Mál nr. 23/2004
Þriðjudaginn, 12. október 2004
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Úrskurður
Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.
Þann 25. maí 2004 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 20. maí 2004.
Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 26. apríl 2004 um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.
Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:
„Undirrituð er í lánshæfu námi frá LÍN B-fræði við D-háskólann. Þar sem ég er á íslenskum námslánum á ég ekki kost á fæðingarstyrk í E-landi.
Flyt lögheimili þann 05.2002 vegna skólagöngu eldra barns. Hef nám 09.2003, verið í fullu námi og skila 100% námsárangri og fæði barn 22.02.2009. Önnin er sept-jan. 04. “
Með bréfi, dags. 2. júní 2004, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.
Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsettu 16. júní 2004. Í greinargerðinni segir:
„Kærð er synjun á fæðingarstyrk námsmanna skv. 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) á grundvelli undanþáguákvæðis 13. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 909/2000.
Kærandi, sem samkvæmt þjóðskrá Hagstofu Ísland hefur verið með lögheimili í E-landi frá 5. nóvember 2002, sótti með umsókn, dags. 9. mars 2004, um fæðingarstyrk námsmanna vegna barns sem fætt er 22. febrúar 2004. Með umsókn hennar fylgdu bréf F-sveitarfélagsins varðandi faðerni barnsins, varðandi kennitölu barnsins og varðandi höfnun á framfærslustyrk og enn fremur staðfesting frá D-háskólanum um skólavist og námsframvindu kæranda.
Kæranda var með bréfi, dags. 26. apríl 2004, synjað um greiðslu fæðingarstyrks námsmanna á þeim grundvelli að hún uppfyllti ekki skilyrði fyrir slíkum greiðslum vegna búsetu sinnar í E-landi.
Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. ffl. eiga foreldrar í fullu námi rétt á fæðingarstyrk. Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. er það að jafnaði skilyrði fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi að foreldri eigi lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hafi átt lögheimili hér síðustu 12 mánuði fyrir fæðingardag. Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 14. gr. áðurnefndrar reglugerðar nr. 909/2000, en þar kemur fram að fullt nám í skilningi ffl. teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almanna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Enn fremur að heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 12. gr. eða undanþáguákvæði 13. gr. reglugerðarinnar.
Í hinu svonefnda undanþáguákvæði 13. gr. reglugerðarinnar segir í 1. mgr. að Tryggingastofnun ríkisins sé, þrátt fyrir lögheimilisskilyrði 12. gr., heimilt á grundvelli umsóknar að greiða fæðingarstyrk til foreldris sem hafi flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis, enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning.
Kærandi flutti, eins og áður er getið, lögheimili sitt til E-lands í nóvember 2002 en hóf ekki nám þar fyrr en í september 2003. Í gögnum málsins er hvorki að finna umsóknir né önnur gögn því til staðfestingar að tilgangur lögheimilisflutnings kæranda í nóvember 2002 hafi verið tímabundinn flutningur vegna þess náms sem kærandi hóf 10 mánuðum síðar eða í september 2003. Af þessum sökum telur lífeyristryggingasvið ekki unnt að fallast á að uppfyllt séu skilyrði 13. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um undanþágu frá lögheimilisskilyrðinu. Telur lífeyristryggingasvið því að rétt hafi verið að synja umsókn kæranda um fæðingarstyrk námsmanna.
Rétt þykir að vekja athygli á ákvæði 2. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 909/2000 þar sem sett er það skilyrði fyrir ákvæði greinarinnar að fyrir liggi yfirlýsing frá almannatryggingum í búsetulandi um að foreldri eigi ekki rétt á greiðslum vegna fæðingar barns í því ríki. Kærandi hefur lagt fram staðfestingu danskra yfirvalda um að hún eigi ekki rétt á framfærslustyrk þar en yfirlýsing vegna fæðingarstyrks hefur hins vegar ekki verið lögð fram.
Þá skal enn fremur á það bent að samkvæmt framlögðum gögnum hafði kærandi ekki verið í námi í sex mánuði þegar barn hennar fæddist þann 22. febrúar 2004 þar sem nám hennar hófst þann 1. september 2003 og uppfyllti hún þar með ekki áðurnefnd skilyrði 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000. Í 4. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 segir að heimilt sé að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þrátt fyrir að skilyrðinu um samfellt nám í a.m.k. sex mánuði fyrir fæðingu barns sé ekki fullnægt hafi foreldri verið í samfelldu starfi í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fram til þess að námið hófst. Engar upplýsingar liggja fyrir í málinu um hvort kærandi hafi verið í starfi með þeim hætti áður en nám hennar hófst að 4. mgr. 14. gr. eigi við.“
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 29. júní 2004, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum.
Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi mótteknu 12. júlí 2004, þar segir meðal annars:
„Varðandi að ég uppfylli ekki skilyrði að ég hafi verið í námi í 6 mánuði vantar aðeins nokkra daga uppá þar eð ég skila verkefni þann 09.02.2004 sjá viðhengi nr. 1. Það verkefni er síðan gefið einkunn í lok febrúar 2004. Einhverra hluta vegna liggur þetta á skipulagi skóla svona á milli anna, þrátt fyrir að fyrsta önnin er skráð frá sept-janúar 2004.
Ég flyt til E-lands áður en ég hef nám, vinn meðal annars sem aðstoðarmaður við G til að nálgast B-fagið betur áður en nám hefst og umsókn er lögð fyrir skóla, sjá viðhengi 2.
Eldra barn mitt f. 18.10.93 þurfti líka á mínum tíma að halda við aðlögun í skóla hér í E-landi og hefði ég aldrei getað flutt beint til E-lands og hafið nám samdægurs þar eð ég er einstæð móðir.
Í E-landi hef ég ekki rétt til fæðingarorlofs né fæðingarstyrks, þar eð ég er í námi og er á íslensku námsláni. E-lenskir námsmenn sem eru E-lenskum námslánum fá greitt fæðingarorlof þaðan. Þar af leiðandi tilheyri ég ekki E-lensku kerfi og lendi algjörlega utankerfis hér í E-landi.“
Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:
Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.
Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð meðal annars vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.
Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) eiga foreldrar í fullu námi rétt til fæðingarstyrks. Samkvæmt 7. mgr. 19. gr. ffl. er ráðherra heimilt að kveða í reglugerð nánar á um framkvæmd ákvæðisins og í 35. gr. ffl. er kveðið á um heimild félagsmálaráðherra að setja reglugerð um nánari framkvæmd laganna. Í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er kveðið á um að fullt nám teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 12. gr. eða undanþáguákvæði 13. gr. reglugerðarinnar.
Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. framangreindrar reglugerðar er réttur námsmanns til fæðingarstyrks bundinn því skilyrði að foreldri hafi átt lögheimili hér við fæðingu barns og síðustu 12 mánuðina þar á undan. Í 1. mgr. 13. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins sé, þrátt fyrir 12. gr., heimilt á grundvelli umsóknar að greiða fæðingarstyrk til foreldris sem hefur flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis, enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning.
Kærandi ól barn 20. febrúar 2004. Samkvæmt gögnum málsins flutti hún lögheimili sitt til E-lands 5. nóvember 2002. Hún hóf síðan nám við D-háskólann í byrjun september 2003. Fram að þeim tíma að námið hófst starfaði hún á E-lenskum vinnumarkaði.
Með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum þykir ekki staðfest að tilgangurinn með flutningi lögheimilis kæranda til E-lands hafi verið nám hennar í D-háskólanum. Hún uppfyllir því ekki skilyrði 13. gr. reglugerðarinnar um undanþágu frá lögheimilisskilyrði 12. gr. Samkvæmt því skapaði námið henni þegar af þeirri ástæðu eigi rétt til fæðingarstyrks sem námsmanni, sbr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000.
Með hliðsjón af framangreindu, er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um synjun á greiðslu fæðingarstyrks til kæranda sem námsmanns, staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ:
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um synjun á greiðslu fæðingarstyrks til A í fæðingarorlofi er staðfest.
Guðný Björnsdóttir
Heiða Gestsdóttir
Gunnlaugur Sigurjónsson