Hoppa yfir valmynd

Nr. 300/2022 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 18. ágúst 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 300/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22070019

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 6. júlí 2022 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Kólumbíu (hér eftir nefnd kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 13. júní 2022, um að synja henni um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnun verði felld úr gildi og henni verði veitt alþjóðleg vernd hér á landi samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að henni verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að henni verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.        Málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi hinn 16. nóvember 2021. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. hinn 2. desember 2021 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 13. júní 2022, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála hinn 6. júlí 2022 og barst nefndinni greinargerð kæranda og fylgiskjöl sama dag.

III.       Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hún sé í hættu í heimaríki vegna aðildar sinnar að tilteknum þjóðfélagshópi sem fórnarlamb gengjaofbeldis.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi væri ekki flóttamaður og henni skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi samkvæmt ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

 

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í sameiginlegri greinargerð kæranda og maka hennar kemur fram að þau hafi búið í Bógóta áður en þau hafi flúið heimaríki. Kærandi hafi verið þolandi kynferðisofbeldis í æsku og verið nauðgað þegar hún hafi verið 15 ára og 22 ára. Þá hafi hún verið þolandi kynferðisofbeldis í tvígang árið 2021 en gerendur hafi verið meðlimir glæpahóps sem sé afsprengi […] og hafi staðið að fjárkúgunum gegn maka hennar. [...]. Daginn eftir hafi þau selt eigur sínar og flúið heimaríki.

Í greinargerð kæranda kemur fram að heimildir séu ótvíræðar um að glæpa- og morðtíðni sé há í Kólumbíu og að glæpahópar, þ. á m. […], séu starfandi víðs vegar um landið og ráðandi á ákveðnum svæðum. Að öðru leyti vísar kærandi til greinargerðar sinnar til Útlendingastofnunar, dags. 17. desember 2021, hvað varðar upplýsingar um almennt ástand í Kólumbíu.

Kærandi krefst þess aðallega að henni verði veitt alþjóðleg vernd samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi telur að hún eigi á hættu ofsóknir og ofbeldi í heimaríki og uppfylli því skilyrði fyrrnefnds ákvæðis fyrir veitingu alþjóðlegrar verndar. Flótta kæranda frá Kólumbíu megi rekja til ofsókna af hálfu glæpahóps sem sé afsprengi […]. Meðlimir glæpahópsins hafi beitt kæranda kynferðisofbeldi í tvígang árið 2021 og hótað henni og maka hennar lífláti. Þá hafi þeir fjárkúgað maka kæranda um nokkurra ára skeið og beitt hann ofbeldi. Lögregluyfirvöld hafi ekki aðhafst í máli þeirra og óttist kærandi að lögreglumenn muni einnig beita hana kynferðisofbeldi. Kröfu sinni til stuðnings vísar kærandi m.a. til ákvarðana Útlendingastofnunar frá 2019 þar sem umsækjendur um alþjóðlega vernd frá Kólumbíu voru taldir hafa ástæðuríkan ótta við ofsóknir vegna aðildar sinnar að tilteknum þjóðfélagshóp. Þá telur kærandi að aðstæður hennar falli undir túlkun kærunefndar á hvað felist í ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur, sbr. úrskurð nefndarinnar frá 16. september 2021 í máli nr. 453/2021.

Í greinargerð er gerð athugasemd við skort á umfjöllun í hinni kærðu ákvörðun um þau kynferðisbrot sem hún hafi orðið fyrir af hálfu meðlima glæpagengis í heimaríki. Telur kærandi að stofnunin hafi borið að taka til ítarlegri skoðunar þá ógn sem henni stafi af glæpagengjum í heimaríki. Kólumbísk glæpagengi svífist einskis og beiti konur óhikað kynferðisofbeldi.

Til vara er þess krafist að kæranda verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi lýst ótryggu öryggisástandi í heimaríki í viðtali hjá Útlendingastofnun. Þá hafi hún lýst ofsóknum og ofbeldi, þ. á m. kynferðisofbeldi, sem hún hafi orðið fyrir í heimaríki. Verði kærandi send aftur til heimaríkis eigi hún á hættu að verða fyrir frekara ofbeldi. Með vísan til framangreinds sé raunhæf ástæða sé til að ætla að hún eigi á hættu að sæta ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð í heimaríki, sbr. 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Til þrautavara krefst kærandi þess að henni verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Þeirri kröfu til stuðnings vísar kærandi m.a. til þess að líf hennar sé í hættu í heimaríki og að hún geti ekki leitað verndar yfirvalda gegn ofsóknum af hálfu vopnaðs glæpahóps. Þá sé ástand mannréttindamála í Kólumbíu afar slæmt og félagslegar aðstæður bágbornar. Með vísan til framangreinds telur kærandi að hún hafi ríka þörf fyrir vernd og að skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga séu uppfyllt.

 

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Rannsóknarreglan í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 mælir fyrir um að stjórnvald afli þeirra gagna sem eru nauðsynleg svo mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Reglan gerir kröfu um rannsókn sem er fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds en gerir hvorki kröfu um að aflað sé allra upplýsinga sem varpað gætu ljósi á málið né að stjórnvald afli ófáanlegra gagna. Þá segir í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga að við meðferð mála vegna umsókna um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Kröfur til rannsóknar í hverju máli ráðast af lagagrundvelli málsins og einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda, þ.m.t. þeim málsástæðum sem hann ber fyrir sig.

Í 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. laganna séu þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær séu endurteknar feli í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkum og bann við refsingum án laga. Þá kemur fram í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga að ofsóknir geti m.a. falist í andlegu, líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi.

Líkt og að framan er rakið er krafa kæranda um alþjóðlega vernd byggð á því að hún hafi verið beitt kynferðisofbeldi í heimaríki. Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að hún hafi verið þolandi kynferðisofbeldis í æsku og þegar hún hafi verið 15 ára og 22 ára. Þá hafi meðlimir glæpahóps, sem sé afsprengi […], beitt kæranda kynferðisofbeldi í tvígang árið 2021.

Þrátt fyrir framangreint er í hinni kærðu ákvörðun hvorki fjallað um það kynferðisofbeldi sem kærandi kveðst hafa orðið fyrir, þ. á m. hvort það teljist til ofsókna í framangreindum skilningi, né hvort hún eigi á hættu að verða fyrir slíku ofbeldi við endursendingu til heimaríkis. Þá er enn fremur hvergi í ákvörðuninni fjallað um stöðu kvenna eða þolenda kynferðisofbeldis í heimaríki kæranda, s.s. hvað varðar vernd stjórnvalda og félagslega stöðu. Liggur því ekki fyrir hver afstaða Útlendingastofnunar er til þeirra atburða sem kærandi leggur til grundvallar umsóknar sinni um alþjóðlega vernd. Í ljósi framangreinds fær kærunefnd ekki séð hvernig Útlendingastofnun hafi talið sér fært að komast að niðurstöðu í máli kæranda án frekari rannsóknar.

Markmið rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga er að tryggja að ákvarðanir stjórnvalda verði bæði löglegar og réttar. Kærunefnd telur að með framangreindum annmörkum á málsmeðferð kæranda hjá Útlendingastofnun hafi stofnunin ekki fullnægt skyldu sinni samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga. Kærunefnd telur þá annmarka verulega og að þeir kunni að hafa haft áhrif á niðurstöðu máls hennar. Kærunefnd telur jafnframt að ekki sé unnt að bæta úr þeim annmörkum á kærustigi og því rétt að mál kæranda hljóti nýja meðferð hjá Útlendingastofnun.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til nýrrar meðferðar.


 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka málið til nýrrar meðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellant’s case.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

Þorbjörg I. Jónsdóttir                                                              Sindri M. Stephensen

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta