Hoppa yfir valmynd

Nr. 19/2018 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 10. janúar 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 19/2020

í stjórnsýslumálum nr. KNU19120037 og KNU19120038

 

Beiðni um frestun réttaráhrifa í máli […] og […]

 

 

Málsatvik

Þann 5. desember 2019 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 2. september 2019, um að umsóknum einstaklinga er kveðast heita […], vera fædd […] og […], vera fæddur […], vera ríkisborgarar Afganistan, um alþjóðlega vernd hér á landi, yrði ekki tekin til efnismeðferðar og að þau yrðu endursend til Grikklands. Úrskurður kærunefndar var birtur fyrir aðilum þann 9. desember 2019 og 16. desember 2019 barst kærunefnd beiðni aðila um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar. Þann 23. desember 2019 barst kærunefnd greinargerð aðila. Þá bárust kærunefnd viðbótargögn þann 2. janúar 2020.

Aðilar krefjast þess að réttaráhrifum úrskurðar kærunefndar útlendingamála verði frestað á meðan hann fer með mál sitt fyrir dómstóla, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Málsástæður aðila

Aðilar byggja beiðni sína um frestun réttaráhrifa á því að framkvæmd úrskurðar kærunefndar útlendingamála í máli þeirra geti valdið óafturkræfum skaða. Við mat á hagsmunum aðila skuli líta til almennra og sértækra aðstæðna þeirra. Aðilar vísa til þess að þau séu í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga og beri því að rannsaka mál þeirra með ítarlegum hætti og hvað sé barni þeirra fyrir bestu. Telji aðilar að stjórnvald hafi brotið gegn rannsóknarskyldu sinni sem kveðið sé á um í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Einnig vísi aðilar til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 20. desember 2019 í máli nr. E-6459/2019 sem gefi til kynna að þegar einstaklingur sé metinn í sérstaklega viðkvæmri stöðu þurfi að fara fram enn ítarlegra mat á aðstæðum hans en ella. Þá gagnrýni aðilar hversu sjaldan kærunefnd fallist á beiðnir um frestun réttaráhrifa. Telji aðilar að frekari gagnaöflun og meðferð íslenskra dómstóla verði að fara fram áður en framkvæmd ákvörðunar komi til, enda mikil hætta á óafturkræfum skaða. Í beiðninni lýsa aðilar þeirri afstöðu sinni að úrskurður kærunefndar sé ógildanlegur og að í dómsmálinu verði byggt á því að uppfyllt séu skilyrði til að taka mál þeirra til efnismeðferðar hér á landi. Þá telji aðilar að mikilvægt sé að þau fái að vera viðstödd réttarhöldin og gefa skýrslu í eigin persónu, enda myndi símaskýrsla ekki vera jafn áhrifamikil. Þá kveði aðilar að það muni reynast erfitt að halda sambandi við lögmann sinn hér á landi komi til endursendingar.

Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í íslenskum rétti gildir sú meginregla að málskot til dómstóla frestar ekki réttaráhrifum endanlegra ákvarðana stjórnvalda, sjá til hliðsjónar 2. málsl. 60. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Reglan er áréttuð í 1. málsl. 6. mgr. 104. laga um útlendinga nr. 80/2016 en þar segir að málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun á stjórnsýslustigi um að útlendingur skuli yfirgefa landið fresti ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess, sbr. 2. málsl. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Frestun á réttaráhrifum skal bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að málið hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

Niðurstaða um hvort ástæða sé til að fresta réttaráhrifum úrskurðar kærunefndar ræðst af heildstæðu mati á hagsmunum aðila af því að réttaráhrifum úrskurðarins verði frestað og sjónarmiðum sem mæla gegn slíkri frestun. Meðal þeirra sjónarmiða sem líta ber til við þetta mat er hvort framkvæmd úrskurðarins valdi aðila óafturkræfum skaða, hvort framkvæmdin feli í sér verulegar hindranir á aðgengi aðila að dómstólum, hvort einhugur hafi verið um niðurstöðu úrskurðar nefndarinnar, hvort aðstæður sem þýðingu geta haft fyrir málið hafi breyst verulega eða hvort þörf sé á sérstakri varúð, m.a. með tilliti til hagsmuna barna. Þá lítur kærunefnd til þess hlutverks stjórnvalda að tryggja skilvirka framkvæmd laga um útlendinga. Kærunefnd hefur jafnframt litið til þess að heimild til frestunar réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar er undantekning frá meginreglu sem aðeins sé ætlað að ná til tilvika þar sem ástæða er til þess að fresta framkvæmd. Réttaráhrifum úrskurðar verði því ekki frestað af þeirri ástæðu einni að úrskurðurinn verði borinn undir dómstóla heldur þurfi að liggja fyrir tilteknar ástæður í fyrirliggjandi máli svo kærunefnd fallist á slíka beiðni.

Í beiðni um frestun réttaráhrifa kemur fram sú afstaða aðila að framkvæmd úrskurðar kærunefndar útlendingamála um að hann skuli yfirgefa landið takmarki möguleika hans til að fá endurskoðun úrskurðarins hjá dómstólum. Af því tilefni tekur kærunefnd fram að vera aðila á landinu er ekki forsenda fyrir því að mál sem hann höfðar til ógildingar á úrskurði kærunefndar sé tækt til meðferðar hjá dómstólum. Þá hefur aðili möguleika á að gefa skýrslu fyrir dómi þótt hann sé ekki hér á landi, sbr. 2. mgr. 49. gr. og 3. og 4. mgr. 51. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Ennfremur benda gögn málsins ekki til annars en að aðili geti nýtt rétt sinn til komu og tímabundinnar dvalar hér á landi á grundvelli 20. gr. laga um útlendinga til að vera við réttarhöld sín og gefa skýrslu fyrir dómi. Í því ljósi og með vísan til aðstæðna aðila að öðru leyti er það niðurstaða kærunefndar að ekki sé ástæða til að fresta réttaráhrifum úrskurðar í máli aðila á þeim grundvelli að framkvæmd úrskurðarins valdi tjóni á málatilbúnaði hans fyrir dómstólum.

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála, sem er sjálfstæð stjórnsýslunefnd, hefur verið tekin afstaða til málsástæðna aðila varðandi umsókn hans um alþjóðlega vernd hér á landi og komist að niðurstöðu um að synja umsókn hans um efnismeðferð. Kærunefnd ítrekar það sem kemur fram í úrskurði í máli aðila að athugun nefndarinnar hefur ekki leitt í ljós gögn sem gefa tilefni til að ætla að aðstæður í viðtökuríki séu þess eðlis að endursending aðila þangað sé í andstöðu við 1. og 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu eða að aðilum séu ekki tryggð raunhæf leið til að ná fram rétti sínum þar í landi, sbr. 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Í úrskurði kærunefndar í máli aðila var gerð grein fyrir mati nefndarinnar á hagsmunum barns aðila. Í úrskurðinum er m.a. vísað til 32. gr. a reglugerðar um útlendinga þar sem fram koma sérviðmið er varða börn og ungmenni. Var það niðurstaða kærunefndar að flutningur aðila til viðtökuríkis samrýmdist hagsmunum barnsins þegar litið væri m.a. til öryggis þess, velferðar og félagslegs þroska, sbr. 2. mgr. 10. gr. og 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga.

Kærunefnd tekur fram að tiltölulega skammur tími er liðinn síðan nefndin úrskurðaði í máli aðila. Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að aðstæður aðila eða aðstæður í ríkinu, sem vísa á aðila til, hafi breyst verulega síðan nefndin úrskurðaði í málinu á þann hátt að nefndin telji að það gæti haft áhrif á efnislega niðurstöðu málsins, en ljóst er að hagsmunir ófædds barns aðila voru þáttur í mati nefndarinnar. Aðilar vísa til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 20. desember 2019 í máli nr. E-6459/2019. Það mál fjallaði um einstæða móður sem var þolandi mansals og ungt barn hennar, en stefnandi hafði óskað eftir að beðið yrði eftir skýrslu frá sálfræðitíma sem átti að fara fram um þremur vikum frá dagsetningu þeirrar beiðni. Kærunefndin taldi ekki ástæðu til að bíða og tók ákvörðun í málinu áður en sálfræðitíminn fór fram. Aðilar í þessu máli eru foreldrar sem nú hafa eignast barn. Af málsgögnum þess máls sem hér er til afgreiðslu verður heldur ekki ráðið að nefndin hafi ekki beðið eftir gögnum sem þýðingu gætu haft fyrir niðurstöðu málsins. Ljóst er því að tilvísaður dómur hefur ekki þýðingu fyrir þetta mál. Eftir skoðun á beiðni aðila um frestun réttaráhrifa telur kærunefnd að aðrar athugasemdir sem þar koma fram varðandi málsmeðferð og efnislegt mat kærunefndar í málinu séu ekki þess eðlis að ástæða sé til að ætla að niðurstaða kærunefndar í málinu sé haldin annmörkum sem leitt gæti til ógildingar úrskurðarins.

Þrátt fyrir framangreint telur kærunefnd að líta verði til þess að efnisleg niðurstaða málsins varðandi synjun um að mál þeirra yrði tekið til efnismeðferðar réðist af meirihluta nefndarmanna, sbr. lokamálslið 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga. Af þessum sökum telur kærunefnd að ástæða sé til, eins og hér stendur sérstaklega á og með vísan til hagsmuna barns aðila, að fresta réttaráhrifum úrskurðar kærunefndar í málum aðila, dags. 5. desember 2019, meðan aðilar reka mál sitt fyrir dómstólum, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga, með þeim skilyrðum sem koma fram í ákvæðinu og áréttuð eru í úrskurðarorði.

Aðilum er leiðbeint um að uppfylli þau ekki nefnd skilyrði kann úrskurður kærunefndar í málum þeirra, dags. 5. desember 2019, að verða framkvæmdarhæfur.

 

ÚRSKURÐARORÐ

 

Réttaráhrifum úrskurðar kærunefndar útlendingamála í málum aðila, dags. 5. desember 2019, er frestað á meðan aðilar reka mál sitt fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegum ákvörðunum í málum sínum á stjórnsýslustigi. Frestun réttaráhrifa úrskurðarins er bundin því skilyrði að aðilar beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar þessarar og óski eftir flýtimeðferð. Sé beiðnum um flýtimeðferð synjað skal þá höfða mál innan sjö daga frá þeirri synjun.

 

The legal effects of the decision of the appeals board in the cases of the applicants, dated 5th december 2019, are suspended during the time that the applicants’ legal proceedings for the annulment of the final administrative decisions in the applicants’ cases are under way. The suspension of legal effects is subject to the condition that the applicants bring their case to court within five days of the date of the notification of this decision and request accelerated procedures. If the requests for accelerated procedures are denied the applicants shall initiate legal proceedings before a court within seven days of that denial.

 

 

 

Fyrir hönd kærunefndar útlendingamála,

 

Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta