Hoppa yfir valmynd

Nr. 85/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 25. febrúar 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 85/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21020011

Beiðni [...] um endurupptöku

 

I. Málsatvik

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 219/2020, dags. 18. júní 2020, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 21. október 2020, um að synja [...], fd., ríkisborgara Íraks (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á Íslandi. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 22. júní 2020. Þann 29. júní 2020 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar. Þann 6. júlí 2020 barst kærunefnd greinargerð kæranda. Beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa var synjað af kærunefnd með úrskurði nefndarinnar í máli KNU20060044, dags. 14. júlí 2020.

Þann 3. febrúar 2021 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku á úrskurði kærunefndar frá 18. júní 2020.

Beiðni kæranda um endurupptöku máls hans byggir á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II. Málsástæður og rök kæranda

Í endurupptökubeiðni kæranda er þess krafist að mál hans verði endurupptekið og að felld verði úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 21. október 2019, og að stofnuninni verði gert að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða hér á landi með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku máls hans hjá kærunefnd á því að nýjar aðstæður séu komnar upp í máli hans. Kærandi hafi sótt guðsþjónustu í Háteigskirkju síðan í byrjun nóvember 2019 og jafnframt sótt vikulega bænafundi undir handleiðslu [...] og tveggja annarra presta. Þá hafi kærandi einnig sótt sex vikna kristilegt kynningarnámskeið þar sem ríkuleg áhersla hafi verið lögð á kristilegt hugafar fremur en nákvæma yfirferð yfir guðspjöllin. Kærandi vísar til þess að í skriflegri yfirlýsingu [...], dags. 28. janúar 2021, sem hann leggi fram með beiðni um endurupptöku, greini [...] frá því að kærandi hafi sótt samkomur Votta Jehóva þar til hann hafi komist að því að ekki væri um að ræða hefðbundinn kristinn söfnuð. Þá komi fram í yfirlýsingunni að [...] telji að enginn vafi sé á því að kærandi hafi snúist til kristni og vilji feta í fótspor frelsarans.

Í beiðninni kemur fram að krafa kæranda um endurupptöku málsins sé reist á tvíþættum grundvelli, annars vegar á því að aðstæður hafi breyst verulega frá því ákvörðun var tekin og hins vegar að ákvörðunin hafi verið byggð á ófullnægjandi upplýsingum. Er vísað til þess að landaupplýsingar um heimaríki kæranda beri með sér að þeir sem hafi snúist frá íslam eigi bágt með að láta afstöðu sína opinberlega í ljós og að trúarleiðtogar og öfgamenn hóti trúleysingjum og þeim sem snúist frá Íslam bannfæringum (e. fatwa). Kærandi vísar til heimilda frá kanadísku innflytjenda- og flóttamannanefndinni og danska flóttamannaráðsins varðandi áreiti sem kristnir íbúar á sjálfstjórnarsvæði Kúrda í Írak, Kúrdistan, verði fyrir af hálfu róttækra íslamista. Kærandi telur að með hliðsjón af framangreindu sé ljóst að aðstæður þeirra sem snúist hafi frá íslam séu afar bágbornar í Írak og jafnvel í Kúrdistan.

III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála varðandi beiðni um endurupptöku

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Kærunefnd kvað upp úrskurð í máli kæranda þann 18. júní 2020. Með úrskurðinum komst kærunefnd að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfyllti hvorki skilyrði 1. né 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því ætti hann ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kæranda í heimaríki væru ekki með þeim hætti að veita bæri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.

Í kærumáli kæranda lagði hann til stuðnings málsástæðu um trúleysi/trúskipti sín fram yfirlýsingu frá presti [...], dags. 9. janúar 2020, og afrit af skírnarvottorði kæranda, dags. 9. janúar 2020. Tók nefndin afstöðu til þeirra gagna í framangreindum úrskurði sínum nr. 219/2020. Við skoðun á þeim gögnum sem kærandi hefur lagt fram til stuðnings beiðni um endurupptöku máls síns má sjá að um nánast sömu gögn er að ræða. Eina nýja gagnið er yfirlýsing [...] 28. janúar 2021, sem er þó efnislega svipuð fyrri yfirlýsingu hans frá 9. janúar 2020. Jafnframt lagði kærandi fram skírnarvottorð dags. 28. janúar 2021, en vottorð um skírnina hafði áður verið lagt fram með annarri dagsetningu við fyrri meðferð málsins.

Af málatilbúnaði kæranda og gögnum honum til stuðnings verður ekki annað ráðið en að hann byggi á sömu málsástæðu um trúskipti og hann byggði á og bar fyrir sig í kærumáli sínu fyrir kærunefnd. Kærunefnd tók afstöðu til þeirrar málsástæðu og gagna í úrskurði sínum kveðnum upp þann 18. júní 2020 þar sem fjallað er ítarlega um stöðu einstaklinga í heimaríki kæranda sem hafa tekið upp kristna trú í stað íslamstrú. Að framangreindu virtu verður því ekki annað ráðið af málatilbúnaði kæranda en að hann sé ósammála niðurstöðu kærunefndar í kærumáli hans, bæði mati og lagatúlkun. Ákvæði 24. gr. stjórnsýslulaga um endurupptöku máls varðar heimild stjórnvalds til að kanna hvort atvik hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin eða hvort ákvörðun hafi byggst á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum um málsatvik og hvort þessir þættir leiði til þess að rétt sé að taka aðra ákvörðun. Þá geta heimildir stjórnvalds til endurupptöku einnig verið byggðar á óskráðum reglum stjórnsýsluréttar.

Að teknu tilliti til framangreinds er það mat kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar frá 18. júní 2020 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða atvik máls hafi breyst verulega frá því að úrskurðurinn var kveðinn upp, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kærunefnd telur samkvæmt framansögðu að skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga séu ekki uppfyllt. Loks verður ekki talið að skilyrði séu uppfyllt fyrir endurupptöku málsins á grundvelli óskráðra reglna stjórnsýsluréttarins. Kröfu kæranda um endurupptöku málsins er því hafnað.

 

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

The request of the appellant to re-examine the case is denied.

 

Tómas Hrafn Sveinsson

Sindri M. Stephensen                                      Þorbjörg I. Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta