Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 102/2013

Mánudaginn 11. maí 2015

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 8. júlí 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 20. júní 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 20. ágúst 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 26. ágúst 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 30. ágúst 2013 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 6. mars 2014. Engar athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1956. Hann er fráskilinn og á þrjár uppkomnar dætur. Hann býr í eigin 149 fermetra íbúð að B götu nr. 50 í sveitarfélaginu C. Kærandi er sjálfstætt starfandi listamaður.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 39.488.195 krónur.

Kærandi rekur fjárhagserfiðleika sína einkum til tímabundins atvinnuleysis og tekjulækkunar.

Kærandi sótti um greiðsluaðlögun 25. febrúar 2011 og með ákvörðun umboðsmanns skuldara 28. september 2011 var honum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hans. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 15. mars 2013 kom fram að umsjónarmaður teldi að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil á grundvelli 15. gr. lge. Með bréfi 6. febrúar 2013 hafi umsjónarmaður farið fram á upplýsingar um hve mikið kærandi hefði lagt fyrir á meðan frestun greiðslna stóð yfir. Einnig var óskað upplýsinga um þáverandi tekjur kæranda. Af staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra hafi mátt ráða að kærandi hefði aðeins fengið greidd laun í apríl 2012 en frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hafi byrjað 25. febrúar 2011 og ekki liggi fyrir hverjar tekjur hans hafi verið frá þeim tíma. Af gögnum málsins megi einnig sjá að kærandi hafi ekki staðið í skilum með tryggingagjald að fjárhæð 184.464 krónur frá því að greiðsluskjólið hófst. Þá hafi kærandi ekki staðið í skilum með greiðslu lögboðinna fasteignagjalda fyrir tímabilin mars til ágúst 2011 og janúar til desember 2012. Í svari kæranda hafi komið fram að hann væri ekki í launaðri vinnu en hann tæki að sér ýmis verkefni. Einnig hafi kærandi greint frá því að hann myndi gera upp skuld sína við skattstjóra þegar hann skilaði skattframtali fyrir tekjuárið 2012. Engar upplýsingar hafi verið gefnar um sparnað kæranda eða skuld á fasteignagjöldum. Viðhlítandi gögn hafi heldur ekki verið lögð fram.

Að mati umsjónarmanns hafi svör kæranda verið ófullnægjandi. Hafi umsjónarmaður upplýst kæranda um það með tölvupósti 20. febrúar 2012 og gefið honum sex daga frest til að svara fyrirspurnum sínum og leggja fram nauðsynleg gögn og upplýsingar til þess að unnt væri að vinna málið áfram. Hvorki hafi borist gögn né upplýsingar innan frestsins. Umsjónarmaður hafi því talið rétt að senda umboðsmanni skuldara málið með vísan til 15. gr. lge. Byggi umsjónarmaður í fyrsta lagi á því að fyrirliggjandi gögn sýni ekki fram á að kærandi uppfylli skilyrði lge. til að leita greiðsluaðlögunar þar sem fjárhagur hans sé í raun óljós með vísan til a- og b-liða 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. gr. lge. Í öðru lagi byggi umsjónarmaður á því að ekki liggi fyrir hve mikið kærandi hafi lagt til hliðar á tíma greiðsluskjóls með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Í þriðja lagi byggi umsjónarmaður á því að kærandi hafi stofnað til skulda á tímabili greiðsluskjóls með því að láta hjá líða að greiða fasteignagjöld og tryggingagjald. Með því hafi hann brotið gegn skyldum sínum samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Með ábyrgðarbréfi umboðsmanns skuldara til kæranda 21. maí 2013 var honum gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Kærandi hafi svarað með tölvupósti 3. júní 2013 þar sem lagt hafi verið fram afrit af skattframtali vegna tekjuársins 2012. Engin frekari gögn eða upplýsingar hafi borist.

Með bréfi til kæranda 20. júní 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. a- og d-liði 1. mgr. 12. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki kröfur í málinu en skilja verður kæru hans svo að hann krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærandi gerir ekki grein fyrir sjónarmiðum sínum eða málsástæðum í málinu.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Þá sé í d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. kveðið á um að skuldari skuli ekki stofna til nýrra skulda eða gera ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna nema skuldbinding sem stofnað sé til sé nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða.

Greiðsluskjól kæranda hafi staðið yfir í rúma 27 mánuði miðað við tímabilið frá 1. mars 2011 til 31. maí 2013. Kærandi sé sjálfstætt starfandi listamaður og telji tekjur sínar fram á ársgrundvelli. Við útreikning á greiðslugetu hans sé því miðað við skattskyldar mánaðartekjur áranna 2011 og 2012 að meðaltali. Samkvæmt upplýsingum úr skattskýrslum hafi skattskyldar árstekjur hans á árinu 2011 verið 2.599.636 krónur og skattskyldar árstekjur á árinu 2012 verið 3.623.861 króna. Ætla megi að heildartekjur kæranda hafi því numið 7.001.434 krónum á því 27 mánaðra tímabili sem um ræði eða 259.312 krónur á mánuði að meðaltali. Útreikningur á greiðslugetu kæranda sé eftirfarandi í krónum:

 

Heildartekjur á tímabilinu 7.001.434
Samtals 7.001.434
Mánaðarlegar meðaltekjur 259.312
Framfærslukostnaður á mánuði 173.959
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 85.353
Samtals greiðslugeta í 27 mánuði 2.304.541

 

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Sé umsjónarmanni almennt óheimilt að miða við hærri framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir kæranda með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar við mat á því hvort skuldarar hafi sinnt skyldum sínum í greiðsluskjóli að þeim sé að jafnaði játað nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjalda sem fella megi undir almennan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærandi hafi haft 259.312 krónur í meðaltekjur á mánuði á 27 mánaða tímabili sem notað sé til viðmiðunar á þeim tíma er kærandi naut greiðsluskjóls.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kæranda hafi mest verið um 173.959 krónur á mánuði á meðan hann hafi notið greiðsluskjóls. Samkvæmt því sé miðað við framfærslukostnað júnímánaðar 2013 fyrir einstakling. Á þessum grundvelli sé gengið út frá því að kærandi hafi haft getu til að leggja fyrir um 2.304.541 krónu á fyrrnefndu tímabili sé miðað við meðalgreiðslugetu 85.353 krónur á mánuði í 27 mánuði.

Kærandi hafi hvorki veitt upplýsingar um sparnað sinn í greiðsluskjóli né lagt fram gögn er skýrt gætu hvers vegna hann hafi ekki lagt fé til hliðar á tímabilinu samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Þrátt fyrir greiðslugetu hafi kærandi vanrækt að greiða fasteignagjöld fyrir fasteign sína að B götu nr. 50 í sveitarfélaginu C. Nemi vanskilin 397.143 krónum samkvæmt fyrirliggjandi yfirlitum. Með þessu hafi kærandi stofnað til nýrrar skuldar í skilningi d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. a- og d-liði 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a- og d-liða 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í d-lið sama ákvæðis er kveðið á um að skuldari skuli ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna. Sú undantekning er gerð að heimilt er að stofna til nýrra skuldbindinga þegar skuldbinding er nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Með bréfi 15. mars 2013 fór umsjónarmaður þess á leit við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður á grundvelli a- og b-liða 1. mgr. 6. gr. og a- og d-liða 1. mgr. 12. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Í framhaldi af þessu felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður 20. júní 2013.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist í fyrsta lagi á því að kærandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi lagt til hliðar þá fjármuni sem honum hafi verið unnt á því tímabili sem hann naut greiðsluskjóls. Í öðru lagi er hún byggð á því að kærandi hafi látið hjá líða að greiða fasteignagjöld og þannig stofnað til skulda.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II þeirra laga hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kæranda um greiðsluaðlögun. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Bar kæranda því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn hans var móttekin hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi verið upplýstur um þessar skyldur.

Að mati umboðsmanns skuldara hefði kærandi átt að leggja til hliðar 2.304.541 krónu frá því að umsókn hans um greiðsluaðlögun var lögð fram, eða allt frá 1. mars 2011 til 31. maí 2013. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á greiðsluaðlögunarumleitunum kemur fram að greiðslugeta kæranda hafi að meðaltali verið 85.353 krónur á mánuði í greiðsluskjóli. Kærandi hafi hvorki lagt fram gögn er sýni hvað hann hafi lagt til hliðar á tímabili greiðsluskjóls né gögn er sýni fram á óvænt útgjöld á tímabilinu. Einnig hefði kærandi látið hjá líða að greiða fasteignagjöld í greiðsluskjóli og þannig stofnað til nýrra skulda.

Í málinu liggja ekki fyrir upplýsingar um nettótekjur kæranda á tímabili greiðsluskjóls en í hinni kærðu ákvörðun byggir umboðsmaður skuldara á brúttótekjum kæranda. Samkvæmt fyrirliggjandi skattskýrslum vegna tekjuáranna 2011 og 2012 voru brúttótekjur kæranda þessi tvö ár samtals 6.223.497 krónur eða að meðaltali 259.312 krónur á mánuði. Engar upplýsingar liggja fyrir um tekjur kæranda á árinu 2013. Þá liggja engar upplýsingar fyrir um álagningu skatta eða greiðslu bóta á tímabili greiðsluskjóls. Telst fjárhagur kæranda að þessu leyti óljós. Er samkvæmt þessu ekki unnt að reikna út hvort og þá hvaða fjárhæð kærandi hefði átt að leggja til hliðar á tímabilinu og þar með hvort hann hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Verður því að telja að ekki hafi verið lagður viðhlítandi grunnur að þeirri niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærandi hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Í öðru lagi byggist ákvörðun umboðsmanns skuldara á því að kærandi hafi stofnað til nýrra skulda vegna vanskila á fasteignagjöldum í greiðsluskjóli en það sé í andstöðu við d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Kærandi hefur ekki tjáð sig um þetta atriði. Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi hefur ekki staðið skil á þeim fasteignagjöldum sem til féllu eftir að heimild til greiðsluaðlögunar var veitt að fjárhæð 299.787 krónur, sbr. yfirlit um fasteignagjöld 15. mars 2013. Var þó gert ráð fyrir því í framfærsluútreikningum umboðsmanns skuldara að fasteignagjöld væru á meðal útgjalda kæranda á meðan frestun greiðslna stóð yfir, enda nær slík frestun ekki til krafna sem verða til eftir að heimild til að leita greiðsluaðlögunar hefur verið veitt, sbr. 3. mgr. 11. gr. lge. Hefur kærandi því að mati kærunefndarinnar stofnað til nýrra skulda í skilningi d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. og er þar með fallist á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærandi hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt því lagaákvæði.

Þar sem kærandi hefur brugðist skyldum sínum samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. verður að telja að umboðsmanni skuldara hafi þar með borið að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta