Mál nr. 24/2004
Þriðjudaginn, 2. nóvember 2004
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Úrskurður
Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.
Þann 28. maí 2004 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 28. maí 2004.
Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 3. maí 2004 um að synja kæranda um fulla framlengingu greiðslna vegna veikinda í tengslum við fæðingu.
Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:
„Erfið fæðing þann 06.12.2003 olli mjög slæmri grindargliðnun og meiri háttar innri áverkum. Við fæðingu fór einnig öll tilfinning í blöðru og blaðran yfirfylltist, þannig að daginn eftir voru tæmdir úr henni samtals 3.3 lítrar (sjá fylgiskjal 1 bls. 10). Áverkunum fylgdu miklir verkir og fyrstu mánuði eftir fæðingu átti hún mjög erfitt um gang og gat ekkert borið nema sjálfa sig. Hún hefur verið í stífri endurhæfingu í um 5 mánuði og hefur styrkst en ennþá er langt í land með bata. Verkir eru miklir og langtímameðferð til 3ja ára, hjá sjúkraþjálfara, hefur verið samþykkt (sjá fylgiskjal 2).
Fyrsta mánuð eftir fæðingu gat hún ekki sjálf tæmt úr blöðru og varð því að vera með þvaglegg allan sólarhringinn (sjá fylgiskjal 6). Eftir það var tappað af í gegnum heimahjúkrun í 2 mánuði þar til að hún fór viljabundið að geta tæmt úr blöðru. Á þessu tímabili komu fram aðrir fylgikvillar eins og vaginal sýking og cysta (sjá fylgiskjal 3) og mikil vandamál með ristil (sjá fylgiskjal 2). Heimsóknir á sjúkrahús og heilsugæslur vegna blöðruvandamála voru yfir 10 á um 3ja mánaða tímabili (sjá fylgiskjal 3).
Tryggingastofnun hefur samþykkt eins mánaða framlengingu á greiðslum úr fæðingarorlofssjóði (sjá fylgiskjal 4). Að ofangreindu er talið að fylgikvillar fæðingar hafi verið það alvarlegir og áhrif þeirra sú það langvarandi (sjá fylgiskjal 5) að það réttlæti fulla framlengingu á greiðslum úr fæðingarorlofssjóði.“
Með bréfi, dags. 4. júní 2004, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.
Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsettu 5. júlí 2004. Í greinargerðinni segir:
„Kærð er synjun á fullri framlengingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði vegna veikinda móður í tengslum við fæðingu.
Með læknisvottorði, dags. 23. febrúar 2004, sem móttekið var 10. mars 2004, var sótt um framlengingu á fæðingarorlofi kæranda vegna veikinda í tengslum við fæðingu barns hennar 6. desember 2003.
Með bréfi læknasviðs, dags. 26. mars 2004, var kæranda tilkynnt að umsókn hennar hefði verið samþykkt í einn mánuð.
Í 3. mgr. 17. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 segir að heimilt sé að framlengja fæðingarorlof móður um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu. Nánar er fjallað um þessa heimild í 11. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.
Vegna kæru kæranda óskaði lífeyristryggingasvið eftir greinargerð frá læknasviði og hefur lífeyristryggingasviði nú borist greinargerð læknasviðs, dags. 28. júní 2004. Þar koma að öðru leyti fram þau sjónarmið sem Tryggingastofnun ríkisins hefur fram að færa í máli þessu.“
Greinargerð læknasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 28. júní 2004. Í greinargerðinni segir:
„Við mat á veikindum A eftir fæðingu þ. 18.03.04 lá fyrir læknisvottorð B dags. 23.02.04.
Fram kom að fæðing þ. 06.12.03 hefði verið langdregin og A hefði átt erfitt með að tæma þvagblöðru lengi á eftir. Auk þess hefði hún farið í sjúkraþjálfun vegna verulegra grindarverkja. Hún hefði þurft mikla aðstoð við umönnun barns vegna verkja og þvagvandamáls.
Við fyrrnefnt mat var álitið að veikindi A réttlættu ekki framlengingu fæðingarorlofs þar sem grindargliðnun gæti ekki talist alvarleg veikindi í tengslum við fæðingu og ekki hefði verið rökstutt að hún hafi verið ófær um að annast barn sitt vegna þvagvanda.
Í símtali við B lækni þ. 26.03 kom fram að A hefði ekki haft grindareinkenni fyrir fæðingu en hins vegar verið mjög slæm eftir fæðinguna og því hægt að telja að þau einkenni hafi komið í tengslum við fæðingu. Hún hafi verið ófær um að sinna barni sínu í mánuð, fengið heimahjúkrun og eiginmaður hafi verið heima.
Í ljósi þessara nýju upplýsinga var álitið að A hefði verið ófær um að annast barn sitt í einn mánuð vegna alvarlegra veikinda í tengslum við fæðingu.“
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 11. ágúst 2004, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dagsett 25. ágúst 2004. Í bréfinu tekur kærandi orðrétt upp það sem segir í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins um símtal við B lækni. Síðan segir í bréfinu:
„Í símtali við B lækni þ. 26.03. kom fram að A hefði ekki haft grindareinkenni fyrir fæðingu en hins vegar verið mjög slæm eftir fæðingu og því hægt að telja að þau einkenni hafi komið í tengslum við fæðingu. Hún hafi verið ófær um að sinna barni sínu í mánuð, fengið heimahjúkrun og eiginmaður hafi verið heima.“
Af málsgreininni hér að ofan mætti draga þá ályktun að meining B hafi verið sú að A hefði verið ófær um að sinna barni sínu í mánuð eingöngu. Í samtali við B þann 23.08.2004 var þessi málsgrein lesin upp fyrir hana og kom þá fram að hún man ekki eftir að hafa sagt þetta og að hennar meining hafi aldrei verið sú að A hafi verið óvinnufær í mánuð eingöngu heldur þvert á móti að veikindin hafi verið mjög slæm í marga mánuði eftir fæðingu.
Að auki má geta þess að frá byrjun febrúar og fram í miðjan apríl hafi tengdamóðir A, [ ] verið yfir daginn heima með A til að hjálpa með barn og heimili þar sem að A var ekki fær um það. Einnig frá byrjun febrúar og fram til dagsins í dag, hefur nágranni og vinkona A, [ ] komið að staðaldri yfir daginn til að aðstoða.“
Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:
Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um fulla framlengingu á greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði vegna veikinda í tengslum við fæðingu.
Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð meðal annars vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.
Samkvæmt 3. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) er heimilt að framlengja fæðingarorlof móður um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu, sbr. og 1. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Í 5. mgr. 17. gr. ffl. segir að þörf fyrir lengingu á fæðingarorlofi skv. 1.-4. mgr. skuli rökstyðja með vottorði læknis. Ennfremur segir þar að tryggingayfirlæknir skuli meta hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg og að ákvörðun hans sé heimilt að kæra til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála.
Í athugasemdum með 17. gr. frumvarps til framangreindra laga er skýrt kveðið á um að komi til framlengingar fæðingarorlofs verði veikindi móður að vera rakin til fæðingarinnar og valda því að hún geti ekki annast barnið, sbr. og 11. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.
Samkvæmt gögnum málsins var við mat á veikindum kæranda álitið að hún ætti einungis rétt á framlengingu í einn mánuð vegna alvarlegra veikinda í tengslum við fæðingu. Í vottorði B, læknis dags. 23. febrúar 2004 kemur fram að kærandi hafi þurft mikla aðstoð við umönnun barns vegna verkja og þvagvandamáls. Í vottorði dags. 5. maí 2004 frá sama lækni kemur fram að kærandi verði óvinnufær a.m.k. til 1. ágúst 2005. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins dags. 18. maí 2004 var beiðni um þjálfun hjá sjúkraþjálfara afgreidd og samþykkt að taka þátt í að greiða allt að 312 skipti.
Með hliðsjón því sem fram er komið um alvarleg veikindi kæranda í tengslum við fæðingu og vangetu hennar til að annast barn sitt telur úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála að kærandi eigi rétt á fullri framlengingu fæðingarorlofs. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um fulla framlengingu fæðingaorlofs er því hafnað. Greiða ber kæranda hámarks framlengingu fæðingarorlof sbr. 3. mgr. 17. gr. ffl.
ÚRSKURÐARORÐ:
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um fulla framlengingu greiðslna í fæðingarorlofi er hafnað. Greiða ber kæranda framlengingu fæðingaorlofs í tvo mánuði sbr. 3. mgr. 17. gr. ffl.
Guðný Björnsdóttir
Heiða Gestsdóttir
Gunnlaugur Sigurjónsson