Mál nr. 106/2013
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 13. maí 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 106/2013.
1. Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau að kærandi, A, sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 21. júní 2013. Við starfslok kæranda hjá B, 16. júní 2013, átti hún inni 135 klukkustunda ótekið orlof og átti af þeim sökum ekki rétt á atvinnuleysisbótum á tímabilinu 21. júní til 15. júlí 2013 skv. 4. mgr. 51. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Samkvæmt læknisvottorði var kærandi óvinnufær með öllu frá 8. júlí til 20. júlí 2013 og gat hún því fyrst átt rétt á atvinnuleysisbótum frá 21. júlí skv. a-lið 13. gr. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi fer fram á greiðslur atvinnuleysisbóta afturvirkt. Kærandi fer einnig fram á endurgreiðslu vegna stéttarfélagsgjalda fyrir júlí og ágúst 2013 að fjárhæð 5.000 kr. Kærandi fer einnig fram á afsökunarbeiðni af hálfu Vinnumálastofnunar fyrir óvönduð svör og vinnubrögð starfsfólks þar. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.
Kærandi mætti ekki á boðaðan starfsleitarfund Vinnumálastofnunar 10. júlí 2013 og var með bréfi til hennar, dagsett sama dag, óskað skýringa á fjarveru hennar. Í bréfinu var tekið fram að ef hún hefði ekki samband innan sjö daga frá dagsetningu bréfsins yrði litið á það sem staðfestingu á því að hún væri ekki lengur í virkri atvinnuleit. Engar skýringar bárust frá kæranda og var hún því afskráð hjá stofnuninni. Kærandi gerði tilraun til þess að staðfesta atvinnuleit á mínum síðum en þar sem hún var afskráð gekk það ekki. Með bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 25. júlí 2013, var óskað eftir því að hún legði fram greiðsluáætlun frá Tryggingastofnun ríkisins og lífeyrissjóði. Var bréfið sent á skráð lögheimili kæranda, en því var ekki svarað og var umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur því synjað á fundi Vinnumálastofnunar 9. ágúst 2013. Ákvörðunin var tilkynnt með bréfi, dags. 12. ágúst 2013. Kærandi mætti 13. ágúst 2013 á þjónustuskrifstofu og var í kjölfarið opnuð ný greiðslulota, þ.e. kærandi var ekki lengur afskráð hjá Vinnumálastofnun.
Kærandi skilaði greiðsluáætlun frá Tryggingastofnun og staðfestingu á því að hún hafi ekki fengið greidda sjúkradagpeninga 15. ágúst 2013. Í viðtali kæranda hjá Vinnumálastofnun sem fór fram sama dag kom fram að hún hafi ekki haft samband við stofnunina fyrr um sumarið vegna veikinda. Vinnumálastofnun óskaði eftir vottorði kæranda um vinnufærni og greiðsluyfirliti frá lífeyrissjóðum. Stofnuninni bárust tvö læknisvottorð og greiðsluyfirlit frá Lífeyrissjóði verzlunarmanna og Greiðslustofu lífeyrissjóða 29. ágúst 2013. Í öðru læknisvottorðinu var vottað að kærandi hafi verið óvinnufær með öllu á tímabilinu 8. júlí til 20. júlí og í hinu var staðfest að kærandi væri frísk og vinnufær frá og með 21. júlí 2013.
Umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur frá 21. júní 2013 var samþykkt á fundi Vinnumálastofnunar 4. september 2013. Þar sem kærandi átti inni ótekið orlof við starfslok hjá fyrri vinnuveitanda, sbr. vinnuveitendavottorð dags. 21. júní 2013, var hún skráð í orlof á tímabilinu 21. júní til 15. júlí 2013. Þá átti kærandi ekki rétt á atvinnuleysisbótum á því tímabili sem hún var óvinnufær samkvæmt læknisvottorði. Kærandi átti því fyrst rétt á atvinnuleysisbótum frá og með 21. júlí 2013. Kærandi staðfesti atvinnuleit í júlí og ágúst 2013. Hún mætti í viðtal við ráðgjafa Vinnumálastofnunar 12. september 2013 en hefur ekki haft samband síðan. Hún fékk greiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 21. júlí til 12. september 2013. Hún reiknaðist með 75% bótarétt.
Af hálfu kæranda kemur fram að hún hafi veikst í júní 2013 stuttu eftir að hún hafi lagt inn umsókn sína um atvinnuleysisbætur. Hún hafi því ekki komist á atvinnuleitarfund og hafi hún tilkynnt það með símtali. Í símtalinu hafi hún spurt hvort hún ætti ekki að skila inn læknisvottorði en því hafi verið neitað og henni gefinn nýr fundartími í ágúst. Hún hafi einnig skilað inn öllum þeim gögnum sem henni hafi verið sagt að skila inn og lagt fyrir ráðgjafa sem ekki hafi minnst á annað en að öll gögn væru þar með fyrir hendi. Kærandi hafi hringt í Vinnumálastofnun í júlí þar sem hún hafi ekki fengið nein svör og engar bætur. Hafi henni verið tjáð að hún væri á bið vegna þess að hún hafi ekki mætt á atvinnuleitarfundinn og að það vantaði gögn, en henni hafi aldrei borist beiðni frá Vinnumálastofnun um að skila inn fleiri gögnum en henni hafi verið tjáð í upphafi, en síðan hafi hún fengið bréf í lok júlí þar sem hún var beðin um að skila inn greiðsluyfirliti frá lífeyrissjóðum.
Kærandi telur sig eiga rétt á atvinnuleysisbótum eins og allir þeir sem missa vinnu sína.
Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 8. janúar 2014, bendir Vinnumálastofnun á að sökum þess að kærandi hafi verið óvinnufær á tímabilinu 8. júlí til 20. júlí 2013 hafi hún fyrst getað átt rétt á atvinnuleysisbótum frá 21. júlí 2013, sbr. a-lið 13. gr. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem kveðið er á um að skilyrði fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta sé færni til flestra almennra starfa.
Kærandi hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 21. júlí til 12. september 2013. Kærandi krefjist afturvirkra atvinnuleysisbóta, en í ljósi framangreinds geti Vinnumálastofnun ekki fallist á þær kröfur. Þá fari kærandi fram á endurgreiðslu vegna stéttarfélagsgjalda. Vinnumálastofnun telji sér vera óskylt að svara þessum lið kærunnar, enda sé ekki um að ræða stjórnvaldsákvörðun.
Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 13. janúar 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 29. janúar 2014. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.
2. Niðurstaða
Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 21. júní 2013. Samkvæmt vinnuveitendavottorði B, dags. 21. júní 2013, starfaði kærandi hjá B til 15. júní 2013. Við starfslok átti kærandi ótekið orlof í 135 klukkustundir. Samkvæmt læknisvottorði, dags. 28. ágúst 2013, var kærandi óvinnufær með öllu frá 8. júlí til 20. júlí 2013. Í 51. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um ósamrýmanlegar greiðslur og hljóðar 4. mgr. lagagreinarinnar svo:
„Hver sá sem hefur fengið greitt út ótekið orlof við starfslok eða fær greiðslur vegna starfsloka telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á því tímabili sem þær greiðslur eiga við um. Við umsókn um atvinnuleysisbætur skal hinn tryggði taka fram hvenær hann ætlar að taka út orlof sitt fyrir lok næsta orlofstímabils.“
Í a-lið 13. gr. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna, en í þessum lagaákvæðum kemur meðal annars fram að atvinnuleitanda beri að vera í virkri atvinnuleit og að vera fær til flestra almennra starfa.
Með vísan til framanskráðs gat kærandi fyrst átt rétt á atvinnuleysisbótum frá og með 21. júlí 2013, þ.e. í kjölfar þess að gert hafði verið ráð fyrir orlofstöku kæranda og eftir að hún var orðin frísk eftir veikindi. Kærandi fékk greiddar bætur frá 21. júlí 2013.
Varðandi kröfur kæranda um endurgreiðslu stéttarfélagsgjalda og að Vinnumálastofnun leggi fram formlega afsökunarbeiðni vegna meðferðar máls kæranda er vísað til 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, þar sem fram kemur að aðila máls er heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi. Umrædd umkvörtunarefni kæranda varða ekki stjórnvaldsákvarðanir og er þeim vísað frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.
Úrskurðarorð
Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli A um greiðslu atvinnuleysisbóta til hennar á tímabilinu 21. júlí til 12. september 2013 er staðfest.
Kröfum kæranda um endurgreiðslu vegna stéttarfélagsgjalda og kröfu um afsökunarbeiðni Vinnumálastofnunar er vísað frá.
Brynhildur Georgsdóttir, formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir
Helgi Áss Grétarsson