Mál nr. 128/2013
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 27. maí 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 128/2013.
1. Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau að á kærueyðublaði frá A, til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 2. nóvember 2013, kemur fram undir liðnum „Hvert er efni ákvörðunar Vinnumálastofnunar sem kærð er og hvaða kröfur eru gerðar“ að búið hafi verið að samþykkja umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur þar sem fram komi að hún sé utan skóla í Menntaskólanum B á sjúkraliðabraut. Síðan hafi það verið dregið til baka vegna þess að áfangarnir sem hún sé skráð í telji fleiri en níu einingar. Í bréfi Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 16. janúar 2014, kemur fram að stofnunin hafi ekki tekið ákvörðun í máli kæranda sem uppfyllir skilyrði 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Þegar kæranda hafi verið tilkynnt símleiðis að henni væri ekki heimilt að stunda 19 eininga nám við Menntaskólann B samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta hafi kærandi í kjölfarið óskað eftir því að vera afskráð af atvinnuleysisskrá. Hafi mál kæranda því ekki verið tekið til meðferðar hjá Vinnumálastofnun og engin ákvörðun tekin í máli hennar.
Vinnumálastofnun telur því að úrskurðarnefndinni beri ekki að taka stjórnsýslukæru þessa til efnismeðferðar.
Í bréfi kæranda til úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. febrúar 2014, segir að þegar henni hafi verið tilkynnt símleiðis að kvöldi föstudagsins 1. nóvember 2013 að hún fengi ekki bætur sem búið hafi verið að samþykkja hafi ekkert komið fram í máli Vinnumálastofnunar að þetta væri ekki endanlegt svar frá þeim og hafi kærandi verið mjög ósátt við þetta og farið á heimasíðu Vinnumálastofnunar og fundið upplýsingar um það hvernig kæra mætti afgreiðslu stofnunarinnar. Kærandi óskar eftir sanngjarnri afgreiðslu þar sem hún fór í námið til þess að hafa meiri möguleika á að fá vinnu og hún tekur fram að hún sé utan skóla og í atvinnuleit.
2. Niðurstaða
Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er hlutverk úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða að kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar. Í 1. mgr. 12. gr. laganna segir að kæra skuli berast skriflega innan þriggja mánaða frá því aðila máls var tilkynnt um ákvörðunina. Í 6. mgr. sama ákvæðis segir að að öðru leyti en því sem fram kemur í lögum um atvinnuleysistryggingar skuli málsmeðferð fara eftir stjórnsýslulögum.
Í bréfi Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndarinnar, dags. 16. janúar 2014, kemur fram að stofnunin hafi ekki tekið stjórnvaldsákvörðun í máli kæranda eins og áður var nefnt.
Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Í 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga segir að ákvörðun sem ekki bindur enda á mál, verði ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt.
Með hliðsjón af því að ekki liggur fyrir kæranleg ákvörðun Vinnumálastofnunar verður að vísa kærunni frá úrskurðarnefndinni. Komi upp ágreiningur þegar fyrir liggur ákvörðun Vinnumálastofnunar um rétt kæranda á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar er sú ákvörðun kæranleg til nefndarinnar.
Úrskurðarorð
Kæru A, dags. 2. nóvember 2013, er vísað frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.
Brynhildur Georgsdóttir, formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir
Helgi Áss Grétarsson