Hoppa yfir valmynd

Nr. 443/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 443/2018

Fimmtudaginn 21. febrúar 2019

A

gegn

Sveitarfélaginu Skagafirði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 17. desember 2018, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Sveitarfélagsins Skagafjarðar, dags. 6. september 2018, á umsókn hennar um undanþágu frá tveggja ára búsetureglu vegna umsóknar um félagslegt leiguhúsnæði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 25. júlí 2018, sótti kærandi um undanþágu frá tveggja ára búsetureglu 5. gr. reglna um húsnæðismál í Sveitarfélaginu Skagafirði. Umsókn kæranda var synjað með bréfi félags- og tómstundanefndar, dags. 6. september 2018, með vísan til 6. liðar reglnanna.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 17. desember 2018. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Sveitarfélagsins Skagafjarðar ásamt gögnum málsins. Greinargerð sveitarfélagsins barst með bréfi, dags. 21. janúar 2019, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 25. janúar 2019. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún hafi sótt um félagslega leiguíbúð þar sem hún hafi ekki tök á að leigja á frjálsum markaði. Kærandi hafi komið til sveitarfélagsins í X 2018 eftir að hafa hrökklast úr leiguíbúð í öðru sveitarfélagi. Hún hafi flutt inn á [...] sem hafi leyft henni að vera hjá sér tímabundið í von um að hún fengi íbúð. Kærandi tekur fram að það henti [...] illa að hafa hana á heimilinu og það taki mjög á kæranda, bæði líkamlega og andlega, að eiga hvergi heima og sjá ekki fram á að eignast heimili. Kærandi telur höfnun sveitarfélagsins óásættanlega en hún viti dæmi þess að búið sé að úthluta íbúðum áður en fólk flytji á staðinn og það því ekki haft lögheimili í þessi tilteknu ár.

III.  Sjónarmið Sveitarfélagsins Skagafjarðar

Í greinargerð Sveitarfélagsins Skagafjarðar kemur fram að umsókn kæranda um undanþágu frá tveggja ára búsetureglu hafi verið synjað og henni bent á að leita ráðgjafar varðandi aðra möguleika. Kærandi hafi ekki óskað eftir slíkri ráðgjöf. Í 5. gr. reglna sveitarfélagsins komi meðal annars fram að heimilt sé að veita undanþágu frá búsetutíma í sveitarfélaginu við sérstakar aðstæður, til dæmis vegna áfalla, skyndilega breyttra aðstæðna eða sérstakra tengsla við ættingja eða aðra stuðningsaðila. Félags- og tómstundanefnd hafi metið það svo að í tilviki kæranda væru ekki forsendur fyrir undanþágu. Sveitarfélagið bendi á að kærandi virðist ekki hafa leitað úrlausna eða stuðnings í lögheimilissveitarfélagi sínu áður en hún hafi flutt lögheimili sitt á heimilisfang þar sem hún sé ekki búsett.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Sveitarfélagsins Skagafjarðar um að synja umsókn kæranda um undanþágu frá tveggja ára búsetureglu vegna umsóknar um félagslegt leiguhúsnæði.

Í IV. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga er að finna almenn ákvæði um rétt til félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga. Þar segir í 12. gr. að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Með íbúa sveitarfélags er í lögunum átt við hvern þann sem lögheimili á í viðkomandi sveitarfélagi, sbr. 13. gr. laganna. Samkvæmt 45. gr. laga nr. 40/1991 skulu sveitarstjórnir, eftir því sem kostur er og þörf er á, tryggja framboð af leiguhúsnæði, félagslegu kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna. Þá kemur fram í 46. gr. laganna að félagsmálanefndir skuli sjá til þess að veita þeim fjölskyldum og einstaklingum, sem ekki eru færir um það sjálfir, úrlausn í húsnæðismálum til að leysa úr bráðum vanda á meðan unnið er að varanlegri lausn.

Í 1. gr. reglna um húsnæðismál í Sveitarfélaginu Skagafirði kemur fram að stefnt sé að því að tryggja framboð af félagslegu leiguhúsnæði fyrir þær fjölskyldur og einstaklinga sem af félagslegum ástæðum séu ekki megnugir að sjá sér fyrir húsnæði á almennum markaði. Samkvæmt 3. gr. reglnanna leitast félagsþjónustan við að veita þeim fjölskyldum og einstaklingum, sem ekki séu færir um það sjálfir, úrlausn í húsnæðismálum til að leysa úr bráðum vanda á meðan unnið sé að varanlegri lausn. Það skuli jöfnum höndum gert með ráðgjöf og upplýsingum ásamt öðrum stuðningsúrræðum, til dæmis fjárhagsaðstoð samkvæmt reglum sveitarfélagsins, þegar við eigi. Í 5. gr. reglnanna er kveðið á um úthlutun félagslegra leiguíbúða, þar segir:

„Til að uppfylla ákvæði 1. gr. og til að vera metinn í þörf fyrir félagslega leigu sbr. 4. gr. þarf að liggja fyrir mat á því að umsækjandi hafi ekki getu til að kaupa eða leigja á almennum markaði. Hann þarf að vera orðinn 20 ára að aldri, eiga við félagslega erfiðleika að stríða t.d. vegna skertrar vinnugetu, heilsubrests, atvinnumissis, fjölskylduaðstæðna, barnafjölda eða annarra sérstakra aðstæðna, uppfylla skilyrði um tekju- og eignamörk skv. gildandi matsblaði/stigagjöf, sbr. 6. gr. og hafa átt lögheimili í Sveitarfélaginu Skagafirði s.l. 24 mánuði.“

Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. reglnanna getur félags- og tómstundanefnd veitt undanþágu frá ákvæði um aldursmörk, tekjumörk og búsetutíma í sveitarfélaginu við sérstakar aðstæður, til dæmis vegna áfalla, skyndilega breyttra aðstæðna eða sérstakra tengsla við ættingja eða aðra stuðningsaðila.

Óumdeilt er að kærandi uppfyllti ekki skilyrði þess að hafa átt lögheimili í sveitarfélaginu síðastliðna 24 mánuði áður en umsókn var móttekin. Af hálfu sveitarfélagsins hefur komið fram að ekki hefðu verið forsendur fyrir undanþágu frá ákvæði um búsetutíma. Ekki hefur verið nánar rökstutt af hálfu sveitarfélagsins hvernig aðstæður kæranda voru metnar, sérstaklega með tilliti til þeirra sjónarmiða sem fram koma í ákvæði 2. mgr. 5. gr. reglnanna. Þá er í gögnum málsins ekki að finna upplýsingar um aðstæður kæranda hvað þessi viðmið varðar.

Undanþáguákvæði 2. mgr. 5. gr. reglna um húsnæðismál í Sveitarfélaginu Skagafirði byggir á mati stjórnvalds og tilvísun til hennar veitir umsækjenda aðeins takmarkaða vitneskju um hvaða aðstæður leiddu til niðurstöðu máls. Af þeim sökum er nauðsynlegt að stjórnvald greini frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við matið, sbr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga hvílir sú skylda á stjórnvaldi að sjá til þess að eigin frumkvæði að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Markmið rannsóknarreglunnar er að tryggja að stjórnvaldsákvarðanir verði bæði löglegar og réttar. Að mati úrskurðarnefndarinnar liggur fyrir að aðstæður kæranda voru ekki rannsakaðar með fullnægjandi hætti, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, áður en ákvörðun var tekin um að synja umsókn kæranda. Getur úrskurðarnefndin því ekki lagt mat á það hvort sú ákvörðun hafi verið byggð á lögmætum sjónarmiðum. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar sveitarfélagsins.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sveitarfélagsins Skagafjarðar, dags. 6. september 2018, um synjun á umsókn A, um undanþágu frá tveggja ára búsetureglu vegna umsóknar um félagslegt leiguhúsnæði er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar sveitarfélagsins.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta