Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 61/2013

Fimmtudaginn 28. maí 2015

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 2. maí 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 18. apríl 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 8. maí 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 10. maí 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 16. maí 2013 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi 10. nóvember 2013. Voru þær sendar embætti umboðsmanns skuldara með bréfi 13. nóvember 2013 og óskað eftir afstöðu embættisins. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1962. Hann er einhleypur og býr í eigin íbúð að B götu nr. 66 í sveitarfélaginu C. Kærandi er öryrki.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt greiðsluáætlun umboðsmanns skuldara eru 33.634.886 krónur.

Kærandi rekur fjárhagserfiðleika sína einkum til veikinda.

Kærandi sótti um greiðsluaðlögun 29. júní 2011 og með ákvörðun umboðsmanns skuldara 5. mars 2012 var honum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hans. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Í bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 2. október 2012 kom fram að kærandi hefði stofnað til nýrra skuldbindinga meðan á frestun greiðslna, svokölluðu greiðsluskjóli, stóð. Þá hafi kærandi ekkert lagt til hliðar á tímabilinu. Kærandi hafi greint frá því að hann hafi ekki verið upplýstur um skyldur sínar sem skuldari í greiðsluaðlögun. Honum hafi einungis verið gerð grein fyrir því að hann væri kominn í greiðsluskjól og því hafi hann ekki greitt neina reikninga. Þar á meðal væru reikningar sem kæranda hafi borið að greiða í greiðsluskjólinu, svo sem vegna fasteigna- og húsfélagsgjalda. Fyrir liggi að kærandi afli sér tekna við smíði og viðgerðir auk þess sem hann þiggi örorkubætur. Kærandi hafi ekki upplýst umsjónarmann um fjárhæð teknanna þrátt fyrir beiðni þar að lútandi. Með vísan til þessa hafi umsjónarmaður séð sig knúinn til að leggja til niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana á grundvelli a- og d-liða 1. mgr. 12. gr., sbr. 15. gr. lge.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda 13. mars 2013 var kæranda gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Í svari kæranda hafi meðal annars komið fram að heilsa hans hafi verið slæm undanfarið ár og að hann hefði ekki haft aðrar tekjur en örorkubætur á þeim tíma.

Með bréfi til kæranda 18. apríl 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að mál hans verði unnið að nýju. Skilja verður þetta svo að hann krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærandi greinir frá því að vegna andlegra veikinda hafi hann ekki áttað sig á því hvernig hann hafi átt að haga sér í greiðsluskjóli. Hann hafi talið að honum bæri ekki að greiða neina reikninga á tímabilinu. Þá hafi kærandi talið að hann stofnaði ekki til nýrra skulda nema með því að taka ný lán. Á fundi með umsjónarmanni hafi kærandi ekki meðtekið upplýsingar um skyldur sínar og að auki hafi honum reynst erfitt að nálgast upplýsingar hjá umsjónarmanni. Upplifun kæranda sé sú að honum hafi ekki verið hjálpað.

Vegna þunglyndis, kvíða og ótta sé kærandi ekki fær um að annast fjármál sín hvað þá að takast á við það ferli og reglur sem fylgi því að leita til umboðsmanns skuldara. Kærandi telji að embætti umboðsmanns hefði átt að taka tillit til þessa við meðferð málsins.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara á meðan hann njóti greiðsluskjóls. Í d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. sé kveðið á um að skuldari skuli ekki stofna til nýrra skulda eða gera ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna nema skuldbinding sem stofnað sé til sé nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða.

Skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. hafi fylgt með ákvörðun umboðsmanns skuldara um samþykki til greiðsluaðlögunar 5. mars 2012 sem borist hafi kæranda með ábyrgðarbréfi. Að auki séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli samkvæmt 12. gr. lge. ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og skuldara. Enn fremur hafi upplýsingar um það verið á heimasíðu embættisins. Hafi kæranda því mátt vera ljóst frá upphafi að honum væri óheimilt að stofna til nýrra skuldbindinga í greiðsluskjóli.

Ljóst sé að kærandi hafi stofnað til nýrra skulda í greiðsluskjóli. Sé um að ræða vanskil á tryggingum að fjárhæð 468.607 krónur, skuld við húsfélag að fjárhæð 227.669 krónur og skuld við Orkuveitu Reykjavíkur að fjárhæð 150.598 krónur. Samtals hafi kærandi því stofnað til skulda að fjárhæð 846.874 krónur á tímabili greiðsluskjóls en það teljist í andstöðu við ákvæði d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Umboðsmaður bendir á að gert hafi verið ráð fyrir umræddum kostnaði í greiðsluáætlun sem gerð hafi verið fyrir kæranda.

Í kæru hafi verið greint frá því að kærandi hefði greitt inn á skuld við Orkuveitu Reykjavíkur. Þetta hafi kærandi ekki stutt gögnum.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Í d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. er kveðið á um að skuldari skuli ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna. Sú undantekning er gerð að heimilt er að stofna til nýrra skuldbindinga þegar skuldbinding er nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Með bréfi 2. október 2012 fór umsjónarmaður þess á leit við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður, meðal annars á grundvelli d-liðar 1. mgr. 12. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Í framhaldi af þessu felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður 18. apríl 2013.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn um heimild til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II þeirra laga hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kæranda um greiðsluaðlögun 29. júní 2011. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Bar kæranda því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn hans var móttekin hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi verið upplýstur um skyldur sínar samkvæmt 1. mgr. 12. gr. lge.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að kærandi hafi látið hjá líða að greiða tryggingar, húsfélagsgjöld og gjöld til Orkuveitu Reykjavíkur og þannig stofnað til skulda í greiðsluskjóli en það sé í andstöðu við d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Kærandi kveðst ekki hafa áttað sig á skyldum sínum í greiðsluskjólinu vegna andlegra veikinda. Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi hefur ekki staðið skil á húsfélagsgjöldum sem til féllu á tímabilinu 1. nóvember 2011 til 1. janúar 2013 alls að fjárhæð 227.669 krónur. Þá hefur hann heldur ekki greitt vatns- og fráveitugjöld vegna tímabilsins 4. júlí 2011 til 2. október 2012 samtals að fjárhæð 150.598 krónur. Engin gögn liggja fyrir um nýja skuld vegna trygginga. Samkvæmt þessu nema nýjar skuldir kæranda því alls 378.267 krónum. Gert var ráð fyrir því í framfærsluútreikningum umboðsmanns skuldara að þessi gjöld væru á meðal útgjalda kæranda á meðan frestun greiðslna stóð yfir, enda nær slík frestun ekki til krafna sem verða til eftir að heimild til að leita greiðsluaðlögunar hefur verið veitt, sbr. 3. mgr. 11. gr. lge. Hefur kærandi því að mati kærunefndarinnar stofnað til nýrra skulda í skilningi d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að kærandi hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. og að umboðsmanni skuldara hafi því borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta