Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 92/2013

Mánudaginn 11. maí 2015

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 18. júní 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 7. júní 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 20. ágúst 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 21. ágúst 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 29. ágúst 2013 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 6. mars 2014. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1973. Hann er í óskráðri sambúð en kærandi og sambýliskona hans búa í eigin 213 fermetra einbýlishúsi að B götu nr. 65 sveitarfélaginu D ásamt þremur börnum. Eignin er í eigu kæranda og sambýliskonu hans til helminga. Kærandi greiðir meðlag með tveimur öðrum börnum sínum.

Kærandi á aðra fasteign sem er 147 fermetra einbýlishús að E götu nr. 25 sveitarfélaginu D en sú eign hefur verið í útleigu undanfarin ár. Kærandi hefur ekki talið fram leigutekjur vegna eignarinnar.

Kærandi er með sveinspróf í rafsuðu og starfar sem vélvirki. Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur hans eru 338.523 krónur. Aðrar tekjur hans eru leigutekjur að fjárhæð 120.000 krónur á mánuði.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 37.614.556 krónur og stafa þær einkum frá árunum 2007 og 2010.

Kærandi rekur fjárhagserfiðleika sína einkum til minnkandi tekna sinna og sambýliskonu sinnar.

Kærandi sótti um heimild til greiðsluaðlögunar 7. febrúar 2012. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 15. maí 2012 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hans. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Í bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 12. nóvember 2012 kom fram að samkvæmt upplýsingum frá skattyfirvöldum hefðu tekjur kæranda verið eftirtaldar í krónum á tímabilinu júní til október 2012, en kærandi hefði verið í greiðsluskjóli frá 15. maí 2012:

 

Launatekjur (nettó) 2.066.758
Vaxtabætur 1.8.2012 500.000
Sérstök vaxtaniðurgreiðsla 106.492
Barnabætur 59.775
Leigutekjur (brúttó) 600.000
Samtals 3.333.025

 

Heildarútgjöld samkvæmt neysluviðmiði umboðsmanns skuldara og upplýsingum frá kæranda sjálfum á framangreindu tímabili hafi numið 1.403.360 krónum. Framfærslukostnaður sé miðaður við sambúðarfólk með fjögur börn sem reki eina bifreið. Miðað sé við að sambýliskona kæranda greiði helming framfærslukostnaðar og alls annars sem þarf við rekstur heimilisins. Heildarsparnaður kæranda á tímabilinu ætti samkvæmt framansögðu að vera 1.929.665 krónur. Komið hafi í ljós að sparnaður kæranda hafi aðeins verið 400.000 krónur.

Umsjónarmaður hafi sent kæranda tölvupóst 16. október 2012 og óskað eftir gögnum vegna óvæntra útgjalda sem skýrt gætu lítinn sparnað hans. Hafi verið gefinn frestur til 24. október sama ár til að leggja fram gögnin. Í tölvupóstinum hafi einnig verið áréttaðar skyldur skuldara í greiðsluskjóli samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. og tekið fram að brot á skyldum gæti leitt til niðurfellingar greiðsluaðlögunarumleitana samkvæmt 15. gr. lge. Kærandi hafi ekki lagt fram umbeðin gögn.

Með vísan til þessa hafi umsjónarmaður talið að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil á grundvelli 15. gr. lge.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda 22. janúar 2013 var honum gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Í svari kæranda komi fram að hann teldi ekki rétt að ganga út frá því að rekstrarkostnaði heimilisins væri skipt jafnt á milli kæranda og sambýliskonu hans þar sem hún væri afar tekjulág. Sambýliskonan hafi sótt um greiðsluaðlögun en greiðslugeta hennar væri neikvæð. Einnig hafi komið fram hjá kæranda að hann hafi notað vaxtabætur sem hann hafi fengið í ágúst 2012 til að greiða reikninga að fjárhæð 650.000 krónur. Kærandi greindi frá erfiðum heimilisaðstæðum á barnmörgu heimili hans en þar byggju sex börn. Hann teldi að tekjur sínar hefðu lækkað á milli áranna 2011 og 2012. Loks hafi komið fram hjá kæranda að hann teldi framfærslukostnað heimilisins 760.000 krónur á mánuði. Kærandi lagði ekki fram gögn máli sínu til stuðnings.

Embætti umboðsmanns féllst á að eðlilegt væri að kærandi greiddi meira til heimilisins en sambýliskona kæranda en óskaði skýringa á fjölda barna á heimilinu þar sem opinber gögn sýndu þrjú börn á heimilinu. Þá var endurtekin beiðni til kæranda um að framvísa afriti af kvittunum um sérstaka liði í framfærslu og afriti af kvittunum þeirra reikninga sem hann greiddi að fjárhæð 650.000 krónur í ágúst 2012. Kærandi svaraði fyrirspurn umboðsmanns og staðfesti að á heimilinu væru þrjú börn en að auki dveldu tvö ungmenni mikið á heimilinu. Kærandi kvaðst ekki átta sig á hvaða gögn hann geti lagt fram en framvísaði afriti af bankareikningi sínum. Enn á ný óskaði umboðsmaður skuldara eftir afriti af kvittunum kæranda vegna fyrrgreindra greiðslna sem hann innti af hendi í ágúst 2012. Kærandi framvísaði loks kvittunum um sérstaka liði í framfærslu til að staðfesta hærri mánaðarleg útgjöld og hreyfingaryfirlit af bankareikningi sínum vegna tímabilsins 2. apríl 2012 til 1. október 2012 og tímabilsins 31. maí 2012 til 13. september 2012.

Með bréfi til kæranda 7. júní 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki kröfur í málinu en skilja verður kæru hans svo að hann krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Fyrir liggi að kærandi hafi óskað eftir heimild til að leita greiðsluaðlögunar 7. febrúar 2012. Umsókn hans hafi verið samþykkt 15. maí 2012 og hafi þá frestun greiðslna hafist, svokallað greiðsluskjól, samkvæmt 11. gr. lge. auk þess sem skyldur kæranda hafi þá tekið gildi. Greiðsluskjól kæranda hafi staðið yfir í 11 mánuði miðað við tímabilið frá 1. júní 2012 til 30. apríl 2013.

Samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra hafi kærandi haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:

 

Launatekjur 1. júní 2012 til 30. apríl 2013 að frádregnum skatti 4.638.031
Barnabætur, vaxtabætur og sérstök vaxtaniðurgreiðsla 2011 678.224
Leigutekjur 1.100.000
Samtals 6.446.500
Mánaðarlegar meðaltekjur 586.045
Framfærslukostnaður á mánuði 436.360
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 149.685
Samtals greiðslugeta í 11 mánuði 1.646.540

 

Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærandi hafi haft 586.045 krónur í meðaltekjur á mánuði hið minnsta á 11 mánaða tímabili sem notað sé til viðmiðunar á þeim tíma er kærandi naut greiðsluskjóls.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kæranda hafi mest verið um 436.360 krónur á mánuði á meðan hann hafi notið greiðsluskjóls. Kærandi sé í sambúð og hafi einn sótt um greiðsluaðlögun en samkvæmt því sé miðað við framfærslukostnað júnímánaðar 2013 fyrir tvo fullorðna og fjögur börn. Gert sé ráð fyrir að sambýliskona kæranda beri 25% af kostnaði við framfærslu heimilisins á móti kæranda sem beri 75% af kostnaðinum. Þá sé gert ráð fyrir helmingsframfærslu þeirra tveggja barna sem greitt sé meðlag með og ætla megi að dvelji töluvert á heimilinu.

Kærandi hafi lagt fram afrit reikninga um sérstaka liði í mánaðarlegri framfærslu og hafi verið tekið tillit til þeirra skýringa í ofangreindum framfærslukostnaði. Samkvæmt þessu sé gengið út frá því að kærandi hafi haft getu til að leggja fyrir um 1.646.540 krónur á fyrrnefndu tímabili sé miðað við meðalgreiðslugetu 149.685 krónur á mánuði í 11 mánuði.

Kærandi hafi greint frá því að hann hafi greitt reikninga að fjárhæð 650.000 krónur sem hafi verið með gjalddaga fyrir 16. maí 2012 en samkvæmt 11. gr. lge. hafi greiðsla þeirra verið í greiðslufresti. Telji kærandi að fjárhæð reikninganna skýri vöntun á sparnaði sem því nemi. Kærandi hafi ekki framvísað haldbærum gögnum vegna þessa.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Með bréfi 12. nóvember 2012 fór umsjónarmaður þess á leit við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður á grundvelli a-liðar 1. mgr. 12. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Í framhaldi af þessu felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður 7. júní 2013.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Bar kæranda því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn hans var samþykkt hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi verið upplýstur um skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Að mati umboðsmanns skuldara hefði kærandi átt að leggja til hliðar 1.646.540 krónur frá því að umsókn hans um greiðsluaðlögun var samþykkt, eða allt frá 15. maí 2012 til 30. apríl 2013. Í ákvörðun umboðsmanns um niðurfellingu á greiðsluaðlögunarumleitunum kemur fram að greiðslugeta kæranda hafi að meðaltali verið 149.685 krónur á mánuði í greiðsluskjóli þegar tekið hafði verið tillit til athugasemda kæranda um aukinn framfærslukostnað. Kærandi hafi ekki lagt fram gögn er sýni hvernig hann ráðstafaði fyrrnefndum 1.646.540 krónum. Hann kveðst þó hafa lagt fyrir 400.000 krónur.

Kærandi kveður sinn hluta í framfærslukostnaði heimilisins hærri en 50% þar sem sambýliskona hans sé mjög tekjulág og standi þar af leiðandi ekki undir helmingi framfærslukostnaðar. Einnig sé heimilið barnmargt.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum, upplýsingum frá kæranda og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kæranda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

 

Tímabilið 1. júní 2012 til 31. desember 2012: Sjö mánuðir
Nettótekjur alls 2.967.261
Nettóhúsaleigutekjur að meðaltali 700.000
Nettótekjur alls 3.667.261
Nettómánaðartekjur alls að meðaltali 523.894


Tímabilið 1. janúar 2013 til 31. maí 2013: Fimm mánuðir
Nettótekjur alls 1.849.849
Nettóhúsaleigutekjur að meðaltali 500.000
Nettótekjur alls 2.349.849
Nettómánaðartekjur alls að meðaltali 469.970


Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 6.017.110
Nettómánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 501.426

 

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kæranda og bætur var greiðslugeta kæranda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

 

Tímabilið 1. júní 2012 til 31. maí 2013: 12 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 6.017.110
Bótagreiðslur 2012 642.358
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 6.659.468
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 554.956
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 436.360
Greiðslugeta kæranda á mánuði 118.596
Alls sparnaður í 12 mánuði í greiðsluskjóli x 118.596 1.423.148

 

Kærandi kveðst hafa lagt fyrir 400.000 krónur og greitt reikninga að fjárhæð 650.000 krónur á tímabili greiðsluskjóls. Hann hefur ekki lagt fram gögn til stuðnings fyrrnefndum sparnaði. Ekki er heldur upplýst í málinu hvaða reikninga kærandi greiddi með 650.000 krónum og því liggur ekki fyrir hvort um var að ræða nauðsynlegan, óvæntan kostnað. Ekki er því unnt að taka tillit til þessa við útreikning á sparnaði kæranda í greiðsluskjóli.

Það er mat kærunefndarinnar að kæranda hafi mátt vera það ljóst, með vísan til skriflegra leiðbeininga umboðsmanns skuldara og þeirrar greiðsluáætlunar sem hann fékk í hendur, að honum hafi borið skylda til að leggja til hliðar af tekjum sínum á tímabilinu og að ráðstafa ekki fjármunum sem söfnuðust fyrir í greiðsluskjóli sem gagnast gætu kröfuhöfum við gerð samnings um greiðsluaðlögun.

Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna stendur er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum. Samkvæmt því hefði kærandi átt að geta lagt til hliðar 1.423.148 krónur á tímabili greiðsluskjóls.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að kærandi hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. og að umboðsmanni skuldara hafi því borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er með vísan til þessa staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta