Hoppa yfir valmynd

Nr. 159/2018 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 5. apríl 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 159/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18020040

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 13. febrúar 2018 kærði […], fd. […], ríkisborgari Marokkó (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 8. febrúar 2018, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 16. nóvember 2017. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun þann 18. janúar 2018 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 8. febrúar 2018, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 13. febrúar 2018. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 26. febrúar 2018.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki vegna þess að hann sé ofsóttur af fyrrum tengdafjölskyldu sinni, en kærandi eigi enga ættingja lengur þar í landi. Þá sé kærandi af kynþætti berba.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kemur fram að aðalástæða flótta kæranda frá heimaríki sé sú að hann verði fyrir fordómum þar í landi þar sem hann tilheyri minnihlutahópi berba í Marokkó. Telji kærandi að hann muni verða fyrir mismunun og jafnvel frelsissviptingu vegna uppruna síns verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis. Kærandi hafi búið meirihluta ævi sinnar með foreldrum sínum á Spáni þar sem þau hafi dvalarleyfi og hafi kærandi því lítil sem engin tengsl við heimaríki sitt.

Kærandi hafi áður sótt um alþjóðlega vernd hér á landi árið 2016, þá hafi honum verið synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar og hafi kærunefnd útlendingamála staðfest ákvörðun stofnunarinnar. Í viðtali við Útlendingastofnun þann 31. mars 2016 hafi kærandi greint frá því að hann óttist foreldra stúlku sem hann hafi átt í ástarsambandi við á Spáni. Hafi fjölskylda stúlkunnar haft í líflátshótunum við kæranda og fjölskyldu hans og óttist kærandi um líf sitt. Þá hafi kærandi ekki þorað að leita til lögreglu á Spáni af ótta við að fjölskylda stúlkunnar muni frétta af því.

Í greinargerð kæranda er fjallað almennt um aðstæður í Marokkó og stöðu mannréttinda þar í landi. Í því sambandi vísar kærandi til fjölda skýrslna og gagna, þ. á m. skýrslu bandarísku utanríkisþjónustunnar fyrir árið 2016 en þar komi m.a. fram að fyrirferðarmestu vandamálin tengd mannréttindum í landinu tengist spillingu. Þá virði öryggissveitir landsins ekki mannréttindi jafnframt sem öryggissveitir landsins séu taldar hafa pyndað fanga. Dómskerfi Marokkó skorti sjálfstæði og séu dæmi um að sakborningar njóti ekki opinberrar, réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi. Þá hafi stjórnvöld skert tjáningar- og fjölmiðlafrelsi í landinu. Efnahagsástandið í landinu sé bágborið og séu því miklar líkur á að kærandi verði atvinnu- og húsnæðislaus verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis.

Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt alþjóðleg vernd skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem hann sæti ofsóknum í heimaríki sínu og grundvallarmannréttindi hans séu ekki tryggð þar í landi. Kærandi heldur því fram að hann uppfylli skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem ofsóknir í hans garð megi rekja til þess að hann sé hluti af þjóðarbroti barbera í Marokkó. Í greinargerð kæranda kemur fram að hann verði fyrir mismunun í heimaríki vegna þess að hann sé af berbi. Berbar eigi ættir sínar að rekja til kaspía menningarhefðar í Norður-Afríku og sé tungumálahefð þeirra frábrugðin hefðum annarra einstaklinga frá Marokkó. Berbar hafi alla tíð barist gegn valdi araba og hafi þetta ollið mikilli togstreitu milli þeirra og valdhafa í Marokkó, en konungur Marokkó sé arabi. Fátækt sé mikil meðal berba í landinu og ólæsi sé talsvert meðal þeirra. Síðustu áratugi hafi verið örðugleikar í samskiptum berba og marokkóskra stjórnvalda og telji berbar að stjórnvöld í landinu virði vandamál þeirra að vettugi. Kærandi telji að sem berbi tilheyri hann tilteknu þjóðerni skv. c-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Þá hafi kærandi ástæðuríkan ótta við ofsóknir þar sem hann tilheyri tilteknu þjóðerni skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Verði kæranda gert að snúa aftur til heimaríkis telji hann að það brjóti gegn grundvallarreglu þjóðaréttar um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.

Til vara gerir kærandi kröfu um að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 115/2001, um breytingar á þágildandi útlendingalögum, komi fram að með erfiðum félagslegum aðstæðum sé m.a. vísað í að einstaklingur hafi þörf á vernd vegna erfiðra félagslegra aðstæðna í heimaríki. Með erfiðum almennum aðstæðum sé m.a. vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti þegnum sínum ekki vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Kærandi hafi takmörkuð tengsl við Marokkó og hafi hann búið stærstan hluta lífs síns á Spáni. Verði kæranda gert að snúa aftur til heimaríkis yrði það honum mjög þungbært þar sem hann hafi litla sem enga þekkingu á daglegu lífi jafnframt sem hann hafi lítil tengsl við landið. Þá sé kæranda mismunað af marokkóskum stjórnvöldum vegna uppruna síns. Af þessu telur kærandi ljóst að hann uppfylli skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Þá bendir kærandi á í greinargerð að við mat á möguleika á flótta innanlands beri að líta til þess hvort slíkur flutningur geti talist viðeigandi úrræði og hvort krafan sé sanngjörn. Almennt séu ekki forsendur til að kanna möguleika á flótta innan heimaríkis ef ljóst sé að ríkið skorti vilja eða getu til að vernda einstaklinga gegn ofsóknum. Í þeim tilvikum þar sem stjórnvöld séu valdur að ofsóknum skuli gengið út frá því að raunverulega vernd sé ekki að fá í neinum hluta landsins. Kærandi bendir á að flutningur innanlands muni ekki leysa hann undan þeirri kerfisbundnu mismunun og hættu á ofsóknum sem hann standi frammi fyrir vegna uppruna síns.

Kærandi gerir athugasemd við rannsókn Útlendingastofnunar í máli hans og telur hann að stofnunin hafi ekki fullnægt rannsóknarskyldu sinni skv. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Að mati kæranda hafi ekki farið fram einstaklingsbundið og sjálfstætt mat á aðstæðum kæranda í málinu, heldur hafi Útlendingastofnun einungis stuðst við almennar upplýsingar um Marokkó og sneitt fram hjá mikilvægum staðreyndum er varða spillingu, ofsóknir og mismunun í landinu. Þá verði ekki séð að Útlendingastofnun hafi leitað eftir upplýsingum um fjölskylduna sem hafi ofsótt kæranda og þá raunverulega vernd sem hann geti fengið frá yfirvöldum í landinu. Í viðtali við Útlendingastofnun hafi kærandi ekki verið spurður hversu lengi hann hafi búið í Marokkó og ekki liggi fyrir hvort kærandi sé með gilt dvalarleyfi á Spáni. Þá telji kærandi að um grundvallarmisskilning sé að ræða í ákvörðun Útlendingastofnunar. Í ákvörðuninni komi fram að ekki verði séð að fyrrum tengdafjölskylda kæranda stjórni marokkóska ríkinu eða svæða innan þess. Þá komi jafnframt fram í ákvörðuninni að kærandi geti leitað til marokkóskra stjórnvalda telji hann sig í hættu vegna fyrrum tengdafjölskyldu sinnar. Kærandi greindi frá því í viðtali við Útlendingastofnun að hann verði fyrir ofsóknum og fordómum í heimaríki sínu, Marokkó, sem hafi verið þess valdandi að hann og fjölskylda hans hafi flúið heimaríki og hafi þau komið sér fyrir á Spáni. Hafi það verið á Spáni sem fyrrum tengdafjölskylda kæranda hafi hótað honum og af þeirri ástæðu hafi hann flúið þaðan. Kærandi telji að umræddar röksemdir Útlendingastofnunar bendi til þess að fullnægjandi rannsókn á aðstæðum kæranda hafi ekki farið fram jafnframt sem vafi leiki á hvort fullur skilningur hafi verið á frásögn kæranda þegar ákvörðun var tekin í máli hans. Þá gerir kærandi athugasemd við að hann hafi ekki fengið túlk á því tungumáli sem hann hafi óskað eftir í viðtali við Útlendingastofnun. Geti það hafa orðið þess valdandi að frásögn hans hafi ekki komist nægjanlega til skila.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi ekki lagt fram gögn til að sanna á sér deili. Við meðferð máls kæranda hjá kærunefnd útlendingamála hefur kærandi heldur ekki lagt fram frekari gögn sem sanna á honum deili. Kærunefnd telur því óvíst hver hann sé en telur ekki ástæðu til þess að draga þjóðerni hans í efa. Því verður lagt til grundvallar að kærandi sé frá Marokkó.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Marokkó m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • World Report 2018 - Morocco/Western Sahara (Human Rights Watch, 18. janúar 2018);
  • Amnesty International Report 2017/18 - Morocco/Western Sahara (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
  • Mänskliga rättigheter, demokrati och rättsstatens principer i Marocko 2015–2016 (Utrikesdepartementet, 26. apríl 2017);
  • Morocco 2016 Human Rights Report (U.S. Department of State, mars 2017) og
  • Freedom in the World 2017 – Morocco (Freedom House, 12. júlí 2017).

 

Samkvæmt ofangreindum gögnum er Marokkó konungsríki með um 35 milljónir íbúa, þar sem konungurinn, Mohammed VI., fer með yfirstjórn landsins. Árið 1956 gerðist Marokkó aðili að Sameinuðu þjóðunum. Árið 1976 gerðist ríkið aðili að bæði alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Marokkó gerðist aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 1987 og samþykkti barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna árið 1990.

Samkvæmt ofangreindum skýrslum hafi staða berba (e. Berbers eða Amazigh) í Marokkó farið batnandi, en yfir helmingur marokkósku þjóðarinnar telji sig eiga uppruna sinn að rekja, a.m.k. að hluta, til berba. Íbúar margra fátækustu svæða ríkisins séu margir hverjir berbar og sé ólæsi á þeim svæðum mikið, eða um 80%. Þá sé grunnþjónusta á fjalllendum og vanþróuðum svæðum ríkisins ekki umfangsmikil. Samkvæmt skýrslum telji berbar að marokkósk stjórnvöld hafi virt vandamál þeirra að vettugi og hafa menningarhópar berba fullyrt að hefðir þeirra og tungumál hafi vikið fyrir arabísku og arabískum hefðum og venjum. Hins vegar er jafnframt ljóst af þeim skýrslum sem kærunefnd hefur kynnt sér að marokkósk stjórnvöld hafi ráðist í ýmsar aðgerðir til þess að bæta stöðu berba í landinu. Tungumál berba (e. Amazigh) sé til að mynda nú samkvæmt stjórnarskrá ríkisins opinbert tungumál í ríkinu ásamt arabísku sem sé ráðandi tungumál í landinu. Marokkóska ríkið sjái berbum fyrir sjónvarpsefni á þremur mállýskum Amazigh tungumálsins, bjóði upp á tungumálakennslu í um þriðjungi skóla ríkisins og hafi komið á fót áætlun til þess að bregðast við skorti á menntuðum kennurum í faginu.

Í ofangreindum gögnum kemur fram að löggæslunni í landinu sé dreift niður á nokkrar mismunandi stofnanir, þ. á m. ríkislögregluna sem sé undir yfirstjórn innanríkisráðuneytisins. Til staðar sé til að mynda embætti umboðsmanns, sem m.a. hafi sinnt sáttameðferðum í einkamálum og rannsóknum vegna kvartana sem beint hafi verið til hans vegna brota á grundvallarréttindum borgara landsins. Gögn kveði á um að mikil spilling fyrirfinnist í allri stjórnsýslu landsins. Þá gæti virðingarleysis gagnvart landslögum hjá öryggissveitum landsins. Dómskerfið eigi að vera sjálfstætt en í málum sem snerti öryggi ríkisins eða stjórnarfar þess eða önnur pólitísk mál kunni stjórnvöld að hafa óeðlileg áhrif á niðurstöðu mála. Ferðafrelsi sé tryggt í stjórnarskrá landsins og virði stjórnvöld almennt þann rétt.

 

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a.   ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c.   aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi byggir á því að hann eigi á hættu að verða fyrir fordómum og mismunun í Marokkó vegna þess að hann tilheyri þjóðarbroti berba í Marokkó. Þá kemur fram í greinargerð að kærandi óttist fjölskyldu fyrrverandi kærustu sinnar, en fjölskyldan sé búsett á Spáni.

Þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér gefa til kynna að einstaklingar af þjóðarbroti berba kunni að eiga á hættu einhverja mismunum í heimaríki kæranda af þeirri ástæðu að þeir tilheyri þjóðarbrotinu. Ekkert í þeim gögnum gefur þó til kynna að sú mismunum nái því marki að teljast ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna. Í gögnunum kemur einnig fram að miklar framfarir hafi orðið í Marokkó sem hafi styrkt stöðu berba í landinu. Þá hefur kærandi, að mati kærunefndar, ekki lýst neinu sem gæti talist til ofsókna gagnvart honum.

Ekkert í gögnum málsins gefur til kynna að fjölskylda fyrrum kærustu kæranda hafi hug á eða getu til að valda kæranda skaða í heimaríki.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og uppfylli því ekki skilyrði ákvæðisins fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 6. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal stjórnvald sem kemst að því að ákvæði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laganna eigi ekki við um útlending að eigin frumkvæði taka til skoðunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. sömu laga. Þrátt fyrir að orðalag 1. mgr. 74. gr. kveði ekki með skýrum hætti á um veitingu dvalarleyfis má skilja af athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga nr. 80/2016, fyrirsögn greinarinnar og af 6. mgr. 37. gr. laganna að það hafi þó verið ætlunin með ákvæðinu. Kærunefnd telur því rétt að túlka ákvæðið sem heimild til veitingar dvalarleyfis þegar skilyrði þess eru uppfyllt.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga má líta til mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í greinargerð kæranda heldur kærandi því fram að hann hafi afar takmörkuð tengsl við Marokkó og að hann hafi dvalið meirihluta ævi sinnar á Spáni með foreldrum sínum þar sem þau séu með dvalarleyfi. Verði kæranda gert að snúa aftur til Marokkó þar sem hann hafi orðið fyrir mikilli mismunun og ómannúðlegri meðferð verði það honum afar þungbært. Þá heldur kærandi því fram í greinargerð að hann óttist foreldra stúlku sem hann hafi átt í ástarsambandi við á Spáni. Hafi fjölskylda stúlkunnar haft í hótunum við kæranda og fjölskyldu hans, en kærandi hafi ekki leitað til lögreglu vegna ótta við fjölskyldu stúlkunnar. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur skoðað um aðstæður kæranda í heimaríki er ljóst að kærandi geti leitað til yfirvalda þar í landi óttist hann tilgreinda aðila. Þá er ekkert sem bendir til þess að stjórnvöld á Spáni geti ekki veitt honum viðeigandi vernd gegn þeirri hættu sem hann telur sig vera í þar gagnvart fjölskyldu fyrrverandi kærustu sinnar komi til þess að kærandi flytjist aftur til Spánar.

Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Í 5. mgr. 104. gr. útlendingalaga, þar sem fjallað er um framkvæmd ákvörðunar, kemur fram að ef útlendingur hefur gilda heimild til dvalar í öðru EES-eða EFTA-ríki skal hann fluttur þangað. Í greinargerð kæranda heldur hann því fram að hann sé með dvalarleyfi á Spáni. Í gögnum frá Útlendingastofnun sem bárust nefndinni er að finna ljósrit sem yfirvöld í Noregi hafi tekið af dvalarleyfisskírteini kæranda. Kveður dvalarleyfisskírteinið á um að kærandi sé með gilt dvalarleyfi á Spáni sem renni út þann 3. október 2019. Telur kærunefnd rétt að taka sérstaka afstöðu til þess hvort ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi í vegi fyrir því að kærandi verði fluttur til Spánar.

Við mat á aðstæðum á Spáni hefur kærunefnd tekið mið af þeim upplýsingum sem liggja fyrir um Spán og skoðaðar hafa verið vegna fyrri úrskurða kærunefndar vegna endursendinga einstaklinga til Spánar og fordæmi Mannréttindadómstóls Evrópu, sem hefur ítrekað í dómum sínum og ákvörðunum, sbr. t.d. í dómi í máli A.S. gegn Sviss (nr. 39350/13) frá 30. júní 2015 og í ákvörðun í máli Samsam Mohammed Hussein o.fl. gegn Hollandi og Ítalíu (nr. 27725/10) frá 2. apríl 2013, að ekki sé hægt að túlka 3. gr. mannréttindasáttmálans á þá vegu að krafa sé á aðildarríkjunum að sjá öllum einstaklingum innan lögsögu þeirra fyrir heimili. Meðal skýrslna sem kærunefnd hefur kynnt sér sérstaklega eru: Asylum Information Database. Country Report – Spain (European Council on Refugees and Exiles, mars 2018); Amnesty International Report 2017/18 (Amnesty International, 22. febrúar 2018) og Spain 2016 Human Rights Report (U.S. Department of State, mars 2017).

Kærandi heldur því fram að hann sé með gilt dvalarleyfi á Spáni. Hann hefur borið fyrir sig að hann óttist fyrrum tengdafjölskyldu sína sem sé búsett á Spáni. Þá hafi kærandi ekki þorað að leita til lögreglunnar á Spáni af ótta við að meðlimir fyrrum tengdafjölskyldu hans muni frétta af því. Samkvæmt þeim skýrslum sem kærunefnd hefur skoðað sé löggæslan á Spáni öflug og skilvirk. Spænska stjórnarskráin leggi bann við handahófskenndum handtökum og sé það á ábyrgð ríkisstjórnarinnar að lögum sé framfylgt með áhrifaríkum hætti. Þá fari innanríkisráðuneytið með yfirstjórn lögreglu, en einnig sé hægt að leggja fram kvörtun vegna brota lögregluþjóna í starfi til umboðsmanns (es. Defensor del Pueblo) sem hafi eftirlit með störfum lögreglunnar. Þegar aðstæður kæranda séu metnar í heild er það mat kærunefndar að aðstæður kæranda séu ekki þess eðlis að hætta sé á að endursending kæranda til Spánar brjóti í bága við 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands 16. nóvember 2017 og sótti um alþjóðlega vernd sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi er við ágæta heilsu. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 7 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið og er lagt fyrir kæranda að yfirgefa landið innan 7 daga frá birtingu úrskurðar þessa.

Kæranda er leiðbeint um í 5. mgr. 104. gr. laga um útlendinga segir að útlendingur skuli tilkynna Útlendingastofnun um fyrirhugaða brottför sína og leggja fram sönnun þess að hann hafi yfirgefið landið. Þar segir jafnframt að ef útlendingurinn fer ekki úr landi svo sem fyrir hann er lagt eða líkur eru á að hann muni ekki fara sjálfviljugur má lögregla færa hann úr landi. Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests er heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Kærandi skal yfirgefa landið innan 7 daga frá birtingu úrskurðar þessa.

Rannsóknarregla stjórnsýslulaga

Líkt og áður segir gerir kærandi athugasemd við rannsókn Útlendingastofnunar með vísan til rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi telur að ekki hafi farið fram einstaklingsbundið og sjálfstætt mat á aðstæðum kæranda í heimaríki.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því og afla í því skyni nauðsynlegra upplýsinga. Þá kemur fram í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga að Útlendingastofnun skuli afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga.

Að mati kærunefndar hefur ekkert komið fram í málinu sem bendir til þess að skort hafi á að nauðsynlegar og aðgengilegar upplýsingar um ástandið í heimaríki kæranda og aðstæður hans þar, fari hann aftur til heimaríkis, lægju fyrir við ákvörðunartöku hjá Útlendingastofnun eða að rannsókn þeirra hafi verið ábótavant að öðru leyti. Þá verður ekki annað séð en að Útlendingastofnun hafi rannsakað þau gögn og upplýsingar sem kærandi hefur lagt fram eða vísað til og þýðingu hafa fyrir málið. Í því sambandi er tekið fram að kærunefnd hefur yfirfarið þau gögn sem aflað var við rekstur málsins, svo og skýrslur opinberra stofnana, og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun. Það er því mat kærunefndar að málsmeðferð Útlendingastofnunar í máli kæranda hafi verið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga.

Athugasemd kæranda vegna túlkunar

Samkvæmt 2. mgr. 28. gr. laga um útlendinga skal túlkur vera viðstaddur viðtal nema umsækjandi afþakki sérstaklega slíka þjónustu. Í endurriti viðtals kæranda hjá Útlendingastofnun þann 18. janúar 2018 kemur fram að kærandi mótmæli því að hafa ekki fengið marokkóskan túlk en vilji ekki símtúlkun. Þar sem kærandi stóð til boða að fá annan túlk en afþakkaði það telur kærunefnd ekki tilefni til að gera athugasemd við framkvæmd viðtals hjá Útlendingastofnun.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

 

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

 

Anna Tryggvadóttir                                                                        Pétur Dam Leifsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta