Mál nr. 11/2004
Þriðjudaginn, 30. nóvember 2004
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Úrskurður
Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.
Þann 11. mars 2004 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra frá B, f.h. A, dags. 9. mars 2004.
Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 10. desember 2003 um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.
Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:
„Af hálfu umbj. okkar er krafist að ákvörðun um að synja honum um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði verði felld úr gildi og að greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði verði ákveðnar í samræmi við umsókn hans.
Ákvörðun um að synja umbj. okkar um bætur úr sjóðnum byggist á því að umbj. okkar uppfylli ekki skilyrði 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 um að hafa verið samfellt í 6 mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns.
Af hálfu umbj. okkar er á því byggt að þessi röksemd fyrir höfnun á umsókn hans eigi ekki við rök að styðjast.. Umbj. okkar starfaði sem sjálfstætt starfandi verktaki sem matreiðslumaður aðallega fyrir D eins og meðfylgjandi gögn bera með sér. Umbj. okkar telst því uppfylla skilyrði 13. gr. laganna um að hafa verið samfellt í 6 mánuði á innlendum vinnumarkaði. Álagt tryggingargjald reiknast af reiknuðu endurgjaldi umbj. okkar skv. þessu.
Umbj. okkar mun á næstu dögum koma að frekari rökstuðningi og upplýsingum í sérstakri greinargerði sem lögð verður fram innan tíðar til fyllingar kæru þessari.“
Með bréfi, dags. 5. júlí 2004, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.
Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 20. ágúst 2004. Í greinargerðinni segir:
„Með umsókn, ódags., sem móttekin var 10. október 2003, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 3 mánuði frá september. Umsóknin varðar barn kæranda sem fætt er 6. maí 2003.
Umsókn kæranda hafði að geyma samþykki forsjárforeldris fyrir umgengni forsjárlauss foreldris við barnið í fæðingarorlofi. Þá fylgdu umsókninni tilkynning um fæðingarorlof, ódags., undirrituð af kæranda sem sjálfstætt starfandi einstaklingi og tveir reikningar útgefnir af kæranda á D fyrir vinnu í mars og apríl.
Þá lá fyrir við afgreiðslu umsóknar kæranda staðfesting sýslumannsins í E á faðernisviðurkenningu, dags. 9. september 2003, auk upplýsinga frá ríkisskattstjóra.
Með bréfi lífeyristryggingasviðs til kæranda, dags. 17. nóvember 2003, var honum tilkynnt að umsókn hans um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði væri synjað á þeim grundvelli að hann uppfyllti ekki það skilyrði fyrir greiðslum að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Þá var tekið fram í bréfi þessu að kærandi ætti rétt á greiðslu lægri fæðingarstyrks.
Eftir að synjunarbréf hafði verði sent kæranda bárust lífeyristryggingasviði ný gögn frá honum. Þann 20. nóvember 2003 voru mótteknar skilagreinar vegna launagreiðslna, dags. 19. nóvember 2003, sem varða greiðslutímabilið janúar til maí 2003 og virðisaukaskattsskýrsla, dags. 19. nóvember 2003 fyrir uppgjörstímabilið júlí til ágúst 2003. Þann 1. desember 2003 var móttekið staðfest endurrit af skattframtali kæranda 2003 vegna tekjuársins 2002, ásamt skattseðli og innheimtuseðli 2003, svo og útprentun ríkisskattstjóra úr staðgreiðsluskrá 2003.
Ein af framlögðum útprentunum ríkisskattstjóra er yfirlit yfir reiknað endurgjald. Þar kemur fram að 26. nóvember 2003 höfðu verið skráðar breytingar á eigin rekstri kæranda. Var hann þá samkvæmt skilagreinum skráður með áætlað reiknað endurgjald kr. H á mánuði tímabilið janúar til maí 2003 en enga starfsemi eftir það.
Eftir að viðbótargögn frá kæranda höfðu verið tekin til skoðunar var umsókn hans um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði synjað að nýju með bréfi lífeyristryggingasviðs til kæranda, dags. 10. desember 2003, á þeim grundvelli að hann uppfyllti ekki það skilyrði fyrir greiðslum að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs og hafði ekki greitt tryggingagjald það tímabil. Þá var að nýju tekið fram í bréfinu að kærandi ætti rétt á greiðslu lægri fæðingarstyrks.
Samkvæmt 1. mgr. 13. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr., laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) öðlast foreldri á innlendum vinnumarkaði rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Í lokamálslið 1. mgr. 13. gr. ffl. segir að til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi foreldis skuli miðað við skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi fyrir sama tímabil.
Barn kæranda fæddist, eins og að framan greinir, þann 6. maí 2003. Til að uppfylla skilyrði 1. mgr. 13. gr. ffl. um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hefði hann þurft að vera samfellt í sex mánuði á vinnumarkaði fyrir þann dag, eða tímabilið 6. nóvember 2002 til 5. maí 2003.
Samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra fékk kærandi ekki greidd laun sem starfsmaður á tímabilinu 6. nóvember 2002 til 5. maí 2003. Hann var með skráðan eigin rekstur fram í maí 2002, sem skráð var hætt þann 6. júní 2002. Þann 26. nóvember 2003, þ.e. fáum dögum eftir að honum hafði verið synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, voru skráðar breytingar á rekstri kæranda. Samkvæmt þeirri skráningu stundaði hann eigin rekstur í janúar til maí 2003 og áætlaði á sig reiknað endurgjald að fjárhæð kr. H mánaðarlega. Kærandi lagði fram skilagreinar sem báru með sér að hann áætlaði að greiða tryggingagjald kr. F á mánuði tímabilið janúar til maí 2003. Samkvæmt upplýsingum úr tekjubókhaldi ríkisins hefur kærandi ekki staðið skil á þessu tryggingagjaldi. Hefur hann ekkert tryggingagjald greitt vegna ársins 2003 og eina tryggingagjaldið sem hann hefur greitt vegna ársins 2002 er kr. G, sem samkvæmt upplýsingum sem fengust í síma frá sýslumanninum í E er eftir á lagt tryggingagjald sem lagt er á samkvæmt skattframtali og sem dregið var af inneign kæranda í október 2003.
Með vísan til alls framangreinds og fyrirliggjandi gagna telur lífeyristryggingasvið að kærandi uppfylli ekki framangreind skilyrði 1. mgr. 13. gr. ffl. um að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs og að af þeim sökum hafi verið rétt að synja kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.“
Greinargerðin var send til lögmanns kæranda til kynningar með bréfi, dags. 26. ágúst 2004, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki.
Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:
Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.
Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð meðal annars vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.
Í 1. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof segir að foreldri öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Jafnframt segir í 1.mgr. 13. gr. að til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi foreldris skuli miðað við skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi fyrir sama tímabil.
Með samfelldu starfi er átt við að foreldri hafi verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði, sbr. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.
Í 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 segir að til samfellds starfs teljist enn fremur:
„a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,
b. sá tími sem foreldri fær greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, er á biðtíma eftir slíkum greiðslum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, með síðari breytingum. Hið sama gildir eigi foreldri rétt á greiðslum úr Tryggingasjóði sjálfstætt starfandi einstaklinga samkvæmt lögum um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga nr. 46/1997, með síðari breytingum. Hlutaðeigandi úthlutunarnefnd metur hvort foreldri hefði átt rétt á greiðslum úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, með síðari breytingum, hefði foreldri skráð sig án atvinnu á þeim tíma sem um er að ræða, sbr. b-lið 2. mgr. Um rétt til greiðslna úr Atvinnuleysistryggingasjóði fer samkvæmt skilyrðum laga um atvinnuleysistryggingar. Hið sama gildir eigi foreldri rétt á greiðslum úr Tryggingasjóði sjálfstætt starfandi einstaklinga samkvæmt lögum um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga nr. 46/1997, með síðari breytingum.
c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga eða er á biðtíma eftir dagpeningum, enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,
d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa.“
Barn kæranda er fætt 6. maí 2003. Sex mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu er því frá 6. nóvember 2002 til fæðingardags barns.
Samkvæmt 3. mgr. 15. gr. ffl. byggir útreikningur greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði á upplýsingum er Tryggingastofnun ríkisins aflar um tekjur starfsmanns eða sjálfstætt starfandi foreldris úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Jafnframt segir í ákvæðinu að telji foreldri upplýsingar úr viðkomandi skrá ekki réttar skuli það leggja fram gögn því til staðfestingar.
Samkvæmt upplýsingum sem aflað var úr staðgreiðsluskrá í tilefni af umsókn kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði fékk hann ekki greidd laun sem starfsmaður á viðmiðunartímabilinu frá 6. nóvember til fæðingardags barns. Á því tímabili var hann heldur ekki með skráðan eigin atvinnurekstur.
Af hálfu kæranda voru lagðar fram skilagreinar um staðgreiðslu opinberra gjalda af reiknuðu endurgjaldi vegna tímabilsins janúar til maí 2003. Skilagreinarnar voru stimplaðar um móttöku sýslumannsins í E 19. nóvember 2003 en ekki um greiðslu. Þann 26. nóvember 2003 er kærandi skráður með atvinnurekstur tímabilið janúar til maí 2003 og reiknað endurgjald H kr. á mánuði.
Með hliðsjón af framangreindu fela fyrirliggjandi gögn að mati úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála eigi í sér staðfestingu á því að uppfyllt sé skilyrði 1. mgr. 13. gr. ffl. um sex mánaða samfellt starf fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er því staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ:
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.
Guðný Björnsdóttir
Heiða Gestsdóttir
Gunnlaugur Sigurjónsson