Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 85/2024-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 85/2024

Föstudaginn 10. maí 2024

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 20. febrúar 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 23. janúar 2024, um að fella niður rétt hans til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 28. desember 2023. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 23. janúar 2024, var kæranda tilkynnt að umsókn hans um atvinnuleysisbætur hefði verið samþykkt en með vísan til þess að hann hefði hætt námi án gildra ástæðna væri réttur til atvinnuleysisbóta hins vegar felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 55. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Mál kæranda var tekið fyrir að nýju hjá Vinnumálastofnun í kjölfar skýringa kæranda. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 30. janúar 2024, var fyrri ákvörðun staðfest með þeim rökum að sú ákvörðun hefði að geyma efnislega rétta niðurstöðu, þrátt fyrir ný gögn. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun sem var veittur með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 12. febrúar 2023.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 20. febrúar 2024. Með bréfi, dags. 28. febrúar 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 20. mars 2024 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 21. mars 2024. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi tekur fram að hann væri til í betri rökstuðning fyrir ákvörðun Vinnumálastofnunar um biðtíma. Kærandi sé ekki búinn með námið og því sé ekki um námslok að ræða. Þessi ákvörðun verði þó líklega til þess að hann fari ekki í meira nám.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysistrygginga þann 7. apríl 2023. Með erindi þann 26. apríl 2023 hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt með 100% bótarétti. Kærandi hafi afskráð sig þann 21. ágúst 2023 vegna náms.

Kærandi hafi aftur sótt um atvinnuleysistryggingar  þann 28. desember 2023. Í umsókn hafi kærandi ekki greint frá því að hann hefði verið í námi á síðustu námsönn en tekið fram að uppsagnarfrestur hefði verið til 28. desember 2023, þrátt fyrir enga vinnusögu frá apríl 2023. Ekki hafi verið ljóst hvort hann stundaði enn nám sem hann hafi byrjað á haustönn 2023 eða hvort kærandi hefði lokið námi sínu.

Með erindi, dags. 16. janúar 2024, hafi stofnunin óskað eftir frekari upplýsingum, svo sem  skólavottorði og skriflegum skýringum á ástæðum námsloka. Yfirlýsing frá Tækniskólanum hafi borist 17. janúar þar sem tilgreint hafi verið að kærandi væri ekki skráður í nám á vorönn 2024. Frekari skýringar hafi ekki borist.

Með erindi, dags. 23. janúar 2024, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans um atvinnuleysisbætur hefði verið samþykkt en með vísan til námsloka hafi honum verið gert að sæta tveggja mánaða biðtíma eftir greiðslum atvinnuleysisbóta samkvæmt 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Sama dag hafi kærandi sent skýringar þess efnis að fjárhagsástæður hefðu ráðið því að hann hafi hætt námi.

Mál kæranda hafi verið tekið til endurskoðunar með tilliti til nýrra gagna og með bréfi, dags. 30. janúar 2024, hafi ákvörðun í máli kæranda frá 23. janúar 2024 verið staðfest, enda hafi sú ákvörðun að mati stofnunarinnar verið efnislega rétt þrátt fyrir að ný gögn í málinu hefðu borist.

Kærandi hafi óskað eftir rökstuðningi á ákvörðun stofnunarinnar með erindi, dags. 30. janúar 2024, og honum hafi verið veittur sá rökstuðningur með bréfi, dags. 12. febrúar 2024. Kærandi hafi svarað rökstuðningi stofnunarinnar með bréfi mótteknu 20. febrúar 2024 þar sem meðal annars segi að hann teldi rökstuðninginn ekki eiga við sig þar sem hann hafi orðið fyrir áfalli í lok annar og gert tilraun til þess að skrá sig í kvöldskóla en verið hafnað.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Í c. lið 3. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sé að finna eftirfarandi skilgreiningu á námi:

„Samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.“

Í X. kafla laga um atvinnuleysistryggingar sé að finna ákvæði er mæli fyrir um biðtíma er hinn tryggði skuli sæta segi hann upp starfi án gildra ástæðna eða hætti námi án gildra ástæðna. Mál þetta lúti að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslur atvinnuleysistrygginga til kæranda í tvo mánuði vegna námsloka án gildra ástæðna á grundvelli 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistrygginga en þar segi:

„Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur hætt námi, sbr. c-lið 3. gr., án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur, sbr. þó 4. mgr. Staðfesting frá viðkomandi skóla um að námi hafi verið hætt skal fylgja umsókninni.

Hinn tryggði skal uppfylla skilyrði laga þessara á biðtímanum skv. 1. mgr.“

Í umfjöllun um 1. mgr. 55. gr. í greinargerð með frumvarpi er hafi orðið að lögum nr. 54/2006 sé vísað til athugasemda við 54. gr. frumvarpsins um hvaða ástæður geti talist gildar ástæður. Í fyrrnefndri greinargerð segi við 1. mgr. 54. gr. að erfitt geti reynst að telja með tæmandi hætti hvaða ástæður séu gildar í skilningi ákvæðisins. Lagareglan sé því matskennd og Vinnumálastofnun falið að meta hvernig atvik og aðstæður þess máls er fyrir henni liggi falli að umræddri reglu. Stofnunin skuli líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða og hafa í huga að um íþyngjandi ákvörðun sé að ræða. Jafnframt beri að líta til þess að orðalagið „gildar ástæður“ beri að túlka þröngt í þessu samhengi og þar af leiðandi falli færri tilvik en ella þar undir. Í dæmaskyni sem gildar ástæður í skilningi laganna séu t.d. nefnd þau tilvik þegar fjölskylda umsækjanda flytji búferlum vegna starfa maka eða vegna heilsufarsástæðna atvinnuleitanda. Tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem misst hafi starf sitt tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Gera verði þá kröfu til þeirra sem segi upp starfi sínu eða hætti námi að þeir hafi til þess gildar ástæður.

Kærandi hafi verið skráður í nám hjá Tækniskólanum á haustönn 2023. Samkvæmt fyrirliggjandi vottorði frá skólanum hafi hann ekki verið skráður til áframhaldandi náms á vorönn 2024. Í skýringum kæranda komi fram að ástæður námsloka hans séu af fjárhagslegum toga.

Námslok vegna fjárhagslegra erfiðleika hafi ekki verið taldar gildar ástæður í skilningi 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. niðurstöður í úrskurðum úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða í málum nr. 30/2009, 70/2010, 172/2011 og 328/2019. Ekki verið séð að þær ástæður sem kærandi færi fyrir úrsögn sinni úr námi geti talist gildar eða að breyttar forsendur hafi verið fyrir áframhaldandi námsþátttöku kæranda.

Í ljósi framangreindra atriða sé það mat stofnunarinnar að ástæður kæranda teljist ekki gildar í skilningi 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og að honum beri að sæta biðtíma á grundvelli 55. gr. laganna. 

Það sé niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi hafi hætt námi án gildra ástæðna og skuli sæta tveggja mánaða biðtíma á grundvelli 1. mgr. 55. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 55. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Ákvæði 1. mgr. 55. gr. laganna er svohljóðandi:

„Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur hætt námi, sbr. c-lið 3. gr., án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur, sbr. þó 4. mgr. Staðfesting frá viðkomandi skóla um að námi hafi verið hætt skal fylgja umsókninni.“

Í c. lið 3. gr. laganna er að finna skilgreiningu á námi samkvæmt lögunum en þar segir:

„Nám: Samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.“

Óumdeilt er að kærandi var skráður í nám við Tækniskólann á haustönn 2023. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort gildar ástæður hafi legið að baki ákvörðun kæranda um að hætta í námi. Í athugasemdum við 55. gr. í frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar segir að eðlilegra þyki að þeir sem hætti í námi án þess að hafa til þess gildar ástæður þurfi að sæta sams konar biðtíma og þeir sem hætti störfum án gildra ástæðna, sbr. 54. gr. frumvarpsins. Skipti þá ekki hvenær á námsönn hlutaðeigandi hætti námi. Jafnframt er vísað til athugasemda við 54. gr. frumvarpsins. Þar kemur fram að það sé erfiðleikum bundið að takmarka þau tilvik sem geti talist til gildra ástæðna í lögum og reglugerðum þar sem ástæður þess að fólk segi störfum sínum lausum eða missi þau geti verið af margvíslegum toga. Því sé lagt til að lagareglan verði áfram matskennd og Vinnumálastofnun falið að meta atvik og aðstæður hverju sinni. Stofnuninni beri að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Jafnframt er bent á að þar sem um íþyngjandi ákvörðun sé að ræða séu gerðar ríkar kröfur um að þegar ákvarðanir um biðtíma séu teknar liggi fyrir hvaða ástæður hafi raunverulega legið að baki því að launamaður sagði upp starfi sínu án þess að hafa annað starf í hendi, enda oft um að ræða viðkvæm mál í slíkum tilvikum. Þá kemur fram að sem gildar ástæður í skilningi laganna geti til dæmis verið þegar fjölskylda umsækjanda flytur búferlum vegna starfa maka eða vegna heilsufarsástæðna atvinnuleitanda. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ráða megi af framangreindu að almennt beri að gera nokkuð ríkar kröfur til atvinnuleitanda þegar metið er hvort ástæður fyrir úrsögn úr námi séu gildar samkvæmt 1. mgr. 55. gr. laga nr. 54/2006.

Í skýringum kæranda til Vinnumálastofnunar um ástæðu þess að hann hafi hætt í námi kemur fram að hann hafi ekki séð fram á að hafa efni á frekara námi.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála teljast þær ástæður sem kærandi hefur gefið ekki til gildra ástæðna í skilningi 1. mgr. 55. gr. laga nr. 54/2006. Að því virtu átti kærandi ekki rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en að tveimur mánuðum liðnum frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur, sbr. 1. mgr. 55. gr. laga nr. 54/2006. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 23. janúar 2024,  um að fella niður rétt A, til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta