Mál nr. 52/2022 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 52/2022
Miðvikudaginn 18. maí 2022
A
gegn
Sýslumanninum á B
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.
Með rafrænni kæru 24. janúar 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Sýslumannsins á B, dags. 21. janúar 2022, um að hafna kröfu kæranda um sérstakt framlag vegna gleraugnakaupa fyrir son hennar.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Með beiðni, dags. 21. janúar 2022, óskaði kærandi eftir úrskurði Sýslumannsins á B um sérstakt framlag vegna gleraugnakaupa sonar síns samkvæmt 20. gr. a. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Með úrskurði, dags. 21. janúar 2022, hafnaði Sýslumaðurinn á B beiðni kæranda með þeim rökum að hún hefði komið of seint fram þar sem meira en þrír mánuðir voru liðnir frá því að stofnað var til útgjaldanna.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 24. janúar 2022. Með bréfi, dags. 26. janúar 2022, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Sýslumannsins á B ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 31. janúar 2022, bárust gögn málsins frá Sýslumanninum á B en ekki var óskað eftir að koma að athugasemdum vegna kærunnar. Bréfið var sent kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru greinir kærandi frá því að hún hafi lagt fram kröfu um framlag vegna tiltekins reiknings eftir að frestur hafi runnið út, sem sé rétt, en ekkert tillit hafi verið tekið til aðstæðna hennar.
Maður kæranda hafi fallið frá X. september 2021 og reikningurinn sé dagsettur 10. september 2021. Það sé mat kæranda að það eitt og sér ætti að vera næg ástæða til að veita undanþágu frá þriggja mánaða frestinum. Á þessum stutta tíma eftir andlátið hafi verið nóg að gera varðandi jarðarför og öll almenn fjármál, svo að ekki sé talað um að reyna að hlúa að andlegri heilsu fjölskyldunnar. Við hafi svo tekið jólamánuðurinn sem hafi snúist um að fjölskyldan kæmist einhvern veginn í gegnum þann erfiða tíma.
Ekki sé hægt að ætlast til þess á svo erfiðum tímum að fólk hafi rænu á öllum mögulegum og ómögulegum hlutum. Ekki sé um háa fjárhæð að ræða í þessu máli og hún sé ekki meginástæða þess að kæra þessi sé lögð fram, heldur einkum vegna þess að kæranda finnist illa komið fram við syrgjandi manneskju og það valdi meiri andlegum skaða heldur en fjárhagslegum. Það sé mat kæranda að þetta sé algjört tillitsleysi og dónaskapur.
Í lokin sé bent á að það sé til skammar hversu stuttur þessi umsóknarfrestur sé. Farið sé fram á að þessum úrskurði verði snúið við.
III. Sjónarmið Sýslumannsins á B
Í hinum kærða úrskurði kemur meðal annars fram að með lögum nr. 128/2018, sem hafi tekið gildi 28. desember 2018, hafi verið gerðar breytingar á lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar. Við hafi bæst 20. gr. a. um „barnalífeyri vegna sérstakra útgjalda.“ Samkvæmt greininni sé hægt að beina til sýslumanns beiðni um sérstakt framlag vegna barns sem misst hafi annað foreldri sitt. Sýslumanni beri að úrskurða um kröfuna. Fyrir liggi að faðir barns sé látinn.
Samkvæmt 3. mgr. 20. gr. a. laga um almannatrygginar skal beiðni um framlag send sýslumanni innan þriggja mánaða frá því að svara varð til útgjalda, nema eðlileg ástæða hafi verið til að bíða með slíka kröfu. Samkvæmt framlögðum reikningi hafi gleraugu fyrir barnið verið keypt 10. september 2021 en beiðni móður hafi borist sýslumanni 21. janúar 2022, þ.e. rúmum fjórum mánuðum eftir að stofnað var til útgjaldanna. Þar af leiðandi sé krafan of seint fram komin.
Með vísan til framangreinds og tilvitnaðra lagaákvæða hafi kröfu móður um framlag samkvæmt 20. gr. a. laga um almannatryggingar verið hafnað.
IV. Niðurstaða
Mál þetta varðar úrskurð Sýslumannsins á B frá 21. janúar 2022 um að hafna kröfu kæranda um sérstakt framlag vegna gleraugnakaupa fyrir son hennar.
Um sérstakt framlag er fjallað í 20. gr. a. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Ákvæðið hljóðar svo:
„Tryggingastofnun ríkisins getur ákveðið sérstakt framlag vegna útgjalda við skírn barns, fermingu, gleraugnakaup, tannréttingar, vegna sjúkdóms, greftrunar eða af öðru sérstöku tilefni.
Framlag skv. 1. mgr. er einungis heimilt að greiða vegna barna sem greiddur er barnalífeyrir með skv. 20. gr. og annað hvort foreldra er látið, barn ófeðrað eða móður nýtur ekki við vegna sérstakra eða óvenjulegra aðstæðna.
Framlag skv. 1. mgr. verður aðeins ákveðið ef sýslumaður hefur úrskurðað um slíkt framlag samkvæmt beiðni sem honum skal send innan þriggja mánaða frá því að svara varð til útgjalda nema eðlileg ástæða hafi verið til að bíða með slíka kröfu.
Um viðmiðunarfjárhæðir vegna krafna um sérstök framlög gilda sömu reglur og um úrskurði vegna sérstakra útgjalda skv. 60. gr. barnalaga.“
Ágreiningur máls þessa lýtur að því hvort beiðni kæranda um úrskurð um sérstakt framlag hafi borist innan þeirra tímamarka sem fjallað er um í 3. mgr. 20. gr. a. laga um almannatryggingar. Sambærilegt tímamark er í 2. mgr. 60. gr. barnalaga nr. 76/2003 sem hljóðar svo:
„Framlag skv. 1. mgr. verður því aðeins úrskurðað að krafa um það sé uppi höfð við sýslumann innan þriggja mánaða frá því að svara varð til útgjalda nema eðlileg ástæða hafi verið til að bíða með slíka kröfu.“
Þar sem um sambærilegt ákvæði er að ræða, og sérstaklega er vísað til ákvæðis 60. gr. barnalaga í 4. mgr. 20. gr. a. laga um almannatryggingar, telur úrskurðarnefndin rétt, við túlkun á 3. mgr. 20. gr. a. laga um almannatryggingar, að líta til 2. mgr. 60. gr. barnalaga. Í athugasemdum við 60. gr. í frumvarpi til barnalaga er tekið sem dæmi um eðlilega ástæðu í skilningi ákvæðisins að ekki verði talið skylt að setja fram kröfu um framlag vegna tannréttinga, sem iðulega standi yfir í nokkurn tíma, innan þriggja mánaða frá því að hver einstök greiðsla hafi verið innt af hendi heldur geti verið eðlilegt að bíða með kröfu vegna slíkra aðgerða, allt þar til innan þriggja mánaða frá því að meðferð ljúki.
Samkvæmt gögnum málsins barst Sýslumanninum á B þann 21. janúar 2022 beiðni kæranda um úrskurð um sérstakt framlag vegna gleraugnakaupa fyrir son hennar. Fyrir liggur kvittun vegna gleraugnakaupa, dags. 10. september 2022. Liðu því rúmir fjórir mánuðir frá því að stofnað var til útgjalda þar til kærandi lagði fram beiðni til sýslumanns um sérstakt framlag vegna gleraugnakaupa. Því er ljóst að beiðni um úrskurð Sýslumannsins á B um sérstakt framlag var ekki send innan þriggja mánaða frá því að svara varð til útgjalda í skilningi 3. mgr. 20. gr. a laga um almannatryggingar.
Kemur þá til skoðunar hvort eðlileg ástæða hafi verið til að bíða með slíka kröfu. Kærandi gerir athugasemdir við að ekki hafi verið tekið tillit til sérstakra aðstæðna hennar í kjölfar andláts maka þann 7. september 2021 varðandi þriggja mánaða frest til að leggja fram kröfu um sérstakt framlag. Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur farið yfir athugasemdir kæranda en telur, með hliðsjón af áðurgreindum athugasemdum við 60. gr. barnalaga, að ekki hafi verið fyrir hendi eðlileg ástæða í skilningi 3. mgr. 20. gr. a. laga um almannatryggingar til að bíða með kröfuna. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur því að beiðni kæranda um sérstakt framlag vegna gleraugnakaupa fyrir son hennar hafi ekki verið lögð fram innan tilskilinna tímamarka samkvæmt 2. og 3. mgr. 20. gr. a. laga um almannatryggingar.
Að því virtu er úrskurður Sýslumannsins á B um að hafna beiðni kæranda um sérstakt framlag vegna gleraugnakaupa vegna sonar hennar staðfestur.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Úrskurður Sýslumannsins á B um að hafna kröfu A, um sérstakt framlag vegna gleraugnakaupa fyrir son hennar, er staðfestur.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir