Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 19/2013

Mánudaginn 11. maí 2015


 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 28. janúar 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 10. janúar 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 14. febrúar 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 18. febrúar 2013.

Greinargerð umboðsmanns skuldara var send kærendum til kynningar með bréfi 21. febrúar 2013 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kærenda bárust með bréfi 7. mars 2013.

Athugasemdir kærenda voru sendar umboðsmanni skuldara til kynningar með bréfi 8. mars 2013. Viðbótargreinargerð umboðsmanns skuldara barst með bréfi 20. mars 2013 og var hún send kærendum til kynningar með bréfi 25. mars 2013. Frekari röksemdir og athugasemdir kærenda bárust með bréfi 8. apríl 2013. Engar frekari athugasemdir bárust frá umboðsmanni skuldara.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1954 og 1960. Þau búa ásamt tveimur uppkomnum dætrum og dóttursyni í eigin húsnæði að C götu nr. 3 í sveitarfélaginu D.

Kærandi A er F-stjóri en kærandi B er leigubílstjóri. Samanlagaðar ráðstöfunartekjur kærenda eru 394.000 krónur á mánuði.

Kærendur rekja greiðsluerfiðleika sína til þess að afborganir lána hafi hækkað. Einnig hafi leigubíll kæranda B orðið óökufær eftir útafakstur og tekjuöflun hafi í kjölfarið orðið erfiðari.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 49.157.822 krónur. Kærendur stofnuðu til helstu skuldbindinga árin 1999 og 2004 til 2008.

Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 15. nóvember 2010. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 14. júlí 2011 var kærendum veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Umsjónarmaður tilkynnti umboðsmanni skuldara með bréfi 24. júlí 2012 að hann teldi að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil samkvæmt 15. gr. lge. Umsjónarmaður vísaði til þess að kærendur hefðu ekki lagt til hliðar fé á meðan frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hafi varað. Samkvæmt útreikningum umsjónarmanns hafi greiðslugeta kærenda verið 98.918 krónur á mánuði og á þeim 20 mánuðum sem greiðsluskjól hafi staðið hefðu þau átt að geta lagt til hliðar 1.978.360 krónur. Kærendur gáfu þær skýringar að þau hafi þurft að standa straum af viðgerðum á bifreið þeirra sem einnig hafi verið notuð til leigubílaaksturs. Kærendur lögðu fram gögn þessu til staðfestingar og tók umsjónarmaður tillit til þess kostnaðar. Þá hefðu kærendur lagt í umtalsverðan kostnað við eldsneytisbreytingar á bifreiðinni til hagræðingar. Taldi umsjónarmaður að ekki væri hægt að meta breytingarnar á bifreiðinni sem óvæntan kostnað. Þá töldu kærendur að framfærslukostnaður heimilisins hefði verið hærri en viðmið umboðsmanns skuldara gerðu ráð fyrir þar sem dóttir þeirra og sonur hennar hafi búið á heimili kærenda. Umsjónarmaður féllst ekki á þau rök með vísan til þess að almennt falli framfærsluskylda foreldra niður við 18 ára aldur barns.

Umboðsmaður skuldara sendi kærendum bréf 14. ágúst 2012 þar sem þeim var gefinn vikufrestur til að láta álit sitt í ljós og leggja fram frekari gögn áður en tekin yrði ákvörðun um hvort greiðsluaðlögunarumleitanir yrðu felldar niður. Kærendur svöruðu með tölvupósti 19. ágúst 2012 þar sem þau áréttuðu skýringar sínar en framvísuðu ekki frekari gögnum.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 10. janúar 2013 voru greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda felldar niður á grundvelli 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr.

 

II. Sjónarmið kærenda

Í kæru eru ekki settar fram kröfur en skilja verður málatilbúnað kærenda þannig að þau krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra verði felld úr gildi.

Kærendur telja að málsmeðferðin hjá umboðsmanni skuldara hafi verið ósanngjörn. Að þeirra mati hafi umsjónarmaðurinn ekki verið heiðarlegur í samskiptum við þau og umboðsmann skuldara. Þau hafi verið í sambandi við lögfræðistofu hans og hafi greint frá því á fundi að þau hygðust setja metanbúnað í leigubifreið þannig að rekstrarkostnaður myndi lækka. Umsjónarmaðurinn hafi ekki tekið illa í það. Kærendur greina frá því að kostnaður við að reka leigubifreið sé um 400.000 krónur á mánuði vegna mikils aksturs og viðhalds. Þá hafi starfsmaður umsjónarmanns greint kærendum frá því að ekki væri annað til fyrirstöðu í máli þeirra en samningur þeirra við Lýsingu vegna bifreiðarinnar. Kærendur hafi lagt til að þau myndu skila bifreiðinni til Lýsingar með metanbreytingunni gegn því að samningurinn væri uppgreiddur. Starfsmanni umsjónarmanns hafi þótt þessi hugmynd góð og hafi ætlað að bera undir Lýsingu og hafa svo samband við kærendur. Þau hafi síðan ekkert heyrt frá umsjónarmanni. Kærendur telja að skynsamlegt hafi verið að breyta bifreiðinni út frá fjárhagslegum forsendum þar sem hún hafi verið notuð í atvinnurekstri.

Kærendur segja að þegar umsókn þeirra var samþykkt hafi þeim ekki verið sérstaklega bent á skyldur sínar til að leggja til hliðar fjármuni, sbr. skilyrði 12. gr. lge. Á fundum með umsjónarmanni hafi þeim aldrei verið gerð grein fyrir því að þau þyrftu að leggja fyrir tiltekna fjárhæð og alls ekki að það kynni að varða algerri höfnun greiðsluaðlögunar. Þetta hafi fyrst komið fram meira en einu og hálfu ári eftir að þau sóttu um greiðsluaðlögun og hafi þá komið þeim algerlega í opna skjöldu. Vissulega hafi umsjónarmaður tjáð þeim að þau áttu að halda eftir öllum peningum sem hefðu verið í afgang á tímabilinu, en vandinn hafi verið sá að afgangur hafi ekki verið til staðar.

Þá mótmæli kærendur þeirri fullyrðingu umboðsmanns skuldara sem komi fram í hinni kærðu ákvörðun um að „öllum umsækjendum um greiðsluaðlögun“ hafi átt að vera skilyrði 12. gr. lge. ljós frá upphafi. Það sé rangt, þeim hafi ekki fyrr en á síðari hluta ársins 2012 verið tilkynnt að til væru sérstök viðmið um framfærslukostnað sem lögin byggðust á og leiddu til þess að tiltekin lágmarksfjárhæð þyrfti að vera afgangs um hver mánaðamót, eða samtala slíkrar tölu yfir lengra tímabil. Þeim hafi ekki verið gert ljóst fyrr en með bréfi umboðsmanns skuldara 14. ágúst 2012 að ef þau myndu bregðast þessum skyldum kynni það að valda því að greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra yrðu felldar niður.

Umboðsmanni skuldara hafi verið í lófa lagið að gera kærendum grein fyrir þessum atriðum. Embættið hafi alls ekki veitt þeim réttar upplýsingar fyrr en 14. ágúst 2012. Öllum tilraunum embættisins til að réttlæta meinta upplýsingagjöf til þeirra í þessu efni sé harðlega mótmælt.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 1. mgr. 12. gr. lge. séu tilteknar skyldur skuldara við greiðsluaðlögun þegar frestun greiðslna standi yfir. Í a-lið hennar segi að á meðan leitað sé greiðsluaðlögunar skuli skuldari leggja til hliðar af launum sínum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farboða.

Fyrir liggi að kærendur hafi óskað greiðsluaðlögunar 15. nóvember 2010 og hafi þá frestun greiðslna hafist samkvæmt 11. gr. lge. auk þess sem skyldur skuldara hafi frá þeim degi einnig tekið gildi gagnvart kærendum.

Umboðsmaður hafi sent öllum þeim sem nutu greiðsluskjóls bréf 8. apríl 2011 þar sem brýndar hafi verið fyrir þeim skyldur skuldara samkvæmt 12. gr. lge. Enn fremur hafi upplýsingar um það verið á heimasíðu embættisins. Þá hafi skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. fylgt með ákvörðun umboðsmanns skuldara um samþykki til greiðsluaðlögunar 14. júlí 2011 sem borist hafi kærendum með ábyrgðarbréfi. Þá hafi skyldur kærenda verið skýrðar og ítrekaðar á fundi umsjónarmanns og kærenda 16. ágúst 2011 og aftur 4. apríl 2012. Hafi kærendum því mátt vera ljóst að þeim bæri að halda til haga þeim fjármunum sem þau hafi átt aflögu í lok hvers mánaðar til að greiða af skuldum þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa.

Annar kærenda sé sjálfstætt starfandi og þess vegna hafi einungis verið miðað við rekstrarárin 2011 og 2012. Greiðsluskjól kærenda hafi staðið yfir í rúmlega 23 mánuði en miðað sé við tímabilið frá 1. janúar 2011 til 30. nóvember 2012. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærendur haft neðangreindar tekjur frá byrjun árs 2011 og út nóvembermánuð 2012 í krónum:

Launatekjur 1. janúar 2011 til 30. nóvember 2012 að frádregnum skatti  8.949.926
Vaxtabætur, barnabætur og sérstök vaxtaniðurgreiðsla 2011 og 2012 183.875
Samtals 9.223.624
Mánaðarlegar meðaltekjur 401.027
Framfærslukostnaður á mánuði -317.122
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 83.905
Samtals greiðslugeta í 23 mánuði 1.929.818

Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærendur hafi haft 401.027 krónur í meðaltekjur á mánuði hið minnsta á tímabili greiðsluskjóls.

Samkvæmt framansögðu skuli miða við að áætluð heildarútgjöld kærenda hafi verið um 317.122 krónur á mánuði á meðan frestun greiðslna hafi staðið. Miðað sé við nýjustu mögulegu framfærsluviðmið í því skyni að kærendum sé veitt svigrúm til að bregðast við óvæntum, minni háttar útgjöldum. Tekið sé mið af heildarfjárhæð útgjalda samkvæmt framfærsluviðmiðum desembermánaðar 2012 fyrir hjón með eitt barn, en dóttir kærenda varð 18 ára í lok október 2012. Samkvæmt þessu sé gengið út frá því að kærendur hafi haft getu til að leggja fyrir um 1.929.818 krónur á fyrrnefndu tímabili sé miðað við meðalgreiðslugetu 83.905 krónur á mánuði í 23 mánuði. Við framangreinda útreikninga hafi verið tekið tillit til breytilegra tekna kærenda á tímabilinu og miðað sé við meðaltal heildartekna.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji og sé umsjónarmanni almennt óheimilt að miða við hærri framfærslu en þá sem reiknuð hafi verið fyrir umsækjendur með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar að við mat á því hvort umsækjendur hafi sinnt skyldum sínum á meðan frestun greiðslna standi sé þeim jafnan veitt nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í hverjum mánuði. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjaldaliða sem fella megi undir almennan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. sem umsækjendur geti fært sönnur á með haldbærum gögnum.

Kærendur hafi borið því við að þau hafi þurft að greiða 500.000 krónur vegna viðgerða á bifreið sinni sem þau hafi til umráða samkvæmt bílasamningi við Lýsingu en nýti sem atvinnutæki. Þá hafi kærendur greitt kostnað vegna eldsneytisbreytinga á sömu bifreið að fjárhæð 675.000 krónur en almennt sé ekki hægt að taka tillit til kostnaðar vegna slíkra fjárútláta á meðan frestun greiðslna standi yfir.

Þá telji kærendur að kostnaður við framfærslu heimilisins sé hærri en almenn neysluviðmið umboðsmanns skuldara geri ráð fyrir vegna þess að uppkomin dóttir þeirra og barnabarn búi á heimilinu. Þau hafi þó ekki framvísað gögnum máli sínu til staðfestingar. Embætti umboðsmanns skuldara hafi ekki lagaheimild til að taka sérstakt tillit til fjárhagserfiðleika skyldmenna kærenda í aðstöðu sem þessari samkvæmt skýru ákvæði a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. um skyldur skuldara í greiðsluskjóli.

Að teknu tilliti til kostnaðar vegna nauðsynlegra viðgerða á áðurnefndri bifreið í því skyni að forða frekara tjóni ætti sparnaður kærenda að nema um 1.429.818 krónum hið minnsta. Umboðsmanni skuldara hafi ekki borist gögn sem skýri frekar þau óljósu atriði sem rakin hafi verið og skýri sá kostnaður einungis um 25% af þeirri fjárhæð sem kærendum hefði alla jafna átt að hafa verið kleift að leggja til hliðar samkvæmt fyrirmælum a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara geti ekki fallist á þær skýringar kærenda að þeim hafi ekki verið ljóst að þeim bæri að leggja til hliðar það fé sem þau ættu aflögu. Kærendur hafi lagt fram umsókn um greiðsluaðlögun hjá embætti umboðsmanns skuldara 16. nóvember 2010 eða á þeim tíma er hið svokallaða greiðsluskjól hófst við móttöku umsóknar. Með ákvörðun um að heimila kærendum að leita greiðsluaðlögunar 14. júlí 2011, sem þau hafi móttekið 18. júlí 2011, hafi fylgt greiðsluáætlun þar sem kostnaður við heimilishald þeirra hafi verið áætlaður og út frá því hafi mánaðarleg greiðslugeta þeirra verið reiknuð 73.229 krónur. Þá hafi fylgt með ákvörðuninni leiðbeiningar um skyldur skuldara samkvæmt 12. gr. lge.

Samkvæmt fundargerðum umsjónarmanns frá 16. ágúst 2011 og 4. apríl 2012 hafi verið rætt við kærendur um að á sparnað þeirra vantaði og hvernig mætti ef til vill rökstyðja það með framlagningu gagna, til að mynda um óvænt útgjöld. Kærendum hafi einnig hvenær sem er verið í lófa lagið að afla sér upplýsinga um réttaráhrif greiðsluskjólsins og skyldur sínar, hvort sem var símleiðis, rafrænt eða með komu sinni á starfsstöð umboðsmanns skuldara. Meðan á greiðsluaðlögunarumleitunum standi greiði umsækjendur ekki af skuldum sínum. Þar sem kærendur hafi haft greiðslugetu að meðaltali um 83.905 krónur á mánuði á tímabilinu, verði að telja með öllu óraunhæft að ætla að kærendur hafi staðið grandlausir í þeirri trú að sú fjárhæð sem ella hefði farið til greiðslu skulda hafi verið kærendum til ráðstöfunar til aukinnar neyslu og framfærslukostnaðar. Gera verði þá kröfu til kærenda, hafi þau verið í óvissu um stöðu sína á fyrstu dögum og mánuðum greiðsluskjólsins, að þau brygðust við óvissunni með ábyrgum hætti og settu sig í samband við embættið sem hefði þá leiðbeint þeim um stöðu þeirra og afleiðingar brota á skyldum í greiðsluskjóli.

Þá sé jafnframt ástæða til að benda á að frá umsóknardegi og áður en ákvörðun er tekin um að veita heimild til greiðsluaðlögunar, geti umsækjandi aldrei gengið að því vísu að fá umsókn sína samþykkta. Á umræddu tímabili ríki því óvissa um lyktir umsóknarinnar sem geti varað um margra mánaða skeið. Af þessum sökum verði að leggja enn ríkari skyldur á umsækjendur um að afla sér upplýsinga um stöðu sína, og að sama skapi verði þeir að bera hallann af tómlæti sínu í þeim efnum en upplýsingar hafi ávallt verið aðgengilegar.

Embætti umboðsmanns skuldara beri sem stjórnvaldi að veita þeim er til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál er snerti starfssvið þess, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hversu ítarlegar upplýsingarnar þurfi að vera geti meðal annars ráðist af mikilvægi málsins og möguleikum stjórnvaldsins til að leiðbeina að teknu tilliti til fjölda mála og annarra aðstæðna. Af þessum sökum hafi embætti umboðsmanns skuldara meðal annars haldið úti öflugum vef með nauðsynlegum upplýsingum ásamt því að halda úti símaþjónustu og rafrænni þjónustuveitu alla virka daga, allan ársins hring.

Þá vísar umboðsmaður skuldara til þess að jafnvel þótt kærendur hafi ekki fengið vitneskju um skyldur sínar samkvæmt 12. gr. lge. fyrr en með samþykki umsóknar 14. júlí 2012 hefðu þau átt að geta lagt til hliðar rúmlega 920.000 krónur frá þeim tíma til nóvember 2012.

Umboðsmaður skuldara krefst þess að ákvörðun um niðurfellingu á greiðsluaðlögunar-umleitunum kærenda verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Kærendur telja að embætti umboðsmanns skuldara hafi ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni og upplýst þau um skyldur þeirra við greiðsluaðlögunarumleitanir þegar sótt var um heimild til greiðsluaðlögunar 15. nóvember 2010. Í kæru kemur fram að kærendum hafi ekki verið ljóst að þeim bæri skylda til að leggja til hliðar fjármuni samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. fyrr en einu og hálfu ári eftir að umsókn þeirra var lögð fram hjá umboðsmanni skuldara.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál er snerta starfssvið þess. Af reglunni leiðir að stjórnvaldi ber að leiðbeina aðilum að eigin frumkvæði. Engar formkröfur eru fyrir hendi varðandi leiðbeiningarskylduna. Þannig geta upplýsingar verið bæði skriflegar og munnlegar, almennar eða sérstakar, komið fram í bæklingum eða á vefsíðum.

Með setningu laga nr. 128/2010 15. október 2010 tók gildi tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. lge. hjá þeim einstaklingum sem sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar fram til 1. júlí 2011. Þegar umsókn var lögð fram var sá háttur hafður á að umboðsmaður skuldara afhenti þessum umsækjendum sérstakt upplýsingaskjal þar sem greint var frá skyldum umsækjenda í greiðsluskjóli í samræmi við 12. gr. lge. Þar á meðal var greint frá því að umsækjendum bæri að leggja fyrir fé sem væri umfram það sem þurfti til reksturs heimilis, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Þá var greint frá því að umsækjendur mættu greiða það sem tengdist daglegum rekstri heimils og nota skyldi neysluviðmið umboðsmanns skuldara til viðmiðunar um hvað teldist eðlilegur kostnaður í því sambandi. Þá var sérstaklega vakin athygli á því að uppfyllti umsækjandi ekki skyldur sínar meðan á frestun greiðsla stæði gæti það leitt til þess að samningur um greiðsluaðlögun kæmist ekki á.

Þá sendi umboðsmaður skuldara umsækjendum sem voru í greiðsluskjóli bréf 8. apríl 2011 og 27. nóvember 2012 þar sem meðal annars var minnt á skyldur umsækjenda þess efnis að leggja til hliðar fjármuni sem voru umfram framfærslu samkvæmt 12. gr. lge.

Á vefsíðu umboðsmanns skuldara á þeim tíma er kærendur sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar voru upplýsingar um skyldur umsækjenda við greiðsluaðlögunarumleitanir. Eftirfarandi texti var á vefsíðunni undir liðnum greiðsluaðlögun einstaklinga:

„Á fresttíma má umsækjandi einungis greiða það sem viðkemur rekstri heimilsins og framfærslu. Framfærslan innifelur mat, hreinlætisvörur, tómstundir, fatnað, lækniskostnað skv. neysluviðmiði umboðsmanns og fastra liða í framfærslu s.s. síma, hita, rafmagn, dagvistun og fleira. Umsækjandi þarf einnig að leggja til hliðar allar afgangstekjur sínar. Á fresttíma er kröfuhöfum óheimilt að taka við greiðslum vegna skulda hvort sem umsækjandi er í skilum eða vanskilum. Þetta á við um greiðslur af veðlánum og öðrum lánum s.s. bílakaupalánum, yfirdráttarlánum og fleira. Þá er kröfuhöfum einnig óheimilt að krefjast nauðungarsölu á eigum umsækjenda og hjá þeim sem kynnu að vera í ábyrðum fyrir umsækjenda. Frestun greiðslna lýkur með samningi, afturköllun eða synjun umsóknar.“

Kærunefndin telur að kærendum hafi mátt vera ljóst að þeim bar að haga framfærslu sinni eftir sérstökum framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara þegar þau sóttu um greiðsluaðlögun. Í því sambandi var sérstaklega tilgreint í umsóknareyðublaði um greiðsluaðlögun hvaða fjárhæðir framfærsla þeirra skyldi miðast við og að frekari upplýsingar um framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara væri að finna á vefsíðu embættisins. Í umsókninni segir: „Þú finnur framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara á heimasíðunni www.ums.is.

Samkvæmt gögnum málsins voru kærendur einnig upplýst um skyldur sínar í samræmi við 1. mgr. 12. gr. lge. með skriflegum leiðbeiningum sem fylgdu með ákvörðun umboðsmanns skuldara 14. júlí 2011 þar sem kærendum var veitt heimild til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt greiðsluáætlun sem einnig fylgdi ákvörðun umboðsmanns skuldara var mánaðarleg greiðslugeta kærenda eftir framfærslu tiltekin 73.229 krónur. Þá voru skyldur kærenda skýrðar og ítrekaðar á fundi umsjónarmanns og kærenda 16. ágúst 2011 og aftur 4. apríl 2012.

Kærunefndin telur að embætti umboðsmanns skuldara hafi samkvæmt framansögðu leiðbeint kærendum þegar þau sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar með fullnægjandi hætti með því að veita upplýsingar við móttöku umsóknar, í tilkynningu sem send var kærendum á tímabili greiðsluskjóls, á vefsíðu embættisins og með upplýsingum á umsókneyðublaði um greiðsluaðlögun. Var um að ræða útskýringar á afdráttarlausu lagaákvæði a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun þar sem segir að á meðan leitað er greiðsluaðlögunar skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Eins og fram kemur í leiðbeiningunum er þar enn fremur útskýrt að skylda til að leggja fé til hliðar hefjist frá því að umsókn um greiðsluaðlögun er móttekin þegar frestun greiðslna hefst. Að þessu virtu er það álit kærunefndarinnar að umboðsmaður skuldara hafi framfylgt leiðbeiningarskyldu stjórnsýslulaga við meðferð málsins. Kærendum bar því að virða skyldur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. frá þeim tíma er þau sóttu um heimild til greiðsluaðlögun 15. nóvember 2010.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til 12. gr. lge. þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. ber skuldara að leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Eins og fram er komið tilkynnti umsjónarmaður með bréfi til umboðsmanns skuldara 24. júlí 2012 að hann teldi að kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að láta hjá líða að leggja til hliðar í greiðsluskjóli. Taldi hann því rétt að umboðsmaður skuldara felldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge. Umboðsmaður skuldara felldi síðan greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður 10. janúar 2013.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði laganna hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kærenda um greiðsluaðlögun 15. nóvember 2010. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Bar kærendum því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn þeirra var móttekin hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt gögnum málsins hafa kærendur verið upplýst um skyldu sína til að leggja fjármuni til hliðar í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Að mati umboðsmanns skuldara hefðu kærendur átt að leggja til hliðar 2.121.399 krónur frá því umsókn þeirra um greiðsluaðlögun var lögð fram, eða allt frá 15. nóvember 2010. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að kærendur hafi enga fjármuni lagt til hliðar en embættið hafi tekið tillit til óvænts kostnaðar sem nam 500.000 krónum vegna viðgerða á bifreið þeirra.

Samkvæmt leiðréttum skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kærenda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

Tímabilið 1. desember 2010 til 31. desember 2010: Einn mánuður
Nettótekjur A  250.936
Nettótekjur B 120.750
Mánaðartekjur alls að meðaltali 371.686


Tímabilið 1. janúar 2011 til 31. desember 2011: 12 mánuðir
Nettótekjur A 3.109.586
Nettómánaðartekjur A að meðaltali 259.132
Nettótekjur B 1.382.400
Nettómánaðartekjur B að meðaltali 115.200
Nettótekjur alls 4.491.986
Mánaðartekjur alls að meðaltali 374.332


Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir
Nettótekjur A 3.273.902
Nettómánaðartekjur A að meðaltali 272.825
NettótekjurB 1.728.000
NettómánaðartekjurB að meðaltali 144.000
Nettótekjur alls 5.001.902
Mánaðartekjur alls að meðaltali 416.825


Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 9.865.574
Nettómánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 394.623


Tímabilið 1. desember 2010 til 31. desember 2012: 25 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 9.865.574
Bótagreiðslur 183.875
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 10.049.449
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 401.978
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 317.122
Greiðslugeta kærenda á mánuði 84.856
Alls sparnaður í 25 mánuði greiðsluskjóli x 84.856 2.121.399

 

Að mati umboðsmanns skuldara hafa kærendur gefið viðhlítandi skýringar og lagt fram gögn vegna óvæntra útgjalda að fjárhæð 500.000 króna vegna viðgerða á bifreið þeirra sem telja verður að hafi verið nauðsynlegar. Kærunefndin telur að útlagður kostnaður vegna eldsneytisbreytinga á bifreið kærenda hafi ekki verið nauðsynlegur til framfærslu í skilningi 12. gr. lge. Samkvæmt gögnum málsins hafa kærendur ekki lagt fyrir fjármuni á tímabili greiðsluskjóls.

Það er mat kærunefndarinnar að kærendum hafi mátt vera það ljóst, með vísan til leiðbeininga umboðsmanns skuldara og þeirrar greiðsluáætlunar sem kærendur fengu í hendur, að þeim hafi borið skylda til samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. að leggja til hliðar af tekjum sínum á tímabili greiðsluskjóls.

Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna stendur er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum. Að teknu tilliti til óvæntra útgjalda að fjárhæð 500.000 króna hefðu kærendur átt að geta lagt fyrir 1.621.399 krónur á tímabili greiðsluskjóls.

Samkvæmt þessu fellst kærunefndin á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Þar sem kærendur hafa brugðist skyldum sínum samkvæmt framangreindu verður að telja að umboðsmanni skuldara hafi borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge. að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta