Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 309/2019 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 309/2019

Miðvikudaginn 13. nóvember 2019

A

gegn

Barnaverndarnefnd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.

Með kæru, dags. 19. júlí 2019, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar B frá 25. júní 2019 um aukna umgengni fósturbarns hans, C, við móður sína.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Drengurinn C er X ára gamall. Móðir drengsins var svipt forsjá hans og X með dómi Héraðsdóms D frá X. Drengurinn lýtur forsjá Barnaverndarnefndar B og hefur verið í varanlegu fóstri hjá kæranda og eiginkonu hans frá fyrri hluta árs X. Á grundvelli úrskurðar Barnaverndarnefndar B frá X. hefur drengurinn haft umgengni við móður sína einu sinni á ári, auk símtala í kringum jól og afmæli. Móðirin fór fram á aukna umgengni við börn sín og var sú beiðni tekin fyrir á fundi Barnaverndarnefndar B X. Samþykkt var að umgengni yrði tvisvar á ári, í annað skiptið með börnunum X í fjóra klukkutíma en hitt skiptið með hverju barni fyrir sig í tvo klukkutíma, að teknu tilliti til vilja barnanna. Móðirin samþykkti það fyrirkomulag en fósturforeldrar drengsins voru mótfallin aukinni umgengni. 

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála X. Með bréfi, dags. X, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Barnaverndarnefndar B ásamt gögnum málsins. Greinargerð barst með bréfi, dags. X, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. X. Athugasemdir bárust ekki.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi vísar til þess að hann telji að barnavernd eigi að vernda börn og taka hagsmuni þeirra fram yfir hagsmuni fullorðinna. Í fylgigögnum og umsögnum hafi komið þokkalega skýrt fram að börnin vilji halda því fyrirkomulagi sem hafi verið, vilji sem sagt ekki aukna umgengni. Fósturforeldrar drengsins hafi lýst sínu viðhorfi og því óskiljanlegt að barnaverndarnefndin hafi úrskurðað um aukinn umgengnistíma. Samantekt barnaverndarstarfsmanna og aðrar umsagnir séu í andstöðu við úrskurðinn og erfitt að sjá hvað liggi að baki hinni kærðu ákvörðun. Þar sé vísað til „vilja barnanna“ en hann hafi þegar verið kannaður í viðtölum við talsmenn og sé mjög skýr. Kærandi telji að ekki sé verið að vernda börnin. Ábyrgð sé velt yfir á börnin þar sem þau þurfi að standa fyrir máli sínu gagnvart móður í næstu umgengni, ef þau vilji ekki fara. Niðurstaðan sé óskiljanleg þar sem öll gögn málsins séu móðurinni í óhag.

III. Sjónarmið Barnaverndarnefndar B

Í greinargerð Barnaverndarnefndar B kemur fram að drengurinn C hafi farið í fóstur á heimili kæranda fyrri hluta árs X. X hafi farið á önnur fósturheimili. Umgengni barnanna við kynmóður hafi verið nokkuð regluleg frá þeim tíma, undir eftirliti þar sem móðirin hafi ekki alltaf virt þau mörk sem henni hafi verið sett varðandi samskipti við börnin í umgengni og ekki farið að tilmælum barnaverndar í þeim efnum. Frá uppkvaðningu úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála X um umgengni barnanna við kynforeldra sína, hafi móðirin hitt þau einu sinni á ári, stundum ásamt móðurömmu. Í byrjun hafi móðirin hitt drenginn og aðra systur hans saman en hina systurina eina. Síðar hafi hún gert kröfu um að hitta þau öll í einu. Móðurinni hafi verið boðið að breyta fyrirkomulaginu þannig að hún myndi annað hvort hitta hvert þeirra fyrir sig í tvo tíma í senn eða öll börnin saman í fjóra tíma. Umgengni hafi farið fram einu sinni með þeim hætti, þ.e. móðirin hitti öll börnin þrjú samtímis. Hún hafi þá kvartað undan því að í stuttri umgengni með öllum börnunum næði hún ekki sambandi við hvert og eitt þeirra og farið fram á að umgengni yrði breytt þannig að hún fengi að auki að hitta þau hvert fyrir sig. Krafa hennar hafi verið tekin fyrir á fundi Barnaverndarnefndar B þann X. Þangað hafi móðir komið ásamt lögmanni sínum og lagt fram gögn frá sálfræðingi sem vottaði að hún hefði verið í sálfræðimeðferð til að takast á við vanda sinn, með góðum árangri, og að hún vonaðist til að fá aukna umgengni við börn sín. Skipaður hafi verið talsmaður til að kanna hug drengsins til umgengni við móður sína, sbr. skýrslu frá X. Þar komi fram að drengurinn vilji halda áfram að hitta móður sína einu sinni á ári í tvo tíma en vilji hitta systur sínar oftar. 

Vísað er til þess að samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) eigi barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem séu því nákomnir. Kynforeldrar eigi með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt sé að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skuli meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri sé ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skuli taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og taka skuli mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Markmið með umgengni í varanlegu fóstri sé að stuðla að því að börn þekki uppruna sinn. Að mati Barnaverndarnefndar B sé umgengni einu sinni á ári, þar sem auk móður séu hin systkini drengsins, tæplega nægjanleg til að því markmiði verði náð. Algengt sé að umgengni sé ákveðin tvisvar til fjórum sinnum á ári þegar um varanlega fósturráðstöfun sé að ræða. Nefndinni sé hins vegar fullljóst að erfiðleikar hafi komið upp hjá börnunum í kjölfar umgengni og því hafi verið settur sá varnagli að tekið skyldi tillit til vilja barnanna. Komi í ljós að vilji þeirra standi alls ekki til þess að hitta móður sína tvisvar á ári, eða að hitta hana eina, eða komi í ljós að umgengni tvisvar á ári verði þeim erfið, verði ákvörðun endurskoðuð.

Kannað hafi verið viðhorf fósturforeldra drengsins samkvæmt 74. gr. a. bvl. og hafi þau verið andvíg umgengni hans við móður oftar en einu sinni á ári. Allt að einu hafi það verið mat barnaverndarnefndar að umgengni tvisvar á ári myndi ekki raska þeirri ró og stöðugleika sem drengurinn búi nú við á fósturheimili sínu og væri í góðu samræmi við þau markmið sem stefnt væri að með ráðstöfun hans í fóstur. Þá hafi verið haft til hliðsjónar réttur systkinanna til að viðhalda tengslum sín á milli, þannig að í öðru af tveimur skiptum myndu þau vera öll saman. Ákvörðun barnaverndarnefndar hafi því verið tekin með hagsmuni drengsins og systkina hans í huga og í samræmi við þau sjónarmið sem skuli hafa í huga þegar umgengni fósturbarna við foreldra sé ákveðin, sbr. 2., 3. og 4. mgr. 74. gr. bvl.

IV. Niðurstaða

Kærður er úrskurður Barnaverndarnefndar B um aukna umgengni fósturbarns kæranda við móður sína. Með úrskurðinum var samþykkt að umgengni yrði tvisvar á ári, í annað skiptið með börnum hennar X í fjóra klukkutíma en hitt skiptið með hverju barni fyrir sig í tvo klukkutíma, að teknu tilliti til vilja barnanna. Áður fór umgengni fram einu sinni á ári, í tvo tíma í senn með hverju barni eða öll saman í fjóra tíma.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd hennar.

Í 74. gr. a. barnaverndarlaga er kveðið á um réttarstöðu fósturforeldra við ákvörðun um umgengni. Þar segir í 1. mgr. að ávallt skuli kanna viðhorf fósturforeldra til umgengni áður en gengið sé frá samningi eða kveðinn upp úrskurður um umgengni. Liggur fyrir að það var gert áður en hinn kærði úrskurður var kveðinn upp og lýstu þau sig mótfallin aukinni umgengni með vísan til þess að það hefði slæm áhrif á drenginn.  

Það er meginregla í barnaverndarstarfi að beita skuli þeim ráðstöfunum sem ætla má að séu barni fyrir bestu og skulu hagsmunir barna ávallt hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda, sbr. 1. mgr. 4. gr. bvl. Samkvæmt 2. mgr. 46. gr. bvl. skal gefa barni kost á að tjá sig um mál sem það varðar í samræmi við aldur þess og þroska og skal taka réttmætt tillit til skoðana þess við úrlausn málsins. Ákvæðið er nánari útfærsla á meginreglu barnaverndarstarfs þess efnis að barnaverndaryfirvöld skuli í störfum sínum taka tillit til sjónarmiða og óska barna eftir því sem aldur þeirra og þroski gefur tilefni til, sbr. 2. mgr. 4. gr. bvl. Samkvæmt framangreindu ber barnaverndaryfirvöldum að leita eftir sjónarmiðum barnsins við meðferð máls og taka réttmætt tillit til skoðana þess við úrlausn málsins.

Drengnum var skipaður talsmaður í því skyni að afla upplýsinga um afstöðu hans til aukinnar umgengni, sbr. 3. mgr. 46. gr. bvl., en samkvæmt 31. gr. reglugerðar nr. 56/2004 um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd er hlutverk talsmanns að ræða við barnið og koma á framfæri sjónarmiðum þess. Í skýrslu talsmanns, dags. X kemur meðal annars fram að drengurinn vilji halda áfram að hitta móður sína einu sinni á ári í tvo tíma en vilji hitta systur sínar oftar.

Í greinargerð félagsráðgjafa Barnaverndarnefndar B, sem var lögð fram á fundi barnaverndar X, er forsögu málsins lýst og greint frá umgengni barnanna við foreldra frá upphafi fósturs. Í samantekt og mati félagsráðgjafans kemur meðal annars fram að umgengni foreldra við börnin hafi farið fram í nokkur skipti frá því að þau hafi farið í fóstur með varanlegt fóstur í huga. Umgengnin hafi gengið mjög illa, farið illa í börnin og raskað líðan þeirra mikið. Það hafi sýnt sig bæði í skóla, leikskóla og heima fyrir. Að mati starfsmanna Barnaverndarnefndar B sé mikilvægt að raska högum barnanna sem minnst, enda væru þau í varanlegu fóstri til 18 ára aldurs og tilgangur umgengni væri að þekkja uppruna sinn en ekki að viðhalda tengslum. Þau líti á fósturfjölskyldur sínar sem þeirra eigin fjölskyldur, enda eigi það svo að vera í varanlegu fóstri. Stundum hafi það tekið börnin margar vikur að jafna sig eftir umgengni við foreldrana en slíkt sé ekki leggjandi á börnin og fjölskyldur þeirra. Starfsmenn Barnaverndarnefndar B legðu því til að börnin hefðu umgengni við móður sína í eitt skipti á ári við hvert þeirra, tvo tíma í senn við hvert barn eða öll saman í fjóra tíma, auk símtala í kringum afmæli og jól.      

Af hálfu Barnaverndarnefndar B hefur komið fram að markmið með umgengni í varanlegu fóstri sé að stuðla að því að börn þekki uppruna sinn. Umgengni einu sinni á ári þar sem auk móður séu systkini drengsins, sé tæplega nægjanleg til að því markmiði verði náð. Algengt sé að umgengni sé ákveðin tvisvar til fjórum sinnum á ári þegar um varanlega fósturráðstöfun sé að ræða. Nefndinni sé hins vegar fullljóst að erfiðleikar hafi komið upp hjá börnunum í kjölfar umgengni og því hafi verið settur sá varnagli að tekið skyldi tillit til vilja barnanna. Komi í ljós að vilji þeirra standi alls ekki til þess að hitta móður sína tvisvar á ári, eða að hitta hana eina, eða komi í ljós að umgengni tvisvar á ári verði þeim erfið, verði ákvörðun endurskoðuð. Umgengni tvisvar á ári myndi ekki raska þeirri ró og stöðugleika sem drengurinn búi nú við á fósturheimili sínu og væri í góðu samræmi við þau markmið sem stefnt væri að með ráðstöfun hans í fóstur. Þá hafi verið haft til hliðsjónar réttur systkinanna til að viðhalda tengslum sín á milli, þannig að í öðru af tveimur skiptum myndu þau vera öll saman.

Við úrlausn þessa máls ber að mati úrskurðarnefndarinnar að líta til þess hvaða hagsmuni drengurinn hefur af umgengni við kæranda.

Að mati úrskurðarnefndarinnar skiptir ekki öllu máli í þessu sambandi að móðir drengsins hefur tekið sig á. Það er vegna þess að lögvarðir hagsmunir drengsins eru þeir að hann búi við stöðugleika, frið og ró í fóstrinu, fái svigrúm til að tengjast fósturfjölskyldunni áfram og að umgengni valdi sem minnstri truflun. Drengnum líður vel og ekkert bendir til að hann hafi þörf fyrir breytingar. Það geta ekki talist hagsmunir drengsins að vera í miklum tengslum við kynforeldri þar sem slík tengsl eiga ekki að vera varanleg og til frambúðar.

Að mati úrskurðarnefndarinnar hefur drengurinn getu og þroska til að meta hvernig umgengni eigi að vera háttað. Á þessum tíma í lífi drengsins eru það því ekki hagsmunir hans að tekin verði áhætta með því að auka umgengni. Að mati úrskurðarnefndarinnar myndi aukin umgengni raska ró drengsins í fóstrinu. Þá hafa fósturforeldrar krafist þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og telja að aukin umgengni við kæranda sé drengnum ekki til hagsbóta. Þá liggur einnig fyrir að starfsmenn barnaverndarnefndar hafa að undangengnu heildstæðu mati á aðstæðum barns lagt til að umgengni verði óbreytt.

Því verður að telja að umgengnin hafi ekki verið ákveðin í samræmi við þau sjónarmið sem leggja ber til grundvallar samkvæmt 2., 3. og 4. mgr. 74. gr. bvl. þegar umgengni barns í fóstri við foreldri er ákveðin. Með vísan til alls þess sem að framan greinir ber að fella hinn kærða úrskurð Barnaverndarnefndar B úr gildi.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður Barnaverndarnefndar B frá 25. júní 2019 um umgengni C við E, er felldur úr gildi.

 

Kári Gunndórsson

 

 

 

                Björn Jóhannesson                                                  Guðfinna Eydal

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta