Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 33/2019. Úrskurður kærunefndar útboðsmála.

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 25. mars 2020
í máli nr. 33/2019:
Íslensk orkumiðlun ehf.
gegn
Veitum ohf.,
Orkuveitu Reykjavíkur – Vatns- og fráveitu sf. og
Orku náttúrunnar ohf.

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 18. desember 2019 kærði Íslensk orkumiðlun ehf. útboð Veitna ohf. og Orkuveitu Reykjavíkur – Vatns- og fráveitu sf. (hér eftir vísað til sem varnaraðila) auðkennt „VEIK-2019-11 Raforkukaup fyrir Veitur“. Kærandi krefst þess aðallega að felld verði úr gildi ákvörðun varnaraðila um að hafna tilboði kæranda vegna raforkukaupa í flokki C í hinu kærða útboði, að felld verði úr gildi ákvörðun varnaraðila að ganga að tilboði Orku náttúrunnar ehf. vegna raforkukaupa í flokki C og að varnaraðilum verði gert að taka tilboði kæranda í sama flokki. Kærandi krefst þess til vara að kærunefnd útboðsmála lýsi útboðið ógilt. Þá er þess krafist í öllum tilvikum að kærunefnd útboðsmála láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda. Jafnframt er krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

Varnaraðilum var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir. Með greinargerð móttekinni 13. janúar 2020 var þess krafist að kröfum kæranda yrði vísað frá að hluta en hafnað að öðru leyti. Kærandi skilaði andsvörum 21. febrúar 2020. Orka náttúrunnar ohf. hefur ekki látið málið til sín taka.

Með ákvörðun kærunefndar útboðsmála 31. janúar 2020 var hafnað þeirri kröfu kæranda að hið kærða innkaupaferli yrði stöðvað um stundarsakir. Var það gert með vísan til þess að varnaraðilar hefðu upplýst að þeir myndu ekki ganga til samninga við Orku náttúrunnar ohf. um raforkukaup í flokki C í hinu kærða útboði á meðan málið væri til meðferðar hjá kærunefnd útboðsmála. Við þessar aðstæður væri ekki þörf á að beita heimild kærunefndar til að stöðva innkaupaferli um stundarsakir þar til endanlega hefði verið skorið úr kæru.

I

Í október 2019 buðu varnaraðilar út á EES-svæðinu raforkukaup fyrir árið 2020 í þremur flokkum, meðal annars í flokki C er varðaði kaup á raforku til að mæta tapi í dreifikerfi varnaraðila. Samkvæmt grein 3.3 í útboðsgögnum var heimilt að framlengja samningstímann um eitt ár allt að þrisvar sinnum. Í grein 1.1.4 kom fram að um væri að ræða almennt útboð sem framkvæmt væri í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 340/2017 um innkaup aðila sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutning og póstþjónustu. Í grein 1.1.6.2 var gerð sú krafa til bjóðenda að fjárhagsstaða þeirra skyldi vera það trygg að þeir gætu staðið við skuldbindingar sínar gagnvart kaupanda. Skyldi lánshæfismat bjóðenda hjá Creditinfo vera að lágmarki í flokki 1-4 auk þess sem heildarmeðalvelta bjóðenda fyrir árin 2016, 2017 og 2018 skyldi ekki vera lægri en 500 milljónir króna án virðisaukaskatts. Samkvæmt grein 1.1.6.3 skyldu bjóðendur hafa leyfi til raforkuviðskipta á Íslandi í samræmi við raforkulög nr. 65/2003. Valið skyldi á milli tilboða eingöngu á grundvelli verðs samkvæmt grein 1.1.7. Samkvæmt grein 1.1.3 skyldi frestur til að skila tilboðum og opnunartími tilboða vera 2. desember 2019 kl. 11.

Með viðauka 1 við útboðsgögn hins kærða útboðs frá 29. nóvember 2019 var upplýst að skilafrestur og opnun tilboða yrði 6. desember 2019 kl. 12:30. Með viðauka 2 við útboðsgögn 4. desember 2019 var kröfum til fjárhagslegrar stöðu bjóðenda breytt á þann veg að fallið var frá kröfu um lánshæfismat frá Creditinfo og þess í stað gerð krafa um að eiginfjárhlutfall bjóðenda samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2018 skyldi að lágmarki vera 30%. Með viðauka 3 sem gefinn var út þennan sama dag var gerð krafa um að eiginfjárhlutfallið skyldi nema 40%. Voru samhliða gefin út ný útboðsgögn sem endurspegluðu þær breytingar sem gerðar höfðu verið.

Tilboð í hinu kærða útboði voru opnuð 6. desember 2019 og bárust tilboð frá fjórum bjóðendum sem buðu í alla flokka útboðsins. Í flokki C var tilboð kæranda lægst að fjárhæð, eða 207.690.000 krónur, en tilboð Orku náttúrunnar ohf. var næst lægst að fjárhæð 209.410.000 krónur. Með bréfi varnaraðila 10. desember 2019 voru bjóðendur upplýstir um að varnaraðilar hefðu ákveðið að ganga að tilboði Orku náttúrunnar ohf. í öllum flokkum útboðsins, einnig flokki C, þar sem fyrirtækið var með næst lægsta tilboðið. Jafnframt var upplýst að tilboð kæranda hafi ekki uppfyllt þær fjárhagslegu kröfur sem gerðar voru í útboðsgögnum sem birt hefðu verið 31. október 2019, og því yrði ekki samið við hann.

II

Kærandi byggir á því að varnaraðilar hafi raskað jafnræði bjóðenda með því að breyta kröfum sem gerðar hafi verið til fjárhagslegs hæfis bjóðenda í upphaflegum útboðsgögnum tveimur dögum áður en skil tilboða hafi átt að fara fram. Svo virðist sem kröfum þessum hafi verið breytt með það að markmiði að útiloka kæranda frá þátttöku í útboðinu en kærandi hafi verið eini þátttakandinn sem hafi verið útilokaður með þeim breytingum sem gerðar hafi verið. Þá sé krafa um 40% eiginfjárhlutfall ómálefnaleg. Kærandi hafi leyfi Orkustofnunar til að stunda raforkuviðskipti en skilyrði fyrir veitingu slíks leyfis samkvæmt raforkulögum nr. 65/2003 sé að leyfishafi geti sýnt fram á fjárhagslegan styrkleika til að efna skuldbindingar vegna starfseminnar. Þá séu kröfur um fjárhagslegt hæfi í öðrum sambærilegum útboðum ekki eins strangar. Ríkiskaup geri kröfu um 10% eiginfjárhlutfall og Landsnet geri engar sérstakar kröfur að þessu leyti, en bæði geri kröfu um raforkusöluleyfi. Krafa varnaraðila um 40% eiginfjárhlutfall sé langt umfram það sem nauðsynlegt sé til að tryggja að bjóðendur geti efnt skuldbindingar sínar gagnvart varnaraðilum.

Kærandi byggir jafnframt á því að varnaraðilum sé óheimilt að hafna tilboði kæranda á þeim grundvelli að hann hafi ekki uppfyllt kröfu útboðsgagna um að heildarmeðalvelta bjóðenda fyrir árin 2016, 2017 og 2018 skyldi ekki vera lægri en 500 milljónir króna án virðisaukaskatts. Kærandi uppfylli skilyrði þetta ef eingöngu er horft til áranna 2017 og 2018, og jafnframt ef einnig er horft til 10 mánaða árshlutauppgjörs kæranda vegna ársins 2019. Kærandi hafi því sýnt fram á að fjárhagsstaða hans sé það trygg að hann geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart varnaraðilum. Hins vegar liggi fyrir að kærandi hafi fyrst hafið rekstur 1. júlí 2017 og því hafi hann ekki getað lagt fram gögn um fjárhagslegt hæfi fyrir árið 2016 þegar hann hafi engan rekstur haft með höndum. Varnaraðilum hafi því verið skylt að gefa kæranda færi á að sýna fram á fjárhagslega getu sína með framvísun annarra gagna, sbr. 4. mgr. 88. gr. reglugerðar nr. 340/2017. Það hafi kærandi gert með því að leggja fram 10 mánaða árshlutauppgjör fyrir árið 2019 og með yfirlýsingu um heildarveltu þar sem tiltekið hafi verið að félagið hafi hafið rekstur 1. júní 2017.

Kærandi mótmælir því að kæra hafi fyrst komið fram að liðnum kærufresti. Kæra lúti ekki að setningu skilyrðis um heildarmeðalveltu í útboðsgögnum heldur hvernig varnaraðilar hafi kosið að túlka og beita skilyrðinu og sækja að eigin frumkvæði ársreikning kæranda fyrir árið 2016. Jafnframt beinist kæra að þeirri ákvörðun varnaraðila að neita að taka til greina þau gögn sem kærandi hafi lagt fram og leggja mat á það hvort kærandi hefði sýnt nægjanlega fram á fjárhagslegan styrk eður ei.

III

Varnaraðilar byggja á því að kröfum og röksemdum kæranda sem lúti að kröfum útboðsgagna um heildarmeðalveltu beri að vísa frá þar sem þær séu fram komnar að liðnum kærufresti samkvæmt 1. mgr. 106. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup. Þessi krafa hafi verið óbreytt frá útboðsgögnum 31. október 2019 og samkvæmt útboðskerfi varnaraðila hafi kærandi sótt gögnin þann dag. Kærandi hafi því vitað um kröfu þessa um lengri tíma og honum því verið nauðsynlegt að kæra innan 20 daga frá þeim tíma vildi hann láta reyna á lögmæti hennar.

Varnaraðilar byggja jafnframt á því að þeim hafi verið heimilt að gera það að skilyrði fyrir þátttöku í útboðinu að bjóðandi hefði 500 milljón króna lágmarksveltu að meðaltali árin 2016, 2017 og 2018. Lögmætt hefði verið að gera kröfu um allt að 1,6 milljarða króna veltu en varnaraðilar hafi einungis gert kröfu um 500 milljón króna veltu. Þá hafi krafan verið mikilvæg til að staðreyna að bjóðendur hefðu nægjanlegt bolmagn til að standa undir skuldbindingum sínum við varnaraðla, ef af samningi yrði.

Varnaraðilar byggja einnig á því að krafa um 40% eiginfjárhlutfall hafi verið málefnaleg, hófleg og ekki úr takti við það sem gerist á íslenskum raforkumarkaði. Kærandi uppfylli nú vel framangreinda kröfu sem og aðrir bjóðendur sem tekið hafi þátt í útboðinu. Varnaraðilum hafi verið heimilt að gera framangreinda kröfu í ljósi umfangs kaupa á raforku samkvæmt útboðinu og lengdar samningstíma. Varnaraðilar séu ekki bundnir af skilyrðum í fyrri útboðum á þeirra vegum eða á vegum annarra raforkukaupenda. Þá stoði ekki að bera saman samninga með styttri gildistíma við samning þann sem boðinn var út, sem geti gilt í allt að 48 mánuði. Ef um lengri tímabil sé að ræða sé mikilvægt að fjárhagslegir burðir viðsemjanda séu tryggðir svo unnt sé að tryggja að samningar standi. Eins sé mismunandi hve mikla áhættu kaupendur séu reiðubúnir að taka hverju sinni. Þá sé varnaraðili með sérleyfi og á honum hvíli því rík ábyrgð gagnvart viðskiptavinum sínum. Það sé því mikilvægt að fjárhagslega stöðugur aðili veljist til viðskiptanna. Þá séu varnaraðilar ekki bundnir af kröfum raforkulaga við afmörkun hæfisskilyrða. Það eitt að hafa raforkusöluleyfi tryggi ekki að bjóðandi geti staðið við samningsskuldbindingar sínar. Þá er því mótmælt að skilyrði útboðsgagna hafi haft það að markmiði að útiloka kæranda frá þátttöku í útboðinu. Jafnframt hafi varnaraðilum verið heimilt að gera breytingar á kröfum um fjárhagslegt hæfi með hliðsjón af 4. mgr. 71. gr. reglugerðar nr. 340/2017. Breytingarnar hafi verið óverulegar, hóflegar og varnaraðila því ekki skylt að lengja fresti í útboðinu enda kvikni slík skylda eingöngu þegar umtalsverðar breytingar hafi verið gerðar. Breytingarnar hafi auk þess verið gerðar áður en nokkuð tilboð hafi borist og tekið jafnt til allra.

Varnaraðilar byggja einnig á því að þeim hafi ekki verið skylt að líta til þeirra viðbótargagna sem kærandi hafi lagt fram til sönnunar á fjárhagslegu hæfi sínu þar sem þau hafi ekki lotið að þeim kröfum sem útboðsgögn hafi gert. Krafa útboðsgagna hafi lotið að meðalveltu áranna 2016, 2017 og 2018. Varnaraðilum sé ekki skylt að líta til gagna um að kærandi hafi uppfyllt kröfu útboðsgagna fyrir árið 2019. Stofnað hafi verið til kæranda á árinu 2016 og samkvæmt ársreikningi hafi engin velta verið það ár. Það liggi því fyrir ársreikningar fyrir öll framangreind ár og óheimilt að líta til annarra gagna en þeirra við mat á fjárhagslegu hæfi kæranda. Geti kærandi ekki lagt fram þau gögn sem sýni fram á getu hans sé honum ekki unnt að leggja fram gögn um önnur skilyrði eða gögn sem geri það að verkum að hæfiskröfum útboðsgagna verði í raun breytt hvað hann varði. Varnaraðilar mótmæla einnig að þeir kunni að hafa bakað sér bótaskyldu gagnvart kæranda. Kærandi hafi ekki sýnt fram á að hann hefði átt raunhæfa möguleika á að vera valinn í útboðinu þar sem hann hafi ekki fullnægt kröfum þess um fjárhagslegt hæfi. Þá sé bótaskylda varnaraðila takmörkuð samkvæmt skilmálum útboðs.

IV

Eins og áður greinir byggja varnaraðilar á því að vísa eigi frá þeim kröfum kæranda sem lúta að skilyrði útboðsgagna um meðalveltu þar sem þær séu fram komnar að liðnum kærufresti samkvæmt 1. mgr. 106. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup. Málatilbúnaður kæranda að þessu leyti byggir fyrst og fremst á því að honum hafi ekki verið unnt að sýna fram á veltu fyrir árið 2016 þar sem fyrirtækið hafi fyrst hafið rekstur á árinu 2017 og því hafi varnaraðilum verið skylt að gefa kæranda kost á að sýna fram á fjárhagslega getu sína með framvísun annarra gagna og leggja mat á hvort þau gögn væru fullnægjandi. Miða verður við að kærandi hafi fyrst fengið vitneskju um að varnaraðilar teldu sig ekki geta horft til þeirra gagna við mat á fjárhaglegu hæfi hans 10. desember 2019 þegar varnaraðilar tilkynntu bjóðendum ákvörðun um val tilboðs og að tilboð kæranda hefði ekki uppfyllt kröfur um fjárhagslegt hæfi. Verður því að miða við að kærufrestur að þessu leyti hafi ekki verið liðinn við móttöku kæru 18. desember 2019.

Samkvæmt 1. og 2. mgr. 82. gr. reglugerðar nr. 340/2017 um innkaup aðila sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu er kaupanda heimilt að krefjast þess að fyrirtæki hafi tiltekna lágmarksveltu á ári í því skyni að tryggja að fjárhagsstaða fyrirtækis sé það trygg að það geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart kaupanda. Þá er jafnframt heimilt í sama skyni að krefja fyrirtæki um upplýsingar um hlutfall milli eigna og skulda. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar má almennt ekki gera kröfu um hærri lágmarksársveltu en sem nemur tvöföldu áætluðu verðmæti samnings og samkvæmt 3. mgr. verða kröfur um hlutfall milli eigna og skulda að vera gagnsæjar, hlutlægar og án mismununar. Í 4. mgr. 88. gr. kemur fram að fyrirtæki geti fært sönnur á fjárhagslega stöðu sína með einni eða fleiri af þeim aðferðum sem taldar skulu upp í reglugerð sem ráðherra setur. Geti fyrirtæki, af gildri ástæðu, ekki lagt fram þau gögn sem kaupandi krefjist geti það sýnt fram á efnahagslega og fjárhagslega stöðu sína með öðrum gögnum sem kaupandi telji fullnægjandi. Í 1. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 955/2016 um kröfur á sviði opinberra innkaupa um upplýsingar sem koma eiga fram í auglýsingum og öðrum tilkynningum, gögn til að sannreyna efnahagslega og fjárhagslega stöðu og tæknilega getu og kröfur um tæki og búnað fyrir rafræna móttöku kemur fram að að jafnaði skuli vera hægt að færa sönnur á efnahagslega og fjárhagslega stöðu bjóðanda meðal annars með því að framvísa efnahagsreikningi eða útdrætti úr honum ef krafist er birtingar efnahagsreiknings samkvæmt landslögum í landinu þar sem bjóðandi hefur staðfestu og með yfirlýsingu um heildarveltu fyrirtækisins og, eftir því sem við á, veltuna á því sviði sem fellur undir samninginn á síðustu þremur fyrirliggjandi fjárhagsárum að hámarki, eftir því hvaða dag fyrirtækið var stofnað eða rekstur hafinn, ef þessar upplýsingar um veltu eru tiltækar.

Eins og áður greinir var í grein 1.1.6.2 í útboðsgögnum meðal annars gerð sú krafa að meðalvelta bjóðenda fyrir árin 2016, 2017 og 2018 skyldi ekki vera lægri en 500 milljónir króna án virðisaukaskatts. Í gögnum málsins er að finna ársreikning kæranda fyrir reikningsárið 2016. Af honum verður ráðið að engin starfsemi hafi verið í félaginu á árinu 2016 og að í árslok 2016 hafi allt hlutafé í félaginu verið í eigu tilgreindrar lögmannsstofu. Jafnframt liggur fyrir að kærandi fékk fyrst leyfi Orkustofnunar til að stunda raforkuviðskipti 16. febrúar 2017. Þá kveðst kærandi ekki hafa hafið starfsemi fyrr en 1. júlí 2017. Verður því að miða við að kæranda hafi ekki verið mögulegt að veita upplýsingar um veltu fyrir árið 2016 svo sem krafist hafi verið í útboðsgögnum og honum hafi því verið heimilt að leggja fram önnur gögn sem sýndu fram á efnahagslega og fjárhagslega stöðu sína, sbr. 4. mgr. 88. gr. reglugerðar nr. 370/2017. Þau gögn sem kærandi lagði fram um stöðu sína að þessu leyti voru meðal annars ársreikningar fyrir rekstrarárin 2017 og 2018, 10 mánaða árshlutauppgjör fyrir árið 2019 og yfirlýsing þar sem fram kom að heildarmeðalvelta kæranda fyrir árin 2017, 2018 og fyrstu 10 mánuði ársins 2019 væri samtals yfir 500 milljónum króna, auk upplýsinga um að fyrirtækið hefði hafið rekstur 1. júlí 2017. Bera gögn þessi með sér að heildarmeðalvelta kæranda hafi náð viðmiði útboðsgagna hvort sem miðað er einungis við árin 2017 og 2018 eða ef miðað við framangreind ár ásamt fyrstu 10 mánuðum ársins 2019. Með hliðsjón af þessu verður því að miða við að kærandi hafi sýnt fram á það með fullnægjandi hætti að fjárhagsstaða hans að þessu leyti sé nægjanlega trygg til þess að kærandi geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart kaupanda.

Að mati kærunefndar útboðsmála leiðir af meginreglum útboðsréttar um jafnræði, gagnsæi og meðalhóf, sbr. og 4. mgr. 71. gr. reglugerðar nr. 340/2017 og til hliðsjónar 4. mgr. 60. gr. laga um opinber innkaup, að almennt skuli ekki breyta útboðsgögnum í verulegum atriðum þegar skammt er eftir af tilboðsfresti og að jafnaði skuli það aðeins gert ef tilboðsfrestur er framlengdur þannig að bjóðendum gefist færi á að kynna sér breytinguna og bregðast við. Af sömu meginreglum, sbr. og 2. mgr. 80. gr. laga reglugerðar nr. 340/2017 og til hliðsjónar 2. mgr. 69. gr. laga um opinber innkaup, verður jafnframt ráðið að kröfur um hæfi bjóðenda, þ. á m. fjárhagslegt hæfi, skuli tengjast samningi og vera í hæfilegu hlutfalli við efni hans.

Í máli þessu liggur fyrir að krafa um ákveðið eiginfjárhlutfall bjóðanda var fyrst gerð með viðauka við útboðsgögn 4. desember 2019, tveimur dögum fyrir lok tilboðsfrests. Upphaflega var gerð krafa um 30% eiginfjárhlutfall en sama dag var krafan hækkuð í 40%. Að mati kærunefndar verður að telja að breyting á kröfum um fjárhagslegt hæfi bjóðenda að þessu leyti hafi verið veruleg breyting á skilmálum útboðs sem ekki hafi verið heimilt að framkvæma þegar svo skammt var eftir af tilboðsfresti eins og raun ber vitni án þess að framlengja tilboðsfrest bjóðanda. Það er jafnframt mat kærunefndar að krafa um 40% eiginfjárhlutfall sé óvenju hátt hlutfall miðað við það sem almennt gerist á útboðsmarkaði með raforku, en kærandi hefur lagt fram gögn úr öðrum útboðum um raforkukaup þar sem ekki verður séð að jafn strangar kröfur til eiginfjárhlutfalls hafi verið gerðar. Að mati kærunefndar verður ekki séð að umfang kaupa á raforku í hinu kærða útboði raforku og möguleg lengd samningstíma hafi verið slík að nauðsynlegt hafi verið að hafa svo hátt eiginfjárhlutfall svo sem varnaraðilar hafa haldið fram. Þá hafa varnaraðilar ekki rökstutt hvers vegna nauðsynlegt hafi verið að hækka eiginfjárhlutfallið í 40% úr 30% eins og það var upphaflega ákvarðað í viðauka við útboðsgögnin, en af gögnum málsins verður ráðið að kærandi hefði fullnægt kröfum um 30% eiginfjárhlutfall. Með hliðsjón af öllu framangreindu verður því að telja að varnaraðilum hafi verið óheimilt að breyta útboðsgögnum með þeim hætti sem gert var og að krafa um 40% eiginfjárhlutfall hafi gengið lengra en nauðsynlegt var til þess að tryggja að bjóðendur gætu staðið við skuldbindingar sínar gagnvart varnaraðilum.

Í ljósi framangreinds verður að telja að varnaraðilum hafi verið óheimilt að hafna tilboði kæranda og taka ákvörðun um að ganga þess í stað til samninga við Orku náttúrunnar ohf. í flokki C í hinu kærða útboði. Verður því að fallast á þær kröfur kæranda að fella úr gildi ákvörðun varnaraðila frá 10. desember 2019 um að hafna tilboði kæranda í flokki C í hinu kærða útboði og ganga að tilboði Orku náttúrunnar ohf. Kærunefnd getur hins vegar ekki kveðið á um að varnaraðilum verði gert að ganga til samninga við kæranda á grundvelli tilboðs hans svo sem kærandi krefst, sbr. 1. mgr. 111. gr. laga um opinber innkaup. Þá verða ekki talin efni til að láta að svo stöddu uppi álit á skaðabótaskyldu vegna framangreinds enda verður að miða við að kærandi eigi enn möguleika á því að hljóta samning um hin kærðu innkaup.

Með hliðsjón af niðurstöðu málsins verður varnaraðilum gert að greiða kæranda 1.100.000 krónur í málskostnað.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun varnaraðila, Veitna ohf. og Orkuveitu Reykjavíkur – Vatns- og fráveitu sf., frá 10. desember 2019 í útboði auðkennt „VEIK-2019-11 Raforkukaup fyrir Veitur“, um að ganga til samninga við Orku náttúrunnar ohf. í C flokki og hafna tilboði kæranda, Íslenskrar orkumiðlunar ehf., er felld úr gildi.
Öðrum kröfum kæranda er hafnað.
Varnaraðilar greiði kæranda óskipt 1.100.000 krónur í málskostnað.


Reykjavík, 25. mars 2020.


Sandra Baldvinsdóttir

Auður Finnbogadóttir

Eiríkur Jónsson



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta