Mál nr. 102/2013
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 30. apríl 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 102/2013.
1. Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 3. september 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar þar sem hún hafi verið við vinnu hjá B
samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Var það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hún hafi starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Jafnframt var kæranda tilkynnt að hún hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur samtals að fjárhæð 489.558 kr. en í þeirri fjárhæð er 15% álag, sem yrði innheimt skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 20. september 2013. Hún krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að henni verði ekki gert að endurgreiða mótteknar atvinnuleysisbætur. Jafnframt er þess krafist að viðurkenndur verði áður fenginn réttur kæranda til atvinnuleysisbóta frá og með 15. september 2013. Vinnumálastofnun telur að hin kærða ákvörðun hafi verið rétt.
Kærandi sótti síðast um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 26. febrúar 2013.
Vinnumálastofnun bárust upplýsingar frá aðilum vinnumarkaðarins þess efnis að kærandi hafi verið við störf hjá C 11. júlí 2013 kl. 12.30. Samkvæmt samskiptasögu kæranda hjá Vinnumálastofnun hafði hún samband við stofnunina 15. júlí 2013 og lét vita að hún væri komin með vinnu frá 1. júlí 2013.
Í bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 15. ágúst 2013, var óskað eftir skýringum kæranda á framangreindu. Skýringar kæranda bárust stofnuninni 17. ágúst 2013 þar sem fram kom að kæranda hafi verið sagt upp störfum hjá C frá 1. mars 2013 en síðan hefði hún unnið tímabundið hjá félaginu 1. júlí til 15. september 2013. Tekið var fram að Vinnumálastofnun hefði verið tilkynnt um breytingar á högum kæranda 15. júlí 2013.
Vinnumálastofnun sendi kæranda annað bréf, dags. 21. ágúst 2013, þar sem kallað var eftir frekari upplýsingum um aðkomu kæranda að starfsemi gistiheimilisins D. Því bréfi svaraði kærandi með bréfi, dags. 27. ágúst 2013. Í því bréfi segir að kærandi hafi ekki verið við störf hjá C frá 1. mars til 30. júní 2013 eða á þeim tíma sem hún hafi þegið atvinnuleysisbætur né hafi hún verið á launaskrá hjá félaginu. Á stjórnarfundi félagsins 15. júlí 2013 hafi verið ákveðið að kærandi tæki við starfi á sviði ferðaþjónustu í D þar sem hún hafi enn verið atvinnulaus og hafi Vinnumálastofnun verið látin vita af breytingum á högum kæranda þann dag. Kærandi hafnar þeim ásökunum Vinnumálastofnunar að ekki hafi verið látið vita um breytingar á högum kæranda í tíma og að hún hafi þegið atvinnuleysisbætur og laun annars staðar frá á sama tímabili.
Í kæru kæranda kemur fram að tilkostnaður við gistiheimilið D hafi verið mikill sumarið 2013 og hafi afkoman verið léleg eftir þetta fyrsta sumar en eigi vonandi eftir að skila sér til framtíðar. Kærandi hafi ekki treyst sér til þess að reikna sér laun og greiða af þeim launatengd gjöld nema fyrir mánuðina júlí og ágúst 2013. Kærandi mótmælir því að hún hafi ekki uppfyllt skilyrði 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og því misst rétt sinn til atvinnuleysisbóta fyrir það eitt að hafa gert tilraun til að skapa sér atvinnu. Því er jafnframt mótmælt að kærandi eigi ekki lengur rétt á atvinnuleysisbótum þegar fyrirfram hafi verið vitað að bændagistingin væri eingöngu tímabundið starf.
Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 18. desember 2013, bendir Vinnumálastofnun á að lög um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Vinnumálastofnun greinir frá því að mál þetta varði 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem kærandi hafi verið í starfi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hún fékk greiddar atvinnuleysisbætur, án þess að tilkynna til stofnunarinnar að atvinnuleit væri hætt skv. 10. gr. eða 35. gr. a laganna. Bent er á að með lögum nr. 134/2009, um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar, hafi verið gerðar veigamiklar breytinga á 60. gr. laganna. Verknaðarlýsing ákvæðisins geri grein fyrir því hvaða atvik geti leitt til þess að viðurlögum á grundvelli ákvæðisins sé beitt. Í athugasemdum með 23. gr. frumvarpsins er varð að lögum nr. 134/2009 segi að Vinnumálastofnun skuli beita viðurlögunum ef atvinnuleitandi starfi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fái greiddar atvinnuleysisbætur án þess að tilkynna stofnuninni um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða 35. gr. a laganna.
Vinnumálastofnun vísar til þess að í 13. gr. laganna segi jafnframt að það sé skilyrði fyrir því að launamaður teljist vera tryggður í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. sömu laga sé að finna nánari útfærslu á því hvað telst til virkrar atvinnuleitar. Ljóst sé að aðili sem starfar á vinnumarkaði geti hvorki talist vera án atvinnu eða í virkri atvinnuleit í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Fyrir liggi að kærandi hafi verið við störf hjá D (C) 11. júlí 2013 kl. 12.30 þegar aðilar vinnumarkaðarins hafi hitt hana fyrir á gistiheimilinu. Þann 15. júlí hafi kærandi síðan tilkynnt um vinnu sína hjá gistiheimilinu. Það sé mat Vinnumálastofnunar að tilkynning sem berist stofnuninni eftir að aðili hafi verið staðinn að því að sinna ótilkynntri vinnu samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur geti ekki leyst viðkomandi aðila undan þeim viðurlögum sem hann skuli sæta samkvæm skýru orðalagi laga um atvinnuleysistryggingar.
Í kæru kæranda komi fram að kærandi sé eigandi fyrirtækisins C sem eigi og reki gistiheimilið D. Jafnframt sé tekið fram í kæru að þar sem atvinnuleit kærandi hafi borið árangur hafi hún tekið ákvörðun um að koma upp rekstri bændagistingu í gegnum ferðajónustu bænda fyrir sumarið 2013. Hafi þá farið af stað undirbúningur vegna þess. Vegna afbókana í júnímánuði hafi verið fyrirséð að ekki hefði verið hægt að greiða kæranda laun eða launatengd gjöld vegna þess mánaðar en 15. júlí hafi bókanir verið það margar að hægt hefði verið að greiða kæranda laun vegna starfa hennar hjá gistiheimilinu. Af ofangreindu sé ljóst að kærandi hafi sinnt undirbúningi og rekstri gistiheimilis einhvern tíma áður en hún hafi tilkynnt um það til Vinnumálastofnunar. Samkvæmt upplýsingum sem aflað hafi verið af heimasíðunni www.booking.com sé ljóst að gistiheimilið hafi verið starfrækt a.m.k. frá 2. mars 2013. Ekki hafi borist tilkynning um vinnu kæranda við rekstur D fyrr en 15. júlí 2013.
Vinnumálastofnun vekur athygli á því í ljósi röksemda í kæru kæranda að orðalag 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar geri ekki áskilnað um greiðslu endurgjalds svo einstaklingur teljist hafa starfað á innlendum vinnumarkaði. Tilgangur ákvæðisins, og einnig laga um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum, nr. 42/2010, sé meðal annars að vinna gegn svartri atvinnustarfsemi og misnotkun á atvinnuleysisbótum. Það er mat Vinnumálastofnunar að skýringar kæranda teljist ekki gildar.
Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 20. desember 2013, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 16. janúar 2014. Ekki bárust athugasemdir frá kæranda.
2. Niðurstaða
Mál þetta lýtur að því hvort kærandi hafi aflað atvinnuleysisbóta með sviksamlegum hætti í skilningi 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ákvæðið er svohljóðandi:
„Sá sem lætur vísvitandi hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða veitir vísvitandi rangar upplýsingar sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“
Þegar lög um atvinnuleysistryggingar voru upphaflega sett var kveðið á um þá meginreglu í fyrstu málsgrein 60. gr. laganna að sá sem aflar sér eða reynir að afla sér atvinnuleysisbóta samkvæmt lögunum með svikum getur misst rétt sinn í allt að tvö ár og þurft að sæta sektum. Framangreindu ákvæði var breytt með setningu 23. gr. laga nr. 134/2009 sem tók gildi 1. janúar 2010 og veigamesti tilgangur ákvæðisins sagður vera að sporna gegn „svartri atvinnustarfsemi“.
Ákvæði 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar er svohljóðandi:
„Þeim sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum ber að tilkynna til Vinnumálastofnunar með að minnsta kosti eins dags fyrirvara um tilfallandi vinnu sem hann tekur á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum. Heimilt er þó að tilkynna samdægurs um tilfallandi vinnu enda sé um að ræða tilvik sem er þess eðlis að mati Vinnumálastofnunar að ekki var unnt að tilkynna um hina tilfallandi vinnu fyrr. Í tilkynningunni skulu meðal annars koma fram upplýsingar um hver vinnan er, um vinnustöðina og um lengd þess tíma sem hinni tilfallandi vinnu er ætlað að vara.“
Í 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um þá skyldu atvinnuleitanda að upplýsa Vinnumálastofnun um breytingar á högum viðkomandi eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum, eins og námsþátttöku og tekjur fyrir tilfallandi vinnu. Þá er þeim sem telst tryggður skv. 10. gr. laga um atvinnuleysistryggingar gert að tilkynna til Vinnumálastofnunar án ástæðulausrar tafar þegar hann hættir virkri atvinnuleit.
Ljóst er af framangreindum ákvæðum 3. mgr. 9. gr. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar að tilkynningar og upplýsingaskylda atvinnuleitenda er mjög ströng.
Af hálfu kæranda kemur fram að hún hafi ákveðið að reyna að skapa sér atvinnu með því að reka bændagistingu í D í gegnum Ferðaþjónustu bænda sumarið 2013. Ráða má af máli kæranda að stofnkostnaðurinn hafi verið nokkur og kveðst hún í kæru ekki hafa treyst sér til þess að reikna sér laun og greiða af þeim launatengd gjöld nema fyrir mánuðina júlí og ágúst. Aðilar vinnumarkaðarins hittu kæranda fyrir á vinnustað 11. júlí 2013, en tilkynning kæranda um vinnu barst síðar, eða 15. júlí 2013.
Í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu atvinnuleitanda, sem kveðið er á um í 35. gr. a sömu laga, verður að telja að kærandi hafi brugðist trúnaðar- og upplýsingaskyldum sínum gagnvart Vinnumálastofnun. Háttsemi kæranda hefur því réttilega verið heimfærð til ákvæðis 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæranda ber því að sæta viðurlögum þeim sem þar er kveðið á um, enda var hún starfandi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hún þáði atvinnuleysisbætur án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um tilfallandi vinnu eða að atvinnuleit hafi verið hætt. Með vísan til framangreinds og þeirra raka sem Vinnumálastofnun hefur fært fram fyrir hinni kærðu ákvörðun, verður hún staðfest.
Kæranda ber einnig að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur alls 489.558 kr. en í þeirri fjárhæð er 15% álag skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Úrskurðarorð
Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 3. september 2013 í máli A þess efnis að hún skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hún hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði er staðfest.
Kærandi skal endurgreiða Vinnumálastofnun ofgreiddar atvinnuleysisbætur, samtals að fjárhæð 489.558 kr. en í þeirri fjárhæð er 15% álag.
Brynhildur Georgsdóttir, formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir
Helgi Áss Grétarsson