Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 39/2011

Föstudagurinn 11. janúar 2013

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Einar Páll Tamimi formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Kristrún Heimisdóttir.

Þann 14. júlí 2011 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi og barst kærendum 8. júlí 2011, þar sem umsókn þeirra um eignaráðstöfun samkvæmt lögum um tímabundið úrræði einstaklinga sem eiga tvær fasteignir til heimilisnota, nr. 103/2010, var hafnað.

Með bréfi, dags. 10. ágúst 2011, óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara og barst hún með bréfi, dags. 17. ágúst 2011.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi, dags. 25. ágúst 2011. Frestur til að koma að athugasemdum var veittur 7. desember 2011. Athugasemdir bárust frá kærendum 22. maí 2012. Voru athugasemdir kærenda sendar umboðsmanni skuldara með bréfi, dags. 18. júní 2012, sem skilaði inn framhaldsgreinargerð með bréfi, dags. 21. júní 2012.

 

I. Málsatvik

Þann 29. júní 2011 lá fyrir umsókn kærenda um tímabundið úrræði fyrir eigendur tveggja fasteigna samkvæmt lögum nr. 103/2010. Þar kemur fram að kærendur voru fyrst búsett í íbúð að C götu nr. 65, sveitarfélaginu D. Sú eign var keypt 1999 og eru kærendur báðir 50% þinglýstir eigendur. Árið 2007 ákváðu kærendur að stækka við sig og festu þá kaup á E götu nr 4, sveitarfélaginu D, og eru kærendur báðir 50% þinglýstir eigendur að eigninni. Ekki náðist hins vegar að selja eignina að C götu nr. 65.

Haustið 2009 missti B vinnu sína og A missti sína vinnu í byrjun árs 2010. Í kjölfarið fluttu þau til Noregs þar sem B fékk starf. Fluttu þau bæði lögheimili sitt til Noregs.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara var umsókn kærenda um eignaráðstöfun samkvæmt lögum nr. 103/2010 hafnað á grundvelli 1. tölul. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 103/2010.

 

II. Sjónarmið kærenda

Í gögnum kærenda kemur fram að kærendur hafi ákveðið að kaupa fasteignina að E götu nr. 4 til þess að stækka við sig. Á þeim tímapunkti hafi fjárhagslegar aðstæður þeirra verið mjög góðar. Sala á C götu nr. 65 gekk hins vegar ekki eftir, höfðu þau meðal annars samþykkt kauptilboð í eignina en væntanlegur kaupandi stóð ekki við kauptilboðið. Hafi þau því setið uppi með eignirnar tvær.

Kærendur urðu bæði atvinnulaus, B haustið 2009 og A í byrjun árs 2010. B bauðst starf á sínu sviði í Noregi og þáði það til þess að tryggja framfærslu fjölskyldunnar. Fluttu þau lögheimili sitt til Noregs, en A tókst ekki að finna sér vinnu þar úti. Segja kærendur að A hafi af þeirri ástæðu flutt lögheimili sitt aftur að E götu nr. 4, sveitarfélaginu D, og vísa í afrit flutningstilkynningar þess efnis sér til stuðnings.

Telja kærendur því að höfnun umboðsmanns skuldara á umsókn sinni eigi ekki lengur við og að fella beri ákvörðunina úr gildi.

Telja kærendur jafnframt að í ákvörðun umboðsmanns skuldara sé með öllu litið framhjá því hver sé tilgangur ákvæðis 2. mgr. 3. gr. laga nr. 103/2010. Telja kærendur að með ákvæðinu sé verið að koma í veg fyrir að fasteignir sem ekki hafi verið keyptar til heimilisbúsetu skuldara falli undir úrræðið. Það eigi ekki við í þeirra tilviki og að þau uppfylli öll þau skilyrði sem sett eru í lögum. Er það skoðun kærenda að þótt B hafi þegið tímabundið vinnu erlendis breyti það því ekki að fjölskyldan muni búa í þeirri eign sinni sem ekki verði ráðstafað til kröfuhafa.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram einstaklingur sem greiði fasteignaveðkröfur af tveimur fasteignum, vegna kaupa á fasteign sem ætluð hafi verið til að halda heimili í, geti óskað eftir að ráðstafa annarri eigninni til veðhafa. Miðað sé við það að hann hafi fest kaup á eign á tímabilinu 1. janúar 2006 til 1. nóvember 2008 og átt aðra á sama tíma sem hann hafi ekki selt, enda hafi þær báðar verið óslitið í hans eigu. Þá er jafnframt sett það skilyrði að sá sem óski eignaráðstöfunar sé þinglýstur eigandi beggja fasteigna, hafi forræði á fé sínu, hafi skráð lögheimili í annarri fasteigninni og haldi heimili sitt þar. Þá er enn fremur skilyrði að samanlögð uppreiknuð veðstaða beggja fasteignanna nemi að lágmarki 75% af samanlögðu markaðsvirði þeirra.

Við mat á því hvort veita skuli einstaklingum heimild til að ráðstafa annarri af tveimur fasteignum sínum til veðhafa beri umboðsmanni skuldara að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geti í veg fyrir að eignaráðstöfun verði samþykkt, sbr. 1.-6. tölul. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 103/2010.

Í 1. tölul. 2. mgr. 3. gr. laganna kemur meðal annars fram að hafna beri umsókn ef skilyrðum 2. gr. laganna er ekki fullnægt. Samkvæmt 3. mgr. 2. gr. laganna er það gert að skilyrði að sá sem óski eignaráðstöfunar skuli hafa lögheimili í annarri fasteigninni og halda heimili sitt þar. Bendir umboðsmaður skuldara á að þegar ákvörðun í máli kærenda var tekin hafi legið fyrir að kærendur ættu skráð lögheimili að X götu, Noregi. Þau hafi því ekki uppfyllt skilyrði 2. mgr. 3. gr., sbr. 3. mgr. 2. gr. laganna, um að eiga skráð lögheimili í annarri fasteign sinni og halda þar heimili. Yrði því ekki komist hjá því að hafna umsókn kærenda um eignaráðstöfun á grundvelli 1. tölul. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 103/2010.

Í greinargerð sinni bendir umboðsmaður á að með kærugögnum kærenda hafi fylgt ljósrit flutningstilkynningar frá Noregi til Íslands fyrir kærandann A, dags. 11. júlí 2011. Tilkynningin hafi hins vegar ekki verið stimpluð af þar til bærum stjórnvöldum og engin skráning um færslu lögheimilis hafi farið fram hjá Þjóðskrá þegar greinargerð umboðsmanns skuldara var rituð þann 17. ágúst 2011.

Í framhaldsgreinargerð sinni tekur umboðsmaður síðan afstöðu til seinni flutningstilkynningar kærenda sem dagsett er 22. maí 2012. Bendir umboðsmaður þar á að ákvörðun í máli kærenda hafi verið tekin þann 7. júlí 2011 og byggði á atvikum máls eins og þau þá lágu fyrir. Telur umboðsmaður að seinni flutningstilkynning kærenda eigi ekki að geta leitt til þess að afturkalla beri hina kærðu ákvörðun eða fella eigi hana úr gildi. Umboðsmaður telur það óásættanlega niðurstöðu að ef kæranda hefur verið synjað á grundvelli lögheimilisskráningar geti hann með því að kæra ákvörðunina fengið henni hnekkt vegna þess að aðstæður hafi breyst frá þeim tíma sem ákvörðun var tekin þangað til kærunefnd úrskurðar í málinu.

Umboðsmaður bendir jafnframt á að 3. mgr. 2. gr. laga nr. 103/2010 áskilji bæði að umsækjandi sé með skráð lögheimili á umræddri eign og haldi þar heimili. Samkvæmt upplýsingum í þjóðskrá búi í E götu nr. 4 tveir einstaklingar sem ekki verði séð að séu tengdir kærendum og þeir hafi einnig búið þar 1. desember 2011. Aðeins ein íbúð sé í eigninni. Umboðsmaður sé því á þeirri skoðun að allt bendi til þess að kærandinn A haldi ekki heimili á eigninni, þrátt fyrir að lögheimili hennar hafi verið fært þangað 22. maí 2012.

Umboðsmaður fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Mál þetta snýr að því hvort kærendur uppfylli skilyrði laga nr. 103/2010 um tímabundið úrræði einstaklinga sem eiga tvær fasteignir til heimilisnota, fyrir heimild til þess að ráðstafa annarri eigninni til veðhafa.

Í 2. mgr. 2. gr. laganna koma fram þau skilyrði sem uppfylla þarf en samkvæmt ákvæðinu skal skuldari hafa skráð lögheimili í annarri fasteigninni og halda heimili sitt þar. Sú fasteign sem skuldari hefur ekki lögheimili í verður annaðhvort að hafa áður verið heimili skuldara og hann haft þar skráð lögheimili eða skuldari verður að hafa fest kaup á henni með það í huga að halda heimili sitt þar.

Í máli þessu liggur fyrir að þegar ákvörðun umboðsmanns skuldara var tekin áttu kærendur bæði lögheimili að X götu, Noregi. Eftir að ákvörðun umboðsmanns skuldara lá fyrir tilkynnti annar kærandi til þjóðskrár flutning lögheimilis til Íslands.

Endurskoðun æðra stjórnvalds á ákvörðunum lægra setts stjórnvalds á grundvelli stjórnsýslukæru tekur til allra þátta ákvörðunarinnar. Breyttar aðstæður eftir að ákvörðun hefur verið tekin af umboðsmanni skuldara kunna því eftir atvikum að vera tilefni til þess að úrskurður kærunefndar greiðsluaðlögunarmála sé á annan veg en ákvörðun umboðsmanns skuldara. Í máli þessu er synjun byggð á því að lögheimili var ekki í þeim fasteignum sem tilgreindar voru í umsókn. Fyrir liggur að kærandi flutti lögheimili sitt í aðra fasteignina undir meðferð málsins hjá kærunefndinni.

Í ljósi þess að annar kæranda skráði lögheimili sitt aftur að E götu nr. 4, sveitarfélaginu D, er það niðurstaða kærunefndar greiðsluaðlögunarmála að fella beri úr gildi ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kærendum um tímabundið úrræði einstaklinga sem eiga tvær fasteignir til heimilisnota.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja um heimild til að leita eignarráðstöfunar er felld úr gildi.

 

Einar Páll Tamimi

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Kristrún Heimisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta