Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 225/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 225/2017

Miðvikudaginn 19. júlí 2017

A

gegn

skipuðum umsjónarmanni

B

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Þann 9. júní 2017 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A. Kærð var ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, B, sem tilkynnt var með bréfi 12. apríl 2017, þar sem umsjónarmaður mælti gegn því að nauðasamningur kæmist á með vísan til 18. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Samkvæmt gögnum málsins tók kærandi á móti ákvörðun umsjónarmanns 30. maí 2017.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 14. desember 2016 var kæranda veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hennar. Tveir umsjónarmenn hafa komið að máli kæranda en núverandi umsjónarmaður var skipaður 3. febrúar 2017.

Í hinni kærðu ákvörðun umsjónarmanns kemur fram að frumvarp til greiðsluaðlögunarsamnings hafi verið sent kröfuhöfum 10. febrúar 2017. Andmæli gegn frumvarpinu hafi borist frá Landsbankanum hf. Þau hafi meðal annars lotið að því að kærandi hefði farið í tvær utanlandsferðir, aðra í nóvember 2016, örfáum dögum áður en hún sótti um greiðsluaðlögun, og hina í desember 2016. Kærandi hefði einnig keypt evrur fyrir 149.784 krónur hinn X desember 2016. Þá séu fyrir hendi úttektir af reikningi hennar erlendis X nóvember 2016 og á tímabilinu X X desember 2016, alls að fjárhæð 216.932 krónur. Velta á bankareikningi kæranda á árinu 2016 og fram til 6. mars 2017 hafi verið 5.976.497 krónur en þar af 1.777.805 krónur síðustu fjóra mánuði.

Í kjölfar andmælanna hafi umsjónarmaður óskað eftir gögnum um sölu á fasteign kæranda en hún seldi eignina X ágúst 2016. Samkvæmt upplýsingum frá fasteignasölu hafi fasteign kæranda verið seld fyrir 20.500.000 krónur. Áhvílandi skuldir hafi verið 14.163.891 króna og því hafi staðið eftir 6.336.109 krónur. Af uppgjöri frá fasteignasölunni hafi mátt ráða að hluta af þeim peningum hefði verið ráðstafað til greiðslu lögveða, sölulauna og þinglýsingarkostnaðar. Einnig hefðu verið greidd lán og tannlæknakostnaður. Greiðslur þessar hafi samtals numið 1.975.507 krónum. Eftirstöðvar kaupverðs, 4.446.508 krónur, hefðu verið greiddar inn á bankareikning X ára [barns] kæranda í þremur greiðslum; X ágúst 2016, Xoktóber 2016 og Xnóvember 2016.

Umsjónarmaður hafi óskað eftir skýringum frá kæranda varðandi greiðslur inn á reikning [barns] hennar. Einnig hafi verið óskað upplýsinga um hvernig söluandvirði íbúðar kæranda hefði verið ráðstafað. Loks hafi verið óskað upplýsinga um utanlandsferðir kæranda í lok árs 2016 og hvernig þær hefðu verið fjármagnaðar. Kærandi hafi greint frá því að því fé sem hefði verið umfram veðsetningu íbúðarinnar hefði að mestum hluta verið varið til að greiða lausaskuldir og kostnað af sölunni. Þá hefði nokkur kostnaður hlotist af flutningum kæranda í minni íbúð en hún hefði þurft að kaupa ný húsgögn að hluta til, greiða leigu o.fl. Að því er varðaði utanlandsferðir, hefði verið um að ræða ferð er systkini kæranda hefðu gefið móður sinni í afmælisgjöf. Ákveðið hafði verið að kærandi færi með í ferðina sökum veikinda og andlegs ásands móður þeirra. Kærandi hafi lagt út fyrir sínum hluta en systkini hennar hefðu endurgreitt henni.

Eftir frekari samskipti við kæranda hafi umsjónarmaður tilkynnt henni að samningar samkvæmt IV. kafla lge. myndu ekki takast. Kærandi hafi aðspurð greint umsjónarmanni frá því 3. apríl 2017 að hún vildi leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar.

Í kjölfar skoðunar málsins taldi umsjónarmaður sig ekki geta mælt með því að nauðasamningur til greiðsluaðlögunar á grundvelli 18. gr. lge. kæmist á. Með bréfi 12. apríl 2017 tilkynnti umsjónarmaður kæranda um þá ákvörðun sína að mæla gegn slíkum samningi.

II. Sjónarmið skipaðs umsjónarmanns

Í hinni kærðu ákvörðun umsjónarmanns kemur fram að við mat á því hvort mæla skuli með því að nauðasamningur komist á skuli meðal annars litið til þess hvort nokkuð hafi komið fram sem í öndverðu hefði átt að standa í vegi greiðsluaðlögunar, hvort skuldari leiti eftirgjafar umfram það sem eðlilegt megi telja í ljósi fjárhags hans og framtíðarhorfa, hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum samkvæmt 12. gr. lge. og staðið að öðru leyti heiðarlega að verki við umleitanir til greiðsluaðlögunar, hvort raunhæft sé að hann muni geta staðið við skuldbindingar sínar að fenginni greiðsluaðlögun og hvert sé viðhorf þeirra lánardrottna sem hafi látið málið til sín taka.

Kærandi hafi lagt söluhagnað af íbúð sinni inn á bankareikning X ára [barns] hennar. Fram komi í 131. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 (gþl.) að krefjast megi riftunar á gjafagerningi ef gjöfin var afhent á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Í 2. mgr. 2. gr.laganna sé fjallað um frestdag. Í ákvæðinu komi fram að frestdagur sé sá dagur sem héraðsdómara berist meðal annars beiðni um heimild til greiðslustöðvunar, heimild til að leita nauðasamnings eða krafa um gjaldþrotaskipti. Embætti umboðsmanns skuldara hafi litið svo á að við beitingu e-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. beri að miða frestdag við þann dag er umsókn um greiðsluaðlögun sé móttekin. Þar sem umsókn kæranda hafi verið móttekin 18. nóvember 2016 teljist sá dagur frestdagur.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi verið þinglýstur eigandi fasteignarinnar að C. Samkvæmt kaupsamningi hafi söluverð eignarinnar verið 20.500.000 krónur. Áhvílandi veðskuldir hafi numið 14.163.891 krónu og eftir hefðu því staðið 6.336.109 krónur. Af þeirri fjárhæð hafi verið greidd lögveð og aðrar skuldir samtals að fjárhæð 1.975.507 krónur. Að frádregnum kostnaði við söluna hafi kærandi átt eftir 4.446.508 krónur og hafi sú fjárhæð verið greidd í þremur greiðslum inn á reikning [barns] kæranda.

Í ágúst 2016 hafi greiðslugeta kæranda verið 21.628 krónur. Í nóvember 2016 hafi greiðslugetan verið 37.990 krónur. Heildarskuldir hafi verið 5.607.120 krónur. Þrátt fyrir lítillega jákvæða greiðslugetu miðað við framfærslukostnað liggi engu að síður fyrir að kærandi hafi ekki að öllu leyti getað staðið í skilum á gjalddaga. Það sé því mat umsjónarmanns að kærandi hafi skert eignir sínar með því að ráðstafa fjármunum með þeim hætti sem hún gerði, móttakandinn hafi auðgast og tilgangurinn hafi verið að gefa. Þessi háttsemi kæranda fari í bága við e-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Einnig telur umsjónarmaður að kærandi hafi brotið gegn f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Kærandi hafi lagt fram reikninga til skýringar á ráðstöfun þess fjár sem hún hafi átt afgangs vegna sölu á fasteign sinni, að frátöldum þeim reikningum sem fasteignasalan sá um að greiða. Þessir reikningar nemi samtals 2.033.984 krónum og séu að mestu vegna kostnaðar sem falli innan framfærsluviðmiða umboðsmanns skuldara svo sem samskiptakostnaðar og kostnaðar vegna kaupa á matvælum bensíni, o.fl. Hluti fjármunanna hafi á hinn bóginn verið nýttur í annað, meðal annars í viðgerð á glugga, umfelgun á bifreið og til kaupa á húsbúnaði, o.fl. Alls hafi sá kostnaður numið 596.546 krónum. Þrátt fyrir að tekið sé tillit til hans sé ljóst að kærandi hefði getað nýtt það fé sem eftir stóð til að greiða af skuldum sínum en það hafi hún ekki gert.

Kærandi hafi lagt fram umsókn um greiðsluaðlögun 28. nóvember 2016. Samkvæmt upplýsingum frá Landsbankanum hafi hún keypt gjaldeyri fyrir 149.784 krónur Xnóvember 2016. Jafnframt séu úttektir erlendis af reikningi hennar að fjárhæð 212.932 krónur frá Xnóvember og á tímabilinu XtilXdesember 2016.

Það sé mat umsjónarmanns að kærandi hafi brotið gegn f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. með því að standa ekki í skilum með skuldbindingar sínar eftir því sem henni hafi framast verið unnt. Jafnframt sé það mat umsjónarmanns að það hafi verið verulega ámælisvert af hálfu kæranda að nýta fjármuni sína til ferðalaga erlendis svo skömmu áður en hún lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun og aftur áður en umsókn hennar var samþykkt. Þess í stað hefði kærandi átt að greiða af skuldum sínum eftir því sem henni hafi framast verið unnt.

Með vísan til framangreinds sjái umsjónarmaður sér ekki annað fært en að mæla gegn því að nauðasamningur til greiðsluaðlögunar komist á, sbr. 2. mgr. 18. gr. lge.

III. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að úrskurðarnefndin snúi við ákvörðun umsjónarmanns og mæli með leitun nauðasamninga til að kærandi geti fengið úrlausn sinna mála hvað skuldir varði.

Kærandi vísar til þess að undanfarin tvö ár hafi verið henni erfið. X [börn] hennar hafi verið í neyslu með tilheyrandi áhyggjum. [Barn hennar] hafi skyndilega látist X 2015. Kærandi sé enn að vinna úr því mikla áfalli að missa barn.

Kærandi hafi áður leitað til umboðsmanns skuldara og fengið tillögu að samningi um að selja íbúð sína til að greiða upp skuldir. Þá hefði hún staðið eftir með 500.000 krónur til að hefja nýtt líf. Á þeim tíma hafi fólk sem stóð kæranda nærri hvatt hana til að draga sig út úr samningaferlinu hjá umboðsmanni sem hún hafi gert. Í kjölfarið hafi kærandi ákveðið að selja íbúð sína sjálf. Íbúðin hafi selst í ágúst 2016. Þetta haust hafi kærandi verið í ferli á göngudeild geðdeildar og í viðtölum hjá sálfræðingum. Í nóvember 2016 hafi kærandi fengið greiðslu fyrir íbúðina. Á þessum tíma hafi hún talið að best væri að nýta þessa peninga til að hún og [yngsta barn] hennar gætu byrjað nýtt líf í nýrri íbúð. Kærandi hafi átt um 4.500.000 krónur eftir að hún hafi gert upp lausaskuldir. Þessi fjárhæð hafi verið lögð inn á reikning [barns] kæranda en þar af hafi rúmar 2.000.000 króna farið til þess að koma þeim upp leiguhúsnæði, greiða tryggingu og kaupa húsgögn sem hafi passað inn í minni íbúð. Þessi peningur sé í raun ekki til en hann hafi verið notaður til að sjá þeim farborða, greiða fyrir sálfræðiaðstoð, sjúkraþjálfun, lyf fyrir þau [...] og ýmislegt til að hjálpa þeim að vinna úr sorginni.

Í nóvember 2016 hafi kærandi farið í „stelpuferð“ með vinkonum sínum. Hennar nánustu hafi ráðlagt henni að fara í þessa ferð til að breyta um umhverfi og koma sér upp úr þunglyndinu sem hún hafi átt við að etja en á þessum tíma hafi hún verið farin að íhuga að taka eigið líf. Í desember 2016 hafi kærandi farið í aðra ferð og nú með [barni sínu] og móður til að heimsækja ættingja í D. Sú ferð hafi átt að vera gjöf til móður kæranda frá systkinum hennar. Systkini kæranda hafi ætlað að standa straum af kostnaði við ferðina en kærandi átti að leggja út fyrir henni. Talið hafi verið gott fyrir kæranda að fara í þessa ferð svo að þau gætu gert eitthvað saman og átt góðar stundir. Systkini kæranda eigi eftir að greiða henni ferðina til baka og kærandi viti ekki hvenær það verði.

Kærandi kveðst ekki hafa verið með rétta hugsun á þessum tíma og kannski enga hugsun á tímabili. Hún hafi jafnan verið andlega fjarverandi og gert eins og henni hafi verið sagt. Allt sem á undan hafði gengið hafi tekið mjög á kæranda og hún hafi verið hrædd við að lenda á götunni með [barn sitt]. Hún hafi í raun gert það sem hún hafi getað til að komast af.

Í dag valdi fjárhagsáhyggjur kæranda miklum kvíða. Það sé henni mikilvægt í bataferlinu að fá niðurstöðu og aðstoð með að koma þeim málum í horf.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umsjónarmanns er byggð á 18. gr. lge. Í 1. mgr. lagagreinarinnar er kveðið á um að hafi samningur um greiðsluaðlögun samkvæmt ákvæðum IV. kafla laganna ekki tekist þá geti skuldari lýst því yfir við umsjónarmann að hann vilji leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar eða greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

Umsjónarmaður skal þá innan tveggja vikna taka rökstudda afstöðu til þess í skriflegri greinargerð hvort hann mæli með því að nauðasamningur eða greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna komist á, en áður skal hann gefa skuldaranum kost á að endurskoða frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun í ljósi athugasemda sem lánardrottnar gerðu við það. Við mat á því hvort mælt sé með að nauðasamningur eða greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna komist á skal umsjónarmaður meðal annars líta til þess hvort nokkuð hafi komið fram sem í öndverðu hefði átt að standa í vegi greiðsluaðlögunar, hvort skuldari leiti eftirgjafar umfram það sem eðlilegt megi telja í ljósi fjárhags hans og framtíðarhorfa, hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum samkvæmt 12. gr. og staðið að öðru leyti heiðarlega að verki við umleitanir til greiðsluaðlögunar, hvort raunhæft sé að hann muni geta staðið við skuldbindingar sínar að fenginni greiðsluaðlögun og hvert sé viðhorf þeirra lánardrottna sem látið hafa umleitanir til hennar til sín taka.

Umsjónarmaður mælir gegn því að nauðasamningur komist á þar sem kærandi hafi brotið gegn e-lið 2. mgr. 6. gr. lge. með því að gera ráðstafanir sem riftanlegar hefðu verið við gjaldþrotaskipti. Einnig hafi kærandi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem henni hafi framast verið unnt samkvæmt f-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Regla e-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. vísar um efni sitt til riftunarreglna gjaldþrotaréttar en þær eru í XX. kafla gþl. Þau sjónarmið sem þar búa að baki varða jafnræði kröfuhafa og er gengið út frá því að möguleiki kröfuhafa á fullnustu krafna sinna aukist við endurgreiðslu í kjölfar riftunar. Með öðrum orðum þarf hin riftanlega ráðstöfun að hafa orðið þrotabúi, þ.e. kröfuhöfum kæranda í þessu tilviki, til tjóns.

Að því er varðar mál þetta kemur 131. gr. gþl. til skoðunar, en í henni koma fram reglur um riftun gjafagerninga. Reglu 131. gr. gþl. er beint gegn því að ráðstöfun verðmæta sé að einhverju leyti eða öllu á kostnað kröfuhafa gefandans. Gjafahugtak 131. gr. gþl. hefur meðal annars verið talið fela það í sér að gjöfin rýri eignir skuldara og að gjöfin leiði til eignaaukningar hjá móttakanda.

Samkvæmt 1. mgr. 131. gr. gþl. er almenna reglan sú að riftunar má krefjast á gjafagerningi ef gjöfin var afhent á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Hér verður að miða við að frestdagur sé sá dagur sem umsókn um greiðsluaðlögun er lögð fram en kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 28. nóvember 2016.

Samkvæmt gögnum málsins seldi kærandi íbúð sína að C, X ágúst 2016. Söluverðið var 20.500.000 krónur. Þegar áhvílandi lán hafði verið greitt stóðu eftir 6.579.513 krónur. Hluta þess fjár notaði kærandi til að greiða kostnað í tengslum við söluna og áhvílandi lögveðskröfur alls að fjárhæð 1.126.547 krónur. Einnig greiddi kærandi skuldir sem voru ekki tryggðar með veði í eigninni, nánar tiltekið tannlæknakostnað, lán hjá D hf. og lán hjá E, samtals að fjárhæð 1.006.458 krónur.

Eftirstöðvarnar voru 4.446.508 krónur en C ehf. greiddi þá fjárhæð í neðangreindum þremur hlutum inn á bankareikning [barns] kæranda sem var X ára á þeim tíma er [það] fékk greiðslurnar:

Dags. Fjárhæð
15.8.2016 348.204
3.10.2016 2.983.351
1.11.2016 1.114.953
Samtals 4.446.508

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum voru engir fjármunir af söluandvirðinu greiddir til kæranda sjálfrar. Rúmum þremur mánuðum eftir að fyrsta greiðsla barst inn á reikning [barns] kæranda fór hún fram á fá heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Að mati úrskurðarnefndarinnar verður að líta svo á að kærandi hafi látið greiða fyrrnefndar 4.446.508 krónur inn á bankareikning [barns] síns í þeim tilgangi að koma peningunum undan kröfuhöfum, enda greindi hún frá því í umsókn um greiðsluaðlögun að hún ætti ekkert upp í skuldir. Þannig hefur kærandi rýrt eignir sínar með því að auka við eignir hins ófjárráða [barns]. Þessi ráðstöfun kæranda var með þeim hætti á kostnað kröfuhafa hennar og uppfyllir þau skilyrði að vera riftanleg samkvæmt framangreindum lagaákvæðum. Fellst úrskurðarnefndin því á mat umsjónarmanns að ráðstöfun kæranda hafi brotið gegn ákvæði e-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Þá vísar umsjónarmaður til þess að kærandi hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem henni hafi framast verið unnt samkvæmt f-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt fyrirliggjandi drögum að frumvarpi til greiðsluaðlögunarsamnings eru skuldir kæranda alls 5.607.120 krónur og falla allar innan greiðsluaðlögunar samkvæmt 1. mgr. 3. gr. lge. Skuldirnar eru allar samningskröfur og verða að mestu leyti raktar til notkunar greiðslukorta, skuldabréfa- og yfirdráttarlána, auk skuldar vegna bílasamnings.

Eins og rakið hefur verið greiddi kærandi samningskröfur að fjárhæð 1.006.458 krónur þegar hún seldi fasteign sína. Samkvæmt gögnum málsins greiddi hún hvorki né samdi um aðrar skuldir þrátt fyrir að hún hefði til ráðstöfunar 4.446.508 krónur af söluandvirði fasteignarinnar. og hefði með því getað staðið enn frekar við skuldbindingar sínar. Að mati úrskurðarnefndarinnar braut kærandi með þessari háttsemi gegn f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Úrskurðarnefndin fellst því jafnframt á sjónarmið umsjónarmanns hvað þetta varðar.

Með vísan til þess sem komið hefur fram er hin kærða ákvörðun umsjónarmanns um að mæla gegn nauðasamningi kæranda, samkvæmt 18. gr., sbr. e- og f-liði 2. mgr. 6. gr. lge., staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, B, um að mæla gegn nauðasamningi til greiðsluaðlögunar fyrir A, er staðfest.

Lára Sverrisdóttir

Sigríður Ingvarsdóttir

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta