ekki sé kveðið á um sjónarmiðin í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum. Ef þau sjónarmið sem lögð séu til grundvallar leiði ekki til sömu niðurstöðu sé það undir mati stjórnvaldsins komið á hvaða sjónarmið skuli lögð áhersla enda séu þau málefnaleg.

  16. Kærði tekur fram að það sem hafi vegið þyngst í mati á hæfni þess sem ráðinn var sé sérsvið hans, J, en hann hafi mikla rannsóknarreynslu og hafi sýnt að hann sé öflugur rannsakandi á því sviði. Einnig hafi hann sýnt færni í að fara út fyrir hefðbundnar rannsóknir í J og lýst rannsóknaráformum á sviði D. Kærandi hafi ekki stundað miklar fræðilegar rannsóknir sem snúi að J og því ljóst að rannsóknarvirkni hennar á þessu sviði standist engan samanburð við rannsóknarvirkni þess sem ráðinn var. Samkvæmt auglýsingu um starfið hafi verið lagt til grundvallar að E væru hluti af J. Þekking á J hafi vegið þyngra en þekking á E þar sem annar starfsmaður sviðsins hafi sérþekkingu á E. Hvorki kærandi né sá sem ráðinn var hafi stundað viðamiklar rannsóknir á E en hann hafi þó sýnt að hann sé vel að sér um E. Kærandi hafi vísað til þess að hún hafi ritað 17 ritrýndar greinar en ekki verði séð af gögnum málsins að það sé rétt.

  17. Kærði vísar til þess að við mat á reynslu af Ckennslu og rannsóknum á C hafi verið horft sérstaklega til kennslu á háskólastigi. Einnig hafi verið horft til kennslu eins og verið sé að mennta kennaranema til að sinna. Sá er ráðinn var hafi umtalsverða reynslu af C á háskólastigi en ekki mikla reynslu af rannsóknum á C, Kærandi hafi verið kennari við K frá 1991 til 2000 en af þeirri kennslu geti ekki nema hluti kallast C. Þá hafi kærandi ekki reynslu af rannsóknum á C. Þrátt fyrir að kærandi hafi meiri reynslu af fjarnámi en sá er ráðinn var sé kennslureynsla hans bæði mun meiri og falli betur að starfinu.

  18. Kærði rekur menntun kæranda og þess sem ráðinn var og tekur fram að menntunarsvið hans, J, hafi samræmst betur þörfum starfsins. Kærði mótmælir þeirri túlkun kæranda að aðeins megi ráða umsækjanda í lektorsstöðu sem ekki hafi doktorspróf ef enginn annarra umsækjenda hafi lokið doktorsprófi. Kærði hafi túlkað 1. mgr. 41. gr. reglna kærða þannig að heimilt sé að ráða umsækjanda sem hafi lokið meistaraprófi þó hann hafi ekki lokið doktorsprófi sé hann metinn hæfastur. Sá sem ráðinn var uppfylli skilyrði 1. mgr. 41. gr. reglna nr. 569/2009 og þær kröfur sem fram komi í auglýsingu um starfið.

  19. Kærði mótmælir því að hafa brotið reglur stjórnsýsluréttarins. Ákvörðun um ráðninguna hafi verið byggð á málefnalegum og lögmætum sjónarmiðum en sá sem ráðinn var hafi verið talinn hæfastur af umsækjendum um starfið. Kærandi hafi vísað til þess að starfs- og stjórnunarreynsla hennar sé mun víðtækari en þess sem ráðinn var en sú reynsla tengist ekki hinu auglýsta starfi nema að litlu leyti þar sem meginhluti starfsins sé kennsla og rannsóknir. Kærði bendir á að þar sem sá sem ráðinn var hafi verið metinn hæfari en kærandi hafi ekki komið til þess að meta hvort kynið væri í meirihluta á starfssviðinu. Ef komið hefði til þess að horfa til ákvæða jafnréttislaga við ráðninguna verði að telja rétt að bera saman fjölda karla og kvenna á Dsviði þar sem það séu þeir starfsmenn sem forseti sviðsins hafi veitingarvald gagnvart eða fjölda karla og kvenna í akademískum störfum á sviðinu. Kærði mótmælir því einnig að hafa ekki fært málefnaleg rök fyrir ráðningunni og neitað að framkvæma samanburð á umsækjendum. Dómnefnd hafi metið umsækjendur og í niðurstöðu valnefndar komi fram að byggt sé á heildarmati á umsækjendum og þeim forsendum sem hafi legið til grundvallar auglýsingu um starfið. Forseti Dsviðs hafi farið yfir álit valnefndar, mat dómnefndar á hæfi umsækjenda og önnur gögn málsins og samþykkt mat á umsækjendum áður en hann hafi tekið ákvörðun um ráðninguna. Í rökstuðningi kærða komi fram helstu upplýsingar um þann sem ráðinn var og sagt frá niðurstöðu valnefndar þar sem fram komi þeir þættir sem hafi vegið þyngst við mat á hæfi hans. Kærði mótmælir því að hafa hvorki fylgt jafnréttislögum né eigin jafnréttisstefnu og jafnréttisáætlun við ráðninguna og krefst þess að nefndin hafni kröfu kæranda um kærumálskostnað.

    ATHUGASEMDIR KÆRANDA

  20. Kærandi tekur fram að rökstuðningur kærða í greinargerð til kærunefndarinnar sé alfarið á skjön við skýrt og eindregið orðalag auglýsingar um hina umdeildu stöðu. Það að þekking á J hafi vegið þyngra sé á skjön við orðalag auglýsingarinnar þar sem óskað hafi verið þekkingar á E en hvorugu hafi verið gert hærra undir höfði en hinu. Fullyrðing kærða að í auglýsingunni sé lagt til grundvallar að E væru hluti af J sé einnig í ósamræmi við orðalag auglýsingar. Þá sé fullyrðing kærða að sá sem starfið hlaut hafi góða þekkingu á E órökstudd. Kærandi hafi ekki verið látin njóta slíks sambærilegs vafa af hálfu kærða en mikil áhersla hafi verið lögð á að gera lítið úr birtum rannsóknum hennar á meðan rannsóknarskortur þess sem ráðinn var hafi ekki skipt neinu máli. Kærandi bendir á að sú afstaða kærða að kennslureynsla hafi vegið þyngra en til dæmis þekking á rafrænum leiðum til þess að byggja upp fjarnám sé einnig í algerri andstöðu við skýrt og eindregið orðalag og fyrirmæli auglýsingarinnar.

  21. Kærandi bendir á að óheimilt sé að víkja frá skilyrði 41. gr., sbr. 2. mgr. 34. gr. reglna kærða nr. 569/2009, um doktorspróf. Kærða beri lögum samkvæmt skylda til að ráða hæfasta umsækjandann en hafi ekki frjálst val milli allra umsækjenda svo lengi sem þeir uppfylli lágmarkskröfur auglýsingar. Kærandi sé hæfari en sá sem ráðinn var og þegar af þeirri ástæðu sé ráðningin ólögmæt. Ekki nægi að vísa til niðurstöðu valnefndar til að réttlæta ráðninguna. Dómnefndarálit segi til um hæfi umsækjenda, valnefnd taki ákvörðun um ráðningu á grundvelli hæfisdóms sem þegar liggi fyrir hjá dómnefnd en sá sem starfið hlaut hafi ekki verið metinn hæfastur af dómnefnd, enda ekki með doktorspróf. Kærandi tekur fram að framsetning kærða og umfjöllun um menntun hennar sé ómálefnaleg og bendir á að hún hafi lokið umtalsverðum einingafjölda í C í námi sínu. Þá hafi kærandi lokið mun fleiri einingum í C en sá sem ráðinn var. Kærði hafi ekki fært fram nein haldbær rök um hvernig sá sem ráðinn var sé hæfari en kærandi þrátt fyrir að hún hafi lokið doktorsprófi en hann ekki.

  22. Kærandi greinir frá þeim háskólanámskeiðum sem hún hafi kennt og tekur fram að þorri kennslueininganna við Kskor hafi verið C. Kærandi mótmælir því að sá sem ráðinn var hafi haft mun meiri kennslureynslu en hún og að það atriði geti ráðið úrslitum um réttmæti ráðningarinnar. Kærandi hafi umtalsverða reynslu af því að semja kennsluefni í C fyrir framhaldsskóla sem og fjarkennsluaðferðum. Í auglýsingu um starfið hafi sérstaklega verið tekið fram að þekking á rafrænum leiðum til að byggja upp fjarnám skipti miklu máli við mat á kennslureynslu umsækjenda. Mat kærða hafi því augljóslega ekki farið fram með þeim aðferðum sem hafi verið lagðar til grundvallar í auglýsingu. Kærandi mótmælir því harðlega að sá munur sem sé á kennslureynslu hennar og þess sem ráðinn var verði túlkaður henni í óhag. Þá bendir kærandi á að kærði hafi lagt áherslu á að hún hafi ekki stundað neinar rannsóknir á sviði C. Það sé hins vegar þýðingarlaust því sá sem ráðinn var hafi ekki heldur stundað neinar rannsóknir á sviði C, enda slíkar rannsóknir afar sjaldgæfar hérlendis. Kærði hafi reynt að gera lítið úr rannsóknum hennar og upphefja mjög um leið rannsóknarframlag þess sem ráðinn var. Þá séu það hvorki veigamikil rök né málefnaleg að nefna það sem réttlætingu fyrir meintri þekkingu þess sem ráðinn var á E, að hann hafi setið í dómnefnd L. Seta í þeirri dómnefnd sé ekki háð neinni sérþekkingu dómnefndarmanna á E.

  23. Kærandi bendir á að sá sem ráðinn var í starfið virðist einungis hafa birt tvær ritrýndar greinar en kærandi hafi birt 17 slíkar. Kærði hafi gert lítið úr fræðaskrifum kæranda um J á þeirri forsendu að þau skrif hafi ekki birst á ritrýndum vettvangi og hafi því takmarkað fræðilegt gildi samanborið við framlag þess sem ráðinn var en það sé ámælisvert. Aðferðafræði kærða hvað þetta varðar sé ómálefnaleg. Fullyrðing kærða að upplýsingar kæranda um fjölda fræðigreina standist ekki samanburð við gögn sé hvorki rökstudd nánar né tilgreint í hverju skekkjan kunni að vera fólgin. Það sé því vegið að fræðiheiðri kæranda án rökstuðnings.

  24. Kærandi rekur stjórnunarreynslu sína og tekur fram að það sé ómögulegt að skilja rökstuðning kærða að stjórnunarreynsla þess sem ráðinn var henti starfinu vel en að stjórnunarreynsla hennar henti starfinu ekki nema að litlu leyti. Það bendi til þess að kærði hafi beitt ótrúverðugum eftiráskýringum og að hæfni, reynsla og þekking kæranda hafi verið metin á afar ómálefnalegan og hlutdrægan máta, henni í óhag.

  25. Kærandi mótmælir umfjöllun kærða um kynjahlutföll. Í auglýsingu um starfið hafi verið tekið fram að lektornum sé meðal annars ætlað að kenna við Fsvið skólans en í greinargerð kærða komi fram að sú kennsla myndi ekki fara fram við Mdeild. Kennslan hljóti því að fara fram við Ndeild þar sem kynjahlutfallið sé óhagstætt konum í hópi lektora, dósenta og prófessora því 21 karl á móti 13 konum fylli þær stöður. Sé litið til C sem fræðigreinar á Dsviði hafi kynjahlutföllin í föstum akademískum stöðum þar um síðustu áramót verið enn óhagstæðari, eða sjö karlar á móti þremur konum.

  26. Kærandi bendir á að það blasi við að minna hæfur karlmaður hafi verið ráðinn í hina auglýstu stöðu umfram hæfari konu sem lögum samkvæmt hafi átt að hljóta stöðuna, meðal annars með vísan til réttmætisreglu og verðleikareglu stjórnsýsluréttarins. Ekkert sé fram komið sem hnekki þeim fullyrðingum kæranda að hún hafi verið hæfari þeim sem ráðinn var. Þá hafi kærða ekki tekist að axla þá sönnunarbyrði að málefnaleg rök hafi ráðið vali í starfið en ekki til að mynda kyn kæranda.

    ATHUGASEMDIR KÆRÐA

  27. Kærði ítrekar að hæfasti umsækjandinn hafi verið ráðinn og að byggt hafi verið á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum við ráðninguna. Um ráðningar akademískra starfsmanna hjá kærða fari eftir lögum nr. 85/2008, um opinbera háskóla, og reglum nr. 569/2009. Í 46. gr. reglna nr. 569/2009 segi að við val á hæfasta umsækjandanum skuli höfð hliðsjón af stefnu deildar og uppbyggingu sem tengist umræddu starfi. Auk þess skuli byggt á sjónarmiðum sem fram komi í 34. og 41. gr. reglnanna. Valnefnd sé heimilt í mati sínu að taka tillit til þess hversu líklegur umsækjandi sé, út frá ferli hans, til að stuðla að þeim markmiðum sem deild og fræðasvið hafi sett sér. Það hafi verið mat dómnefndar að bæði kærandi og sá sem ráðinn var hafi uppfyllt lágmarksskilyrði til að gegna starfinu. Í ljósi heildarmats á umsækjendum og þeim forsendum sem hafi legið til grundvallar auglýsingu um starfið hafi það verið niðurstaða valnefndar að sá sem ráðinn var hafi verið best til þess fallinn að gegna starfinu. Hann hafi mikla rannsóknar- og kennslureynslu og sérsvið hans væri J sem hafi skipt miklu máli. Á því sviði hafi hann gefið út viðamikla rannsókn í bókarformi sem myndi kjarnann í væntanlegri doktorsritgerð hans en hann sé einnig langt kominn með aðra hluta doktorsrannsóknar. Sá sem ráðinn var hafi einnig samið kennsluleiðbeiningar fyrir kennara í E á framhaldsskólastigi og hafi stjórnunarreynslu sem henti starfinu vel. Forseti Dsviðs hafi farið yfir álit valnefndar, mat dómnefndar á hæfi umsækjenda og önnur gögn málsins og hafi verið sammála niðurstöðu valnefndar.

  28. Kærði bendir á að ekki séu lögfestar almennar reglur um það hvaða sjónarmið stjórnvöld eigi að leggja til grundvallar ákvörðun um veitingu opinbers starfs þegar almennum hæfisskilyrðum sleppi. Almennt sé talið að meginreglan sé sú að stjórnvald ákveði á hvaða sjónarmiðum það byggi slíka ákvörðun ef ekki sé sérstaklega mælt fyrir um það í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum. Þau sjónarmið sem stjórnvald byggi á við veitingu opinbers starfs þurfi að vera lögmæt og málefnaleg. Þegar þau sjónarmið sem stjórnvald hafi ákveðið að byggja ákvörðun sína á leiði ekki öll til sömu niðurstöðu þurfi að meta þau innbyrðis. Við slíkt mat gildi sú meginregla að stjórnvaldið ákveði hvaða sjónarmið það leggi áherslu á ef ekki sé mælt fyrir um það í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum. Kveðið sé á um akademísk störf í framangreindum lögum og reglum en þar séu meðal annars sjónarmið sem beri að horfa til við ráðningar í akademísk störf með hliðsjón af þeim sérstöku kröfum sem gera verði til þeirra sem sinni slíkum störfum. Þar sem þarfir deildar hafi verið þær að kennsla þess sem ráðinn yrði í starfið yrði fyrst og fremst á sviði J hafi það verið mat valnefndar að þekking á J hafi vegið þyngst við mat á umsækjendum. Kærði tekur fram að sá sem ráðinn var hafi mikla rannsóknarreynslu á sviði J og það sé ljóst að rannsóknarvirkni kæranda standist engan samanburð við rannsóknarvirkni hans. Því hafi hann verið metinn hæfari en kærandi til að gegna hinu auglýsta starfi.

  29. Kærði bendir á að ekkert af þeim ritverkum sem kærandi hafi gefið upp uppfylli þær kröfur sem gerðar séu í matskerfi opinberra háskóla sem samþykkt hafi verið af matskerfisnefnd 14. nóvember 2013. Kærði rekur kennslureynslu kæranda og þess sem ráðinn var og tekur fram að kennslureynsla hans falli mun betur að starfinu. Þótt kærandi hafi meiri reynslu af fjarnámi standi sá sem ráðinn var framar þegar heildarkennsla þeirra sé borin saman. Þá mótmælir kærði því að framsetning og umfjöllun um menntun kæranda hafi verið ómálefnaleg en ákveðins ósamræmis hafi gætt í málatilbúnaði kæranda í þeim efnum. Kærði ítrekar að heimilt hafi verið að ráða umsækjanda sem sé ekki með doktorspróf en það hafi verið mat kærða að menntunarsvið þess sem ráðinn var hafi samræmst betur þörfum starfsins og kennaradeildarinnar. Kærði rekur stjórnunarreynslu kæranda og þess sem ráðinn var en ljóst sé að þau hafi bæði verulega stjórnunarreynslu og hafi sýnt að þau ráði vel við þá stjórnun sem starf lektors krefjist. Stjórnunarreynsla ráði hins vegar ekki úrslitum þegar ráðið sé í akademísk störf hjá kærða þar sem stjórnun er ekki sérstakur hluti af starfsskyldum lektora við Háskóla Íslands, sbr. reglur nr. 605/2006, um starfsskyldur kennara og sérfræðinga við Háskóla Íslands. Eftir mat á umsækjendum á grundvelli framangreindra þátta hafi það verið niðurstaðan að sá sem ráðinn var hefði, með rannsóknum sínum, kennslureynslu og menntun, staðfest hæfni sína til að sinna meginhlutverkum starfsins og því talinn hæfastur umsækjenda til að gegna starfinu. Ákvörðun um ráðningu hans hafi verið byggð á málefnalegum og lögmætum sjónarmiðum enda hafi enginn annar umsækjandi viðlíka rannsóknarreynslu á sviði J.

  30. Kærði tekur fram að í áliti valnefndarinnar komi sérstaklega fram að það skipti miklu máli að sérsvið þess sem ráðinn var sé J. Það sé því ekki um nýja útskýringu að ræða líkt og kærandi haldi fram. Eins og fram komi í 3. gr. reglna nr. 605/2006 skiptast starfsskyldur lektora og dósenta í hálfu starfi eða meira almennt í 50% kennslu og 50% rannsóknir og stjórnun, sem aftur skiptast á milli kennslu og rannsókna. Í auglýsingu um starfið komi fram að eitt af meginhlutverkum lektorsins væri kennsla á grunn- og meistarastigi. Því hafi verið lögmætt og málefnalegt að láta reynslu af C vega þyngra en þekkingu á rafrænum leiðum til að byggja upp fjarnám.

    ATHUGASEMDIR KÆRANDA

  31. Kærandi mótmælir fullyrðingum kærða um að ekkert af fræðiskrifum hennar uppfylli kröfur sem settar hafi verið árið 2013. Á leslistum ýmissa Knámskeiða sem kennd hafi verið við háskólann sé að finna ritsmíðar kæranda sem hluta af námsefni. Ummæli kærða vegi að starfsheiðri kæranda og því sé vísað á bug að hún hafi gefið rangar upplýsingar um fjölda fræðigreina. Þótt fræðiskrif kæranda séu eldri en matsreglurnar frá 2013 sé fráleitt að halda því fram að þau uppfylli ekki staðlana um fræðilega framsetningu eða fræðilegt gildi. Kærandi bendir á að kærði hafi ekki greint frá því með fullnægjandi hætti hvernig háskólinn geti að lögum ráðið karlmann sem ekki hafi doktorspróf umfram kæranda sem sé kona og hafi slíkt próf.

    NIÐURSTAÐA

  32. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 4. mgr. 26. gr. sömu laga. Við mat á því hvort ákvæði 26. gr. laganna hafi verið brotin skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Samkvæmt 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.

  33. Tvö störf lektora við Dsvið kærða voru auglýst laus til umsóknar X 2014. Annað þessara starfa var starf lektors í C. Meginhlutverk þessa lektors var skilgreint í þremur atriðum; kennsla á grunn- og meistarastigi og leiðsögn með meistara- og doktorsnemum; að sinna rannsóknum, bæði í fræðigrein sinni og á vettvangi C; og samstarf við starfandi kennara í leik-, grunn- og framhaldsskóla. Þess var getið að mikilvægt væri að þeir sem ráðnir yrðu til starfa hefðu menntun og reynslu sem félli vel að þörf fyrir C á Dsviði. Sérstaklega væri leitað eftir þekkingu á E. Þess var getið að mikilvægt væri að umsækjendur hefðu reynslu af C og rannsóknum á C. Sagt var að þekking á rafrænum leiðum til að byggja upp fjarnám skipti miklu. Loks var tekið fram að sá sem starfið hlyti skyldi sjá um kennslu á Fsviði kærða ef svo bæri undir.

  34. Skipuð var sérstök dómnefnd í samræmi við reglur kærða en um slíkar nefndir gildir að háskólaráð tilefnir tvo nefndarmenn og deild sú eða stofnun sem starfið er við hinn þriðja. Í samræmi við framangreint skipaði háskólarektor dómnefnd 16. maí 2014 en í henni sátu tveir prófessorar, fastafulltrúar háskólaráðs af Dsviði og var annar þeirra formaður nefndarinnar. Þriðji nefndarmaðurinn var dósent tilnefndur af Dsviði.

  35. Dómnefndin skilgreindi í upphafi forsendur fyrir vinnu sinni á þann máta að til grundvallar áliti nefndarinnar liggi reglur kærða nr. 569/2009. Sérstaklega var vísað til 4. mgr. 41. gr. þar sem kveðið er á um að mat skuli byggt auk menntunar á tilgreindum starfsþáttum, rannsóknum, kennslu og stjórnun. Við mat á rannsóknum skuli megináherslan vera á vísindagildi þeirra og mat á umsækjendum fara eftir matsreglum kærða. Þá var sérstaklega vísað til 16. gr. laga nr. 85/2008, um opinbera háskóla, og rakið efni greinarinnar eins og hún var áður en henni var breytt með 5. gr. laga nr. 56/2013.

  36. Dómnefndin fjallaði um hæfi umsækjenda um báðar lektorsstöðurnar sem auglýstar voru lausar til umsóknar við Dsvið kærða og skilaði áliti sínu 18. júní 2014. Fimm sóttu um starf lektors í C og komst dómnefndin að þeirri niðurstöðu að fjórir uppfylltu lágmarksskilyrði kærða til að gegna hinu auglýsta starfi.

  37. Í dómnefndaráliti er tilgreint um námsferil kæranda að hún hafi eftir meistarapróf lokið doktorsprófi í C og K frá Odeild Háskóla Íslands. Einnig hafi hún lokið 15 einingum í stjórnunarnámi við Pdeild Háskóla Íslands og aflað sér kennsluréttinda til framhaldsskólakennslu. Þess er meðal annars getið um starfsferil hennar að hún hafi verið kennari í grunnskóla um eins árs skeið, R í um 15 ár, sinnt fræðistörfum og störfum við S í fjögur ár, verið skólameistari menntaskóla í fimm ár og T í fjögur ár. Þá er undir fyrirsögninni rannsóknir tilgreint að kærandi hafi lokið doktorsprófi með ritgerð sem gefin var út, hún hafi ritað tvær bækur, skrifað sjö greinar sem birst hafi í tímaritum og ársritum, ritað sex bókakafla og þrjár greinar sem birst hafi í ráðstefnuritum auk þess sem gerð hafi verið grein fyrir upplýsingum um erindi og greinar almenns eðlis og [...] sem birst hafi opinberlega. Þá er nefnd [...] sem kærandi hafi ritað fyrir U. Fjallað er sérstaklega um kennslustörf kæranda og þess getið að auk áðurnefndrar grunnskólakennslu hafi hún kennt sem stundakennari í K í Háskóla Íslands frá 1991 til 2001 og aftur 2006 til 2008. Loks er þess getið að hún hafi gegnt fjölmörgum stjórnunarstöðum; [...] Niðurstaða dómnefndar var að kærandi uppfyllti lágmarksskilyrði kærða til að gegna hinu auglýsta starfi.

  38. Í dómnefndaráliti um þann er ráðinn var í starfið segir um námsferil hans að hann hafi meistarapróf í C frá Háskóla Íslands og hafi stundað doktorsnám um sex ára skeið við Háskólann í V. Þess er getið um starfsferil hans að hann hafi verið deildarstjóri við Þ um þriggja ára skeið, verið styrkþegi Æ í þrjú ár, framkvæmdastjóri Ö í þrjú ár og svo stundakennari við Háskóla Íslands í ellefu ár. Þá er undir fyrirsögninni rannsóknir tilgreint að hann hafi gefið út eina bók, birt tvær greinar í ritrýndu innlendu tímariti, tíu bókakafla og tólf tímaritsgreinar og þess getið að taldar séu upp 20 aðrar greinar og ritdómar auk þriggja fyrirlestra. Fjallað er sérstaklega um kennslustörf þess sem starfið hlaut og þess getið að hann hafi kennt í stundakennslu við Háskóla Íslands frá 1997 og getið helstu námskeiða. Þess er jafnframt getið að hann hafi verið leiðbeinandi við BA-ritgerðir og MA-ritgerð. Af stjórnunarreynslu er nefnd [...]. Niðurstaða dómnefndar var að sá sem ráðinn var uppfyllti lágmarksskilyrði kærða til að gegna hinu auglýsta starfi.

  39. Í kjölfar niðurstöðu dómnefndar tók valnefnd á vegum kærða umsækjendur í viðtöl og byggði svo í kjölfarið álit sitt á fjórum skilgreindum forsendum, mati dómnefndar og athugasemdum umsækjenda við það, skilgreiningu starfs í auglýsingu, umsóknargögnum umsækjenda og viðtölum við umsækjendur. Tekið var við svo búið fram að álit valnefndar væri látið í té á grundvelli þeirra sjónarmiða sem valnefnd bæri að starfa eftir samkvæmt 46. gr. reglna kærða. Með vísan til þessa og heildarmats valnefndar á umsækjendum og heildarmats á þeim þáttum sem lágu til grundvallar ráðningu í starfið var sá sem ráðinn var talinn best til þess fallinn að gegna starfinu. Niðurstöðu sína rökstuddi nefndin með vísan til þess að hann hefði mikla rannsóknarreynslu, hefði sýnt það að hann væri öflugur rannsakandi á vettvangi J og hefði sýnt færni til að fara út fyrir hefðbundnar rannsóknir í J og lýst rannsóknaráformum á sviði Dvísinda. Hann hefði að auki mikla kennslureynslu á háskólastigi sem skilgreind var nánar. Þá var tekið fram að miklu máli skipti að sérsvið hans væri J en á því sviði hafi hann þegar gefið út viðamikla rannsókn í bókarformi sem myndi kjarnann í doktorsritgerð. Þess var getið að hann væri einnig kominn langt með aðra hluta doktorsrannsóknar og hann hafi samið kennsluleiðbeiningar fyrir kennara í E á framhaldsskólastigi. Þá hefði hann einnig stjórnunarreynslu sem henti starfinu vel. Í áliti valnefndar var ekki tekin afstaða til annarra umsækjenda.

  40. Kærandi byggir á því að af 29. gr. reglna nr. 569/2009, um Háskóla Íslands, sbr. 41. gr. og 1. mgr. 34. gr. reglnanna, leiði að kærða hafi verið óheimilt að ráða umsækjanda sem ekki hafi lokið doktorsprófi í þessu tilviki. Slíkt sé aðeins heimilt þegar enginn umsækjenda hefur lokið slíku prófi. Nauðsynlegt er að taka afstöðu til þessarar málsástæðu kæranda þar sem hún er reist á því að ólögmæt og ómálefnaleg sjónarmið hafi ráðið för við ráðninguna. Slíkt kynni að fela í sér löglíkur á að ákvörðunin bryti gegn ákvæðum laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

  41. Samkvæmt lögum um opinbera háskóla, nr. 85/2008, er tilgreint í 1. mgr. 16. gr., sbr. 5. gr. laga nr. 56/2013, að háskóli skuli setja á fót dómnefnd til að meta hæfi þeirra sem til greina koma til akademískra starfa. Sérstaklega er tilgreint að þeir sem bera starfsheitin prófessor, dósent, lektor og sérfræðingur skuli hafa þekkingu og reynslu í samræmi við alþjóðleg viðmið fyrir viðkomandi starfsheiti á þeirra fræðasviði, staðfest með áliti dómnefndar eða með doktorsprófi frá viðurkenndum háskóla. Síðan segir í 2. mgr. 16. gr. að skóla eða stofnun sé heimilt að gera þær kröfur að umsækjendur hafi doktorspróf á viðkomandi sérsviði. Lögin áskilja því ekki að þeir sem hafi lokið doktorsprófi gangi framar öðrum umsækjendum.

  42. Í lokamálslið 1. mgr. 34. gr. reglna nr. 569/2009 segir að í auglýsingu um starf skuli gera kröfu um að umsækjendur hafi lokið doktorsprófi á viðkomandi fræðasviði nema deild eða stofnun telji að því verði ekki við komið. Sami áskilnaður er í 1. mgr. 41. gr. reglnanna, sem fjallar um mat dómnefndar á umsækjendum. Í 2. mgr. 29. gr. reglnanna segir að engan megi ráða í ákveðnar stöður innan kærða, þar með talið starf lektors, nema meirihluti dómnefndar telji viðkomandi umsækjanda uppfylla þau lágmarksskilyrði sem greind eru í reglunum.

  43. Af ákvæðum 1. mgr. 34. gr. reglnanna er ljóst að í auglýsingu um starf skal gera kröfu um að umsækjendur hafi lokið doktorsprófi nema viðkomandi deild eða stofnun telji því ekki við komið. Það er því undir mati viðkomandi deildar eða stofnunar komið hvort krafist sé doktorsprófs í auglýsingu. Slík krafa var ekki gerð í máli þessu, enda segir í auglýsingunni að umsækjendur skuli hafa lokið doktorsprófi „eða hafa staðfest hæfni sína með öðrum hætti“. Ekki verður ráðið af efni reglna nr. 569/2009, eins og þær voru þegar atvik máls áttu sér stað, hvaða sjónarmið deild eða stofnun beri að hafa í huga þegar ákvörðun um menntunarkröfur í auglýsingu er tekin. Hins vegar liggur fyrir í málinu tölvubréf, sem mannauðsstjóri Dsviðs sendi 13. október 2014, þar sem fram kemur rökstuðningur kærða fyrir menntunarkröfum í auglýsingunni. Þar segir að deildin hafi talið mikilvægt að takmarka umsækjendur ekki við þá sem hafa doktorspróf, enda áætlað að sá hópur væri fámennur, og því talið mikilvægt að hafa úr stærri hópi að velja. Eins væri ekki vitað um marga sem uppfylltu hin rýmri menntunarskilyrði sem sett voru í auglýsingunni, enda hafi raunin orðið sú að einungis fjórir hæfir umsækjendur sóttu um stöðuna. Þá kemur fram í rökstuðningnum að það væri regla frekar en undantekning við auglýsingu starfa innan Dsviðs að takmarka auglýsingar ekki við umsækjendur með doktorspróf.

  44. Af reglum nr. 569/2009 leiðir að dómnefnd, sem skipuð er á grundvelli 40. gr. reglnanna, er bundin af ákvörðun deildar eða stofnunar um hvort krafist sé doktorsprófs í auglýsingu. Fram kemur í áðurnefndri 41. gr. reglnanna að við mat dómnefndar á því hverjir teljist hæfir til að gegna störfum hjá kærða skuli gera kröfu um að umsækjendur hafi lokið doktorsprófi „nema að deild eða stofnun telji að því verði ekki við komið“. Dómnefnd er því ekki ætlað það hlutverk að endurmeta ákvörðun deildar eða stofnunar um menntunarkröfur í auglýsingu. Sé ekki gerð krafa um doktorspróf í auglýsingu getur dómnefndin ekki metið umsókn ófullnægjandi af þeirri ástæðu einni að viðkomandi umsækjandi hafi ekki lokið slíku prófi.

  45. Valnefnd samkvæmt 44. gr. reglna nr. 569/2009 ber í umsögn sinni, samkvæmt 4. mgr. 45. gr., að skila niðurstöðu um það hver úr þeim hópi sem dómnefnd telur að uppfylli lágmarksskilyrði teljist best til þess fallinn að gegna starfinu á grundvelli heildarmats. Því verða umsækjendur með doktorspróf ekki sjálfkrafa metnir hæfari öðrum umsækjendum sem ekki hafa slíkt próf. Samkvæmt framansögðu er það mat kærunefndar að ekki hafi verið brotið gegn ákvæðum 29. gr., sbr. 41. gr. og 1. mgr. 34. gr., reglna nr. 569/2009, um Háskóla Íslands, við val á umsækjanda um lektorsstöðuna af þeirri ástæðu einni að umsækjandi án doktorsprófs var tekinn fram yfir umsækjanda með slíkt próf.

  46. Séu bornir saman þeir þættir sem lágu til grundvallar af hálfu dómnefndar sem valnefnd byggði niðurstöðu sína á liggur fyrir að kærandi hefur meiri menntun en sá er ráðinn var. Hún hefur lokið doktorsnámi og lagt stund á stjórnunarnám við Pdeild Háskóla Íslands og aflað sér kennsluréttinda til framhaldsskólakennslu. Sá er ráðinn var hefur lokið meistaraprófi í C og lagt stund á doktorsnám en ekki lokið því. Þó hann sé kominn vel á veg með rannsóknir sínar og hafi birt þær sem hluta af ólokinni doktorsritgerð verður menntun hans ekki að fullu jafnað við menntun kæranda. Stendur því sá sem starfið hlaut kæranda að baki er menntun varðar.

  47. Starfsreynsla kæranda er bæði fjölþættari og spannar yfir lengra tímabil en þess sem starfið hlaut enda umtalsverður aldursmunur á þeim. Á starfsferli sínum hefur kærandi sinnt ýmsum ábyrgðarstöðum, svo sem [...]. Sá sem starfið hlaut hefur á hinn bóginn helgað sig kennslustörfum á Dsviði og störfum tengdum fræðimennsku, einkum er lúta að C en einnig sinnt félagsstörfum og stjórnarsetum í félögum og samtökum sem tengjast þessum fræðilega starfsvettvangi. Ef horft er almennt til starfsferils leikur ekki vafi á að þar stendur kærandi þeim sem starfið hlaut framar. Þegar hins vegar horft er til þess í hve ríkum tengslum fyrri störf eru við hið auglýsta starf sýnist starfsferill þess sem starfið hlaut falla betur að inntaki þess og hann búa að meiri og fjölþættari kennslureynslu á háskólastigi. Sýnist með vísan til þessa nokkuð jafnt á með þeim komið hvað starfsreynslu sem nýtist í umrætt starf snertir, hennar fjölþættari og yfirgripsmeiri, hans sérhæfðari og sérsniðnari að hinu auglýsta starfi.

  48. Varðandi fræðirannsóknir þá hafa bæði lagt umtalsverða stund á rannsóknir en af fyrirliggjandi gögnum má ráða að sá sem ráðinn var hafi í mun meira mæli einbeitt sér að rannsóknum sem lúta beinlínis að J sem var þekking sem sérstaklega var auglýst eftir. Rannsóknarstörf þess sem starfið hlaut sýnast því skipa honum skör ofar en kæranda hvað þann þátt varðar.

  49. Valnefnd vék jafnframt að stjórnunarreynslu þess sem starfið hlaut og taldi hann búa að slíkri reynslu sem myndi henta starfinu vel. Þegar horft er til stjórnunarreynslu kæranda er engum blöðum um það að fletta að í þeim efnum býr kærandi að margfalt meiri reynslu. Á hitt er hins vegar að líta að hið auglýsta starf felur afar takmarkaða stjórnun í sér þannig að yfirgripsmikil reynsla kæranda í þessum efnum verður vart til þess að hún teljist standa skör framar en sá sem starfið hlaut.

  50. Önnur þau atriði sem valnefnd tíundaði þeim sem starfið hlaut til tekna, svo sem að hann hefði sýnt færni til að fara út fyrir hefðbundnar rannsóknir í J og lýst rannsóknaráformum á sviði Dvísinda, eru ekki rökstudd þannig að af þeim verði dregnar ályktanir um að hann standi kæranda framar.

  51. Að öllu ofangreindu virtu er það mat kærunefndar að þegar ólíkir hæfileikar kæranda og þess sem starfið hlaut eru vegnir saman að nokkuð jafnt sé komið á með þeim. Ekki séu forsendur til að telja annað hinu fremra hvað þá matsþætti snertir sem lagðir voru til grundvallar mati á umsækjendum, þau séu jafnhæf til að gegna starfinu.

  52. Af 1. mgr. 18. gr. laga nr. 10/2008, sem og með vísan til dómaframkvæmdar Hæstaréttar, leiðir að þegar umsækjendur eru metnir jafnhæfir ber atvinnurekanda að ráða umsækjandann af því kyni sem hallar á í viðkomandi starfsstétt. Það er mat kærunefndar að sú starfsstétt sem horfa verði til í málinu séu akademískir starfsmenn og kennarar við Dsvið Háskóla Íslands. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum kærða voru konur í miklum meirihluta starfsmanna Dsviðs Háskóla Íslands á árinu 2014, 139 talsins á móti 56 karlmönnum. Þá voru starfandi kennarar við Dsvið 123, þar af voru 76 konur og 47 karlmenn. Samkvæmt þessu eru karlkyns kennarar við Dsvið talsvert færri. Standa því ekki rök til þess að reyna á skyldu kærða sem atvinnurekanda samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga nr. 10/2008 í þágu kæranda. Hvað varðar tilvísun kæranda til kynjahlutfalla við Fsvið kærða tekur kærunefndin fram að umrætt starf er við Dsvið skólans. Að mati kærunefndar ber því ekki að líta til kynjahlutfalla Fsviðs þrátt fyrir að í auglýsingu um starfið hafi verið gert ráð fyrir að sá umsækjandi sem ráðinn yrði skyldi jafnframt sinna einhverri kennslu á því sviði ef svo bæri undir.

  53. Við ofangreindar aðstæður fellst kærunefndin á að mat kærða hafi byggt á málefnalegum forsendum þar sem meðal annars var lögð áhersla á rannsóknarreynslu á vettvangi J og mikla kennslureynslu á háskólastigi. Þá var tekið fram að miklu skipti að sérsvið þess sem starfið hlaut væri J en á því sviði hafi hann þegar gefið út viðamikla rannsókn í bókarformi sem myndi kjarnann í doktorsritgerð. Þessi atriði skapa þeim sem starfið hlaut þá sérstöðu að ekki hafa verið leiddar líkur að því að kærði hafi við ráðninguna mismunað á grundvelli kynferðis.

  54. Samkvæmt framansögðu braut kærði ekki gegn lögum nr. 10/2008 við ráðningu í starf lektors í C við Dsvið Háskóla Íslands X 2014. Með hliðsjón af fyrrgreindri niðurstöðu eru ekki efni til að verða við kröfu kæranda um málskostnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Háskóli Íslands braut ekki gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við ráðningu í starf lektors í C við Dsvið Háskóla Íslands X 2014.

Björn L. Bergsson

Grímur Sigurðsson

Þórey S. Þórðardóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta