Hoppa yfir valmynd

Nr. 122/2019 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 25. mars 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 122/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19010041

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 29. janúar 2019 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...](hér eftir nefnd kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 16. janúar 2019, um að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli d-liðar 1. mgr. 55. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 27. júní 2017. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 31. janúar 2018, var kæranda synjað um alþjóðlega vernd og með úrskurði kærunefndar útlendingamála þann 12. apríl 2018, var sú ákvörðun staðfest. Kæranda var birtur úrskurðurinn þann 30. apríl 2018 og var henni gert að yfirgefa landið innan 7 daga frá þeim degi. Þá kom fram í úrskurðinum að yfirgæfi kærandi ekki landið innan 7 daga þá kynni henni að verða brottvísað með endurkomubanni. Þann 24. október 2018 tilkynnti Útlendingastofnun kæranda að til stæði að brottvísa henni þar sem hún hefði ekki yfirgefið landið innan veitts frests. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 24. október 2018, var kæranda brottvísað og gert endurkomubann til Íslands í tvö ár. Kærandi var flutt til heimaríkis þann 30. nóvember 2018. Kærunefnd staðfesti ákvörðun Útlendingastofnunar með úrskurði sínum þann 23. janúar 2019. Maki kæranda lagði inn umsókn um dvalarleyfi fyrir kæranda á grundvelli hjúskapar við íslenskan ríkisborgara þann 18. desember 2018. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 16. janúar 2019, var umsókn kæranda synjað. Umboðsmanni kæranda var tilkynnt um ákvörðunina þann 21. janúar 2019 og þann 29. janúar sl. kærði kærandi ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til þess að skilyrði dvalarleyfis vegna fjölskyldusameiningar væru rakin í 69. gr. laga um útlendinga. Í 1. mgr. ákvæðisins kæmi fram að nánasti aðstandandi íslensks ríkisborgara sem væri með fasta búsetu hér á landi gæti með umsókn fengið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar að fullnægðum skilyrðum 55. gr. og VIII. kafla. Í 55. gr. laganna væri fjallað um grunnskilyrði dvalarleyfis. Samkvæmt d-lið 1. mgr. 55. gr. væri heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi í samræmi við ákvæði VI-IX. kafla samkvæmt umsókn ef ekki lægju fyrir atvik sem valdið gætu því að honum væri meinuð landganga hér á landi eða dvöl samkvæmt öðrum ákvæðum laganna.

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála, dags. 12. apríl 2018, hefði ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja kæranda um alþjóðlega vernd verið staðfest. Í úrskurðinum hefði kæranda jafnframt verið gert að yfirgefa landið innan sjö daga frá birtingu. Ljóst væri að kærandi hefði ekki yfirgefið landið og komið sér hjá flutningi þar sem ekki hefði verið unnt að finna hana. Hafi kæranda því verið birt tilkynning um brottvísun og tveggja ára endurkomubann þann 24. október 2018 og hafi hún verið flutt til heimaríkis þann 30. nóvember 2018. Með hliðsjón af ákvæði 4. mgr. 101. gr. laga um útlendinga hefði endurkomubannið því hafist 30. nóvember 2018 með gildistíma til 30. nóvember 2020. Þar sem fyrir lægi að kærandi væri með endurkomubann í gildi væri ljóst að hún uppfyllti ekki grunnskilyrði dvalarleyfis, sbr. d-lið 1. mgr. 55. gr. laga um útlendinga. Synjaði Útlendingastofnun því umsókn kæranda. Jafnframt var henni leiðbeint um að skv. 3. mgr. 101. gr. laga um útlendinga væri unnt að leggja inn umsókn til Útlendingastofnunar um að fella úr gildi endurkomubann hefðu aðstæður breyst frá því að ákvörðun um brottvísun var tekin.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi hafi talið að sér væri heimilt að dvelja áfram á Íslandi á meðan hún væri í atvinnuleit jafnvel þótt henni hafi verið veittur sjö daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljug með úrskurði kærunefndar útlendingamála, dags. 12. apríl 2018. Byggir kærandi aðallega á því að tungumálaörðugleikar hafi gert það að verkum að henni hafi ekki verið ljós réttarstaða sín hér á landi. Eftir að henni hafi orðið ljós réttarstaða sín hafi hún sett sig í samband við stoðdeild ríkislögreglustjóra og tilkynnt þeim að hún vildi fara í fullri samvinnu og sjálfviljug til heimaríkis. Hafi hún farið í samvinnu við stoðdeildina til heimaríkis þann 30. nóvember 2018.

Kærandi byggir á því að þar sem hún hafi gengið í hjúskap með íslenskum manni hafi forsendur að baki ákvörðunar um að leggja á hana tveggja ára endurkomubann breyst verulega og brjóti það gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar að heimila henni ekki að snúa aftur til landsins og fá dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar, svo þau hjónin geti búið saman hér á landi.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 69. gr. laga um útlendinga er kveðið á um skilyrði dvalarleyfis vegna fjölskyldusameiningar. Samkvæmt 1. mgr. 69. gr. laganna getur nánasti aðstandandi íslensks eða annars norræns ríkisborgara sem er með fasta búsetu hér á landi eða útlendings sem dvelst hér á landi á grundvelli dvalarleyfis skv. 61., 63., 70., 73., 74. og 78. gr. eða ótímabundins dvalarleyfis skv. 58. gr. laganna með umsókn fengið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar að fullnægðum skilyrðum 55. gr. og VIII. kafla laganna.

Meðal grunnskilyrða dvalarleyfis er að ekki liggi fyrir atvik sem valdið geta því að útlendingi verði meinuð landganga hér á landi eða dvöl samkvæmt ákvæðum laganna, sbr. d-lið 1. mgr. 55. gr. laga um útlendinga. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að gildandi lögum um útlendinga segir m.a. að þau atvik sem geti leitt til synjunar séu ákvæðin um frávísun og brottvísun. Í 4. mgr. 101. gr. laganna segir að endurkomubann hefjist þann dag sem útlendingur er færður úr landi eða útlendingur fer af sjálfsdáðum af landi brott.

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 31/2019 frá 23. janúar 2019 var kæranda brottvísað og ákveðið endurkomubann í tvö ár. Í úrskurðinum var tekið fram að þar sem kærandi hefði yfirgefið landið þann 30. nóvember 2018 yrði litið svo á að tveggja ára endurkomubann hefði hafist á þeim degi, sbr. 4. mgr. 101. gr. laga um útlendinga. Þannig er ljóst að tveggja ára endurkomubann kæranda hófst þann 30. nóvember 2018 og gildir til 30. nóvember 2020. Liggja því fyrir atvik sem valdið geta því að kæranda verði meinuð landganga hér á landi, sbr. d-lið 1. mgr. 55. gr. laga um útlendinga. Kærandi uppfyllir því ekki grunnskilyrði fyrir útgáfu dvalarleyfis, sbr. 55. gr. laganna. Verður ákvörðun Útlendingastofnunar því staðfest.

Vegna athugasemdar kæranda um hjúskap sinn við íslenskan ríkisborgara tekur kærunefnd fram að tekin var afstaða til þeirrar málsástæðu kæranda í úrskurði kærunefndar nr. 31/2019. Í úrskurðinum kemur m.a. fram að þrátt fyrir að kærandi hafi gengið í hjúskap með íslenskum ríkisborgara væri það mat nefndarinnar að brottvísun fæli ekki í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart henni eða nánustu aðstandendum hennar í skilningi 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga, með hliðsjón af því að kærandi hefði gengið í hjúskap í heimaríki eftir að Útlendingastofnun tók ákvörðun um brottvísun hennar og hefði eiginmanni hennar mátt vera það ljóst að hún hefði ekki heimild til dvalar hér á landi og hefði verið vísað brott. Kærunefnd áréttar jafnframt leiðbeiningar til kæranda sem komu fram í áðurnefndum úrskurði nefndarinnar nr. 31/2019 þess efnis að samkvæmt 2. mgr. 96. gr. laga um útlendinga er heimilt að fella endurkomubann úr gildi ef nýjar ástæður mæla með því og rökstutt er að orðið hafi verulegar breytingar á þeim aðstæðum sem réttlættu ákvörðun um endurkomubann.

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Anna Tryggvadóttir

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                             Anna Valbjörg Ólafsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta