Hoppa yfir valmynd

Nr. 404/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 26. nóvember 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 404/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20110018

Beiðni […] um endurupptöku

 

I. Málsatvik og málsmeðferð

Þann 16. apríl 2020 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 21. október 2019, um að synja […], fd. […], ríkisborgari Gana um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á Íslandi.

Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 20. apríl 2020. Þann 27. apríl 2020 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 187/2020, dags. 12. maí 2020, var beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa hafnað. Kærandi óskaði í fyrra sinn eftir endurupptöku á úrskurði kærunefndar þann 25. ágúst 2020. Þeirri beiðni var synjað af kærunefnd þann 17. september 2020. Kærandi lagði öðru sinni fram beiðni um endurupptöku þann 8. nóvember 2020 og bárust kærunefnd fylgigögn þann 11. nóvember 2020.

Kærunefnd telur að leggja megi þann skilning í beiðni kæranda að óskað sé eftir endurupptöku máls hans á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II. Málsástæður og rök kæranda

Ráða má af beiðni kæranda að hann byggi beiðni sína um endurupptöku á því að hann telji að atvik hafi breyst verulega frá því úrskurður kærunefndar var kveðinn upp í máli hans.

Fram kemur í beiðni kæranda um endurupptöku að kærandi hafi nú dvalið hér á landi í 18 mánuði og sé virkur meðlimur [...]. Þá sé kærandi með verkfræðigráðu og hafi lokið 4. stigi á íslenskunámskeiði. Þá ítrekar kærandi ástæðu flótta síns frá heimaríki en hann kveður sig hafa neyðst til að flýja eftir að hafa tapað verslun sinni í bruna og flóði og ekki fengið bætur frá þarlendum yfirvöldum. Kærandi lagði fram fréttatilkynningu frá ganverskum samtökum þar sem fram kemur m.a. að þolendur hamfaranna hafi enn ekki fengið bætur.

III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Með úrskurði kærunefndar í máli kæranda, dags. 16. apríl 2020, var komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því ætti hann ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kæranda í heimaríki væru ekki með þeim hætti að veita bæri honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga. Þá var beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans hafnað með úrskurði kærunefndar þann 17. september 2020. Fram kom m.a. í úrskurðinum að ekkert í gögnum málsins hafi bent til þess að aðstæður kæranda eða aðstæður í heimaríki hans hafi breyst þannig að hægt væri að fallast á beiðni um endurupptöku af þeim sökum.

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku m.a. á því að hann hafi nú dvalið hér á landi í 18 mánuði. Í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kemur fram að heimilt sé að veita útlendingi sem sótt hefur um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt ákvæðinu, að því tilskildu að skorið hafi verið úr um að hann uppfylli ekki skilyrði skv. 37. og 39. gr. laganna. Samkvæmt orðanna hljóðan miðast lokadagur frests skv. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga við ákvörðun á stjórnsýslustigi. Í athugasemdum við frumvarp til laga kemur fram að: „[þ]essi grein kveður á um heimild til að veita umsækjanda um alþjóðlega vernd dvalarleyfi af mannúðarástæðum hafi hann ekki fengið niðurstöðu í máli sínu innan 18 mánaða. Er hér um að ræða endanlega niðurstöðu hjá stjórnvöldum, þ.e. innan 18 mánaða á báðum stjórnsýslustigum.“

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi þann 24. maí 2019. Úrskurður kærunefndar í máli kæranda var birtur fyrir honum þann 20. apríl 2020. Málsmeðferðartími stjórnvalda í máli kæranda var því 10 mánuðir og 28 dagar. Var máli kæranda því lokið á báðum stjórnsýslustigum innan þeirra tímamarka sem fram koma í ákvæði 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Af því leiðir að ljóst er að kærandi uppfyllir ekki skilyrði ákvæðis 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga til dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Að öðru leyti byggir kærandi á sömu málsatvikum og málsástæðum sem hann byggði á og bar fyrir sig í kærumáli sínu fyrir kærunefnd. Nefndin tók afstöðu til þeirra málsástæðna í úrskurði kveðnum upp 16. apríl 2020. Ásamt framangreindri fréttartilkynningu lagði kærandi fram skjöl þar sem fram kemur að kærandi sé meðlimur í kirkju í Gana og í [...]. Jafnframt lagði kærandi fram prófgráðu sína í verkfræði, vottorð um að hann hafi lokið 4. stigi í íslenskukennslu og vottorð þar sem fram kemur að hann hafi sótt félagslega ráðgjöf og náð þeim markmiðum sem sett hafi verið. Að mati kærunefndar eru framangreind gögn ekki þess eðlis að aðstæður kæranda eða aðstæður í heimaríki hans geti talist hafa breyst verulega frá því að úrskurður kærunefndar var kveðinn upp. Með vísan til framangreinds er það því mat kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að atvik í máli kæranda hafi breyst verulega frá því að úrskurður kærunefndar frá 16. apríl 2020 var birtur, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Samantekt

Að framangreindu virtu ert það því mat kærunefndar að atvik í máli kæranda hafi ekki breyst verulega þannig að taka beri mál hans upp að nýju á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá er ekkert sem bendir til þess að niðurstaða í máli kæranda hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.

Með vísan til alls framangreinds er það mat kærunefndar að hafna beri beiðni kæranda um endurupptöku málsins.

 

Úrskurðarorð

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

The request of the appellant to re-examine the case is denied.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

Bjarnveig Eiríksdóttir                      Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta