Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 104/2013

Fimmtudaginn 21. maí 2015

 

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 5. júlí 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 23. maí 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 10. júlí 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara. Greinargerðin barst með bréfi 26. ágúst 2013.

Greinargerð umboðsmanns skuldara var send kærendum til kynningar með bréfi 30. ágúst 2013 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 6. mars 2014. Athugasemdir bárust ekki.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1969 og 1973. Þau búa ásamt þremur uppkomnum sonum sínum í eigin 174,5 fermetra íbúð að C götu nr. 24 í sveitarfélaginu D. Kærandi A er framreiðslumaður en kærandi B starfar við þjónustu. Til ráðstöfunar hafa kærendur 546.590 krónur á mánuði.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt greiðsluyfirliti umboðsmanns skuldara eru 66.894.339 krónur.

Kærendur rekja fjárhagserfiðleika sína einkum til atvinnuleysis, tekjulækkunar og offjárfestingar.

Kærendur sóttu um greiðsluaðlögun 23. maí 2011 og með ákvörðun umboðsmanns skuldara 27. janúar 2012 var þeim veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 27. nóvember 2012 var greint frá því að fram væru komin atriði sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil á grundvelli lge. Komið hafi í ljós að kærendur hefðu ekki greitt húsfélagsgjöld frá því að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hófst, þ.e. frá 1. júní 2011 til 1. október 2012. Samkvæmt 3. gr. lge. beri skuldara að greiða af lögveðskröfum sem falli til eftir að hann fer í greiðsluskjól. Þá hafi kærendur heldur ekki greitt afborganir af framkvæmdaláni húsfélagsins C götu nr. 24 en skuld vegna þessa sé 945.000 krónur. Að auki nemi lögveðskröfur frá nefndu húsfélagi vegna ógreiddra húsfélagsgjalda ríflega 2.700.000 krónum. Umsjónarmaður taldi sig af framangreindum ástæðum tilneyddan til að nýta heimild í 1. mgr. 15. gr. lge. Hann taldi að kærendur hefðu brotið gegn skyldum sínum í greiðsluskjólinu en samkvæmt lge. hafi þeim borið að greiða lögveðskröfur á tímabilinu.

Með ábyrgðarbréfi umboðsmanns skuldara til kærenda 4. apríl 2013 var þeim gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Í svörum kæranda hafi komið fram að þau hafi staðið í þeirri trú að skuld vegna framkvæmdaláns yrði hluti greiðsluaðlögunarsamnings og þyrfti ekki að greiða sérstaklega þess utan. Hafi embættið sent kærendum nýtt bréf vegna andmæla þeirra og skorað á þau að senda frekari gögn. Engin gögn hafi borist.

Með bréfi til kærenda 23. maí 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður með vísan til 15. gr., sbr. a- og d-liði 1. mgr. 12. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur gera ekki kröfur í málinu en skilja verður kæru þeirra svo að þau krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærendur kveðast ekki átta sig á þeirri fjárhæð sem þau hafi átt að leggja til hliðar á tímabili greiðsluskjóls. Aðstæður þeirra hafi breyst á tímabilinu og við hafi bæst útgjöld, svo sem vegna fermingar.

Við kaup sín á íbúð við C götu nr. 24 hafi kærendur yfirtekið lán. Hafi þau átt í deilum við húsfélagið vegna þessa láns en kærendur hafi viljað að greiðsluaðlögun tæki til þess. Kærendur segja að eldri skuld við húsfélag hafi verið greidd upp.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Þá sé í d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. kveðið á um að skuldari skuli ekki stofna til nýrra skulda eða gera ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna nema skuldbinding sem stofnað sé til sé nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða. Ekki verði séð af fyrirliggjandi gögnum að kærendur hafi staðið við skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Fyrir liggi að kærendur hafi óskað eftir greiðsluaðlögun 23. maí 2011 og hafi frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. lge. hafist þann dag. Frá sama tíma hafi skyldur þeirra samkvæmt 12. gr. lge. orðið virkar. Greiðsluskjól kærenda hafi því staðið yfir í 20 mánuði miðað við tímabilið frá 1. júní 2011 til 31. janúar 2013. Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum hafi kærendur haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:

 

Launatekjur 1. júní 2011 til 31. janúar 2013 að frádregnum skatti 11.913.057
Vaxtabætur, sérstök vaxtaniðurgreiðsla og endurgreiðsla álagðra gjalda 919.395
Samtals 12.870.621
Mánaðarlegar meðaltekjur 643.531
Framfærslukostnaður á mánuði 311.553
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 331.978
Samtals greiðslugeta í 20 mánuði 6.639.561

 

Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærendur hafi haft 643.531 krónu í meðaltekjur á mánuði á 20 mánaða tímabili sem notað sé til viðmiðunar á þeim tíma er kærendur hafi notið greiðsluskjóls.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kærenda hafi verið um 311.553 krónur á mánuði á meðan þau hafi notið greiðsluskjóls. Samkvæmt því sé miðað við framfærslukostnað janúarmánaðar 2013 fyrir tvo fullorðna einstaklinga. Samkvæmt þessu sé gengið út frá því að kærendur hafi haft getu til að leggja fyrir um 6.639.561 krónu á fyrrnefndu tímabili. Hafi þá verið tekið tillit til breytilegra tekna kærenda á tímabilinu og sé miðað við meðaltal heildartekna.

Kærendur hafi ítrekað verið upplýst um skyldur sínar til að leggja fyrir í greiðsluskjóli og hafi ekki lagt fram gögn er veitt gætu skýringar á því hvers vegna þau hafi ekki lagt fyrir fé í námunda við 6.639.561 krónu. Enn fremur hafi upplýsingar um það verið að finna á heimasíðu embættisins. Þá hafi skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. fylgt með ákvörðun umboðsmanns skuldara um samþykki til greiðsluaðlögunar 27. janúar 2012 sem borist hafi kærendum með ábyrgðarbréfi. Einnig séu skyldurnar ætíð útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og skuldara. Hafi kærendum því mátt vera ljóst frá upphafi að þeim bæri að halda til haga þeim fjármunum sem þau hafi haft aflögu í lok hvers mánaðar til að nota þegar að því kæmi að gengið yrði til samninga við kröfuhafa.

Þá hafi kærendur stofnað til skulda í greiðsluskjóli. Samkvæmt yfirlitum frá húsfélaginu að C götu nr. 24 hafi kærendur lengi vanrækt að greiða afborganir lögveðskrafna til húsfélagsins. Samanlögð heildarskuld kærenda við húsfélagið nemi 2.475.496 krónum. Þar af hafi 943.219 krónur fallið í gjalddaga í greiðsluskjóli kærenda eða frá 1. júní 2011 en sú skuld teljist lögveðskrafa og falli utan greiðsluaðlögunar í skilningi a-liðar 1. mgr. 3. gr. lge. þar sem segi að greiðsluaðlögun taki ekki til krafna sem hafi orðið til eftir að umsókn um greiðsluaðlögun hafi verið tekin til greina. Kærendur hafi veitt skýringar á því hvers vegna þau hafi ekki staðið í skilum með fyrrnefndar greiðslur til húsfélags.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. a- og d-liði 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a- og d-liða 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Samkvæmt d-lið sama ákvæðis er kveðið á um að skuldari skuli ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna. Sú undantekning er gerð að heimilt er að stofna til nýrra skuldbindinga þegar skuldbinding er nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Með bréfi 27. nóvember 2012 fór umsjónarmaður þess á leit við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður á grundvelli d-liðar 1. mgr. 12. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Í framhaldi af þessu felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður 23. maí 2013 með vísan til a- og d-liða 1. mgr. 12. gr. lge.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist annars vegar á því að kærendur hafi ekki lagt til hliðar þá fjármuni sem þeim hafi verið unnt að leggja til hliðar á því tímabili sem þau nutu greiðsluskjóls. Hins vegar byggist ákvörðunin á því að kærendur hafi látið hjá líða að greiða lögveðskröfur og þannig stofnað til skulda í greiðsluskjólinu.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II þeirra laga hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kærenda um greiðsluaðlögun. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Bar kærendum því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn þeirra var móttekin hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt gögnum málsins hafa kærendur verið upplýst um skyldu sína til að leggja fjármuni til hliðar í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Að mati umboðsmanns skuldara hefðu kærendur átt að leggja til hliðar 6.639.561 krónu frá því að umsókn þeirra um greiðsluaðlögun var lögð fram, eða allt frá 1. júní 2011 til 31. janúar 2013. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á greiðsluaðlögunarumleitunum er byggt á því að greiðslugeta kærenda hafi að meðaltali verið 311.553 krónur á mánuði í greiðsluskjóli. Kærendur hafi ekki lagt til hliðar og að auki stofnað til skuldar á tímabilinu. Hafi engin gögn verið lögð fram af hálfu kærenda þessu til skýringa.

Kærendur kveðast ekki átta sig á þeirri fjárhæð sem þau hafi átt að leggja til hliðar á tímabilinu. Einnig hafi aðstæður þeirra breyst og útgjöld bæst við.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kærenda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á eftirfarandi tímabilum:

 

Tímabilið 1. júní 2011 til 31. desember 2011: Sjö mánuðir
Nettótekjur A 2.632.538
Nettómánaðartekjur A að meðaltali 376.077
Nettótekjur B 1.739.128
Nettómánaðartekjur B að meðaltali 248.447
Nettótekjur alls 4.371.666
Mánaðartekjur alls að meðaltali 624.524


Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir
Nettótekjur A 3.957.110
Nettómánaðartekjur A að meðaltali 329.759
Nettótekjur B 2.999.505
Nettómánaðartekjur B að meðaltali 249.959
Nettótekjur alls 6.956.615
Mánaðartekjur alls að meðaltali 579.718


Tímabilið 1. janúar 2013 til 30. apríl 2013: Fjórir mánuðir
Nettótekjur A 1.507.404
Nettómánaðartekjur A að meðaltali 376.851
Nettótekjur B 1.064.858
Nettómánaðartekjur B að meðaltali 266.215
Nettótekjur alls 2.572.262
Mánaðartekjur alls að meðaltali 643.066


Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 13.900.543
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 604.371

 

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kæranda og bætur var greiðslugeta kærenda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

 

Tímabilið 1. júní 2011 til 30. apríl 2013: 23 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 13.900.543
Bótagreiðslur 919.115
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 14.819.658
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 644.333
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara 311.553
Greiðslugeta kæranda á mánuði 332.780
Alls sparnaður í 23 mánuði í greiðsluskjóli x 332.780 7.653.939

 

Kærendur hafa framvísað kvittun fyrir greiðslu húsgjalda janúar til apríl 2012 að fjárhæð 120.847 krónur. Kvittunin er dagsett 1. júlí 2013, þ.e. eftir að greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra voru felldar niður. Kærendur hafa gefið þær skýringar á því hvers vegna þau hafa ekki lagt fyrir í greiðsluskjóli að útgjöld hafi aukist. Í því sambandi tiltaka þau einungis kostnað vegna fermingar. Þá kveða þau aðstæður hafa breyst en gera ekki grein fyrir því hverjar þær breytingar eru.

Það er mat kærunefndarinnar að kærendum hafi mátt vera það ljóst samkvæmt þeim upplýsingum sem fram komu í umsóknareyðublaði, á vefsíðu embættis umboðsmanns skuldara og fylgiskjölum sem þau fengu í hendur með ákvörðun umboðsmanns skuldara, þar sem þeim var veitt heimild til greiðsluaðlögunar, að þeim hafi borið skylda til að leggja til hliðar af tekjum sínum á tímabili greiðsluskjóls í samræmi við skýr fyrirmæli a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eigi að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna stendur sé gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum. Samkvæmt því hefðu kærendur átt að geta lagt til hliðar 7.653.939 krónur á tímabili greiðsluskjóls en af málatilbúnaði þeirra verður ekki annað ráðið en þau hafi ekkert lagt fyrir.

Í öðru lagi byggist ákvörðun umboðsmanns skuldara á því að kærendur hafi stofnað til nýrra skulda í greiðsluskjóli í andstöðu við d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafa fallið á kærendur lögveðskröfur að fjárhæð 962.438 krónur í greiðsluskjóli eða frá 1. júní 2011 til 1. mars 2013. Verður að telja að með þessari háttsemi kærenda hafi þau brotið gegn þeim skyldum sem á þeim hvíldu samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að kærendur hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt a- og d-liðum 1. mgr. 12. gr. lge. og að umboðsmanni skuldara hafi því borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er með vísan til þess staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta