Hoppa yfir valmynd

Nr. 67/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 6. febrúar 2018 er kveðinn upp svohljóðandi úrskurður nr. 67/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU17100014

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 4. október 2017 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 28. ágúst 2017, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og endursenda hann til Litháens.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að stofnunni verði gert að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar. Í fyrsta lagi með vísan til 1. mgr. 36. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sbr. 2. mgr. 19. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin), í öðru lagi með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og í þriðja lagi með vísan til 3. mgr. 36. gr. sömu laga, sbr. 1. og 2. mgr. 42. gr. sömu laga. Til vara krefst kærandi þess að Útlendingastofnun verði gert að taka málið til meðferðar að nýju með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 9. maí 2017. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum, þann sama dag, kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Frakklandi og Litháen. Þann 23. maí 2017 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Litháen, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Þann 24. maí 2017 barst svar frá litháískum yfirvöldum þess efnis að þau samþykktu viðtöku kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 28. ágúst 2017 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að hann skyldi endursendur til Litháen. Kærandi kærði ákvörðunina þann 4. október 2017 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 16. október 2017 ásamt fylgigögnum. Kærunefnd óskaði eftir frekari gögnum frá kæranda með tölvubréfi dags 17. nóvember 2017 og bárust upplýsingar frá kæranda þann 4. desember 2017. Þá óskaði kærunefnd eftir frumriti gagna með rafrænni beiðni þann 9. janúar 2017 og bárust kærunefnd hluti umbeðinna gagna þann 11. janúar 2017. Kærunefnd sendi jafnframt rafræna beiðni til litháískra stjórnvalda, dags. 15. janúar 2018 um nánari upplýsingar um aðstæður umsækjenda um alþjóðlega vernd þar í landi en ekkert svar barst.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að umsókn kæranda um alþjóðlega vernd yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og hann skyldi endursendur til Litháen. Lagt var til grundvallar að Litháen virði ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, þar með talið bann við endursendingu til ríkis þar sem líf og frelsi kæranda kynni að vera í hættu (non-refoulement). Því fæli flutningur kæranda til Litháens ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga. Þá var talið að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærandi var metinn í sérstaklega viðkvæmri stöðu vegna alvarlegra veikinda, sbr. 6. tölul. 3. gr. sömu laga. Þá var það mat stofnunarinnar að sérstakar aðstæður í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga væru ekki til staðar í málinu. Aðstæður kæranda féllu ekki undir 16. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og væru ekki slíkar að ástæða væri til að beita 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar í málinu. Kærandi skyldi yfirgefa Ísland og bæri að senda hann til Litháens, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá kom fram í ákvörðun Útlendingastofnunar að kærandi hefði borið því við að hann hefði yfirgefið Schengen-svæðið í meira en þrjá mánuði eftir dvölina í Litháen. Stofnunin hafi óskað eftir gögnum þess efnis og kærandi hafi lagt fram ljósmynd af eldra vegabréfi sínu og stimplum. Kærandi hafi verið beðinn að leggja fram frumrit vegabréfsins en hann hafi ekki orðið við þeirri beiðni. Að mati Útlendingastofnunarinnar hafi kærandi ekki sýnt fram á að hann hafi verið utan Schengen-svæðisins lengur en í þrjá mánuði þar sem stofnunin hafi ekki tryggingu fyrir því að ljósmyndirnar sem kærandi lagði fram séu úr eldra vegabréfi hans. Kæranda hafi ekki tekist að sýna fram á með sannarlegum hætti að hann hafi yfirgefið Schengen-svæðið lengur en í þrjá mánuði svo unnt væri að beita 2. mgr. 19. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi yfirgefið heimaríki sitt og komið inn á Schengen-svæðið þann 4. maí 2017 og sótt um alþjóðlega vernd hér á landi. Kærandi hafi ekki komið í gegnum Litháen hingað til lands og hafi í raun ekki komið þangað síðan hann hafi verið stöðvaður þar í lok árs 2011, á leið sinni til Frakklands, og verið látinn sækja um alþjóðlega vernd þar í landi. Í viðtölum hjá Útlendingastofnun hafi kærandi greint frá aðstæðum sínum í flóttamannabúðum í Litháen en að mati kæranda hafi þær minnt á fangelsi. Kærandi hafi orðið vitni að því að litháískir hermenn hafi beitt aðra umsækjendur um alþjóðlega vernd ofbeldi og komið hafi verið fram við kæranda og aðra umsækjendur líkt og dýr. Kærandi hafi dvalið í Litháen í u.þ.b. mánuð áður en hann hafi haldið til Frakklands. Þar hafi kærandi dvalið til 2. apríl 2014 en þá hafi hann, vegna veikinda, snúið aftur til [...]. Kærandi hafi þ.a.l. ekki farið inn á Schengen svæðið frá 2. apríl 2014 til 4. maí 2017. Í greinargerð kemur fram að kærandi hafi átt erfitt uppdráttar en hann hafi sem barn búið hjá [...]. Þá hafi hann og [...] fellt saman hugi sem hafi mælst illa fyrir hjá fjölskyldu þeirra. Í kjölfarið hafi kærandi orðið fyrir tveimur árásum vegna sambandsins og hafi m.a. [...] í annarri þeirra. Þá hafi kærandi í viðtölum sínum hjá Útlendingastofnun lýst bæði alvarlegum líkamlegum og andlegum veikindum. Kærandi hafi undirgengist fjórar aðgerðir á undanförnum árum, m.a. vegna [...] auk þess sem hann hafi hlotið meiðsli í líkamsárásum og þjáist af [...] sem þarfnist stöðugra [...] og meðferðar. Þá hafi kærandi þjáðst af [...] allt frá því að hann hafi orðið fyrir framangreindu ofbeldi af hálfu [...]. Kæranda hafi verið ávísað [...] í Frakklandi og verið lagður [...] inn á geðdeild. Í framlögðum gögnum megi sjá greiningu frá [...] á andlegu ástandi hans á meðan hann hafi dvalið þar. Þá hafi kærandi verið lagður inn á sjúkrahús hér á landi vegna [...]. Kærandi hafi enn fremur leitað sér aðstoðar sálfræðings hér á landi. Sjúkrasaga kæranda sé studd fjölmörgum gögnum sem hann hafi lagt fram með greinargerð sinni.

Kærandi fjallar í greinargerð sinni um aðstæður og réttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd í Litháen. Í skýrslu ENAR um kynþáttafordóma í Litháen komi fram að umsækjendur um alþjóðlega vernd eigi undir högg að sækja í ríkinu. Mismunun gegn framangreindum hópi sem og öðrum innflytjendum sé mikil, t.a.m. verði þeir fyrir kerfisbundinni mismunun og fordómum. Félags- og vinnumálaráðuneyti Litháens hafi árið 2015 tekið ákvörðun um að skera niður fjárframlög til umsækjenda um alþjóðlega vernd sem og flóttamanna um helming eftir fyrstu sex mánuði dvalar þeirra í landinu. Þannig standi framangreindir hópar frammi fyrir fátækt og heimilisleysi. Þá endursendi stjórnvöld samstundis umsækjendur sem komi frá eða í gegnum örugg ríki. Þeir einstaklingar eigi ekki kost á viðtali, efnislegt mat fari ekki fram á máli þeirra né heldur sé framkvæmt einstaklingsbundið mat á aðstæðum þeirra. Þá hafi varðhald umsækjenda um alþjóðlega vernd í Litháen sætt harðri gagnrýni, þ. á m. fyrir að of margir séu hýstir á sama stað, mikið sé af flóm, kynin séu ekki aðskilin og fæðið henti illa þeim sem þar dvelji. Varðhald einstaklinga í sérstaklega viðkvæmri stöðu sé heimilt og meðallengd varðhaldsins óljós. Heilbrigðisþjónusta sé af skornum skammti og nánast aðeins til staðar í neyðartilvikum. Þá séu tungumálaörðugleikar til staðar og m.a. mikill skortur á almennri túlkaþjónustu og þá sérstaklega í sálfræðiviðtölum. Í skýrslu flóttamannafulltrúa Sameinuðu þjóðanna frá 2016 sé áhyggjum lýst yfir aðbúnaði umsækjenda um alþjóðlega vernd í ríkinu og bent á að einstaklingar séu hindraðir í að sækja þar um alþjóðlega vernd og upplýsingum um hæliskerfið sé jafnvel haldið frá þeim. Þá hafi erlendir dómstólar slegið varnagla við sendingu umsækjenda um alþjóðlega vernd til Litháens á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar vegna stefnu litháískra stjórnvalda um að taka ekki til meðferðar umsóknir umsækjenda sem komi í gegnum örugg ríki heldur senda þá til baka. Sem dæmi nefnir kærandi undirdóm frá Hollandi þar sem þarlendum stjórnvöldum hafi verið gert að rannsaka mál tiltekins umsækjenda um alþjóðlega vernd og senda hann ekki til Litháens. Þá kemur fram í greinargerð að framlag til heilbrigðismála í Litháen sé lágt samanborið við önnur OECD ríki, kerfið mismuni fólki eftir þjóðfélagsstöðu og spilling sé mikil. Kærandi eigi við líkamleg og andleg veikindi að stríða og sú heilbrigðisþjónusta sem standi honum til boða í Litháen sé ekki fullnægjandi og bendi gögn málsins til þess að flutningur hans til viðtökuríkis myndi hafa verulegar og óafturkræfar afleiðingar á heilsu hans. Kærandi vísar til úrskurða kærunefndar útlendingamála máli sínu til stuðnings, n.t.t. úrskurða nr. 419/2017, 369/2017, 316/2017 og 59/2017.

Í greinargerð kæranda er fjallað um kerfisbundinn galla á aðbúnaði og meðferð umsækjenda um alþjóðlega vernd og vísar kærandi í því sambandi til ákvarðandi túlkunar Evrópudómstólsins frá 16. febrúar 2017. Þar sé lögð áhersla á hið einstaklingsbundna mat sem þurfi ávallt að fara fram þegar tekið sé til skoðunar hvort umsækjendur um alþjóðlega vernd eigi á hættu meðferð eða aðstæður sem brjóti gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Kærandi stríði við flókin andleg og líkamleg veikindi sem komi heim og saman við málsatvik ofangreinds dóms. Kærandi byggir á því að taka skuli mál hans til efnislegrar meðferðar vegna sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Vísar kærandi m.a. til lögskýringargagna við ákvæðið. Einnig byggir kærandi á því að hann njóti verndar 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga sem mæli fyrir um grundvallarregluna um non-refoulement. Þá kveði c-liður 1. mgr. 36. gr. laganna einungis á um heimild til handa stjórnvöldum til að synja kæranda um efnismeðferð umsóknar sinnar en ekki skyldu.Kærandi byggir á því að hann hafi yfirgefið Schengen svæðið í þrjú ár og því beri að taka mál hans til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 19. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Í gögnum málsins liggi fyrir ljósmyndir úr eldra vegabréfi kæranda en nýrra vegabréf hans sé í vörslu íslenskra yfirvalda. Kærandi hafi þurft að endurnýja vegabréf sitt til að komast hingað til lands. Í gögnunum sjáist skýrlega að kærandi hafi yfirgefið Schengen svæðið þann 2. apríl 2014 og ekki komið aftur inn á svæðið þar til á leið sinni hingað til lands í maí 2017. Þá liggi einnig fyrir [...] læknisfræðileg gögn frá þessu tímabili varðandi kæranda. Dagsetningar framangreindra gagna styðji frásögn hans og stimplana sem fram komi í vegabréfum hans varðandi komu og brottför frá [...]. Því telur kærandi fullsannað að hann hafi yfirgefið Schengen svæðið í skilningi 2. mgr. 19. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar í u.þ.b. þrjú ár og íslenskum stjórnvöldum sé þ.a.l. skylt að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar.

Kærandi gerir jafnframt athugasemdir við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun, einkum að rannsókn málsins hafi ekki verið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef heimilt sé að krefja annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda.

Fyrir liggur í máli þessu að litháísk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku á kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, en Ísland skuldbatt sig til að fylgja henni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Samþykki Litháens er byggt á því að kærandi hafi fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd þar í landi.

Kærandi byggir á því fyrir kærunefnd að umsókn hans skuli tekin til efnismeðferðar hér á landi þar sem hann hafi dvalið lengur en þrjá mánuði utan Schengen-svæðisins eftir að hann sótti um alþjóðlega vernd í Litháen, sbr. 19. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Í 2. mgr. 19. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar segir að skuldbindingarnar sem um getur í 1. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar skuli falla niður ef aðildarríkið sem ber ábyrgð getur sannað, þegar það er beðið um að taka aftur við umsækjanda eða öðrum einstaklingi eins og um getur í c- eða d-lið 1. mgr. 18. gr., að viðkomandi einstaklingur hafi yfirgefið yfirráðasvæði aðildarríkjanna um a.m.k. þriggja mánaða skeið, nema hann hafi undir höndum gilt dvalarskjal, gefið út af aðildarríkinu sem ber ábyrgð. Ofangreint ákvæði felur í sér, samkvæmt orðanna hljóðan, möguleika fyrir aðildarríki til þess að sanna að ábyrgð þess á umsókn um alþjóðlega vernd sé fallin niður fyrir þær sakir að umsækjandi hafi yfirgefið yfirráðasvæði aðildarríkja Dyflinnarreglugerðarinnar. Í dómi Dómstóls Evrópusambandsins í máli George Karim gegn Migrationsverket (mál nr. C-155/15 frá 7. júní 2016) var komist að þeirri niðurstöðu að umsækjandi um alþjóðlega vernd eigi rétt á að koma að vörnum sem lúta að réttri beitingu skilyrða Dyflinnarreglugerðarinnar fyrir endursendingu að því er varðar hvort 2. mgr. 19. gr. reglugerðarinnar leiði til þess að líta beri svo á að umsækjandi hafi lagt fram nýja umsókn um alþjóðlega vernd eftir dvöl utan yfirráðasvæðis aðildarríkja Dyflinnarreglugerðarinnar sem ekki verði framsend til annars ríkis.

Í máli þessu liggur fyrir að litháísk stjórnvöld hafa viðurkennt skyldu sína til þess að taka við kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, sbr. bréf þess efnis dags. 24. maí 2017. Kærandi sótti um vernd í Litháen þann 2. desember 2011 og liggur fyrir að litháísk stjórnvöld hafa samþykkt beiðni um viðtöku kæranda þrátt fyrir að tölvupóstssamskipti litháískra og íslenskra stjórnvalda beri með sér að Litháen hafi lýst yfir efasemdum um ábyrgð sína vegna 2. mgr. 19. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.

Kærandi byggði m.a. á því við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun að hann hafi dvalið lengur en þrjá mánuði utan Schengen-svæðisins. Kom kærandi þessum athugasemdum á framfæri í viðtali hjá stofnuninni þann 8. júní 2017 og með tölvubréfi dags. 9. júní 2017. Í bréfinu hélt kærandi því fram að hann hefði dvalið í heimaríki í þrjú ár eftir að hann sótti um alþjóðlega vernd í Litháen. Útlendingastofnun óskaði eftir gögnum til stuðnings framangreindri málsástæðu kæranda og lagði kærandi fram ljósmyndir af fjórum opnum úr eldra vegabréfi sínu og stimplum á síðum þess. Stimplar í ljósriti af vegabréfi kæranda gefa til kynna að kærandi hafi í eitt skipti, þann 2. apríl 2014, farið yfir landamæri Spánar og í þrígang yfir landamæri [...], þ.e. dagana 14. júní 2014, 20. október 2014 og 23. janúar 2017. Kærandi lagði fram nýtt vegabréf sitt, útgefið af [...] stjórnvöldum þann 18. apríl 2017, við meðferð málsins hjá íslenskum stjórnvöldum. Í því gefur stimpill til kynna að hann hafi farið yfir landamæri Spánar þann 4. maí 2017 á leið sinni hingað til lands. Við meðferð málsins hjá kærunefnd lagði kærandi fram afrit af gögnum sem hann kveður vera læknisfræðileg gögn frá heimaríki sínu, dagsett á tímabilinu 9. apríl 2014 til 20. apríl 2017, en af þeim gögnum gat kærandi aðeins lagt fram frumrit gagnanna frá apríl 2017. Þá liggur fyrir í málinu að kærandi fékk útgefið dvalarleyfi í Frakklandi árið 2012 en hafi ekki verið í samskiptum við frönsk stjórnvöld frá árinu 2013.

Kærunefnd fór þess á leit við kæranda, með tölvubréfi dags. 17. nóvember 2017, að hann legði fram frumrit eldra vegabréfs og önnur gögn sem væru til þess fallin að varpa ljósi á málsástæðu kæranda. Í tölvubréfi, dags. 4. desember 2017, kom kærandi því á framfæri að hann hafi þurft að fá gefið út nýtt vegabréf í heimaríki þar sem eldra vegabréf hans hafi ekki verið með örgjörva, sem hafi gert það að verkum að kærandi hafi ekki getað ferðast án vegabréfsáritunar. Hann hafi lagt inn eldra vegabréf sitt þegar hann fékk útgefið nýtt vegabréf og hafi því ekki frumrit eldra vegabréfsins undir höndum.

Kærunefnd hefur farið yfir þau gögn sem kærandi hefur lagt fram og er það mat kærunefndar að þær upplýsingar sem fram koma í gögnum kæranda leiði líkur að því að hann hafi verið í heimaríki sínu í apríl 2017. Hins vegar er það mat kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á samfellda dvöl utan Schengen svæðisins lengur en í þrjá mánuði en það hafi staðið kæranda nærri að útvega staðfestingar á dvöl sinni í heimaríki á því tímabili sem hann kveðst hafa dvalið þar. Sérstaklega er litið til þess að kærandi hafi ekki skilað inn frumriti af eldra vegabréfi eða öðrum gögnum sem gefa skýrari mynd af innihaldi þess vegabréfs. Í því sambandi hefur kærunefnd sérstaklega í huga að ljósmyndir sem kærandi kvað vera af eldra vegabréfi sínu af fjórum opnum þess eru einungis hluti blaðsíða vegabréfsins. Þá hafi kærandi ekki lagt fram frumrit af læknisfræðilegum gögnum frá heimaríki á tímabilinu 9. apríl 2014 til 28. október 2016. Í ljósi skorts á frumritum gagna kæranda og öðrum gögnum er sannað gætu dvöl hans í heimaríki á umræddu tímabili er það mat kærunefndar að þau gögn sem kærandi hefur lagt fram við meðferð málsins gefi ekki heildstæða mynd af ferðum hans. Því er það niðurstaða kærunefndar að ákvæði Dyflinnarreglugerðarinnar standi ekki í veg fyrir því að yfirvöld í Litháen verði krafin um að taka við kæranda, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærunefnd telur því skilyrði c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga uppfyllt.

Í 2. mgr. 36. gr. kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Þá er í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga tekið fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því landi sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Við mat á því hvort senda eigi umsækjanda um alþjóðlega vernd til ríkis, sem hefur samþykkt að taka við honum á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, ber stjórnvöldum að leggja sjálfstætt mat á hvort aðstæður þar brjóti gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem kveður á um að enginn maður skuli sæta pyndingum eða ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið lagt til grundvallar að sú meðferð, sem einstaklingur eigi von á, verði að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi til þess að falla undir 3. gr. sáttmálans. Við það mat verði að horfa til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar og í einhverjum tilvikum kyns, aldurs og heilsufars viðkomandi. Þá ber stjórnvöldum að leggja mat á hvort málsmeðferð vegna umsókna um alþjóðlega vernd tryggi umsækjendum raunhæfa leið til að ná fram rétti sínum, sbr. 13. gr. sáttmálans. Í samræmi við framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu skal mat á meðferð umsókna um alþjóðlega vernd og móttöku og aðbúnaði umsækjenda í viðtökuríki taka mið af einstaklingsbundnum aðstæðum í hverju máli.

Nánar um túlkun á 1. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 veitir stjórnvöldum ríkt svigrúm til mats á því hvað felist í sérstökum ástæðum í skilningi ákvæðisins, á hvaða sjónarmiðum skuli byggt við þetta mat og hvert skuli vera vægi þeirra. Stjórnvöld eru þó ávallt bundin af réttmætisreglu stjórnsýsluréttar en af henni leiðir að sjónarmiðin skulu vera málefnaleg. Þá gerir jafnræðisreglan þá kröfu að við úrlausn mála skuli stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti.

Þegar afmarka skal nánar á hvaða málefnalegu sjónarmiðum skuli byggt og vægi þeirra við framangreint mat verður að líta til lagagrundvallar málsins, en í því sambandi er áréttað að heimild ráðherra í 4. mgr. 36. gr. laga um útlendinga hefur ekki verið nýtt til að setja í reglugerð ákvæði um framkvæmd 2. mgr. 36. gr. laganna.

Að mati kærunefndar bendir forsaga ákvæðisins til þess að 1. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga skuli að mestu leyti framkvæma með sambærilegum hætti og 2. mgr. 46. gr. a eldri laga um útlendinga nr. 96/2002 enda var orðalag niðurlags 1. málsl. óbreytt frá eldri lögum. Samkvæmt framkvæmd á grundvelli eldri laga fengu sjónarmið sem varða skilvirkni við meðferð umsókna og mikilvægi samvinnu aðildarríkja Dyflinnarsamstarfsins nokkuð mikið vægi. Við mat sjónarmiða sem tengdust stöðu einstakra umsækjenda var gengið út frá því að ástand og aðstæður í viðtökuríki og fyrri reynsla kæranda þyrftu að vera bæði sérstakar og af ákveðnu alvarleikastigi sem segja má að hafi verið talsvert hátt svo til greina kæmi að beita þágildandi 2. mgr. 46. gr. a eldri laga um útlendinga.

Tilteknar breytingar á framsetningu 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 hafa þó leitt til þess að nefndin hefur talið að veita bæri sjónarmiðum sem tengjast stöðu einstakra umsækjenda aukið vægi í þessu heildarmati. Frá gildistöku laga um útlendinga nr. 80/2016 hefur kærunefnd litið til innra samræmis 36. gr. laga um útlendinga og þeirra breytinga sem voru gerðar á framsetningu 1. mgr. 36. gr. laganna, með hliðsjón af áðurgildandi 1. mgr. 46. gr. a eldri laga um útlendinga svo og þeirra breytinga sem fólust í framsetningu þeirrar reglu sem nú er í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá hefur kærunefnd litið til þeirra lögskýringargagna sem tengdust breytingu á ákvæðinu í meðförum þingsins, n.t.t. nefndaráliti meirihluta þingnefndar og ræðu framsögumanns meirihlutans, en í því sambandi er áréttað að kærunefnd hefur hvorki litið til orðalags ákvæðis 2. mgr. 36. gr. eins og það hljóðaði í upphaflegri mynd frumvarps til laga um útlendinga né athugasemda sem fylgdu ákvæðinu í ljósi þeirra breytinga sem urðu á því ákvæði frumvarpsins í meðförum þingsins. Með vísan til lögskýringargagna hefur kærunefnd litið svo á að það hvort einstaklingur teljist í sérstaklega viðkvæmri stöðu sé eitt af þeim sjónarmiðum sem líta verður til við mat á því hvort sérstakar ástæður séu fyrir hendi í málinu. Við það mat skuli jafnframt bæði litið til aðstæðna einstaklings og aðstæðna og ástands í viðtökuríki. Kærunefnd hefur þó jafnframt lagt nokkra áherslu á forsögu ákvæðisins og litið til þess að ekki hafi verið um að ræða grundvallarbreytingu frá framkvæmd á grundvelli eldri laga um útlendinga að því er varðar vægi hinna kerfislægu sjónarmiða. Í framkvæmd nefndarinnar frá gildistöku laga nr. 80/2016 hefur þetta leitt til þess að málum sem tekin hafa verið til meðferðar á grundvelli sérstakra ástæðna hefur fjölgað lítillega. Þó má segja að skilvirkni umsóknarferlisins og mikilvægi samvinnu aðildarríkja Dyflinnarsamstarfsins hafi áfram vegið þungt í mati nefndarinnar.

Frá gildistöku laga nr. 81/2017 telur kærunefnd rétt að líta til þeirra gagna sem urðu til við meðferð laganna á Alþingi er varða túlkun á 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Hér er um að ræða athugasemdir við frumvarpið, álit meirihluta allsherjar- og menntamálanefndar og framsöguræðu nefndarmanns sem kynnti álitið við 2. umræðu frumvarpsins. Þrátt fyrir að þau lögskýringargögn tengist ekki beint setningu laga um útlendinga nr. 80/2016 eru þau samt sem áður sett fram í tilefni breytinga á inntaki 2. mgr. 36. gr. laganna og því nægilega tengd efni málsgreinarinnar til að hafa áhrif á túlkun hennar.

Í athugasemdum við frumvarpið sem varð að lögum nr. 81/2017 var áréttaður „sá vilji löggjafans að ávallt skuli taka til efnislegrar meðferðar umsóknir um alþjóðlega vernd ef umsækjandi er í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga, líkt og fram kom í athugasemdum við 2. mgr. 36. gr. frumvarps þess sem varð að gildandi lögum um útlendinga.“

Kærunefnd telur að líta verði til þess að álit meirihluta allsherjar- og menntamálanefndar gefur skýrlega til kynna vægi tiltekinna sjónarmiða sem líta eigi til við beitingu ákvæðis 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í því áliti kemur eftirfarandi fram:

Fyrir nefndinni var rætt um texta í greinargerð með frumvarpinu þar sem áréttaður er sá vilji löggjafans að ávallt skuli taka til efnislegrar meðferðar umsóknir um alþjóðlega vernd ef umsækjandi er í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Bent var á að lögskýringargögn væru ekki skýr um þetta atriði og varhugavert geti verið að nýtt þing árétti vilja fyrri þinga án þess að því fylgi breytingar á lögum. Meirihlutinn bendir á að með þessu er áréttað, líkt og fram kom í frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga, nr. 80/2016, að taka skuli til efnislegrar meðferðar umsóknir um alþjóðlega vernd ef umsækjandi hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækt sé að hann fái vernd hér á landi eða ef sérstakar ástæður mæla með því að taka skuli mál til efnismeðferðar. Getur þetta átt við í tilfellum útlendinga sem eiga ættingja á Íslandi en ekki í því landi sem þeir yrðu sendir aftur til. Þetta getur einnig átt við í öðrum tilfellum þar sem tengsl eru ríkari en við viðtökuland, svo sem vegna fyrri dvalar. Með sérstökum aðstæðum er vísað til þess að einstaklingar geta verið í viðkvæmri stöðu sem leiði til þess að þeir muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökulandi svo sem vegna heilsufars, aldurs, þungunar eða mismununar sem viðkomandi einstaklingur verður fyrir sökum kynhneigðar, kynþáttar eða kyns, eða fyrri reynslu einstaklinga, t.d. fórnarlömb mansals, ofbeldis og pyndinga.

Í framsöguræðu við 2. umræðu voru þessi sjónarmið árréttuð og hnykkt á með þeim ummælum að ekki ætti „að vera neinn vafi á því hvað átt sé við með sérstakri stöðu.“

Að mati kærunefndar lýsa þessi lögskýringargögn því með nægilega skýrum hætti bæði þeim sjónarmiðum sem löggjafinn telur að stjórnvöldum beri að beita við mat samkvæmt ákvæðinu og að nokkru leyti vægi sjónarmiðanna. Nefndin telur sjónarmiðin málefnaleg og að þau rúmist innan þess mats sem texti ákvæðisins felur stjórnvöldum, sérstaklega í ljósi þess að reglugerðarheimild skv. 4. mgr. 36. gr. laga um útlendinga hefur ekki verið nýtt.Að mati kærunefndar gefa ummæli í þessum lögskýringargögnum með nægilega skýrum hætti til kynna að viðkvæm staða umsækjanda skuli hafa aukið vægi andspænis sjónarmiðum sem tengjast m.a. skilvirkni við meðferð umsókna og mikilvægis samvinnu aðildarríkja Dyflinnarsamstarfsins. Í ljósi mismunar á orðalagi og inntaki athugasemda í frumvarpi því er varð að lögum nr. 81/2017 og umfjöllun meirihluta allsherjar- og menntamálanefndar um þetta atriði er það þó mat kærunefndar að ekki sé skýrt af lögskýringargögnum að ávallt beri að taka umsóknir frá einstaklingum í sérstaklega viðkvæmri stöðu til efnismeðferðar, þótt ótvírætt sé að það sjónarmið skuli hafa aukið vægi andspænis öðrum sjónarmiðum, sé miðað við þá framkvæmd sem tíðkast hefur fram að þessu. Aftur á móti telur kærunefnd að þegar viðkvæm staða umsækjenda verður að mati stjórnvalda talin leiða til þess að hann muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökulandi svo sem vegna heilsufars, aldurs, þungunar eða mismununar sem viðkomandi einstaklingur verður fyrir sökum kynhneigðar, kynþáttar eða kyns, eða fyrri reynslu einstaklinga, t.d. fórnarlömb mansals, ofbeldis og pyndinga, skuli það sjónarmið hafa mikið vægi við matið. Í þeim tilvikum beri að líta svo á að sérstakar ástæður séu fyrir hendi í málinu og að það skuli almennt tekið til efnismeðferðar.

Greining á sérþörfum sbr. 25. gr. og 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga

Kærandi, sem er [...] ára karlmaður, greindi frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 8. júní 2017 að hann væri [...] sem hann tæki lyf við. Þá sagðist hann þjást af andlegum kvillum í kjölfar ofbeldis í [...]. Kærandi greindi frá því að hann hafi farið á sjúkrahús stuttlega eftir komuna hingað til lands vegna [...]. Á meðan á dvöl hans í Frakklandi stóð hafi hann tekið inn [...] og verið lagður inn á geðdeild [...]. Þá hafi hann orðið fyrir árásum árin [...]. Einnig hafi kærandi undirgengist fjórar aðgerðir m.a. vegna [...]. Kærandi sé þunglyndur, líði illa og þjáist af svefntruflunum. Kærandi hefur leitað læknisaðstoðar reglulega hér á landi og í samskiptaseðli frá Göngudeild sóttvarna, dags. 24. ágúst 2017, kemur fram að kærandi hafi kvartað undan [...] auk þess sem skráð er í samskiptaseðilinn af hjúkrunarfræðingi að [...]. Þá hefur kærandi leitað til sálfræðings hér á landi. Í göngudeildarnótu sálfræðings, dags. 24. ágúst 2017, kemur fram að kærandi [...]. Kærandi kveðst jafnframt vera með [...] og bera gögn málsins með sér að blóðprufa hafi sýnt [...]. Samkvæmt læknisfræðilegum gögnum sem liggja fyrir í máli kæranda hafi hann tekið margvísleg lyf við kvillum sínum.

Það var mat Útlendingastofnunar í ljósi frásagnar kæranda í viðtali og gagna málsins að hann sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Í ljósi framangreindra upplýsingar um andlegt og líkamlegt heilsufar kæranda hefur kærunefnd ekki forsendur til að breyta því mati stofnunarinnar og leggur því til grundvallar að kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu að því er varðar meðferð máls hans hér á landi, enda eru persónulegir eiginleikar hans og aðstæður hans þess eðlis að hann telst hafa sérþarfir sem taka þarf tillit til við meðferð máls hans hér auk þess sem talið verður að hann geti ekki að fullu nýtt sér rétt eða uppfyllt skyldur sem kveðið er á um í lögum um útlendinga án aðstoðar eða sérstaks tillits, sbr. 6. tölul. 3. gr. og 25. gr. laga um útlendinga.

Aðstæður og málsmeðferð í Litháen

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð í Litháen, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

  • Lithuania 2016 Human Rights Report (U.S. Department of State, 3. mars 2017),
  • Amnesty International Report 2016/17 – Lithuania (Amnesty International, 21. febrúar 2017),
  • Freedom in the World 2016 – Lithuania (Freedom House 18. ágúst 2016),
  • Report by Nils Muižnieks, Commissioner for Human Rights of the Council of Europe following his visit to Lithuania from 5 to 9 December 2016 (Commissioner for Human Rights, 16. janúar 2014),
  • Country Factsheet: Lithuania 2016 (European Migration Network, 2016),
  • Health Systems in Transition. Lithuania: Health System Review 2013 (European Observatory on Health Systems and Policies, a partnership hosted by the World Health Organisation (WHO), 2013),
  • Vefsíða útlendingastofnunar Litháen, www.migracija.lt (sótt 12. janúar 2017),
  • Vefsíða innanríkisráðuneytis Litháen, www.vrm.lrv.lt (sótt 12. janúar 2017).

Litháen fullgilti flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna þann 28. apríl 1997. Ríkið gerðist aðili að Evrópusambandinu þann 1. maí 2004 og hefur innleitt tilskipanir sambandsins um meðferð og móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd. Þá eru viðmiðanir um veitingu alþjóðlegrar verndar lögfestar í litháískum rétti og fram fer kerfisbundið mat á því hvort umsækjandi sé í viðkvæmri stöðu. Umsækjendur um alþjóðlega vernd fá inni í móttökumiðstöðvum þar sem þeir fá máltíðir og fatnað eftir þörfum, auk vasapeninga. Alþjóðlegar stofnanir og félagasamtök hafa þó gagnrýnt litháísk yfirvöld fyrir að láta umsækjendur um alþjóðlega vernd sæta varðhaldsvist í of ríkum mæli. Í kjölfar fyrrgreindrar gagnrýni hefur verið bætt úr þessu vandamáli að miklu leyti. Börn sæta ekki varðhaldi og fara þarf fram mat á því hvort einstaklingur sem til greina kemur að sæti varðhaldsvist sé í viðkvæmri stöðu. Þá er lögð áhersla á meðalhóf í beitingu varðhaldsvistar ef hennar er þörf.

Útgjöld til heilbrigðismála í Litháen hafa aukist jafnt og þétt á síðastliðnum árum og er það í samræmi við það sem gengur og gerist í nágrannalöndum Litháens sem jafnframt eru aðilar að Evrópusambandinu, þó að það séu lægri útgjöld en tíðkast víða í löndum Vestur-Evrópu. Heilbrigðiskerfið er að mestu leyti fjármagnað með skattgreiðslum almennings í heilbrigðistryggingasjóð (e. National Health Insurance Fund) og er þátttaka í heilbrigðistryggingakerfinu skyldubundin. Útgjöld notenda þjónustunnar eru þó að jafnaði um 27% af heildarkostnaði og lyfjakostnaður er ekki niðurgreiddur nema að takmörkuðu leyti. Ákveðnir hópar fá þó endurgreiddan lyfjakostnað vegna ávísaðra lyfja frá lækni, þ.á m. börn, ellilífeyrisþegar og fatlað fólk, svo og einstaklingar með ákveðna sjúkdóma, þ.á m. [...]. Samkvæmt litháískum lögum eiga flóttamenn og umsækjendur um alþjóðlega vernd rétt á heilbrigðisþjónustu.

Samkvæmt lögum um réttarstöðu útlendinga sem gilda í Litháen eiga umsækjendur um alþjóðlega vernd rétt á búsetu í skráningarmiðstöð fyrir útlendinga eða flóttamannamiðstöð og geta nýtt sér þá þjónustu sem þar er boðið upp á. Sú þjónusta felst m.a. í lögfræðiaðstoð, túlkaþjónustu, nauðsynlegri heilbrigðis- og félagsþjónustu. Útlendingastofnun Litháens tekur ákvörðun í málum umsækjenda um alþjóðlega vernd og hægt er að áfrýja synjun til svæðisdómstólsins í Vilnius innan tveggja vikna. Í Litháen setur mál umsækjanda um alþjóðlega vernd sem koma frá öruggum ríkjum í flýtimeðferð. Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu útlendingastofnunar Litháens telst öruggt ríki m.a. vera upprunaríki þar sem stjórnkerfið er með þeim hætti að einstaklingar eru ekki ofsóttir vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að ákveðnum þjóðfélagshópi eða stjórnmálaskoðana og enginn er pyntaður eða látinn þola vanvirðandi eða ómannúðlega meðferð og slíkar aðferðir eru ekki notaðar í refsingarskyni. Þar sem grundvallarmannréttindi eru virt og frelsi ekki skert. Einnig sé flýtimeðferð beitt í þeim tilvikum sem umsókn um alþjóðlega vernd er bersýnilega tilhæfulaus. Sú meðferð felur í sér að umsóknir eru teknar til efnislegrar umfjöllunar og ákvörðun tekin í máli viðkomandi umsækjanda innan tveggja sólarhringa þó heimilt sé að lengja málsmeðferðina ef svo ber undir.

Athugun kærunefndar á aðstæðum umsækjenda um alþjóðlega vernd í Litháen hefur ekki leitt í ljós gögn sem gefa tilefni til að líta svo á að aðstæður eða móttökuskilyrði þeirra þar í landi séu þess eðlis að hætta sé á að endursending umsækjenda um alþjóðlega vernd til Litháens brjóti í bága við 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Samkvæmt tölvupósti frá innanríkisráðuneyti Litháens, dags. 9. febrúar 2017, fá [...] umsækjendur um alþjóðlega vernd hefðbundna málsmeðferð, þ.á m. viðtal og mat á einstaklingsbundnum grundvelli. Enn fremur benda öll gögn til þess að umsækjendum um alþjóðlega vernd séu tryggð úrræði til að leita réttar síns í Litháen bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá er haft til hliðsjónar að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur ekki lagst gegn endursendingu umsækjenda um alþjóðlega vernd til Litháen á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.

Einstaklingsbundnar aðstæður kæranda

Ljóst er að kærandi er karlmaður sem á við líkamleg og andleg veikindi að stríða. Eins og áður hefur komið fram leggur kærunefnd til grundvallar að kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga við meðferð máls hans hér á landi. Af framangreindum gögnum sem kærunefnd hefur aflað og kynnt sér um aðstæður og aðbúnað umsækjenda um alþjóðlega vernd í Litháen má ráða að samkvæmt litháískum lögum er umsækjendum tryggður aðgangur að nauðsynlegri heilbrigðis- og félagsþjónustu sem þeir þurfa á að halda. Þá greindi kærandi frá því að hann hafi haft aðgang að heilbrigðiskerfinu í Litháen og fengið lyf. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur skoðað um heilbrigðiskerfið í Litháen er það mat nefndarinnar að ekki séu forsendur til annars en að leggja til grundvallar í málinu að sú heilbrigðisþjónusta sem kærandi hafi aðgang að í Litháen sé fullnægjandi miðað við þá heilbrigðisþjónustu sem kæranda stendur til boða hér á landi.

Þrátt fyrir andlega og líkamlega heilsu kæranda er það mat kærunefndar að framangreind gögn um heilsufar hans beri ekki með sér að flutningur hans til Litháen muni hafa slíkar verulegar og óafturkræfar afleiðingar á heilsu hans að líta verði svo á að fyrir hendi séu sérstakar ástæður í máli hans, eða að vegna flutningsins muni hann eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki. Við þetta mat hefur kærunefnd litið til þess að gögn málsins beri með sér að kærandi hafi strítt við andlega og líkamlega erfiðleika um nokkurt skeið og fengið heilbrigðisþjónustu við hæfi í Litháen. Þá verður ekki séð af gögnum máls að kærandi sé í meðferð við veikindum sínum hér á landi sem óæskilegt sé að rjúfa. Kærunefnd telur aðstæður kæranda ekki slíkar, að því er varðar heilsu hans, að hann muni eiga erfitt uppdráttar í Litháen vegna þeirra. Kærunefnd beinir því hins vegar til Útlendingastofnunar að fyrir flutning kæranda til Litháens verði litháísk stjórnvöld upplýst um heilsufar kæranda í samræmi við 32. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.

Af framangreindum gögnum um aðstæður í Litháen verður jafnframt ráðið að verði kærandi fyrir mismunun á grundvelli þjóðernis geti hann leitar ásjár litháískra yfirvalda vegna þess. Því er það mat kærunefndar að fyrirliggjandi gögn beri ekki með sér að kærandi muni eiga erfitt uppdráttar í Litháen vegna stöðu umsóknar hans þar eða mismununar sem hann kunni að verða fyrir sökum þjóðernis.

Í ljósi aðstæðna í Litháen og að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda er það því mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæli með því að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 8. júní 2017 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hann lagði fram umsókn sína þann 9. maí 2017.

Reglur stjórnsýsluréttar

Líkt og fram hefur komið gerir kærandi athugasemd við rannsókn Útlendingastofnunar með vísan til rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga. Kærandi telur að rannsókn Útlendingastofnunar hafi verið ábótavant þar sem ákvörðunin hafi m.a. verið tekin á grundvelli ófullnægjandi gagna.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því og afla í því skyni nauðsynlegra upplýsinga. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Um frekari afmörkun á hversu ítarlega beri að rannsaka mál, ber m.a. að líta til þess hversu mikilvægt það er. Því tilfinnanlegri eða meira íþyngjandi sem stjórnvaldsákvörðun er, þeim mun strangari kröfur verður að gera til rannsóknar á þeim atvikum sem leiða til niðurstöðunnar. Við meðferð máls kæranda hjá Útlendingastofnun lágu fyrir komunótur frá Göngudeild sóttvarna frá tímabilinu 17. maí til 6. september 2017 og tvær skýrslur með upplýsingum um heilsufar kæranda frá heimaríki hans dags. 19. og 20. apríl 2017. Er það mat kærunefndar að í ljósi þeirra læknisfræðilegu gagna sem lágu fyrir við töku ákvörðunar í máli kæranda hjá Útlendingastofnun hafi stofnuninni ekki borið að afla frekari heilsufarsupplýsinga. Þá verður lesið af ákvörðun Útlendingastofnunar að stofnunin hafi lagt mat á þau gögn sem kærandi lagði fram, til sönnunar þess að hann hafi verið utan Schengen-svæðisins lengur en þrjá mánuði, en ekki tekið gögnin gild sem sönnun þess efnis. Þá fór stofnunin þess á leit við kæranda að hann legði fram frumrit af eldra vegabréfi sínu en kærandi kvaðst ekki geta orðið við þeirri beiðni. Er það því mat kærunefndar að næg gögn hafi legið til grundvallar við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun. Kærunefnd útlendingamála hefur farið yfir öll gögn varðandi mál kæranda og komist að þeirri niðurstöðu að rannsókn Útlendingastofnunar hafi verið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga. Í því sambandi er tekið fram að kærunefnd hefur komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun í málinu. Er það afstaða kærunefndar að ekkert bendi til þess að slíkur ágalli hafi verið á rökstuðningi niðurstöðu ákvörðunar Útlendingastofnunar þannig að fella beri ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi.

Samantekt

Í máli þessu hafa litháísk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda kæranda til Litháen með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er því staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Anna Tryggvadóttir

 

Erna Kristín Blöndal                                                                             Þorbjörg Inga Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta