Hoppa yfir valmynd

Nr. 651/2021 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 9. desember 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 651/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21100015

 

Kæra [...]

á ákvörðun Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 5. október 2021 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fædd [...] og vera ríkisborgari Íraks (hér eftir nefnd kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 16. september 2021, um að synja henni um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og henni verði veitt staða flóttamanns hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og henni verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Önnur varakrafa kæranda er sú að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og henni verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.        Málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi hinn 17. júní 2021. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. hinn 5. júlí 2021 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 16. september 2021, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála hinn 5. október 2021. Kærunefnd barst greinargerð kæranda hinn 22. október 2021. Þá bárust kærunefnd frekari upplýsingar frá kæranda hinn 19. nóvember 2021.

III.       Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hún sé í hættu í heimaríki sínu þar sem hún eigi á hættu að verða fórnarlamb heiðursglæps.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi væri ekki flóttamaður og henni skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi samkvæmt ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hún hafi greint frá því í viðtölum hjá Útlendingastofnun að hún sé einstæð og barnlaus. Systir kæranda og dætur hennar búi hér á landi en þeim hafi verið veitt alþjóðleg vernd hinn [...]. Kærandi hafi greint frá því að hafa fæðst og alist upp í Najaf í miðhluta Írak en að hún hafi fyrst flúið til Erbil áður en hún hafi yfirgefið landið. Aðspurð um ástæður flótta hafi kærandi greint frá því að bræður hennar, frændur og ættbálkur hafi viljað neyða hana 14 til 15 ára gamla í hjónaband með mun eldri frænda sínum. Þegar hún hafi neitað að láta undan þrýstingi þeirra hafi þeir lokað hana inni, beitt hana ofbeldi í heila viku og bannað henni að fara í skóla. Kærandi hafi endað á spítala vegna ofbeldisins sem hún hafi verið beitt og faðir hennar hafi þá aðstoðað hana við að flýja til Erbil. Í Erbil hafi kærandi haldið áfram skólagöngu sinni með fjárhagslegum stuðningi föður síns. Þá hafi kærandi búið hjá vini föður síns á meðan faðir hennar hafi verið á lífi en við andlát hans hafi hún endað á götunni í Erbil. Kærandi hafi fundið atvinnu og húsnæði af og til en annars sofið í verslunarmiðstöðinni. Þegar kærandi hafi séð fyrrum nágranna sinn frá Najaf hafi hún fyllst skelfingu og flúið Írak með aðstoð systur sinnar, [...]. Kærandi hafi í viðtalinu jafnframt greint frá því að foreldrar hennar hafi verið andvíg fyrirhuguðu hjónabandi hennar en þau hafi mátt sín lítils gegn bræðrum hennar, frændum og ættbálknum. Þá hafi enga aðstoð verið að fá frá írökskum stjórnvöldum. Kærandi hafi sagt að enginn væri eftir í Írak til að styðja hana en hún hafi kallað skömm yfir fjölskylduna með því að hafna hjónabandinu.

Í greinargerð kæranda er fjallað almennt um öryggisástand og stöðu mannréttindamála í Írak, m.a. um handahófskennd manndráp af hálfu öryggissveita ríkisins, þvinguð mannshvörf, pyndingar, hættulegar aðstæður í fangelsum og víðtæka opinbera spillingu. Þá er jafnframt fjallað um erfiða stöðu kvenna og stúlkna í Írak. Kærandi vísar m.a. til alþjóðlegra skýrslna máli sínu til stuðnings.

Í greinargerð eru gerðar ýmsar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar. Í fyrsta lagi telur kærandi að Útlendingastofnun hafi ekki lagt mat á og tekið afstöðu til trúverðugleika frásagnar hennar. Kærandi telur að þegar uppi sé vafi í máli, eins og hún skilji ákvörðun Útlendingastofnunar í hennar máli, þá beri að túlka hann umsækjanda í vil. Í öðru lagi gerir kærandi athugasemd við þá kröfu stofnunarinnar að hún leggi fram gögn en í hennar tilviki þurfi að taka tillit til eðlis þeirra ofsókna sem hún hafi orðið fyrir. Þá fái frásögn hennar fullkominn stuðning í frásögn systur hennar sem hafi verið metin trúverðug og verið veitt alþjóðleg vernd hér á landi. Í þriðja lagi telur kærandi að Útlendingastofnun hafi ekki metið aðild ættbálks hennar að ofsóknunum rétt.

Aðalkrafa kæranda um alþjóðlega vernd á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er byggð á því að hún sé í hættu á ofsóknum í heimaríki vegna aðildar að sérstökum þjóðfélagshópi, sbr. d-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Kærandi geti, vegna framangreindrar ástæðu, ekki leitað verndar hjá stjórnvöldum í heimaríki þar sem þau sé ófær um að veita konum og stúlkum landsins vernd gegn ofsóknum, auk þess sem þau séu einnig sjálf sek um að vera valdur að ofsóknum gegn þeim. Kærandi telur að samkvæmt heimildum sé ljóst að konur í Írak standi frammi fyrir ýmiss konar ofsóknum eins og þeim sem hún hafi lýst, þvinguðum hjónaböndum og heiðursglæpum.

Kærandi telur að með endursendingu hennar til heimaríkis yrði brotið gegn meginreglunni um bann við endursendingu, non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki telur kærandi að slík ákvörðun muni brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna.

Varakrafa kæranda er byggð á því að hún sé flóttamaður á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og eigi því rétt á viðbótarvernd þar sem hún eigi á hættu ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð í Írak vegna kyns hennar og stöðu. Þá eigi hún á hættu að verða fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar í landi þar sem ekki sé greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Kærandi telur að flutningur innanlands í Írak sé hvorki raunhæfur né sanngjarn kostur.

Önnur varakrafa kæranda er sú að henni verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærandi telur að hún hafi ríka þörf fyrir vernd vegna erfiðra félagslegra aðstæðna sem hún muni búa við í heimaríki. Kærandi hafi ekki verið tilbúin til að sætta sig við það hlutverk sem bræður hennar, frændur og ættbálkur hafi valið henni. Kærandi hafi hafnað ráðgerðu hjónabandi og fyrir vikið orðið fyrir  ofbeldi og hótunum. Í heimaríki bíði kæranda útskúfun og frekara ofbeldi. Þá séu samskipti kæranda við fjölskyldu hennar í heimaríki afar takmörkuð og geti giftar systur hennar og öldruð móður ekki veitt henni nokkurn stuðning, enda séu þær háðar þeim mönnum sem hafi viljað gifta kæranda og ofsótt hana.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi ekki lagt fram neitt sem væri til þess fallið að sanna á henni deili og væri því óvissa um það hver hún væri. Útlendingastofnun taldi á hinn bóginn enga ástæðu til að draga í efa að kærandi væri frá Írak og væri írakskur ríkisborgari.

Í hælisbeiðni kæranda kemur fram að hún hafi ferðast frá heimaríki sínu til Tyrklands á íröksku vegabréfi. Vegabréfi kæranda hafi verið stolið í Tyrklandi en hún hafi verið með mynd af því í símanum sínum. Við meðferð máls kæranda hjá kærunefnd var með greinargerð hennar lögð fram ljósmynd af umræddu vegabréfi. Fram kemur á vegabréfinu að það sé útgefið í Najaf í Írak hinn 4. júlí 2019. Þar sem um ljósmynd er að ræða er ekki hægt að sannreyna lögmæti vegabréfsins. Þrátt fyrir það er það mat kærunefndar að ekki séu forsendur til annars en að taka undir mat Útlendingastofnunar um ríkisfang kæranda og verður því lagt til grundvallar við úrlausn málsins að hún sé írakskur ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í  m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • 2020 Country Reports on Human Rights Practices: Iraq (U.S. Department of State, 30. mars 2021);
  • Anställning och avslutande av tjänst i peshmergan [Irak - KRI] (Migrationsverket, 30. júní 2017);
  • Concluding observations on the seventh periodic report of Iraq (UN Committee on the Elimination of Discrimination against Women, 12. nóvember 2019);
  • Country Fact Sheet. Iraq. (IOM, UN Migration, 2019);
  • Country Guidance: Iraq; Common analysis and guidance note (European Asylum Support Office, janúar 2021);
  • Country of Origin Information Report - Iraq - Actors of Protection (European Asylum Support Office, nóvember 2018);
  • Country of Origin Information Report - Iraq: Internal Mobility (European Asylum Support Office, febrúar 2019);
  • Country of Origin Information Report – Iraq: Key socio-economic indicators for Baghdad, Basra and Erbil (European Asylum Support Office, september 2020);
  • Country of Origin Information Report – Iraq - Security situation (EASO, 1. mars 2019);
  • Country of Origin Information Report – Iraq - Security Situation (EASO, október 2020);
  • Country Policy and Information Note – Iraq: Actors of protection (UK Home Office, desember 2020);
  • Country Policy and Information Note – Iraq: ‘Honour’ crimes (UK Home Office, mars 2021);
  • Country Policy and Information Note – Iraq: Kurdish “honour” crimes (UK Home Office, ágúst 2017);
  • Country Policy and Information Note – Iraq: Internal relocation, civil documentation and returns (UK Home Office, 19. febrúar 2019);
  • Country Policy and Information Note – Iraq: Security and humanitarian situation (UK Home Office, maí 2020);
  • DFAT Country Information Report Iraq (Australian Government, Department of Foreign Affairs and Trade, 17. ágúst 2020);
  • Freedom in the World 2021 - Iraq (Freedom House, 3. mars 2021);
  • International Protection Considerations with Regard to People Fleeing the Republic of Iraq (UNCHR, maí 2019);
  • Irak: Basisinfo (Landinfo, 28. september 2018);
  • Iraq: Honour-based violence in the Kurdistan region; state protection and support services available to victims (Immigration and Refugee Board of Canada, 15. febrúar 2016);
  • Iraq - Targeting of Individuals (EASO, 7. mars 2019);
  • Iraq – Travel documents and other identity documents (Landinfo, 23. janúar 2014);
  • Kurdistan Region of Iraq (KRI): Women and Men in Honour-Related Conflicts (Danish Immigration Service, 9. nóvember 2018);
  • Rättsligt ställningstagande angående situationen i Irak (Migrationsverket, 19. janúar 2018);
  • Sexual and Gender-Based Violence in Iraq 2003-2018 A Mapping Report (Iraqi Al-Amal Association, Impunity Watch og PAX, maí 2018);
  • UNHCR position on returns to Iraq (UNHCR, 14. nóvember 2016);
  • The National Strategy to Combat Violence against Women and Girls 2018-2030 (United Nations reproductive health agency (UNFPA), 2020);
  • The World Factbook – Iraq (Central Intelligence Agency, síðast uppfært 22. nóvember 2021);
  • World Report 2021 – Iraq (Human Rights Watch, 13. janúar 2021);
  • Upplýsingasíða Johns Hopkins háskólans (https://coronavirus.jhu.edu/map.html, sótt 9. desember 2021).

Írak er lýðræðisríki með tæplega 40 milljónir íbúa. Árið 1945 gerðist Írak aðili að Sameinuðu þjóðunum og fullgilti ríkið bæði alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1971. Ríkið fullgilti samning um afnám allrar mismununar gagnvart konum árið 1986, alþjóðasamning um vernd allra gegn mannshvörfum árið 2010 og samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 2011.

Í skýrslu norsku landaupplýsingastofnunarinnar Landinfo frá janúar 2018 kemur fram að frá árinu 1968 til 2003 hafi Írak verið alræðisríki sem hafi lotið stjórn Ba‘ath-flokksins. Stjórn flokksins hafi verið steypt af stóli í kjölfar innrásar bandaríska hersins og bandamanna þeirra í Írak árið 2003. Frá innrásinni hafi ástandið á mörgum svæðum í Írak verið óstöðugt. Í skýrslu EASO frá nóvember 2018 kemur fram að samtök sem kenna sig við íslamskt ríki (Daesh) hafi hafið uppreisn árið 2014 og náð undir sig stórum landsvæðum. Frá þeim tíma hafi íröksk stjórnvöld, með aðstoð alþjóðasamfélagsins, náð miklum árangri í að ná aftur fullri stjórn yfir ríkinu þótt enn séu lítil svæði í vesturhluta landsins sem uppreisnarmenn hafi á valdi sínu. Þá kemur fram í skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna frá 2019 að dæmi séu um að hersveitir á vegum yfirvalda hafi framið mannréttindabrot gegn almennum borgurum, þ. á m. ólögmætar aftökur og pyndingar í varðhaldi. Alvarleg mannréttindabrot hafi haft mikil áhrif á almenna borgara á þeim svæðum í Írak sem átökin hafi náð til. Af þeim sökum hafi Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna lagst gegn endursendingum Íraka frá þeim svæðum þar sem átök geisi og þar sem ástandið sé óöruggt eftir að hafa verið undir stjórn Daesh. Þá hafi það verið mat stofnunarinnar að vegna almenns ástands í Írak, þ.m.t. vegna fjölda þeirra sem hafi þurft að flýja innanlands, væri í miklum meirihluta mála ekki grundvöllur til að líta svo á að Írakar frá þessum svæðum gætu notið verndar í öðrum hlutum landsins.

Af skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytis frá árinu 2021 má ráða að spilling sé mikið vandamál í Írak, þar á meðal í stjórnmálum, löggæslu- og réttarkerfinu. Á undanförnum árum hafi talsvert verið unnið að því að uppræta spillingu af hálfu embættismanna í landinu og eitthvað hafi miðað áfram í þeim málum. Í upplýsingaskýrslu EEAS frá árinu 2014 kemur fram að á tímabilinu 2005 til 2013 hafi íröksk stjórnvöld unnið í samstarfi við Evrópusambandið að umbótum á stofnunum ríkisins, svo sem lögreglu, dómstólum og fangelsum landsins. Áætlunin nefnist The European Union Integrated Rule of Law Mission for Iraq (EUJUST-LEX-Iraq) og hafi m.a. 7000 opinberir starfsmenn undirgengist þjálfun í því skyni að koma á skilvirkri laga- og mannréttindavernd.

Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá árinu 2021 og skýrslu Mannréttindavaktarinnar (e. Human Rights Watch) frá sama ári kemur fram að þrátt fyrir að stjórnarskrá Íraks banni allt ofbeldi og misnotkun innan fjölskyldunnar þá tilgreini refsilög landsins heimilisofbeldi ekki sérstaklega og lögin heimili eiginmönnum að aga eiginkonur sínar og börn innan ákveðinna marka sem séu nánar tilgreind í lögum og venjum. Innanríkisráðuneyti Íraks haldi úti 16 fjölskylduverndareiningum innan lögreglunnar, sem að staðsettar séu í sérhúsnæði við lögreglustöðvar víðsvegar um landið. Þessum einingum sé ætlað að leysa úr deilum innan heimilisins og vera öruggur staður fyrir þolendur kynferðis- og kynbundins ofbeldis. Einingarnar hafi þó verið gagnrýndar fyrir að leggja áherslu á að slík mál séu leyst með sátt innan fjölskyldunnar. Þá hafi frjáls félagasamtök fullyrt að þolendur veigri sér við að leita aðstoðar innan þessara eininga af ótta við að lögreglan greini fjölskyldum þeirra frá. Enn fremur hafi sumir ættbálkar bannað sínum meðlimum að leita til þessara eininga eftir aðstoð þar sem að heimilisofbeldi sé einkamál fjölskyldunnar. Í skýrslu EASO um Írak frá árinu 2021 kemur fram að fá neyðarskýli séu í landinu sem konur geti leitað til neyðist þær til að yfirgefa heimili sitt vegna ofbeldis. Stjórnvöld hafi m.a. gripið til þess úrræðis að hýsa konur í fangelsum vegna skorts á skýlum. Flest neyðarskýli sé að finna í stærri borgum og séu rekin af sjálfboðaliðum. Konur sem dvelji þar geti verið í viðkvæmri stöðu þar sem að þær hafi ekki stuðning karlkyns ættingja. Þá lendi konur í erfiðleikum við að leita réttar síns vegna neikvæðra viðhorfa lögreglu- og opinberra starfsmanna gagnvart konum og skorti á þekkingu um réttindi kvenna.

Í framangreindum skýrslum, þ. á m. skýrslu finnsku útlendingastofnunar frá árinu 2018 og skýrslu EASO frá 2019, er fjallað um erfiða stöðu kvenna í Írak. Fram kemur að efnahagsþvinganir og langvarandi átök hafi leitt til þess að lífsgæði þeirra hafi farið versnandi. Karllæg gildi séu ríkjandi í Írak og skortur sé á umræðu um réttindi kvenna og getu þeirra til að taka frekar þátt í samfélaginu. Konur séu jaðarsettar á mörgum sviðum samfélagsins og hafi mætt marvígslegum hindrunum, þ. á m. hvað varðar aðgengi að vinnumarkaði og heilbrigðiskerfi. Þá hafi margvísleg mannréttindabrot beinst að konum, þ. á m. kynferðis- og heimilisofbeldi, kynfæralimlestingar, heiðursmorð og þvinguð hjónabönd. Konur hafi veigrað sér við að leita aðstoðar lögregluyfirvalda vegna þessa, m.a. vegna viðmóts yfirvalda í garð kvenna, og séu málin því oft leyst innan viðkomandi fjölskyldu eða ættbálks. Fram kemur að yfirvöld í Írak hafi gerst aðili að alþjóðlegum samningum um réttindi kvenna, s.s. samningi Sameinuðu þjóðanna frá 1986 um brottnám allrar mismunar gegn konum (e. UN ‘s Convention on the Elimination of All Forms of Discrimination Against Women, CEDAW), en hafi gert fyrirvara við nokkur af helstu ákvæðum samningsins. Þá hafi yfirvöld komið á fót aðgerðaráætlun um stöðu kvenna í Írak (e. National Action Plan concerning women for 2014-2018, NAP), sem byggð er á ályktun Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna frá 2014. Fyrrnefnd aðgerðaráætlun hafi átt að ná fram því markmiði að auka þátttöku kvenna í stjórnmálum og bæta réttindi þeirra en skort hafi á útfærslu og framkvæmd áætlunarinnar.

Í fyrrnefndri skýrslu EASO frá 2019 og skýrslu Landinfo frá 2021 er fjallað um þvinguð hjónabönd ungra stúlkna í Írak. Lögum samkvæmt sé lágmarksaldur hjónaefna í Írak 15 ára með samþykki foreldra en 18 ára án samþykkis foreldra. Yfirvöld í Írak hafi reynt að framfylgja lögunum en hafi ekki tekist að koma í veg fyrir aukningu á þvinguðum hjónaböndum ungra stúlkna. Slík hjónabönd séu samfélagslega viðurkennd í Írak og sé áætlað að allt að 10% kvenna í Írak sem giftist séu 15 ára eða yngri. Þá sé áætlað að um það bil helmingur kvenna í Írak sem hafi náð 18 ára aldri séu giftar. Fram kemur að eina leið kvenna til þess að losna úr þvinguðu hjónabandi sé að fá samþykkta beiðni um skilnað. Það geti hins vegar haft í för með sér hefndaraðgerðir af hálfu fjölskyldu þeirra og tengdafjölskyldu. Þá sé konum í slíkri stöðu sem leggi fram kvörtun eða ákæru til lögreglu ekki tryggð vernd samkvæmt írökskum lögum. Í ljósi framangreinds sé skilnaðarúrræði ekki úrræði sem margar írakskar konur kjósi.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök samkvæmt b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðsambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2019). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi byggir umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hún eigi á hættu ofsóknir í heimaríki vegna aðildar að sérstökum þjóðfélagshópi, sbr. d-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að þegar hún hafi verið 14-15 ára hafi bræður hennar, frændur og ættbálkur viljað gifta hana frænda þeirra. Þegar kærandi hafi neitað hafi bræður hennar bannað henni að ganga í skóla, lokað hana inni í herbergi í viku og beitt hana ofbeldi sem hafi leitt til þess að hún hafi þurft að leita aðhlynningar á spítala. Kærandi hafi flúið heimaborg sína, Najaf, til Erbil með aðstoð föður síns. Kærandi telur að hún geti ekki leitað verndar hjá stjórnvöldum í heimaríki þar sem þau sé ófær um að veita konum og stúlkum landsins vernd gegn ofsóknum.

Kærandi hefur ekki borið fyrir sig að hafa sætt ofsóknum eða að hún óttist ofsóknir af hálfu yfirvalda í Írak sem hafa eða gætu náð því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um. Þá benda önnur gögn málsins ekki til þess að slíkar ofsóknir hafi átt sér stað eða að kærandi eigi þær á hættu.

Mat á trúverðugleika frásagnar kæranda er byggt á endurritum af viðtölum hennar hjá Útlendingastofnun, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki kæranda.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að stofnunin telji, m.a. með hliðsjón af landaupplýsingum, að henni sé ekki fært að leggja mat á né taka afstöðu til trúverðugleika staðhæfinga kæranda um það að hún hafi sætt heiðursofbeldi af hálfu bræðra sinna. Lagði Útlendingastofnun til grundvallar að kærandi kynni að hafa átt á hættu að verða fórnarlamb heiðursglæps. Útlendingastofnun taldi hins vegar að líta bæri m.a. til þess að samkvæmt frásögn kæranda hafi foreldrar hennar staðið gegn bræðrum hennar og fyrirhuguðum ráðahag, verndað hana eftir fremsta megni og aðstoðað hana við að flýja til Erbil. Þá hafi kærandi dvalið um árabil í Erbil og sótt þar menntun og vinnu án afskipta bræðra sinna áður en hún hafi loks yfirgefið heimaríki sitt í nóvember 2019 og haldið til Grikklands. Var það niðurstaða Útlendingastofnunar að með vísan til frásagnar kæranda, trúverðugleikamats og fyrirliggjandi gagna í málinu að hún hefði ekki sýnt með fullnægjandi hætti fram á það að hún hefði ástæðuríkan ótta við ofsóknir í heimaríki sínu í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Við meðferð máls kæranda hjá kærunefnd var Facebook reikningur hennar skoðuð. Mátti sjá á reikningnum að kærandi hefði skráð dvalarstaði sína annars vegar í Grikklandi þann 1. febrúar 2020 og hins vegar á Íslandi 29. júní 2021. Þá mátti sjá á reikningnum að kærandi væri í samskiptum við einstaklinga í heimaríki, þar á meðal í heimaborg hennar Najaf. Í tölvubréfi kærunefndar til talsmanns kæranda, dags. 16. nóvember 2021, var kæranda gefinn kostur á að koma á framfæri skýringar við því mati nefndarinnar að ekki yrði af Facebook reikningi kæranda séð að það væri ætlun hennar að fara leynt með það hvar hún væri búsett, eða hefði verið búsett, og að hún vildi koma í veg fyrir að bræður hennar og frændur fengju vitneskju um það. Í svari kæranda sem barst með tölvubréfi frá talsmanni hennar hinn 19. nóvember 2021 kemur fram að hún hafi opnað Facebook reikning í Erbil en þá undir nafninu [...]. Kærandi hafi aðeins notað reikninginn til að spila tölvuleiki á netinu, ekki fyrir neitt annað. Þegar kærandi hafi komið til Grikklands hafi hún ákveðið að hætta að fela sig, hún hafi ekki viljað vera hrædd lengur. Kærandi hafi skipt um nafn og nýtt sér möguleika Facebook til að tengjast fólki í Írak og víðar, bæði þeim sem hún hafi þekkt frá fyrri tíð sem og öðrum. Þá noti hún Facebook einnig til að hafa samband við systur sínar og spyrjast fyrir um móður þeirra.

Að mati kærunefndar eru skýringar kæranda varðandi Facebook reikning hennar óljósar. Þá er til þess að líta að á reikningnum kemur fram að kærandi hafi stofnað síðuna 1. mars 2017, þegar hún kveðst hafa verið búsett í Erbil, og verið virk á henni síðan þá. Í ljósi framangreinds telur kærunefnd að skýringar kæranda séu ekki til þess fallnar að styðja við frásögn kæranda um aðstæður hennar í heimaríki.

Líkt og að framan er rakið lagði kærandi fram ljósmynd af íröksku vegabréfi sínu. Á vegabréfinu kemur fram að það sé útgefið hinn 4. júlí 2019 í Al Najaf. Í framangreindu tölvubréfi til talsmanns kæranda óskaði kærunefnd eftir svörum frá kæranda um það hvort hún hefði snúið aftur til Najaf til að verða sér út um vegabréf. Jafnframt óskaði kærunefnd eftir upplýsingum frá kæranda um það hvaða nánasti karlkyns ættingi hennar hefði staðfest auðkenni hennar við umsókn vegabréfsins líkt og lögin í heimaríki hennar gera ráð fyrir. Í svari kæranda, sem barst með tölvubréfi hinn 19. nóvember 2021, kom fram að kærandi hafi tjáð talsmanni sínum að hún hafi leitað til kúrdísks einstaklings í Erbil að nafni [...]. Atvinnuveitandi kæranda hefði bent henni á hann. Kærandi hefði greitt [...] og gefið honum nauðsynlegar upplýsingar. [...] hefði tekið mynd af henni á skrifstofu sinni, útvegað henni þetta vegabréf og aðstoðað hana við að flýja Írak. Kaka hefði fullyrt að vegabréfið væri ófalsað en hún hefði ekki treyst því fullkomlega og kviðið því að ferðast með það á milli landa. Kærandi hefði ekki ferðast til Najaf og þá þekkti hún ekki til reglna írakskra laga um útgáfu vegabréfa. Að mati kærunefndar eru framangreindar skýringar ótrúverðugar og ekki til þess fallnar að leggja grunn að frásögn kæranda um tilurð vegabréfs hennar í heimaríki.

Þá vísaði kærunefnd í framangreindu tölvubréfi til þess að kærandi hefði í viðtali hjá Útlendingastofnun greint frá því að það væri hægt að skrá sig á vefsíðu spítalans sem hún hafi þurft að leita til eftir barsmíðar bræðra sinna og að á vefsíðunni væri hægt að nálgast upplýsingar um nefbrot og stungusár sem hún hafi hlotið. Spurði kærunefnd kæranda að því hvort hún gæti nálgast umrædd gögn og lagt þau fram. Í svari kæranda hinn 19. nóvember 2021 kom fram að hún ætlaði að reyna að skrá sig inn og fá þessi gögn en henni hefði ekki tekist það enn. Engin læknisfræðileg gögn hafa borist kærunefnd.

Að mati kærunefndar er ekki ástæða til að draga í efa frásögn kæranda þess efnis að bræður hennar hafi viljað að hún giftist frænda þeirra þegar hún hafi verið 14 til 15 ára, m.a. þar sem framangreindar heimildir styðja að slíkt eigi sér stað í heimaríki kæranda. Hins vegar ber að líta til þess að samkvæmt frásögn kæranda hafi hún getað lifað og starfað í Erbil óáreitt í tæp sex ár. Þá hefur kærandi ekki farið leynt með dvalarstaði sína líkt og að framan er rakið. Auk þess hefur ekkert komið fram í málinu sem bendir til þess að bræður kæranda hafi haft í hótunum gegn kæranda eða leitað hana uppi eftir að hún fór til Erbil. Með hliðsjón af framangreindu er það mat kærunefndar að málatilbúnaður kæranda þess efnis að hún eigi á hættu heiðursofbeldi í heimaríki sé heildstætt metið ótrúverðugur og verður ekki lagður til grundvallar við úrlausn málsins. Samkvæmt framangreindu verður því ekki lagt til grundvallar við úrlausn málsins að kærandi eigi á hættu heiðursofbeldi í heimaríki af hálfu bræðra sinna, frænda eða ættbálks. Þá er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi ástæðu til að óttast ofsóknir í heimaríki hennar af öðrum ástæðum er greinir í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Hvað varðar vísun kæranda í greinargerð hennar til ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli systur hennar sem hún telur að líta skuli til við úrlausn málsins tekur kærunefnd fram að forsendur og rökstuðningur ákvarðana Útlendingastofnunar eru ekki bindandi fyrir kærunefnd.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hún hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 4. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. jafnframt 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Eins og rakið er að framan hefur Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna lagst gegn endursendingum einstaklinga til Íraks sem koma frá þeim svæðum þar sem átök geisa; þar sem ástandið er brothætt eða óöruggt eftir að hafa verið undir stjórn Daesh samtakanna, eða þeim svæðum þar sem Daesh er enn við völd. Þá telur Flóttamannstofnun óráðlegt að senda einstaklinga frá slíkum svæðum til annarra svæða innan Íraks. Samkvæmt þeim gögnum og skýrslum sem kærunefnd hefur tekið til skoðunar er ljóst að heimaborg kæranda, Najaf, er á öruggu svæði í Írak, og er ekki og hefur ekki verið undir stjórn Daesh samtakanna. Verður því ekki talið að viðvörun Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna eigi við um einstaklinga sem séu í sambærilegri stöðu og kærandi.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hennar þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga má líta til mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga er fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli. Þá segir í athugasemdunum að með erfiðum almennum aðstæðum að öðru leyti sé einnig vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum.

Kærandi byggir kröfu sína um dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga á því að hún hafi ríka þörf fyrir vernd vegna erfiðra félagslegra aðstæðna sem hún muni búa við í heimaríki. Kærandi hafi ekki verið tilbúin til að sætta sig við það hlutverk sem bræður hennar, frændur og ættbálkur hafi valið henni. Í heimaríki bíði kæranda útskúfun og frekara ofbeldi. Eins og að framan greinir var, að loknu trúverðugleikamati, ekki lagt til grundvallar að kærandi eigi í hættu á heiðursofbeldi í heimaríki. Í ljósi þess telur kærunefnd að ekki sé tilefni til frekari umfjöllunar um framangreinda málsástæðu kæranda.

Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hún teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Kærunefnd hefur jafnframt litið til þeirra tímabundnu erfiðleika sem heimaríki kæranda kann að þurfa að glíma við vegna Covid-19 faraldursins. Kærunefnd telur þá erfiðleika ekki vera þess eðlis að þeir leiði til þess, einir sér eða í samhengi við önnur gögn málsins, að heimilt sé veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. 

Bann við endursendingu samkvæmt 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands 16. júní 2021 og sótti um alþjóðlega vernd sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsókn hennar um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hún því ekki tilskilin leyfi til dvalar. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hún verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi er við ágæta heilsu. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga og þegar litið er til ferðatakmarkana vegna Covid-19 faraldursins teljast 15 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Í ljósi Covid-19 faraldursins er athygli kæranda vakin á því að Útlendingastofnun getur frestað framkvæmd ákvörðunar með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga um útlendinga vegna sérstakra aðstæðna útlendings eða vegna þess að ómögulegt sé að framkvæma ákvörðun að svo stöddu. 

 

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda.

Athygli er vakin á því að samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

 

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljug.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 15 days to leave the country voluntarily.

 

Tómas Hrafn Sveinsson

Sindri M. Stephensen                                                                   Þorbjörg I. Jónsdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta