Hoppa yfir valmynd

Nr. 264/2018 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 14. júní 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 264/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18040021

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 9. apríl 2018 kærði […], fd. […], ríkisborgari Úkraínu (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 22. mars 2018, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 28. júní 2017. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 13. febrúar 2018 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 22. mars 2018, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 9. apríl 2018. Kærunefnd barst greinargerð kæranda ásamt fylgigögnum þann 20. apríl 2018.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Við meðferð máls kæranda hjá Útlendingastofnun byggði hann umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu vegna stjórnmálaskoðana sinna og heilbrigðisástæðna.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og að honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga. Með ákvörðuninni var kæranda veittur 10 daga frestur til að yfirgefa landið.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi greint frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að hann sé í hættu í heimaríki vegna stjórnmálaskoðana sinna. Þegar kærandi hafi unnið í dómsmálaráðuneyti Úkraínu hafi hann kynnst manni að nafni Serhiy Tihipko (e. Sergei Tihipko) sem hafi verið valdamikill áhrifamaður innan flokksins Silnaja Ukraina (e. Strong Ukraine). Kærandi hafi starfað sem hægri hönd Sergei, m.a. þegar sá síðarnefndi hafi verið ráðherra efnahagsmála. Árið 2011 hafi Sergei unnið að sameiningu flokksins við annan flokk að nafni Partija Region (e. Party of Regions). Hafi kærandi verið ósáttur við þá sameiningu og barist á móti Sergei, m.a. með því að neita að afhenda honum pappíra Silnaja-flokksins, en kærandi hafi haldið utan um pappíra flokksins. Í mars 2012 hafi vinur kæranda  greint honum frá því að Sergei og Viktor Yanukovych, þáverandi forseti Úkraínu, hafi talað um að taka kæranda úr umferð. Vegna framangreinds hafi kærandi flúið til Noregs í mars 2012. Í september 2012 hafi kærandi farið aftur til heimaríkis og haldið áfram baráttu sinni fyrir sjálfstæði Silnaja-flokksins og hafi sú barátta leitt til þess að hann hafi séð sig nauðbeygðan til að flýja til Danmerkur í apríl 2013.

Kærandi hafi síðan farið aftur til heimaríkis í júní 2014 þegar Viktor Yanukovych hafi hætt að gegna forsetaembætti. Þá hafi verið byrjað stríð í landinu og hafi Sergei sent út menn til að elta kæranda uppi. Kærandi hafi fljótlega eftir komuna til landsins tekið þátt í söfnun nauðþurfta fyrir fórnarlömb á átakasvæðum í austurhluta landsins. Þegar kærandi hafi verið staðsettur í Horlivka í Donetsk í ágúst 2014 hafi hann verið handtekinn af aðskilnaðarsinnum og haldið sem gísl í tvær vikur. Hafi maður að nafni Igor Bezler staðið að handtökunni og hafi tilgangur með handtökunni verið sá að fá kæranda til að koma opinberlega fram og lýsa því yfir að sameining Silnaja-flokksins og Partija Region hafi verið lögleg. Í gíslingunni hafi hann orðið fyrir alvarlegu ofbeldi og eftir að honum hafi verið sleppt hafi hann leitað til lögreglu en honum tjáð að svona hlutir gerðust í stríði. Í október 2014 hafi tvær tilraunir verið gerðar til að ráða hann af dögum. Hafi árásirnar átt sér stað í í móttökumiðstöðvum fyrir fórnarlömb stríðsátaka sem kærandi hafi átt þátt í að koma á fót. Kærandi hafi orðið hræddur um líf sitt og lagt á flótta í þriðja sinn. Þá kemur fram í greinargerð að kærandi hafi fengið fregnir af því að menn hafi farið að heimili fyrrverandi eiginkonu hans í ágúst og október 2017 og spurst fyrir um hann. Kærandi óttist að hann verði myrtur verði hann sendur aftur til heimaríkis. Ástæðan sé sú að nærvera hans í landinu komi sér mjög illa fyrir Sergei Tihipko.

Þá kemur fram í greinargerð að í viðtali hjá Útlendingastofnun hafi kærandi greint frá því að hann glími við heilsufarsvandamál sem rekja megi til kjarnorkuslyssins í Tjernobyl en vegna slyssins hafi skjaldkirtillinn verið fjarlægður úr honum. Þá hafi kærandi verið metinn með 3. stigs örorku árið 2008 og verið greindur með 2. stigs útbreiddan illkynja skjaldkirtilsauka. Í kjölfar þess að skjaldkirtillinn hafi verið fjarlægður hafi kærandi glímt við sálfræðileg og taugafræðileg vandamál. Hér á landi hafi kærandi verið greindur með áfallastreituröskun og fengið ávísuð lyf við því. Þá sé kærandi með lifrabólgu C.

Í greinargerð kæranda er umfjöllun um mótmæli í Úkraínu sem hafi hafist í nóvember 2013 og leitt til þess að Viktor Yanukovych, þáverandi forseti landsins, hafi verið hrakinn úr embætti. Hreyfingin sem hafi komið mótmælunum af stað hafi orðið til í kjölfar þess að ríkisstjórn Yanukovych hafi neitað að skrifa undir samstarfssamning við Evrópusambandið. Þá er í greinargerð almenn umfjöllun um ástand mannréttindamála, vísað er til alþjóðlegra skýrslna þar sem fram komi m.a. að barátta við spillingu í Úkraínu, einkum innan réttarkerfisins, hafi ekki skilað árangri. Þá séu tíðar húsleitir hjá fjölmiðlafyrirtækjum sem gagnrýni stefnu stjórnvalda og jafnframt eigi erlendir fjölmiðlamenn sem vogi sér að smána landið hættu á brottvísun frá landinu. Jafnframt er í greinargerð umfjöllun um heilbrigðiskerfið í Úkraínu. Kemur m.a. fram að stjórnarskrá landsins tryggi aðgang að heilbrigðiskerfinu en að almennir borgarar þurfi oft og tíðum að greiða sjálfir fyrir læknisþjónustu þar sem einungis helmingur kostnaðar sé greiddur úr ríkissjóði. Í greinargerð er einnig umfjöllum um ástand á átakasvæðum, svo sem í Donetsk og Luhansk. Vísað er í skýrslur ýmissa alþjóðastofnana og komi m.a. fram í þeim að erfitt sé fyrir mannréttindasamtök að athafna sig á þessum svæðum og þá sé jafnframt talið að úkraínsk stjórnvöld hafi ekki gripið til fullnægjandi aðgerða í því að sækja þá til saka sem beri ábyrgð á ofbeldi og misþyrmingum í tengslum við átökin.

Kærandi byggir aðalkröfu sína um alþjóðlega vernd á því að hann sæti ofsóknum vegna stjórnmálaskoðana sinna þar sem hann hafi verið á móti aðgerðum Tihipko og Yanukovych um að sameina Silnaja-flokkinn við Partija Region. Vísað er til þess að samkvæmt 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga teljist ofsóknir skv. 37. gr. laganna vera athafnir sem í eðli sínu, eða vegna þess að þær eru endurteknar, feli í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá geti ofsóknir m.a. falist í andlegu, líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi skv. a-lið 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, sem og einnig í löggjöf og aðgerðum stjórnvalda, lögreglu og dómstóla, sbr. b-lið ákvæðisins. Kærandi telji að ákvæði a-liðar 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga eigi við þar sem hann hafi orðið fyrir ofsóknum sem falli undir skilgreiningu ákvæðisins og jafnframt eigi b-liður ákvæðisins við vegna þess hvernig stjórnvöld hafi tekið á móti kvörtunum hans um ofsóknir. Vísar kærandi til skilgreiningar handbókar Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna á hugtakinu ofsóknir í skilningi 33. gr. flóttamannasamningsins og skilgreiningu á hugtakinu í ákvæðum 38. gr. laga um útlendinga. Kærandi telji að aðstæður hans falli undir þá skilgreiningu þar sem að honum hafi verið rænt. Jafnframt er í greinargerð vísað til skilgreiningar í ákvæði 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga á því hvaða aðilar það séu sem séu valdir að ofsóknum. Samkvæmt b-lið geti það verið hópar eða samtök sem stjórni ríkinu eða verulegum hluta þess. Telji kærandi að b-liður eigi við í hans tilfelli þar sem að Yanukovych og Tihipko séu hallir undir áhrif Rússa í landinu.

Til vara er gerð krafa um að kæranda verði veitt viðbótarvernd. Til stuðnings þeirri kröfu er vísað til þess sem fram hafi komið í viðtali við hann hjá Útlendingastofnun og það sem fram hafi komið í greinargerð um ástandið í Úkraínu. Þá er jafnframt vísað til þess sem fram kemur í frumvarpi til laga um útlendinga um skilyrði fyrir viðbótarvernd.

Jafnframt er bent á það í greinargerð að með hliðsjón af atvikum sé krafa um innri flutning kæranda í heimaríki hvorki raunhæf né sanngjörn. Kærandi hafi m.a. þurft að fela sig innan heimaríkis, honum hafi verið haldið sem gísl í Donetsk auk þess sem gerð hafi verið tilraun til að ráða hann af dögum.

Kærandi gerir þá kröfu til þrautavara að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið heimili veitingu dvalarleyfis á þeim grundvelli geti útlendingur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. vegna erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða vegna annarra atvika sem ekki megi með réttu gera honum að bera ábyrgð á. Kærandi vísar til greinargerðar með frumvarpi til laganna en þar komi fram að taka verði mið af svipuðum sjónarmiðum og gert sé við mat á öðrum ákvæðum kaflans s.s. almennra aðstæðna í heimalandi, þ. á m. hvort grundvallarmannréttindi séu nægilega tryggð. Heildarmat skuli fara fram á öllum þáttum máls áður en leyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða sé veitt. Kærandi telji að með hliðsjón af framangreindri umfjöllun um aðstæður hans, einkum heilsufarsvandamála, og yfirvöld í heimaríki þá séu skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga uppfyllt.

Að lokum eru í greinargerð kæranda gerðar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar í máli hans. Í ákvörðun stofnunarinnar sé rakið að kærandi hafi sótt um vernd í Danmörku í apríl 2013 og hafi hann tjáð Útlendingastofnun að hann hafi síðan óskað eftir því að vera sleppt frá Danmörku til Úkraínu. Rakið sé síðan í ákvörðuninni að samkvæmt gögnum frá dönskum yfirvöldum hafi honum verið synjað um vernd þar í landi og fluttur til heimaríkis. Því telji Útlendingastofnun að hann hafi ekki óskað eftir því að vera sleppt til heimaríkis og séu umrædd gögn síst til þess fallin að styrkja trúverðugleika hans. Mótmælir kærandi þessari túlkun Útlendingastofnunar og bendir á að hvernig hann orði hlutina í viðtali eigi ekki að hafa áhrif á mat á trúverðugleika hans. Þá komi jafnframt fram í ákvörðun Útlendingastofnunar að vegna þess að kærandi hafi ekki byggt umsókn um alþjóðlega vernd í Noregi á stjórnmálaástæðum þá rýri það trúverðugleika hans hér á landi. Kærandi bendir á að margvíslegar ástæður geta verið fyrir því að umsækjendur um alþjóðlega vernd minnist ekki á tiltekin atriði þegar umsóknir þeirra eru til meðferðar hjá stjórnvöldum. Í tilviki kæranda í Noregi þá hafi hann enn verið að melta tíðindi um að Yanukovych og Tihipko hafi viljað hann feigan og hann hafi verið mjög hræddur.

Kærandi vill einnig vekja athygli á því að þar sem að eldfimt ástand sé í heimaríki þá þori hann ekki að leita eftir aðstoð til að fá gögn sem hann hafi greint frá að innihaldi skaðlegar upplýsingar um stjórnmálamenn þar í landi. Þess vegna fylgi þau gögn ekki með greinargerð kæranda. Þá mótmælir kærandi niðurstöðu Útlendingastofnunar að landaupplýsingar heimaríkis hans sýni ekki að Tihipko hafi slík völd að kærandi geti ekki leitað aðstoðar yfirvalda þar í landi telji hann sig þurfa á því að halda. Kærandi vekur athygli á því að Tihipko sé tengdur Viktor Yanukovych sem nú búi í Rússlandi og bendi heimildir til þess að Rússar hafi mikil völd í Úkraínu og þá sé fyrrgreindur Tihipko enn í úkraínskum stjórnmálum.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað úkraínsku vegabréfi. Telur kærunefnd því ljóst að kærandi sé úkraínskur ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Úkraínu m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • Amnesty International Report 2017/2018: Ukraine (Amnesty International, 22. febrúar 2018),
  • Association Implementation Report on Ukraine (European Commission, 14. nóvember 2017),

  • Freedom in the World 2018 - Ukraine (Freedom House, 16. janúar 2018),
  • Country Information and Guidance – Ukraine: Background Information, including actors of protection and internal relocation (UK Home Office, ágúst 2016),
  • International Protection Considerations related to developments in Ukraine – Update III (UNHCR, 24. september 2015),
  • Mental Health in Transition – Assessment and Guidance for Strengthening Integration of Mental Health into Primary Health care and Community-Based Service Platforms in Ukraine (World Bank Group, 31. október 2017),
  • National Health Reform Strategy for Ukraine 2015-2020 (Ministry of Health of Ukraine, ágúst 2014),
  • Nations in Transit 2018 – Ukraine (Freedom House, 11. apríl 2018),
  • Progress Report on Access to Hepatitis C Treatment – Focus on Overcoming Barriers in Low- and Middle-Income Countries (World Health Organization, mars 2018),
  • Report by Nils Muižnieks Commissioner for Human Rights of the Council of Europe Following his visit to Ukraine from 21 to 25 March 2016 (Council of Europe, 11. júlí 2016),
  • Temanotat Ukraina. Domstolene – korrupsjon og manglende uavhengighet (Landinfo, 6. júlí 2015),
  • Ukraine: UNHCR Operational Update, September 2016 (UNHCR, 21. september 2016),
  • 2016 Annual Report of UHHRU (Ukrainian Hlesinki Human Rights Union, 2017),

  • Ukraine - Country Reports on Human Rights Practices for 2017 (U.S. Department of State, 20. apríl 2018),
  • Ukraine´s Health Sector – Sustaining Momentum Reform, (Center for Stategic & International Studies – Global Health Policy Center, ágúst 2017),
  • Ukraine: the new law on police and its effectiveness; recourse and state protection available to private citizens who have been the victims of criminal actions of police officers in Kiev (2014-January 2015) (Immigration and Refugee Board of Canada, 14. janúar 2016),
  • Upplýsingar af vef United States Agency for International Development (USAID) - https://www.usaid.gov/where-we-work/europe-and-eurasia/ukraine/global-health og
  • World Report 2018 – Ukraine (Human Rights Watch, 18. janúar 2018).

Úkraína er lýðræðisríki með um 44 milljónir íbúa og eru mannréttindi almennt virt af úkraínskum stjórnvöldum á þeim svæðum sem lúta stjórn þeirra. Úkraína gerðist aðili að Evrópuráðinu árið 1995 og fullgilti mannréttindasáttmála Evrópu árið 1997. Landið gerðist aðili að flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna 10. júní 2002, alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi 12. nóvember 1973 og samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu þann 24. febrúar 1987. Meirihluti íbúa landsins eru af úkraínskum uppruna eða um 78% en um 17% íbúa eru af rússneskum uppruna og 5% eru af hinum ýmsu þjóðarbrotum.

Í ofangreindum gögnum kemur m.a. fram að í nóvember 2013 hafi mótmæli, svokölluð Euromaidan-mótmælin, hafist í Kænugarði og öðrum borgum Úkraínu. Upphaflega var um friðsöm mótmæli að ræða en síðar áttu sér stað átök fylkinga óeirðalögreglu og mótmælenda sem leiddu til mannfalls. Leiddu mótmælin til þess að úkraínska þingið samþykkti í febrúar 2014 að víkja Viktor Yanukovych úr embætti forseta. Í kjölfar ofangreindra mótmæla og innlimunar Rússa á Krímskaga í mars 2014 brutust út átök á milli hersveita aðskilnaðarsinna og Úkraínuhers í austurhluta Úkraínu. Samið var um vopnahlé í september 2014 en það var ekki virt að fullu. Þrátt fyrir að átökin séu að mestu einangruð við Donetks og Luhansk í austurhluta Úkraínu þá hafa önnur svæði einnig orðið fyrir árásum og áhrif stríðsins eru margskonar. Áhrifin endurspeglist einkum í fjölda þess fólks sem hafi þurft að flýja heimili sín vegna átakanna en síðustu tölur benda til þess að um 1,7 milljón manna séu vegalausir innan Úkraínu og hafi takmarkaðan aðgang að heilbrigðisþjónustu, húsnæði og atvinnu. Benda gögnin til þess að stuðningur stjórnvalda við flóttafólk sé ófullnægjandi og að geta hjálparsamtaka til að veita aðstoð sé takmörkuð.

Innanríkisráðuneytið í Úkraínu ber ábyrgð á innra öryggi landsins og hefur eftirlit með lögreglu og öðrum lögregluyfirvöldum. Í landinu er auk þess starfrækt leyniþjónusta (SBU) sem hefur það hlutverk að tryggja öryggi ríkisins m.a. með því að sporna við hryðjuverkum. Í framangreindum gögnum segir að lögregluyfirvöld hafi verið sökuð um pyndingar og grimmilega meðferð á borgurum landsins, svo sem á einstaklingum í varðhaldi, í þeim tilgangi að þvinga fram játningu. Málin tengist aðallega átökunum í austurhluta landsins þar sem rússneskir aðskilnaðarsinnar hafa farið með völd síðan árið 2014.

Fram kemur að refsileysi vegna spillingar og brotalama í réttarvörslukerfinu sé umtalsvert vandamál í landinu, en yfirvöld hafi sjaldan gripið til aðgerða til að refsa vegna ofbeldis af hálfu löggæsluyfirvalda. Þá hafi mannréttindasamtök og Sameinuðu þjóðirnar orðið vör við brotalamir í rannsóknum á brotum löggæsluyfirvalda á mannréttindum, sér í lagi varðandi ásakanir um pyndingar og aðra vanvirðandi meðferð af hálfu SBU. Þetta vandamál hafi m.a. verið rakið til þess að embætti ríkissaksóknara hafi ekki verið viljugt til að rannsaka ofbeldi af hálfu lögreglu auk þess sem yfirvöld hafi ekki verið viljug til að rannsaka ásakanir um pyndingar.

Þá kemur fram að árið 2016 hafi umbætur verið gerðar í málefnum dómstóla en þrátt fyrir þær séu dómstólar landsins óskilvirkir og viðkvæmir fyrir pólitískum þrýstingi og spillingu. Fram kemur að úkraínska þingið og umboðsmaður mannréttinda hafi vald til þess að rannsaka brot í störfum lögregluyfirvalda. Greint er frá því að á fyrstu níu mánuðum ársins 2016 hafi yfirvöld hafið 133 sakamál gegn lögreglumönnum vegna brota í starfi. Málin hafi varðað ólögmætar handtökur og leitir, ólögmæta haldlagningu og þá hafi fimm mál tengst pyndingum. Málin hafi leitt til þess að 20 lögreglumenn hafi sætt viðurlögum og að 10 lögreglumönnum hafi verið vikið úr starfi. Undanfarin ár hafa staðið yfir umbætur á grunnstoðum lögreglunnar og árið 2016 voru útfærð ný lög um umbætur á sviði réttarvörslu, en lögin bíða staðfestingar frá forseta Úkraínu.

Í ofangreindum gögnum um aðstæður í Úkraínu kemur fram að öllum íbúum landsins sé tryggður réttur til heilbrigðisþjónustu samkvæmt stjórnarskrá ríkisins. Þrátt fyrir að heilbrigðisþjónustan skuli samkvæmt lögum vera gjaldfrjáls þá sé staðreyndin sú að í mörgum tilvikum þurfi sjúklingar að greiða sjálfir fyrir læknisskoðanir, meðferðir og lyf. Á síðustu árum hafi hins vegar verið ráðist í aðgerðir, m.a. með liðsinni alþjóðlegra stofnana, sem hafi verið ætlað að betrumbæta heilbrigðiskerfið í Úkraínu og hverfa frá kerfi sem m.a. hafi einkennst af brotalömum í aðgengi að heilbrigðisþjónustu, gæðum hennar og spillingu innan heilbrigðiskerfisins. Jafnframt hafi stjórnvöld unnið að því að efla lyfjamarkaðinn og aðgengi sjúklinga að lyfjum og meðferðum. Þá hafi lög um heilbrigðisþjónustu verið í endurskoðun undanfarin ár og hafi forseti Úkraínu skrifað undir lög í desember 2017 sem hafi það m.a. að markmiði að tryggja landsmönnum hágæða heilbrigðisþjónustu, einkum íbúum í dreifbýlisbyggðum landsins.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a.   ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c.   aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðsambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi hefur borið fyrir sig að hann sé í hættu í heimaríki sínu vegna stjórnmálaskoðana sinna þar sem hann hafi verið á móti sameiningu stjórnmálaflokkanna Silnaja Ukraine og Partija Region. Kærandi kveðst hafa verið frelsissviptur af aðskilnaðarsinnum á átakasvæði í austurhluta sem hafi reynt að láta kæranda koma fram í sjónvarpi með tilkynningu til stuðnings Viktor Yanukovych. Á meðan varðhaldinu hafi staðið hafi kærandi verið beittur alvarlegu líkamlegu ofbeldi og hafi þurft að leita á sjúkrahús eftir að honum hafi verið sleppt. Þá hafi tvisvar sinnum verið gerðar árásir á staði þar sem hann hafi átt að vera á og telji kærandi að tilgangurinn með þeim hafi verið að finna hann og drepa. Kærandi hefur byggt á því að þeir sem standi að baki ofsóknum á hendur sér séu Sergei Tihipko, formaður Silnaja-flokksins, og Viktor Yanukovych, fyrrverandi forseti Úkraínu. Þeir vilji losna við kæranda m.a. þar sem að hann hafi verið ósáttur við sameiningu fyrrgreindra stjórnmálaflokka og þá hafi hann undir höndum gögn Silnaja-flokksins sem innihaldi skaðlegar upplýsingar um stjórnmálamenn, einkum Sergei Tihipko. Kærandi kveður lögregluna ekki hafa hjálpað sér og hann óttist um líf sitt verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis.

Í fyrsta viðtali hjá Útlendingastofnun þann 4. júlí 2017 kvað kærandi að aðalástæða flótta frá heimaríki væri sú að hann gæti ekki fengið meðferð við veikindum sínum þar í landi og hann hefði ekki efni á því að fara til læknis þar sem hann væri kominn á eftirlaun. Önnur ástæða fyrir flótta væri sú að hann glímdi við ákveðna fötlun og eftirlaunin hans dygðu ekki fyrir meðferð og mat og þar af leiðandi þyrfti hann að reiða sig á aðstoð barna sinna. Í efnisviðtali hjá Útlendingastofnun þann 13. febrúar 2018 bar kærandi hins vegar fyrir sig að hann hafi lagt á flótta frá heimaríki þar sem hann sé í hættu þar vegna stjórnmálaskoðana sinna. Kærandi kvaðst hafa verið hægri hönd Sergei Tihipko, m.a. þegar Sergei hafi verið í ríkisstjórn, og þá hafi kærandi verið háttsettur í Silnaja-flokknum og m.a. séð um pappíra flokksins.

Kærandi hefur engin gögn lagt fram sem leggja grunn að staðhæfingum hans um að hafa verið hægri hönd Sergei Tihipko; verið háttsettur í Silnaja-flokknum; hafa lagt fram kæru til lögreglu vegna frelsissviptingar og ofbeldis í sinn garð eða gögn um önnur málsatvik sem kærandi heldur fram að feli í sér ofsóknir gegn honum. Þá hefur kærandi ekki lagt fram gögn eða raunhæfar skýringar á staðhæfingum sínum um að ofsóknir gegn honum séu gerðar að undirlagi Sergei Tihipko og Viktor Yanukovych. Í efnisviðtali hjá Útlendingastofnun var kærandi spurður um það hvort hann gæti lagt fram einhver gögn til grundvallar staðhæfingum um stöðu hans í úkraínskum stjórnmálum. Kærandi svaraði því að hann hafi lagt fram slík gögn þegar hann hafi sótt um vernd í Danmörku en hafi ekki fengið þau til baka þegar hann hafi farið aftur heim til heimaríkis. Aðspurður hvort hann hefði svipuð gögn undir höndum svaraði hann því að upplýsingar um stöðu hans í flokknum og fyrri störf væri hægt að finna á netinu. Talsmaður benti honum á að vegna tungumálsins gæti verið erfitt að finna slíkar upplýsingar. Kærandi kvaðst aðspurður ætla að reyna að finna heimasíður eða klippur af netinu þar sem það kæmi fram. Engin slík gögn voru lögð fram við málsmeðferð hjá Útlendingastofnun eða kærunefnd.

Eins og fram hefur komið byggir kærandi m.a. á því að hann verði fyrir ofsóknum af hálfu Sergei Tihipko þar sem að hann hafi verið á móti sameiningu Silnaja-flokksins og Partija Region-flokksins. Í viðtali hjá Útlendingastofnun hélt kærandi því fram að Silnaja-flokkurinn væri ekki til staðar í dag. Samkvæmt þeim upplýsingum sem kærunefnd hefur aflað var Silnaja-flokkurinn, undir forystu Sergei Tihipko, endurreistur 23. apríl 2014 og fékk einn þingmann kjörinn í alþingiskosningum í Úkraínu sama ár.

Í afriti af efnisviðtali við kæranda má sjá að hann hafi verið spurður að því hvort hann gæti lagt fram gögn til stuðnings frásögn sinni. Jafnframt má sjá að bókað var í viðtalinu að lögð hafi verið áhersla á það við kæranda að hann skyldi afla allra gagna sem hann hygðist leggja frá heimaríki sínu sem allra fyrst. Í ákvörðun Útlendingastofnunar má sjá að það er mat stofnunarinnar að frásögn kæranda sé ótrúverðug og hafi kærandi ekki getað stutt frásögn sína með neinum gögnum að öðru leyti en varðandi heilbrigðis- og fjárhagsástæður sínar. Af málsmeðferð og ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kærandi mátti honum því vera fullljóst um mikilvægi þess að leggja fram trúverðug og viðeigandi gögn sem lagt gætu grunn að málsástæðum hans. Kærandi hefur hins vegar ekki lagt slík gögn fram. Við málsmeðferð hjá kærunefnd voru lögð fram gögn sem þegar lágu fyrir við málsmeðferð hjá Útlendingastofnun, svo sem vottorð um læknismeðhöndlun frá heilbrigðisráðuneyti Úkraínu; ellilífeyrisskírteini; fæðingarvottorð og skilnaðarvottorð. Þá voru lögð fram tvö ný gögn, annars vegar afrit af fréttamiðli um heimild einstaklinga til að afla gagna frá heilbrigðisyfirvöldum og hins vegar frétt frá úkraínskum fréttamiðli varðandi Euromaidan-mótmælin. Það er mat kærunefndar að framangreind gögn leggi ekki grunn að þeim staðhæfingum sem umsókn hans um alþjóðlega vernd er reist á. Þá hefur kærunefnd ekki fundið upplýsingar um kæranda á netinu. Kærunefnd telur að að ekkert bendi til þess að för kæranda frá heimaríki hafi borið svo brátt að að ósanngjarnt sé að gera þá kröfu að hann aflaði gagna sem legðu grunn að málsástæðum hans. Kærunefnd telur að misræmi í frásögn kæranda varðandi þær ástæður fyrir flótta hans frá heimaríki er varða pólitíska þátttöku hans og ótta við tiltekna einstaklinga eða öfl innan heimaríkis kæranda, almennur óstöðugleiki frásagnarinnar og skortur á gögnum henni til stuðnings leiði til þess, heildstætt metið, að þessi þáttur hennar sé ótrúverðugur. Frásögn hans að þessu leyti verður því ekki lögð til grundvallar í málinu.

Með vísan til alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Í ljósi þess sem að framan er rakið, m.a. um að frásögn kæranda hafi verið metin ótrúverðug, og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki hans telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 6. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal stjórnvald sem kemst að því að ákvæði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laganna eigi ekki við um útlending að eigin frumkvæði taka til skoðunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. sömu laga. Þrátt fyrir að orðalag 1. mgr. 74. gr. kveði ekki með skýrum hætti á um veitingu dvalarleyfis má skilja af athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga nr. 80/2016, fyrirsögn greinarinnar og af 6. mgr. 37. gr. laganna að það hafi þó verið ætlunin með ákvæðinu. Kærunefnd telur því rétt að túlka ákvæðið sem heimild til veitingar dvalarleyfis þegar skilyrði þess eru uppfyllt.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga má líta til mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Þá kemur fram í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunna að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.

Kærandi hefur m.a. byggt á því að hann glími við heilsufarsvandamál sem rekja megi til kjarnorkuslyssins í Tjernobyl en vegna slyssins hafi skjaldkirtillinn verið fjarlægður úr honum. Í kjölfar þess að skjaldkirtillinn hafi verið fjarlægður hafi kærandi glímt við sálfræðileg og taugafræðileg vandamál og þurfi jafnframt að taka inn hormónalyf. Þá sé kærandi með lifrabólgu C. Til stuðnings framangreindu lagði kærandi fram afrit af læknisfræðilegum gögnum frá heimaríki. Í viðtali hjá Útlendingastofnun lagði kærandi fram skjal sem hann kvað tengjast örorku hans og aðgerð þar sem skjaldkirtillinn hafi verið fjarlægður. Staðfesti kærandi í viðtalinu að hann hafi fengið endurhæfingu í heimaríki vegna heilsufarskvilla sinna.

Í samskiptaseðli Göngudeildar sóttvarna, dags. 11. júlí 2017, kemur fram að kærandi hafi verið greindur með lifrabólgu C í Sviss og fengið meðferð við sjúkdómnum. Þá kemur fram í viðtali við kæranda að þegar hann hafi komið til heimaríkis frá Sviss árið 2016 hafi hann þurft að fela sig og ekki getað unnið. Í kjölfarið hafi líðan hans versnað sem hafi leitt til þess að hormónastarfsemi í líkama hans hafi breyst og honum liðið mjög illa andlega. Þegar kærandi hafi leitað á spítala með heilsufarsvandamál sín hafi honum verið sagt að það væru ekki til lyf og að hann þyrfti að kaupa þau sjálfur. Kærandi hafi ekki átt nægan pening og hafi þurft að biðja börn sín um aðstoð. Þess vegna hafi hann ákveðið að hann myndi fara til Íslands og biðja um alþjóðlega vernd, læra tungumálið og reyna að finna vinnu.

Í greinargerð kæranda kemur fram að sjá megi færslu frá 22. ágúst sl. að læknir á Göngudeild sóttvarna hafi greint kæranda með áfallastreituröskun. Umrædd færsla er skráð á samskiptaseðil Göngudeildar sóttvarna, sem fylgdi með gögnum málsins til kærunefndar, af yfirlækni Göngudeildar sóttarvarnar þann 22. ágúst sl. Þegar færslan er skoðuð má sjá að kærandi hafi tjáð yfirlækni að hann hafi verið greindur með áfallastreituröskun í heimaríki en ekki fengið meðferð þar. Í annarri færslu sama læknis, skráð sama dag, má sjá athugasemd þess efnis að kærandi sé með áfallastreituröskun, án þess að greining virðist liggja fyrir. Hins vegar kemur fram á samskiptaseðlum að kærandi hafi farið í fjögur viðtöl til sálfræðings á Göngudeild sóttvarna, hið fyrsta í 4. september sl. og síðasta 15. janúar sl. Fram kemur í færslum sálfræðingsins að unnið hafi m.a. verið í því að veita kæranda stuðning og vinna með fortíðina. Þá kemur fram í færslu sálfræðingsins frá 15. janúar sl. að kærandi hafi vaxið og blómstrað frá því að hann hafi komið fyrst. Ekki voru lögð fram frekari læknisfræðileg gögn sem varpað geta frekara ljósi á andlegt ástand kæranda.

Í ofangreindum gögnum um heilbrigðisaðstæður í Úkraínu kemur fram að það hafi allir rétt á heilbrigðisþjónustu, þar á meðal geðheilbrigðisþjónustu. Þá hafi stjórnvöld gert átak í því undanfarin ár að betrumbæta aðgengi landsmanna að lyfjum og heilbrigðisþjónustu, meðal annars með heildarendurskoðun á heilbrigðislöggjöfinni. Þá ber frásögn kæranda með sér að mörgu leyti að hann hafi fengið meðferð við heilsufarsvandamálum sínum og fengið aðstoð börnum sínum við að kaupa lyf. Kærandi er ekki í meðferð hér á landi sem læknisfræðilega óforsvaranlegt er að rjúfa. Með vísan til þess sem fram hefur komið í gögnum málsins og ofangreindum gögnum um heilbrigðisaðstæður í Úkraínu og á grundvelli heildstæðs mats á aðstæðum hans telur kærunefnd að kærandi geti fengið aðstoð í heimaríki sem og aðgang að meðferðum og lyfjum sem hann þurfi á að halda vegna heilsufarsvandamála sinna, leiti hann eftir því.

Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands og sótti um alþjóðlega vernd þann 28. júní 2017. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi kemur frá öruggu upprunaríki. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 15 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests kann að vera heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

 

The Decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 15 days to leave the country voluntarily.

 

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

 

Erna Kristín Blöndal                                                                       Þorbjörg Inga Jónsdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta