Hoppa yfir valmynd

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 25. ágúst 2008

Mánudaginn 25. ágúst 2008 var tekið fyrir hjá Matsnefnd eignarnámsbóta matsmálið nr. 17/2006             

 

Vegagerðin

gegn

Sigrúnu Reynisdóttur, Þórarni Magnússyni,

Kolbeini Reynissyni og Guðrúnu Bergmann Vilhjálmsdóttur

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r :

 

I.  Skipan Matsnefndar eignarnámsbóta:

 

Matsnefnd eignarnámsbóta skipa í máli þessu, Helgi Jóhannesson, hrl., formaður, dr. Ragnar Ingimarsson, verkfræðingur og Benedikt Bogason, dómstjóri, en formaður kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973.

 

II.  Matsbeiðni, aðilar og andlag eignarnámsins:

 

Með matsbeiðni dags. 20. október 2006 fóru eigendur og ábúendur jarðarinnar Eyvíkur II í Grímsnes- og Grafningshreppi þess á leit við Matsnefnd eignarnámsbóta að hún mæti bætur vegna eignarnáms Vegagerðarinnar í tengslum við veglagningu um jörðina. Eignarnemi er Vegagerðin, kt. 680269-2899, Borgartúni 5-7 Reykjavík. Eigendur Eyvíkur II eru þau Sigrún Reynisdóttir, kt. 161055-7519 og Þórarinn Magnússon, kt. 311255-0029. Sameigendur þeirra að námuréttindum jarðarinnar eru þau Kolbeinn Reynisson, kt. 161159-3529 og Guðrún Bergmann Vilhjálmsdóttir, kt. 140962-3179. Allir framangreindir aðilar teljast eignarnámsþolar í máli þessu.

 

Að kröfu eignarnema er gerð krafa um mat á 2,98 ha. landspildu sem fer undir hinn nýja veg. Eignarnemi gerir kröfu til þess að 1,8 ha. lands sem skilað er á móti komi til frádráttar bótum fyrir eignarnumið land. Þá er gerð krafa um bætur vegna 16.952 m³ malarefnis sem einnig var tekið eignarnámi vegna framkvæmdanna.

 

Um eignarnámsheimildina vísast til 45. gr. vegalaga nr. 45/1994.

 

 

 

III.  Málsmeðferð:

 

Þriðjudaginn 29. nóvember 2006 var mál þetta fyrst tekið fyrir. Af hálfu eignarnámsþola var lögð fram matsbeiðni ásamt frekari gögnum og var málinu að því búnu frestað til framlagningar greinargerðar og annarra gagna af hálfu eignarnema.

 

Þriðjudaginn 9. janúar 2007 var málið tekið fyrir. Af hálfu eignarnema var lögð fram greinargerð ásamt fylgiskjölum. Málinu var að því búnu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu eignarnámsþola.

 

Miðvikudaginn 21. febrúar 2007 var málið tekið fyrir. Lögð var fram greinargerð ásamt fylgiskjölum af hálfu eignarnámsþola.

 

Fimmtudaginn 29. mars 2007 var málið tekið fyrir. Gengið var á vettvang og aðstæður kannaðar. Sættir voru reyndar án árangurs. Málinu var að því búnu frestað til framlagningar frekari gagna af hálfu aðila.

 

Föstudaginn 13. apríl 2007 var málið tekið fyrir. Lögð voru fram gögn af hálfu eignarnema. Málinu var að því búnu frestað til framlagningu frekari gagna af hálfu eignarnámsþola.

 

Mánudaginn 25. júní 2007 var málið tekið fyrir. Lögð voru fram frekari gögn af hálfu eignarnámsþola.

 

Nokkuð drógst að málið yrði tekið fyrir að nýju, einkum vegna tilrauna aðila til að ná sáttum um gerð heimreiðar að Eyvík II o.fl. Málið var því næst tekið fyrir mánudaginn 19. desember 2007. Lögð voru fram gögn af hálfu eignarnámsþola. Sættir voru reyndar um lagningu heimreiðarinnar, en án árangurs.  Ákveðið var að fresta málinu til munnlegs flutnings til 24. janúar 2008.

 

Aðilar málsins óskuðu eftir frekari fresti til að ná sáttum um lagningu heimreiðar að Eyvík II. Tafðist málið nokkuð vegna þessa atriðis og var það næst tekið fyrir þriðjudaginn 19. ágúst 2008. Þá höfðu sættir tekist með aðilum um lagningu heimreiðarinnar og var málið því munnlega flutt um önnur atriði fyrir nefndinni þann dag og tekið til úrskurðar að því loknu.

 

 

IV.  Sjónarmið eignarnema:

 

Endanleg kröfugerð eignarnema er að matsnefndin meti hæfilegar bætur vegna eignarnáms á 2,98 ha. landi sem fer undir hinn nýja veg, en til frádráttar bótum fyrir það land skuli koma 1,8 ha. land sem skilað verður og hinn eldri vegur liggur nú um. Þá er gerð krafa um ákvörðun bóta fyrir 16.952 m³ af malarefni sem einnig er tekið eignarnámi vegna veglagningarinnar.

 

Eignarnemi mótmælir því að áhrifasvæði vegarins fari yfir frekara svæði en eignarnámið nær til. Þannig mótmælir eignarnemi þeirri kröfu eignarnámsþola að honum verði gert að taka stærra land eignarnámi eða greiða bætur vegna verðlækkunar lands fyrir utan hið eignarnumda svæði. Þá mótmælir eignarnemi því einnig að honum verði gert að greiða sérstaklega bætur fyrir malarefni sem nýtist honum og er innan þess lands sem tekið er eignarnámi. Telur eignarnemi að öll gögn og gæði þess lands sem hann tekur eignarnámi fylgi með því og ekki geti komið til greina að greiða tvöfaldar bætur fyrir það land, annars vegar bætur vegna landsins sjálfs og einnig sérstakar bætur fyrir malarefnið sem á því er.

 

Af hálfu eignarnema er á því byggt að um landbúnaðarland sé að ræða og að önnur nýting þess s.s. undir sumarhúsabyggð sé ekki fyrirsjáanleg eða líkleg. Þó svo væri telur eignarnemi það engin áhrif hafa á verðmætamat hinnar eignarnumdu spildu þar sem sambærilegu landi sé skilað á móti. Bendir eignarnemi á að samkvæmt samningi sem aðilar hafi náð hafi verðmæti landsins verið á bilinu 300.000 kr./ha til 531.000 kr./ha. allt eftir því hvort um ræktað land væri að ræða. Þannig hefði grunnverð landsins verið talið 300.000 kr./ha. en túnbætur að fjárhæð 231.000 kr./ha. verið lagðar ofan á grunnverðið á ræktuðum svæðum.

 

Eignarnemi mótmælir því að tvöfalt vegakerfi verði um land eignarnámsþola. Eignarnemi muni rækta gamla vegstæðið upp sé þess óskað.

 

Eignarnemi gerir kröfu til þess að hið eignarnumda malarefni verði metið á 48 kr./m³ og vísar í því sambandi í orðsendingu sína sem gerir ráð fyrir þessu verði fyrir burðarlagsefni og efni í malarslitlag innan markaðssvæða.

 

V.  Sjónarmið eignarnámsþola:

 

Af hálfu eignarnámsþola er þess krafist að bætur vegna  eignaskerðingar og verðmætarýrnunar á landi Eyvíkur II verði metnar að lámarki kr. 180.000.000. Þá er gerð krafa til þess að bætur til eignarnámsþolanna Kolbeins og Guðrúnar verði að lámarki ákvarðaðar kr. 12.000.000. Loks er gerð krafa um kostnað vegna reksturs málsins að fjárhæð kr. 2.984.329 samkvæmt fram lögðu málskostnaðaryfirliti.

 

Af hálfu eignarnámsþola er gerð sérstök krafa um greiðslu vaxta á eignarnámsbæturnar frá 1. júní 2006 þegar eignarnemi fékk umráð hins eignarnumda. Telja eignarnámsþolar ekki við þá að sakast þó málið hafi dregist svo sem raun ber vitni.

Að áliti eignarnámsþola er áhrifasvæði eignarnámsins 27,3 ha eða 150 m frá miðlínu vegarins til beggja átta,  samtals 300 m. Telur eignarnámsþoli að það land muni vegna vegarins aldrei nýtast undir byggð, hvort heldur sem er frístundarbyggð eða annars konar byggð. Telja eignarnámsþolar óhugsandi annað en að við þetta sé miðað þegar áhrifasvæði eignarnámsins er ákvarðað.

 

Eignarnámsþolar gera kröfu til þess að verðmæti hins eignarnumda lands og þess lands sem fyrir áhrifum verður vegna veglagningarinnar verði metið á 500-700 pr./m² eða 5.000.000 til 7.000.000 kr./ha.

 

Eignarnámþolar benda á að með tilfærslu vegarins minnki bilið milli raflínu sem þegar liggur um land þeirra og vegarins sem geri svæðið þar á milli enn óhentugra til hvers konar nýtingar. Telja eignarnámsþolar að áhrifasvæði vegarins og línunnar sé 60,2 ha.

 

Eignarnámsþolar gera kröfu til þess að við ákvörðun bóta fyrir hið eignarnumda land skuli litið til þess að með veglagningunni sé í raun verið að skera landið í tvennt og á því verði í framtíðinni tvöfalt vegakerfi. Þetta sé til þess fallið að rýra heildarverðmæti jarðarinnar enn frekar.

 

Gerð er sérstök krafa um að eignarnámsþolum verði gert að greiða sérstakar bætur fyrir tímabundið tjón og óhagræði m.a. vegna sprenginga eignarnema o.fl.

 

Af hálfu eignarnámsþola er sú krafa gerð að eignarnema verði gert að greiða bætur fyrir 65.000 m³ malarefnis. Telja eignarnámsþolar að eignarnema beri að greiða bætur bæði fyrir efnið sem nýtt er og var í vegstæðinu sem og efni sem tekið var utan vegstæðisins. Telja eignarnámsþolar að námur á jörðinni séu á markaðssvæði og með vísan til samninga sem gerðir hafa verið um efnissölu á svæðinu þá séu hæfilegar bætur fyrir hið eignarnumda malarefni 200 kr./m³.

 

Hvað kröfu um greiðslu kostnaðar vegna reksturs matsmálsins gera eignarnámsþolar kröfu til þess að þeim verði bættur allur þeirra kostnaður vegna málsins, þ.m.t. útlagður kostaður vegna vinnu verkfræðinga sem og lögfræðikostnaður vegna bréfaskrifta o.fl. til ráðuneytis og umboðsmanns Alþingis í tengslum við mál þetta.

 

 

 

 

 

VI.  Niðurstaða:

 

Matsnefndin hefur farið á vettvang og kynnt sér aðstæður. Eins og hagar til í máli þessu verður ekki fallist á það með eignarnámsþolum að eignarnema verði gert að greiða bætur fyrir stærra land en það sem tekið er eignarnámi að frádregnum þeim 1,8 ha. lands sem skilað er. Kemur í því sambandi einkum til skoðunar að land það sem skilað er síst verra en það sem tekið er auk þess sem ný lega vegarins er að mörgu leyti hentugri gagnvart byggingum á jörðinni þar sem vegurinn liggur nú fjær þeim en áður var.

 

Með greiðslu eignarnámsbóta fyrir hið eignarnumda land eignast eignarnemi þá spildu með öllum gögnum hennar og gæðum. Því kemur ekki til álita að honum verði að auki gert að greiða bætur fyrir malarefni sem nýtist honum og tekið er úr vegstæðinu sjálfu. 

 

Með vísan til framangreinds er því við það miðað að andlag eignarnámsins sé eins og fram kemur í kafla II hér að framan, þ.e. 1,18 ha. lands (2,98-1,8) og 16.952 m³ malarefnis.

 

Ekkert liggur fyrir um framtiðarnotkun landsins undir frístundabyggð. Hefur það t.a.m. ekki verið deiliskipulagt sem slíkt. Ekki er þó hægt að útiloka slík not þess í framtíðinni og verður því að líta til þess að einhverju leyti við matið. Á móti kemur hins vegar að sú spilda sem tekin er eignarnámi er lík öðru landi á svæðinu og því um næga aðra kosti til frístundabyggðar að ræða fyrir eignarnámsþola. Með vísan til þessa þykja hæfilegar bætur fyrir hið eignarnumda land að frádregnu því landi sem skilað vera kr. 708.000.

 

Fallist er á það með eignarnámsþolum að þeim beri að fá ákveðna viðbótargreiðslu vegna þess tíma sem liðið hefur frá því eignarnemi fékk umráð hins eignarnumda lands. Þykir hæfileg fjárhæð í þessu sambandi vera kr. 150.000.

 

Að áliti matsnefndarinnar þykir rétt að líta til orðsendingar eignarnema um mat á verðmæti malarlefnisins. Síðasta orðsending var gefin út 2007. Samkvæmt henni er væri verðmæti malarefnisins í máli þessu 54 kr./m³. Með vísan til þess að nokkrar verðlagshækkanir hafa orðið hér á landi síðan 2007 þykja hæfilegar bætur fyrir malarefnið nú vera 65 kr./m³. Við ákvörðun þeirrar fjárhæðar er m.a. litið til þess að efnið var ekki aðgengilegt í námu, heldur þurfti að leggja í nokkra vinnu til að hægt væri að nota það, m.a. skafa mold ofan af því. Hæfilegar bætur fyrir hið eignarnumda malarefni þykja því vera kr. 1.101.880.

 

Fallist er á það með eignarnámsþolum að eignarnema beri að greiða þeim þann kostnað sem þeir hafa haft af máli þessu, þ.m.t. bréfaskiptum við ráðuneyti og umboðsmann Alþingis, enda er sú vinna öll sprottin af eignarnáminu. Ber því eignarnema að greiða eignarnámsþolum kr. 2.984.329 vegna þessa þáttar.

 

 

Þá skal eignarnemi greiða kr. 800.000 í ríkissjóð vegna starfa matsnefndarinnar í máli þessu.

 

 

 

ÚRSKURÐARORÐ

 

Eignarnenmi, Vegagerðin, kt. 680269-2899, greiði eignarnámsþolunum, Sigrúnu Reynisdóttur, kt. 161055-7519 og Þórarni Magnússyni, kt. 311255-0029, samtals kr. 858.000 í eignarnámsbætur fyrir hið eignarnumda land. Þá skal eignarnemi greiða eignarnámsþolunum Sigrúnu, Þórarni, Kolbeini Reynissyni, kt. 161159-3529 og Guðrúnu Bergmann Vilhjálmsdóttur, kt. 140962-3179, samtals kr. 1.101.880 í eignarnámsbætur fyrir hið eignarnumda malarefni. Jafnframt skal eignarnemi greiða eignarnámsþolum 2.984.329, þar með talinn virðisaukaskattur, í kostnað vegna reksturs matsmáls þessa.

 

Þá greiði eignarnemi kr. 800.000 í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

 

 

______________________________________

Helgi Jóhannesson hrl.

 

 

____________________________                _______________________________

Benedikt  Bogason                                         Ragnar Ingimarsson

  




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta