Mál nr. 398/2020 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 398/2020
Miðvikudaginn 16. desember 2020
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.
Með kæru, dags. 17. ágúst 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 12. ágúst 2020, þar sem umsókn kæranda um niðurfellingu ofgreiðslukröfu var synjað.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Tryggingastofnun ríkisins tilkynnti kæranda með bréfi, dags. 19. september 2017, að í ljósi breytinga á lögheimili hans frá Íslandi til B þann 4. janúar 2017 væri fyrirhuguð stöðvun allra greiðslna til hans. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 26. október 2017, var kæranda tilkynnt um stöðvun greiðslna frá 1. febrúar 2017 og kröfu að fjárhæð 2.210.618 kr., með 15% álagi. Sú ákvörðun, auk fleiri ákvarðana Tryggingastofnunar ríkisins, var kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. kærumál nr. 397/2018. Með enduruppteknum úrskurði, dags. 22. apríl 2020, var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um stöðvun örorkulífeyrisgreiðslna og endurkröfu ofgreiddra bóta með 15% álagi staðfest.
Kærandi sótti um niðurfellingu á ofgreiðslukröfu með umsókn þess efnis, dags. 3. júlí 2020. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 12. ágúst 2020, var umsókn kæranda um niðurfellingu ofgreiddra bóta synjað.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála með bréfi, dags. 17. ágúst 2020. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 21. september 2020, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 23. september 2020. Athugasemdir bárust frá kæranda með tölvubréfi 23. september 2020 og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi, dagsettu sama dag. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi gerir kröfu um að ákvörðun Tryggingastofnunar frá 12. ágúst 2020 verði felld úr gildi og að fallist verði á niðurfellingu kröfunnar. Einnig fer kærandi fram á að stofnuninni verði gert að endurgreiða honum það sem þegar hafi verið tekið af honum ásamt fullum dráttarvöxtum, auk 25% álags.
Í kæru segir að Tryggingastofnun hafi synjað kæranda um niðurfellingu meintrar skuldar. Þessi skuld sé ólöglega tilkomin og setji kæranda í verri fjárhagsvandræði. Tryggingastofnun taki nærri 50.000 kr. af greiðslum til hans í hverjum mánuði. Þessi skerðing hafi mikil áhrif á kæranda og son hans en kærandi sé einstæður faðir.
Í athugasemdum kæranda frá 23. september 2020 segir að kærandi hafi alla tíð mótmælt því að Tryggingastofnun hafi haldið áfram að notast við tilkynningarhnapp, þrátt fyrir að Hæstiréttur Íslands hafi dæmt hann ólöglegan. Tryggingastofnun hafi haldið því fram að stofnunin hafi verið að skoða/fylgjast með IP-tölu kæranda. Persónuvernd hafi einnig úrskurðað það ólöglegt og brot á persónuverndarlögum í máli nr. 1718/2018. Þess vegna sé þessi meinta ofgreiðsla lögbrot af hálfu Tryggingastofnunar.
Kærandi hafi einnig mótmælt þessari meintu ofgreiðslu, meðal annars á grundvelli 65. gr og 76. gr. stjórnarskrár Íslands. Því til stuðnings vísar kærandi til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá júní 2020 í máli Öryrkjabandalagsins gegn Tryggingastofnun. Sá dómur hafi staðfest að Tryggingastofnun hafi skort lagaheimild til að skerða örorkubætur vegna búsetu erlendis. Landsréttur hafi synjað beiðni Tryggingastofnunar um að taka málið fyrir og því standi sá dómur. Þess vegna beri Tryggingastofnun að fella niður meinta kröfu og greiða kæranda örorkubætur í þau rúm tvo ár sem stofnunin hafi ekki greitt honum.
Þessi meinta ofgreiðsla, ásamt lögbrotum Tryggingastofnunar, hafi aukið á veikindi kæranda. Þessi meinta skuld sé mikill fjárhagslegur baggi á honum og Tryggingastofnun hafi reiknað dráttarvexti á upphæðina.
III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins
Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærð sé synjun á umsókn kæranda um niðurfellingu ofgreiðslukröfu.
Athygli sé vakin á því að Tryggingastofnun líti svo á að í máli þessu sé eingöngu verið að kæra ákvörðun samráðsnefndar Tryggingastofnunar, dags. 12. ágúst 2020. Réttmæti kröfu Tryggingastofnunar hafi áður verið tekin fyrir hjá úrskurðarnefnd í máli nr. 397/2018.
Á skýran hátt sé tekið fram í lögum um almannatryggingar og reglugerð nr. 598/2009 að meginreglan sé sú að Tryggingastofnun skuli innheimta ofgreiddar bætur, sbr. 55. gr. laga um almannatryggingar, sem sé svohljóðandi: „Hafi Tryggingastofnun ríkisins eða umboð hennar eða eftir atvikum sjúkratryggingastofnunin ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögum þessum skal stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar kann að öðlast rétt til, sbr. þó 2. mgr. Einnig á Tryggingastofnun eða eftir atvikum sjúkratryggingastofnunin endurkröfurétt á hendur bótaþega eða dánarbúi hans samkvæmt almennum reglum.“
Undantekningu frá þessari meginreglu sé að finna í 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 varðandi þær kröfur sem myndist við uppgjör tekjutengdra bóta lífeyristrygginga. Ákvæðið sé svohljóðandi: „Þrátt fyrir að endurreikningur samkvæmt III. kafla leiði í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar er heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Skal þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann var í góðri trú um greiðslurétt sinn. Sama gildir um dánarbú eftir því sem við á.“
Vísað sé til greinargerðar og gagna Tryggingastofnunar í máli nr. 397/2018.
Tryggingastofnun hafi borist umsókn kæranda um niðurfellingu á kröfunni þann 3. júlí 2020. Samráðsnefnd Tryggingastofnunar um meðferð ofgreiðslna hafi tekið málið fyrir á fundi og hafi umsókninni verið synjað með bréfi, dags. 12. ágúst 2020.
Um innheimtu ofgreiddra bóta er fjallað í 55. gr. laga um almannatryggingar. Ákvæðið sé ekki heimildarákvæði um innheimtu heldur sé lögð sú skylda á Tryggingastofnun að innheimta ofgreiddar bætur. Með ákvæði 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 sé veitt heimild til þess að falla frá endurkröfu að uppfylltum tilteknum skilyrðum sem fram komi í reglugerðinni. Ákvæðið sé undantekningarheimild og sem slíkt skuli skýra það þröngt samkvæmt almennum lögskýringarreglum. Eins og skýrt og greinilega komi fram í ákvæðinu eigi það eingöngu við um kröfur sem myndist vegna endurreiknings á grundvelli III. kafla reglugerðar nr. 598/2009 en ekki aðrar kröfur.
Rétt sé að taka sérstaklega fram að hér sé ekki um að ræða kröfu sem hafi myndast við samninga á milli tveggja aðila á einkamarkaði. Um sé að ræða bætur sem hafi verið sannarlega ofgreiddar. Því til stuðnings bendi Tryggingastofnun á úrskurð úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 397/2018. Um sé að ræða opinbert fé og kveðið sé á um skyldu til innheimtu á ofgreiddum bótum í lögum og reglugerðum. Tryggingastofnun sé ekki heimilt að horfa fram hjá lögum og reglugerðum í störfum sínum.
Tryggingastofnun hafi skoðað gögn málsins en telji ekki ástæðu til þess að breyta fyrri ákvörðun sinni. Sú ákvörðun sé í samræmi við þau lög og reglur sem gildi um innheimtu ofgreiðslna og einnig í samræmi við fyrri úrskurði úrskurðarnefndar, sjá mál nr. 41/2020.
Að lokum sé rétt að taka fram að bréf Tryggingastofnunar, dags. 12. ágúst 2020, hefði átt að vera orðað á annan þann hátt að erindinu væri synjað en ekki að því væri vísað frá eins og gert hafi verið fyrir mistök.
IV. Niðurstaða
Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 12. ágúst 2020, um synjun á beiðni kæranda um niðurfellingu ofgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta.
Samkvæmt 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er greiðsluþega skylt að veita Tryggingastofnun þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru svo að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Þá er greiðsluþega einnig skylt að tilkynna um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á bætur eða greiðslur. Tryggingastofnun er heimilt, að fengnu samþykki viðkomandi, að afla nauðsynlegra upplýsinga um tekjur umsækjanda og greiðsluþega hjá skattyfirvöldum og fleirum, sbr. 40. gr. laga um almannatryggingar.
Um innheimtu bóta er fjallað í 55. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Svohljóðandi er 1. mgr. ákvæðisins:
„Hafi Tryggingastofnun ríkisins eða umboð hennar ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögum þessum skal stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar kann að öðlast rétt til, sbr. þó 2. mgr. Einnig á Tryggingastofnun endurkröfurétt á hendur bótaþega eða dánarbúi hans samkvæmt almennum reglum.“
Í 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags er hins vegar að finna heimild til undanþágu frá endurgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta. Ákvæðið hljóðar svo:
„Þrátt fyrir að endurreikningur samkvæmt III. kafla leiði í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar er heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Skal þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann var í góðri trú um greiðslurétt sinn. Sama gildir um dánarbú eftir því sem við á.“
Kærandi fer fram á að krafa stofnunarinnar á hendur honum verði felld niður. Um er að ræða kröfu sem var mynduð með ákvörðun, dags. 26. október 2017, þar sem kæranda var tilkynnt um stöðvun greiðslna frá 1. febrúar 2017 sökum búsetu erlendis og myndun ofgreiðslu að fjárhæð 2.210.618 kr., með 15% álagi. Tryggingastofnun synjaði umsókn kæranda um niðurfellingu ofgreiðslukröfu á grundvelli 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009. Í úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 397/2018 staðfesti nefndin ákvörðun Tryggingastofnunar um endurkröfu ofgreiddra bóta með 15% álagi. Til stuðnings kröfu kæranda um niðurfellingu ofgreiðslukröfu bendir hann á að krafa stofnunarinnar sé ekki réttmæt. Máli sínu til stuðnings vísar kærandi að hluta til sömu málsástæðna og í kæru í máli nr. 397/2020. Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur því þegar tekið á þeim atriðum og vísar í fyrri úrskurð nefndarinnar í máli kæranda. Kærandi vísar til þess að dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-2516/2016 hafi staðfest að umrædd ofgreiðslukrafa eigi sér ekki lagastoð. Framangreint dómsmál varðar ekki sambærilegt tilvik og á því ekki við í þessu máli.
Í 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 kemur skýrt fram að heimildin til niðurfellingar ofgreiðslukröfu geti einungis átt við þegar endurreikningur leiði í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Ofgreiðslukrafa á hendur kæranda myndaðist hins vegar ekki við endurreikning heldur vegna þess að kærandi fékk greiðslur frá Tryggingastofnun, án þess að uppfylla skilyrði fyrir greiðslum. Úrskurðarnefndin telur því ljóst að ekki sé heimilt að fella niður kröfu á hendur kæranda með vísan til 11. gr. reglugerðarinnar.
Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi hafi vanrækt skyldu sína til þess að tilkynna Tryggingastofnun um breytingu á aðstæðum sínum svo sem honum var skylt að gera samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 39. gr. laga um almannatryggingar með flutningi til B. Eins og áður hefur komið fram hefur úrskurðarnefnd velferðarmála úrskurðað um réttmæti umræddrar kröfu.
Tekið skal fram að af 55. gr. laga um almannatryggingar leiðir meðal annars sú meginregla að Tryggingastofnun ríkisins ber að innheimta ofgreiddar bætur. Af meginreglunni leiðir einnig að stofnunin á endurkröfurétt á hendur bótaþega í samræmi við almennar reglur. Ef móttakandi greiðslu veit eða má vita að greiðandi efnir án eða umfram skyldu, getur greiðandi yfirleitt krafist endurgreiðslu úr hendi móttakanda samkvæmt almennum reglum. Því er ekki fallist á að fella niður endurgreiðslukröfu Tryggingastofnunar.
Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um niðurfellingu ofgreiðslukröfu staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 12. ágúst 2020, um að synja umsókn A, um niðurfellingu ofgreiðslukröfu, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir